Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Blessun trúarinnar

Ég las í einhverju blaði að hinir kaþólsku foreldrar leikkonunnar frægu Heather Graham hafi algjörlega hafnað henni eftir að hún lék í þeirri átakanlegu mynd Boogie Nights sem fjallar um klámiðnaðinn.

Þetta voru foreldrar sem höfnuðu barni sínu fyrir það eitt að leika í kvikmynd sem auðvitað er leikur en ekki raunveruleiki. Af því að barnið var ekki eins og foreldrarnir vildu að það væri eftir þeirra kreddum.

Kaþólskan leggur kærleikann í rúst.  


Töffarinn sem kom inn úr kuldanum

Ég hef alltaf sagt að hann Mali sé sá allra svalasti.

Í gær var ég að afísa ísskápinn. Hólfið var allt bólgið og þrútið af alltof gömlum ís. Ég hafði opinn skápinn og líka íshólfið. Fór svo inn í stofu og las Blekkingu trúarinnar eftir gamla góða Freud. Snéri  svo aftur fram að gæta að skápnum eftir nokkurn tíma.

Og viti minn! Hver hafði þá ekki hreiðrað um sig í íshólfinu öllu storknuðu af ís nema hann Mali. Og malaði sem aldrei fyrr.

Löngu seinna kom hann tiplandi inn í stofuna og hélt þar áfram að mala í gluggakistunni.

Þetta var sagan um  allra svalasta töffarann sem kom inn úr kuldanum.

Ég held að Mali sé nú samt dálítið skrýtinn eitthvað. Kannski dregur hann dám af föður sínum. Nema hvað hann er algjör föðurbetrungur af bæði andlegu og líkamlegu atgervi.  

 


Lesið á bloggi

Ég las það á bloggi í dag að ég væri skilningslaus í garð þeirra sem þjást af þunglyndi og sorg.

Sorg og þunglyndi er reyndar sitt hvort fyrirbærið. En ókei, ég er últra skilningslaus á þunglyndi manna, sorg og sút. 

Þetta er víst eitthvað út af borgarstjóranum sem ég er sagður vera svona  vondur.

Og ég las þetta á kristilegri bloggsíðu.

Ég veit ekki hvar maður væri með ódyggðirnar ef ekki væru þessar Jesúsíður til að leiðbeina manni alltaf á hina einu réttu lífsins braut.   

 


Röng frostmæling í Reykjavik?

Lágmarkshiti var 19,4 stig í Reykjavík á kvikasilfursmæli Veðurstofunnar á vefsíðu hennar í morgun. Sé þetta rétt mæling er það næst mesta frost í borginni eftir 1918.

En ég efast mjög um þessa mælingu. Á sjálfvirka mælinum og líka á búveðurstöðunni var frostið bara -14.4 stig og -14.8° á Reykjavíkurflugvelli. Hins vegar um -16 í Garðabæ. 

Þetta gengur varla upp. Átti þarna kannski að standa -14,9 stig í Reykjavík?

Það er bölvanlegt að það skuli vera óvissa um þetta einmitt þegar almennilegt kuldakast er að skella á.

Sé mælingin samt rétt hvernig skyldi þá standa á þessum mikla mun á kvikasilfursmælinum og öllum sjálfvirku mælunum á Reykjavíkursvæðinu, þar af tveimur á sama túni og kvikasilfursmælirinn? 

Vel á minnst: Það er nú ekkert sérlega langt frá síðasta kuldakasti.  


Hvað gerðist ef kæmi 1918 kuldi?

Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur skrifaði grein í gær í Morgunblaðiðið þar sem hann leggur fólki ráðin um heitavatnsnotkun vegna yfirvofandi kuldakasts sem hafði verið spáð, og nú hefur reyndar gengið eftir, og segir að þá megi búast við að notkun á heita vatninu verði allt að tvöföld meðalnotkun.

Þá hefur nokkrum sundlaugum verið lokað til að spara vatnið en notkun á heitu vatni var mikil í gær og búist er við að hún verði enn meiri á morgun.

En hvaða læti eru þetta eiginlega? Það er ekki eins og þetta sé fyrsta alvöru kuldakastið síðustu áratugi. Ekki hafa menn samt panikerað hingað til. Er verið að ofleika!?

Þetta leiðir hins vegar hugann að því í fullri alvöru hvað mundi gerast ef við fengjum kuldakast í líkingu við það sem gerðist 1918 og stóð í þrjár vikur eða veturinn 1880-1881 sem stóð í fjóra mánuði! Skyldi einhvers staðar vera til viðbragðsáætlanir við þess konar hamförum? 

Já, hvað mundi þá gerast?


Kleppur í 100 ár

Ég var að lesa bókina Kleppur í 100 ár eftir Óttar Guðmundsson geðlækni. Ég hafði efasemdir um ritun þessarar bókar á sínum tíma hér á bloggsíðunni. En nú er mér ánægja af að viðurkenna að mér skjátlaðist. Nú tel ég að engum manni hefði farist þetta eins vel úr hendi og Óttari. 

Bókin er mjög læsileg enda er hún ekki hugsuð sem harðsvírað fræðirit heldur bók fyrir almenning sem samt á að vera áreiðanleg.  Frásögnin er blátt áfram og eðlileg, stíllinn skýr og nákvæmur, hvergi neitt mas eða óþarfa útúrdúrar og höfundurinn stillir sig að mestu um að túlka atburðarásina heldur lætur hana tala sínu máli. Túlkunin gæti orðið efni í aðra bók.

Bókin er ekki nein stofnanasaga æðstu yfirmanna heldur ekki síður starfsfólksins og sjúklinganna. Glefsur úr frásögnum sjúklinga auka mjög á raunveruleikann, ef svo má segja,  í þeim aðstæðum sem bókin lýsir.

Þegar viðhorf Óttars sjálfs gægjast fram eru þau hófstillt og skynsamleg, svo sem um starf Tengla og um andstöðuna við geðlækningar þar sem hann dregur vel fram bæði þá kosti og galla sem sú hugmyndafræði hafði í för með sér kringum 1970.

Frásögnin af stóru bombunni þegar Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi lýsti því yfir að Jónas Jónasson dómsmálaráðherra væri geðveikur er með bestu köflum bókarinnar og þar gengur Óttar nær óþægilegum kjarna málsins en ég hef séð í öðrum skrifum um málið. Hann spyr einfaldlega: "Var Jónas geðveikur? Í augum skrásetjara er það engum vafa undirorpið að Jónas hafði alvarlega persónuleikabresti. En hvað svo sem segja má um háttsemi Jónasar þá var vafasamt að lýsa hann geðveikan á grundvelli sögusagna án nákvæmrar skoðunar og endurtekinna viðtala." Óttar telur þó að Helgi hafi haft nokkuð til síns máls en aðferðirnar hafi verið vafasamar og borið keim af misnotkun geðlæknisfræðinnar. Í bókinni kemur vel fram hvað allir læknar í landinu voru algjörlega slegnir blindu á kjarna málsins að undanskildum Vilmundi Jónssyni landlækni.

Það eina sem stakk mig við lestur bókarinnar var það hvað hún segir mikið frá "kynlegum kvistum" sem komu á Klepp, Símoni Dalaskáldi, Láru miðli, Jóhannesi Birkiland, Vilhjálmi frá Skáholti og þar fram eftir götunum. Af þessu mætti draga þá ályklun að það sé einna helst slíkt fólk sem hefur farið á Klepp gegnum árin. En staðreyndirnar eru allt aðrar. Þar hefur verið alls konar fólk, allt upp í landsþekka stjórnmálamenn og virðulega bankastjóra og prófessora. Og þeir voru ekkert að vappa uppi í Víðihlíð þar sem lífið var leikur einn og gaman. Þeir voru á órólegu deildunum og voru alveg einstaklega órólegir!

Margt sér maður einkennilegt við lestur bókarinnar. Lækningar Þórðar Sveinssonar, sem stóðu árum saman og voru reyndar umdeildar, eru í okkar augum ekki aðeins skottulækningar heldur hreinar pyntingar. Sjúklingarnir voru soðnir og sveltir til hlýðni. Og það segir sína sögu að ekkert afl í þjóðfélaginu hafi verið þess megnugt að stöðvar þessar aðferðir og bjóða þess í stað upp á það besta sem þá þekktist í geðlækningum. Þá er kaflinn um lóbótómíu allt annað en skemmtilegur en þá var heilinn eiginlega skorinn úr erfiðum einstaklingum, jafnvel mörgum sem voru ekkert sérlega erfiðir heldur bara óreglusamir og strekktir á tauginni, svo þeir urðu á eftir aðeins skugginn af sjálfum sér.

Þegar menn líta yfir þessa sögu, varnarleysi sjúklinganna og vankunnáttu læknanna, fer ekki hjá því að maður spyrji: En hvað með lækningar geðsjúkra í dag? Verða þær eitthvað betri en þetta í augum eftirkomenda okkar eftir hundrað ár? Ég held að svarið  muni raunar verða að svo væri, þar hefðu verið miklu betri, en alveg örugglega sjá menn þá að margt hefði betur mátt fara í þeirri nútíð sem þá var, það er okkar nútíð. Það er því eins gott að við séum vel á verði. Og tíðarandinn núna er kannski ekkert sérstaklega vinsamlegur þeim sem þjást af geðsjúkdómum eins og nýliðnir atburðir taka af  öll tvímæli um.


Skammdegið er liðið

Nú er skammdeginum lokið samkvæmt þeirri viðmiðun sem ég nota og finnst skynsamleg. 

Samkvæmt henni er skammdegi þegar sólin er á lofti minna en einn þriðja þess tíma sem hún er lengst á lofti. Skammdegið hófst þá 11. nóvember og síðasti dagur skammdegisins var í gær.

En veturinn er ekkert búinn. Nú er kaldast tími ársins.

Það lítur ekki út fyrir mikil hlýindi á næstunni, aðeins hlákublota. Ég óttast að þetta verði kaldur, langur og leiðinlegur vetur.


Hórdómur

Hver sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.

Dragið eigi þessi orð í efa, þér vantrúaðir!

Eigi skulið þér heldur ætla að ég fari hér með dár og spé!

Ég vitna í guðsorð eins og þau fram ganga af munni guðssonarins - eða var það mannssonarins?

Kemur út á eitt!  

Annað hvort erum vér kristin þjóð eða vér erum ekki kristin þjóð. 

Séum vér kristin þjóð skulum vér heiðra herrann Krist og hans heilögu orð.

Hvað eruð þeir margir meðal yðar, þér hórkarlar, sem gengið hafa að eiga fráskilda konu?

Og hvað eru þær margar meðal yðar, þér skækjur, sem gengið hafa að eiga fráskilda menn?

Gjörið því eldsnögga iðran því dagur dómsins er nær en þér ætlið, þér eiturnöðrur og höggormar, sem veltist um í syndum yðrar!

 

 

  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband