Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Einn af hlýjustu aprílmánuðum

Það er ekki hægt að segja annað en þessi einkennilegi apríl endi á  ótrúlegan hátt. Nú er heilmikill snjór í Reykjavík og þar er dagurinn kaldasti dagur mánaðarins. Meðalhiti dagsins er undir einu stigi sem er þó í sjálfu sér ekki slæmt sem kaldasti dagur heils aprílmánaðar. Á Raufarhöfn var þetta hins vegar hlýjasti dagur mánaðarins með meðalhita í kringum ellefu stig sem væri ágætur hásumardagur hvar sem er á landinu. Á Seyðisfirði var 18 stiga hámarkshiti.  

Má þetta allt furðu gegna. 

Hvernig sem menn vilja dæma þennan mánuð á höfuðborgarsvæðinu er hann eigi að síður í röð með allra hlýjustu aprílmánuðum á landinu. Og alls staðar vel yfir meðallagi. Að mínu bráðbirgðatali er hann svipaður að hita og 1955. Hann er sem sagt eitthvað í kringum sjöundi eða áttundi hlýjasti apríl. En þarna í röðinni munar litlu á mánuðum og talan fyrir þennan apríl er ekki viss. Ekki má því taka þetta of hátíðlega. Samt alltaf gaman að spá í sögulega viðburði og ég þori reyndar næstum því að hengja mig upp á það að mánuðurinn er í það minnsta meðal tíu hlýjustu aprílmánaða á landinu sem hér má lesa um.

Hann er fyrst og fremst hlýr austan og norðan til á landinu, líklega yfir 6 stig í Hornafirði og um 5,6 stig á Akureyri. Þetta virðist jafnvel vera næst hlýjasti apríl bæði á Teigarhorni og í Grímsey.

Úrkoman í Reykjavík er sú næst mesta sem mæld hefur verið í apríl en metið er 149,9 mm árið 1921. Í dag hefur verið mikil úrkoma en hún telst til 1. maí. Annars væri komið nýtt úrkomumet.

Loftþrýstingur er líklega með því allra lægsta sem mælst hefur í apríl. 

Já og var svo ekki helvítis rok alla daga?

Gaman verður að sjá lokauppgjörið fyrir þennan furðulega mánuð.  

Í fyrrmálið verður líklega alhvít jörð í Reykjavík. Það hefur ekki gerst í maí síðan árið 1993. Mest snjódýpt í borginni í maí er 17 cm frá þeim fyrsta 1987. Það væri óskemmtilegt ef það met verður slegið.  Og hvað verður þá um blessuð blómin og börnin?
 
En er annars ekki hitabylgja handað við hornið - eins og hamingjan!
 
Fylgiskjalið sýnir örfáa af leyndardómum þessa mánaðar! 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þjóðin kemur upp um sljóa náttúruvitund sína

Þó veðurfræðingur segi að apríl hafi verið í heitari kantinum og langt sé frá að hann hafi verið sérstaklega kaldur mun það líklega engu breyta um það hvernig margir  tala um þessa vorkomu á fréttastofum, í fjölmiðladálkum, bloggi og á fasbókarsíðum. 

Þar er hreinlega látið sem ekkert bóli á vorinu og vetrarveður hafi nánast ríkt allan apríl. Fréttamenn RÚV spyrja jafnvel veðurfræðinga mjög leiðandi spuninga, svo sem ''fer nú ekki að  vora'' og þar fram eftir götunum. 

Í morgun var alauð jörð á nánast öllum mönnuðum veðurstöðvum og það var hvergi alhvítt. Minnsti hiti í Reykjavík það sem af er apríl er nærri meti. Sólskin er nálægt meðallagi í  borginni.  Meðaltal mesta dagshita á landinu er farið að slaga upp í það hæsta sem þekkist. Margt fleira mætti nefna. 

En það hefur reyndar  verið votviðra- og vindasamt.

Ekki ætlast ég til að allir hafi áhuga á veðri. En það er mjög einkennilegt að fólk sem hefur þó búið í landinu alla sína tíð og lifað marga aprílmánuði skuli ekki bara telja sér trú um að ekkert hafi vorað heldur emji beinlínis hástöfum yfir því.

Einkennilegast er þó að fólk skuli ekki sjá vorið með sínum eigin augum.

Nokkuð stór tré blasa við úr stofuglugganum mínum þar sem ég hef búið í nær  aldarfjórðung.  Fjarlægðin í þau úr glugganum er umtalsverð. Eigi að síður sést úr  glugganum mjög greinilega að trén eru farin að laufgast heilmikið og meira en oftast á þessum árstíma. Litlir runnar hér í  garðinum segja sömu sögu. Þeir eru orðin algrænir að sjá úr margra metra fjarlægð.

Samt er fólk að spyrja hvort fari ekki að vora bráðum. Það virðist  vera gersamlega blint á  teikn    náttúrunnar.  

Umhverfisást er nú mjög í tísku. Allir þykjast bera einstaka umhyggju  fyrir umhverfinu og  hafa  til dæmis voðalegar áhyggjur af veðurfarsbreytingum af mannavöldum. 

Múgsefjun þjóðarinnar gegn þessu merkilega vori sem nú lætur allt blómstra löngu fyrir tímann kemur illIlega upp um hana. Hún sýnir ekki umhverfisvitund af neinu tagi. Hún  vitnar  þvert á móti um umhverfissljóleika af hæstu gráðu.

Þjóðin sér ekki einu sinni vorið þegar það kemur með látum. Veðráttan er þó mest áberandi umhverfisþátturinn. Það má nærri geta að þeir sem skynja hana ekki skynji nú ekki sérlega mikið af öðru umhverfi til að festa ást sína á! 

Því miður geri ég ekki ráð fyrir að þessi frétt með uppljóstrun Trausta Jónssonar um nokkrar veðurstaðreyndir breyti miklu. 

Margt fólk mun halda áfram að heimta vor þangað til ísköld norðanáttin steypist yfir landið með stórhríð  fyrir norðan en skellibjörtu sólskini  fyrir sunnan og  næturkulda sem mun  drepa allan  gróður!

En þá munu fréttamenn, fjölmiðlapennar, bloggarar og fasbókarar hrópa upp yfir sig af  veðurgleði og ósvikinni náttúrverndarást: 

Loksins! Loksins! Vorið er komið! 

 


mbl.is Apríl alls ekki svo kaldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Býsna vor

Þetta hefur verið undarlegur apríl. Hitinn er vel yfir meðallagi, um tvö stig  í Reykjavík. Fyrir norðan og austan er hitinn 4-5 stigum yfir meðallagi. Í Hornafirði stefnir mánuðurinn á  verðlaunapallinn í hitanum. Samt er fólk að tala um að vorið hafi stöðvast eða að ekkert vori yfirleitt.  Hvergi hefur þó verið neinn harðindabragur á veðráttunni miðað við það sem oft gerist í apríl. Enginn dagur hefur enn verið undir frostmarki að meðaltali í Reykjavík og ekki heldur á Akureyri. Það er nú  bara ansi gott. 

Alhvítir dagar í Reykjavík eru að meðaltali  fjórir í apríl. Nú hefur einn dagur verið talinn alhvítur en það var aðeins grátt í rót. Þrír aðrir morgnar hafa verið flekkóttir af snjó. Fyrir norðan er svipaða eða betri sögu að segja. Fyrir vestan hefur nokkur snjór verið allra síðustu daga. En jafnvel í  alræmdustu snjóasveitum fyrir norðan hefur verið og er enn lítill sem enginn snjór í þessum mánuði.

Brum á runnum er farið að opna sig í Reykjavík og túnið við Stjórnarráðið er að verða algrænt.

Hvað sem hver segir er vorið í fullum gangi! 

En það er samt nokkuð hryssingslegt á suðvesturlandi og  það finnur fólk. Hitinn  í bænum síðustu daga hefur líka verð einhvers staðar þar sem alveg eins getur snjóað eins og rignt. En þetta eru engir kuldar og snjór nær ekki að festast neitt. 

Sólskin hefur líka verið alveg eðlilega mikið hingað til í Reykjavík, mjög um meðallag. En Ísland er svo sem ekkert sólskinsland.

Úrkoman er hins vegar æði mikil. Aðeins einn dagur hefur hingað til verið þurr í Reykjavík. Og úrkoman þar er nú þegar komin 33 % fram yfir meðalúrkomu alls aprílmánaðar. Á Hjarðarlandi í Biskupstungum er úrkoman hins vegar orðin um það bil tvöföld miðað við meðallag þar síðustu 20 árin eða svo. 

Ekki er útlit fyrir neitt fjandans páskahret. Eftir morgundaginn fer aftur að hlýna. En það rignir vísast áfram eins og veðurguðirnir eigi lífið að leysa. 

En þegar svo um hægist og þessum umhleypingum linnir og sólin lætur sjá sig í kyrru og sæmilega hlýju veðri kemur vorið ansi vel undirbúið til leiks. 

Í annálum framtíðarinnar mun sagt verða um 2011: Voraði vel það árið en kenjar allmiklar í veðuráttu og krankleiki ýmisligur var í mönnum og fénaði. Var það vor því býsnavor kallað. Og hrukku þá sumir upp af standinum en aðrir ruku úr landi.    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ekki vetrarveður þó hvessi

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var talað fullum fetum um að vetrarveður það sem nú á að  vera hafi komið fólki á óvart. Á bloggsíðum og fasbókarsíðum tala margir um hret og jafnvel að páskahretið ætli að verða langt í ár. Menn vilja meina að nú láti vorið bíða eftir sér. Í fyrradag var þó tutugu stiga hiti í Vopnafirði!

Að mínum dómi er bara ekkert vorhret núna og því um síður páskahret. Það var ansi hvasst í gær og veðrið verður blautt og rysjótt næstu daga með ónota hryðjum sunnanlands og vestan. En ég kalla það ekki alvöru hret. Ekki má heldur gleyma því að fyrir norðan og austan er fínasta veður. Mjög lítill snjór er líka á landinu, jafnvel upp á heiðar,  þó hann aukist kannski næstu daga.

Hvassvirði í apríl af suðvestri jafngildir ekki vetrarveðri eða hreti. Hiti hefur reyndar verið langt yfir meðallagi árstímans allan mánuðinn og hann er enn yfir því. Páll Bergþórsson gerir ráð fyrir því  á fasbókarsíðu sinni að hann verði rétt aðeins undir meðallagi  hlýindatímabilsins 1931-1960 í Stykkishólmi næstu níu daga.

Það gerir eflaust él og snjókomu á heiðum og fjöllum en á láglendi er varla gert ráð fyrir að frjósi  næstu daga þó úrkoma verði talsverð og hryssingur og þessi leiðinlegu haglél. Um miðjan mánuð má slá því föstu að meðalhtinn verði enn vel yfir meðallagi á landinu. Á laugardaginn er hins vegar spáð ansi ískyggilegu veðri, snjókomu og frosti víða. En það veður er ekki komið og kemur kannski ekki. 

En það veður sem hefur þegar sýnt sig í apríl, þrátt fyrir illvirðrið í gær, er  niður við jörð  varla hægt að kalla vetrarveður hvað sem síðar verur. Ég veit ekki við hverju fólk býst snemma í apríl. Varla því að ekki megi gera ráð fyrir því  að komi kuldaköst fyrr en að hausti. Stundum koma reyndar engin kuldaköst að heitið getið í öllum apríl en það er þó alvanalegt að alveg til loka hans komi norðanskot með frosti um allt land og snjókomu á öllum norðurhelmingi landsins. Og jafnvel alveg fram í maí eða lengur.Það eru alvöru vorhretin að mínum dómi.

Hvassviðri af suðvestri með hryðjum en frostlausu veðri jafnast engan vegin á við slík alvöruhret þó ekki séu þau sérlega yndisleg. 

Alltaf hefur mér leiðst þetta hugtak páskahret. Vegna þess hve hret eru  algeng frameftir öllu vori finnst mér út í hött að tengja þau páskum sérstaklega. En  það er kannski vit í þessu hugtaki út frá félagslegum forsendum vegna útivistar og þess háttar.  

Til þess að menn viti hvað ég á við með alvöru aprílhretum eru hér birt nokkur gömul kort með þeim  þennan mánaðardag. Þetta er bara sýnishorn.  Og svona dagar geta komið allan apríl. Menn beri  svo kortin saman við efsta kortið sem er frá hádegi í dag. Svo er þarna loks bónuskort frá  einum yndisfríðum júnídegi! 

Vorið er í fullum gangi þó rysjótt sé. Þökkum fyrir að ekki séu vorharðindi.

kl12.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

1951-04-11_12.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

1975-04-11_12.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

1976-04-11_12.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

1984-04-11_12.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

2001-04-11_12.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 1975-06-02_12.gif

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Já, tuttugu stig á Vopnafirði

Í dag komst hitinn á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði upp í 20,2 stig. Það er fyrsta dagsetning að vori sem hiti á Íslandi fer upp í tuttugu stig á kvikasilfursmæli. Hins vegar fór hitinn á sjálfvirkum mæli á Neskaupstað í 21,2 stig þ. 3. apríl árið 2007 en hvergi mældust 20 stig í þeirri hlýindagusu á kvikasilfursmæli. 

Hitastigið á Skjaldþingsstöðum er náttúrlega dagsmet fyrir landið og það gamla, á sama stað, var lásí 15,8 stig árið 2003.  

Ekki er þetta þó mesti hiti sem mælst hefur í apríl öllum  á Vopnafirði. Í kauptúninu mældust 20,4 stig þ. 26. árið 1984 en á Skjaldþingsstöðum 20,6 stig þ. 18. árið 2003.

Á Akureyri var sett í dag dagsmet fyrir hámarkshita, 15,6 stig, en gamla dagsmetið var aðeins 12,0 stig frá 2003, það lægsta á öllum dögum mánaðarins. En miklu meiri hiti, 16,9 stig, mældist á Akureyri þ. 3. 2003.

Það er hins vegar möguleiki á því að meðalhitinn á Akureyri verði sá hæsti sem mælst hefur svo snemma árs og slái þar með út  3. apríl 2003! En við sjáum hvað setur. Þykktin yfir Keflavík var á hádegi 5467 metrar en kringum 5520 á  norðausturlandi.   

Ég segi  skilyrðislaust já við svona veðri en þvert nei við norðanátt og kulda!

Viðbót. Jú, meðalhitinn á Akureyri náði 12 stigum og hefur aldrei verið jafn hár svo snemma vors. Meðalhitinn í Reykjavík er reyndar líka dagsmet en fyrr í árinu hefur þó mælst meiri meðalhiti. 

Meðal annarra orða:  Af hverju bloggar Einar Sveinbjörnsson ekki? Ekkert komið í tvo mánuði.

Og í sem fæstum orðum: Mikið  er pirrandi að á vef Veðustofunnar fyrir lágmarkshita láglendisstöðva séu teknar með einhverjar skollans heiðastöðvar þar sem ekkert lifandi þrífst, Klettsháls, Miklidalur, Þröskuldar, Gemlufallsheiði.  Það tekur svo óratíma að leita að lágmörkum á einhverjum vitibornum stöðvum. Þessar stöðvar ættu bara að vera í flokki með hálendisstöðvum og óbyggðum þó þær séu kannski undir 400 m hæð.     

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvernig verður apríl

Mér finnst alltaf 1. apríl vera fyrsti dagur vorsins þó ekki sé nú alltaf komið vorveður. Þegar jörð er orðin auð og komið fram í aprílmánuð finnst mér náttúran vera búinn að gera vorhreingerningarnar. 

Hvað finnst mönnum um þetta nýja myndform sem komið er á veðurfréttir sjónvarpsins? Þarna er kort af landinu með landslagi í dýpt. Kannski verður einhvern tíma sýnt hvernig það virkar á veðrið á sérstökum stöðum í sérstöku veðurlagi. Gaman að sjá ástandið í Ameríku þó sárlega sakni ég Eureka og Alerts á Kanadaeyjunum! Þar vilja vorharðindi oft verða í harðara lagi!

En við fylgjumst með apríl hér í fylgiskjalinu. 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mars

Meðalhitinn í mars er nú tvö stig undir meðallagi 1961 til 1990 í Reykjavík en kringum eitt stig á Akureyri og líklega svipað og það á öllu landinu. Mildara er austantil heldur enn annars staðar. Á Höfn í Hornafirði virðist meðalhitinn vera yfir meðallagi.

Þetta eru auðvitað ekkert sérstakir kuldar, ekki einu sinni þó miðað sé við hlýindatímabil. Mars 2001 var svipaður að hita á landinu og það sem af er þessum, en febrúar 2002 var meira en þrjú stig undir meðallagi.  Ég tel hann 15. kaldasta febrúar síðan 1866 og kaldasta mánuð á landinu eftir mars 1979. Síðustu tuttugu ár, sérstaklega síðustu tíu ár, hefur þó ríkt hlýindatímabil eins og allir vita. En hlýindatímabil eru engin trygging fyrir því að kuldamánuðir komi ekki innan um hlýju mánuðina. Þeir eru þó alltaf jafn ónotalegir. 

Þessi vetur hefur verið mildur þangað til nú í mars. Og við erum góðu vön síðustu ár. Þess vegna finnst okkur það nokkur viðbrigði að upplifa fremur kaldan og leiðinlegan síðasta hluta vetrarins. En við slíku má samt alltaf búast meðan enn er þó vetur. Við getum þó huggað okkur við það að þegar þessi kuldahrina gengur yfir, sem mun vonandi gerast innan ekki mjög langs tíma, er ekki líklegt að við upplifum kulda og snjóa dögum saman fyrr en næsta haust. En það er samt möguleiki. 

Árin kringum 1950 voru á hlýindaskeiðinu fyrra á tuttugustu öld þó ekki væru þau ár hlýjasti hluti þess. Eigi að síður komu þá á fimm árum þrír af allra köldustu aprílmánuðum, 1949, 1951 og 1953. Tveir þeirra, 1949 og 1951, eru á topp tíu listanum mínum yfir köldustu aprílmánuði á landinu frá 1866 og 1953 er mjög skammt undan. Allir þessir mánuðir voru afar líkir að hita og voru í kringum frostmark í Reykjavík og tæp þrjú stig undir meðallaginu 1961 til 1990 á landinu.  Þeir  voru  allir  ígildi meðal janúnarmánuðar hvað kulda snertir.

Alhvítir dagar það sem af er mars í Reykjavík eru nú taldir vera 15. Þeir  verða kannski fleiri og hugsanlega fleiri en í öðrum mánuðum frá aldamótum.

Fylgiskjalið fylgist með þessu eins og fyrri daginn á blaði eitt og tvö.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýr febrúar

Febrúar sem var að líða var kringum tvö stig yfir meðallagi á landinu. Það nægir honum samt ekki nema líklega í 15. sæti yfir hlýjustu febrúar frá 1866. Það er samt ágætt.

Nú er mars byrjaður og áfram verður hægt að fylgjast með þróun mála í fylgiskjalinu, blaði eitt fyrir Reykajvik og landið, blaði tvö fyrir Akureyri. Munið að skrolla ef með þarf!

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Glúrinn febrúar

Það hefur ræst úr þessum febrúar. Hann byrjaði með látum, éljagangi suðvestanlands og kulda. En eftir fyrstu vikuna hefur verið hlýtt og gott veður. Meðalhitinn er 1,8 stig yfir meðallagi í Reykjavík en kringum 1,2 yfir því á Akureyri. Í gær var dagshámarkshitamet jafnað í Reykjavík, 9,1 stig.

Snjólítið er á landinu. Á suðurlandi er að mestu auð jörð og þangað til í fyrradag var líka víða alauð jörð fyrir norðan.

Samkvæmt spám er líklegt að meðalhitinn haldi sér í stórum dráttum á landinu til mánaðarloka.

Þá er aðeins eftir einn vetrarmánuður. Hann má verða mikið kaldur ef hann kemur í veg fyrir að rétt einn vetur í viðbót verði vel fyrir meðalhita á landinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Og næst eru það þá veðurfréttir

v7rqzc.gif

Eftir suðvestangarrann sem kom um daginn er snjór nú víðast hvar meiri fyrir sunnan en fyrir norðan. Í Reykjavík er snjódýpt núna t.d. 17 cm en aðeins 3 cm á Akureyri. Í Eyjafjarðardal er hverfandi snjór og lítill í Skagafirði. Hins vegar er talsverður snjór á suðvesturlandi, 10-35 cm. Í Vestmannaeyjum 26 cm. Eftir hádegi er gert ráð fyrir að hlýni með rigningu og verði svo næstu daga að mestu.

Það vakti athygli mína að í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær var sagt  fullum fetum um að snjórinn væri ''kærkominn''. Eins og á því væri enginn vafi. Hver ætli hafi skrifað þá frétt ? Fréttamenn láta yfirleitt ekki uppi sínar persónulegu skoðanir á fréttum en þegar um snjó er að ræða þá er oft í Sjónvarpinu einmitt talað um hvað snjórinn sé kærkominn. Í gær voru reyndar svo margir í Bláfjöllum að öngþveiti myndaðist og varð að snúa fólki frá. Dæmigerður Íslendingabragur! Óhóf og brjálun! Sagt var líka í sjónvarpsfréttinni að að snjór hafi verið vikum saman víða um land nema á suðurvesturlandi. Það er rangt. Um mánaðarmótin var víðast hvar orðið snjólaust eða snjólítið á landinu. 

Stundum fór ég á skíði sem strákur. En þó skíðaferðir séu ágæt skemmtun og þeir fagni snjónum sem njóta þeirra er það samt staðreynd að þeir eru nú ekki margir sem fara á skíði miðað við alla þá sem ekki gera það. Fleiri þurfa sem sagt að glíma við snjóinn en skíðafólk. Sem vel að merkja eru bara á skíðum í nokkrar klukkustundir stöku sinnum.  Að leika sér. Atvinnubilstjórar gleðjast varla yfir miklum snjó þó þeir séu reyndar ýmsu vanir. Ekki heldur eldra fólk sem samt er vel ferðafært í góðri færð en lendir hreinlega í erfiðleikum að draga björg í bú þegar er mikill snjór. Og gangandi vegfarendur yfirleitt eiga ekki auðvelt með að komast leiðar sinnar í miklum snjó. En það er eiginlega ekki reiknað með að þeir séu yfirleitt til þegar snjór er annars vegar í fréttaflutningi. Margir árekstrar verða í snjó og stundum slys fyrir nú utan það að margir beinbrotna í hverri einustu hálkutíð. Á þetta allt er lítið minnst þegar sjónvarpið og reyndar fleiri fjölmiðlar reka upp fagnaðaróp þegar snjórinn lætur sjá sig. Snjórinn er ekki bara skemmtun og leikur. Mér finnst það satt að segja annars einkennileg hugsun að snjóatíð sé talinn meira fagnaðarefni fremur en sú góða og snjólausa tíð sem ríkti að mestu leyti í vetur sunnanlands en var þó síður en svo nein fádæmi.

Mér finnst sjálfum nýfallinn snjór geta verið sjarmerandi og viss ævintýrablær yfir honum um stund ef hann er mjög mikill. Sem áhugamaður um veður finnst mér allt veðurlag auðvitað áhugavert. En skemmtilegheit nýfallins snævar er oft hverfult gaman. 

Mikill snjór á suðurlandi fellur gjarna í suðvestan leiðindaveðri eins og kom um daginn. Eftir það getur hæglega snúist í norðanátt. Þá frýs snjórinn og verður fljótt skítugur. Fátt er nöturlegra en norðankuldar eða austanþræsingur vikum saman yfir gamlan og harðfrosinn snjó. Enn verra getur þó verið þegar smáblotar koma sem frjósa síðan aftur svo myndast svakaleg svell. Svo snjóar ofan í það kannski og aftur hlánar með enn meiri hálku. Þannig getur þetta gengið vikum saman þegar mikill snjór hefur fallið. Það er þá ekki yfir miklu að gleðjast. Góða hláku þarf til að leysa upp svo mikinn snjó og nú er á suðurlandi. Fyrir norðan eru þessi snjóamál öðruvísi. Þar verður snjórinn ekki eins leiðinlegur og syðra. Hann heldur sér frekar, smá sunnanblotar ná oft ekki þangað  og svo bætist bara við hann í norðanáttum.  

Nú er einmitt að koma hláka en ég efast um að hún verði svo sterkt og langvinn að hún eyði öllum snjónum á suðurlandi.

Meðalhitinn það sem af er mánaðar er kringum eitt til eitt og hálf stig undir meðallagi sem er auðvitað ekkert óskaplegt. Oft verður kaldast í kuldaköstum rétt áður en hlýnar og á Þingvöllum fór frostið í nótt í 20,5 stig. 

Áfram er hægt að fylgjast með mánuðinum í fylgikskjalinu, blaði eitt og tvö.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband