Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs
15.11.2011 | 16:10
Hitamet eða einhvers konar svindl í Reykjavík?
Í morgun klukkan 9 sýndi kvikasilfurshámarksmælir í Reykjavík 13,3 stig. Það er þá nýtt hitamet í nóvember. Mest hefur áður mælst 12,6 stig 19. nóvember 1999. Lesið er á þessa hámarksmæla tvisvar á sólarhring. Klukkan 18 og er þá lesinn mestur hiti sem mældist frá því klukkan 9 um morguninn og svo er lesið klukkan 9 að morgni og er þá skrráður mesti hiti sem mældist frá klukkan 18 daginn áður. Reglur Veðurstofunnar kveða á um að hiti sé skráður á þann dag sem lesið er jafnvel þó mesti hitinn hafi t.d. mælst í raun rétt eftir klukkan 18 daginn áður. En ekki telur anarkistaveðurbloggsíða eins og Allra veðra von sig bundna af þessum reglum og reynir hvað hún getur, þó ekki sé það alltaf auðvelt og án þess að gera of mikið veður út af vafa sem stundum verður, að meta hvorum megin miðnættis hæsti hiti hefur mælst ef morgunhámarkið kl. 9 er hærra en dagshámarkið kl. 18 daginn áður.
Klukkan 18 í gær var hitinn í Reykjavík 11,5 stig en hámark lesið af kvikasilfursmæli 11,9 stig. Á föstum athugunartímum á þriggja tíma fresti eftir kl 18 náði hiti aldrei 11 stigum á kvikasilfursmælinum sem er reyndar annar mælir en hámarkshitamælirinn. En svo voru þessi 13,3 stig á hámarksmælinum kl. 9.
Lítum þá á sjálfvirku mælana sem mæla alveg stöðugt hámarkshita. Frá því á hádegi í gær hefur sjálfvirki mælirinn í Reykjavík ekki sýnt hærra en 11,8 stig og var það á milli kl. 14 og 15 í gær og aftur milli kl. 16 og 17 en eftir klukkan 18 hefur hann ekki farið hærra en 11,4 stig og var það milli klukkan 18 og 19. Búveðurstöðin í Reykjavík hefur frá því um hádegi í gær sýnt mest 11,7 stig milli klukkan 16 og 17. Á sama tíma var Reykjavíkurflugvöllur með sitt hámark, 12,1 stig. Korpa hefur farið mest í 11,9 stig frá hádegi í gær og var það á milli klukkan 16 og 17.
Er von að maður spyrji hvort taka eigi þá mark á þessari hámarksmælingu kvikasilfursmælisins upp á 13,3 stig sem hlýtur þá að hafa komið einhvern tíma eftir klukkan 18 í gær.
Þetta skipti kannski allt saman litlu máli ef ekki væri beinlínis um algjört mánaðarmet að ræða.
En úr því svo er gæti þetta ekki verið meira pirrandi!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 21.11.2011 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.11.2011 | 13:38
Hitamet í Stykkishólmi og víðar
Veðrið sem var að ganga yfir hefur valdið nokkrum vonbrigðum hvað hitann varðar þó útlitið hafi verið efnilegt. Hiti fór óvíða í neinar sérstakar hæðir.
Og þó! Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði fór hitinn i 20,6 stig. Það er mesti hiti sem nokkru sinni hefur mælst í þeirri sveit í nóvember og kemst héraðið þar með í hinn fámenna, eða öllu heldur fástöðva tuttugustiganóvemberklúbb, Nóvember Hall of Fame! Þar voru fyrir Sauðanesviti, Dalatangi, Seyðisfjörður og Neskaupstaður.
Kannski er enn merkilegra að hitamet var slegið á elstu veðurstöð landsins, Stykkishólmi, þar sem hitinn fór í 12,5 stig en 12,8 á sjálfvirka mælinum. Í um 150 ár hefur sem sagt aldrei komið þar eins mikill hiti í nóvember. Gamla metið var 11,9 stig frá þeim sjöunda 2003.
Ekki margt merkilegra hefur verið í fréttum í dag.
Í Hrútafirði kom met, 14,2 stig á Reykjum, en svo mikill hiti hefur aldrei áður komið í Hrútafirði í nóvember. Mælingar ná nokkuð langt aftur en hafa verið á ýmsum stöðum.
Met var sett í Hjarðarlandi í Biskupstungum, 12,0 stig, gamla metið var 10,6 frá þ. 6. 1995 en mælingar eru frá 1990.
Metjöfnun var í Stafholtsey í Borgarfirði, 12,5 stig, og Ásgarði í Dölum 12,0 stig. Mælingar frá 1988 og 1992.
Ýmislegt annað um þetta veður geta menn lesið - með áfergju - í pistlum bloggbræðranna Trausta og Einars.
Aðrar stöðvar með einhverja ára mælingasögu á kvikasilfursmæla blanda sér ekki í metabaráttu. Og veldur norðurland sérstaklega miklum vonbrigðum.
En þetta er samt merkilegt, ekki síst Stykkishólmsmetið, og kannski best að éta ofan í sig fyrri digurbarkalegar yfirlýsingar um almenn veðurómerkilegheit nóvembermánaðar.
Það er náttúrlega ekkert annað en svæsin mánaða-rasismi!
Leiðrétting: Auðvelt að misstíga sig í miklu talnaflóði, þessi hiti í Stykkishómi á kvikasilfursmælinum var reyndar metjöfnun en ekki nýtt met, sami hiti mældist 19. nóvember 1999.
Náttúruleg leiðrétting: Stykkishólmur er alveg staðráðinn í að losa sig við gamla metið svo það fari ekki á milli mála. Hann setti nýtt met í dag, 13,0 stig á kvikasilfrinu en 13,7 á sjálfvirka mælinum. Keflavíkurflugvöllur var með 13,5 stig sem er met en ég trúi bara ekki alveg á þessa tölu. Þessi stöð hefur verið með nokkrar hásprengdar og ótrúlegar hámarkshitatölur á kvikasilfrinu undanfarið sem ríma engan veginn við sjálfvirku mælingarnar, ekki ólíkt því sem Reykjavík var með um tíma í sumar. Aðrar rótgrónar kvikasilfursstöðvar eru ekki með nein met. Á Sámsstöðum mældust á sjálfvirkri stöð 14,9 stig sem er hátt yfir kvikasilfursmetinu 12,5 stig frá þ. 6. 1947. Þingvellir voru að mæla 13,2 stig en gamla kvikasilfursmetið var 11,6 stig frá þeim tíunda í þeim æsiþrungna hitamánuði 1945.
Ef ég dett ekki dauður niður eða verð brotthrifinn til frelsunar á himnum mun birtast hér á morgun harðsvíraður pistill um hlýjustu nóvembermánuði, svo langur og leiðinlegur að hann er alls ekki fyrir viðkvæma eða taugaveiklaða! En þá geta menn séð hvernig almennilegir nóvembermánuðir haga sér. Og svo er bara að sjá hvort okkar nóvember muni á endanum komast í Nóvemberfrægðarhöllina með þeim eða verður bara sjálfum sér og þjóðinni til ævarandi smánar og skammar.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 15.11.2011 kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.11.2011 | 19:36
Nóvember
Því er ekki að leyna að mér finnst persónulega nóvember kannski sviplausasti mánuður ársins veðurfarslega.
Hann á samt sínar merkilegu stundir. Bæði góðar og vondar.
En við vonum að nú verði mikill hasar! Fylgiksjalið stendur sína pligt.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 8.11.2011 kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2011 | 01:21
Ótrúlegt úrkomumet
Október hafði það af að verða yfir meðallagi 1961-1990 að hita bæði í Reykjavík og Akureyri og vera svona nokkurn veginn í hlýskeiðsmeðaltalinu 1931-1960. Þetta sést nánar í fylgiskjalinu.
Öllu merkilegra er það að þessi október var æði votur og virðist hafa sett nokkur yfirgengileg úrkomumet. Þar ber fyrst að nefna Æðey í Ísafjarðardjúpi. Ég sé ekki betur en úrkoman þar sé 300 mm en meðaltalið er um 78 mm. Þetta er þá úrkomusamasti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst á staðnum en mælingar hófust í nóvember 1953. Þetta er eiginlega ótrúlegt met!
Önnur stöð með langa mælingasögu (frá 1948), sem virðast hafa sett nýtt allsherjar úrkomumet, er Hraun á Skaga. Grímsstaðir virðast svo hafa sett úrkomumet fyrir okótber.
Það er ekki á veðurfarsöfgarnar logið!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.10.2011 | 13:00
Staðan í október
Þegar tveir þriðju eru liðnir af október er meðalhitinn lítið eitt yfir meðallagi í Reykjavík en vel yfir því á Akureyri. Á öllu landinu er hitafrávikið fremur í ætt við Akureyri en Reykjavík. Sem sagt vel hlýtt. Úrkoman er um það bil að komast upp í meðaltal alls mánaðarins í Reykjavík en er komin langt upp fyrir það á Akureyri. Votur mánuður það sem af er.
Þann 13. var jafnað hámarkshitamet dagsins á landinu, 18,0 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði en þess ber að gæta að ýmsir dagar hafa náð hærri hita um þetta leyti árs og síðar þó ekki hafi það fallið á þessa dagsetningu. Það sem af hefur lágmarkshiti á landinu aldrei nálgast dagshitamet.
Skaflinn í Esju hvarf þá aldrei.
Gott hjá honum!
Meðalhiti fyrstu níu mánuði ársins er 0,7 stigum lægra en í fyrra í Reykjavík en má þó heita í meðallagi síðustu tíu ára og auðvitað langt yfir því meðallagi sem við er miðað, 1961-1990, eða næstum því 1,2 stig og 0,6 stig yfir meðaltali hlýindatímabilsins 1931-1960.
Það er því ekki vegna harðinda sem skaflinn hvarf ekki!
Allir eru þessir veðurleyndardómar mánaðarins í hinu ábúðarfulla fylgiskjali.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 1.11.2011 kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.10.2011 | 20:21
Fyrstu næturfrost í Reykjavík
Í nótt mældist fyrsta næturfrostið á þessu hausti í Reykjavík, -2,5 stig. Síðasta frost í vor var 21. maí. Frostlausi tíminn var því 141 dagur. Það er reyndar tveimur dögum skemur en meðaltalið frá 1920 sem er 143 dagar.
Enn hefur ekki mælst frost á suðausturlandi, syðst á landinu og á stöku stað við sjóinn annars staðar.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 21.10.2011 kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.10.2011 | 12:57
Október
Í nágrannalöndnunum byrjaði október með methita.
Ekki mundum við nú slá hendinni á móti því að slíkt myndi gerast hér líka næstu daga.
Það er til dæmis brýnt að nýtt og sómasamlegt hitamet verði sett í Reykjavík, svo sem sautján stig.
Hið opinbera októbermet fyrir borgina er hin ámáttlega tala 15,7 stig frá 1958. Og þegar á það er litið að þessi hiti mældist alls ekki í október heldur kl. 18 síðasta dag september, þá verður októbermetið beinlínis vandræðalegt og hallærislegt.
Það verður að slá þetta met.
Þess vegna fylgjumst við nú í fylgkiskjalinu með árangri þessa októbers sem miklar vonir eru við bundnar.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 9.10.2011 kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.10.2011 | 17:21
Sólríkasta sumar í Reykjavík síðan 1929
Sumarið sem nú er liðið, júní til september, reynist vera hvorki meira né minna en fjórða sólríkasta sumar sem mælst hefur í Reykjavík en þær mælingar ná yfir hundrað ár.
Sólskinsstundir voru 836 en meðaltalið 1961-1990 er 612. Þetta jafngildir meira en 22 dögum með tíu klukkustunda sól framyfir meðallagið.
Það er varla að maður trúi sínum eigin augum.
Tveir mánuðir af fjórum ná inn á topp tíu listann fyrir sólríkustu mánuði, júní nr. 7 og september sem krækti í að verða fikmmti sólríkasti september. Allir sumarmánuðirnir voru yfir meðallagi hvað sólskin varðar.
Þetta er þá sólríkasta sumar síðan 1929. Langflestir borgarbúar hafa því aldrei lifað annað eins.
Og hvað eru menn þá að kvarta yfir þessu sumri en sá söngur hefur verið svo að segja linnulaus í allt heila sumar hjá mörgum.
Reyndar voru líka allir mánuðurnir í Reykjavík yfir meðallagi hitans 1961-1990 og allir nema júní yfir meðalagi góðærisáranna 1931-1960.
Samt hefur sumarið ekki orðið kaldara síðan 2005, bæði í Reykjavik og yfir allt landið. En það er alvarleg villa að kalla þetta kalt sumar. Síðustu sumur hafa verið mjög afbrigðilega hlý. Meðalhitinn í Reykjavík sumarið 2011 er þrátt fyrir allt 1,2 stig yfir meðallagi. Aðeins 16 sumur hafa verið hlýrri en 2011 í Reykjavík frá 1866, þar af sjö á þessari öld. Yfir landið held ég að ein 27 sumur hafi verið hlýrri en þetta eins og ég reikna þau.
Á Akureyri rétt skriður hitinn yfir meðallagið í sumar. En yfir það samt! Ekki er hægt að tala þar um kalt sumar eftir júní sem reyndar var alveg hryllilegur.
Hitinn á landinu í sumar held ég að sé alls staðar yfir meðallaginu 1961-1990, þegar upp er staðið, nema þá einna helst á Fljótsdalshéraði.
Það er einhver forskrúfun komin í Gagnatorgið. Ef maður ætlar t.d. að slá upp sólskini í einum mánuði, eins og ég reyndi í dag með september, kemur bara upp ein síða, með þrettán fyrstu dögunum og ómögulegt að fletta neitt eins og alltaf hefur verið hægt. Flettingartakkarnir eru óvirkir. þetta hefur staðið í nokkra daga. Nú er þetta gagnslausa torgið.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 4.10.2011 kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2011 | 14:07
Haustjafndægur
Í dag eru jafndægur að hausti. Þá er sólargangur jafn langur allst staðar á jörðunni eins og kunnugt er. Það er þó ekki fyrr en á mánudaginn sem sólargangur í Reykjavík verður minni en tólf stundir.
Og sólinni þykir nú gaman að skína. Ef ég hef ekki ruglast í ríminu er þessi september þegar kominn í tíunda sæti yfir sólríkustu septembermánuði í Reykjavík og við það að komast upp í það níunda þó enn séu 8 dagar eftir af honum. Það verður gaman að sjá hver lokastaðan verður.
Enn er hitinn víðast hvar á landinu yfir meðallagi en það gengur nokkuð á það nú með degi hverjum. En það gæti nú breyst.
Viðbót 24.9.: September í Reykjavík er nú kominn upp í 8. sæti yfir sólríkustu septembermánuði.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 30.9.2011 kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2011 | 14:37
Undarlegt veður
Eftir að umskiptin urðu í veðrinu þann sjöunda hafa allir dagar á Akureyri verið fyrir neðan meðallag í hita.
Fyrstu dagarnir voru það líka í Reykajvík en þeir tveir síðustu hafa verið vel yfir meðallagi. Þeir hafa líka verið sólríkir með svölum nóttum, en þó frostlausum, en furðu miklum síðdegishita, 15,5 stig í gær.
Loftið yfir suðvesturlandi er mjög þurrt eins og veðurfræðingar vorir hafa tíundað í bloggum sínum og þetta mistur er einkennilegt til að sjá.
Mér finnst vera einhver hamfarablær á þessu öllu saman og ég veit um fleiri sem finnst það. En ég er reyndar mjög útsettur fyrir katastrófupælingar!
Tilveran er ein allsherjar katastrófa!
Ætli Katla sé annars ekki að undirbúa sig á fullu!
Hvað um það þá hangir meðalhitinn enn yfir meðallagi á Akureyri og er vel yfir því í Reykjavík. Og nú er von á veðurbreytingu með skýjaðra veðri og úrkomu. Þá hækkar næturhitinn og eflaust meðalhitinn líka víðast hvar.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 14.9.2011 kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006