Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ef ég fengi slag

Þá vildi ég drepast sem allra fyrst. Á því eru mjög góðar líkur. Ég bý einn og væri líklega búinn að liggja marga daga áður en einhver kæmi að mér. Ef ég væri þá enn á lífi væru mögulerikarnir til að ná sæmilegum bata líklega að engu orðnir.

Og ekki vildi ég vera lamaður hálfviti  það sem eftir væri ævinnar.

Ef svo ólíklega skyldi vilja til að ég væri enn þokkalega með lífsmarki eftir að ég fyndist en kannski lamaður og mállaus myndi mér ekki finnast taka því að fara í einhverja endurhæfingu. Miklu nær væri að fyrirfara sér.

Ég veit líka að ég myndi ekki fá neinn stuðning "fjölskyldunnar" því hún fyrirfinnst ekki.

Mikið eru svo þessi eilífu heilsufarsátök orðin óþolandi. Það er ekki hægt að opna Morgunblaðið án þess að þar sé ekki heilaslagsdagur, alzheimersdagur, hjartadagur, blöðrudagur, beinþynningardagur, endaþarmsdagur, krabbameinsdagur, gigtardagur eða ég veit ekki hvaða andskotans dagur.

En allir daga taka enda, Og þetta endar allt á einn veg: Við deyjum. Og hvað er svona voðalegt við það?

 


Kirkjan h/f

Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra segir að það sé enginn þörf fyrir kirkjumálaráðherra því Þjóðkirkjan sé orðin svo sjálfstæð gagnvart ríkinu að ráðherra kirkjumála hafi ekki lengur neitt hlutverk.

Gott og vel!

Göngum þá skrefið til fulls. Aðskiljum ríki og kirkju formlega og alla vega. Ríkið hættir þá að dæla peningum í kirkjuna. Hún fjármagnar sig þá bara sjálf og þiggur einkaframlög.  

Nú er tækifærið. Leggjum niður Þjóðkirkjuna, nafnið og alles. 

Stofnum hlutafélagið Kirkjan h/f. Það mun áreiðanlega leiða til þess að laun biskups verða fjórfölduð.

Þá fer hann kannski að tala af meira viti sem því nemur. Allir munu græða gífurlega.

Stjórnarformaður Kirkjunar h/f verður svo náttúrlega engin annar en hann guð.   


Hugsað upphátt

Benazir Bhutto þakkaði guði fyrir að hafa verndað sig. Ætli hún þakki líka guði fyrir hina 136 sem hann verndaði ekki og létust í tilræðinu sem beint var gegn henni?

Í fréttum Ríkissjónvarpsins kom fram að danskir lögregluþjónar hafi undantekningarlaust, þrjátíu sinnum, verið sýknaðir um eitthvað saknæmt þegar þeir hafa skotið menn til bana.

Segir þetta okkur eitthvað?   


Þetta er ranglæti

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur skilað skýrslu til nefndar sem hefur eftirlit með því hvernig samningi Sameinuðu þjóðanna gegn grimmilegri meðferð er framfylgt á Íslandi. Í dag skrifar framkvæmdastjóri skrifstofunnar grein í 24 stundir og segir meðal annars.

"Í skýrslunni vöktum við athygli á máli konu á Selfossi sem kærði það að lögregla tók með valdi þvagsýni úr henni með þvaglegg. Við teljum það áhyggjuefni að ríkissaksóknari taldi málið ekki gefa tilefni til opinberrar rannsóknar ... . "Þvagleggsmálið" hefur leitt í ljós að nauðsynlegt er að setja samræmdar reglur um sýnatöku lögreglu en ég er sammála þeim alþingismönnum sem telja að banna eigi alfarið að nota þvaglegg til að þvinga ökumenn sem grunaðir eru um ölvun til að gefa þvagsýni. Mér er til efs að það samræmist siðareglum heilbrigðisstarfsfólks að taka sýni úr skjólstæðingum gegn vilja þeirra til að ná fram gögnum vegna lagabrota. Með þessu er heilbrigðisstarfsfólki gert að ganga erinda ákæruvaldsins... ."

Mannréttindaskrifstofan telur að mannréttindi hafi freklega verið brotin á konunni og verknaðurinn geti jafnvel talist ómannleg og vanvirðandi meðferð. Í umræðum á Alþingi nýylega fordæmdu margir þingmenn þessa sýnatöku, þeirra á meðal einn læknir, og þingmenn væru ekki að semja reglur um sýnatökur ef þessar aðfarir á Selfossi hefðu ekki gengið fram af þeim

Orð Mannréttindaskrifstofunnar um heilbrigðisstarfsfólkið eru mjög í anda þess sem ég skrifaði um þetta mál á sínum tíma hér á síðunni. Ríkissaksóknari vísaði frá kæru konunnar um kynferðisofbeldi en hún átti vitanlega fremur að kæra lækninn fyrir rangt læknisverk, en sýslumaður fullyrti að læknir hafi verið viðstaddur en það merkir í raun að hann var læknisfræðilega ábyrgur fyrir sýnatökunni og þar með fyrir því að vanvirða sjúklinginn og ganga erinda ákæruvaldsins gegn honum í þeirri vanvirðu.

Það er með ólíkindum að nafn læknisins  skuli aldrei hafa verið gefið upp, ekki til að vanvirða hann (þó hann mætti alveg mæta afleiðingum gerða sinna) heldur til að gefa fullyrðingu sýslumannsins fótfestu. Það er satt að segja ekki hafið yfir allan vafa að nokkur læknir hafi verið viðstaddur. Það er hreint ótrúlegt að samfélagið skuli ekki hafa krafist þess að þetta mál væri alveg hreinsað út. 

Og hver trúir svo á réttlætið í landi þar sem sýslumaðurinn þarf ekki standa neinum ábyrgð á mannréttindabroti sínu og hælir sér nánast af framgöngu sinni? Hann sýnir hins vegar brotamönnum í sínu umdæmi líklega enga miskunn.

Þetta er ranglæti.


Methiti á Vopnafirði

Í morgun klukkan níu var 20 stiga hiti á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og hafði fyrr um morgunin komist í 20.2 stig.  Sjálfvirka veðurstöðin á staðnum var búin að mæla 20.6 stig. Aldrei hefur mælst 20 stiga hiti á Skjaldþingsstöðum í október síðan mælingar hófust þar árið 1994 en hins vegar hafa mælst 21.4 stig í kauptúninu á Vopnafirði, þ. 7. árið 1992. 

Hitinn  núna er mesti hiti sem mælst hefur á landinu 19. október frá upphafi hitamælinga. Gamla metið var 19.2 á Dalatanga frá 1962. Lesið veðurdagatalið fyrir október sem nýkomið er á þessa síðu og hafa þessar síðustu upplýsingar þegar verið settar þar inn. Þetta er samt ekki mesti hiti sem búast má við eftir árstíðinni því 22.1 stig mældist á Dalatanga 26. október 2003 (22.6 á sjálfvirku stöðinni) og reyndar 22.7 stig þar 12. nóvember 1999! 

Mesti hiti í öllum október á landinu mældist á Dalatanga þ.1 árið 1973, 23.5 stig.   

Ekki er líklegt að það met verði slegið í dag en það er samt aldrei að vita.

 


Álit vísindamanns

Vísindamaður einn lét þau orð falla við mig í dag að það að láta Al Gore og loftsslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna deila með sér Nóbelsverðlaununum væri svona álíka eins og ef Alþjóða heilbrigðisstofnunin og Michael Crichton hefðu fengið Nóbelsverðlaunin saman í læknisfræði, sá síðarnefndi fyir Bráðavaktina.

 


Nostalgían

Íslendingar voru að tapa 3:0 í landsleik gegn dvergríkinu Lichtenstein. Maður er farinn að sjá 14:2 tapið í rómantískum hyllingum sem glæsiskeið íslenskrar knattspyrnu.

Þar gerðum við þó heil tvö mörk gegn alvöru landi. 

En við lítum samt á bjartari  hliðarnar. Við gleðjumst innilega yfir sigri dvergríkisins.

Við þekktum stöku sinnum þá sigurlgeði í gamla daga. Það er bara orðið æði langt síðan.

 


Einkennileg viðbrögð Silfurs Egils við nóbelsverðlaunum

Eins og allir vita fékk loftslagsnefnd SÞ nóbelsverðlaunin fyrir starf sitt. Þess vegna finnst mér einkennilegt að Silfur Egils skuli hafa kallað til Hannes Hólmstein Gissurarson af því tilefni. Reyndar er ég að sumu leyti sammála Hannesi í loftsslagsmálunum, en þarna þótti mér kjörið tækifæri til að kynna starf loftsslagsnefndarinnar fyrir almenningi af einhverjum sem vel þekkir til og hefur vísindalega þekkingu á viðfangsefninu. Veðurfræðingur hefði verið alveg sjálfsagður.

Egill Helgason gat ekki leynt ánægjusvip sínum yfir málflutningi Hannesar og er það svo sem gott og blessað. Mér var sjálfum oft dillað. En ég endurtek að mér finnst að kalla hefði átt til veðurfræðing og ræða málin á forsendum loftsslagsnefndarinnar að þessu sinni. Það var hún sem fékk nóbelsverðlaunin en ekki gagnrýnendur hennar.

Best af öllu hefði verið ef eitthvað af þeim eilifðartíma  sem enn einu sinni fór í þetta borgarstjórnardrama hefði farið í að ræða loftsslagsmálin í vitiborinni umræðu, bæði með og móti.  

 


Ólíku saman að jafna

Það er viðurkenning á starfi loftsslagsnefndar Sameinuðu þjóðannna að hún skuli hafa fengið friðarverðlaun Nóbels. Á starfi þessarar nefndar, réttara sagt vísindaritstjórn hennar, hvíla allar deilur og umræður um loftslagsmálin. Í þeim deilum, á báða bóga, er nú vægast sagt ekki öll vitleysan eins.

Ekki get ég samt séð hvað starf loftsslagsnefndarinnar kemur friði við. En það er gaman að eitthvað sem tengist veðurfræði skuli fá alheimsverðlaun. Hins vegar finnst mér Al Gore á engan hátt vera jafnoki þessarar nefndar í mynd sinni Óþægilegur sannleikur sem hann færi verðlaunin fyrir í reynd. Valið á honum finnst mér fyrst og fremst vera daður við tískuna. Það er sláandi við fréttaflutning af verðlaunaveitingunni og líka umfjöllun bloggara að nefndin er algjörlega í skugga Al Gore. Honum verður nú enn meira hampað en áður af ýmsum sem aldrei hafa haft minnsta áhuga fyrir loftsslagsmálum fyrr en pólitík hljóp í spilið en loftsslagsnefndin mun verða í skugga hans  áfram og starf hennar. Gátu þeir nú ekki sleppt Al Gore og leyft vísindanefndinni virkilega að njóta sín. En hann er frægur og umtalaður og á einkaþotu. Það á til dæmis John Houghton ekki sem er miklu betri og öruggari fræðari um gróðurhúsaáhrifin en Al Gore.  

Og nú er víst borin von um að Tómas Jóhannesson eða aðrir vari íslensku þjóðina gegnum vefsíðu Veðurstofunnar við gormæltri sjálfumgleði Al Gores og oft og tíðum hæpnum vinnubrögðum í þessari frægu mynd hans. Það er blettur á starfi Veðurstofunnar gagnvart almenningi hve hlutdræg hún var gagnvart þremur kvikmyndum um loftsslagsmálin sem sýndar voru á svipuðum tíma í Ríkissjónvarpinu.

En ég veit að þeir sem þar komu að málum, þó ég þekki þá alls ekkert, skella skolleyrunum við allri gagnrýni. Það hafa þeir sýnt í verki.  


mbl.is Al Gore og loftslagsnefnd SÞ hljóta friðarverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði verið nær

Hefði nú ekki verið nær að setja upp forláta veðurstöð í Viðey sem sæi alveg um sig sjálf fremur þessa friðarsúlu sem getur engan vegin séð um sig sjálf en alltaf þarf að vera að kveikja og slökkva á?!   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband