Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Sumarið heldur áfram

Nú er hann ágúst mættur á sviðið. Hann getur nú lumað á ýmsu. Árið 2004 kom til dæmis einhver mesta hitabylgja sem komið hefur og þá mældist eini dagurinn sem í Reykjavík hefur farið yfir 20 stig að meðalhita.

Eftir verslunarmannahelgi byrjar yfirleitt sá söngur í mörgum hornum að nú sé sumarið búið. En við látum svoddan bull ekki á okkur fá og fylgjumst í fylgiskjalinu, blaði eitt og tvö,  með  árangri þessa  ágúst sem allmiklar vonir eru bundnar við.

Kannski slær hann öll met.

Eða þá að hann verður sjálfum sér og öðrum til háborinnar skammar! 

Fylgiskjalið er búið þeim eiginleikum að hægt er að skrolla upp á eldri mánuði ársins og svo er hægt að skrolla til hliðar. 

Endilega skrollið eins og þið eigið lífið að leysa! 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Yfirburðir höfuðstaðarins

Menn ættu ekki að vanmeta veðurfarslega yfirburði Reykjavíkur!

En í fylgiskjalinu geta menn nú séð ýmislegt um veðrið á landinu í júlí í heild.

Ég hef hálf partinn á tilfinningunni að hámarkshiti í Reykjavík sé grunsamlega hár. En það er nú bara tilfinning og kannski bara ímyndun. Og ef ég myndi skipta milli sólarhringa kl. 18 eins og Veðustofan gerir yrði hann enn þá hærri. Vitað er að einhver vandræði voru á hámarksmælingum um tíma.

 

 


mbl.is Besta veðrið við Dillon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sól og blíða á austurlandi

Núna er mikil blíða á Fljótsdalshéraði og austfjörðum í vestanáttinni. Hitinn komst í 23,9 stig á Egilsstöðum og Hallormsstað í glaðasólskini og  21,6 stig á Neskaupstað. Heldur svalara var á norðurlandi en 21 stig mældust þó á Húsavík og í Ásbyrgi og 20 á Akureyri.

Meðalhiti gærdagsins í höfuðstaðnum var 10,2 stig eða hálft stig undir dagsmeðalhita. Þetta er eini dagurinn í júlí sem hefur verið undir meðallagi að hita í borginni. Reyndar er þetta aðeins annar dagurinn sem er undir dagshitameðaltali í Reykjavík frá og með 11. júní. Hámarkshitinn í gær, 11,6 stig,  var sömuleiðis sá lægsti síðan 10. júní. Í dag er svo aftur nokkru hlýrra og liklega yfir meðallagi. Meðalhitinn í Reykjavík í júlí er nú 1,7 stig yfir meðallagi og það hefur verið fremur sólríkt og þurrviðrasamt í þessum júlí þó nú sé farið að rigna.

Á Akureyri er hitinn líka vel yfir meðallagi og og hefur stefnt upp á við síðustu daga. 

Hitafarslega mun mánuðurinn koma vel út um allt land nema helst á suðausturlandi og við austurströndina. Hann er alveg í stíl við þá hlýju sumarmánuði sem ríkt hafa að mestu síðasta áratug.

Ekki má gleyma því að við höfum í mörg ár lifað afbrigðileg hlýindi sem eru talsvert langt utan við það sem venjan hefur verið hér á landi í svo mörg ár. Svo kemur kanski að því að hitafarið hrekkur í sitt venjulega far.

Og geri ég ráð fyrir að þá verði all mikill grátur og gnístran tanna meðal landsmanna. Ekki mun ég þar láta minn  hlut eftir liggja!

En kannski halda hlýindin bara áfram von úr viti.  Eru ekki einhver gróðurhúsaáhrif eða hvað það nú heitir í gangi?

Fylgiskjalið vaktar áfram veðrið, á blaði 1 fyrir Reykjavík og landið, blaði 2  fyrir Akureyri.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Loks rigndi fyrir norðan

Í morgun var mæld nokkur úrkoma um land allt. Líka fyrir norðan. Á Bergsstöðum í Skagafirði, þar sem úrkoman í júlí hefur verið aðeins 0,3 mm er hún nú orðin 4,8 mm og á Hrauni á Skaga féllu 14 mm ofan í þá 0,9 sem fyrir voru. Betur má þó kannski ef duga skal.

Meðalhitinn er vel yfir meðallagi víðast hvar nema á austanverðu landinu þar sem hann er kringum meðallag. En spáð er hlýindum framundan svo þessi mánuðir verður sennilega alls staðar yfir meðallagi. Það er ekki lengur hægt að tala um  kalt sumar.

Í Reykjavík er meðalhitinn nú 12,3 stig eða 1,8 stig yfir meðallagi. Á Akureyri er hann 11,2 stig eða 0,7 yfir meðallagi. Þar mun meðalhitinn eflaust hækka næstu daga en halda í horfinu fremur en hækka eða lækka að ráði í Reykjavík.

Í fyrra dag var hlýjasti dagur mánaðarins yfir landið en gærdagurin sá næst hlýjasti. Hlýrri dagar eru hugsanlega framundan eftir spám að dæma.

Sólin í Reykjavík er þegar komin yfir meðallagið.

Þetta er og verður sómamánuður. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dagshitamet í Reykjavík

Meðalhitinn í Reykjavík í dag var 14,9 stig og hefur ekki verið hærri þennan dag síðan mælingar hófust. Næst hlýjastur var 15. júlí árið 1944, 14,4 stig. Þetta segir kannski ekki afskaplega mikið því hlýrri dagar hafa komið all nokkrir um þetta leyti (og reyndar líka í júní) þó ekki hafi þeir fallið nákvæmlega á þessa dagsetningu. Tilviljun á stóran þátt í því hve nær hlýjustu dagarnir koma. Það er samt gaman og eiginlega óvænt að þessi dagur skuli hafa krækt í dagshitamet fyrir Reykjavik að meðalhita.  Í rauninni eru engin sérstök hlýindi yfir landinu. 

Hámarkshitinn í dag var 18,8 stig eftir mælingu kl. 18 en hefur kannski stigið enn meira eftir það en það kemur í ljós í fyrramálið.

Við erum nú alveg um það bil að koma að hlýjasta tíma ársins að meðaltali. Besti kafli sumarsins á að vera eftir ef allt gengur vel. Meðalhitinn í Reykjavík er á góðu róli, 1,9 stig yfir meðallagi það sem af er mánaðar og enginn dagur hefur verið fyrir neðan meðalagið. Það hefur reyndar enginn dagur verið nema einn frá 11. júní. Á Akureyri er meðalhitinn það sem af er júlí heilu stigi yfir meðallagi þó þar hafi ekki allir dagar verið sérlega hlýir en heldur ekki kaldir. Kuldaskeiðinu sem þar ríkti og víðast hvar á landinu í júní lauk fyrsta júlí. Samt er jafnvel enn talað af sumum eins og sé kalt sumar. 

Austast á landinu, alveg frá suðausturlandinu og norður eftir, er hiti reyndar undir meðallagi en ekki hægt að tala um neina kulda. Tiltölulega hlýjast er kannski á Vestfjörðum.

Kuldaskeiðinu vorið og snemmsumars 2011 er einfaldlega lokið hvað sem síðar verður.

Mjög þurrt er víðast hvar. Sums staðar hefur fallið minna en einn millietri þegar mánuðurinn er  nær hálfnaður, svo sem við Eyjafjörð. 

Menn geta svo skoðað þessa hásumarsdýrð í hinu sjóðheita fylgiskjali.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvað varð af mæligögnum sjálfvirkra stöðva?

Nú er ekki hægt að komast inn á mæligögn sjálfvirkra stöðva í töfluformi  á vef Veðurstofunnar og hefur svo verið í nokkra  daga. Hægt hefur verið að skoða þetta fjóra daga aftur í tímann. Þetta veldur því að ekki er hægt að fylgjast með þróun mála á þessum stöðvum hvað varðar t.d. hámarks-og lágmarkshita, vindhraða , úrkomuferill og fleira og er það vægast sagt bagalegt. Enn eru uppi línuritin. En töflurnar eru nákvæmari.

Þetta hlýtur að vera eitthvað tímabundið. Ég trúi því alls ekki að búið sé að loka aðgangi að þessu fyrir almenning. 

Í morgun kl. 9 var hámarkshiti Reykjavíkur skráður 17,5 stig á kvikasilfursmæli og á að vera frá kl. 9-9. Í gær frá kl. 9-18 var mesti hiti 15,7 stig og voru 13,4 kl. 18 og 12,9 kl. 21. Ekki er nú hægt að tékka á sjálfvirku stöðvunum. En það gengur hreinlega ekki upp að þessi hámarkshiti , 17, 5 stig, hafi mælst frá kl. 18 í gærkvöldi til kl. 9 í morgun. 

Í júní voru einnig fáein dæmi um það að hámarkshiti lesinn kl. 9 að morgni væri óeðlilega hár og ekki í samræmi við hámarkshita sem lesin var kl. 18 daginn áður og gang hitans um kvöldið og nóttina til næsta morgun. Fleiri hafa bent á þetta en ég. Þetta virðist aðeins gilda um morgunálesturinn.

Það er eitthvað bogið við þetta. 

Síðasta hefti Veðráttunnar sem birst hefur er fyrir maí 2005. Hún hefur dregist meira aftur úr en þegar verst var á fyrstu árum Veðurstofunnar. Ekki hefur komið ársyfirlit í ein tíu ár.

Það er þó mikil bót í máli að ýmislegt hefur verið sett á vef Veðurstofunnar um niðurstöður hvers mánaðar fyrir mannaðar stöðvar eftir maí 2005.

Frá og með 2001 hóf Veðráttan að birta mánaðarniðurstöður fyrir vissa þætti fyrir sjálfvirkar stöðvar. En ekkert slíkt hefur verið sett á vef Veðurstofunnar. Engar upplýsingar er því nokkurs staðar að hafa um mánaðarniðurstöður sjálfvirkar stöðva frá því vorið 2005. 

Það væri  nú ágætt ef þær yrðu settar á vefinn. 

Að svo mæltu sláum við þessu bara öllu upp í kæruleysi og skoðum hið staðfasta fylgiskjal fyrir þennan júlí sem nú er að líða.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlí

Jæja, þá er hann júlí mættur til leiks. Hvernig skyldi hann svo verða?

Verður hann kaldur?  Eða hlýr?

Sólríkur? Þornar aldrei á steini?

Kemur 30 stiga hitinn? 

Við getum fylgst með þessu í beinni útsendingu í fylgiskjalinu á Allra veðra von.

Einu bloggsíðunni þar sem sannarlega er allra veðra von!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gamlar greinar um veðráttu

Get ekki stillt mig um að vísa á þessa grein í Skírni 1927 um veðráttu og veðurspár eftir Jón Eyþórsson veðurfræðing. Þar birtast opinberlega líklega fyrstu veðurkort fyrir Ísland sem sjást hafa á prenti hér á landi. Það er gaman að þessari grein.

Þá eru ekki síðri endurminningar Guðmundar skálds Friðjónssonar frá Sandi um harðindaárin 1880-1886 sem kom í Skírni 1938. 

Guðmundi mundi eflaust láta sér fátt um finnast kveinstafi okkar núna yfir tíðinni.

Athugasemd: Fyrir utan það að þessi júní, sem fylgiskjalið nær nú utan um í heild, náði meðallaginu að hita í Reykjavík flýgur hann líka næstum því inn á miðjan topp tíu listann fyrir sólríkustu júnímánuði.

Ekki kæmi mér á óvart þó besti tími sumarsins sé nú að baki!  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikil dægursveifla

Hitinn í Reykjavík í þessum mánuði má nú heita kominn upp í meðallag. En ekki víst að hann hangi í því næstu daga. Nokkrir ágætir dagar með mikilli sól og hámarkshita upp á 15-16 stig hafa komið undanfarið og það gerist svo sannarlega ekki í hverjum júní. Hér í Reykjavík getum við ekki kvartað.

En annars staðar á landinu en suðvesturlandi er fremur kalt miðað við meðallag, meira að segja á  suðurlandi  og suðausturlandi. Og enn er hitinn vel undir tveimur stigum frá meðallagi fyrir norðan og  jafnvel  tiltölulega enn kaldara er á Vestfjörðum. 

Aldrei er hlýtt loft yfir landinu en hitinn á suðurlandi hefur orðið furðu hár á daginn þegar sólin skín en næturkuldinn líka ansi mikill. 

Á Þingvöllum fór hitinn í gær upp í 17,9 stig en í nótt féll hann niður í -1,8, en steig svo aftur í dag upp í 16,6 stig, dægursveifla upp á 19,7 stig,  en annað eins gerist stundum snemma sumars á Þingvöllum.   Bæði mesti og minnst hiti á landinu í dag í byggð var á Þingvöllum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hitinn mjakast upp á við sunnanlands

Meðalhitinn í Reykjavík er nú kominn upp í 8,1 stig en það er 0,6 stig undir meðallagi. Hins vegar hefur hitinn frá þeim ellefta verið hvern dag yfir meðallagi en meðalhitinn fyrstu tíu dagana var 2,1 stig undir meðallagi. Hitinn hefur því vel sótt í sig veðrið á suðvesturlandi. Sömu sögu er ekki hægt að segja fyrir norðan en á Akureyri er hitinn eftir gærdaginn kringum 2,4 stig undir meðallagi og hver dagur eftir þann fjórða hefur verið vel undir meðallagi. 

Ekki þarf langt að fara til að finna lægri meðalhita i Reykjavík fyrstu 17 dagana í júní. Hann var 8,0 stig árið 2001 og var þá þó ekkert kuldaskeið nema síður væri.  Árið 1997 var hitinn hins vegar aðeins 7,0 stig og einnig 1986 og 1973.

Frá 1949 hefur verið kaldara en nú eða sami meðalhiti eftir 17. júní á þessum árum:

1949: 8,0

1952: 7,4

1956: 7,3

1959: 7,2

1970: 8,0

1973: 7,0

1975: 7,5

1977: 7,6

1978. 8,0

1983: 7,2

1986: 7,0

1992: 7,9

1994: 7,4

1997: 7,0

Heimurinn er sem sagt ekkert að farast. 

Og hlýjast frá 1949:

2002: 12,1

1954: 10,9

2003: 10,8

2010: 10,8

Skylt er að geta þess að einmitt á sautjándanum 2002 fór mánuðurinn að koðna niður og endaði í 10,8 stigum. Sem er reyndar harla gott.

Fyrir 1949 má finna hlýjustu fyrstu 17 dagana í júní árin 1941 og 1934 en þá var hitinn svipaður og 1954 og 2003 en erfitt er enn sem komið er að finna út alveg nákvæmar meðaltalstölur fyrir dag hvern frá þessum árum. Þessar ályktanir hér um meðalhitann eru dregnar af meðaltali hámarks og lámarkshita.

Hvað eldgamlan kulda varðar hefur júní fyrstu 17 dagana árið 1885 varla skriðið mikið yfir 6 stig og júní 1882 og 1884 líklega verið undir 7 stigum 

Við getum því verið þakklát fyrir að vera einmitt uppi núna. 

Um hlýja og kalda júnímánuði í heild má lesa  annars staðar hér á blogginu. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband