Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs
17.6.2011 | 19:08
Veðrið 17 júní 1811
Já, hyggjum nú að þjóðlegum dyggðum, ættjarðarást og vindgnauði aldanna!
Um það leyti sem Jón Sigurðsson fæddist gerðu danskir landmælingamenn veðurathuganir á Akureyri. Athugað var að morgni, um miðjan dag og að kvöldi, en ekki er vitað um klukkustundina nákvæmlega.
Daginn sem Jón Sigurðsson fæddist var suðlæg átt og fremur hlýtt í veðri. Hér sést tafla um veðrið á Akureyri á athugunartímum. Hitinn er í celsíusgráðum og loftþrýstingurinn í hektópaskölum eða millibörum. Þurrt var.
Hiti Loftvægi Átt
Morgun 11,0 1005 Suðsuðvestan
Miðdegi 14,8 1005 Suðsuðvestan
Kvöld 2,3 1008 Logn
Svo er fylgiskjalið enn að forvitnast um veðrið á okkar tímum.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 18.6.2011 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.6.2011 | 13:06
Slæðingur af minniháttar kuldametum
Í nótt voru næturfrost mjög víða um land. Mest var það í byggð -5,6 stig á Reykjum í Fnjóskadal en á reginfjöllum -9,1 á Brúarjökli.
Nokkuð er í dagsmetið í byggð en aldrei hefur reyndar mælst meira frost þennan dag á reginfjöllum. En það segir kannski ekki mikið því mælingar á þeim hafa ekki staðið nema í nokkur ár og met á þeim eru því ekki góður mælikvarði á styrkleika kuldans miðað við fyrri tíð, jafnvel þegar þaðan koma lægri tölur en nokkru sinni hafa mælst á veðurstöð yfirleitt. En hvað hefðu þær sýnt í kuldaköstum fyrri ára?
Þrjú mánaðarkuldamet á láglendi fyrir júní voru reyndar sett í nótt en ekki á stöðvum sem ýkja lengi hafa athugað. Þessi met verða því að teljast minniháttar.
Í Stafholtsey mældust -3,6 stig en gamla metið var -3,1 stig frá þeim öðrum árið 2000. Mælingar frá 1988. Sjálfvirka stöðin á Hvanneyri átti nokkuð í það í nótt að mæla eins mikið frost eins og mannaða stöðin þar mældi í langri en nokkuð slitróttri mælingasögu, -3,7 stig þ. 11. 1973 í einhverju mesta kuldakasti eftir árstíma sem komið hefur. Á Húsafelli mældist frostið í nótt -4,3 stig.
Á Hjarðarlandi í Biskupstungum mældust -3,5 stig en gamla metið var -2,7 þ. 3. 2000. Mælt frá 1990.
Á Torfum inni í Eyjafjarðardal mældust -5,5 stig en þar höfðu áður mælst mest í júní -4,8 stig þ. 3. árið 2000. Mælingar í júní frá 1998.
Á stöðvum sem athugað hafa áratugum saman hafa engin kuldamet komið. Það er kalt þessa daga en ekki alveg eins og kaldast hefur orðið um þetta leyti, t.d. árin 1975 og 1973. Það leiðinlega við þetta kuldakast er það að slík hafa ekki verið að sumarlagi í háa herrans tíð og ekki hefur komið verulega kaldur sumarmánður yfir landið síðan júní 1997.
Ekki hafa skeyti komið frá Staðarhóli það sem af er júní en hann er alveg trúanlegur til að hafa sett kuldamet en þar hefur verið mælt síðan 1961. Það er segin saga að ef mælingar á stöð falla niður gerast stórtíðindi sem þar með verða án skráningar. En ætli sé nokkuð búið að leggja Staðarhól niður sem mannaða veðurstöð?
Þær eru nú óðum að týna tölunni.
Á Suðurlandsundirlendi var frost út um alllt, mest -4,4, stig í Þykkvbæ og -4,9 á sjálfvirku stöðinni á Hjarðarlandi en -3,5 á kvikasilfursmælinum. Mismunurinn sýnir vel að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á hvort um raunverulegt hita- eða kuldamet er að ræða á stöðvum sem voru lengst af mannaðar en eru nú orðnar sjálfvirkar og þær eru ansi margar.
Ekki mældist í nótt frost í Reykjavík en hins vegar í Straumsvík og á Hólmsheiði og jafnvel á Skrauthólum á Kjalarnesi.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 12.6.2011 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2011 | 19:50
Júní
Ekki byrjar mánuðurinn gæfulega hér á suðvesturlandi. Í Reykjavík var minna en sjö stiga hiti mest allan daginn og var sólin þó að glenna sig. Vestanátt er svo framundan.
Menn hafa kvartað mikið um kulda undanfarið. Samt sem áður hefur hitinn á mánaðargrundvelli í maí, sem var að vísu breytilegur eins og margir mánuðir, verið næstum því alveg nákvæmlega í meðallagi á landinu miðað við 1961-1990 en það er í gildi sem viðmiðun og hvergi langt frá meðallaginu. Menn er nú að kvarta yfir veðri sem var bara hversdaglegt um áratuga skeið og æði oft miklu verra. Þetta viðmiðunaratímabil er þó allmiklu kaldara en fyrra viðmiðunartímablið 1931-1960 en sá tími er reyndar talinn kannski sá hlýjasti frá landnámi yfir svo mörg ár.
Undanfarin áratug hefur aftur verið mjög afbrigðilega hlýtt, reyndar svo hlýtt að kommon sens segir manni að það geti ekki haldið mjög lengi áfram. Einhvern tíma fari að kólna ofan úr þessum hæðum og það án þess að um einhverja kulda þurfi að vera að ræða miðað við langtíma meðaltöl.
Menn verða að gera sér grein fyrir því að það árferði sem við höfum búið við í áratug eða meira er ekki eitthvað sem er það ''eðlilegasta'' og við getum búist við að verði áfram von úr viti.
Auðvitað er ansi hart að þurfta að sætta sig við það. En haldi hlýindin áfram lengi enn sagði einn góður maður að þá væri eitthvað mikið að í náttúrunni.
En kannski er það einmitt tilfellið. Náttúran sé orðin ónáttúruleg!
Hvað um það. Við fylgjumst með framgangi mála í fylgiskjalinu sem lætur sér hvorki hita né kulda fyrir brjósti brenna, blaði eitt fyrir Reykjavík og landið, blaði tvö fyrir Akureyri.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 12.6.2011 kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2011 | 13:23
Morgunblaðið á þakkir skildar
Morgunblaðið á þakkir skildar fyrir bestu umfjöllun um veður á Íslandi og úti í heimi af öllum íslenskum fjölmiðlum. Blaðið er reyndar eini fjölmiðillinn í seinni tíð sem sinnir þessum þætti frétta nokkurn vegin að staðaldri. Oft með viðtölum við veðurfræðinga og með skýringarmyndum.
Það á það jafnvel til að vitna í bloggskrifarann á góðum stundum! Og hefur birt mynd af honum og sjálfum Mala stjörnuketti sem er hans helsti ráðgjafi í veðurmálunum eins og öllu öðru!
Skýstrokkagangurinn í Bandaríkjunum hefur víst verið með mesta móti í vor en vorið er þar aðal skýstrokkatímabilið.
Það er spurning hvort þetta einkennilega veðurlag tengist undarlegu veðurlagi á Íslandi síðustu vikur.
Apríl er mönnum í fersku minni með sitt óvenjulega veðurlag, hvassviðri sem á vetri en miklum hlýindum fyrir norðan og austan.
Maí hefur líka verið undarlegur á ýmsa lund. Hann byrjaði með einhverjum mestu snjóalögum í þeim mánuði á Reykjavíkursvæðinu, en svissaði síðan yfir í einhverja hlýjustu viku sem þar hefur komið í fyrsta hluta maí. Upp úr miðjum mánuði kom kuldakast sem hefur verið ansi drjúgt, sem Morgunblaðið hefur líka gert nokkur skil, með furðu miklum snjó á austurlandi og alveg dæmalaust miklu úrkomumagni á norðanverðum austfjörðum eftir árstíma.
Þegar einn dagur er enn eftir af mánuðinum er ljóst að bæði á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og Dalatanga er úrkoman orðin meiri en áður hefur mælst í maí á öllum veðurstöðum í Vopnafirði (frá 1931) og á Dalatanga (frá 1939). Eins og ég hef nefnt í öðrum bloggpistli hefur svo aldrei mælst eins mikil sólarhringsúrkoma í Vopnafirði í maí eins og féll þ. 19. á Skjaldingsstöum, 116,0 mm.
Úrkoman í Reykjavík er komin vel yfir meðallag og annars staðar en á suðurlandsundirlendi er úrkoman víðast hvar í meira lagi nema á stöð og stöð. Þetta er ekki einn af þessum þurru og ísköldu maímánuðum sem ætla allt lifandi að drepa.
Stundum hefur þó orðið býsna kalt. Frostið mældist -8,0 stig á Grímsstöðum þ. 25. sem er dagshitamet fyrir mannaðar stöðvar og stöðvar í byggð og aldrei hefur mælst eins mikið frost á þeim stöðvum svo seint að vori.
Meðalhitinn er hins vegar enn meira en hálft stig yfir meðallagi í Reykjavík miðað við árin 1961-1990, sem var kuldatímabil, en hins vegar mjög nærri meðallagi á Akureyri. Líklega heldur Reykjavík vel meðallaginu og Akureyri mun sennilega merja það. Sömu sögu er að segja um land allt. Alls staðar verður meðalhitinn þó undir meðallaginu 1931-1960 sem var hlýindatímabil í líkingu við það sem við höfum lifað í býsna mörg ár og er reyndar eina meðallagið sem við tökum almennilega mark á hér á Allra veðra von! Á hálendinu verður hitinn samt líklega lítið eitt undir meðallaginu 1961-1990 enda hefur verið venju fremur kalt í háloftunum í þessum mánuði eins og í apríl.
Hvað meðalhitann snertir, að hann sé enn yfir meðaltali, munar mestu um hlýindin í byrjun mánaðarins, sem flestir virðast reyndar vera búnir að steingleyma eða tóku kannski aldrei eftir!
Síðustu tveir dagar hafa verið yfir meðalagi í Reykjavík og nokkuð dæmigerðir fyrir árstíðina. En fyrir þá daga var meðalhitnn frá þ. 14. alla daga nema einn undir meðallaginu, að meðaltali eitt og hálf stig.
Það er þetta ástand sem skapar þá tilfinningu hjá sumum, sem ekki geta haldið utan um heilann mánuð í huganum, að ekki vori vel. Það er óneitanlega nokkuð öfugsnúið þegar fyrri hluti maí er vel hlýr en seinni hlutinn kaldur.
Ástand trjágróðurs sýnist mér þó vera betra en oftast nær í lok maí. Það er nefnilega yfirleitt ekki fyrr en upp úr miðjum maí sem brum á trjám taka að sjást að ráði. Það gerðist núna miklu fyrr, hér í bænum að minnsta kosti.
Eins og áður segir ætlar mánuðurinn að vera alveg í meðallagi í Reykajvík að hita. Og viti menn! Sólin hefur nú þegar skinið meira en í meðalagi fyrir maí í Reykajvík.
Þetta er sem sagt allt í fína og enginn ástæða til að kvarta mikið og spyrja hvort fari nú ekki að vora. En sá söngur hefur reyndar staðið í nokkra mánuði og er vís með að halda áfram fram á haust!
Viðbót 31.5. Á Skjaldþingsstöðum er maíúrkoman meira en fjórföld miðað við meðallagið 1995-2010 og er þetta jafnframt úrkomusamasti mánuður yfirleitt sem enn hefur mælst á stöðinni. Hámarkshiti í Reykajvik í gær var sagður vera 15,0 stig og í dag 12,5 á kvikasilfrinu. Mér finnst þetta ansi ótrúlegt miðað við mælingar á sjálfvirku stöðvunum.
![]() |
Dularfull og skelfileg veðurfyrirbæri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 1.6.2011 kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.5.2011 | 14:03
Kuldamet fyrir norðan
Í nótt fór frostið á Grímsstöðum á Fjöllum niður í 8,0 stig. Það er mesta frost sem mælst hefur þennan dag og á þessum árstíma á mannaðri veðurstöð.
Meðalhiti mánaðarins er nú minna en eitt stig yfir meðallagi í Reykjavík en er hálft stig yfir því á Akureyri. Enginn alvöru hlýindi eru boðuð framundan og þó hlýni sums staðar í einn eða tvo daga virðist sem aftur sæki í kuldafar út mánuðinn. Kannski lafir þó mánuðurinn í hitameðallaginu að lokun.
Mest snjódýpt í morgun var 8 cm á rafstöðinni við Skeiðsfoss í Fjótum. Jörð er ekki talin alhvít þar sem mest hefur snjóað á norðausturlandi. Snjóinn tekur hratt upp. Í dag var talið alautt í Neskaupstað en í gærmorgun var þar alhvítt og sjódýpt 12 cm.
Á einhverjum netfréttamiðli las ég að í gær hafi snjódýptin verið 60 cm á Egilsstöðum. Ekki fylgdu frekari skýringar. Á þessum slóðum eru ekki neinar snjódýptarmælingar sem koma inn á vef Veðurstofunnar.
Á vef Veðurstofunnar koma upplýsingar frá ýmsum mönnuðum úrkomustöðvum, en þar eru líka gerðar snjódýptarmælingar, afar óreglulega og sumar stöðvar mega heita nánast dauðar og engar eða fáar hafa verið alveg samfelldar t.d. í þessum mánuði á vefnum. Allra verst er Stafafell í Lóni.
Nú efast ég ekki um að athugunarmenn geri athuganir og skrái þær. En þeir hirða ekki um að koma athugununum til Veðurstofunnar. Þeir fá samt greitt fyrir að gera athuganir og þeir hljóta að gera sér ljóst að athuganirnar eru hluti af almannatengslum stofnunarinnar sem þeir eru að starfa fyrir - ekki einkamál milli þeirra og hennar- og birtast almenningi á vef Veðurstofunnar þegar þær berast þangað. Að koma skráningunni áleiðis hlýtur því að vera ein af þeim skyldum sem athugunarmenn gangast undir þegar þeir taka athuganir að sér - fyrir borgun.
Og ég segi því bara þó það hljómi kannski harkalega: Þegar athugunarmenn senda ekki upplýsingar sem birtast þá ekki á vef Veðurstofunnar eru þeir einfaldega að bregðast skyldum sínum við almenning.
Annars virðist líka vera einhver óregla á ýmsum mönnuðum veðurathugunarstöðvum öðrum en úrkomustöðvum. Það eru alltaf að koma þar eyður en slíkar eyður voru sjaldgæfar hér áður fyrr.
Höfn í Hornafirði er sérlega slæm.
Jafnvel Stórhöfði, sem var lengst af ein af öruggustu veðurathugunarstöðvunum, er stundum að klikka. En aldrei klikkar nú Dalatanginn! Gaman af heimsókninni þangað í Landanum.
Reykir í Hrútafirði og Miðfjarðarnes eru stundum stopular og í minna mæli Hjarðarland og jafnvel Hæll i Hreppum og stundum Eyrarbakki. Upp á síðastastið hafa Bolungarvík og Æðey verið að hlaupa út undan sér. Í dag Bergsstaðir.
Ég undra mig svo á því hvers vegna Þverfjall er aldrei inni í yfirliti um köldustu fjallastöðvar þó þar sé einmitt alloft mesti kuldinn, ekki síst síðustu daga. Er þetta eitthvað afbrigðileg stöð?
Það mætti fara að endurnýja töflurnar fyrir mönnuðu stöðvarnar sem sumar eru reyndar hættar. Þar er greint frá hámarks og lágmarkshita og úrkomumagni frá klukkan 9-9 og frá kl 18 til 18. Mér finnst að úrkoman mætti alltaf vera frá klukkan 9-9 en aldrei hámarks og lágmarkshitinn. Hann ætti að vera frá kl. 9-18 og svo aftur á morgnana frá kl. 18-9. Það er alveg út í hött fyrir almenning og beinlínis villandi að hafa þessar tölur frá kl. 9-9 og frá 18-18. Úrkoman mætti gjarnan líka koma frá kl. 9-18.
Þetta er nú annars meira nöldrið og skal verða langt til annars slíks!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 26.5.2011 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.5.2011 | 13:22
Tunglmynd af gosinu
Hér er Modis gervitunglamynd í sýnilegu ljósi af gosinu í Grímsvötnum frá því kl. 5:10 í morgun. Myndin er af Brunni Veðurstofunnar. Gosmökkurinn var í 15 km hæð skömmu fyrir hádegi en var kl. 13 fallinn niður í 10 km. Toppurinn er þó enn ofar veðrahvarfa sem voru kl. 12 í tæplega 9 km hæð yfir Keflavík en kringum 7,5 km yfir Egilsstöðum. Myndin er í efra fylgiskjalinu en hið neðra er hið venjulega um gang veðurmála í Reykjavik og Akureyri og víðar.
Snjór er nú nokkur fyrir norðan og austan. Í gær var mest snjódýpt 21 cm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Þaðan hafa ekki borist upplýsingar í dag en mest snjódýpt í morgun voru 12 cm við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og 10 cm á Ólafsfirði. Snjór festist í þessu kasti alveg frá Ísafjarðardjúpi til Austfjarða við ströndina og sums staðar norðaustanlands líka í innsveitum. Ekki varð þó alhvítt á Akureyri.
Kuldinn sjálfur hefur ekki verið sérlega mikill. Meðalhitinn á Akureyri þ. 20. var þó nálægt því kaldasta sem mælst hefur frá 1949 á þeim degi. En lágmarkshiti alls staðar er langt frá metum.
Í Reykjavík er úrkoman nú þegar komin 27% yfir meðaltali alls maímánaðar. Langmest munaði um úrkomuna að morgni þess fyrsta sem var 39 mm og féll að mestu daginn áður.
Á Skjaldþinsstöðum í Vopnafirði er úrkoman orðin meira en fjórföld miðað við meðallag þeirra ára sem mælt hefur verið, frá 1995. Úrkoman er þar nú rétt um 300 mm og er það ekki aðeins mesta úrkoma í maí sem mælst hefur á Skjaldþinsstöðum heldur miklu meira en nokkru sinni hefur mælst í maí á veðurstöðvum við Vopnafjörð allt frá 1931. Á þremur dögum féllu þarna 228 mm.
Á Dalatanga er úrkoman vel tvöföld miðað við meðallagið 1961-1990. Þar hefur nokkrum sinnum mælst dálitið meiri úrkoma í öllum maí. En einn þriðji er enn eftir af mánuðinum.
Annars hefur ekki verið úrkomusamt það sem af er mánaðar víðast hvar á landinu.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 23.5.2011 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.5.2011 | 18:58
Kuldakast með bravúr
Meðalhitinn í maí er enn þá um það bil tvö stig yfir meðallagi, bæði fyrir sunnan og norðan.
Menn tala mikið um kuldakastið sem nú er byrja. En enginn minnist á þau sjaldgæfu hlýindi sem voru framan af mánuðinum.
Það óvenjulega við þennan mánuð er einmitt þessi hlýindi sem eiga sér fáar hliðstæður í Reykjavík en ekki kuldakastið sem framundan er hvað kuldann snertir. Hann verður bara fremur hversdagslegur en hlýindin voru mjög sjaldgæfur viðburður.
Hið sama má þó líka segja um úrkomuna á Vopnafirði síðasta sólarhringinn. Í morgun var sólarhringsúrkoman 118,0 mm á Skjaldþingsstöðum. Aldrei hefur fallið eins mikil sólarhrinhgsúrkoma í maí á þessu svæði og reyndar víðast hvar á landinu.
Aðeins í fimm maímánuðum hefur, að ég held, mælst meiri sólarhringsúrkoma á landinu í maí, mest 147,0 mm á Kvískerjum 1973 þann sextánda.
Og enn rignir í Vopnafirði. Frá klukkan 9 til 18 féllu 50,2 mm.
Þannig ætlar sem sagt kuldakastið að byrja.
Með bravúr!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 22.5.2011 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2011 | 19:49
Sumarið hörfar
Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er maí er nú 8,7 stig sem er 3,6 stig yfir meðallagi. Sjaldgæft mjög er að svo hlýtt sé þegar ekki er lengra fram komið í mánuðinn en ekki held ég þó að þetta sé alveg einsdæmi. Ef þetta frávik héldi sér til mánaðarloka yrði meðalhinn kringum tíu stig og yrði maí sá hlýjasti maí sem mælst hefði í Reykjavík. Síðustu daga hefur ekki verið neitt ''vorveður'' heldur hreinlega sumarblíða sem gæti sómst sér um hásumarið á suðvesturlandi.
Það er þess vegna ekki rétt að borgarbúar hafi lengi þurft að bíða eftir sumrinu að þessu sinni. Þvert á móti hefur það komið alveg óvenjulega snemma. Það er alls ekki venjan, eins og áður segir, að svona veðurblíða sé svo snemma í maí eins og verið hefur eftir fyrsta daginn. Það er heldur ekki venjan að sé neitt sérstakt sumarveður í apríl á suðurlandi en hann var þó reyndar hagstæður fyrir vorkomuna um land allt þrátt fyrir snjókomu síðasta daginn í Reykjavík og næstum því hvergi annars staðar. Sá atburður var hreint ekki til vitnis um almennan og alvarlegan skort á vori.
Tvö dagshitamet að sólarhringsmeðalhita hafa komið undanfarna daga í Reykjavík, þ. 8. og 10. Þetta má sjá í fylgiskjalinu. Hámarkshitinn í bænum hefur ekki verið lægri en þrettán stig í fimm daga samfellt fyrr en í dag en þá var hann aðeins 7,8 stig. Samt var mikið sólskin.
En það er alls ekki sami sumarabragurinn á veðrinu og áður.
Þessum góða sumarhlýindakafla sem verið hefur undanfarið er sem sagt að ljúka í bili. Sumarið er því ekki neitt að ganga í garð næstu daga heldur er það beinlínis að hörfa til baka. Það á víst að koma vestanátt. Og bráðlega gætu jafnvel komið fjandans kuldar.
Fátt er ömurlegra í maí en kuldar með frosti og snjókomu fyrir norðan en mikilli sól fyrir sunnan.
Það er ekki sumar. Það er vorhret.
Fylgiskjalið er fylgið sér að vakta veðrið í Reykjavík og Akureyri og reyndar á öllu landinu bláa.
Viðbót 14.maí. Nú á hádegi er kafþykk og svöl vestanmolla í Reykjavík með 5,8 stiga hita. Það er nákvæmlega þetta sem ég átti við þegar ég segi hér að ofan að hinum góða sumarkafla sé lokið, honum lauk nánar tiltekið sama daginn og þessi frétt birtist, en nú hörfi sumarið um tíma að minnsta kosti. Fréttin er sem sagt afar villandi eins og mjög oft er með fréttir í fjölmiðlum um veður. Það er t.d. algengt að þegar hitabylgjur eða sérstök góðviðri hafa ríkt, en slíkt varir aldrei lengi, taka fjölmiðlar oft ekki við sér fyrr en það er afstaðið. Þá loks koma fréttir um það og láta þá eins og góðviðrið ríki enn og verði svo bara áfram! Ég er mjög undrandi á þessu.
![]() |
Sólríkir dagar framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 19.5.2011 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2011 | 18:36
Vorið er löngu komið
Í dag var sólskin í Reykjavík og hitinn fór í 14,9 stig. Á Hellu komst hann í 17,9.
Eftir svona degi hefur maður beðið í allan vetur, sól með hlýindum en ekki kulda. Hann kemur þó í fyrra lagi. Fyrstu vikuna í maí fer hitinn í Reykjavík sjaldnast í tíu stig. Á sæmilegum dögum er hann oftast svona sex til átta stig mest. Oft eru hins vegar norðanáttakuldar með næturfrostum.
Ég sagði um daginn á blogginu að menn myndu sjá hvað vel hefði vorað þegar kæmi bjartur og hlýr dagur.
Það sannast í dag. Allt er í blóma í bænum, tré runnar, gras og blóm.
Vorið er komið!
En vorið kom ekki í dag. Það var að koma allan apríl sem hefur verið ómaklega rægður og níddur meira en nokkur mánuður síðan ég fór að fylgjast með veðri.
Svona dagur eins og i dag hefði alveg getað komið í kjölfar apríl sem aldrei hefði náð neinum vordampi þó hann hefði kannski verið sólríkur og ekki hvass. Þá væri í dag sama sólskin og sama hitastig og nú gleður alla. En gróður væri enginn og ekkert sýnilegt vor.
Þökkum fyrir þennan góða apríl. Hann vann sín vorverk rösklega.
En ég játa að hann var ekki fyrir pempíur, vælukjóa og aumingja!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 12.5.2011 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2011 | 19:14
Maí
Nú er bara að vita hvort maí verður tiltölulega eins hlýr og góður og apríl!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 2.5.2011 kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006