Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013
27.2.2013 | 01:37
Bronsið blasir við
Meðalhtinn í febrúar er nú kominn í 3,8 stig í Reykjavík og hann hefur þar með nappað bronsinu af febrúar 1964 í keppninni um hlýjustu febrúarmánuði.
Það er ekki alls ekki útilokað að hann haldi þessari tölu til mánaðarloka og bronsið ætti í það minnsta að vera nokkuð öruggt.
Vel af sér vikið að þeim stutta!
Á Akureyri er meðalhitinn nú 2,3 stig og er mánuðurinn þar kominn i fimmta sæti yfir hlýjustu febrúarmánuði.
En hvað gerist á lokasprettinum?
Fylgist með í beinni útsendingu á Allra veðra von!
Hvergi nema þar!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 28.2.2013 kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2013 | 18:56
Mest sólskin í febrúar
Febrúar er ekki skammdegismánuður eftir mínum skilningi en þá miða ég við að sólin sé á lofti minna en einn þriðja af sólarhringnum. Febrúar er aftur á móti að meðaltali sólarminnsti mánuður ársins sem ekki er skammdegismánuður og hann er vitaskuld hávetrarmánuður.
Meðaltal sólskinsstunda í febrúar voru 52 í Reykjavík árin 1961-1990.
Sólríkasti febrúar í höfuðborginni er 1947 en þá skein sólin í 159 stundir og er þetta jafnframt sólríkasti febrúar sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð. Hann kom í kjölfar hlýjasta janúar á landinu á tuttugustu öld en bæði febrúar og mars voru síðan mjög kaldir en afar sólríkir. Settu þeir báðir sólskinsmet í Reykjavík. Loftþrýstingur á landinu var sá þriðji hæsti í febrúar. Þessi mánuður var einhver sá kaldasti og snjóþyngsti sem um getur í Evrópu. Hér var hann reyndar líka í kaldara lagi, um tvö stig undir meðallaginu 1961-1990 þeirra stöðva sem lengst hafa athugað og hér er miðað við og hann var mjög þurr, vel undir helmingi af meðalúrkomunni 1931-2000, sem hér er miðað við með úrkomu á þeim stöðvum er lengst hafa athugað hana. Kemst mánuðurinn vel inn á topp tíu listann yfir þurrustu febrúarmánuði. Í Stykkishólmi er þetta þriðji þurrasti febrúar, 6,1 mm. Í þessum sólskinspistlum er landsúrkoman ekki nákvæmlega útreiknuð en tilgreind svona nokkurn veginn og lauslega metið hver statusinn á henni var miðað við aðra mánuði og aðeins gert til menn hafi einhverja hugmynd um hvernig viðkomandi mánuður var hvað úrkomuna snertir. En sólskinið er hér aðal atriðið. Þann þriðja mældist mesta frost sem mælst hefur í Ameríku, -63 stig í Snag í Yukonhéraði í Kanada. Þann 17. kom fyrsti nýsköpunartogarinn til landsins, Ingólfur Arnarson.
Febrúar 1936 var svipaður að hita og 1947 en hann er sá annar sólríkasti í Reykjavík með 130 sólarstundir. Úrkoman var um þrír fjórðu af meðallaginu. Báðir voru þessir mánuðir norðaustanáttalegir en hægviðrasamt og snjólétt var sunnan lands. Nasisminn stóð sem hæst í Þýskalandi en þ. 26. hófst þar framleiðsla Volkswagenbílanna. Þriðji er 2007 með 126 sólskinsstundir. Bæði úrkoma og hiti á landinu var í kringum meðallag. Mjög snjólétt var víðast hvar.
Árið 1966 var febrúar erfiður og þó einkum norðanlands þar sem var mjög snjóþungt. Afar þurrt var hins vegar víða sunnan lands og vestan. En í Reykjavík er hann sá fjórði sólarmesti með 118 sólarstundir. Þar hefur heldur ekki mælst þurrari febrúar, aðeins 4,9 mm. Sömu sögu er að segja um ýmsar stöðvar á suður og vesturlandi, svo sem Stóra Botn í Hvalfirði, 0,1 mm, Reykhóla 0,1 mm, Sámsstaði í Fljótshlíð 11,0 mm en þar er þetta sólríkasti febrúar sem mælst hefur, 98,2 klukkustundir, Vestmannaeyjar, 26 mm, Kirkjubæjarklaustur, 3,9 mm, Kvígindisdal 3,9 mm, Lambavatn 4,3 mm, Kvísker 45,7 mm og Vík 24,2 mm. Óvenjulega þurrt var einnig í Strandasýslu, aðeins 9,8 mm á Kjörvogi. Hitinn á landinu var svipaður og 1947 og 1936.
Úrkoman í febrúar 1955 var álíka og 1947 en hann var lítið eitt kaldari en er fimmti sólríkasti febrúar í Reykjavík með 110 sólskinsstundir. Hann var víða bjartur og á Akureyri er hann næst sólríkasti febrúar með 77 klukkustundir af sól og var þar sólríkasti febrúar þegar hann kom. Á svæðinu nyrst á Tröllaskaga hefur ekki mælst þurrari febrúar. Snjólétt var á suðvesturlandi.Það var í þessum mánuði sem fríkaði 15 stiga hitinn mældist í Vík í Mýrdal. Í lok mánaðarins hófst jarðskjálftahrina í Axarfirði.
Árið 2002 var febrúar með 108 sólskinsstundir og er sá sjötti sólríkasti. Hitinn á landinu var næstum því þrjú stig undir meðallagi og er þetta kaldasti febrúarmánuðurinn meðal hinna tíu sólríkustu í Reykjavík. Þurrt var sunnalands en úrkomusamt fyrir norðan.
Febrúar 1941 er sá sjöundi sólríkasti í Reykjavík með 104 stundir. Hitinn var rúm tvö stig undir meðallagi en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu. Lítil úrkoma var sunnan lands og vestan en meiri norðanlands og austan og þar voru fannkomur miklar í seinni helmingi mánaðarins. Snjóflóð féllu og fórst einn maður í Mjóafirði þegar snjóhengja brast. Síðasta daginn gerði suðaustan ofviðri og fórst þá togarinn Gullfoss með 19 mönnum og vélbáturinn Hjörtur Pjetursson frá Hafnarfirði með sex mönnum. Nokkur erlend skip rak á land hér og hvar, þar af tvö í Reykjavík, og marga vélbáta en enginn fórst.
Í febrúar 1971 voru 101 sólskinsstund í Reykjavík og er hann þar með sá 8. sólarmesti en janúar á undan honum er sólríkasti janúar í Reykjavík. Febrúar þessi var mildur en umhleypingasamur og er hlýjasti febrúarmánuðurinn af þeim tíu sólríkustu í Reykjavík. Meðalhiti þeirra stöðva sem lengst hafa athugað var þó ekki meira en nákvæmlega 0 stig og er það rétt yfir meðallagi. Úrkoman var hins vegar vel yfir meðallagi. Allmikill hafís var við landið og sást ísbjörn á ísnum við Skaga. Síðasta daginn gerði suðaustan fárviðri eins og 1941 og fengu þrír Eyjabátar á sig brotsjói en enginn mannskaði varð.
Níundi sólríkasti febrúar í Reykjavík er 1977 en þá skein sólin í hundrað klukkustundir. Tíðarfarið var talið með eindæmum gott fyrir hægviðri nema í innsveitum á norðausturlandi. Ekki mældist sólríkari febrúar á Reykhólum 105,5 stundir þau árin sem mælt var, 1958-1989, né á Reykjum við Hveragerði 1973-2000, 100,8 stundir og ekki heldur á Hveravöllum 1966-2004, 105,3 klukkustundir. Sólríkt var því alls staðar og svo þurrt var að mánuðurinn er líklega á miðjum topp tíu listanum yfir þurrustu febrúarmánuði á landinu. Aldrei hefur mælst eins lítil úrkoma í Stykkishólmi, 1,0 mm, frá upphafi mælinga 1857. Á Barkarstöðum í Miðfirði og Forsæludal varð úrkomu vart en hún var þó ekki mælanleg og hafa engar veðurstöðvar skráð eins litla úrkomu í nokkrum febrúarmánuði. Á virkjunni við Andakíl mældist úrkoma minni en í öðrum febrúarmánuðum, 2,2 mm og aðeins 0,2 mm í Síðumúla í Borgarfirði og 0,1 í Brekku i Norðuráral. Á suður og vesturlandi voru úrkomudagar nær alls staðar færri en fimm og allvíða aðeins einn til tveir.
Tíundi sólarmesti febrúar í Reykjavík er 1957 með 98 stundir. Sólinni var þá æði misskipt því mánuðurinn er sólarminnsti febrúar á Akureyri þar sem sólin skein í 10,5 stundir. Hitinn var um hálft stig undir meðallagi á landinu og úrkoman var um helmingur af því. Þetta er sá febrúar sem mest hefur snjólag í Reykjavík en þar var alhvítt allan mánuðinn. Og er það eini mánuður ársins sem þar hefur verið talinn alhvítur. Í febrúar árið 2000 voru einnig 28 alhvítir dagar en þá var hlaupár og einn dagur var ekki alhvítur. Snjólag á landinu var hið fjórða mesta í febrúar, 90%. Mesti hiti á landinu varð aðeins 6 stig og hefur aðeins einu sinni mælst lægri í febrúar árið 1885, 4,6 stig. Í Möðrudal og við Mývatn hlánaði ekki allan mánuðinn.
Á Akureyri er febrúar 1986 sólríkastur með 88 klukkustundir af sólskini en meðaltalið 1961-1990 er 36 stundir. Mánuðurinn var einstaklega þurr á norðausturlandi. Úrkoman var innan við 1 mm á ellefu veðurstöðvum og voru þurrkamet fyrir febrúar sett svo að segja þar á öllum stöðvum þar um slóðir. Á Akureyri var hún 1,0 mm, á Grímsstöðum, 0,5 mm, 0,2 á Mýri í Bárðardal og Staðarhóli og 0,1 í Reykjahlíð við Mývatn. Mánuðurinn var hlýr, eitt stig yfir meðallagi. Snjóhula á landinu var aeins 35%.
Næst sólarmesti febrúar á Akureyri og sá þriðji voru 1955 og 1977 með 77 og 71,5 sólskinsstundir en þessara mánaða hefur áður verið getið hér að framan.
Fjórði sólarmesti febrúar á Akureyri er 1940. Fyrri hluti sá mánaðar var mildur og hagstæður en seinni hlutann brá til norðaustanáttar með talsverðri snjókomu norðan lands og austan og kuldatíð sem endaði með 25 stiga frosti á Grímsstöðum næst síðasta dag mánaðarins en þetta var á hlaupári. Hitinn var um hálft stig yfir meðallagi í mánuðinum en úrkoman var um þrír fjórðu af meðaltali en snjóhulan var 46%. Á Akureyri varð það sjaldgæfa slys þ.22. að klakaskriða féll af húsþaki á höfuð vegfaranda sem beið bana af. Þremur dögum áður urðu tveir menn úti á suðurlandi. Það var í þessum mánuði sem vélbáturinn Kristján úr Keflavík var talinn af en náði landi í Höfnum eftir 11 sólarhringa hrakninga með bilaða vél.
Hlýjasti febrúarmánuður allra tíma, undramánuðurinn 1932, er sá fimmti sólríkasti í höfuðstað norðurlands með 64,5 sólarstundir. Hitinn var 4,4 stig yfir meðallagi þeirra stöðva sem lengst hafa athugað og úrkoman aðeins um helmingur af meðallaginu en snjóhulan 15%, sú minnsta í nokkrum febrúar. Loftþrýstingur mánaðarins er einn sá mesti sem komið hefur í febrúar.
Næstur kemur febrúar 1994 með 58,4 sólskinsstundir. Hann var samt enn sólríkari í Reykjavík með 72 stundir en nær þar ekki inn á topp tíu listann. Hitinn var um eitt stig fyrir meðallagi á landinu en tiltölulega hlýjast var á norðausturlandi þar sem var líka mjög þurrt en úrkoman var um 50% yfir meðallagi á landinu. Hún var mikil á öllu suðurlandi en þó einkanlega á suðausturlandi, mest 415 mm á Snæbýli í Skaftártungu. Snjóhula var 64%.
Sjöundi mesti sólarmánuður í febrúar á Akureyri er 1938 með sléttar 50 stundir. Hitinn var lítið eitt meiri en 1994 en úrkoman var í tæpu meðallagi. Úrkoman í Fagradal í Vopnafirði mældist aðeins 0,4 mm og hefur aldrei mælst eins lítil febrúarúrkoma á veðurstöð í Vopnafirði. Snjóhula á landinu var 64%. Þessi mánuður er reyndar tíundi sólarminnsti febrúar í Reykjavík þar sem sólin skein í 22 stundir.
Febrúar 1969 er sá 8. sólarmesti á Akureyri með 55 sólskinsstundir. Þetta var þó enginn gæðamánuður. Hann er á landinu kaldastur þeirra mánaða sem hér eru gerðir að umtalsefni, þrjú og hálft stig undir meðallagi. Þá skartar hann kaldasta febrúardegi á landinu frá 1949 og líklega miklu lengur og mörgum stöðvametum í febrúarkulda. Úrkoman náði ekki þremur fjórðu af meallaig en snnjóhula, var 69%. Þetta var á hámarki hafísáranna. Níundi sólarmesti febrúar á Akureyri er 2005 með 53,5 stundir. Hitinn á landinu í þeim snjólétta mánuði, 49% snjóhula, var þá svipaður og 1938 en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu.
Loks er febrúar 1964 sá tíundi sólarmesti á Akureyri með 53,4 sólskinsstundir. Úrkoman var þá svipuð og 2005 en hitinn var 2,7 stig yfir meðallagi og er þetta 5. hlýjasti febrúar á landinu. Veturinn í heild var sá næst hlýjasti á landinu sem mælst hefur, á eftir 1929.
Sólríkasti febrúar á Melrakkasléttu er 1981, 71,3 klukkustundir.
Auk þessa má geta að í febrúar 1965, þeim næst hlýjasti sem mælst hefur á landinu, voru 63 sólskinsstundir á Hallormsstað og það mesta sem þar mældist 1953-1989 og reyndar var marsmetið þar þetta sama ár. Á Hólum í Hornafirði frá 1958 er febrúar 1965 einnig sá sólríkasti, 117, 1 klukkustund og sá þurrasti frá 1931, 4,1 mm. Þá er mánuðurinn sá næst þurrasti febrúar á Teigarhorni frá 1873, 10,4 mm, en þurrasti á Dalatanga frá 1939, 15,3 mm, og einnig á Fagurhólsmýri frá 1922, 19,8 mm.
Veðurfar | Breytt 23.4.2013 kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2013 | 18:53
Minnst sólskin í febrúar
Febrúar er ekki skammdegismánuður eftir mínum skilningi en þá miða ég við að sólin sé á lofti minna en einn þriðja af sólarhringnum. Febrúar er aftur á móti að meðaltali sólarminnsti mánuður ársins sem ekki er skammdegismánuður og hann er vitaskuld hávetrarmánuður.
Meðaltal sólskinsstunda í febrúar voru 52 í Reykjavík árin 1961-1990. Sólarminnsti febrúar í Reykjavík er 1913 þegar sólarstundirnar voru aðeins 8. Að vísu voru mælingarnar þá á Vífilsstöðum en við teljum þær hér með Reykjavík. Hitinn var um hálft stig yfir meðallagi hitans 1961-1990 á þeim stöðvum sem er lengst hafa athugað og hitinn er hér miðaður við og úrkoman var vel yfir meðallagi sömu stöðva 1931-2000 sem úrkoman er við miðuð. Mánuðurinn var illviðrasamur mjög.
Febrúar 1921 er næstur með 12 sólskinsstundir. Hann var miklu hlýrri, reyndar 11. hlýjasti febrúar að mínu tali á landi, rúm tvö stig yfir meðallagi, og hann er líklega einn af þeim tíu úrkomumestu. Í Reykjavík er hann reyndar sá allra úrkomusamasti með 242,3 mm.
Í febrúar 1934 mældust 15,2 sólarstundir og er hann í þriðja sæti yfir þá sólarminnstu í Reykjavík. Ekki hefur mælst meiri febrúarúrkoma á Blönduóssvæðinu, 102,4 mm eða í Hreppunum, 329,8 mm. Árið 1992 voru sólarstundirnar 15,4 og er það fjórði sólarminnsti febrúar í borginni. Mánuður þessir voru næstum því jafnir að hita, rúmlega eitt stig yfir meðallagi en úrkoman í þeim fyrrnefnda var aðeins um helmingur af meðallaginu en sá síðarnefndi var í rétt rösku meðallagi.
Fimmti sólarminnsti febrúar í Reykjavík var 1975 þegar sólarstundirnar mældust 15,8. Þetta var hlýr mánuður, svipaður og 1921, en úrkoman var um 30% fram yfir meðallagið.
Undramánuðurinn febrúar 1932, sá allra hlýjasti á landinu, var með 16,4 stunda sólskin í Reykjavík sem gerir hann að sjötta sólarminnsta febrúar þar. Á Akureyri er hann hins vegar sá fimmti sólríkasti með 54,5 sólskinsstundir.
Tveir febrúarmánuðir í röð skipa sjöunda og áttunda sætið fyrir sólarleysi í Reykjavík. Febrúar 1983 er sá 8. með 19 sólarstundir en 1984 sá 7. með 18 stundir. Báðir voru hlýir, 1983 um eitt stig yfir meðallagi en 1984 um hálft sig. Sá mánuður var einstaklega votviðrasamur, einn af þeim tíu úrkomumestu, um 77% fram yfir meðallagið en 1983 var úrkoman vel innan við meðallag. Árið 1983 var óvenjulega snjóþungt vestanlands. Mesta sólarhringsúrkoma á Akureyri í febrúar mældist þ. 7., 36,9 mm. Þessi febrúar var sá sólarminnsti á Reykhólum, 6,7 stundir árin sem mælt var, 1958-1989. Aftur á móti er febrúar 1984 sá sólarminnsti á Sámsstöðum, 18,9 klukkustundir.
Árið 1922 voru sólarstundir í febrúar í Reykjavík 22,4 sem gerir hann að þeim níunda sólarminnsta. Hitinn var næstum því heilt stig yfir meðallagi en úrkoman um helmingi meiri en í meðallagi. Loks er árið 1938 svo með tíunda sólarminnsta febrúar í Reykjavík, 22 stundir. Hitinn á landinu var um 1,3 stig yfir meðallagi en úrkoman í tæpu meðallagi.
Á Akureyri er sólarminnsti febrúar aftur á móti árið 1957 þegar sólarstundirnar voru aðeins 10,5 en voru 36 að meðaltali ári 1961-1990. Í Reykjavík er þetta tíundi sólarmesti febrúar með 98 stundir. Hitinn var um hálft stig undir meðallagi á landinu og úrkoman var um helmingur af meðallaginu. Þetta er sá febrúar sem mest hefur snjólag í Reykjavík en þar var alhvítt allan mánuðinn. Og er það eini mánuður ársins sem þar hefur verið talinn alhvítur. Í febrúar árið 2000 voru einnig 28 alhvítir dagar í Reykjavík en þá var hlaupár og einn dagur var ekki alhvítur. Snjólag á landinu var hið fjórða mesta í febrúar, 90%. Mesti hiti á landinu varð aðeins 6 stig og hefur aðeins einu sinni mælst lægri í febrúar. Í Möðrudal og við Mývatn hlánaði ekki allan mánuðinn.
Næst sólarminnsti febrúar á Akureyri er 1943 en þá skein sólin í 12 stundir. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í febrúar í Grímsey, 187,4 mm. Vélskipið Þormóður fórst þ. 18. nærri Garðskaga og fórust með honum 31 maður. Hitinn var tvö stig undir meðallagi á landinu og úrkoman aðeins meiri en í meðallagi.
Febrúar 1946 er sá þriðji sólarminnsti á Akureyri með 14 sólarstundir. Hitinn var rétt aðeins undir meðallagi en úrkoman aðeins röskur helmingur af meðallagi. Illviðrasamt var og þ. 9 fórust 18 manns á sjó og tveir í landi af völdum veðurs. Sama dag féll maður ofan í gjá í Aðaldalshrauni og var ekki bjargað fyrr en eftir fimma daga.
Næstur er febrúar 1963 þegar sólskinsstundir voru 15 á Akureyri. Úrkoman var þá aðeins meiri en 1946 en hitinn var rúmlega hálft stig yfir meðallagi. Veðurlag var talið mjög hagstætt. Fimmti sólarminnsti febrúar á Akureyri er 1984 en þá voru sólarstundirnar þar 16. Í Reykjavík voru þær 18 og þar er þetta sjöundi sólarminnsti febrúar eins og að framan getur. Sjötti að sólarleysi á Akureyri er febrúar 2008 með 16,3 stundir. Hann var mjög úrkomusamur og líklega einn af tíu úrkomusömustu febrúarmánuðum á landinu. Hitinn mátti heita í meðallagi.
Úrkomumesti febrúar á landinu, 1959, er sjöundi sólarminnsti febrúar á Akureyri með 16 sólskinsstundir. Þetta er níundi hlýjasti febrúar á landinu að mínu tali og var hitinn um 2,3 stig yfir meðallagi. Í Stykkishólmi var úrkoma 219,5 mm, sú næst mesta í febrúar. Á Teigarhorni er þetta þriðji úrkomusamasti febrúar. Ég tel þetta næst úrkomusamasta febrúar yfir landið en úrkomusamastur er þá árið 2003. Bæði úrkomumagn og úrkomutíðni var mikil. Sums staðar á suður og suðvesturlandi var úrkoma alla daga. Minnisstæðastur er þessi mánuður fyrir þá miklu mannskaða á sjó er þá urðu. Togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn, 30 mönnum, á Nýfundnalandsmiðum þ. 8. eða 9. í stórviðri og mikilli ísingu en nokkrir aðrir togarar náðu til hafnar við illan leik. Aðfaranótt þ. 18., daginn eftir að Júlí var opinberlega talinn af, fórst vitaskipið Hermóður með allri áhöfn, 12 manns, undan Höfnum á Suðurnesjum í stormi og stórsjó og urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum í því veðri. Í þessum mánuði fórst einnig danska skipið Hans Hedtoft í jómfrúarför sinni og var það þó talið ósökkvandi eins og Titanic. Enginn komst af.
Febrúar 1992 er sá áttundi sólarminnsti á Akureyri með 18 stundir af sólskini. Hann er einn af úrkomusömustu febrúarmánuðum og fer sennilega inn á topp tíu listann að því leyti og hitinn var um hálft stig undir meðallagi.
Næstur er febrúar 1967 með 19,0 sólarstundir. Hitinn var um hálft annað stig fyrir meðallagi en úrkoman var tæplega í meðaðallagi. Tíundi sólarminnsti febrúar á Akureyri er svo 1937 með 19,1 sólskinsstund. Hann var meira en heilt stig undir meðallagi í hitanum en úrkoman var í tæpu meðallagi.
Sólarminnsti febrúar á Hólum í Hornafirði er 1982 en þá skein sólin 19,9 klukkustundir.
Á Hveravöllum mældist minnst sólskin í febrúar 1993, 5,1 klukkustund og er það minnsta sólskin sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í febrúarmánuði.
Veðurfar | Breytt 23.4.2013 kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2013 | 18:47
Mesti kuldi í febrúar
Frost hefur aðeins mælst 30 stig í tveimur febrúarmánuðum á Íslandi en hins vegar í 11 janúarmánuðum, 6 marsmánuðum, 5 desembermánuðum og einum aprílmánuði. Meðaltal minnsta hita í febrúarmánuði er 22 stiga frost.
Mesta frost á landinu í febrúar mældist í Möðrudal á Fjöllum aðfaranótt þess 4. árið 1980, -30,7 stig (daginn áður voru -30,6 stig). Hæð var yfir Grænlandi og lægð við Lófót. Hæg norðan og norðaustanátt var á landinu. Víða annars staðar var þá einnig mjög kalt, t.d. -26,3 daginn áður í Reykjahlíð við Mývatn. Sá dagur er kaldasti 3. febrúar á landinu að meðaltali frá og með 1949 og var meðalhitinn -9,33 stig eða um átta og hálft stig undir meðallagi. Næstu nótt mældist svo þessi metkuldi. Hvergi á öðrum stöðvum en Möðrdudal kom þó metfrost nema á Staðarhóli í Aðaldal, -24,7 stig.
Þetta er þó engan veginn kaldasti febrúardagurinn að meðaltal frá 1949. Sá vafasami heiður fellur í skaut 6. febrúar 1969 þegar hafísárin voru í algleymingi. Hann er að meðaltali ekki aðeins kaldasti febrúardagur frá 1949 heldur er hann næst kaldasti dagur ársins (8. mars 1969 var kaldari). Meðalhitinn var -16 stig, um 15 stig undir meðallaginu frá 1949. Í þessari kuldahrinu mældist mesta febrúarfrost í Reykjavík eftir að Veðurstofan var stofnuð, -17,6 stig en á Hólmi rétt utan við borgina mældust -20,7 stig. Í Búðardal voru -23,9 stig, -22,6 á Þórustöðum í Önundarfirði, -20,3 á Hornbjargsvita, -27,2 á Hveravöllum, -23,0 á Barkarstöðum í Miðfirði, -20,5 á Nautabúi í Skagafirði, -17,3 á Mánárbakka, -20,2 á Skriðuklaustri, -16,9 á Dalatanga, -19,2 á Seyðisfirði, -17,4 á Hólum í Hornafirði, -18,4 á Fagurhólsmýri, -19,1 á Kirkjubæjarklaustri, -15,9 í Vík í Mýrdal, -16,7 á Loftssölum, -16, 3 á Stórhöfða, -19,1 á Sámsstöðum, -20,6 á Hæli í Hreppum, -23,8 á Jaðri, -19,3 á Eyrarbakka, -16,8 á Reykjanesvita og -17,0 stig á Keflavíkurflugvelli. Eru þetta febrúarkuldamet á öllum þessum stöðvum en þær hafa mislanga mælingasögu en alltaf nokkra áratugi og allt upp í heila öld og meira. Tölurnar frá Dalatanga, suðausturlandi, Mýrdal og Vestmannaeyjum er sérlega geggjaðar fyrir þá staði. Það var eitthvað hamfaralegt við þennan dag og allmarga aðra daga á hafísaárunum. Lægð hafði farið austur með landinu og olli hún fyrst víða norðaustan hvassviðri og snjókomu en næsta dag lyngdi, bjart var vestanlands en snjókoma á norðurlandi. Sá sjöundi 1969 er svo reyndar næst næst kaldasti febrúardagur á landinu að meðaltali frá 1949.
Árið 1905 mældust slétt 30 stig í Möðrudal, þann 11. Þann dag var frostið 23 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal og 22 á Akureyri. Stöðvar voru fáar. Mikil hæð var yfir landinu í kjölfar norðanáttar.
Þriðji minnsti lágmarkshiti í febrúar er -29,5 stig þ. 10. í Möðrudal árið 1955. Þá var veður heiðskírt og miklir kuldar höfðu verið vikum saman á landinu. Þá kom og kuldametið í febrúar við Mývatn, -27,4 stig í Reykjahlíð. Á Grímsstöðum hans Nubo (þar var ekki mælt 1955) kom kuldametið hins vegar á hlýindaskeiði 20. aldar, -26,0 stig þ. 26. árið 1941 í gríðarlegu kuldakasti og þá mældust t.d. -18,9 stig á Kirkjubæjarklaustri. Álitlegt kuldakast á hlýindakskeiðinu fyrra kom einnig í febrúar 1950. Þá fór frostið þ. 24. í -24,7 stig á Hvanneyri og -21,3 á Þingvöllum. Mikil kuldaköst á hlýindaárunum komu líka 1931 með -15,6 stigum í Reykjavík þ. 21. og þ. 24. -23,9 á Grimsstöðum og 1935 með -19,3 stigum þ. 26. á Eyrarbakka. Mesta frost í febrúar á suðurlandi hefur annars mælst mest -25,0 stig á Þingvöllum þ. 2. 1968.
Mesta frost í Reykjavík mældist -18,3 stig þ. 15. árið 1886. Á köldu árunum á 19. öld, þegar fáar veðurathugunarstöðvar voru í gangi, komu nokkur stór kuldaköst í febrúar, en þó öllu minni en í janúar og mars, líkt og á síðari árum. Kuldaveturinn mikla 1881 mældist mesta febrúarfrost í Stykkishólmi, - 22,5 stig þ. 3. og í Grímsey kom metið þ. 11. sama mánuð,-25,0 stig. Ekki var mælt á Akureyri þennan vetur en í næsta febrúar, 1882, mældist þar mesta febrúarfrostið, -24,0 stig. Teigarhorn mældi mest -19,3 stig þ. 14. 1888, nokkuð svipaður kuldi og var í febrúar 1969. Í sömu hrinu mældust -15,2 í Vestmannaeyjakaupstað þann 13.
Hér sést kort frá hádegi 7. febrúar 1969 og frá 850 hPa fletinum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2013 | 13:04
Hámarkshitamet fyrir febrúar i Reykjavík
Í nótt fór hitinn í Reykjavík í 10,2 stig er mesti hiti sem þar hefur mælst í febrúar frá því mælingar hófust. Gamla metið var 10,1 stig og var mælt þann 8. 1935 og þann 16. 1942.
Meðalhitinn í gær var 7,5 stig sem er dagsmet fyrir Reykjavík en gamla metið var 6,6, stig árið 1983. Þetta er annað dagshitametið i Reykjavík í þessum mánuði en hitti metið er frá þeim 21. þegar meðalhitinn mældist 7,9 stig.
Þykkt lofthjúpsins milli 1000 og 500 hPa flatanna sem er mælikvarði á hita loftsins var á miðnætti 5460 metrar yfir Keflavík sem er nærri meðalþykkt um hásumar. Ef hitamöguleikarnir í 850 hPa fletinum sem var í um 1300 metra hæð skilaði sér allur þarna til jarðar yrði hitinn um 15 og hálft stig.
Mesti hiti í dag á landinu það sem af er hefur annars mælst 14,0 stig á Seyðisfirði en ekki er það nú neins konar met.
Meðalhiti mánaðarins er nú kominn upp i 3,4 stig í Reykjavík. Ég er ekki úrkula vonar um að hann nái bronsinu í hitanum af febrúar 1964.
Á Akureyri er meðalhitinn nú 1,8 og er hann nú kominn á miðjan topp tíu listann fyrir hlýjustu febrúarmánuði.
Svo er bara að sjá hvað mánuðurinn gerir á lokasprettinum. En það er þá ekki fyrr en tvo síðustu daga sem hann getur farið að klikka.
Viðbót: Hitinn á Seyðisfirði hefur farið í dag í 15,3 stig sem er mesti hiti sem mælst hefur á landinu 25. febrúar en meira bæði rétt fyrir og eftir þessa dagsetnignu. Hámarkshitamet fyrir allan febrúar hafa líka verið sett í dag í Stafholtsey 10,2 stig, og á Mánarbakka,12,0 stig. En þessari hlýindahrinu er ekki lokið svo við sjáum hvað setur.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 26.2.2013 kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2013 | 13:27
Stefnir í einn af hlýjustu febrúarmánuðum
Meðalhitinn í Reykjavík þegar 20 dagar eru liðnir af mánuðinum er nú kominn upp i 2,6 stig eða 2,7 stig yfir meðallagi. Ef mánuðurinn héldi þeirri tölu yrði hann sjötti eða sjöundi hlýjasti febrúar.
En það eru ansi litlar líkur á því að hann haldi þessari tölu.
Þvert á móti eru allar líkur á að hún muni hækka umtalsvert næstu daga! Ekki sjást nema mikil hlýindi í spám nema hvað eitthvað muni kólna tvo síðustu daga mánaðarins.
Þetta eru jú bara spár en það er mjög líklegt að meðalhiti mánaðarins eigi eftir að stíga upp í þrjú stig í Reykjavík og jafnvel hærra.
Aðeins fimm febrúarmánuðir frá upphafi mælinga í höfuðstaðnum hafa náð að vera yfir þremur stigum, 1932, 1965, 1964, 2006 og 1929.
Og þessi febrúar kemur á eftir janúar sem var vel inni á topp tíu listanum yfir hlýjustu janúarmánuði á landinu og líka í Reykjavík.
Á Akureyri eru meðalhitinn nú 1,0 stig eða 3,0 stig yfir meðallagi. En mánuðurinn nær ekki enn inn á lista þar yfir tíu hlýjustu febrúarmánuði.
Það verður spennandi hvað þessi mánuður ætlar að gera í hitanum!
Viðbót 23.2.: Mánuðurinn er nú kominn í 3,0 stig í Reykjavík og verður gaman að vita hvort hann kemst upp í 3,5 stig sem er að mínu áliti alveg mögulegt. Og hver veit nema hann nái þá bronsinu af 1964 í febrúarhlýindakeppninni! En vonin um silfur eða gull er alveg vonlaus.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 24.2.2013 kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.2.2013 | 17:33
Mesti hiti í febrúar
Mesti hiti á Íslandi í febrúar mældist á Dalatanga þ. 17. 1998, 18,1 stig. Ekkert óskaplega hlýtt var þó á landinu nema á Dalatanga. Þessi hiti á Dalatanga var lesinn af mæli við athugun klukkan 15 í vestan átt og kom vitaskuld einnig fram á hámarksmæli. Meðalhitinn á stöðinni þennan sólarhring var 9,1 stig.
Febrúarhitabylgjan árið 1960 var eiginlega merkilegri. Þá mældust 16,9 stig á Dalatanga og Seyðisfirði þ. 8., einhvern tíma frá kl. 9 að morgni til hádegis. Meðalhitinn á Dalatanga var 11,1 stig sem nærri meðalhita í Reykjavík á hlýjasta tíma ársins. Lægð með óvenjulega hlýju lofti fór vestur fyrir land dagana 6.-8. Landsmeðalhitinn var 8,45 stig þann 7. og hefur frá 1949 aldrei verið hærri nokkurn dag í febrúar, kringum 9 stig yfir meðallagi allra daga frá 1949. Daginn eftir var landshitinn 7,5 stig og það var þá sem hitinn naut sín best á austfjörðunum. Fjölmargar veðurstöðvar eiga sitt febrúarhitamet frá þeim 7. svo sem 15,3 stig á Siglunesi 11,3 stig í Grímsey, 10,9 á Grímsstöðum, 14,0 á Húsavík, 11,1 á Raufarhöfn, 12,4 á Þorvaldsstöðum við Bakkafjörð og 9,9 stig í Möðrudal. Úrhellisrigning og hvassviðri var sunnanlands og vestan. Veðrinu fylgdi mikil asahláka svo af hlutust flóð á öllu svæðinu frá suðvesturlandi til norðurlands. Ölfusá flæddi t.d. yfir bakka sína svo flæddi vatn í kjallara á Selfossi og jakaburður í Blöndu sleit símalínur.
Þriðji mesti hitinn í febrúar er 17,2 stig aðfaranótt þess 21. árið 2006 á Sauðanesvita í rífandi sunnanátt. Á athugunartíma kl. 6 um morguninn voru 16,0 stig. Þennan dag var einna mest þykkt nærri landinu í febrúar, 5478 metrar. Þann 24. 1984 mældist 16,0 stig á Seyðisfirði. Þann dag var mikil lægð á hreyfingu við norðausturströnd Grænlands og fylgdi henni regnsvæði og asahláka úr suðvestri. Meðalhitinn á Hallormsstað var 12,2 stig en 11,3 á Akureyri, sá hæsti fyrir nokkurn febrúardag.
Á suður og vesturlandi verður hámarkshiti að vetrarlagi yfirleitt ekki jafn mikill og fyrir norðan. Á þessu geta þó orðið hálf fríkaðar undantekningar. Þann 14. febrúar 1955 færðist hlý hæð sem hafði verið suður af landinu vestur fyrir það og olli norðvestlægri átt. Þann 15. fór hitinn í Vík í Mýrdal í 15,0 stig. Það er langmesti hiti í febrúar sem mælst hefur á suðurlandi. Þessa dagana mældist einnig mesti febrúarhiti á Loftssölum (1952-1978) í Dyrhólahreppi og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 10,0 stig á báðum stöðvunum. Í febrúar 2005 gerðust í annari norðvestanátt merkileg tíðindi þ. 21. á suðausturlandi, alveg frá Hornafirði vestur um til Mýrdals settu stöðvarnar þá hitamet fyrir febrúar, 13,6 stig á Hólum í Hornafirði, 13,0 á Fagurhólsmýri, 13,5 á Kirkjubæjarklaustri, 12,6 í Norðurhjáleigu og 11,6 stig á Vatnsskarðshólum í Dyrhólahreppi og kom sú stöð í stað Loftsala frá 1978. Meðalhitinn þennan dag á Klaustri var 10,6 stig. Ágætur síðsumarsdagur! Á suðurlandsundirlendi hafa mest mælst í febrúar 12,0 stig þ. 26. 1964 á Sámsstöðum í Fljótshlíð í austanátt.
Mesti hiti í Stykkishólmi, þar sem athugað hefur verið frá 1846, kom þ. 17. 1942, 11,0 og þá mældist einnig mesti febrúarhiti í Reykjavík, 10,1 stig (ásamt þ. 7. 1935). Daginn áður mældust 13,7 stig á Sandi í Aðaldal og þá kom einnig metið í Miðfirði, 11,7 stig í Núpsdalstungu og 10,1 stig á Þingvöllum. Í hlýindum dagana 14.-15. febrúar 1965, þeim næsta hlýjasta á landinu, mældist mesti febrúarhiti á vestfjörðum, 12,5 stig á Suðureyri við Súgandafjörð og þá komu 13, 3 stig á Blönduósi.
Í hinum ofurhlýja febrúar 1932, lang hlýjasta febrúar á landinu, fór hitinn í Fagrdal í Vopnafirði tvisvar í 15,0 stig, þ. 20. og 23. Þá voru engar hámarksmælingar niðri á austfjörðunum en eitthvað mun þar þá væntanlega hafa gengið á. Geysileg fyrirstöðuhæð var viðloðandi þennan mánuð. Loftvægi hefur aldrei verið jafn hátt í febrúar og mældist loftvægi þ. 10. á Teigarhorni 1047,4 hPa kl. 10 um morguninn.
Hér má sjá kort frá hádegi 7. febrúar 1960 og frá 850 hPa fletinum þar sem sjá má hitann í háloftunum í kringum 1400 m hæð.
Veðurfar | Breytt 19.2.2013 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2013 | 14:05
Raus og heimska
Þessi maður virðist reyndar miskilja allt eða ekki skilja neitt eða lifa i hálf óhugnanlegri afneitum.
Það er eiginlega hafið yfir allan vafa að athafnir manna hafa valdið hlýnun á jörðinni með tilheyrandi afleiðingum. Það er þá þegar orðið breytt veðurfar.
Menn geta deilt um hvaða afleiðingar þetta hefur eða hversu alavarlegar þær eru eða verða.
Í framahldi af þessu er rökrétt og blasir alveg við að hafi mennirnir með aðgerðum sínum breytt veðurfarinu og þar með líka veðrinu að einhvejru leyti geta þeir líka með aðgerðum sínum dregið úr þessum áhrifum. Breytt veðurfarinu aftur. Ríkisstjórnir eru þar auðvitað í lyilstöðu.
Að láta eins og mennirnir hafi ekki nein áhrif á veðurfarið er bara raus og heimska.
Hitt er annað mál að það er líka raus og heimska sem veður uppi í veðurumræðunni að tengja bókstaflega allt sem gerist í veðrinu við hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda.
Stjórnvöld geta ekki breytt veðrinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 20.2.2013 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
8.2.2013 | 16:38
Mesti febrúarhiti í Reykjavík 1935
Þennan dag, 8. febrúar 1935, mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í febrúar, 10,1 stig. Veðurstöðin var þá á þaki Landsímahússins við Austurvöll. Hlýindi voru um þetta leyti í nokkra daga. Þau byrjuðu þann 6. með asahláku um land allt. Þá var djúpð lægð yfir Grænlandi. Þennan dag fór hitinn í 14,0 stig í Fagradal í Vopnafirði. Næsta dag komst hitinn á Akureyri í 13,2 stig sem þá var mesti hiti sem þar hafði mælst í febrúar en metið var slegið 1980 og tvisvar eftir það.
Þann 8. fór djúp og kröpp lægð norðaustur um landið og fylgdi henni sunnanofsaveður með rigningu. Veðrið skall á af suðaustri á sjöunda tímanum síðdegis. Loftvægi fór niður í 957,1 hPa um kvöldið í Stykkishólmi. Vindur var talinn 12 vindstig í Reykjavík og 10 sums staðar annars staðar á landinu. Enskur togari strandaði við Sléttanes við Dýrafjörð og fórust allir sem um borð voru. Kirkjan í Úthlíð í Biskupstungum fauk út í buskann og sums staðar fuku skúrar og útihús. Mjög víða fuku húsþök og er sagt að þakplötum hafi rignt yfir Reykjavík. Loftnet útvarpsstöðvarinnar á Vatnsenda slitnaði. Í þessum látum mældist sem sé methitinn í Reykjavík. Í Vík í Mýrdal fór hitinn þá í 9,5 stig. Næsta morgun mældist úrkoman á Vattarnesi 52,3 mm og 46,9 á Teigarhorni en 13,0 í Reykjavík.
Eftir að lægðin fór yfir landið kom fyrst snöggt norðanáhlaup en svo útsynningur með éljum vestanlands.
Í febrúar 1942 mældist einnig 10,1 stig í Reykjavík og var það þann 16. Þá var ekkert illviðri.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 14.2.2013 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.2.2013 | 18:52
Kannski myndskeið frá mesta ofviðrinu í Reykjavík
Vefsíðan Lemúrinn birtir í dag tvö myndskeið sem eru fræðslumynd bandaríkjahers frá því haustið 1941 og fram á árið 1942. Þar á meðal eru myndskeið frá miklu óveðri sem á myndinni er sagt að hafi gengið yfir 13. janúar 1942 og þá hafi með öðrum skaða fimm flugbátar sokkið. En dagsetningin er áreiðanlega röng. Tvö mikil veður gengu yfir í þessum mánuði með þriggja daga millibili, 12. og 15. janúar en þann 13. var skaplegt veður. Seinna veðrið var eitt hið versta sem gengið hefur yfir suðvesturland og þá mældist mesta veðurhæð sem mælst hefur í Reykjavík. Veðrið var mest um og eftir hádegi meðan birtu naut en veðrið þann 12. var mest að kvöldlagi. Í myndskeiðinu, sem tekið er í björtu, virðist sem veðrið þann 15. komi fram.
Sé svo er þetta líklega eina kvikmyndin sem til er af þessu fræga veðri þegar mesti vindhraði sem mælst hefur í Reykjavík var mældur. Hér er tengill á þetta veður sem sést í myndskeiðinu. Það byrjar á 7:50 mínútu. Þar virðist vera blandað saman myndum frá Reykjavíkurhöfn og frá Skerjafirði þar sem flugbátarnir voru. Hér má aftur á móti sjá greinargerð Veðurstofu Íslands um ofviðrið mikla 15. janúar 1942. Þar kemur meðal annars fram að þennan dag hafi fimm flugbátar sokkið. Og margt fleira er þar að lesa.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 17.2.2013 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006