Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
27.12.2006 | 18:19
Gunnar og Þórbergur
Á jóladag var þáttur í Ríkisútvarpinu um Gunnar Gunnarsson í umsjá Eiríks Guðmundssonar. Birt voru gömul samtöl við skáldið og nokkrir menn sögðu frá kynnum sínum af Gunnari og verkum hans. Sigurjón Björnsson fyrrverandi prófessor, sem skrifaði um Gunnar bókina Leiðin til skáldskapar, sagði að Gunnar væri djúpur höfundur sem gæfi lesandanum mikið ef hann gætti þess að fyllast ekki þunglyndi.
Þetta eru orð að sönnu. Ég var 18 ára þegar ég las ritverk Gunnars í heild. Og ég varð alveg heillaður. Fyrir utan Fjallkirkjuna var ég sérstaklega hrifinn af bókunum Vargur í Véum, Strönd lífsins og Sælir eru einfaldir. Síðast talda bókin er eitt mesta meiststaraverkið í íslenskum bókmenntum og nokkra áratugi á undan sínum tíma. Hún fjallar í rauninni um það hvernig hægt er að lifa af í guðlausum og ráðvilltum heimi þar sem öll gildi eru hrunin, stef sem varð sterkt í bókmenntum heimsins eftir síðari heimstyrjöld. Vikivaki er líka nútímalegt verk og frumlegt með afbrigðum. En Gunnar er óneitanlega "tyrfinn" og "þungur" oft og tíðum.
Bók Halldórs Guðmundssonar, Skáldalíf, um Gunnar og Þórberg er unaðslegur lestur. Honum tekst blátt áfram að gera bókina spennandi. Hvað gerist næst í lífi þessara ólíku manna? Og hann ber svo fallega virðingu fyrir listinni og gerir sér svo góða grein fyrir því að þeir sem skapa miklar bókmenntir eru margbrotnir menn og ekki allir þar sem þeir eru séðir.
Því verður ekki á móti mælt að Gunnar Gunnarsson er nú ekki mikið lesinn hér á landi, hvað þá í Danmörku þar sem hann var áður stórstjarna. Greining Halldórs, sem hvergi er þó skipulögð en kemur fram svona hér og hvar, held ég að fari langt með að skýra hvers vegna þetta er svo. Hann segir eitthvað á þá leið að Gunnar hafi í rauninni verið nítjándu aldar maður (fyrir utan, tel ég, svokallaðar stríðsárabækurnar sem að ofan voru taldar) og hugarheimur hans hafi verið orðinn hálf framandi mönnum þegar milli stríða, hvað þá eftir hamfarir seinni styrjaldarinnar, auk þess voru sumar fyrri bækur hans hálfgerðar afþreyingarbækur, hann skorti mjög stílsnilld, málsgreinar í textanum eru þungar og flóknar og hann býr ekki yfir þeirri fyndni sem nútímmamenn geta hreinlega ekki án verið í brjáluðum heimi. Þetta er sem sagt skoðun Halldórs.
Það vantar eiginlega einhvern demón í Gunnar til að hann hrífi okkur nú. Það eru örlög bóka, líka góðra bóka, að þokast inn í myrkrið, verða söguleg gögn fremur en uppspretta lifandi gleði og ánægju nema fyrir sérstaklega bókhneigt fólk.
Það segir sína sögu um það hve listrænn áhugi fyrir Gunnari er nú orðinn lítill að það var orðrómur um það hvort til hafi staðið að veita honum nóbelsverðlaunin sem gerði hann allt í einu að umtalsefni meðal þjóðarinnar. Það var ekki að menn uppgötvuðu einhverja nýja vídd í bókum hans, eitthvað sem okkur hafði yfirsést en skiljum nú að hafi eitthvað mikið að færa okkar, nei, það var bara þessi Nóbelsverðlaun. Og allir vita það núna að þó Gunnar hafi verið mikill höfundur var Halldór Laxness bara miklu meiri höfundur.
Samt getur verið að tími Gunnars komi aftur til vinsælda. Það sem gerir bestu bækur hans merkilegar er heiðarleg glíma hans við hvað það er að vera manneskja í heiminum og mikið innsæi í samspil manns og náttúru, nokkuð sem nú á dögum er ekki svo lítið umhusunarefni. Kannski mun tími Gunnars aftur koma fyrir þetta. En "ólæsileiki" bóka hans vinnur samt gegn honum.
Það hjálpar hins vegar Þórbergi, fyrir utan það að hann er náttúrlega Þórbergur, skemmtilegri en allir aðrir, að hann er að koma fram í nýju ljósi sem maður er átti eiginlega tvöfalt líf, annars vegar var hann meistarinn sem breytti íslenskum bókmenntum hins vegar ríðarinn mikli sem skildi eftir sig slóða, að því er virðist, af lausaleikskrógum úr um öll nes og eyjar.
Það er sannarlega margt sem rannsaka þarf um líf og list Þórbergs. Halldór drepur á ýmislegt og vekur mikla forvitni. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að þjóðin fari að átta sig almennilega á þessum undarlega manni, þessum mesta stílsnillingi íslenskra bókmennta fyrr og síðar.
Tvö síðustu bindi Íslensku bókmenntasögunnar hef ég líka verið að lesa. Menn hafa verið að krítisera þessar bækur fyrir það að fjalla ekki nógu mikið um bókmenntakenningar á tuttugustu öld. Það er eflaust áhugavert viðfangsefni. En bókmenntasagan er auðvitað ætluð fyrir venjulegt bókhneigt fólk en ekki fræðimenn og þó um hana megi deila og eigi að deila held ég að hún bregði upp nokkuð samfelldri mynd af því sem bókagrúskarar vilja vita um nýliðna öld, helstu höfunda og verk þeirra. Kaflinn um leikbókmenntir er t.d. líklega eitthvert lengsta og umfangsmesta lesmál um það efni sem menn hafa séð. Það mætti nú alveg hrósa þessu mikla verki meira en gert hefur verið.
Eina bók enn hef ég lesið um jólin. Það er Stelpan frá Stokkseyri, saga Margrétar Frímansdóttur eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur. Bókin er læsileg og skemmtileg en sá pólitíski heimur sem Margrét lýsir er mér framandi og ekki sérlega geðfelldur. Bók þessa á ég reyndar áritaða frá sjálfum höfundinum með "sumri og sanasól". Þess vegna á ég bókina og hún er á heiðursstað í bókahillunni.
Sú var tíðin að ég var óskaplega pólitískur og var vinstrisinnaðri en andskotinn og allir hans árar. En það er nú liðin tíð. Pólitík fæst um ytri völd og áhrif. Nú hef ég bara huga á því að ná smávegis valdi yfir sjálfum mér. Ég á því láni að fagna að líf mitt hefur orðið betra með ári hverju þó ekki hafi blásið byrlega fyrsta aldarfjórðunginn.
Með sama áframhaldi verð ég örugglega kominn í banastuð þegar ég ligg banaleguna.
Eftirmáli: Hysterískir aðdáendur mínir, sem hafa fjölgað sér alveg stjórnlaust um jólin, virðast sumir taka grafalvarlega stjörnugjöf mína upp á 50 hneykslunarstjörnur fyrir eina bíómynd í bloggfærslunni um kvikmyndir. En þetta var nú bara heiðarlegt djók. Viðkomandi mynd er alveg frábær. Vinkona mín ein, stór og stælt og borubrött mjög, sveik mig reyndar um að sjá myndina með mér. Og ég segi nú bara: Gvöði sé lof! Ég hefði ekki orðið eldri ef ég hefði séð þessa 50 hneyklsunarstjörnu mynd með henni! En hún ætti samt alls ekki að missa af myndinni þó Siggi sanasól sé búinn að sjá hana!
Bækur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.12.2006 | 16:00
Aðfangadagshitamet bæði í Reykjavík og á öllu landinu!
Í morgun, einhvern tíma fyrir kl. 9, komst hiti hærra en hann hefur áður gert nokkru sinni á aðfangadag í Reykjavík, 10,1 stig, og á öllu landinu frá a.m.k. 1933, 15, 2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Gamla metið var 9,5° í Reykjavík frá 1934 en á landinu lágkúruleg 12,1° á Seyðisfirði 1957.
Á jóladag í fyrra mældist mesti jóladagshitinn í Reykjavík nokkru sinni, 10,1 stig. Það koma því tvö jól í röð með afbrigðilega háum hita. Gróðurhúsáhrifin?!
Veðurfar | Breytt 30.10.2008 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2006 | 18:35
Hugarburður eða forspá?
Nú er hreinlega ekki hundi út sigandi. Ég hef líka haldið mig heima og tekið til fyrir jólin. Er búinn að kaupa flestar jólagjafirnar og klára það sem eftir er á morgun ef ég dett þá ekki steindauður niður í miðjum klíðum.
Hef svo verið að athuga jólaveðrið síðustu þrjú hundruð árin og vona að ég geti sett eitthvað um það inn á síðuna fyrir jólin. Ég ímynda mér að hinir tíu réttlátu veðurdellumenn í landinu gætu haft af því gagn og gaman.
Landlæknisembættið hefur kunngert rannsókn sína á elliheimilinu Grund vegna frásagnar tímaritsins Ísafoldar. Í ljós kemur að hún á sér nær enga stoð. Hvað er eiginlega að fjölmiðlum upp á síðkastið? Þurfa þeir að ganga af göflunum til að trekkja að athyglina?
Stemningin í náttúrunni og þjóðfélaginu núna er eiginlega hálf katastrófuleg.
Og það er eins og eitthvað enn þá meira liggi í lævi blöndnu andrúmsloftinu. Úff! Hvað ætli það geti verið?
Það skyldi þó aldrei vera hugarburður minn sem smitast hefur af fjölmiðlafárinu og náttúrlega öllum þessum vindgangi.
Já, svo var ég næstum þvú búinn að gleyma aðalatriðinu. Sauðanesviti setti enn eitt hitadagsmetð í dag, vippaði sér léttilega í 15.7 stig en til eru ár í Reykjavík þar sem hitinn fór aldrei svo hátt. Eru þetta hin svokölluðu gróðurhúsáhrif? Eða hvað?!
Bloggar | Breytt 5.12.2008 kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2006 | 20:10
Hitametið fauk
Jú, jú, dagsmetið í hita á kvikasilfursmæli fauk í dag. Á Sauðanesvita mældist 14,2 stig og hefur ekki mælst hærri hiti 19. desember á landinu síðan 1933 að minnsta kosti. En næstu dagsetningar hefur þó mælst 15 stiga hiti stöku sinnum áður. Það getur sem sagt orðið svo hlýtt á þessum árstíma. En það getur ýmislegt skeð enn í þessum bransa á næstu klukkustundum.
Veðurfar | Breytt 6.12.2008 kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2006 | 11:31
Fellur hitamet dagsins?
Mestur hiti sem vitað er til að hafi mælst þennan dag eftir 1949 á kvikvasilfursmæli er 14,0 stig. Það var á Seyðisfirði árið 1972.
Það er enn von. Dagurinn er hálfnaður. Kannski fellur löggilta dagshitametið. Mestur hiti sem mælst hefur í öllum desember er aftur á móti 18,4 stig. Það var á Sauðanesvita þ. 14. árið 2001.
Hér á Allra veðra von hlægjum við nú bara að skíðafíflunum og hvítjóladýrkendunum en styðjum hitabylgjuna mjög eindregið.
Veðurfar | Breytt 6.12.2008 kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2006 | 23:47
Að rétta við kompásinn
Hingað komu í heimsókn í dag gríslingar tveir, fimm ára stelpa og þriggja ára strákur og einn pabbi með þeim. Þau sungu jólalögin; Jólasveinar einn og átta, Bráðum koma blessuð jólin, Adam átti syni sjö og margt fleira en ég spilaði með þeim á mitt píanó. Svo varð ég að þykjast vera draugur og setja upp ógurlega grímu og elta gríslingana út um allt húsið með hávaða og bölvuðum látum. Það var nú meira andskotans vesenið. Krakkarnir alveg skíthræddir og orguðu og veinuðu af spenningi en ég fékk næstum því hjartastopp. Þá tók ég niður grímuna og varð alveg grímulaus. Fór þá að kárna gamanið heldur betur og flúðu gríslingarnir húsið skömmu síðar í fylgd föður síns.
Þá brá ég mér í bæinn og keypti jólagjafir handa þessum gríslingum. Þetta er fyrsti dagurinn sem ég hef haft einhverja tilfinningu fyrir því að helvítis jólin væru að koma.
Blessuð jólin ætlaði ég að segja og börnin hlakka mikið til. Ég hlakka hins vegar mest yfir því að það verða örugglega rauð jól og allir verulega fúlir yfir því nema ég.
Ég horfi bara á ríkissjónvarpið endrum og sinnum en ekki aðrar stöðvar en yfirleitt eyði ég kvöldunum í göfug viðfangsefni fjarri heimsins glaumi, eins og til dæmis það að lesa veðurskýrslur, helst frá síðustu öld, sem ég tel hiklaust bestu bókmenntir sem hægt er að lesa. Veðurlíf er miklu meira spennandi en eitthvað skáldalíf.
Jæja, nú er ég farinn að bulla. En það er kannski sára saklaust.
Verra ef ég væri farinn að sulla alla daga og orðinn svo fjósruglaður að ég þyrfti að fara í fantalega meðferð til að rétta við kompásinn.
Ég | Breytt 5.12.2008 kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2006 | 11:02
Frostið 23,5 stig við Mývatn
Milli klukkan 22 og 23 i gærkvöldi fór frostið á sjálfvirku veðurstöðinni við Mývatn í 23,5 stig og er það mesti kuldi á landinu sem mældist síðan síðdegis í gær og fram á morgun. Næst kaldast varð í Möðrudal -22,5 stig og síðan á Brúarjökli -22,1 stig. Við Kárahnjúka, Kolku, á Mývatnsöræfum og Torfum í Eyjafjarðardal var frostið nett 20 stig. Það er athyglisvert að á Möðrudalsöræfum varð frostið ekki meira en 14 stig og á þeirri veðurathugunarstöð sem hæst liggur, Gagnheiði í 949 metra hæð yfir sjó, var aðeins 10 stiga frost. Í nótt komst hitinn í Vestmannaeyjabæ aftur á móti í notaleg 3,5 stig. Þar fæddist ég í þennan heim og er því ekki að furða þó ég hati mikinn kulda.
Það tók mig hálftíma að leita þessi frost uppi.
Veðurstofan, hvergi bangin, gefur upp á heimasíðunni í yfirliti sínu hinu alræmda, og það var líka lesið í veðurfréttunum klukkan 10, að mesta frost á landinu á láglendi hafi verið -20,0° á Torfum en á fjöllum -16,1 í Möðrudal og næst mest -14,8° á Kárahnjúkum.
Ég skal segja ykkur það!
Annars á maður víst ekki að vera að brúka svona kjaft gegn jafn ágætri stofnun og Veðurstofan er.
En sannleikurinn gerir yður þó frjálsa eigi að síður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2006 | 18:07
Það sem máli skiptir
Skammdegið er fallegur árstími. Bæði í dag og í gær rölti ég eftir göngustígnum meðfram fjörunni við Sæbrautina. Það mátti heita logn, skýjað í gær en bjart í dag. Birtan á þessum árstíma er engu lík, ekki síst þegar fjöllin eru hvit en hafið ýmist blátt eða steingrátt. Alltaf eru fjöllin jafn falleg. Þau eru líka gömul. Þarna voru þau löngu fyrir Íslandsbyggð og þau munu vera áfram löngu eftir að mannlifið er horfið. Samt eru fjöllin ekki eilíf. Þau munu líka hverfa eins og allt annað. Eftir nokkur miljón ár.
Hvaða máli skipir þá Björn Ingi Hrafnsson eða ég? Jarðsagan kennir manni hve mannlífið er hverfult gaman og svo er ekki einu sinni alltaf sérlega gaman.
Stundum þegar ég er á gangi úti við hætti ég alveg að hugsa. Hugurinn dettur í dúnalogn. Þetta varir ekki lengi, aðeins fáein andartök, í hæsta lagi svona hálfa mínútu. Samt eru þetta mínar bestu stundir. Þá er eins og ég eygi eitthvað sem er varanlegt, eitthvað sem hefur hvorki nafn né stund en ríkir eilíflega bak við fjöllin og bak við tímann.
Það væri gott að vera alltaf í þessu ástandi. Og til eru menn sem lifa þar stöðugt án þess að nokkur viti af því.
Það kemur ekki á forsíðu Fréttablaðsins eða Moggans fremur en annað sem máli skiptir.
Guð sé oss næstur | Breytt 5.12.2008 kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2006 | 18:03
Kvikmyndir sem ég hef séð síðan 1984
Hér er listi yfir allar kvikmyndir sem ég hef séð síðan haustið 1984 í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða á videói. Mér gengur sem sagt vel að tileinka mér bloggsiðina. Um að gera að fletja út egóið þar til það verður flatt eins og pönnukaka. Framan af setti ég leikstjóra myndanna með á listann en svo nennti ég því ekki lengur. Hins vegar gef ég öllum myndunum stjörnur. Það er nú ekki nákvæmt, sérstaklega á bestu myndunum. Mest eru gefnar fjórar stjörnur. Myndir sem mér finnst svo lélegar að þær eigi ekki skildar stjörnur fá töluna 0 en myndir sem mér finnst óþolandi fá töluna -1.
Ein mynd sker sig alveg úr. Henni verð ég nú bara að gefa 50 stjörnur. En það eru allt stjörnur í mínus. Hneyklsunarstjörnur!! (Nei, djók).
Kannski finnst einhverjum gaman að bera þessar stjörnugjafir mínar saman við sitt eigið mikilvæga álit um viðkomandi mynd.
Lengi framan af er þessi listi svo að segja tæmandi. Þetta voru myndirnar sem ég sá. En síðustu árin er listinn orðinn losaralegur. Þá vantar nokkrar myndir sem ég hef séð, jafnvel allmargar.
Þær myndir sem eru mér minnisstæðastar (ekki endilega þær sem mér finnst bestar) eru þessar:
- Vertigo. Þetta er svo seiðandi mynd. Einhver blær yfir henni. Og ég man svo vel árið sem hún var framleidd, 1958, og það er bara eins og maður sé kominn aftur í tímann.
- Bringing up Baby. Fyndnasta mynd sem ég hef séð. Þar leika Cary Grant og Katherine Hepburn.
- Ottó Nahyrningur. Yndisleg dönsk mynd. Fyrir þá sem eru börn alla ævi.
- Sigur viljans. Hræðileg áróðursfilma Lenu Riefensthal fyrir nasismann en algjört meistarastykki.
- Ástarsaga úr stríðinu. Rússnesk mynd sem minnir mig á hvað skiptir máli í lífinu. Lítt þekkt á vesturlöndum. Var oft sýnd hjá MÍR.
Mest óþolandi myndir sem ég hef séð:
- Groundhog day. Ég skil bara ekki hvað þessi mynd þykir skemmtileg. Ég fatta ekki húmorinn í henni og finnst hún meira en óþolandi. Samt er Bill Murray einn af mínum uppáhaldsleikurum.
- The Blair Witch Project. Ekkert spennó og ekkert hrylló.
- Armageddon. Ekki orðum að henni eyðandi.
- Pearl Harbour. Ógeðsleg vella. En gamla myndin TORA TORA TORA um sama efni frá 1970 er frábær.
- 101 Reykjavík. Leiðinlegasta íslenska myndin sem ég þekki. Vona að bókin sé skárri.
Ég get víst sagt eins og Sif Friðleifsdóttir ráðherra myndi líklega segja að það væri ekki ónýtt fyrir einsögufræðinga framtíðarinnar að geta séð hvaða bíómyndir einn maður var að horfa á fyrir og eftir aldamótin 2000.
Og það er ekki að furða þó maður sé vitlaus að hafa nennt að horfa á öll þessi ósköp.
Kvikmyndir | Breytt 5.12.2008 kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2006 | 01:35
Einum of banalt
Það yrði alger martröð ef Draumalandið fengi íslensku bókmentaverðlaunin í flokki fræðirita. Með fullri virðingu fyrir þessari vinsælu en samt nokkuð umdeildu bók verður samt að gera þá kröfu til svona verðlauna að raunverulegt fræðilegt gildi bókanna ráði úrslitum, en ekki hvað þær hafa orðið mönnum notadrjúgar í þjóðfélagslegri umræðu sem er bara sjálfstæður kapituli út af fyrir sig.
Ef ég mætti ráða fengi bókin um íslensku hellana verðlaunin. Hún er alvöru stórvirki um málefni sem lítt hefur verið skrifað um. Brautryðjenda-og undirstöðuverk af besta tagi. En fólk myndi líklega fá algjört tilfelli ef bókin fengi verðlaunin. Hún er ekki um nógu vinsælt efni. Þess vegna finnst mér næstum því óhugsandi að útlutunarnefndin þori að láta hana fá hnossið. Bækur um náttúrufræði virðast líka alltaf falla í skuggann fyrir öllu þessu hugvísindajukki. Kannski væri best að stofna sérverðlaun um slíkar bækur svo þær eigi sjens yfirleitt eða hætta bara þessu verðlaunafargi. Ætli það verði ekki fremur Halldór með sína fínu bók um Þórberg og Gunnar sem fær verðlaunin núna eða þá Þórunn með bókina um höfund þjóðsöngsins. Og það væri vel hægt að sætta sig við að þessi ágætu rit fengu verðlaunin og reyndar líka Óvinir ríkisins.
En ég trúi því ekki fyrr en á reynir að Draumalandið fái þau.
Það væri bókstaflega einum of banalt ef við viljum taka þessi verðlaun fyrir fræðibækur alvarlega en ekki sem vinsældalista.
Bækur | Breytt 5.12.2008 kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006