Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Hitabylgjan 14. maí 1960

Þennan dag árið 1960 mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í maí í nútímaskýli, 20, 6 stig.

Sagt er frá þessu hér. 

Hlýr loftstraumur úr suðaustri olli þessu veðri alveg eins og nú. 

Árið 1960 var hæð yfir Norðurlöndum og austur af landinu en lægð vestur af Írlandi sem drógu hitann til landsins og það var fremur rólegt veður.

Nú er hæð fyrir austan land en lægðasvæði vestur undan sem veldur meiri vindi en 1960 og loftið er heldur ekki eins hlýtt. 

Satt að segja vonar maður að þessi vindrembingur fari að ganga niður og annars konar og vorlegra veður taki við.   


Á að ganga gegn alþjóðasamþykt lækna um mótmælasvelti

Þessi frétt ber óhugnanlegt vitni um ofríki yfirvalda. Maðurinn sem verið hefur þrjár vikur í hungurverkfalli ''verður ekki neyddur til að nærast eða á annan hátt brotið á sjálfsákvörðunarrétti hans, meðan hann hefur meðvitund til þess að hafna aðstoðinni, segir Hera Ósk Einarsdóttir félagsráðgjafi hjá Reykjanesbæ.'' Síðan er bætt við: ''Hælisleitandinn hefur hins vegar ekki skrifað undir að hann hafni læknisaðstoð, fari svo að hann missi meðvitund.''

Sagt er í fréttinni að hver maður hafi rétt til þess að fremja ''sjálfsmorð'' eins og svo smekklega er komist að orði í samhengi þar sem það orð á ekki við. (Þetta orðalag er notað til að firra  yfirvöldum allri ábyrgð í málinu en einnig til að niðurlægja hælisleitandann). Sjálfákvörðunarrétturinn sé meðal þeirra mannréttinda sem við höfum. Einnig er haft eftir Heru að ''læknisyfirvöld hafi gert henni ljóst að ekki sé hægt að bregðast við fyrr en sjúklingurinn getur ekki tekið ákvörðun sjálfur.'' Það er reyndar órökrétt að mann í mótmælasvelti  beri að skilgreina sem sjúkling sem læknar megi meðhöndla að vild. 

En orð Heru eru ekki hægt að skilja öðru vísi en svo að læknayfirvöld, kannski með Sigurð Árnason í broddi fylkingar, sem farið hefur offari langt út fyrir hlutverk sitt sem lækni, bíði eftir því að jafnskjótt og maðurinn missi meðvitund  verði næringu neytt  ofan í hann án tillits til þess hvernig eða hvort stjórnvöld leysa úr máli hans. Reyndar er ýjað að því að það ætli dómsmálaráðherra ekki að gera því það geti brotið gegn jafnræðisreglu. Og skálkaskjólið fyrir því ofbeldi að þvinga fæðu í manninn á að vera að  hann hafi ekki skrifað undir yfirlýsingu , gegnið að einhverjum skilmálum Útlendingastofnunar. En læknar og yfirvöld geta ekki horft framhjá þeim  vilja og sjálfsákvörðunarrétti mannsins sem birtist í einbeittum verknaði hans.

Lausnin á máli mannsins á sem sagt  að vera  nauðungarnæring þegar hann missir meðvitund. Þar með er á grófasta  hátt sem hægt er að hugsa sér gengið á sjálfsákvörðunarrétt mannsins því hann hefur með fullri meðvitund og með réttu ráði hafið mótmælaaðgerð sem hann hefur vitað hvaða afleiðingar kynni að hafa ef hún færi alla leið. Hann er tilbúinn til að deyja með reisn. 

Þessa reisn eru yfirvöld albúin til að taka af honum með auðmjúkri hlýðni lækna og ónýta frjálsan vijla manns sem birst hefur í óvenjulega einbeittum verknaði og ganga þannig í berhögg við alþjóðasamþykkt lækna um mótmælasvelti. 

Og munu læknasamtökin og einstakir læknar landsins horfa mótþróarlaust upp á  slíkt ofbeldi og heimsku? Til hvers eru alþjóðasamtök lækna að gefa út leiðbeiningar ef ekki á að fara eftir þeim?

Ég segi heimsku því í öðru orðinu lætur Hera Ósk, fulltrúi yfirvalda, mikið með sjálfsákvörðunarrétt manna og mannréttindi en í öðru orðinu lýsir hún því blygðunarlaust yfir að hún bíði beinlínis eftir því að valta á lítilsvirðandi hátt yfir þau réttindi. Svínbeygja manninn - í nafni stjórnvalda. 

Það er óhugnanlegt að önnur eins grunnhyggni, jafn mikið skynleysi á kategóríur og grundvallaratriði,  skuli ráða ferðinni hjá stjórnvöldum í jafn viðkvæmu máli þegar slíkt kemur í fyrsta sinn upp á Íslandi.

 


Allsberir þingmenn

Nú er búið að afnema þá skyldu þingmanna að hafa bindi um hálsinn.

Áfram er þess krafist að þeir séu snyrtilegir. Það þýðir að þeir eigi áfram að vera í jakkafötum og svoleiðis. Ofboðslega smáborgaralegir.

En væri það ekki snyrtilegt að koma í ræðustól á þingi í glænýjum gallabuxum og leðurjakka og með hringi bæði í eyrunum og nefinu?  Nei, Það yrði víst ekki leyft. Ekki nógu snyrtilegt!

Ekki skil ég svona yfirborðsmennsku.

Hvaða máli skiptir klæðnaður þingmanna? Er það ekki ráðsnilldin við að setja landinu lög sem gildir?

Mér væri fjandans sama þó þingmennirnir væru allsberir ef einhver dugur væri í þeim að öðru leyti.

 


Er Sigurður Árnason að brjóta siðareglur lækna

Sigurður Árnason læknir í Keflavík gerir sig nokkuð breiðan í þessari frétt ef eftir honum er rétt haft.

Hann segir að maðurinn sé í fínu standi. Ekki skal ég segja um það enda hef ég ekki vit á því hvernig mönnum líður eftir þriggja vikna hungurverkfall.

Hins vegar finnst mér læknirinn vera farinn að skipta sér helst til mikið af efnisatriðum málsins þegar hann með lítilsvirðingartóni talar um Séð og heyrt kjaftæði í sambandi við manninn. 

En fyrst og fremst þegar hann hvetur fólk til þess að gera ekki of mikið úr málum mannsins.

Er það mál sem varðar Sigurð Árnason? Hann talar af miklum hroka og yfirlæti.

Hann er að reyna að gera sem allra minnst pólitískt úr málinu. Óbeinlínis eða jafnvel beinlíns að taka afstöðu með stjórnvöldum. Hugsanlega hefur hann brotið siðareglur lækna með þessu afstöðuþrungna tali sínu.

Slíkum lækni er ekki treystandi í viðkvæmum málum.

 


Ætlar það að vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að drepa mann

Alsírbúinn sem er í hungurverkfalli er kominn heim af spítalanum. Hann afþakkaði saltvatn í æð og vill ekki matast.

Hann er aftur kominn ''heim''. Sagt er að hann sé í lífshættu og innri líffæri hans geti farið að skaðast varanlega.

Það þarf víst ekki að minna á að stjórnvöld hafa haft tvö ár til að sinna erindi mannsins. Þau hafa ekkert gert. 

Meðan þjóðin sekkur sér niður í fullkomlega ómerkilega söngvakeppi Evrópu er maður að deyja vegna vanrækslu stjórnvalda.

Það er undarlegt sinnuleysi fjölmiðla að hafa ekki tekið þetta mál upp í alvöru. Stuttorðar fréttir og óskýrar eru allt sem frá þeim kemur. Hins vegar streymir hatrið út í manninn óheft um blogg- og feisbúkksíður. Það er þjóðinni til skammar. 

Í einni frétt er sagt að sálfræðingar og félagsfræðingar séu að þrýsta á manninn að láta af mótmælasveltinu. 

Það er auðvitað hörmulegt ef maðurinn deyr eða skaðast varanlega og allir  nema kannski stjórnvöld vilja afstýra því. Eigi að síður má spyrja hverra hagsmuna þessir sálfræðingar og félagsfræðingar eru að gæta. Hvert er vandamálið?

Vandamálið eru stjórnvöld. Ekki Alsírbúinn. Menn eiga því að þrýsta á stjórnvöld.

Sálfræðingarnir eru væntanlega á vegum Rauða krossins. En á hverra vegum eru félagsfræðingarnir? Á vegum Reykjanesbæjar? Eru þessir aðilar ekki fyrst og fremst að gæta hagsmuna yfirvalda? Það verður nefnilega meira en vandræðalegt fyrir þau ef maðurinn deyr af þeirra völdum. Ég endurtek að allur þrýstingur í þessu máli á að vera á stjórnvöld.

Ég held meira að segja að færa megi siðferðileg rök fyrir því að það samræmist ekki siðareglum þessara starfstétta að þrýsta á mann sem er í mótmælasvelti eða af samviskuástæðum til að láta af sveltinu ef engar breytingar verða á stöðu málsins að öðru leyti.  

Ég spyr nú bara eins og Hallgrímur Helgason rithöfundur á feisbúkksíðu sinni:

Ætlar það að verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að drepa mann?  


Aldahvörf

Nú skal ég segja ykkur það að ég horfði á Evróvósjón í fyrsta sinn á þessari öld.

Ég er var lengi harðsvíraður tónlistargagnrýnandi og ætla þess vegna að troða mínu mikilvæga áliti upp á ykkur öll með harðri hendi.

Það voru bara þrjú lög sem einhver glæta var í fyrir minn smekk. Tyrkneska lagið, íslenska lagið og lagið frá Bosníu-Hersegóvínu. Það er hins vegar stælt eftir alþekktu lagi sem ég man nú ekki hvað er.

Íslenska lagið er samt sentimental leir. En það hefur smávegis melódíu. Söngkonan getur líka sungið og er sæt og var í bláum kjól. Blátt er einmitt uppáhaldsliturinn minn.

Ég fór náttúrlega að gráta alveg gríðarlega og allt það þegar síðasta innsiglið var rofið og hinn dýrmæti leyndardómur kom í ljós. 

Ég spái því að lagið komist í úrslit.


Til hvers

Til hvers er maður sem vitandi vits er í hungurverkfalli og veit hvaða afleiðingar það hefur ef farið er alla leið að leggjast inn á sjúkrahús?

Breytir það einhverju þó hann fái saltvatnsupplausn í æð? 

Er ekki alveg eins gott að deyja ''heima'' eins og á sjúkrahúsi undir þessum kringumstæðum?

Er þetta annars ekki bragð og fyrsta skrefið til þess að neyða næringu á einhvern hátt ofan í manninn?  

Reyndar kemur fram ótti í fréttinni um það Lögreglan, Rauði krossinn og Útlendingastofnun séu að plotta eitthvað saman. Allt virðist ætla að fara á þann veg sem ég spáði


mbl.is Hælisleitandi fluttur á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andleysi

Nú er ég svo andlaus að ég get ekki lengur hugsað.

Hvað þá bloggað. 

En vonandi lagast það þegar Jóhanna Guðrún hefur sigrað í Júrovisjón.  

 


Boomerang dómsmálaráðherra og hungurverkfall

Nú ætla ég aðallega að velta þessu máli fyrir mér út frá einu sjónarmiði.

Maðurinn hefur neitað að undirskrifa yfirlýsingu um það að hann neiti að þiggja læknishjálp þegar hann missir rænu. 

Þegar þar að kemur - ef að því kemur - er hætt við því að hann verði látinn á sjúkrahús þar sem læknar líti svo á að gefa beri honum næringu í æð af því að hann neitaði því ekki skriflega. 

Geri læknar það eru þeir að taka afstöðu með stjórnvöldum í því að beygja manninn. 

En verknaðurinn hungurverkfal og orð mannsins eru alveg fyllilega skýr yfirlýsing um vilja hans  um það að hann sé reiðubúinn til að deyja fremur en gefast upp.

Auðvitað vona allir að lausn finnist á máli mannsins og til þess þurfi ekki að koma að hann deyi. En valdbeiting lækna í skjóli yfirvalda án þess að tekið væri á málinu að öðru leyti væri fullkominn auðmýking á honum. 

Haft var eftir dómsmálaráðherra í sjónvarpsfréttum að það væri alvarlegt mál að fara í svona hungurverkfall. Hún hefur víst efni á því í öruggu skjóli ríkisvaldsins að vera með slíkar ásakanir  í  garð hælisleitandans. Og ekki þarf hún víst að óttast viðbrögð samráðherra sinna. En það er víst ekki alvarlegt mál hvernig framkoma yfirvalda hefur verið í garð hælisleitenda.  

Ráðherrann sagði einnig að svo virtist sem hælisleitandinn þekkti íslenskt réttarkerfi ekki nógu vel. Ég spyr: Gera íslensk yfirvöld nokkuð í því kynna það fyrir hælisleitendum? Svarið er  augljóslega nei úr því vanþekkingin birtist svona ótvírætt. Yfirlýsingar ráðherrans hitta hana því sjálfa fyrir eins og boomerang.   

Mér dettur ekki í hug að hafa opið hér fyrir athugasemdir til þess að allt fyllist af hatri og svívirðingum um þennan mann og aðra hælisleitendur.


mbl.is Ætla allir í hungurverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rigningarsumarið mikla 2009

Jæja, þá er það byrjað. Rigningarsumarið mikla árið 2009. Ekki hefur komið almennilegt rigningarsumar á suðurlandi síðan 1984.

En nú er það að byrja.

Annars má ég hundur heita. Og mikið vildi ég þá hundur heita. Í kreppu er ég ekki í stuði til að fá rigningarsumar.

Ég held bara samt að svo verði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband