Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Það er engin leið að hætta ...

Nú hefur heldur betur kólnað. Stökkbreyting frá góðu sumri yfir í ósvikið haustveður.

Fyrstu sex dagana í september var meðalhitinn 12, 2 stig í Reykjavík eða 3,5 stig yfir meðallagi. Eftir daginn í gær var  hann kominn niður í 11,5 stig. Það er kólnun um 0,7 stig á einum degi en meðalhitinn í gær var aðeins 7,0 stig. Enn kólnar svo í dag. Hitinn í gær í höfuðborginni komst ekki í tíu stig í fyrsta sinn síðan 10. júní.

Í morgun var alhvít jörð á Ólafsfirði og snjódýpt 5cm og í Svartárkoti þar sem snjódýpt var 4 cm. Jörð var flekkótt á Grímsstöðum, þar sem golfvöllurinn á að rísa, við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og á Tjörn í Svarfaðardal.

Það er aldrei gæfulegt þegar september stekkur snemma beint inn í miðjan október. En það er þó einmitt það sem nú hefur gerst. Að vísu gæti ástandið verið verra en líka miklu betra. 

Fylgiskjalið njósnar um veðrið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sögulok mánaðarvökunarinnar

Nú er ekki lengur hægt að sjá athuganir mannaðra veðurstöðva á þriggja tíma fresti á gamla vef Veðurstofunnar, ásamt  hámarki og lágmarki hitans og úrkomu, eins og lengi hefur verið hægt. 

Mér finnst það satt að segja fyrir neðan allar hellur að loka á þetta fyrirvaralaust án þess að aðgangur að þessum upplýsingum sé mögulegur annars staðar á vef Veðurstofunnar.

Það er skömm frá því að segja að hægt er að sjá þetta eitthvað svipað á rússneska vefnum góða fyrir nokkrar stöðvar en alls ekki allar, og reyndar á fleiri stöðum, en ekki á opinberum vef Veðurstofu Íslands!

Ég hef í um það bil ár birt hér á blogginu daglegt yfirlit yfir veður í Reykjavík og Akureyri og fyrir suma veðurþætti yfir allt landið, einn mánuð í senn meðan honum vindur fram. Slíkt yfirlit er hvergi annars staðar aðgengilegt með líkum hætti.  Þetta hefur verið þó nokkuð maus og fyrirhöfn. Og þessi lokun á gamla vefnum með upplýsingum frá mönnuðu stöðvunum minnkar hana nú ekki.

Og nú nenni ég þessu bara ekki lengur.

Örlög þessa veðurbloggs að öðru leyti er enn óráðin. 

 

 

 


Hlýindi

Nú er að hlýna. Það er kannski eins gott því lítil von var í áframhaldandi norðaustanátt. Á miðnætti var aðeins 13 stiga frost í 500 hPa fletinum yfir Keflavík sem var í 5690 metra hæð en þykktin var 5550 metrar. Aldrei  hefur verið hlýrra þarna uppi í sumar.

Er einhver að tala um haust? 

Næstu daga, óvíst hve marga, er ekki víst að ég komist í tölvu svo dagavöktunin  liggur þá niðri en reynt verður þó að brúa bilið þegar þar að kemur. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýtt stjórnmálaafl

Ég gjöri hér með kunnugt að ég hefi í hyggju að stofna nýtt stjórnmálaafl, hvers afl verður ekkert smáræði.

Ég ætla að stofna Góðviðrisflokkinn því ég er engan veginn sáttur við það veður sem að mér er haldið með eigi litlu gerræði og stundum beinu harðræði. Helsta baráttumál hins nýja flokks mun verða jöfnun veðurgæðanna milli landshluta og betra veður um allt land með sterku ívafi af evrópulofti. 

Ég finn alveg rokstuðning úr öllum áttum. 

Fylgjendur hins nýja flokks munu taka fylgiskjalinu fagnandi  við þessa færslu en það birtir það veður fyrir norðan og sunnan og bara um allt land sem ætlunin er að stórbæta.

Ekki veitir af!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðsumar

Hitinn í Reykjavík á menningarnótt var næstum því nákvæmlega í meðallagi. Næturhitinn var nokkru lægri en dagshitinn aðeins hærri en meðaltalið segir til um fyrir 20. ágúst. Það er meðaltal margra ára og ekki er oft sem einstaka dagur fellur nákvæmlega að meðaltalinu. Það var sólríkt í gær, sólin skein í 12,2  klukkustundir. Það var sólskinið sem olli því að mönnum fannst mikil veðurblíða.

En nokkurn veginn svona eru heiðarlegir og hversdagslegtr dagar í borginni á þessum árstíma.

Haustlegt?

Ekki til í dæminu. Það nýjasta í veðurfarsmálum á netsíðum er þó það að menn eru farnir að finna lyktina af haustinu. 

Já, það er víst meiri stækjan.

Í mínum huga er enn sumar. Það er síðsumar. En það hugtak er lítið notað í seinni tíð enda heimta menn að tala um haust strax og verslunarmannahelgin er liðin.

Að mínu viti fer ekki að hausta fyrr en hámarkshiti dagsins er svona nokkurn veginn að staðaldri undir tíu stigum. Það gerist yfirleitt svona upp úr miðjum september. Stundum haustar þó  fyrr en stundum seinna. Einstaka sinnum haustar verulega snemma  í veðrinu, jafnvel þegar ágúst er ekki búinn.  En þegar allt er nokkurn vegin eðlilegt  og sómasamlegt tel ég vera síðsumar frá því um miðjan ágúst eða aðeins fyrr og fram undir miðjan september. Október finnst mér fyrst og fremst vera mánuður haustins.

Meðalhitinn í Reykjavík í þeim ágúst sem er að líða er enn meira en heilt stig yfir meðallagi og sólin er alveg um það bil að ná meðaltali alls mánaðarins en úrkoman á langt í land. Á Akureyri hefur sigið á ógæfuhliðina og hitinn þar er fallinn meira en hálft stig undir meðallagið og úrkoman komin yfir helminginn af meðallagi alls mánaðarins. Mánuðurinn er að hita undir meðallagi frá Hornströndum og austur og suður um til sunnanverðra austfjarða. Annars staðar er hitinn yfir meðallagi en þó mismikið. Kaldast er á norðausturhorninu.

En ágúst er ekki liðinn. Og haustið er ekki komið þó það sé kannski handan við hornið eins og hamingjan.

Njótum síðsumarsins meðan það enn þá varir.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veðurraus

Eins og fram hefur komið í fréttum var hlýtt og þurrt næstum því alls staðar á landinu í júlí . Hins vegar var víðast hvar kalt í júní, eins og  sannarlega frægt er orðið, en þó ekki svo mjög á höfuðborgarsvæðinu. Í júlí var sólríkt í hlýindunum bæði fyrir norðan og sunnan. Það sem af er ágúst er hitinn 1,7 stig yfir meðallagi í höfuðborginni en á Akureyri hefur hitinn sigið lítillega undir meðallagið síðustu daga eftir ágæta mánaðarbyrjun.  

Samt sem áður má furðu víða á netinu lesa um það að nú hausti snemma og það hafi ekki verið neitt sumar og þar frameftir götunum. Í dag slær svo Víkverji Morgunblaðsins einmit þennan tón. Reyndar eru skrif hans svo fjarstæðukennd og út í hött að kannski er hann einfaldlega að djóka eða um einhvers konar kaldhæðni er að ræða. 

Mér datt jafnvel í hug í sjálfhverfu minni að hann væri bara að að gera at  í mér til að hleypa mér upp! 

Sé svo hefur það tekist fullkomlega!

Ekki kemur fram hvar Víkverji býr en líklega er það þó í Reykjavík þar sem veðrið hefur verið einna best á landinu. Segist hann hafa verið að bíða eftir sumarveðri í allt sumar en bara fengið kulda, rigningu, rok, skýjaðan himinn og almenn leiðindi.

Sumarið hefur þó hingað til verið sérlega þurrviðrasamt og eins og áður segir fremur sólríkt og vel hlýtt eftir að júní sleppti og reyndar fyrir miðjan júní hvað Reykjavík varðar. Í gær kólnaði  þó nokkuð og geri ég ráð fyrir að Víkverji sé nú hreint alveg í öngum sínum! Ekki síst vegna þess að hann viðurkennir að síðustu daga hafi veðrið bara verið nokkuð gott - sem gluggaveður - þótt gert hafi frost, eins og hann segir. (Síðustu dagar hafa  vissulega  verið sólríkir  í  Reykjavík). Ansi mikið finnst mér annars hafa verið gert í fréttum úr þessum næturfrostum sem komu á einstaka stað, þessum gamalkunnu frostastöðum þar sem stundum frýs um hásumarið, í björtu hægviðri í langvinnri þurrkatíð. Það er út af fyrir sig ekki sterkt merki um haustlega tíð en einmitt þannig hefur þó oft verið lagt út frá þessu á netsíðum.

Víkverji spyr hvað sé eiginlega að frétta af hlýnun jarðar og hvað sé málið með þetta kalda sumar.

Svarið er auðvitað það að sumarið hefur alls ekki verið kalt eftir júní. 

Í lokin heldur Víkverj að sumrinu hafi kannski bara verið frestað þar til á næsta ári.

Ég efast um að þá verði endilega mikið hlýrra og betra.

Og þá komum við einmitt að aðalatriðinu í veðurrausi þessu sem líta má á sem eins konar andsvar  og virðingarvott við veðrurraus Víkverja!

Síðustu sumur, reyndar ótrúlega mörg, hafa verið svo óvenjulega hlý, bæði í heild og  margir einstakir mánuðir, að flestir nema flón ættu að gera sér  ljóst að þess sé ekki að vænta að þannig verði bara sumrin áfram von úr viti, að þetta sé hið venjulega íslenska sumar. Engan ætti því að undra þegar svo eitthvað slaknar á hlýindunumm og þau færist nær meðallagi en þó ekki nauðsynlega alveg að því.  Menn hljóta að búast við því. 

Gróðurhúsaáhrifin halda svo sínu striki um allan heim.  Þau  eru ef til vill einhver miðvirkandi áhrifavaldur um okkar hlýindi en fyrst og fremst virðist vera um einhverja náttúrulega - eða kannski öllu fremur mjög ónáttúrulega - sveiflu að ræða og er hún sannarlega umhugsunarefni.

Og hún þarf reyndar ekki neitt að vera búin. Þetta sumar æpir engan vegin með stórum stöfum: NÚ SÝNIR ''SUMARKULDINN'' AÐ HLÝINDASYRPAN ER Á ENDA! Þvert á móti eru hlýindin enn þá á heilmiklu blússi þó þau séu að vísu ekki alveg jafn geggjuð og undanfarin ár. En  það hafa samt verið hlýindi yfirleitt á landinu í sumar eftir júní en ekki kuldatíð.  Ef svalviðrin í júní væru meira og minna enn viðvarandi (reyndar virðast sumir telja sér trú um að svo sé) væri hægt að segja að kalt sumar hafi verið og breytt hefði stórlega um veðurtakt. En svo er bara ekki. Það hafa samt orðið vissar breytingar en þær réttlæta ekki harðindahjal. 

Hvað sem síðar verður. 

Fylgiskjalið vaktar veðrið áfram, á blaði eitt fyrir Reykjavík og landið, blaði tvö fyrir Akureyri. 

Það er eitthvað undarlegt að gerast rétt einu sinni með hámarksmælingar í Reykjavík á kvikasilfursmnælinum. Í gær var hámarkið frá kl. 9-18 talið 16,0 stig og í dag 15,7 þó sjálfvirku mælararnir og líka á flugvellinum hafi gefið upp miklu lægri tölur.  

Gott væri svo að athuganir frá Teigarhorni, næst elstu veðurstöð landsins, færu aftur að birrtast á vefsíðu Veðurstofunar en þaðan hefur ekkert komið frá sumarsólstöðum. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sýnið nú veðuráhugann í verki

Markaðsstjóri Austurlands vildi í frétt í gær fá fleiri veðurstöðvar á austurlandi. Í þessari frétt , sem bloggfærslan tengir við, kemur fram að þær kosti nú sitt og það hindri Veðurstofuna í að fjölga þeim.

En ég veit um ágæta lausn á þessu máli. Hún felst einfaldlega í því að sveitarfélögin kaupi  fyrsta flokks veðurstöðvar í sína byggð en þær væru svo reknar af Veðurstofunni.

Ýmis fyrirtæki á markaðnum, einmitt í ferðaþjónustunni, gætu líka lagt sitt af mörkum.  Sum eru víst að græða heil ósköp. Þeim myndi nú ekki muna mikið um að spandera í nokkrar veðurvélar - sem fjærst öllum kuldapollum nátturlega en  þar á mót ofan í heitum pottum - sem myndi vakta góðviðrið nótt sem nýtan dag og trekkja að glás af ríkum ferðamönnum. Þeir sýndu þá góðviðrisáhugann í verki. 

Ef þessir aðilar fást hins vegar ekki til að gera þetta smáræði til að auka veðurhag landsmanna  og ekki síst sinna heimamanna geta þeir ekki kvartað yfir því að vanti fleiri veðurstöðvar.

Þeir ættu þá bara að hafa sig hæga.

En við fylgjumst með sumarhasarnum áfram í hinu sjóðheita fylgiskjali.

 


mbl.is Kostnaður of hár fyrir Veðurstofuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veðurstöðvar á austurlandi

Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands vill meina í þessari frétt  að þriðjungs fækkun ferðamanna sums staðar á austurlandi stafi af því að Veðurstofan hafi spáð svakalegra veðri en svo varð. Er þó veðrið oft allsvakalegt á austurlandi og drungalega Dalatangi syngur.

Hún er reyndar að tala um sjálfvirkar vélrænar spár. Þær eru auðvitað gagnlegar en alltaf er nú Veðurstofan að brýna fyrir fólki að gæta líka að nýjustu spám í útvarpi, sjónvarpi og netmiðlum sem bæta við þær sjálfvirku.

Ekki hef ég fylgst svo glöggt með spám eða hvernig þær hafa ræst en man þó vel hve spáin var góð fyrir austurlannd um veslunarmannahelgina. Enda þusti fólk á þetta skrall á Egilsstöðum og þetta eistnaflug -eða var það neistaflug- á Neskaupstað.

Nú er reyndar verið að kanna gæði veðurspáa fyrir Ísland, bæði innlendra og erlendra. 

En þessi markaðsstjóri hefur eflaust gert sjálf sína góðu könnun. Ég trúi því ekki að hún hlaupi með kvartanir í fjölmiðla nema hafa þetta allt á hreinu. Í Morgunblaðinu segir hún að kuldapollur sé á Egilsstaðaflugvelli sem ekki sé inni í Egilsstaðabæ og stafi hann af framkvæmdum á Kárahnjúkum sem hafi kælt vatnið. Oft muni tveimur eða þremur stigum á hita á flugvellinum og í bænum. 

Það er reyndar merkilegt athugunarefni hvort breyting á vatninu í Lagarfljóti hafi breytt veðurfari á svæðinu. 

Ég styð markaðsstjóra austurlands annars eindregið í því að þörf sé á  fleiri veðurstöðvum á austurlandi, þar með talið einni í Egilsstaðabæ - sem lengst frá leginum svala.

Það vantar líka sjálfvirkar stöðvar á Úthéraði. Eina vil ég fá á Eiðum, aðra á svæðinu kringum Hjaltastað.

Ég heimta líka sjálfvirka stöð á Skriðuklaustri.

Já og í Skriðdal, til dæmis þar sem einu sinni var mönnuð veðurstöð, í Birkihlíð. 

Nú, þá væri ekki úr vegi að fá veðurstöð á Sleðbrjót í Jökulsárhlið og aðra á Jökuldal, einhvers staðar á milli Fossvalla og Brúar. 

Niðri á fjörðum krefst ég þess skilyrðislaust að fá öfluga veðurvél í Borgarfirði eystra og aðra ekki lakari inni í Seyðisfjarðarbæ, en ekki þarna uppi í fjallinu þar sem nú er alltaf verið að mæla tveimur til þremur stigum lægra en í bænum. Ég vil líka flytja þokubrælustöðina í Neskaupstað lengra inn í bæinn þar sem hitarnir koma almennilega. Auk þess fer ég fram á að fá veðurstöð við Kirkjuból inni í dalnum. Það gæti jafnvel orðið talsvert hitamál fyrir mér!

Loks heimta ég veðurstöð, jafnvel mannaða með einvalaliði, á Ásunarstöðum í Breiðdal þar sem 35 stiga hitinn lofar að koma í fyllingu tímans þegar 1939 bylgjan snýr aftur. 

Hof i Álftafirði og Stafafell í Lóni mættu svo alveg fylgja með.

Ef þetta verður allt að veruleika efast ég ekki um að einmuna veðurblíða mun ríkja eftir það um gjörvallt austurland. Og tala ferðamanna mun rjúka upp úr öllu valdi. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is „Ekki eins svakalegt“ og veðurspá gefur til kynna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ýkjur um veður

Framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla segir að sé ''brjáluð blíða'' á Dalvík núna. Ekki er veðurstöð á Dalvík en á Hámundarstaðahálsi, skammt frá, en reyndar í 103 m hæð, hefur hitinn  varla farið upp fyrir 12 stig. Á Eyjafjarðarsvæðinu utanverðu hefur verið gola af hafi í dag og svona 11-13 stiga hiti. Það er svona þolanlegt um hásumarið og alls ekki fram yfir dæmigert meðalástand. Að kalla það ''brjálaða blíðu'', sem á víst að merkja alveg sérdeilis mikla veðurblíðu, eru vægast sagt ýkjur. Það er eiginlega merkingarleysa. En ef hefði verið 20 stiga hiti hefði þetta orðalag alveg gegnið.

En svona ýkjur mótshaldara útihátíða um veður mega heita regla. Aldrei geta þeir skýrt frá veðri á sæmilega hlutlægan og skilmerkilegan hátt.  Þeir segja t.d. aldrei: það er  hafgola og nokkuð skýjað en sér þó stundum til sólar og 12 stig hiti. Nei, þeir þurfa alltaf að búa til glansmynd af veðrinu út fyrir allan raunveruleika. Það á víst að bæta ímynd viðkomandi útihátíðar. 

Ekki kaupi ég það athugunarlaust, fremur en ''brjáluðu blíðuna'',  að nú sé sólskin í ellfta sinn í röð á Fiskideginum. Hvað er til dæmis átt við með þessu orðalagi?  Að sjáist eitthvað til sólar eða alltaf hafi verið glaðasólskin? Ellefu skipti í röð! Það er á móti öllum líkum. 

Ef einhver skyldi svo freistast til að halda að þessi ellefta meðferð á veðurfari eigi að sýna hvað alltaf sé sólríkt fyrir norðan þá er það óhagganleg staðreynd að sól skín á sumrin meira í Reykjavík heldur en fyrir norðan.

Vel á minnst. Í Reykjavík fór fram gleðiganga í dag í alveg snarbrjálaðri blíðu. Sólin skein bara alveg og skein allan guðslangn daginn og hitinn var 15-16 stig á mælum Veðurstofunnar.

En við höfuðstaðabúar erum nú svo sem vanir slíku og þurfum ekki að búa til neinar glansmyndir. Bara telja fram beinharðar staðreyndir!

 


mbl.is „Brjáluð blíða á Dalvík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tuttugu stig í Reykjavík

Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði! Komst ekki hitinn í nákvæmlega tuttugu stig í höfuðborginni á kvikasilfursmæli þó ekki sæi til sólar. Á sjáfvirka mælinum fór hitinn í 20,2 stig. Á flugvellinum fór hitinn í 20,7 stig, 20,7 á Þyrli og 20,4  í Straumsvík. Hlýjast á landinu varð 20,9 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi.

Annars kom þetta svo sem ekkert sérstaklega á óvart. Hlýtt loft er yfir landinu og áttin hagstæð fyrir okkur hér á vesturlandi.

Fáir dagar eru jafn sjarmerandi eins og góðviðrisdagar snemma í ágúst og jafnvel enn fremur þegar skýjað er en glaðasólskin. Þá er svo mikil blómleiki og fylling í náttúrunni. 

Við suðurströndina hellirigndi. Í Vík í Mýrdal mældust 40,5 mm kl. 18 frá því kl. 9 í morgun. 

Kannski að við fáum nú tólf stiga ágúst að meðalhita ofan í öll ''harðindin''! 

Og ef ég á má kalla fram æði sérvitrinslega veðurnostalgíu minnir þessi dagur mig sterklega á 5. ágúst 1969! Þá komst hitinn í 19,9 stig í ekki ósvipuðu veðri, þó suðlægara væri, og var það dagshitamet hámarkshita fyrir Reykjavík sem nú var þá slegið. Varla er þó von til þess að meðalhitadagsmetið verði slegið.

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband