Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Sérstakur saksóknari láti engan bilbug á sér finna

Er ekki hætt við því að í rannsókninni vegna hrunsins sé alveg sama hver fái réttarstöðu grunaðra og eignir hans verði kyrrsettar, það muni alltaf einhverjum verða ofboðið?

Til hvers eru menn að skrifa svona bréf?

Til þess að það hafi áhrif. Að það breyti að einhverju leyti rannsókninni. Menn hætti því að láta menn fá réttarstöðu grunaðra og að eignir verði kyrrsettar. 

Að rannsóknin sem skiptir þjóðina svo miklu lognist út af.

Þetta mun gerast í hvert skipti sem einhver fær réttarstöðu grunaðra og eignir þeirra verða kyrrsettar eða verða á einhvern annan hátt fyrir aðgerðum sérstaks saksóknara. 

Það bara fylgir. Og mikill meirihluti þjóðarinnar ætlast til þess að sérstakur saksóknari geri skyldu sína og láti engan bilbug á sér finna. 

Munum svo það að grunaður maður hefur ekki verið sakfelldur. 

En það er ógerningur að rannsaka nokkurn skapaðan hlut nema einhverjir séu grunaðir. Síðan kemur sá prósess sem sker úr um það hvort grunur gegn tilteknum einstaklingum sé á rökum reistur. 

 

 


mbl.is Lögmanni Baldurs algjörlega ofboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningar í stað réttlætis

Þetta er eiginlega sorgleg frétt. Fjölskyldan fær líklega nokkuð mikla peninga. Ef farið hefði verið í mál er ekki víst að hún hefði fengið nokkuð auk þess sem málferlin hefðu eflaust orðið dýr.

Eftir stendur að alsaklaus maður var drepinn af lögreglunni. Það skutu hann margir vopnaðir menn.  Allir með grímu fyrir andlitinu.

Lögreglustjóri Lundúna varði drápið með kjafti og klóm. Líf þessa manns skipti hann engu máli. Ef svo hefði verið hefði hann ekki getað hugsað sér að halda áfram starfi sínu og sagt af sér. En það datt honum ekki í hug.

Ekki munu þessir peningar koma úr buddu þeirra sem ábyrgð bera á drápinu heldur úr vasa almennings.

Morðingjarnir þurfa ekki að gjalda verka sinna í einu né neinu. 

Peningar koma í stað réttlætis. Og ekki í fyrsta sinn. 

 

 


mbl.is Sömdu við Lundúnalögreglu um bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meyfæðingin og trúarjátningin

Séra Þórhallur Heimisson segir á bloggsíðu sinni:
 

''Umræðan um Jesú og kristna trú fer því miður oft, þegar jólin nálgast, að snúast um þá spurningu hvort menn trúi bókstaflega á meyfæðinguna eða ekki.

Sem er sorglegt.

Því elstu textar Nýja testamentisins hafa engan áhuga á þessum sögum um fæðingu Jesú – eða telja þær á nokkurn hátt skipta sköpum fyrir kristna trú – minnast reyndar ekki á þær frekar en að þær hafi ekki verið til.''

Svo mælist Þórhalli. Meyfæðingin virðist ekki  skipta sköpum fyrir kristna trú, að hans áliti.  En hvað þá með postullegu trúarjátninguna þar sem segir: ''Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottinn vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey.''

Þarna segir berum orðum að  Jesú sé getinn af heilögum anda, það er að hann sé eingetinn, eigi sér ekki mannlegan föður.

Er nokkuð hægt að taka þessi skýru og vafningalausu orð öðru vísi en alveg bókstaflega? Þannig hafa þau lika verið skilin fram á síðustu tíma. 

Þessi játning er lesin upp í hverri guðþjónustu og ætlast er til að söfnuðurinn taki undir. Eigum við að trúa því að með trúarjátningunni sem lesin er upp í hverri messu séu menn að játa eitthvað sem skipti engum sköpum fyrir kristna trú? 

Svo virðist vera, að minnsta kosti að dómi Þórhalls. Og hefur trúarjátningin þá ekkert gildi? Er hún bara innantóm orð?

Hvað fleira er það í postullegu trúarjátningunni sem ekki skiptir svo sem neinum sköpum fyrir þá sem telja sig kristna menn?

 

 

 


Hinn óþægilegi sannleikur

Vísindamenn vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið með það að jörðin hefur ekkert hlýnað í tíu ár. 

Um þetta er ekki að villast. Við verðum að horfast í augu við þennan óþægilega sannleika

Miskunn guðs

Hvernig líður manni sem leiddur er saklaus til aftöku?

Ætli honum finnist ekki að mennirnir og guð hafi svikið sig?

Sérstaklega guð. 


Trúnaður og bókmenntir

Ég stend algerlega með málstað Helgu Kress, að svo litlu leyti sem hann hefur komið opinberlega fram af mikilli hógværð, í máli hennar gegn Böðvari Guðmundssyni rithöfundi. 

Hún sakar hann um að hafa í nýrri skáldsögu notað frásagnir sem hún sagði honum í trúnaði og varða hana sjálfa og fjölskyldu hennar. 

Öllum ber að virða það sem þeim er sagt í trúnaði hvort sem þeir eru rithöfundar eða ekki.

Það er blátt áfram skelfilegt að sjá nær einhliða viðbrögð bókmenntafólks í þessu máli.

Þau ganga  út á það að firra rithöfunda allri ábyrgð, hvaða nafni sem nefnist,  ef þeir nota raunverulegar fyrirmyndir í sögum sínum, jafnvel þó byggðar séu einungis á trúnaðarupplýsingum. Ekki nóg með það, heldur er ábyrgðinni velt  miskunnarlaust yfir á þá sem telja sig hafa orðið fyrir slíku og mislíkar það og telja jafnvel vegið að mannorði sínu og sinna nánustu.

Þeir eru kýldir niður með öllu afli, reynt að gera aðferðir þeirra til að bera hönd yfir höfuð sér tortryggilegar, ferill þeirra í starfi vefengdur á köflum, óvildarmenn þeirra dregnir fram í deilurnar til að gera þá hlægilega og þar fram eftir götunum. Það vægasta er yfirlætisleg vorkunnsemi.

Ég bíð eftir því að aðrar og víðsýnni raddir eigi eftir að heyrast í  málinu en þessi óhefti boðskapur um algjöran siðferðislegan níhilisma í bókmenntum.

Það hefur greinilega orðið siðrof í landinu síðustu árin. 


Kisur og manneskjur

Með þessari frétt er mynd af manneskju og kisu.

Manneskjan á myndinni er sökuð um kynþáttahatur. Hún er full af skoðunum eins og manneskjur eru vanar að vera. Full af hroka og hugsunum um mismunun.

Manneskjur eru svoleiðis. Þær hata jafnvel frá sér vitið í nafni einhverrar trúarinnar.

Kisan á myndinni er hins vegar algjörlega laus við allt kynþáttahatur. Alla mismunun. Henni er líka alveg sama á hvað aðrar kisur trúa og hvort þær trúa nokkru yfirleitt. 

Ég ber það ekki saman hvað kisurnar bera af mönnunum um mannkosti alla, umburðarlyndi og réttsýni.

Kattkosti ætlaði ég nú að segja. 

 


mbl.is Poppsöngkona sögð rasisti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennandi spurningar

1. Eru til aðeins ein sáluhjálparleg trúarbrögð?

2. Ef svo er hvaða trúarbrögð eru það þá, með leyfi?

Ég er nú í því kastinu að óttast mjög alvarlega um sáluhjálp mína og verð því endilega að vita þetta. 


Kommúnistar

Skammaryrðin ''climate change deniers'', sem lesa má í ýmsum skrifum um loftslagsmál, minnir mig oft á upphrópunina ''kommúnistar'' í Mogganum í gamla daga.

Þar með var málið útrætt.


Gömlu gildin

Eftir Þjóðfundinn hafa margir farið að lofa ''gömlu gildin'' og vilja hefja þau til vegs og virðingar.  Þeir vilja meina að þessi ''gömlu gildi'' hafi horfið eða úr þeim dregið.

Gömlu gildin áttu víst að hafa verið voðalega góð. Eitthvað kristilegt við þau.

Hve nær ríktu annars þessi gömlu góðu gildi?

Á viðreisnarárunum þegar lífsgæðakapphlaupið keyrði úr hófi?

Á stríðsárunum þegar peningagræðgin sleit fyrst öll bönd?  

Á nítjándu öld þegar yfirstéttin kúgaði venjulegt fólk með vistarböndum og öðrum böndum?

Á átjándu öld þegar miskunnarleysi gegn niðursetningum og förufólki hrópaði til himins?

Eða kannski á dögum Stóradóms þegar konum var drekkt í poka eins og kettlingum í nafni hreinleika gamalla gilda? 

Voru gömlu gildin ríkjandi þegar barnaníð og nauðganir stórbokka á vinnukonum voru daglegt brauð?

Já, á hvaða tíma voru þessu gömlu gildi svo virk að þau höfðu einhver áhrif á þjóðfélagið til góðs?

Aldrei í sögunni hefur verið eins gott að lifa á Íslandi og nú. Aldrei hefur virðingin fyrir mannréttindum verið meiri, aldrei verið fleiri tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi, aldrei verið betri  möguleikar á að leita réttar síns fyrir alþýðufólk, aldrei verið betra að vera barn, aldrei verið betra að vera kona.

Aldrei verið betra að vera manneskja og lifa í landinu. 

Aldrei verið betra að vera Mali. Wizard

Ef gömlu gildin hafa horfið þá hefur farið fé betra. Betri og nýrri gildi hafa komið í staðinn.

Þau gildi sem nú gegnsýra þjóðlífið, þrátt fyrir tímabundna kreppu, eru þau jafnræðislegustu, sanngjörnustu, mannúðlegustu og langbestu sem nokkurn tíma hafa ríkt í landinu. 

Þau eru ekki kristin gildi. Þau eru gildi mannréttinda og jafnaðar, mildi og réttsýni, sem sprottið hafa upp allra síðustu aldirnar. Þessi gildi hafa þurft að berjast fyrir hugsjónum sínum en hafa loks náð því að móta okkar þjóðfélag í stórum dráttum þrátt fyrir ýmsar skuggahliðar.

Þetta eru veraldleg gildi byggð á heimspekilegri eða fræðilegri hugsun um stöðu manna í samfélaginu og eðli þess samfélags, þekkingarleit og vísindalegri hugsun. Heimspekin og fræðin skópu mannréttindi og jöfnuð, vísindin færðu okkur  velmegun.

Lofsöngurinn um gömlu kristnu gildin er búralegt afturhald.

Gömlu gildi, far vel. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband