Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
28.4.2011 | 13:20
Þjóðin kemur upp um sljóa náttúruvitund sína
Þó veðurfræðingur segi að apríl hafi verið í heitari kantinum og langt sé frá að hann hafi verið sérstaklega kaldur mun það líklega engu breyta um það hvernig margir tala um þessa vorkomu á fréttastofum, í fjölmiðladálkum, bloggi og á fasbókarsíðum.
Þar er hreinlega látið sem ekkert bóli á vorinu og vetrarveður hafi nánast ríkt allan apríl. Fréttamenn RÚV spyrja jafnvel veðurfræðinga mjög leiðandi spuninga, svo sem ''fer nú ekki að vora'' og þar fram eftir götunum.
Í morgun var alauð jörð á nánast öllum mönnuðum veðurstöðvum og það var hvergi alhvítt. Minnsti hiti í Reykjavík það sem af er apríl er nærri meti. Sólskin er nálægt meðallagi í borginni. Meðaltal mesta dagshita á landinu er farið að slaga upp í það hæsta sem þekkist. Margt fleira mætti nefna.
En það hefur reyndar verið votviðra- og vindasamt.
Ekki ætlast ég til að allir hafi áhuga á veðri. En það er mjög einkennilegt að fólk sem hefur þó búið í landinu alla sína tíð og lifað marga aprílmánuði skuli ekki bara telja sér trú um að ekkert hafi vorað heldur emji beinlínis hástöfum yfir því.
Einkennilegast er þó að fólk skuli ekki sjá vorið með sínum eigin augum.
Nokkuð stór tré blasa við úr stofuglugganum mínum þar sem ég hef búið í nær aldarfjórðung. Fjarlægðin í þau úr glugganum er umtalsverð. Eigi að síður sést úr glugganum mjög greinilega að trén eru farin að laufgast heilmikið og meira en oftast á þessum árstíma. Litlir runnar hér í garðinum segja sömu sögu. Þeir eru orðin algrænir að sjá úr margra metra fjarlægð.
Samt er fólk að spyrja hvort fari ekki að vora bráðum. Það virðist vera gersamlega blint á teikn náttúrunnar.
Umhverfisást er nú mjög í tísku. Allir þykjast bera einstaka umhyggju fyrir umhverfinu og hafa til dæmis voðalegar áhyggjur af veðurfarsbreytingum af mannavöldum.
Múgsefjun þjóðarinnar gegn þessu merkilega vori sem nú lætur allt blómstra löngu fyrir tímann kemur illIlega upp um hana. Hún sýnir ekki umhverfisvitund af neinu tagi. Hún vitnar þvert á móti um umhverfissljóleika af hæstu gráðu.
Þjóðin sér ekki einu sinni vorið þegar það kemur með látum. Veðráttan er þó mest áberandi umhverfisþátturinn. Það má nærri geta að þeir sem skynja hana ekki skynji nú ekki sérlega mikið af öðru umhverfi til að festa ást sína á!
Því miður geri ég ekki ráð fyrir að þessi frétt með uppljóstrun Trausta Jónssonar um nokkrar veðurstaðreyndir breyti miklu.
Margt fólk mun halda áfram að heimta vor þangað til ísköld norðanáttin steypist yfir landið með stórhríð fyrir norðan en skellibjörtu sólskini fyrir sunnan og næturkulda sem mun drepa allan gróður!
En þá munu fréttamenn, fjölmiðlapennar, bloggarar og fasbókarar hrópa upp yfir sig af veðurgleði og ósvikinni náttúrverndarást:
Loksins! Loksins! Vorið er komið!
Apríl alls ekki svo kaldur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 30.4.2011 kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
27.4.2011 | 00:26
Smá innlegg í hina fjörugu veðurumræðu
Það er alldeilis stórmerkilegt að það er eins og fréttamenn, dálkahöfundar, bloggarar og fasbókarar séu komnir með veðrið á heilann. Það gleður mig auðvitað alveg ósegjanlega og mér finnst ég ekki lengur standa einn og einangraður líkt og afglapi með mína sérvisku. Ég hef nefnilega verið með veðrið á heilanum í yfir 40 ár. Og ég gleymi engu þegar vorblíða er annars vegar ellgar vorharðindi með stórhretum og hafísum og hvers kyns illri óárán.
Og ég segi það satt: Sjaldan hef ég lifað jafn ljúft og yndælt vor sem nú. Það eru strax komin blóm í haga út um allt og fíflunum fjölgar alveg ótrúlega hratt.
Veðurfar | Breytt 28.4.2011 kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2011 | 14:07
Ekkert lát á vorblíðunni
Hvar endar þetta?!
Áreiðanlega með ósköpum!
Fylgiskjalið vaktar vorið fara sigurför um landið.
Nú er mjög í spátísku að tala um slyddu upp um öll fjöll. Ekki kemur svo út veðurspá án þess að slyddufjandinn sé samviskulega tíundaður.
Slyddan hefur reyndar alltaf verið og mun verða hvert vor og langt fram á sumar í rigningartíð þegar kemur upp í vissa hæð og svo snjóar meira að segja þar fyrir ofan. Aldrei hafa menn svo sem verið að taka þetta fram fyrr en núna enda hafa allir vitað það. En núna er hamrað á bévítans sleddubyljunum af því að það á víst að sýna þann fádæma hryssing sem hefur gripið veðráttuna í aprílmánuði þar sem varla hefur fest snjó í byggð og þó hærra væri farið.
En ólukkans sledduélin eru víst viðurvitni sem ekki má horfa framhjá um þau eindæma vorharðindi sem nú geisa. Eða eins og segir á málshættinum sem kom upp úr páskaegginu mínu:
Ekki er veðurspá nema sledda sé.
Veðurfar | Breytt 27.4.2011 kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2011 | 20:49
Vorið góða grænt og hlýtt
Ég sé ekki betur en sá apríl sem nú er að líða standi sem sá tíundi hlýjasti sem mælst hefur á landinu.
Hann er samt ekki búinn. Kannski stígur hann enn.
Hvergi er alhvít jörð á veðurstöð og víðast hvar alautt. En það er reyndar snjór á jöklunum!
Úrkoman er komin yfir 100 mm í Reykjavík og verður spennandi að sjá hvort úrkomumetið frá 1921, 150 mm, verður slegið.
Svo spyr fréttamaður Ríkisútvarpsins í fréttatíma veðurfræðing hvort vorið sé ekkert að koma. Í þessu felst það álit að enn hafi ekki vorað neitt.
Ef ekki er enn farið að vora í langt liðnum apríl sem stendur sem sá tíundi hlýjasti hve nær í andskotanum hefur þá eiginlega vorað áður fyrr?
Páll Bergþórsson hefur á fasbókarsíðu sinni nokkru sinnum bent á augljós vormerki hvar sem litið er: gott ástand jarðvegsins og gróðurins. Fyrir nú utan tölulegar staðreyndir.
En sumir virðast blindir fyrir öllu nema einhverri andvormúgsefjun sem leidd er af fjölmiðlum.
Það er heilmikið vor. En það er talsvert sérkennilegt í háttum og fer sínar eigin leiðir og ætti fyrir það einmitt að fá greinagóða athygli í fjölmiðlum fremur en marklaust fuss og svei.
Veðurfar | Breytt 25.4.2011 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.4.2011 | 01:30
Býsna vor
Þetta hefur verið undarlegur apríl. Hitinn er vel yfir meðallagi, um tvö stig í Reykjavík. Fyrir norðan og austan er hitinn 4-5 stigum yfir meðallagi. Í Hornafirði stefnir mánuðurinn á verðlaunapallinn í hitanum. Samt er fólk að tala um að vorið hafi stöðvast eða að ekkert vori yfirleitt. Hvergi hefur þó verið neinn harðindabragur á veðráttunni miðað við það sem oft gerist í apríl. Enginn dagur hefur enn verið undir frostmarki að meðaltali í Reykjavík og ekki heldur á Akureyri. Það er nú bara ansi gott.
Alhvítir dagar í Reykjavík eru að meðaltali fjórir í apríl. Nú hefur einn dagur verið talinn alhvítur en það var aðeins grátt í rót. Þrír aðrir morgnar hafa verið flekkóttir af snjó. Fyrir norðan er svipaða eða betri sögu að segja. Fyrir vestan hefur nokkur snjór verið allra síðustu daga. En jafnvel í alræmdustu snjóasveitum fyrir norðan hefur verið og er enn lítill sem enginn snjór í þessum mánuði.
Brum á runnum er farið að opna sig í Reykjavík og túnið við Stjórnarráðið er að verða algrænt.
Hvað sem hver segir er vorið í fullum gangi!
En það er samt nokkuð hryssingslegt á suðvesturlandi og það finnur fólk. Hitinn í bænum síðustu daga hefur líka verð einhvers staðar þar sem alveg eins getur snjóað eins og rignt. En þetta eru engir kuldar og snjór nær ekki að festast neitt.
Sólskin hefur líka verið alveg eðlilega mikið hingað til í Reykjavík, mjög um meðallag. En Ísland er svo sem ekkert sólskinsland.
Úrkoman er hins vegar æði mikil. Aðeins einn dagur hefur hingað til verið þurr í Reykjavík. Og úrkoman þar er nú þegar komin 33 % fram yfir meðalúrkomu alls aprílmánaðar. Á Hjarðarlandi í Biskupstungum er úrkoman hins vegar orðin um það bil tvöföld miðað við meðallag þar síðustu 20 árin eða svo.
Ekki er útlit fyrir neitt fjandans páskahret. Eftir morgundaginn fer aftur að hlýna. En það rignir vísast áfram eins og veðurguðirnir eigi lífið að leysa.
En þegar svo um hægist og þessum umhleypingum linnir og sólin lætur sjá sig í kyrru og sæmilega hlýju veðri kemur vorið ansi vel undirbúið til leiks.
Í annálum framtíðarinnar mun sagt verða um 2011: Voraði vel það árið en kenjar allmiklar í veðuráttu og krankleiki ýmisligur var í mönnum og fénaði. Var það vor því býsnavor kallað. Og hrukku þá sumir upp af standinum en aðrir ruku úr landi.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 24.4.2011 kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2011 | 15:49
Köldustu aprílmánuðir
1859 (-6,3) Langkaldasti aprílmánuður síðustu 200 árin og er ekki hægt að ganga hér framhjá honum þó helsta viðmiðunarárið í þessum pistlum sé 1866. Meðalhiti aprílmánaða 1961-1990 á stöðvunum níu sem hér er miðað við er 2,0 stig. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -5,9 stig og kom í kjölfars einhvers kaldasta vetrar í heild sem um getur þar og í beinu framhaldi af miklum hörkum frá því um það bil er vika var af mars. Norðan og norðaustanáttir voru linnulausar í Stykkishólmi. Myndin, sem er af vef Stykkishólsmbæjar, er af húsinu þar sem Árni Thorlacius gerði veðurathuganir sínar. Fyrstu þrjá dagana var hörkufrost, 11-20 stig en þ. 4. mildaðist mikið og næsta dag var frostlaust fram á kvöld. Að sögn Þjóðólfs gerði bloti þessi illt verra í sunnlenskum sveitum því hann varð þar að ísing einni og hleypti snjókynginu er fyrir var í enn harðari jökul. Síðan tók við feiknarlegt kuldakast alveg til 24. og hlánaði þá aldrei í Stykkishólmi en frost voru oftast 16-20 stig á næturnar og oft undir tíu stigum allan sólarhringinn. Illviðri og fannkoma hin mesta, segir Þjóðólfur, að hafi verið stöðug og óslítandi frá góukomu til páska (24. apríl) og menn hafi ekki munað eins langan og harðan illviðrabálk. Loks hlýnaði þ. 25. Eftir það var frostlaust að deginum í Stykkishólmi, hlýjast 4,3 stig þ. 25. en næturfrost hverja nótt en alveg þurrt. Fyrir norðan var samt miklu kaldara en í Stykkishólmi. Mælingar á Siglufirði benda til að þar hafi meðalhitinn verið undir 11 stiga frosti (og undir 12 stiga frosti í mars). Norðri á Akureyri skrifar síðasta dag mánaðarins að alls staðar hafi haldist fannfergi og jarðbönn norðanlands með grimmdarfrostum fram yfir páska. Víða voru menn heylausir og búnir að skera fjölda fjár, kýr og hesta. Blaðið segir líka að þó sálbráð hafi verið eftir páska með næturfrostum hafi lítil jörð komið upp. Bætir síðan blaðið við að í Danmörku hafi veturinn verið blíður með þurrviðri og hafi verið eins og heldur svalt sumar hér! Í lok maí segir blaðið að eftir páska hafi komið góðviðri og hægar sólbráðir en í fyrstu með miklum næturfrostum. Var enn gróðurlaust í maílok. (Maí var að vísu kaldur en langt í frá einn af þeim köldustu).
Þorvaldur Thoroddsen segir í Árferði á Íslandi í 1000 ár um vorið 1859: Ár þetta kom yfirleitt mikill ís til Íslands og í aprílmánuði var ís fyrir öllum Vestfjörðum suður undir Breiðafjörð og fyrir öllu Norður-og Austurlandi suður fyrir Papós; í ísnum urðu hvalir víða fastir, en fáir urðu að notum. Skip, sem fór til Austurlands um vorið, mætti hafís miðleiðis milli Færeyja og Íslands og íshroða rak fram hjá Dyrhólaey og suður með Reykjanesi; 17 mílur lá ísinn sem samfrosta hella, vakalaus á haf út austur af Langanesi, en skör þessi mjókkaði eftir því sem suður eftir dró. Það var haldið, að frá Norðurlandi hefði í apríl verið gengt til Grænlands (!)." Lagnaðarísar voru miklir á Breiðafirði. Breiðasund milli Hrappseyjar og Yxneyjar leysti ekki fyrr en 8. maí. Fyrir sunnan var miklu mildara en fyrir norðan og vestan. Meðalhitinn talinn vera -1,9 stig í Reykjavík eftir mælingum sem þá voru gerðar. Hann er samt kaldasti apríl sem þar hefur mælst.
1876 (-3,1) Þennan mánuð var einungis athugað í Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni og Papey. Hitinn er sagður hafa komist mest í 11,1 stig einhvern tíma í Reykjavík og varð ekki hærri á landinu á þessum fimm stöðum þar sem mælt var. Það var einstaklega þurrt. Úrkomudagar voru aðeins 6 í Stykkishólmi og hafa sjaldan verið færri og að úrkomumagni er þetta ellefti þurrasti apríl þar. Jónas Jónassen segir um þennan mánuð í Ísafold 27. apríl 1887 og á lýsing hans við Reykjavík: Norðanbál með hörkugaddi svo að segja allan aprílmánuð; 25. apríl var 1° hiti á nóttu; annars var meiri og minni gaddur á nóttu allan mánuðinn frá 1. (2-10° frost)." Frostnætur í bænum voru hvorki meira né minna en 23. En í Grímsey mældist frost alla daga, mest -18,8 stig þ. 20. og var ekki mælt meira annars staðar á landinu. Enginn dagur var heldur frostlaus í Stykkishólmi. Fréttabréf úr Dalasýslu í Norðanfara segir að þar í sveit hafi verið einhverjar þær grimmustu norðanhríðar og gaddhörkur frá því á öðrum í páskum (sem var 17. apríl) og fram að sumardeginum fyrsta. Ísafold segir að í kringum pálmasunnudag (þ. 9.) hafi staðið sex daga norðangarður í Reykjavík með 10-12 stiga frosti á celsíus. Hafís lagðist fyrir öllu norðurlandi og rak suður eftir austurlandi fram í maí og var sagður hafa komist allt að Ingólfshöfða. Inn á Eyjafjörð kom ísinn þ. 7. og var þar að flækjast fram eftir mánuðinum. Reykjavík var aðeins lítið þorp á þessum tíma eins og sjá má á kortinu sem stækkar svo mikið þegar smellt er nokkrum sinnum á það að vel er hægt að lesa merkingar og skoða einstök hús.
1917 (-2,2) Apríl þessi var mjög stormasamur. Afar kalt var í byrjun mánaðar en mildaðist svo um tíma. En þann 7., laugardagskvöldið fyrir páska, skall fyrirvaralaut á eitthvert illræmdasta pásahret tuttugustu aldar með aftaka norðanátt og grimmdarfrosti. Fór það niður í -19,0 stig á öðrum páskadegi á Grímsstöðum. Á Vífilsstöðum var það -15,8 stig. Ekki voru lágmarksmælingar í Reykjavík en að morgni hins 9. var þar ellefu stiga frost og níu stig um miðjan dag. Um allt norðurland var stórhríð. Símabilanir urðu víða og bátar skemmdust í höfnum og útihús fuku. Á Seyðisfirði töldu menn að annað eins veður hafi ekki komið þar í mörg ár. Á miðvikudeginum var veðrið gengið niður og komið stillt veður. Kuldatíð hélst samt lengi frameftir. Talsvert hlýnaði þó síðustu tíu dagana og komst hitinn mest í 11,1 stig á Seyðisfirði þ. 20. Hafís var skammt undan landi fyrir norðan. Þurrviðrasamt var sunnanlands og snjólétt en snjóasamt fyrir norðan. Á Vífilsstöðum voru sólarstundir 107.Kortið sýnir meðalhæðina í 850 hPa fletinum í mánuðinum í um 1400 m hæð.
Í byrjun mánaðarins lést Magnús Stephensen landshöfðingi en seint í mánuðinum var Jón Helgason vígður biskup. Hann skrifaði margt merkilegt um sögu Reykjavíkur og gaf úr Árbækur Reykjavíkur þar sem ýmislegt er sagt frá veðurfari í bænum. Hann málaði líka einstkalega skemmtilegar vatnslitamyndir af gömlu Reykjavík.
1867 (-1,8) Veturinn 1866 til 1867 er í heild þriðji kaldasti vetur á landinu eftir að veðurathuganir hófust í Stykkishólmi. Kaldari voru aðeins veturnir 1881 og 1866. Mars þetta ár tel ég vera 11. kaldasta mars. Og á eftir honum kom svo þessi kaldi apríl. Harðindin sem voru í mars héldu áfram alveg fram að sumarmálum nema einna helst undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, að sögn Þjóðólfs. Í Stykkishólmi voru frost þó aldrei afskaplega hörð, mest -9 stig þ. 19. Aðeins var alveg frostlaust síðustu tvo dagana og þ. 30. komst hitinn í 5,5 stig í Hólminum. Samfara kuldunum gengu yfir fádæma illviðri allan einmánuð og voru hey víða á þrotum við sumarkomu. Snjór var mikill. Um páskana, sem voru 21. apríl, sást til dæmis hvergi í dökkan díl í Múlasýslum segir Þjóðólfur, frá öræfum til sjávar, og hafi verið mál manna að ekki hafi verið önnur eins vetrarharðindi í þrjátíu ár. Fénaður var jafnvel tekinn að falla sums staðar. Hafíshroða hafði rekið að Langanesi um miðjan mars en í byrjun apríl rak hann að Vestfjörðum. Um miðjan mánuð kom hann að austfjörðum og fyllti þar alla firði. Þann 19. kom hafíshroði inn á Eyjafjörð en rak úr aftur hinn 27.
1882 (-1,8) Umhleypingsamt og kalt. Fyrstu dagana var þó fremur hlýtt og blítt veður. Hiti í mánuðinum komst hæst í 12,9 stig og var það á Grímsstöðum á Fjöllum af öllum stöðum en ekki veit ég hvaða dag það var en líklega einhvern tíma á hlýjustu dögunum, 6.-8. Á páskadag þ. 10., brast á norðanátt með frosti, hríðum og illviðrum sem linntu ekki fyrr en hinn 29. Tók út yfir eftir þ. 20. og næstu tíu daga þar á eftir. Hvergi var þá út komandi nyrðra fyrir stórhríðum og veðurhæð. Fyrir sunnan var frostvægara en veðurhæð síst minni eða jafnvel meiri. Sérstaklega var hvasst dagana 24.-26. Á Snæfellsnesi voru nær linnulausar hríðar frá 10. apríl og fram til 6. maí. Skemmdir urðu á allmörgum jörðum í Rangárvallasýslu af völdum grjótfoks og sandroks. Mesta frost á landinu mældist -20,5 á Skagaströnd. Mánuðurinn var afar þurrviðrasamur. Ekki hefur komið þurrari apríl í Grímsey, 2,8 mm, á grundvelli sæmilega áreiðanlegra mælinga þennan mánuð, en úrkomumælingar eru taldar nokkuð misjafnar að gæðum í eyjunni. Lítill hafís hafði verið um veturinn en í illviðrunum í þessum mánuði rak hann að landi og fyllti allar víkur og firði frá Straumnesi við Aðalvík norður og austur fyrir og allt suður að Breiðamerkisandi og úti fyrir voru hafþök. Við austurland var ísinn nokkuð lausari í sér en fyrir norðan. Nokkur bjarndýr voru skotin. Jónassen segir svo um tíðina i Reykjavík í Þjóðólfi 17. maí:
Þegar borin er saman veðurátta í umliðnum mánuði við veðuráttu í sama mánuði í fyrra, þá er ólíku saman að jafna, því þar sem aprílmán. í fyrra var óvenjulega hlýr og veðurátta hagstæð bæði á sjó og landi hefir hið gagnstæða nú átt sjer stað, því frá 10. þ. m. hefir vindur blásið frá norðri til djúpanna, þótt brugðið hafi fyrir annari átt hjer í bænum og allan síðari hluta mánaðarins hefir mátt heita aftaka norðanrok með miklum kulda og blindbil til sveita (einkum 26. 27. 28.). 1. logn; 2. 3. 4. hægur á austan, 5.-8. s. hægur, dimmur með nokkurri rigningu; 9. logn, þokusuddi; síðari part dags genginn til norðurs með ofanhríð. 10. 11. 12. landnorðangola (norðan til djúpanna); 13. 14. logn (norðan til djúp.); 15. 16. landnorðan, hvass (norðan til djúp.); 17. 18. 19. hægur á austan; 20. 21. logn, útræna (hvass síðari hluta dags h. 21. á norðan); 22.-30. norðan hvass (26.-30. alla dagana norðanrok).
Algengar athugasemdir Jónassens í dálkum hans um veðrið til djúpanna" minna skemmtilega á að byggð var lítil í bænum og útsýni út á sjó og í allar áttir var miklu betra en nú er þegar borgarbyggingar skyggja á. Eftir þessum mánuði kom tíundi kaldasti maí á landinu eftir mínu tali.
1899 (-1,1) Mikið hafði snjóað fyrir norðan á einmánuði og tók ekki upp. Á öllu norður og austurlandi var jarðlaust fram yfir sumarmál en í annari viku sumars fór að koma upp jörð í snjóléttari sveitum fyrir sólbráð en þá var þar hreinviðri dag hvern en frost um nætur. Á norðvesturlandi héldust næðingar til sumarmála og sérlega kalt var Vestfjörðum að tiltölu. Mestur kuldi mældist líka á Holti í Önundarfirði -18,4 stig. Enginn dagur var þar frostlaus og víða annars staðar ekki heldur. Litlu fyrir sumarmál kom mikill bati og mældist mesti hiti í mánuðinum 9,0 stig á Sandfelli í Öræfum. Úrkoman var í tæpu meðallagi. Lítill ís var við landið. Hafís varð þó landfastur við Horn þ. 21. og rak eitthvað suður á firði og ísslæðingur var við Bolungarvík nokkra daga en allur ís var farinn hinn 28. Jónassen segir í nokkrum Ísafoldarblöðum:
Veðurhægð þessa vikuna; við og við og snjór úr lofti, en bráðnar fljótt; hér er nú alauð jörð. (8. apríl). - Hefir verið við há-átt alla vikuna, oftast bjart sólskin, en kaldur, oft bálhvass úti fyrir á norðan, þótt lygn hafi verið hér. Í dag (14.) bálhvass a norðan. (14. aprí) - Austanátt, hæg, alla vikuna; gengið til norðurs, hægur um stund; óvenjulegur næturkuldi um þetta leyti; síðasta vetrardag í fyrra 10 stiga hiti um hádegið". í dag (21.) ofanhríð, svo hér gjörði al-hvítt síðari part dags. (22. apríl) - Verið við norðanátt, hægur alla vikuna, mikill kuldi, og við og við ýrt snjór úr lofti. ... (29. 4).
1949 (-0,9) Um miðja tuttugustu öld komu þrír óvenjulega kaldir aprílmánuðir á fáum árum, 1949, 1951 og 1953. Allir voru þeir nokkurn vegin jafnokar venjulegs janúar að kulda. Fádæma snjóþyngsli voru á suður og vesturlandi í apríl 1949 en alls staðar var mikill snjór nema í lágsveitum norðaustanlands. Snjólagstalan er sú næst mesta á landinu í apríl frá 1924, 78%, en mest varð hún í apríl árið 1990, 84%. Fyrstu tvo dagana var sæmilega milt í hægviðri og þ. 2. kom mesti hiti mánaðarins í Reykjavík, 6,6 stig, og hefur mánaðarhámark þar í apríl aldrei mælst lægra. Í kjölfarið kom austanátt sem var víða hvöss með snjókomu fyrir norðan en þ. 8.-17. var umhleypingasamt og voru lægðir þá yfir landinu eða mjög nærri því með hryssingslegri rigningu, slyddu eða snjókomu og allra veðra von! Dagarnir 18. til 25. voru aftur á móti sérlega kaldir með hvassri norðanátt og frosthörkum. Víða snjóaði. Mest frost mældist -20,0 stig þ. 18. á Möðrudal. Síðustu fimm dagana var hlýrra en hvasst og úrkomusamt. Hámarkshiti allra stöðva var aðeins 9,9 stig þ. 16. á Teigarhorni. Frá 1880 hefur ekki mælst tíu stiga hiti á landinu í einungis tveimur öðrum aprílmánuðum, 9,0 stig 1899 og 9,2 stig 1920. Meðaltal daglegs hámarkshita á landinu var aðeins 5,4 stig en til samanburðar var það 12,7 stig í hlýjasta apríl 1974. Hafís kom að landi við Horn og Skagatá og úti fyrir norðurlandi var talsverður hafís. Áttir frá suðvestri til norðvesturs voru tíðastar vindáttir í þessum hreggviðrasama mánuði. NATO var formlega stofnað snemma í þessum mánuði en þá voru loftflutningarnir frægu til Berlínar í algleymingi. Kortið sýnir frávik þykktar í mánuðinum og má segja að hann hafi verið alveg skelþunnur! Íslandskortið fyrir neðan sýnir meðalhitann í þessum mánuði en meinhollt er að minnast þess að apríl 1859 var um það bil sex stigum kaldari!
1910 (-0,8) Þessi vetur var alræmdur snjóavetur þegar snjóflóðið mikla varð í Hnífsdal í febrúar þar sem fórust 20 manns. Eftir sæmilega tíð í byrjun mánaðar, þegar hitinn komst mest i 11,5 stig á Fagurhólsmýri, spilltist veður mjög þann 10. með stórhríð fyrir norðan og frosti um land allt. Hélst ótíðin mestallan mánuðinn með frostum sem þó voru aldrei mjög mikil, mest -15,0 í Möðrudal. Hæð var oft yfir Grænlandi en lægðir austn við landið. Hámarkshiti í Reykjavík var aðeins 7,0 stig og hefur ekki orðið lægri í apríl nema 1949. Þar var átta þumlunga þykkur snjór að morgni hins 27. að því er Fjallkonan segir. Mjög snjóþungt var á norður og austurlandi en úrkomulítið á suður og suðvesturlandi. Íshroði var þ. 9. norður af Siglufirði en annars var íslaust.
1887 (-0,8) ) Í Vestmanneyjum voru ágæt hlýindi alveg frá 5.-21. og þar rigndi talsvert. Annars staðar var tíðin blandaðri, stundum kalt og stundum hlýtt, en í Grímsey voru kuldar flesta daga. Mestur hiti varð 12,3 stig á Núpufelli í Eyjafirði einhvern hlýindadaginn. Sérstaklega var kalt upp úr sumardeginum fyrsta og var þá aftaka norðangarður og mestu kuldar mánaðarins. Var þetta veður kallað Sumarmálakastið". Frostið í Reykjavík fór í -12,7 stig þ. 24. og hefur aldrei mælst jafn hart svo seint að vori og næstu nótt var það -11,0 stig. Kortið sýnir loftþrýsting kl. 6 að morgni hins 24. Um þetta leyti fór frostið í Grímsey í 15 stig og 10 í Vestmannaeyjum en varð mest -20,2 stig í Möðrudal. Ekki hlánaði í Reykjavík dagana 22.-26. Úrkoma var fremur lítil nema í Reykjavík þar sem hún var vel yfir meðallagi. Um sumarmál rak allmikinn ís að norðurlandi og var hann á reki við landið og sums staðar landfastur við og við. Að Grímsey kom hann þ. 23. og lá fram í ágúst. Eftir miðjan mánuð rak íshroða inn á Eyjafjörð en hinn 18. varð ís landfastur við Raufarhöfn og fór ekki fyrr en í ágúst. Inn á Axarfjörð kom hafís um sumarmál en inn á Húnaflóa kom hann 28. apríl. Jónassen skrifaði í Ísafold um tíðina:
Mestalla vikuna hefur verið óstilling á veðri og optast verið við útsuður (Sv) með meiri eða minni hroða og jeljagangi; að kveldi h. 3. gekk hann í hávestur og um nóttina til norðurs og var rokhvass með blindbyl efra allan fyrri part dags h. 4.; lygndi um kl. 4. e. m. og gjörði logn. Í dag 5. blæja logn fyrri part dags og glaða sólskin, landnorðan til djúpa og loptþyngdarmælir er nú aptur kominn hátt. (6. apríl) - Eins og undanfarna viku hefur ókyrrð verið á veðri þessa vikuna; 6. var hjer landsynningur (Sa) hvass, með mikilli rigningu, en logn að kveldi og næstu nótt; daginn eptir dimm þoka að morgni allt að hádegi, er birti upp og gekk i hæga vesturátt; daginn eptir hægur landsynningur með regni; svo útsynningur (Sv) hægur þrjá næstu dagana, og nú, aðfaranótt h. 12., genginn til austur-landnorðurs með ofanhríð og vægu frosti; hefur í nótt snjóað svo, að jörð er hjer nú alhvít. Loptþyngdarmælir er nú mjög hátt og fer heldur hækkandi. Í dag 12. austanbylur fram að hádegi. (13. apríl). - Veðurátt hefur þessa vikuna verið með blíðasta móti, optast við suðurátt og hlýindi talsverð, við og við með regni ; klaki mjög lítill hjer í jörðu. Í dag 19. hæg landnorðanátt, bjart og fagurt veður. (20. apríl). - Fyrsta dag vikunnar var hæg landnorðanátt, bjart veður; um kveldið fjell snjór og gjörði alhvíta jörð; daginn eptir (21.) var hæg austanátt snemma að morgni en gekk fljótt til norðurs og hefir verið bálviðri dag og nótt síðan og lítið útlit fyrir breytingu. Efra hefir verið blindbylur með köflum. Frostharkan hefir verið óvenjulega mikil um þetta leyti; þannig var frostið um kl. 7 um morgunin h. 24 -12,5°C. Hjer er alveg auð jörð. Tjörnin hjer hjá bænum, sem var alauð, er nú aptur mannheld. (27. apríl).
1983 (-0,8) Kaldasti apríl á síðari áratugum og alveg sambærilegur við kuldakóngana þrjá um miðja tuttugustu öldina. Mánuðurinn byrjaði með kulda og snjókomu víða, þar með talið í Reykjavík. Var mjög kalt næstu níu daga og komst frostið í -23,5 stig þ. 9. á Möðrudal. Síðan mildaðist nokkuð en þ. 16. skall á jafnvel enn verra kuldakast sem stóð í tíu daga. Þann 25. mældist frostið á Möðrudal -21 stig og er þetta síðasta dagstetning að vori sem tuttugu stiga frost hefur mælst á landinu á mannaðri stöð frá og með 1949. Meðaltal daglegs hámarkshita á landinu var aðeins 5,7 stig. Frostdagar voru 24 í Reykjavík og hafa aldrei verið fleiri í apríl en voru jafn margir 1949. Snjólag á landinu var 75%, þriðja til fjórða mesta ásamt 1953. Fyrir norðan var víða alhvítt eða því sem næst en um helmingur daga á suðurlandi var alauður þar sem allra best lét en sums staðar var þar þó aldrei alautt. Þann 17. var snjódýptin á Siglunesi 123 cm. Minnstur var snjórinn á Keflavíkurflugvelli en þar var 21 dagur auður. Í Reykjavík voru fjórir alauðir dagar og sjö alhvítir. Þurrviðrasamt var fremur nema á norðausturhorninu þar sem var gríðarleg úrkoma. Á Raufarhöfn var hún 109,7 mm og aldrei verið meiri í apríl (frá 1934). Aldrei varð almennilega hlýtt en þ. 28. komst hitinn í 10,0 stig á Sámsstöðum. Norðan og norðaustanáttir voru ríkjandi. Á sumardaginn fyrsta (21.) var norðaustanstrekkingur og frost um land allt en mikið sólskin á suður og suðvesturlandi. Ekki beint sumarlegt! Þetta var þurr mánuður og fjórði þurrasti apríl á Teigarhorni. Kortið sýnir kuldagúlp sem lá yfir landinu í kringum 5 km hæð þennan mánuð.
1951 (-0,8) Fram yfir miðjan mánuð var tíðin mjög óhagstæð, miklir kuldar og tíð snjókoma og vindasamt nokkuð á suðurlandi. Einkanlega var kalt um miðjan mánuð og mikið vetrarríki. Var óslitið frost í heila viku í Reykjavík, dagana 13.-19. og hafa slíkir dagar í apríl þar aldrei komið svo margir saman í röð. Og dagshitamet yfir kaldastan meðalhita í apríl voru sett þar hvern dag 13. til 16. og aftur 18. til 19. (Dæmi um kuldana þessa daga sést á kortinu). Voru dagshitakuldametin í meðalhita því sex og hefur enginn apríl fleiri kuldamet yfir meðalhita í borginni. Þann 14. fór lágmarkshitinn í -12,0 stig sem er með meiri kuldum sem komið hafa í apríl í Reykjavík. Dagana 13.-15. komu aftur á móti kuldadagshitamet á Akureyri (frá 1949) í meðalhita. Kaldast á landinu varð hins vegar í lok þessa mikla kuldakasts þegar frostið í Möðrudal og Reykjahlíð við Mývatn fór í -23,1 stig þ. 20. Síðustu fjóra dagana hlýnaði vel og mældist mestur hiti nær alls staðar síðasta mánaðardaginn. Var þá 13 stiga hiti í Reykjavík í glampandi sól en 15,5 í Síðumúla í Borgarfirði. Snjólag var 74%. Sums staðar var snjóþungt með afbrigðum. Þannig var alhvítt víðast hvar á Vestfjörðum, norðurlandi og austurlandi. Í byrjun mánaðarins var snjódýpt 140 cm á Suðureyri við Súgandafjörð og um miðjan mánuð var hún 100 cm á Sandi í Aðaldal og 152 cm á Grímsstöðum á Fjöllum. Hvergi var alautt alla daga en alhvítir dagar voru þó fáir og sums staðar engir á suður og vesturlandi en jörð var flekkótt þar sem ekki var alhvítt. Úrkoma var víðast hvar fremur lítil nema við ströndina á suðaustanverðu landinu. Norðaustanátt var algengust vindátta. Mánuðurinn var því nokkuð ólíkur bróður sínum 1949 þegar vestanátt var ríkjandi. Þessi mánuður er líka úrkomuminnstur kuldaþríburanna 1949, 1951 og 1953. Á austfjörðum var samt mikil úrkoma, 302, 5 mm á Seyðisfirði sem er aprílmet þar.
1953 (-0,7) Þessi mánuður er reyndar bara tólfti kaldasti apríl en er hér nefndur til að hann verði ekki aðskilinn frá kuldabræðrum sínum 1949 og 1951 sem hann er mjög áþekkur hvað hita varðar. Norðlægar áttir voru algengastar, frá norðvestri til norðausturs. Mánuðurinn var úrkomusamastur þessara þriggja. Sérstaklega var úrkomusælt fyrir norðan. Á Akureyri er þetta næst úrkomumesti apríl, 86,4 mm (mest 87,9 mm 1932). Á Blönduósi var úrkoman meiri en í nokkrum apríl, 79,9 mm, í nokkuð slitróttri mælingasögu. Í Reykjahlíð við Mývatn hefur heldur ekki mælst meiri úrkoma í apríl, 58,1 mm (frá 1938) og sömu sögu er að segja af Grímsstöðum á Fjöllum, 62,3 mm ( frá 1936). Mánuðurinn hófst með gríðar miklu og hvössu kuldakasti, einhverju hinu mesta í apríl. Þann 2. á skírdag, fór frostið í 18,1 stig á Möðrudal. Annars staðar var þá víða 10-14 stiga frost og ekki síður á suðurlandi en annars staðar. Daginn eftir féll snjóflóð á bæinn Auðni í Svarfaðardal og fórust þar tvær manneskjur, nokkrar kýr og næstum því allt sauðféð. Sama dag braut brim skarð í skjólvegg í höfninni á Ólafsfirði. Um miðjan mánuð eyðilagði snjóflóð útihús á Þrastarstöðum á Höfðaströnd. Seinna urðu vatnsflóð af völdum krapastíflu í Laxá og vegna leysinga í Húnavatnssýslu og skriða féll á túnið á Hvammi í Dölum. Hlýtt var meðan leysingarnar voru og komst hitinn í 12,8 stig á Skriðuklaustri þ. 20.
Af aprílmánuðum snemma á nítjándu öld má nefna 1811 en þá var meðalhitinn í Stykkishólmi áætlaður -4,8 stig.
Meðalhita stöðvanna og úrkomu má sjá i fylgikjalinu fyrra. Hið síðara sýnir hita í Stykkishólmi árið 1859 og í Reykajvík 1917. Hitinn í Reykjavík er ekki raunverulegur hámarks-og lágmarkshiti heldur það hæsta og lægsta sem lesið var á mæli þrisvar á dag.
Þjóðólfur, 20. apríl, 10. júní 1859; Þjóðólfur 10. maí 1867; Norðri 30. apríl, 30. maí 1859; Norðanfari 30. apríl 1867; Norðanfari 18. maí 1876; Ísafold 10. maí 1876; Fréttir frá Íslandi 1876, 1882; Stefnir 6. maí 1899; Austri 17. apríl 1917; Fjallkonan 27. apríl 1910.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 7.12.2011 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.4.2011 | 14:31
Ekki vetrarveður þó hvessi
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var talað fullum fetum um að vetrarveður það sem nú á að vera hafi komið fólki á óvart. Á bloggsíðum og fasbókarsíðum tala margir um hret og jafnvel að páskahretið ætli að verða langt í ár. Menn vilja meina að nú láti vorið bíða eftir sér. Í fyrradag var þó tutugu stiga hiti í Vopnafirði!
Að mínum dómi er bara ekkert vorhret núna og því um síður páskahret. Það var ansi hvasst í gær og veðrið verður blautt og rysjótt næstu daga með ónota hryðjum sunnanlands og vestan. En ég kalla það ekki alvöru hret. Ekki má heldur gleyma því að fyrir norðan og austan er fínasta veður. Mjög lítill snjór er líka á landinu, jafnvel upp á heiðar, þó hann aukist kannski næstu daga.
Hvassvirði í apríl af suðvestri jafngildir ekki vetrarveðri eða hreti. Hiti hefur reyndar verið langt yfir meðallagi árstímans allan mánuðinn og hann er enn yfir því. Páll Bergþórsson gerir ráð fyrir því á fasbókarsíðu sinni að hann verði rétt aðeins undir meðallagi hlýindatímabilsins 1931-1960 í Stykkishólmi næstu níu daga.
Það gerir eflaust él og snjókomu á heiðum og fjöllum en á láglendi er varla gert ráð fyrir að frjósi næstu daga þó úrkoma verði talsverð og hryssingur og þessi leiðinlegu haglél. Um miðjan mánuð má slá því föstu að meðalhtinn verði enn vel yfir meðallagi á landinu. Á laugardaginn er hins vegar spáð ansi ískyggilegu veðri, snjókomu og frosti víða. En það veður er ekki komið og kemur kannski ekki.
En það veður sem hefur þegar sýnt sig í apríl, þrátt fyrir illvirðrið í gær, er niður við jörð varla hægt að kalla vetrarveður hvað sem síðar verur. Ég veit ekki við hverju fólk býst snemma í apríl. Varla því að ekki megi gera ráð fyrir því að komi kuldaköst fyrr en að hausti. Stundum koma reyndar engin kuldaköst að heitið getið í öllum apríl en það er þó alvanalegt að alveg til loka hans komi norðanskot með frosti um allt land og snjókomu á öllum norðurhelmingi landsins. Og jafnvel alveg fram í maí eða lengur.Það eru alvöru vorhretin að mínum dómi.
Hvassviðri af suðvestri með hryðjum en frostlausu veðri jafnast engan vegin á við slík alvöruhret þó ekki séu þau sérlega yndisleg.
Alltaf hefur mér leiðst þetta hugtak páskahret. Vegna þess hve hret eru algeng frameftir öllu vori finnst mér út í hött að tengja þau páskum sérstaklega. En það er kannski vit í þessu hugtaki út frá félagslegum forsendum vegna útivistar og þess háttar.
Til þess að menn viti hvað ég á við með alvöru aprílhretum eru hér birt nokkur gömul kort með þeim þennan mánaðardag. Þetta er bara sýnishorn. Og svona dagar geta komið allan apríl. Menn beri svo kortin saman við efsta kortið sem er frá hádegi í dag. Svo er þarna loks bónuskort frá einum yndisfríðum júnídegi!
Vorið er í fullum gangi þó rysjótt sé. Þökkum fyrir að ekki séu vorharðindi.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 18.4.2011 kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.4.2011 | 19:10
Já, tuttugu stig á Vopnafirði
Í dag komst hitinn á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði upp í 20,2 stig. Það er fyrsta dagsetning að vori sem hiti á Íslandi fer upp í tuttugu stig á kvikasilfursmæli. Hins vegar fór hitinn á sjálfvirkum mæli á Neskaupstað í 21,2 stig þ. 3. apríl árið 2007 en hvergi mældust 20 stig í þeirri hlýindagusu á kvikasilfursmæli.
Hitastigið á Skjaldþingsstöðum er náttúrlega dagsmet fyrir landið og það gamla, á sama stað, var lásí 15,8 stig árið 2003.
Ekki er þetta þó mesti hiti sem mælst hefur í apríl öllum á Vopnafirði. Í kauptúninu mældust 20,4 stig þ. 26. árið 1984 en á Skjaldþingsstöðum 20,6 stig þ. 18. árið 2003.
Á Akureyri var sett í dag dagsmet fyrir hámarkshita, 15,6 stig, en gamla dagsmetið var aðeins 12,0 stig frá 2003, það lægsta á öllum dögum mánaðarins. En miklu meiri hiti, 16,9 stig, mældist á Akureyri þ. 3. 2003.
Það er hins vegar möguleiki á því að meðalhitinn á Akureyri verði sá hæsti sem mælst hefur svo snemma árs og slái þar með út 3. apríl 2003! En við sjáum hvað setur. Þykktin yfir Keflavík var á hádegi 5467 metrar en kringum 5520 á norðausturlandi.
Ég segi skilyrðislaust já við svona veðri en þvert nei við norðanátt og kulda!
Viðbót. Jú, meðalhitinn á Akureyri náði 12 stigum og hefur aldrei verið jafn hár svo snemma vors. Meðalhitinn í Reykjavík er reyndar líka dagsmet en fyrr í árinu hefur þó mælst meiri meðalhiti.
Meðal annarra orða: Af hverju bloggar Einar Sveinbjörnsson ekki? Ekkert komið í tvo mánuði.
Og í sem fæstum orðum: Mikið er pirrandi að á vef Veðustofunnar fyrir lágmarkshita láglendisstöðva séu teknar með einhverjar skollans heiðastöðvar þar sem ekkert lifandi þrífst, Klettsháls, Miklidalur, Þröskuldar, Gemlufallsheiði. Það tekur svo óratíma að leita að lágmörkum á einhverjum vitibornum stöðvum. Þessar stöðvar ættu bara að vera í flokki með hálendisstöðvum og óbyggðum þó þær séu kannski undir 400 m hæð.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 11.4.2011 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2011 | 19:46
Hvernig verður apríl
Mér finnst alltaf 1. apríl vera fyrsti dagur vorsins þó ekki sé nú alltaf komið vorveður. Þegar jörð er orðin auð og komið fram í aprílmánuð finnst mér náttúran vera búinn að gera vorhreingerningarnar.
Hvað finnst mönnum um þetta nýja myndform sem komið er á veðurfréttir sjónvarpsins? Þarna er kort af landinu með landslagi í dýpt. Kannski verður einhvern tíma sýnt hvernig það virkar á veðrið á sérstökum stöðum í sérstöku veðurlagi. Gaman að sjá ástandið í Ameríku þó sárlega sakni ég Eureka og Alerts á Kanadaeyjunum! Þar vilja vorharðindi oft verða í harðara lagi!
En við fylgjumst með apríl hér í fylgiskjalinu.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 11.4.2011 kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.4.2011 | 17:02
Hlýustu aprílmánuðir
1974 (5,8) Apríl þetta ár var hlýjasti apríl sem mælst hefur síðan mælingar hófust, 3,8 stig yfir meðaltalinu 1961-1990. Hann var nær alls staðar hlýrri en nokkur annar aprílmánuður. Veðráttan segir: Tíðarfarið var með afbrigðum hlýtt og hagstætt. Tún voru yfirleitt algræn eða því sem næst í mánaðarlok og úthagi að grænka. Færð var góð." Þykktin yfir landinu (sjá efra kortið) og kringum það var langt fyrir ofan meðallag og var frávikið það mesta á öllu norðurhveli. Sunnanátt var yfirgnæfandi og var nokkuð drungalegt á suður-og vesturlandi. Sólskin hefur aldrei mælst eins lítið í apríl í Reykjavík og Sámsstöðum og heldur ekki á Reykhólum í þau um það bil 30 ár sem þar var mælt. Á Hveravöllum mældist heldur aldrei minni sól í apríl, 82 klst (1966-2004). Út yfir tók þó á Reykjum í Ölfusi þar sem sólarstundir mældust tæplega 30 og hefur aldrei mælst eins lítil sól í nokkrum apríl á þeim fáu veðurstöðvum sem mælt hafa sólskin. Sólríkt var hins vegar á Akureyri og enn sólríkara á Hallormsstað, 175 klst. Meðalhitinn á Loftssölum í Dyrhólahreppi og Hellu var 7,1 stig sem er hæsti meðalhiti á íslenskum veðurstöðvum í apríl. Á Hveravöllum var meðalhitinn 1,1 stig og hefur aldrei mælst þar eins mikill í apríl. Um allt land var hitinn fremur líkari því sem gerist í betri maí fremur en apríl. Á norðausturlandi var meðaltal hámarkshita á nokkrum stöðvum yfir 10 stig, mestur 10,8 á Staðarhóli sem þætti þar alveg boðlegt í júní. Mesti hiti mánaðarins mældist 18,5 stig þ. 24. á Dratthalastöðum á Úthéraði og 18,4 á Vopnafirði. Meðaltal hámarkshita yfir allt landið var 12,7 stig. Á Hellu, Lofsstöðum, Stórhöfða í Vestmannaeyjum og Reykjanesi var frostlaust allan mánuðinn. Í Reykjavík mældist frost aðeins í einn dag, -1,1 stig (þ. 3.) og þar var einnig alhvítt aðeins í einn dag. Þetta er hæsti lágmarkshiti í nokkrum apríl í Reykjavík. Mesta frost á landinu mældist -7,2 stig þ. 8. á Grímsstöðum og Mýri í Bárðardal. Þetta er næst snjóléttasti apríl á landinu frá 1924. Snjóhula var aðeins 16% en var 45% að meðaltali árin 1924-2007. Á Hveravöllum var alhvítt í aðeins 10 daga en vanalega er þar alhvítt allan apríl. Syðst á landinu var enginn snjór og víðast hvar annars staðar á suðurlandi voru alhvítir dagar aðeins einn. Mikið góðviðri var á norðausturlandi eftir þ. 20 og var hámarkshitinn þá dögum saman um og yfir 15 stig þar sem best var. Dagshitamet fyrir meðalhita frá 1949 á Akureyri voru þó aðeins tvö, 10,5 stig þ. 4. og 10,7 stig þ. 6. Ekki kom dropi úr lofti á Akureyri eftir miðjan mánuð. Að öðru leyti var úrkoman fremur mikil á suður og vesturlandi, einkum á sunnanverðum Vestfjörðum, meira en þreföld meðalúrkoma í Kvígindisdal, en lítil fyrir norðan og austan. Flesta daga kom eitthvað úr loftinu á suðurlandi en sjaldan voru stórrigningar. Þetta er úrkomusamasti mánuðurinn af þremur hlýjustu aprílmánuðunum 1974, 1926 og 2003. Á Hveravöllum mældist aldrei meiri úrkoma í apríl 111,4 mm (1966-2004). Sunnanátt var algengust átta en norðlægir vindar voru mjög sjaldgæfir. Hæðasvæði var langtímum saman fyrir suðaustan eða austan land (sjá kortið af 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð). Á undan þessum mánuði fór sjöundi hlýjasti mars og á eftir honum tólfti hlýjasti maí. Gott vor þetta árið! Guðmundur Böðvarsson skáld, sem orti góð vorljóð, lést í byrjun mánaðarins. Hér er kort með meðalhita flestra stöðva.
1926 (5,3) Næstir apríl 1974 að hlýindum koma apríl 1926 og 2003. Á þeim er lítill munur í hitanum en þó var apríl 2003 nokkru hlýrri á útkjálkum fyrir norðan. Á Fagurhólsmýri er apríl 1926 reyndar sá hlýjasti sem hefur mælst og hann var jafn hlýr og 1974 í Vestmannaeyjum og Bolungarvík. Þurrviðrasamt á Norðurlandi. Mikil hlýindi mest-allan mánuðinn", segir Veðráttan um apríl 1926. Það var hægviðrasamt en austanátt var algengasta áttin. Úrkoma var þar af leiðandi mikil á suðausturlandi og var reyndar einnig meiri í Reykjavík en 1974 en yfirleitt minni á landinu í heild en þá. Alveg snjólaust var í höfuðborginni og víðast hvar á suður-og vesturlandi og alhvítir dagar voru nauðafáir annars staðar. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist ekki frost. Í Reykjavík var vægt frost í tvær nætur. Kaldast á landinu varð -9,6 stig þ. 1. á Grænavatni fyrir sunnan Mývatn. Mjög hlýtt var annars í byrjun mánaðar, oft yfir tíu stig í Reykjavik, en síðan kólnaði ofurlítið þó hlýtt væri áfram. Rétt eftir miðjan mánuð kom hins vegar dálítið kuldakast með hvassri norðanátt í þrjá daga en eftir hana fylgdu nokkrir góðir sólardagar í Reykjavík með 6-7 stiga síðdegishita. Síðasta þriðjung mánaðarins var hæð yfir landinu og suðaustan við það sem þokaðist austur og norður fyrir land. Fylgdi þessu suðaustan átt og var hámarkshitinn þá um og yfir tíu stig í höfuðstaðnum. En hlýjast varð 18,8 á Lækjamótum í Víðidal í Húnavatnssýslu þ. 26. Um það leyti var hæð austan við land og suðaustanátt frá Evrópu ríkjandi (sjá kortið). Í slíku veðurlagi nýtur þetta landsvæði sín vel. Næst mesti hiti á landinu varð 15,1 stig á Teigarhorni þ. 24. Síðustu vikuna var daglegur hámarkshiti á landinu alltaf yfir 13 stigum. Snjóhula var 29%. Í byrjun mánaðar var nokkur snjór fyrir norðan eftir norðankast sem kom í lok mars.
Í heimsmenningunni gerðust þau tíðindi einna helst að Arturo Toscanini stjórnaði frumflutningi á Turandot, síðustu óperu Puccinis, þ. 15. í Scalaóperunni í Mílanó.
2003 (5,2) Mánuðurinn byrjaði kuldalega með frosti um allt land um hádaginn. En síðan hlýnaði og þessi apríl var einmuna hlýr lengst af en heldur kólnaði þó undir lokin. Á Steinum undir Eyjafjöllum var meðalhitinn víst 7,8 stig á sjálfvirkri stöð Vegagerðarinnar. Þar sem stöðin þykir kenjótt er þessu ekki hampað sem Íslandsmeti í aprílmeðalhita veðurstöðva. Þurrviðrasamt var á norðaustanverðu landinu, vindar voru fremur hægir og engin stórviðri. Tún voru orðin græn í lok mánaðarins, tré voru farin að laufgast og blóm að skjóta upp kollinum", segir Veðráttan. Áttir frá norðaustri til suðurs voru tíðastar. Úrkoma var minni í Reykjavík en hina hlýjustu mánuðina og sólin miklu meiri. Í raun og veru var þessi mánuður betri" í höfuðstaðnum en árið 1974 vegna þess að nokkrir sólríkir dagar komu með um og vel yfir tíu stiga hita en svo heitir sólskinsdagar eru fremur sjaldgæftir í Reykjavík í apríl. Besti dagurinn var hinn 22. en þá mældist hitinn í borginni 13,6 stig í glaðasólskini en mistur var í lofti. Aðra sögu var að segja frá Hornafirði en þar er þetta sólarminnsti apríl sem mælst hefur, 83 klst (frá 1958). Fyrir norðan var talsvert minni sól en 1974 en úrkoman var þar líka minni en þá. Upp úr miðjum mánuði gerði óvenjulega hitabylgju. Fór þá hitinn yfir 20 stig á 11 stöðvum á norðausturlandi frá Mánárbakka að Neskaupsstað, mest á mannaðri stöð í 21,1 á Sauðanesi á föstudeginum langa þ. 18. sem var þá mesti hiti sem mælst hafði á landinu í apríl á mannaðri stöð og næst fyrsta dagsetning á tuttugu stigum að vori á mannaðri veðurstöð, en næsta dag mældust 21,4 stig á sjálfvirku stöðinni á Hallormsstað (fyrsta dagsetning 20 stiga hita er skráð 9. apríl 2011 þegar 20,2 stig mældust á Skjaldþingsstöðum. Kortið sýnir loftþrýsting við jörð og hæð 500 hPa að kvöldi mesta hlýindadagsins. Mestur hiti á suðurlandi mældist 15,2 stig á Sámsstöðum þ. 16. Hiti komst í tíu stig (þ. 22. ) á Hveravöllum í eina skiptið í apríl meðan þar var mönnuð veðurstöð. Dagshitamet meðalhita og einnig hámarkshita voru sett á Akureyri dagana 16.-18. (alls komu sex dagshitamet í mánuðinum fyrir hámark í apríl á Akureyri). Síðast talda daginn var meðalhitinn 14,6 stig og hefur aðeins einn apríldagur orðið hlýrri á Akureyri (14,7° þ. 26. 1984). Á Hellu var meðaltal hámarkshita mánaðarins 10,2 stig og er það eina dæmið í apríl um það að meðaltal hámarkshita á mannaðri veðurstöð á suðurlandsundirlendi hafi náð tíu stigum. Meðaltal daglegs hámarkshita á mönnuðum stöðvum var 12,9, aðeins hærra en 1974. Mánuðurinn var hvergi alveg frostlaus en í Vestmannaeyjum var aðeins einn frostdagur. Snjór var hins vegar minni en í nokkrum öðrum apríl, snjólag var einungis kringum 10%. Næst snjóléttastir voru apríl 1974 og 1964. Á suðausturlandi var víða alautt allan mánuðinn. Í Reykjavík var flekkótt tvo morgna en aldrei alhvítt. Á Akureyri varð heldur aldrei alhvítt en flekkótt þrjá daga. Kaldast í byggð var -12,7 stig þ. 2. á Grímsstöðum en á fjöllum -13,1 stig á Gagnheiði daginn áður. Úrkoman var tiltölulega mest á miðhálendinu og á vesturlandi en var lítil fyrir norðan og austan. Vindar frá norðaustri til suðurs voru algengastir. Síðasta daginn byrjaði leiðindakuldakast og var næstu daga frost fyrir norðan. Á undan þessum mánuði kom áttundi hlýjasti mars.
Saddam Hussein var hrakinn frá völdum í Írak snemma í þessum apríl.
1894 (4,8) Þessi mánuður var óvenjulega hlýr inn til landsins. Í Hreppunum hefur aldrei mælst eins hlýr apríl. Á Grund í Eyjafirði var meðalhitinn 5,2 stig en 4,7 á Akureyri. Hið gagnstæða mun venjulega vera raunin að hlýrra sé á Akureyri í apríl en inni í dalnum. Á Möðrudal var meðalhitinn 2,8 stig, hátt upp í fimm stig yfir meðallaginu 1961-1990. Þar mældist reyndar mesta frost mánaðarins sem ekki er út af fyrir sig að undra. En hitt má hins vegar undrast að það var aðeins -5,2 stig og er það hæsta mánaðarlágmark á landinu í apríl sem skráð er. Á Akureyri mældist ekki frost (og heldur ekki í Hafnarfirði) sem er algert einsdæmi í apríl. Ofurlítið frost mældist hins vegar í Reykjavík (þar eru engin dæmi um alveg frostlausan apríl) þ. 1. (-0,2°) og aftur þ. 24. (-1,0°). Alautt var þar allan mánuðinn samkvæmt upplýsingum Þorvaldar Thoroddsen í Lýsingu Íslands. Hiti var oftast mjög jafn og stöðugur á landinu og aldrei kom alvöru kuldakast þó dálitið kólnaði í örfáa daga upp úr miðjum mánuði með suðsvestanátt og snjóaði þá nokkuð sums staðar vestanlands. Skjótt hlýnaði á ný og síðustu dagarnir voru mjög hlýir. Fór hitinn mest í 13,4 stig á Teigarhorni þ. 28. Úrkoma var meira en tvöföld á Teigarhorni en tiltölulega lítil í Vestmannaeyjum. Enginn teljandi hafís var við landið. Lægðir voru oft vestan við land með sunnanáttum, einkum framan af, eða jafnvel oftar, síðar í mánuðinum, djúpt suður í hafi með hlýjum suðaustanáttum. Jónassen var óþreytandi að lýsa tíðarfarinu í Ísafoldarblöðum:
... hvass á austan-landsunnan með miklu regni h. 1., gekk svo til útsuðurs eptir miðjan dag og varð hægur;hægur sunnankaldi og bjartur h. 2.;logn og bjart sólskin h. 3.;gekk svo til suðurlandsuðurs nokkuð hvass h. 4. og heflr verið við þá átt síðan. Í morgun (7.) austanvari, bezta veður. (7. apríl.) - Dimmur á austan h. 7., 8. og 9. Logn og fagurt veður h. 10. Sunnan hægur dimmur h. 11. með smá-regnskúrum ; hvass á landnorðan með regni h. 12.; hægur á austan og bjartur h. 13.; austankaldi h. 14. bjart og fagurt veður. (14. apríl). - Hægur austankaldi h. 14 logn og fagurt veður h. 15. og 16. Útsunnan hægur h. 17. 18. og 19. en þó hvass með köflum og við og við hagljel og ofanhríð; hjer snjóaði talsvert aðfaranótt h. 19. og mikill snjór til fjalla hjeðan að sjá. (21. apríl). - Hinn 21. var hjer logn, norðangola til djúpa; hægur austankaldi hjer síðari part dags; hvass á landsunnan með regni h. 22. og sama veður 23. fram yíir miðjan dag, er fór að lygna; logn og fagurt veður h. 24., 25 , 26. og 27.; stöku sinnum ýrt regn úr lopti síðustu dagana. Í morgun (28.) hvass á austan með regni. (28. apríl). - Hinn 28. austan, hvass að morgni með regni logn að kvöldi; h. 29. útsynningur með hagljeljum og regni og sama veður 30. og 1. og 2. optast bjartur á milli, gekk svo til norðurs hægur og varð bjart sólskin h. S., gekk svo til austurs h. 4. og fór að rigna lítið um kvöldið. Í síðustu 20 árin hefir veðrátt í aprílmánuði aldrei verið eins hlý og nú þetta árið; er það einstakt, að aðeins skuli hafa verið 2 frostnætur (í bæði skiptin -1) allan mánuðinn; 1881 voru 5 frostnætur; mestur var þó næturkuldinn 1876 (23 frostnætur); 1885 20 frostnætur (15 stiga frost 2/4); 1887, 1888 og 1889 16 frostnætur hvert árið; í fyrra 7, í hitt eð fyrra 14 . (5. maí).
Já, ég hef valið þann kost að birta umsagnir Jónassens í heild um alla þá mánuði sem hann fjallaði um og koma við sögu í þessum pistlum. Þetta eru afar merkilegar samtímaheimildir um veðurfar og hafa þær verið teknar mjög skipulega saman á vef Veðurstofunnar en líka er vitaskuld hægt að fletta þeim upp í gömlu blöðunum. Og þarna eru auðvitað einnig lýsingar á mánuðum sem ekki koma hér við sögu.
1880 (4,6) Þetta ár var mikið góðærisár lengst af þó það endaði ótrúlega illa með kaldasta desember allra tíma og síðan kaldasta vetri. Hófst góðærið í mars og hélst út september. Aðeins var athugað í Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni, Vestmannaeyjum, Skagaströnd (meðalhiti 4,0°) og Papey (4,6°). Ekki er hægt að tala um nein kuldaköst að heitið geti en þó kólnaði dag og dag á stangli. Mesta frost var -6,6, stig í Grímsey þann 14. sem var einn af þessum örfáu köldu dögum. Sóley fannst á túni þ. 5. á Hraunum í Fljótum. Tún voru orðin algræn löngu fyrir sumarmál. Nokkrir dagar fyrir og um miðjan mánuð og síðustu dagarnir voru sérlega hlýir en mestur hiti varð 13,1 stig þ. 28. á Teigarhorni. Eftir mælingum í Stykkishólmi, Teigarhorni og Vestmannaeyjum að dæma var úrkoman kringum meðallag. Hún var þó meira en tvöföld á Teigarhorni en tiltölulega lítil í Vestmannaeyjum. Enginn hafís var við landið. Síðasta daginn kom póstskip frá Danmörku með lík Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans og voru þau jarðsett í Reykjavík nokkrum dögum síðar. Jónassen lýsti veðráttufarinu í Þjóðólfi 29 maí :
Fyrst framan af mánuðinum var veður hvasst á austan (landnorðan) með snjókomu til fjalla, (2. var fjarskalegt rok á austan í nokkra klukkutíma), svo nokkra daga á norðan (5. 6. 7.). Síðan ýmist við suður eða landsuður með nokkurri rigningu og stundum hvass; 8-11. var vindur sunnan lands stundum hvass; 12-13. vestan útnorðan með miklum brimhroða og snjókomu til fjalla og hér varð jörð alhvít aðfaranótt hins 13.; 14-21. hægur á lands. eða austan og vanalega bjart veður; 21-23. vestan útnorðanhroði mikill og 24. genginn í norður en hægur; 25. logn og fagurt veður; 26.-30. lands., opt hvass og stundum með talsverðum rigningarskúrum.
2004 (4,5) Veðurfar var nokkuð rysjótt þrátt fyrir hlýindin en norðanátt var allra átta tíðust. Á Kirkjubæjarklastri (6,4°) og í Vík í Mýrdal (6,7°) hefur aldrei mælst eins hlýr apríl. Í Reykjavík var bæði mikil úrkoma og venju fremur mikið sólskin. Hlýjast að tiltölu var á landinu miðju. Mestur hiti varð 16,4 á Núpi á Berufjarðarströnd þ. 8. í suðvestanátt. Sama dag voru 15,5 stig á Kirkjubæjarklaustri. Mesta frost á mannaðri stöð var -9,4 á Hveravöllum þ. 7. og sama dag -9,0 á Möðrudal. Á Gagnheiði í um 950 m hæð mældust -12,0 stig þ. 9. á sjálfvirkri stöð. Snjólag var 16% eins og 1964 og 1974. Mjög þaulsetnar hæðir voru í þessum mánuði, ýmist yfir Norðurlöndum eða suður í hafi. Lægðir fóru oft norðaustur yfir Grænlandssund. Hálfgerðum hryssingi stafar af mánaðarkortinu af hæð 850 hPa flatarins sem var í 1300-1400 m hæð kringum landið.
2007 (4,4) Tvær merkilegar hitabylgjur komu í mánuði þessum. Sú fyrri var á austurlandi fyrstu dagana og komst hitinn í 21,2 stig þ. 3. í Neskaupstað á sjálfvirkri stöð. Það er mesti hiti sem mælst hefur svo snemma árs og fyrsta dagsetning að vori sem hiti nær tuttugu stigum á landinu. Fyrstu þrjá dagana komu dagshitamet hámarkshita á Akureyri (13,6, 13,0, 16,9°) en fyrir meðalhita aðeins þ. 3. (11,8°). Hinn fjórða kólnaði mjög og var frost nokkra daga fyrir norðan. Síðari hitabylgjan gekk um mikinn hluta landsins síðustu þrjá dagana og var þá víða bjart veður. Þann 29. mældist mesti hiti sem mælst hefur í apríl á landinu, 23,0 stig á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi og 21,9 á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal sem er met fyrir mannaðar stöðvar. Hitamet féllu mjög víða á einstökum veðurstöðvum. Tuttugu stiga hiti eða meira kom ansi víða á svæðinu frá Eyjafirði til austfjarða. Í Reykjavík mældist meðalhitinn 11,8 stig þ. 29. og er það mesti meðalhiti sem mælst hefur þar nokkurn sólarhring í apríl. Daginn áður var meðalhitinn 10,8 stig sem þá var líka met sem stóð í einn dag. Á Akureyri komst hitinn í fyrsta sinn yfir 20 stig í apríl, 21,5 stig þ. 29. Dagshitamet fyrir meðalhita komu þar þrjá síðustu dagana. Þrátt fyrir þetta var hitanum ekki fyrir að fara á sumardeginum fyrsta sem var þ. 19. Mældist þá lægsti hiti mánaðarins, bæði á mannaðri og sjálfvirkri veðurstöð, á Grímsstöðum á Fjöllum -12,3 stig og -21,4 stig á Brúarjökli. Hæðasvæði var yfir sunnanverðum Bretlandseyjum þennan mánuð en lægðasvæði suðvestan við landið og nærri því. Kortið sýnir veðrið kl. 15 þ. 29.
1955 (4,4) Framan af var tíð hagstæð en versnaði er á leið. Voru þá hvassar suðaustanáttir og stórrigningar á suðurlandi þ. 24. og daginn eftir á austurlandi. Á Hólum í Hornafirði mældist sólarhringsúrkoman 57,7 mm að morgni hins 26. Úrkoman var fremur mikil á landinu víða og á Nautabúi í Skagafirði er þetta úrkomusamasti apríl á staðnum, 77,8 mm (1935-2004). Aldrei fraus í Vestmannaeyjum, Mýrdal og Sámsstöðum í Fljótshlíð. Í Reykjavík var ein frostnótt eins og 1974. Það var hinn 21. og kom í kjölfar sólríkasta dags mánaðarins í borginni! Hins vegar var mánuðurinn í heild níundi sólarminnsti apríl í höfuðstaðnum. Daginn áður mældist mesta frost á landinu, -12,0 stig á Grímsstöðum og -9,9 í Möðrudal. Yfir landinu var þá háþrýstisvæði. Hlýjast varð upp úr miðjum mánuði, mest 15,8 stig í Fagradal í Vopnafirði þ. 17. og daginn eftir 14,9 á Hallormsstað og 14,8 á Hofi í Vopnafirði. Skriðuföll þ. 18. ollu stjórtjóni eftir stórrigningar og fórst þá barn á bænum Hjalla í Kjós. Sama dag lést vísindamaðurinn Albert Einstein. Úrkoman var lítil norðaustanlands en annars staðar í meira lagi. Alautt var á Reykjavíkursvæðinu, víða á suðurlandsundirlendi og í Stykkishólmi en á landinu öllu var snjólag 22%. Víða voru aðeins einn til tveir dagar alhvítir og hvergi fleiri en fimm. Fyrsta dag mánaðarins komu þrír allmiklir jarðskjálftakippir á suðurlandi, einkum í Ölfusi og urðu smávægilegar skemmdir í Hveragerði og víðar. Lægðir voru oft suðvestan við land framan af og stundum nær landinu en síðar var hæð sunnan við landið áberandi. Undir lokin voru lægðir aftur þrálátar suðvestan og sunnan við landið. Ruby Murray var á toppnum í poppinu á Bretlandi. Man einhver eftir henni? Softly, softly ...
1957 (4,2) Suðvestanátt var algengust í þessum mánuði og tiltölulega hlýjast á norðausturlandi og þar var einnig sólríkast. Á Hallormsstað mældist meiri sól en nokkrum öðrum apríl, 219 klst (1953-1989). Eigi að síður mældist þar líka mesta sólarhringsúrkoma sem þar hefur komið í april , 44,7 mm þ. 2. Sérlega hlýtt var fyrstu dagana og voru þá sett fimm dagsmet yfir meðalhita í Reykjavík. Enginn apríl státar af jafn mörgum slíkum dagshitametum í borginni sem þessi. Milt var allan mánuðinn nema fáeina daga fyrir norðan kringum þ. 10. og á öllu landinu nokkra daga eftir miðjan mánuð og komst frostið þá í -12,0 stig á Barkarstöðum í Miðfirði þ. 23. Von bráðar hlýnaði á ný og hlýjast varð undir lok mánaðarins þegar 15,8 stig mældust á Teigarhorni þ. 30. og 15 stig á Akureyri og Hallormsstað. Snjólag var 29%. Á öllu suður og vesturlandi voru alhvítir dagar aðeins einn til tveir eða engir en hvergi var alveg snjólaust nema á Djúpavogi. Snjór var óvenjulega lítill á norðausturlandi og hvergi meiri en í meðalári nema á Suðureyri við Súgandafjörð. Mikið sjávarflóð gekk yfir Álftanes þ. 16. svo veginn tók af og bæir urðu umflotnir sjó. Sama dag var þrumuél og skýfall í Reykjavík. Nokkrum dögum síðar sást halastjarna á himni en ekki komu þó plágur og drepsóttir í kjölfar hennar!
Grace Kelly, sem þá var ein skærasta kvikmyndastjarnan gifti sig um miðjan mánuð og varð þar með furstafrúin af Mónakkó. Ungur myndlistarmaður er kallaði sig Ferró hélt sína fyrsti sýningu í Reykjavík og varð síðar frægur um allar trissur undir nafinu Erró. All Shook Up með engum öðrum en Elvis var vinsælasta lagið í Bandaríkjunum.
1928 (4,1) Í þessum apríl voru suðaustan og austanáttir algengastar og úrkomusamt á suðurlandi en þurrt á norðurlandi. Einkanlega voru mikil votviðri á suðaustanverðu landinu. Á Teigarhorni var mesta úrkoma sem þar hefur mælst í apríl og einnig á Fagurhólsmýri, 214 mm. Snjólag var 22%. Alautt var í Reykjavík en hvergi annars staðar. Snjór var þó alls staðar mjög lítill, alhvítir dagar einn til þrír á suður og vesturlandi og fyrir norðan hvergi fleiri en níu og var það á Raufarhöfn. En á Grímsstöðum var enginn alhvítur dagur en 28 dagar alauðir og snjólag 3%. Óvenjulegt er að svo snjólítið sé í apríl á Grímsstöðum og er þetta reyndar snjóleysismet þar í mánuðinum. Engar úrkomumælingar voru á staðnum þennan mánuð og hugsanlega er snjólagstalan ónákvæm en snjólítið hafði þó verið í undanfarandi marsmánuði. Það má minna á að í hinum hlýja apríl 1955 var eigi að síður alhvítt á Grímsstöðum alla daga en 17% snjólag árið 1957 og 34% í þeim ofurhlýja apríl 1974. Hlýjast á landinu varð síðasta daginn, 15,6 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Nokkurt hlé varð á suðlægum úrkomuáttum um miðjan mánuðinn þegar hæð var yfir landinu og víða bjart. Komu þá fáeinir góðir sólardagar í Reykjavík með vægum næturfrostum en 5-7 stiga hita um hádaginnn. En þá mældist líka mesta frostið á landinu, -14,0 stig á Eiðum þ. 16. en annars staðar var kuldinn miklu minni þó alls staðar kæmi frost. Fjórði hlýjasti maí kom svo á eftir þessum mánuði.
Mæðrastyrksnefnd var sett á stofn í þessum apríl og er enn við lýði og sagt að ekki sé vanþörf á.
Af hlýjum aprílmánuðum á nítjándu öld fyrir 1866, okkar helsta viðmiðunarár, má nefna árið 1852 þegar meðalhitinn var 6,1 stig í Reykjavík og 5,3 á Stykkishólmi og Akureyri. Og það gerir hann þá annan hlýjasta apríl í sögu mælinga ef aðeins er miðað við þessa staði. Apríl 1845 var einnig mjög hlýr með meðalhita upp á 6,1 stig í Reykjavík en 3,9 í Stykkishólmi. En einkennilegast af öllu: Árið 1815, á miklu kuldaskeiði, var meðalhitinn í Stykkishólmi áætlaður 5,8 stig sem gerir hann þá að hlýjasta apríl þar. Þess ber þó að gæta að hitinn var færður til Stykkishólms annars staðar frá og mælingarnar voru ekki eins áreiðanlegar og síðari tíma mælingar.
Í fyrra fylgiskjalinu sjást mánuðurnir nánar á stöðvunum níu en í því síðara eru nokkur atriði um april 1974, 2003 og 2007.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 7.12.2011 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006