Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ef Halldór Laxness hefði farist 1926

Í Ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson segir frá því að í desember 1926 hafi Halldór átt pantað far frá Akureyri suður með norska skipinu Balholm en missti af skipinu af einhverjum ástæðum en það fórst í ferðinni fyrir vestan land með allri áhöfn.

Íslensk menningarsaga hefði orðið öðru vísi og stórum fátækari hefði Halldór Laxness farist með skipinu. Hann var þá nýbúinn að skrifa Vefarann mikla frá Kasmír en bókin var enn ekki komin út.

Líklegt er að Gunnar Gunnarsson hefði verið talið helsta skáld þjóðarinnar ef Halldór hefði verið úr leik og skrifaði hann þó á erlendu máli sem hefði verið vandræðalegt. Þórbergur hefði aldrei verið talinn helsta skáldið af því að hann lagði stund á svo óhefðbundnar bókmenntagreinar.

Það má öruggt teljast að Íslendingar hefðu ekki enn eignast neitt nóbelsskáld.

Þegar Halldór er tekinn úr bókmenntum 20. aldar er augljóst að engin stórskáld á heimsmælikvarða voru önnur á þeim tíma.

Sjálfvitund okkar sem þjóðar væri bara allt öðru vísi ef Halldór Laxness hefði ekki misst af skipinu í desember 1926.

Það er stutt milli lífs og dauða og örlög manna og þjóða eru oft tilviljunum háð.  

Í ársyfirliti Veðráttunnar 1926 segir svo um vestanóveður sem gekk yfir landið 7. desember 1926: "Sjógangur var mikill þennan dag og stórflóð á Suðvestur -og Vesturl. ... Í þessu veðri fórst norska gufuskipið Balholm með 23 mönnum útifyrir Mýrum, fór frá Akureyri þ. 2., ætlaði til Hafnarfjarðar."

Fyrir neðan má sjá þrýstikort frá hádegi 7. desember 1926. Lægð undir 975 hPa er á norðvestur Grænlandshafi og hæð suður í höfum og veldur þetta  mikilli suðvestan- eða vestanátt.

Rslp19261207

 


Fyrsti haustsnjórinn í Reykjavík

Í morgun var jörð talin alhvít í Reykjavík í fyrsta sinn á þessu hausti og snjódýpt mæld 1 cm. Í gær var jörð flekkótt af snjó. Ekki mun þessi snjór standa lengi við og er líklega þegar horfinn. Á Keflavíkurflugvelli var snjódýptin 6 cm en 12 á Forsæti í FLóa og hvergi meiri á landinu.  

Ég spái aftakahörðum vetri með mikilli vesöld til sjávar og sveita. Mun sá vetur Lurkur annar kallaður verða í sveitum en Hreggviður annar í öðrum stöðum. Mun þá óátan mörg ill etin verða  og göróttir drykkir þambaðir ósleitilega úr matvöruverslunum. Mun vetur þessi því einnig Kári nefndur verða en Stútur af sumum.


Einföldum málin

Miklu einfaldara væri að leyfa ekki flugvélum sem vitað er að hafa verið í fangaflugi að lenda hér.
mbl.is Utanríkisráðherra: Leitað verði í fangaflugsvélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Night Music for Adults

Í dag spilar Sinfóníuhljómsveitin á náttfötunum og hvetur áheyrendur til að mæta á tónleikana á náttfötum.

Það verður spiluð næturmúsik og þetta er aðallega hugsað fyrir börn. 

Eins og allir vita gerir fullorðna fólkið ýmislegt á næturna annað en að sofa bara í náttfötum.

Nú bíðum við spennt eftir því að á næstu sinfóníutónleikum fyrir fullorðna leiki hljómsveitin villta næturmúsik en mæti á adams-og evuklæðum og áheyrendur geri slíkt hið sama.

Night music for adults. 

Svona er íslensk menning í dag.   

 

 


Nokkur úrkomumet októbermánaðar þegar fallin

Þótt enn séu nokkrir dagar eftir af mánuðinum er ljóst að nokkur úrkomumet í október á suður-og vesturlandi eru þegar fallin. Þar má nefna Kirkjubæjarklaustur, Vatnskarðshóla í Mýrdal, Andakílsárvirkjun í Borgarfirði og Ásgarð í Dölum. Sumar þessara stöðva hafa mælt í meira en hálfa öld.

Á Hveravöllum og Sámsstöðum í Fljótshlíð eru ekki lengur mannaðar veðurstöðvar en eftir sjálfvirku mælunum að dæma hefur þar rignt meira en nokkru sinni í október. 

Nokkrar stöðvar eru í stórhættu að falla, svo sem Stórhöfði í Vestmannaeyjum, Eyrarbakki - og  Reykjavík og meira að segja líka Kvísker í Öræfum, úrkomumesti staður landsins.

Allt verður þetta ljóst í mánaðarlokin.    


Nafnlausa bréfið og yfirlæknir lýtalækningadeildarinnar

Nafnlaust bréf sem sent var forstjórum Landsspítalans, heilbrigðisráðherra, landlækni, siðanefnd lækna og Læknafélagi Íslands hefur farið mjög fyrir brjóstið á bloggurum undanfarna daga. Þeir eru æfir yfir því að bréfið sé nafnlaust en hafa ekki gefið innihaldi bréfsins neinar gætur. Það er þó hið alvarlegasta í málinu.

Í bréfinu er minnt á það að yfirlæknir lýtalækningadeildar  hafi ekki lengur óflekkað mannorð í þeim skilningi sem krafist sé af yfirlæknum því hann hafi hlotið alvarlegan dóm í fyrra fyrir að hafa ásamt öðrum lækni valdið ungri og heilbrigðri konu sem kom til hans í brjóststækkun 60 % örorku og alvarlegum heilaskaða vegna þess að hjarta hennar stöðvaðist í miðri aðgerð með tilheyrandi súrefnisskorti.

Þetta eru staðreyndir málsins: 1. Samkvæmt starfsreglum Landsspítalans eiga yfirlæknar ekki  að hafa hlotið dóm. 2. Yfirlæknirinn hefur hlotið alvarlegan dóm. Þessi atriði hafa sína sjálfstæðu tilvist óháða öllum bréfum.

Í bréfinu er vakin athygli á því að það sé á ábyrgð stjórnar spítalans og læknisins sjálfs að hann láti af störfum.

Læknirinn er samt enn að störfum.  Forstjóri Landsspítalans, Magnús Pétursson, segir að mistökin komi spítalanum ekki við af því að þau voru gerð utan hans á læknastofu Domus Medica. Hér virðast menn hengja sig í formsatriðum eingöngu og horfa framhjá kjarna málsins. Það er óumdeilanlega sami maður sem var dæmdur og situr sem yfirlæknir á vegum spítalans.

Héraðsdómur Reykjavikur dæmdi lækninn sem sagt fyrir svo alvarleg "mistök" að hann var dæmdur   til að greiða 23 miljónir í skaðabætur.

Læknirinn unir dómnum en samkvæmt orðum lögfræðings Sjóvár-Almennra, Þóru Hallgrímsdóttur , í Morgunblaðinu 24. október viðurkennir hann ekki sök eða skaðabótaábyrgð en greiðir bæturnar af því að málið sé svo stórt og erfitt viðureignar og erfitt yrði að fara með það til Hæstaréttar. Þetta þýðir í reynd að verjendur telja fátt vera til varnar í málinu. Samt er sök neitað. Fram í rauðan dauðann.

Gáum nú vel að því að þegar dómi undirréttar er ekki áfrýjað stendur hann sem fullgildur lokadómur en ekki bara eitthvert annars flokks álit. Dómurinn dæmdi lækninn sannan að sök og til að greiða skaðabætur. Einkaskoðun læknisins um sakleysi sitt breytir ekki lögfullri sekt hans.

Þessi maður er samt enn yfirlæknir  á Landsspítalanum. Enginn sem valdið hefur þar á bæ gerir neitt í málinu annað en beita hártogunum um læknastofu úti í bæ.

Gáum nú að gerðum læknisins frá öðru sjónarmiði. Með því að neita sök en greiða konunni samt bæturnar gerir hann hana að gustukamenneskju. Bæturnar eru þá ekki réttur hennar heldur ölmusa. Með þessu lítilsvirðir læknirinn konuna og er þó raun hennar ærin fyrir.

Gáum loks að því að svo virðist sem tryggingarfélagið Sjóvá-Almennar greiði bæturnar en læknirinn standi fjárhagslega jafn sléttur eftir sem áður. Og hann situr enn í starfi þvert á starfsreglur spítalans.

Konan er hins vegar úr leik í lífinu og fær ekki annað tækifæri.

Morgunblaðið segir að félag lýtalækna beri fyllsta traust til yfirlæknisins. Enginn bjóst svo sem við öðru. En í rauninni er félagið þar með enn að þyngja raun konunnar með þeirri afstöðu.

Þannig standa þá málin.

Nú beinast öll spjót að stjórn Landsspítalans, heilbrigðisráðherra, Landlækni, Læknafélaginu og Siðanefnd lækna.


Dýradagurinn mikli

Í gær fór ég með Mala minn í geldingu og pestarsprautu nr. 2 hjá Dagfinni dýralækni. Ég fór með hann að morgni og skildi hann eftir mjálmandi og vælandi. Ég náði svo í hann síðdegis og var hann þá vægast sagt framlágur og lítill í sér. Hann skjögraði á fótunum og þegar hann ætlaði að stökkva upp á eitthvað dreif hann ekki hálfa leið og  þóttist svo á eftir bara eitthvað vera að huga að feldinum sínum til að draga athyglina frá aumingjaskapnum. Ég þurfti líka að halda á honum allan daginn og hann elti mig volandi um húsið ef ég sleppti hendinni af honum. Tvisvar kastaði hann upp. Og hann var nú ekki meiri bógur en svo að hann var skíthræddur við æluna úr sjálfum sér, setti hreinlega upp fádæma aumkunarverða kryppu.  

Það olli mér þungum áhyggjum að hann, sjálfur Malinn, malaði ekki neitt allan daginn eftir að hann kom heim úr geldingunni. Hann stóð sem sagt engan veginn undir nafni.

Og skyldi kettinum ekki leiðast að láta steingelda sig.  

En í morgun hefur Mali engan bilbug látið á sér finna. Hann er þegar búinn að velta um nokkrum blómapottum og eyðileggja mörg blöð úr prentaranum mínum en það er hans uppáhalds hryðjuverk. Svo er hann að rífa og tæta allt annað líka sem hann nær í. 

Og svo malar hann og malar eins og honum sé borgað fyrir það með rækjum og túnfiski.

Í gær leit ég við hjá kunningja mínum en tíkin hans var að gjóta tveimur hvolpum. Þeir eru blindir og út úr heiminum og ekki sjón að sjá þá. En mamma þeirra var eins og drottning, stolt, vitur og yfirveguð. Hún og Mali eru orðnir ágætir vinir. 

Dagurinn í gær var sem sagt dýradagurinn mikli.


Friðbjörg og Gudda graða

Mér hnykkti við þegar ég las lýsingu Halldórs Guðmundssonar í bókinni Halldór Laxness á bæjarbragnum í Reykjavík um aldamótin 1900. Íbúarnir hafi verið sex þúsund en aðeins tveir lögregluþjónar. Allt hafi verið í hershöndum ef erlend skip með fjölmenni lágu í höfn og síðan segir bókarhöfundur og það var setningin sem mér brá í brún yfir enda kemur hún nánast eins og skrattinn úr sauðarleggnum:

" Lögreglumennirnir hafa hugsanlega þurft að takast á við skækjurnar tvær, þær Friðbjörgu og Guddu gröðu, sem Þórbergur Þórðarson og Stefán frá Hvítadal segja að hafi verið við störf í bænum árið 1906." (Bls. 15).

Frá þessum konum segir Þórbergur í smábókinni Í Unuhúsi sem hann hefur eftir Stefáni en konur þessar voru viðloðandi húsið. Þar segir fullum fetum að þær hafi verið "opinberar skækjur" sem er auðvitað mjög ónákvæmt orðalag. Hvað felst í slíkri staðhæfingu? Sumar frásagnirnar af Friðbjörgu eru næsta krassandi í meðförum skáldsnillinganna Þórbergs og Stefáns. Þar er til dæmis sagt frá Jóakim sem var með lekanda og læknir bannaði öll afskipti af kvenfólki en svaf þó hjá Friðbjörgu í Unuhúsi á hverri nóttu. Ekki virðist það hafa kallað á nein viðbrögð frá gestgjafa né gestum gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og lá þó lagaskylda við. Þar er líka sagt frá Hermanni nokkrum Rúti sem hafði króað Friðbjörgu af úti í horni, hélt pilsum hennar uppi undir höndum og þæfði hana upp við annan gluggakarminn. Hún æpti og kallaði á hjálp. Þegar menn komu að sleppti nauðgarinn stúlkunni og sagði". Helvítis mellan vill ekki lofa mér það". Og Þórbergur bætir um betur með  ritsnilld sinni: "Rölti Friðbjörg síðan niður." Stefán segir um Friðbjörgu að hún hafi verið vínhneigð og orðið fyrir ástaróláni "enda var hún döpur í bragði og leið auðsjáanlega illa. " Hún komst eitthvað í kast við lögin fyrir hnupl. 

Una sagði um þær stallsystur Friðbjörgu og Guddu að "þær höguðu sér líkast veslings hundunum og svona manneskjum væri ekki viðbjargandi." En ekkert er haft eftir Unu um þá karlmenn sem notfærðu sér lánleysi þessara kvenna sem líklega voru niðurbrotnar manneskjur og önnur að minnsta kosti alkóhólisti, en meðal ríðaranna hafa ef til vill verið einhverjir af þeim andansmönnum sem stunduðu Unuhús og með fullri vissu, samkvæmt frásögn bókarinnar, einn guðfræðingur sem átti kannski eftir að verða þekktur prestur og mikill kennimann. 

Friðbjörg fór einn dag alfarinn úr Unuhúsi og fara ekki af henni meiri sögur.

En ég hef verið að hugsa um þessar konur sem dúkka svona óvænt upp í ævisögu nóbelsskáldsins. Þær voru raunverulega manneskjur en ekki bara nöfn í bókum.   

Hver var uppruni þeirra? Voru þær dætur betri borgara? Eða ólust þær upp í örbirgð? Hver varð þeirra ævisaga? Meiri fengur fyndist mér reyndar í henni en ævisögu nóbelsskáldsins. Hvernig var menntunarstig þeirra? Hvernig var gáfnafarið og geðfarið? Getur verið að þær hafi átt við þroskafrávik eða geðræn vandkvæði að stríða eins og sagt er nú á dögum? 

Var einhver sem elskaði þessar konur? Urðu þær svo mikið sem einn dag virðingar aðnjótandi frá samborgurum sínum? Skipti guð sér nokkuð af þeim?

Var Gudda graða nokkuð graðari en þeir andans jöfrar, skáld og kennimenn, sem notfærðu sér hana?  

Hvenær dóu þessar konur? Hvar eru þær grafnar?

Skyldi þeim nokkru sinni hafa órað fyrir þeim meinlegu örlögum að nöfn þeirra ættu eftir að verða ódauðleg með því að tengjast nokkrum helstu ritsnillingum þjóðarinnar á afar lítilsvirðandi hátt!  

Þetta voru nokkrar af þeim hugsunum sem fóru í gegnum huga minn þegar ég las þessa einkennilegu athugasemd í Ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson.

 

   


Biblían er apókrýfísk

Jæja, þá er biblían orðin apókrýfískt rit eins og hún leggur sig. Eftir nýju þýðingunni að dæma!

Það var nú svo sem bara tímaspursmál að hún yrði það. Hún er alveg ónýt.

Apókrýfísk!

 

 


Það er eitthvað að þessum mönnum

Það er ekkert nema hneyksli að heilbrigðisráðherra skuli ætla að greiða atkvæði með því að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum. Hann neitar, eins og margir aðrir, að horfast í augu við þann einfalda sannleika að því auðveldara sem aðgengi  er að áfengi því meira er drukkið af því og því meiri líkur, sterkar meira að segja, eru á því að heilbrigðisvandi tengdur áfengisdrykkju aukist í landinu og er hann þó ærin fyrir.

Það veður núna uppi mikil og vaxandi áfengisdýrkun. Allir þykjast vilja berjast gegn vímuefnum en vímuefnið áfengi er meðhöndlað sem nauðsynjavara með sunnudagssteikinni. Svo er málið sett upp þannig að misnotendur áfengis séu bara fáeinir rónar "sem koma óorði" á göfugt vínið þó langflestir alkar séu ekki rónar og stundi vinnu og allt hvað þetta hefur en eitra samt allt í kringum sig.

Meðal annarra orða: Því ekki að gera hass og kókaín löglegt og selja það í matvöruverslunum?

Þessi vímuefni valda minni skaða í samfélaginu en áfengi og skiptir þá engu máli hvort um létt vín eða sterka drykki er að ræða.

Það er ekkkert nema alkarök að það sé nauðsynlegt að menn fái að njóta þeirra þæginda að geta keypt léttvín með sunnudagssteikinni í matvöruverslun andspænis því að slíkt mun nánast  örugglega auka áfengisvandann. Er þetta svona mikið mál að hafa léttvæg fínheit við matborðið (sem reyndar hefur aldrei verið siður meðal Íslendinga nema hjá þeim sem nota hvert tækifæri til að komst í áfengi) andspænis þeirri mannlegu ógæfu sem má bóka að aukast mun í landinu vegna þessa léttúðuga sællífisdekurs og alahólistadraumóra?

Það er bara eitthvað að þessum  heilbrigðisráðherra og stuðningsmönnum hans á Alþingi.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband