Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Misskipt veðurgæðunum

Þeim er misskipt veðurgæðunum. Í nótt voru mikil hlýindi á austfjörðum í vestanáttinni. Á Dalatanga lá hitinn í 13-14 stigum. Á sama tíma var 5 stiga frost í Róm í bjartviðri og eitthvað svipað í Aþenu í skýjuðu veðri. Snjóað hefur á Krít og þar hefur hitinn tímunum saman verið kringum 1-2 stig sem er sannarlega sjaldgæft.

Hvernig skyldi Zoa hafa það og Spottalingurinn að ekki minnist ég ógrátandi á aumingja Míó minn. 

Hæðin yfir V-Evrópu sem hér stuðlar að hlýindunum (ásamt lægð á Grænlandshafi) veldur norðlægum áttum frá Rússlandi yfir Grikkland og allt til Afríku en lægðasvæði yfir Tyrklandi hjálpar til. Í Istanbul er snjódýpt 12 cm.


Austurlensk tónlist

Þennan illviðrasama dag hef ég verið að víkka út kúltúrlegan sjóndeildarhring minn með því að hlusta á þokkaful smálög  eftir kínverska tónskáldið Cho Pin og japanska zen tónskáldið Mo Zart.


Af íslensku menningarástandi

Ekkert skil ég eiginlega í því að Myrkir músikdagar skuli vera haldnir þegar skammdeginu er lokið. Annars tala forsvarsmenn þeirra stundum eins og það sé enn skammdegi og rugla þá saman skammdegi og vetrarríki.

En skítt með það! Í kvöld fór ég á tónleika Myrkra músikdaga þar sem Sinfónían frumflutti tvær geggjaðar sinfóníur eftir íslensk tónskáld.

Salurinn var eiginlega tómur, varla meira en 300 manns af þeim kringum 1000 sem hann getur rúmað. Þar var því ekki mikið af fólki séð og heyrt.

Fyrstan skal þó frægan telja frænda minn Helga Hjörvar. Hann er mælskari en andskotinn. Það er ég líka þegar ég nenni á annað borð að halda ræður. Sveinn Einarsson leikhúsvitringur var líka. Og tónsnillingarnir John Speight og Atli Heimir. Og Thor í eigin persónu eins og skáldjöfur.

Og þá er eiginlega upptalið fræga og fína fólkið sem ég sá á þessum tónleikum.

Ef þessi Lay Low hefði verið á sviðinu, söngkonan sem lægst hefur lagst í íslenskri tónlistarsögu, hefði húsið líklega verið alveg troðfullt. 

Aðeins einn bloggari (ásamt lífverði sínum) var á staðnum enda eru þeir upp til hópa, bæði karlar og kvinnur, kúltúrlausir hálfvitar.

Þetta var nú skýrsla dagsins af íslensku menningarástandi.

Þakka þeim er lásu og veriði sæl að sinni.

 

 


Verjandinn fékk ekki svigrúm

Svo virðist eftir frásögn Fréttablaðsins að verjandi konunnar í hinu svokallaða þvagleggsmáli fyrir héraðsdómi Selfoss hafi ekki fengið eðlilegt svigrúm til að spyrja Ólaf Helga Kjartansson sýslumann vegna hroka hans og yfirgangs. Hann þykist geta sagt verjandanum fyrir verkum hvernig hann eigi að spyrja. Og það sem verra er: Héraðsdómarinn Ástríður Grímsdóttir virtist taka undir stæla sýslumannsins í einu og öllu og hótaði að fresta þinghaldi héldi verjandi áfram að spyrja eins og honum fannst nauðsynlegt. 

Sú spurning hlýtur að vakna hvort konan, sem er sakborningurinn í málinu, fái notið nokkurs réttlætis í þessu máli valdstjórnarinnar gegn henni. 

Sýslumaðurinn vildi að dómarinn skæri úr því hvort hann væri yfirheyrður sem vitni eða sakborningur. Auðvitað eru þetta bara látalæti og frekja. Hann veit vel að í þessu réttarhaldi er hann einungis vitni.

Hitt ætti hann að vita og gleyma því ekki að í hugum stórs hluta þjóðarinnar er hann sökudólgur og ruddi sem á fáa sína líka. Í athugasemd á blogginu hjá mér í gær lýsti Ásthildur Cecil Þórðardóttir framkomu sýslumannsins meðan hann var á Ísafirði. Sýslumaðurinn er það sem kallað er ofstopamaður og hefði fengið af sér hrikalegar lýsingar í gömlum annálum.

Það er svo einn af ögufsnúningum aldrarinnar að þessi maður af öllum skuli hafa verið skipaður í nefnd sem á að gera tillögur um skipan mála við sýnatökur í framtíðinni.

Það er engu líkara en valdstjórnin sé að ögra þjóðinni.

 


Þjóðskjölin á netið!

Í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi kom fram að Norðmenn geta skoðað þjóðskjölin sín á netinu. Þeir geta því m.a. grúskað í kirkjubókum og manntölum bara heima í stofu hjá sér.

Þessu er öðru vísi farið hér á landi. Menn verða að gjöra svo vel að arka á söfnin til að skoða manntölin en kirkjubækurnar sjálfar eru aðeins til á Þjóðskjalasafninu í Reykjavík. Ljósrit mormóna af þeim munu þó einnig vera til á einhverjum öðrum söfnum, en varla mörgum. Það er annars óþolandi að  eiga við þessar ljósmyndavélar. Helmingur tímans fer í vélavesen. Algjör martröð! Tvö íslensk manntöl er hægt að skoða á netinu á takmarkaðan hátt, árið 1703 og 1835. Menn verða að slá inn þröngum leitarorðum sem margir kunna áreiðanlega jafnvel engin skil á, svo sem mannanöfnum og nöfnum á hreppum árið 1703. Það er ekki hægt að fletta manntölunum síðu fyrir síðu eins og tímaritunum á Tímarit is. Þetta er þó nauðsynlegt því oft hafa mennn óljósar hugmyndir um það sem þeir eru að  leita að og verða að þreifa sig áfram, fletta fram og til baka í manntölunum. Það er með ólíkindum að safnið skuli ekki hafa áttað sig á þessu þegar það setti manntölin á netið. 

Ástæðan fyrir því að við getum ekki lesið þjóðskjölin okkar á netinu er sú að Þjóðskjalasafnið vantar mannafla sem kostar peninga til að vinna alla þá vinnu sem til þess þarf.

Hvernig væri þá að fjárveitingarvaldið bætti snarlega úr þessu? Það er sóað í annað eins.

Það er reyndar þjóðarskömm hvernig lengi hefur verið búið að Þjóðskjalasafninu. Oft hefur verið á það bent en enginn tekur við sér sem hefur vald til að bæta þar úr. Líklega þarf safnið að verða fyrir skemmdum, til dæmis að brenna til ösku, til að menn lyfti upp litla fingri til umbóta líkt og raunin varð með Náttúrugripasafnið.

Sú niðurníðsla sem Þjóðskjalasafnið er í lýsir auðvitað menningarástandi þjóðar sem á nóg af peningum og sukkar og svallar eins og henni væri borgað fyrir það, sem er víst tilfellið,  en skeytir lítið um undirstöður menningar sinnar.

Þetta nöldur minnir mig á það að Íslendingabók ætti að sjá sóma sinn í að opna aðganginn meira en raun er á. Hann er svo takmarkaður að það er óskiljanlegt, aðeins nánustu ættingja sína getur hver og einn skoðað. Það væri skárra að selja almennilegan aðgang í áskrift heldur en hafa þessa ómynd. Ekki þekki ég ástæðuna fyrir þessum hindrunum. Kannski Púkinn viti um þær!

Og þá kemur persónulega rúsínan í pylsuendanum.  Fyrir tíu árum rauk ég í það að rekja frændgarð minn, ættir frá öllum langalangöfum mínum og ömmum. (Dúkkuðu þar upp ýmsir furðulegir fuglar og kynjakvendi, sumir landsfrægir hálfvitar). Samtals átta ættbogum. Það var gaman en tók sinn tíma, nokkur ár og margar og þreytandi vinnustundir á þessu fáránlega Þjóðskjalasafni í  vélunum sem útheimta erfiðsvinnu til að snúa þeim með tilheyrandi vöðvabólgu. Einhver minni háttar atriði eru enn ófrágengin hjá mér, einkum með fólk sem fluttist til útlanda. Ég rakti líka framætt mína aftur til írskra konunga en þeygi þræla og ambátta.

Ég er sem sagt konungsborinn og hef blátt blóð í æðum. Framkoma fólks við mig, ekki síst hysterískra aðdáenda minna og kemmentara á blogginu, ætti að taka mið af því! 

Já, eitt nöldurefnið í viðbót: Þjóðskráin ætti endilega að setja íbúaskrár á netið. Ég skil ekki rökin fyrir því að hún hefur takmarkað aðgang að þeim á netinu frá því sem áður var en áfram er hægt að valsa um  þær allar í prentuðu útgáfunum. Rökin voru víst til að bægja frá auglýsendum eða eitthvað. En það væri hægt að opna með skilyrðum, t.d. fyrir þeim sem eru að rekja ættir manna. 

Þá hef ég loksins skrifað það sem mig hefur lengi langað til að koma á framfæri um Þjóðskjalasafnið, Íslendingabók og Þjóðskrána.  


Einu sinni, einu sinni enn

Í gær fékk ég athugasemd frá Hildigunni Rúnarsdóttur tónskáldi inn á bloggið mitt um það að mín væri saknað sem tónleikakrítikers. En gaman! Manns er bara saknað!

En þá get ég glatt hysteríska aðdáendur mína nær og fjær með því að ég mun krítisera í Fréttablaðið  tvær íslenskar sinfóníur sem fluttar verða á Myrkum músikdögum nú á fimmtudaginn. 

Þetta er svona sérverkefni en klassísk tónlistargagnrýni er að öllu jöfnu ekki birt í Fréttablaðinu. Þar veður hins vegar poppið uppi eins og reyndar alls staðar annars staðar.

Sem sagt: "Skemmtilegasti tónlistargagnrýnandinn" er að fara að leggja í hann "einu sinni, einu sinni enn".   

  


Er doktor Jósef Mengele endurborinn?

''Ökumaður ber lögregluna á Selfossi þungum sökum og segir hana hafa beitt sig ofbeldi við sýnatöku árla dags á föstudaginn. Hlaut maðurinn áverka vegna viðskipta sinna við lögreglu og hefur ráðið sér lögfræðing til að kanna stöðu sína. Vegna gruns um ölvunarakstrur stöðvaði lögreglan bíl mannsins. „Um leið og ég settist inn í   lögreglubílinn byrjuðu þeir að ausa yfir mig svívirðingunum og kölluðu mig hálfvita og aumingja," segir hann en viðurkennir að hafa ekið eftir að hafa drukkið tvö bjóra.

Þegar taka átti blóðsýni af manninum eftir að komið var á lögreglustöðina „Þá kom þarna einhver maður sem mér var sagt að væri læknir. Ég er mjög hræddur við nálar og bað því um að maðurinn framvísaði einhverjum gögnum til að færa sönnur á að hann væri læknir. Þá réðust skyndilega þrír lögreglumenn á mig og héldu mér á meðan þessi maður dró úr mér blóð." Manninum var  mjög brugðið en hann hlaut áverka vegna átakanna. „Þeir tóku mjög fast á mér en ég veitti enga mótspyrnu. Ég er rispaður og marinn eftir þá og get engan veginn sætt mig við þessa meðferð."

Það er ýmislegt athyglisvert við þessa frétt úr "24 stundum" í dag. Í fyrsta lagi að lögreglumennirnir skyldu byrja á því að ausa svívirðingum yfir manninn. Í öðru lagi að honum skyldi hafa verið haldið af þremur lögreglumönnum fyrir það eitt fara fram á það að læknirinn ávísaði einhverjum skilríkjum um það að hann væri í rauninni læknir.

Einmitt góður punkur. Við erum krafin um persónuskilríki af fulltrúum ríkisvaldsins í tíma og ótíma og er þá nokkuð athugavert við það að við förum fram á það sama þegar búningar gefa það ekki beinlínis til kynna að um fulltrúa ríkisvaldsins sé að ræða. Eða er það túlkað sjálfkrafa sem mótþrói  af lögreglunni ef maður í þessari stöðu fer fram á það sem hann gerði?

Og hver er þessi læknir? Er þetta sami læknirinn og tók þvagsýnið úr konunni á Selfossi í fyrra? Hvernig í ósköpunum getur hann fengið sig til að vinna læknisverk undir ofbeldi?

En það gildir það sama með þetta atvik og þvagleggsmálið. Fyrst af öllu á gera lækninn ábyrgan fyrir að framkvæma læknisverk með ofbeldi. Alltaf er ráðist á lögregluna sem fyrsta kost jafnvel þó um læknisverk sé að ræða. Læknirinn gæti alveg sagt: Herrar mínir! Við þessar aðstæður vinn ég ekki verkið. Eru læknar aumingjar sem engu voga sér gegn valdinu?

Hvernig stendur eiginlega á þessari linku sem höfð er við lækna sem gerast samsekir um ofbeldi í læknisverkum sínum? Þeir eru ábyrgir fyrir læknislega þætti verksins í svona tilvikum. Samt er aldrei hróflað við þeim og þeir þurfa ekki að standa við afleiðingar gerða sinna. Nöfn þeirra koma ekki einu sinni fram.

Eitt er eftirtektarvert við svona aðstæður. Ríkisvaldið hefur mörg vitni gegn einum borgara sem stendur alveg einn. Það getur því hagað sér eins og því sýnist. En ekki minnkar níðingsskapurinn við það. 

En ég endurtek: Hver er þessi læknir?

Veit nokkur það? Kannski dr. Jósef Mengele endurborinn?         


Mannskaðaveðrið mikla á Vestfjörðum 4. febrúar 1968

Í dag eru fjörtíu ár liðin frá einhverju mesta norðaustanveðri sem komið hefur á Vestfjörðum. Fórst þá togarinn Ross Cleveland í Ísafjarðardjúpi með allri áhöfn nema einum manni og auk þess vélbáturinn Heiðrún II frá Bolungarvík með sex manna áhöfn. Annar breskur togari, Notts County, strandaði við Snæfjallaströnd en áhöfninni var bjargað af varðskipinu Óðni. Einn maður dó af vosbúð.

Veður þetta minnti menn á hið fræga Halaveður í febrúar 1925 sem varð 68 mönnum að fjörtjóni.

Fyrst var talið að allir skipsverjar á Ross Cleveland hefðu farist á sunnudeginum. Svo var þó ekki. Einn maður bjargaðist, fyrsti stýrimaðurinn Harry Eddom. Björgun hans varð einhver mesti fjölmiðlaviðburður sem  þá hafði átt sér stað í landinu og varð fréttaefni um allan heim. Til landsins kom fjöldi breskra fjölmiðlamanna og æsiblaðið Sun borgaði far eiginkonu Eddoms til landsins og keypti einkarétt á frásögn stýrimannsins.

Hann hafði komist í björgunarbát ásamt tveimur öðrum skipsverjum þegar togaranum hvoldi vegna mikillar ísingar. Rak bátinn á land fyrir botni Seyðisfjarðar. Voru þá tveir skipsverjanna látnir. Stýrimaðurinn braust að húsi í talsverðri fjarlægð en það reyndist vera mannlaus sumarbústaður. Hafði hann ekki þrek til að brjóta upp húsið en tókst að hjara til morguns í skóli við það og næsta morgun varð drengur frá Kleyfum, bæ í næsta nágrenni, var við hann og leiddi hann til byggða. Það var ekki fyrr en á þriðjudeginum 6. febrúar. Fyrir fáum árum kom ég á blíðum sumardegi í flæðarmálið þar sem gúmbátinn rak að landi og greip mig þá einkenileg tilfinning. Hér er bresk frásögn um það þegar flak togarans fannst löngu síðar. Harry Eddom hefur ekki veitt nein viðtöl um atburðin nema við Óttar Sveinsson sem fjallaði um hann í bókinni Útkall í Djúpinu sem síðar var gefin út á ensku.  

Atangur hinna erlendu fjölmiðlamanna var slíkur að sjúkrahúsið á Ísafirði, þar sem Harry Eddom var lagður inn til aðhlynningar, mátti kallast í umsátri og lenti yfirlæknirinn beinlínis í handalögmálum við bresku fréttamennina.

Ross%20Cleveland 

Laugardaginn 3. febrúar var grunn lægð fyrir vestan land. Þá var allvíða snjókoma og hægur suðvestan vindur. Síðari hluta dagsins eyddist lægðin yfir norðvesturlandi en þá nálgaðist stormsveipur landið úr suðvestri. Hvessti þá mjög á norðaustan og norðan aðfaranótt þ. 4. Um daginn var lægðin við suðvesturland eða yfir því og kl. 6 mældist loftvægi í Reykjavík 952, 4 hPa. Olli lægðin fárviðri af norðaustan um vesturhluta landsins og var það talið með mestu veðrum sem komið hafði áratugum saman á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Urðu þar geysimiklir skaðar, bátar slitnuðu upp og skemmdust eða sukku, rafmagnsstaurar brotnuðu, línur féllu vegna ísingar og hvassviðris og fjárhús og skúrar fuku, járn af húsum og gluggar mélbrotnuðu. Veðrinu fylgdi mikil slydda eða snjókoma og feiknamikil ísing á norðurlandi og Vestfjörðum. Á norðanvestanverðu landinu var mikill kuldi. Þegar hvassast var mældu 43 veðurstöðvar tíu vindstig eða meira og næsta dag 29 stöðvar. Eftir það gekk veðrið niður. Á Galtarvita, í Æðey og á Hornbjargsvita voru skráð 12 vindstig eða fárviðri daginn sem togararnir fórust.

Hér má sjá Íslandskort frá hádegi 4. febrúar. Þar sést að á Gatarvita eru 11 vindstig en hvassara var þó í djúpinu. Einnig eru hér sýnd kort sem sýna loftþrýsting við jörð og hitann í kringum 5 km hæð á miðnætti 3.og 4. og 5. febrúar. Þar kemur fram litla vinalega lægðin við vesturland þ. 3 og síðan stormsveipurinn ógurlegi í öllu sínu veldi sem tókst á við geysimikla hæð yfir Grænlandi með skelfilegum afleiðingum. Loks er hér veðurkort úr Morgunblaðinu  frá veðrinu eins og það var kl. 11 (kl. 12 að núverandi tíma) 4. febrúar 1968. Þar er lægðin yfir suðvesturlandi, samskil yfir landinu og snjókomubelti yfir norðurlandi og Vestfjörðum.

Heimildir: Veðráttan og blaðafréttir.

1968-02-04_12

Rrea00119680203

Rrea00119680204

Rrea00119680204

Rrea00119680205

4.feb_68


Bolla, bolla bolla!

Á bolludaginn í fyrra var ég svo utan við mig að ég mundi ekkert eftir deginum fyrr en á öskudag og þá voru allar bollur bæjarins uppétnar. Ég hef síðan ekki tekið á heilum mér fyrir bollulhungri. En í dag ætla ég að bæta mér það upp. Ég er þegar búinn að kaupa extra margar og extra large bollur sem ég ætla að úða í mig klukkan fjögur með ilmandi kaffidrukk.  Svo keypti ég líka eina sannkallaða kanónbollu fyrir hann Mala.

Ég fer alltaf í Sandholtsbakarí á Laugavegi til að kaupa bollur og annað bakkelsi. Það hef ég gert í tuttugu ár. Margar sætustu stelpur bæjarins hafa afgreitt mig á þessum tíma. Sumar voru reyndar hálgerðar feitabollur. Og ekki eru þær minna sætar nú. Þær eru eru nefnilegar allar orðnar útlendar og framandi fínar og lekkert. Miklu sætari en þær íslensku.

Er það nokkuð andfeminískt og andþjóðernislegt að skrifa svona?

Íslenskar stelpur eru orðnar svo fínar með sig að þær vilja ekki vinna í bakaríi. Það hefur nú  komið á daginn að Íslendingar nenna ekki lengur að vinna öll þau störf sem nauðsynleg eru til að halda uppi einu þjóðfélagi.

Nú láta þeir útlendinga vinna skítverkin fyrir skítakaup meðan þeir græða sjálfir peningana.

Bráðum verður risin hér upp láglaunastétt útlendinga. Og þá verður tímaspursmál að komi til átaka milli þeirra og innfæddra. Þá mun brjótast út heiftarlegt útlendinga- og kynþáttahatur. Fínt fyrir margan landann að geta hefnt persónulegra og  félagslegra ófara sinna í lífinu á "hinum" - helvítis  útlendingunum.

Þegar þar að kemur ætla ég skilyrðislaust að standa með útlendingunum. 


Gleymdi einu

Um daginn þegar ég var að horfa á Kiljuna. Ég er sem sagt algjörlega ósammála Páli Baldvin um það að bækurnar um raunvísindin mættu missa sig, eða eitthvað í þá áttina,  í lærdómsritaflokki Bókmenntafélagsins. Mér finnst raunvísindabækurnar, Afstæðiskeningin eftir Einstein, Ljósið eftir Feynman, Ár vas alda eftir Weinberg og Saga tímans eftir Hawking, langbestu bækurnar, aðallega vegna þess að þær fjalla um eitthvað raunverulegt eftir bestu þekkingu eðlisfræðinnar.

Það sem segir í hugvísindabókunum, öll þessi hátimbraða heimspeki sem allir toga svo og teyga, finnst mér eiginlega annars flokks í eðli sínu.

Það má hins vegar ef til vill finna að því að gefa út með fárra ára millibili Uppruna tegundanna eftir Darwin og svo ágæta endursögn Þorvaldar Thoroddsen á þeirri bók. 

Dægilegt var svo að keppast við að skrifa um tónlist í gamla daga á DV undir menningaritstjórn Páls Baldvins. Enn þá dægilegra var þó að strita undir Tótu pönk eftir að hún varð menningarbossinn á blaðinu.

En þeir dagar eru liðnir og koma aldrei aldrei aptur.     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband