Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
31.7.2008 | 16:18
Einhvers skírra, einhvers blárra ...
Stundum þegar ég er að grúska í gömlum og mygluðum veðurskýrslum, jafnvel þegar glæsileg hitamet eru slegin út um allt, fer ég að hugsa með skáldinu: "Einhvers skírra, einhvers blárra æskti hugur minn".
Já, ég gæti jafnvel líka tekið undir með öðru skáldi og andvarpað "af hverju kemur enginn og dregur oss á tálar?"
Og senn líður að hausti - ég þoli ekki menn sem skrifa um haustið um hásumarið - og eftir það kemur sá vetur sem aldrei mun líða.
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.7.2008 | 13:44
Nauðganir og fyllirí
Ég þarf varla að taka það fram að ég hef andstyggð á nauðgunum og öllu kynferðislegu ofbeldi. Um það hef ég skrifað meira og byrjaði á því fyrr en flestir aðrir. En ég hef líka verið án áfengis í 28 ár. Ruglheiminn þekkti ég vel og þekki enn að vissu marki.
Um hverja verslunarmannahelgi kemur upp umræða um stelpur sem drekka sig út úr fullar og eru þá auðveld bráð fyrir nauðgara. Það er hamrað á því án nokkurra tilbrigða ár eftir ár að nauðgun sé alltaf á ábyrgð nauðgarans en aldrei á ábyrgð þolandans.
Það er auðvitað alveg rétt. Að nauðga stelpu sem er í áfengisdái er óafsakanlegt, níðingslegt og löðurmannlegt framferði.
Samt sem áður finst mér að það eigi líka að hamra á því að enginn eigi að drekka sig ofurölvi. Og ég held því ákveðið fram að hver einstaklingur beri ábyrgð á sjálfum sér og þá ábyrgð megi aldrei frá honum taka. Þess vegna ber sú manneskja (karl eða klona) sem kemur sér í varnarlaust ástand vegna neyslu áfengis eða annarra vímuefna vissa ábyrgð á því sem yfir hana dynur í því ástandi, hvort sem það er stolið frá henni, henni er nauðgað eða það er hreinlega mígið yfir hana sem sumir hafa gaman af að gera við fólk í áfengisdauða í háðungarskyni.
Ástand ofurölvi manneskju tekur ekki ábyrgðina frá nauðgaranum og þjófnum. En ég er yfir mig hneykslaður yfir þeim lélega áfengismórall sem ríkir í landinu og kemur fram í því að margir hálfpartinn sætta sig við það að þeir sem drekka frá sér vit og rænu beri EKKI LÍKA vissa ábyrgð á því sem yfir þá gengur í því ástandi. Hún hefur ekki gát á sjálfri sér. Og þeir sem hafa ekki gát á sjálfum sér kalla yfir sig ógæfu. Þetta ætti að vera einfalt mál. En á dögum rétttrúnaðar er það allt í einu gert flókið.
Við eigum að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og aldrei koma okkur í það ástand sem býður niðurlægingu heim. Það á að hamra á því fyrir hverja verslunarmannahelgi.
Það er uppgjöf fyrir vímuefnunum ef svo er litið á að öfurölvi manneskja beri ekki ábyrgð á sjálfri sér og geti ekki að vissu leyti sjálfri sér um kennt hvað yfir hana gengur.
En það tekur ekki ábyrgðina og vanvirðuna af þeim sem nýta sér slíkt ástand.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
31.7.2008 | 10:19
Stórskandall!
Þegar ég ætlaði að skoða dálkana í morgun á vefsíðu Veðurstofunnar fyrir mönnuðu skeytastöðvarnar um hámarks-og lágmarkshita, úrkomu og fleira kl. 9 í morgun greip ég enn einu sinni í tómt. Allir dálkar auðir. Það var því ekki hægt að skoða hitastórtíðindi gærdagsins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist. En aldrei hefur það komið sér jafn illa og nú. Svo ég segi það enn og aftur -en áreiðanlega til einskis - opinber stofnun sem vill láta taka sig alvarlega verður að hafa tölvukerfið sitt fyrir almenning í lagi en ekki þannig að gloppur séu svo að segja daglegt brauð.
Kannski koma þessar upplýsingar inn eftir hádegisathuganirnar en þá mun vanta ýmsar stöðvar sem koma alltaf inn kl. 9 en athuga ekki á hádegi.
Í þessum skrifuðu orðum var Reykjavík að detta inn með sinn tignarlega 25,7 stiga hámarkshita í gær. Allir aðrir dálkar eru áfram auðir og tómir. Klukkan 21 í gærkvöldi var hitinn á Hólum í Dýrafirði 26,0 stig en ekki er hægt að sjá hvort hann fór enn hærra vegna þessarar eyðu.
Eftir daginn í gær er hún bara ekkert minna en stórskandall!
Varðandi hitann í gær rak ég augun í það að í Árnesi á suðurlandi var hitinn yfir 20 stigum samfellt frá kl. 9 um morguninn til kl. 23 um kvöldið. Það gerist sannarlega ekki á degi hverjum.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.7.2008 | 18:12
Glæsileg hitamet í Reykjavík og víðar
Hitinn í dag í Reykjavík fór í 25,7 á kvikasilfursmæli. Það er mesti hiti sem þar hefur mælst. Gamla metið var lásí 24,8 frá 11. ágúst 2004.
Nokkur allsherjar hitamet voru líka slegin á suðurlandi (gömlu metin innan sviga):
Hjarðarland í Biskupstungum 28,8 (28,5 11.ág. 2004)
Eyrarbakki 27,5 (25,5, 11. ág. 2004)
Stórhöfði 21,6 (21,2, 24. júlí 1924)
Á Hæli í Hreppum var allsherjarmetið, 27,9, þ. 11. ágúst 2004, ekki slegið en nýtt met í júlí var sett, 27,2 (26,4, þ. 24. 1939).
Ekki voru slegin önnur met á mönnuðum veðurathugunarstöðvum.
Á sjálfvirkum stöðum á suðurlandi og á Reykjavíkursvæðinu voru víða slegin met. Hér eru nokkrar spektakúlar tölur: Þingvellir 29,7 sem var mesti hiti á öllu landinu og kl. 15 og 16 var hitinn þar 29,3 stig. Þyrill í Hvalfirði 28,0 Skrauthólar á Kjalarnesi 28,4, Geldinganes 27,5, Korpa 27,2, sjálfvirka stöðin í Reykjavík 26,4, Flugvöllurinn 26,2 og Skálafell við Esju í 771 m hæð 23,1 stig.
Þrátt fyrir allt þetta er maður fúll yfir því að 30 stiga múrinn skuli ekki hafa verið rofinn.
Loksins var 25 stiga múrinn í Reykjavík rofinn.
Viðbót: Klukkan 21 var hitinn 26,0 stig á Hólum í Dýrafirði. Það er ekki aðeins met þar heldur hefur jafn mikill hiti alldrei mælst á öllum Vestfjörðum.
Veðurfar | Breytt 30.10.2008 kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
29.7.2008 | 23:05
Vá!
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
29.7.2008 | 21:59
Á morgun
Á morgun vona ég að verði enn hlýrra en í dag. Hef verið að reyna að skrifa á bloggið um hitabylgjur í júlí en gengur ekkert vegna hitasvækju og innri og ytri æsings.
Svo er kannski bara best að náttúran fái sjálf að tala sínu máli.
Það held ég nú.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.7.2008 | 17:23
Ja, hvur skollinn!
Hér koma niðurstöður hinnar vísindalegu skoðanakönnunar sem verið hefur á þessari gagnmerku bloggsíðu langa lengi. Spurt var formálalaust: Verður norðurpóllinn íslaus í haust? Svarendur voru gríðarlega margir og sögðu 18,4% hiklaust já en 42,7% blákalt nei.
Þá er það komið á hreint.
En könnunin var líka kænlega dulbúin skoðanakönnun um trúarviðhorf þjóðarinnar. Einn svarmöguleikinn var nefnilega: Það veit skollinn, og 22,3% prósent hinnar íslensku þjóðar treystu honum einmitt til að vita það. Og svo var spurt all lymskulega: Það veit guð, og einungis 16,5% þjóðarinnar treystu þeim herra til að vita það.
Niðurstaðan er þá sú að 5,8% fleiri af hinni hingað til sögðu kristnu þjóð treysta skollanum betur en guði til að sjá fram í tímann og um hinstu rök.
Þetta eru merk tíðindi og kaflaskil í trúarsögu þjóðarinnar. Það hlýtur nú að fara allmjög um ofurkrissana og bókstafstrúarmennina og alla hina líka.
Það held ég nú.
Allt í plati | Breytt 6.12.2008 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.7.2008 | 12:51
Niður með Listaháskólann!
Á Laugaveginum á ég við. Ég stend alveg með borgarstjóranum og Torfusamtökunum í andstöðu við þær verðlaunateikningar sem lagðar hafa verið fram. Þetta húsabákn drepur allt í kringum sig á stóru svæði.
Það eru skiptar skoðanir á málinu auðvitað. Hanna Birna, hin sexí, stendur með borgarstjóranum. En áðan var í hádegisfréttum vitnað í bloggsíðu sama sem bloggvinar míns, Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem lofar og prísar megamonstrið. Annars langar mig til að spyrja. Af hverju er alltaf verið að vitna í hann? Í þessu máli hafa orð hans ekkert meira vægi en mín gullvægu orð.
Hvers vegna í ósköpunum vitnar ekki fréttastofa RÚV í mína djúpvitru bloggsíðu í tíma og ótíma? Ég tala nú ekki um í spekinginn hann Mala.
Ætli rektor Listaháskólans sé annars ekki fremur órótt. Hann á að halda uppi merki listarinnar en hluti af listinni er verndun gamalla byggða og umhverfis í borgum. Hvað finnst honum um það að fjöldi fólks telur að hús Listaháskólans vinni skemmdarverk að þessu leyti? Sópar hann þá bara öllum sjónarmiðum út af borðinu nema sjónarmiðum eiginhagsmunanna. Hans skóli þarf lóð. Og lokar hann þá bara augunum fyrir öllum öðrum sjónarmiðum?
Prívatraus í rafrænum dagbókarstíl: Ég á annars blendnar minningar um þennan rektor. Einu sinni var ég tónlistargagnrýnandi árum saman. Sumir voru voðalega hrifnir af mér en aðrir ekki. Rektor Listaháskólans, sem þá var stjórnandi Háskólakórsins, gaf út eitthvað blað og sagði þar að ég væri bara að skrifa um sálarkreppur mínar í gagnrýni. Þetta fannst mér högg fyrir neðan beltisstað af því að ég skrifaði reyndar einu sinni bók um sálarkreppur sem sóttu á mig á yngri árum. Ég nefndi þetta einu sinni við hann og hann tók því bara vel. Svo var þessi ásökun líka óréttmæt. Ég fór stundum mínar eigin leiðir í tónlistargagnrýni og einmitt það truflaði suma en hún var yfirleitt ekki verr ígrunduð og rökstudd en gengur og gerist með gagnrýni annarra. Það áréttaði reyndar þekktur söngvari líka sem einu sinni gerði athugasemdir á þessari síðu.
Skyldleiki er með mér og rektor Listaháskólans og vinur minn Leifur heitinn Þórarinsson tónskáld sagði að við værum líkir um margt. Við værum báðir miklir tilfinningamenn, ákaflyndir mjög og með stórar skoðanir. Annars fara skoðanir mínar hríðminnkandi með árunum. Ég er að breytast í mann með örskoðanir. Algjör örskoðun: Ég lít á allar breytingar á götumynd Reykjavíkur frá the fabulous fifties mjög óhýru auga!
Einu sinni bað Leifur mig að skrifa lesmál á geisladisk sem hann var að gefa út með nokkrum verka sinna. Þá stóð svo á að ég þóttist með engu móti geta tekið þetta að mér og skrifaði einhver annar. Ég hef alltaf séð eftir því að hafa hafnað þessu. Leifur var snilldar tónskáld þegar hann var bestur en nokkuð var hann mistækur. Sinfónían hans sú síðasta er verk sem ég hlusta oftar á en flest íslensk tónverk og ég á hana líka á nótum.
Menning og listir | Breytt 6.12.2008 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (67)
26.7.2008 | 12:18
Kjarni málsins um boðið á ólympíuleikana
Í Kastljósi í gær og í þættinum Í vikulokin í útvarpinu áðan var rætt um það hvort rétt sé af forsetanum og menntamálaráðherra að mæta á ólympíuleikana. Í báðum þáttunum var talað um það að þó mannréttindi væru brotin í Kína sé réttlætanlegt að hafa við það samskipti eins og við mörg önnur ríki sem brjóta mannréttindi og menn verði að vera samkvæmir sjálfum sér.
Mat manna á þessu atriði fer sem sagt eftir pólitískum skilningi á því hvers konar samskiptum beri að halda uppi við Kína en ekki sérstökum atriðum sem varða bara ólympíuleikanna.
Lítum á! Þú færð boðskort í mikla veislu. En í boðskortinu er beinlínis tekið fram að ákveðnir gestir séu útilokaðir frá boðinu og það fer ekki framhjá þér að um er að ræða bæði fordómafulla stimplun og mismunun. Myndi ekki renna á þig tvær grímur að þiggja boðið?
Í boðsbréfum Kínverja vegna ólympíuleikana er þetta einmitt svona. Þar er sérstaklega tekið fram að sumt fólk, t.d. geðfatlaðir, fólk með eyðni og fátækt fólk sé ekki velkomið í veisluna. Enginn nefnir þetta með geðsjúka í umræðum hér á landi og ég hef á tilfinningunni að fólk sem vill láta taka sig alvarlega, eins og það sem var í Kastljósi og Í vikulokin, hreinlega skammist sín fyrir að gera það. Það er ekki nógu fínt.
Þessi atriði með mismunum í boðbréfum Kínverja út af fyrir sig, hvað sem líður almennum mannréttindabrotum og efnahagslegum og stjórnmálalegum samskiptum Íslendinga við Kínverja, ætti að vera alveg nægjanlegt til að forystumenn þjóðarinnar ættu að hafna boðinu um að vera viðstaddir ólympíuleikana.
Menn fara ekki í boð þar sem bein mismunun og fordómar gegn fólki eru sérstaklega teknir fram í boðsbréfinu. Mat manna á því hvort eigi að þiggja boð á ólympíuleikana ætti að hníga að því hvort rétt sé að þiggja þetta tiltekna boð, vegna þess hvernig að því er staðið, en ekki um annars konar almenn samskipti við Kína.
Hvers vegna sér enginn þetta svona einfalt nema ég? Allir eru að tala um þetta á almennum nótum stjórnmála-og viðskiptasambanda og vísa til annarra ólympíuleika sem ollu pólitískum deilum, t.d. leikana í Moskvu þar sem engum hópum manna var þó vísað frá.
Ég næ þessu bara ekki.
Annars er þetta ekki í fyrsta skipti sem mér finnst að kjarni einhvers máls sé annar en allir aðrir eru að tala um.
Og hvernig ætli standi nú á þv?
Undir lokin fóru menn Í vikulokunum að tala um veðrið. Stjórnandinn sagði eitthvað á þá leið að þetta væri einkennilegt veður í gær og í dag, hvasst og bjart en samt hlýtt. En það er ekkert sérlega hlýtt í dag í Reykjavík og eiginlega vafasamt hvort hægt sé að tala um sama veður þar og í gær en þá var ekkert hvasst fyrr en fór að líða vel a daginn. En þetta er afar algengt í umræðum manna eftir að virkilega hlýr dagur kemur í Reykjavík. Menn halda áfram að tala eins og einhver sérstakur hiti sé í loftinu þó hann sé liðinn hjá. Svo spurði stjórnandinn hvort einhver myndi eftir svona veðri áður. Rámaði þá einn viðmælandinn í hitabylgjuna í ágúst 2004 sem var miklu magnaðari en þessi, en hins vegar alltof hægviðrasöm og ekki hvöss. Ef vindur hefði þá erið snarpari af landi hefði orðið enn hlýrra en raunin varð á hér í bænum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.7.2008 | 16:54
Hásumar!
Einmitt þessa dagana er hlýjasti tími ársins. Og veðrið í Reykjavík og á öllu suður og vesturlandi er heldur ekki amalegt. Klukkan 15 var hitinn í Reykjavík 21,2 stig á kvikasilfrinu en 22,2 stig kl. 16 á sjálfvirkum mæli og búinn að fara í 23,0 á síðustu klukkustund. Hefur ekki orðið hlýrra siðan í ágúst 2004.
Á Reykjavíkurflugvelli var hitinn 23,1 stig kl. 16 og búinn að fara í 23,5. Klukkan 1640 var hitinn við Miðbakka í Reykjavíkurhöfn 21,2 stig. Geldinganesi er hitinn búinn að ná 23,6 stigum og líka á Skrauthólum á Kjalarnesi.
Fyrir austan fjall er aldeilis hlýtt líka. Klukkan 15 var hitinn 23 stig á Þingvöllum og Hjarðarlandi og á Þingvöllum er hitinn búinn að fara í 24,4 stig. Í Borgarfirði er einnig hlýtt en þó ekki eins og á Reykjavíkursæðinu og fyrir austan fjall. Þó hefur hitinn farið í 22 stig í Fíflholti á Mýrum. Í Hvalfirði er hitinn búinn að ná upp í 23,9 stig. Vel yfir 20 stiga hiti hefur líka verið í Skaftafelli. Í Dölunum og í Bíldudal hefur hitinn og náð 20 stigum og sömuleiðis á Héraði og sums staðar á norðausturlandi.
Það veðrur gaman að sjá hámarksuppgjörið sem kemur upp úr kl. 18.
Nú er hánóttin orðinn dimm á suðurlandi. Og þá bregst ekki að sumir fara að tala um að haustið sé að nálgast. Þó auðvitað sé styttra í haustið núna í dögum talið en í júní er þetta fíflalegt tal. Menn virðast ekki gera sér grein fyrir því að í veðurfarslegu tilliti er hásumar einmitt síðast í júlí og í byrjun ágúst. Að nefna haustið á nafn á hlýjasta tíma ársins er hreinlega út í hött. Ekki má heldur rigna um verslunarmannahelgina eða vera hryssingslegt veður, sem getur komið á öllum árstímum, svo að sumir fari ekki að tala um að best væri að flýta verslunarmannahelginni til fyrstu viku í júlí af því að þá sé betra veður en á þeim tíma sem hún er.
En það er ekki rétt.
Viðbót: Hámarkshiti í Reykjavík mældist 22,5 stig á kvikasilfursmæli en 23,0 á sjálfvirkum mæli og 23,5 á flugvellinum. Mestur hiti á landinu varð 24,7 stig á Þingvöllum, 24,1 á Þyrli, 23,6 í Skildinganesi og Skrauthólum og 23,4 á Hjarðarlandi. Hiti var enn 22,4 stig kl. 18 á mæli Veðurstofunnar í Reykjavík. Búast má við að meðalhiti sólarhringsins í Reykjavík verði með allra hæsta móti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006