Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Guð er minn hirðir!

Í nótt gerðust óvænt tíðindi í mínu annars tíðindasnauða lífi. Ég var að skoða margt og margt á netinu í hálfgerðu iðjuleysiskasti. Ég flakka sjaldan um netið en geng yfirleitt beint að því efni sem ég vil nálgast. En nú kom ég allt í einu á síðu sem ég vissi ekki að til væri. Hún birtir tónlist hundruða tónskálda á nótum. Af einhverri rælni fletti ég fyrst upp á tékkneska snillingnum Anton Dvorák. Hann var betri en þessi Muggison (að ég tali nú ekki um þessi Enimen andskoti, jæja, best er víst, að stilla fordómum sínum og dómhörku í hóf!) og gerði einhverja frægustu sinfóníu sem nokkru sinni hefur verið samin, þessa sem kölluð er "frá nýja heiminum" af því að hún var samin í New York og vitnar í negrasálma.

Þarna rakst ég á Biblíusöngva op. 99 eftir Dvorák og fór að fletta þeim. Eitt lagið var við 23. sálm Davíðs: Guð er minn hirðir, mig mun ekkert bresta, og allt það. Og skemmst er frá því að segja að þetta finnst mér eitthvert fallegasta lag sem ég hef vitað og þekki ég þó mörg lög en vissi ekki af þessu  lagi. Ég var að kynnast því í fyrsta sinn.   

Það sem gerir lagið svo fallegt er einfaldeiki þess, mýkt og mildi, traust og góðvild sem stafar frá því í hverri nótu.  

Ég er veikur fyrir svona. Ég er veikur fyrir því þegar trú manna gerir þá vitra, góða og ljúfmannlega. Þannig gerði trúin Dalai Lama en mynd um hann var sýnd um daginn í sjónvarpinu. Og þannig hefur trúin, hvort sem hún er kristin, gyðingleg, múslimsk eða búddísk,  gert marga menn ef þeir láta ekki bölvaðan bókstafinn blinda sig.  


Uppreisnarher drottins

Uppreisnarher drottins í Uganda berst fyrir því að stofna ríki á grundvelli boðorðanna tíu - hvorki meira né minna.

Manni verður eiginlega óglatt af frásögnunum í Kastljósi um framferði þessara stríðsmanna drottins. Þeir ræna börnum og kenna þeim að myrða og limlesta á hroðalegan hátt. Skera af mönnum andlitið til dæmis. Og þykir það hin besta skemmtun. Stúlkurnar, sem líka eru í hópnum, verða svo kynlífsþrælar foringjanna. Og annað eftir því.

Þetta er víst samt kristinn lýður sem heldur boðorðin tíu í heiðri og hvikar ekki frá bókstafnum.

Aldrei hef ég séð neinn blogga um þessa kristnu óþokka. 

Það er hins vegar auðvelt að ímynda sér hvað lesa mætti á sumum bloggsíðum og hvað ályktanir um yfirburði kristins siðferðis væru þar dregnar ef þetta væri múslimskur skæruliðahópur sem berðist fyrir því að stofna ríki múslima í Uganda.

Sumir segja reyndar að þessi hópur sé ekki kristinn og hann hefur notið stuðnings frá Súdan en hann segist samt vera kristinn. 


Undarlegar tengingar í lífinu

Horfði í kvöld á myndina um morðið á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra árið 1968  í syrpunni um sönn íslensk sakamál. 

Þegar ég var um tvítugt bjó ég á Kambsvegi í Reykjavík. Einu sinni tók ég leigubíl heim til mín. Ég tók mjög vel eftir bílstjóranum vegna þess að það vantaði á hann annað eyrað. Nokkrum dögum seinna var framið þetta morð og þegar ég sá mynd af hinum myrta þekkti ég strax manninn sem hafði ekið mér heim fáeinum dögum áður. Og hann hafði reyndar átti heima nokkrum húsum ofar á Kambsveginum.

kopur2Þegar ég var tíu ára var ég nokkrar vikur með fjölskyldunni í sumarbúðstað í Skorradal. Við vorum þar með lítinn og fallegan hvolp sem hét Kópur. Þá var  hundahald bannað í Reykjavík og þegar við komum aftur í bæinn var hvolpurinn settur í fóstur hjá manni sem bjó  skammt utan við bæinn. Og það var einmitt maðurinn sem grunaður var um morðið á Gunnari leigubílstjóra en var sýknaður fyrir rétti. Svona getur maður tengst mönnum og atburðum á hinn undarlegasta hátt.

Til hægri er mynd af mér og hvolpnum. Ég er ansi góður með mig á myndinni en hundurinn samt miklu betri. Hægt er að stækka myndina með tvíklikki til að sjá það. 

Einkennileg var þessi mynd í sjónvarpinu. Maðurinn var sýknaður fyrir dómi en samt var eins og myndin vildi endilega gera hann sekan  þó það væri sláandi í málinu að ekki var nokkur leið að finna ástæðu fyrir því að sakborningurinn hefði viljað myrða manninn.

Þetta er ægilega vond sjónvarpsmynd.  

 

 

 


Áfengisdýrkun

Þegar ég kom heim frá Krít ók ég heim frá flugvellinum um Lækjargötuna klukkan hálf fjögur aðfaranótt sunnudags. Mér brá í brún að sjá þann rónalega subbuskap sem blasti við hvarvetna en ótrúlegt margmenni var á götunum. Engan sá ég samt laminn til óbóta fyrir augunum á mér. 

Nú les ég á netfréttum að "mikill erill" hafi verið hjá lögreglunni í nótt og "mikil ölvun".  Þetta orðalag sem notað er í fréttum þýðir í raun og veru að allt hafi logað í fylliríi. Þá sá ég fyrir mér subbuskapinn í miðbænum þegar ég kom heim í margföldu veldi. Það var líklega góða veðrið sem olli því að þrátt fyrir fjöldafyllirí varð ekki vandræðaástand. En menningarnótt, eins og svo margt annað á Íslandi, er orðin að algjörri múgæsingu. Einn þriðji hluti þjóðarinnar æðir í bæinn til að rápa og drekka bjór. Það er tímasuprsmál hve nær allt fer úr böndunum við slíkar aðstæður með þvílíkum ósköpum að ekki er hægt að hugsa það til enda.

Það er bara tímaspursmál.   

Mikið er rætt um "ástandið" almennt í miðbænum um helgar en sumir vilja þó meina að það sé svo sem ekkert "ástand". Það er vel þekkt að sóðar verða samdauna sóðaskapnum í sjálfum sér. Ýmislegt hefur mönnum dottið í hug sem gæti bætt ástandið. En það er eitt sem menn passa sig vel á að nefna ekki:

Hvaða þátt umgengni þjóðarinar við áfengi á í þessum hamförum.

Það er undarlegur tvískynningur að það verður stórfrétt í vandlætingastíl þegar smáræði af ólöglegum vímuefnum finnst á útihátið um verslunarmannahelgina þar sem þúsundir veltast um ælandi og slefandi af fullkomlega löglegri vímuefnaneyslu í formi brennivíns en ÞAÐ þykir ekki tiltökumál. Oft er talað og skrifað um vín eins og það sé ekki vímuefni og ekki fíkniefni. 

Áfengisdekrið og áfengisdýrkunin er eiginlega orðin að andlegri harðstjórn í landinu. Fín fyrirtæki bjóða jafnvel háskólnemum í kynnisfeðir um fyrirtækin og servera vín í stríðum straumum. Enginn þorir að skera upp almennilega herör gegn áfegnisdýrkuninni af ótta við að verða hællærislegur í augum annara.

Það þykir dyggð að vera bindindismaður á tóbak og ólögleg vímuefni en jafnvel þeir sem hafa verið að skrifa gegn verslunarmannahelgarsukkinu taka það samviskulega fram að þeir séu ekki bindindismenn á áfengi. Þeir skammast sín nefnilega fyrir að vera það. 

Svo langt gengur spéhræðslan við vínbindindi að meira að segja auglýsingar í "forvarnarskyni" brýna það fyrir börnum og unglingum að láta það dragast að detta í það - en fyrir alla muni ekki  sleppa því samt áður en yfir lýkur. 

Hvernig stendur á því að menn hafa þetta einkennilega viðhorf til áfengis en fordæma yfirleitt t.d. tóbak? Tóbakið veldur vð vísu banvænum sjúkdómum. En það leggur ekki persónuleikann í rúst, sundrar ekki fjölskyldum og lætur menn ekki missa allar eigur sínar og vini og veldur ekki ofbeldi, morðum og nauðgunum eins og áfengið. Auk þess veldur það reyndar líkamlegum dauða oft og tíðum.

Mikið væri það nú kærkomið ef sá mórall skapaðist með þjóðinni að það sé álíka ófínt að drekka í hófi og að reykja í hófi eða éta amfetamín í hófi. Ég er ekki að tala um boð eða bönn. Ég er að tala um viðhorf. Það viðhorf að það sé svipuð dyggð frá heilsufarslegu og velferðarlegu sjónarmiði að vera bindindismaður á áfengi og vera bindindismaður á tóbak. 

En það er við ramman reip að draga. Frelsi einstaklingsins er allt lifandi að drepa og margir græða á því mikið af peningum. Auk þess eru rauðvínsalkar í afneitun eins og froðufellandi krossfarar á alþingi og öllum stjórnmálaflokkum og bara hreinlega út um allt og hvergi er fyrir þeim flóafriður og þeir heimta áfengi í allar matvörubúðir og á öll dagvistunarheimili.    

Þeir frekustu og ósvífnustu, þeir fjósrugluðustu, þeir allra ömurlegustu, eiga oftast nær síðasta orðið.  


Gamlar minningar

Íþróttablað Morgunblaðsins segir frá því í dag að nú sé hálf öld liðin frá því að Hilmar Þorbjörnsson setti íslandsmet í 100 metra hlaupi sem enn stendur. Þetta gerðist á gamla Melavellinum í Reykjavík. Það vill svo til að ég var á vellinum þennan dag og man vel eftir undrun áhorfenda þegar metið var tilkynnt í hátalarakerfinu. Þetta mun vera eitthvert elsta íslandsmet sem enn stendur.

Ég var líka á Laugardalsvellinum þegar Vilhjálmur Einarsson setti íslandsmet í þrístökki, 7. ágúst 1960 og stökk 16.70 metra. Það hefði verið jöfnun á heimsmeti ef pólverjinn Jósef Schmidt hefði ekki nokkrum dögum áður stokkið fyrstur manna yfir 17 metra. Met Vilhjálms stendur enn sem íslandsmet.

Ég er hreinlega alls staðar þar sem hlutirnir gerast á vettvangi íþróttanna! Ég leyni sem sagt heilmikið á mér. 

Loks vil ég taka það fram af gefnu tilefni þennan síðsumarsdag að ég hef hreinustu andstyggð á hvers kyns menningu. Ef ég ætti pístólu myndi ég spenna upp á henni gikkinn við það eitt að heyra orðið nefnt.

Hvort sem það yrði nú að nóttu eða degi.  

 


Surtsey og Upptyppingar

Í gær skoðaði ég Surtseyjarsýninguna í Þjóðmenningarhúsinu. Ekki fannst mér mikið til hennar koma. Einna mest gaman var að þessari "tímavél" sem sýndi hvernig talið er að eyjan muni líta út allt til ársins 2130. Þá verð ég nú orðinn gamall og geðstirður! En þetta speglaverk á sýningunni var bara asnalegt. Þannig sér maður aldrei í náttúrunni og ég hef ekki áhuga á arty súrrealisma á sýningu um eldgos, bara plein staðreyndum.

Svei mér ef ég er bara ekki nú þegar orðinn gamall og geðstirður!

Surstseyjargosið er eina eldgosið sem ég hef séð með mínum eigin augum.  Og það tvisvar fremur en einu sinni. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að sást til gossins úr sjó 14. nóvember 1963 fór ég með öðru fólki í bíl að Kambabrún til að horfa á það. Þá stóð gjóskutrókurinn hátt í loft upp.

Sumarið 1964 var ég messagutti á flutningaskipinu Hvítanesi sem seinna hét Vatnajökull. (Skipafélagið sem átti skipið fór reyndar á hausinn í þessari ferð og ég hef enn ekki fengið greitt kaupið mitt fyrir uppvaskið). Við héldum frá Vestmannaeyjum aðfaranótt 21. júlí og sigldum framhjá Surtsey. Þetta skrifaði ég þá í dagbókina mína: "Í nótt sigldum við að Surti og var þá mikið gos í honum. Eldsúlan sást af og til en hraunið rann fram á tveimur stöðum. Rauður bjarmi lýsti upp himininn og sjóinn. Þetta var stórkostlegasta sjón sem ég hef séð." Myndin sem hér fylgir er tekin af Sturla Friðrikssyni og er tekin með bessaleyfi af vef Surtseyjarfélagsins.  

surtseyÞetta gos var allaf ótrúlegt sjónarspil. Ekkert sjónvarp var í landinu nema síðustu mánuði gossins en frægar kvikmyndir eru til af gosinu.

 

Ég er hræddur um  það yrði núna handagangur í öskjunni hjá sjónvarpsstöðvum ef við fengjum annað eins gos. Og nú vantar sárlega gott eldgos. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur verður enn að herða sinn talanda ef hann ætlar að hafa það af að tala upp eldgos við Upptyppinga.

Það lýsir annars best lágu menningarstigi  og tæpri náttúruvitund  bloggverja að þeir hafa aðallega verið að klæmast með þetta nafn á síðum sínum og ekki eytt orði að því landrisi sem þar er að verða ansi stíft sem stefnir loks að útspýtingu allsvakalegri. 

Ég vil fá almennilegt súpergos úr þessum Upptyppingi en ekki neitt ómerkilegt túristagutl. Það veitir ekki af að hrista upp í þessari logmollu sem grúfir yfir öllu. Minnst þúsund rúmkílómetra af gosefnum vill ég fá upp í loftið, sjóðheit og þykk og velllandi, þegar Upptyppingurinn gossar loksins öllu gumsinu út úr sér. Þá verður nú nú aldeilis aksjón, spenna og hasar. 

Gott ef verður bara ekki heimsendir.


Hvenær byrjar haustið?

Undanfarið hafa ýmsir bloggarar skrifað að nú sé haust í lofti og einn sagði að það sé algeng skoðun Íslendinga að sumarið sé búið og haustið komið þegar verslunarmannahelgin er liðin. Og þetta er alveg rétt hjá honum. Ótrúlega margir virðast vera þessarar skoðunar og það kemur fram ár eftir ár ef ekki er beinlínis hitabylgja eftir verslunarmannahelgina eins og var reyndar árið 2004 þegar flest hitamet á landinu voru slegin.

Þetta gæti samt ekki verið meira fjær lagi. Það er ekki komið haust um miðjan ágúst. Síðustu daga hefur raunar kólnað nokkuð frá því sem verið hefur en þó ekki meira en svo að álika og meira þó hefði hæglega getað gerst hvenær sem var í júlí.  Það lýsir því best hve Ísland er kalt land að ekki megi koma almennileg norðanátt um hásumar svo hitinn fyrir norðan komist ekki upp í tíu stig á hlýjsta tíma sólarhringsins. Veðrið núna er vægt kuldakast og bráðum hlýnar á ný.

Það er vitanlega mismunandi hve snemma haustar að og líka hversu sumarið kemur snemma. Þar getur verið mikill munur á milli ára. Kuldaköst eru algeng á sumrin en oft hlýnar eftir þau jafnvel þó síðsumar sé en stundum verður sumarið vissulega endsleppt. 

Sannleikurinn er þó sá að meðalhitinn um miðjan ágúst er hærri en  fyrstu vikuna í júlí og hærri en nokkurn dag í júní. Þessi árstími, um miðjan ágúst,  er mjög nærri hlýjasta tíma ársins. Dagsbirtan er hins vegar skemmri en í júlí og júní auðvitað og sólarhæðin lægri. En það er ekki aðalatriðið hvað sumarhitann varðar. Fátt er eins ljúft og hlýir síðsumarsdagar með rómantísku rökkri. "Það var í ágúst að áliðnum slætti og nærri aldimmt á kvöldunum þeim", sagði gæinn rétt áður en hann tók blítt í höndina á henni Kötu í kvæðinu fræga og það var ekki veðrinu að kenna að hann fór á bömmer þegar hann sá að hún var með einfaldan giftingarhring!  

Það er kannski einmitt upplifunin af myrkrinu sem veldur þessari tilfinningu fólks að það sé farið að hausta strax eftir verslunarmannahelgina.  Hvenær vill fólk þá meina að sé sumar eiginlega? Bara í júlí?

Í skjalinu sem fylgir hér með færslunni er hægt að sjá útjafnaðan meðalhita fyrir hvern dag í Reykjavík frá maí til september eins og hann reyndist árin 1961-1990. Síðustu tíu sumur eða svo hafa yfirleitt verið talsvert hlýrri en oftast var á þessum árum en munurinn milli daga er væntanlega eitthvað svipaður.

Á töflunni sést svo ekki verður um villst að ekki er farið að hausta um miðjan ágúst. Þessar tölur og útjöfnunin eru komnar frá Veðurstofunni. Það verður að útjafna tölurnar (ekki útvatna!) af því að veðrátta á Íslandi er svo breytileg að annars yrðu tölurnar eins og skörðóttur hundskjaftur ef þær væru settar upp í línurit jafnvel þó heil þrjátíu ár séu höfð undir.  

Það held ég nú! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Glaður og góður dagur

Upp úr hádeginu kom frændi minn til mín og dró mig út í skemmtilega göngu meðfram sjónum. Þegar ég skildi við hann var veðrið svo gott að ég rölti niður í bæ. Þá var gaypride-gangan einmitt á ferðinni. Ég tók þátt í henni í fyrra en það stóð ekki beinlínis til að þessu sinni af mjög svo persónulegum ástæðum. 

Eigi að síður var aldeilis gaman að sjá allt þetta fólk á öllum aldri og margir voru með börn. Lögreglan segir að fimmtíu þúsund hafi verið í bænum en sumir segja að þeir hafi verið enn þá fleiri. 

Hvort heldur sem var þá segir þessi mikli fjöldi aðeins eitt: 

Þeir sem þarna voru eru velviljaðir hommum og lesbíum.

Enginn var að mótmæla þeim eða var með stæla. Allir voru glaðir og góðir. Og það gefur augaleið að þau börn sem þarna voru og eiga kannski eftir að koma aftur með foreldrum sínum í seinni göngur alast upp í samþykki og velvild í garð samkynhneigðra. Sem sagt í kristilegum anda. Þannig er þjóðin að meginhluta.

Og hvað haldiði! Gekk ég  ekki fram á báðar systur mínar í Lækjargötu, glaðar og góðar eins og allir aðrir. Þetta er lítill heimur en alls ekki svo galinn!  Ekki spillti að það var sól og 17 stiga hiti um miðjann daginn.

Fámennur en harðskeyttur hópur manna elur stöðugt á fordómum og hatri í garð samkynheigðra, oft undir merkjum trúarinnar. Þessir menn eru algjörlega skotheldir í skoðunum sínum og  taka aldrei neinum rökum né sönsum og virðast vera fullkomlega ómeðvitaðir um hvað þeir virka fráhrindandi á allt sæmilegt fólk sem ekki er haldið trúarbrjálsemi í garð samkynhneigðra.

Hingað til hefur samfélagið sýnt þessum hópi ótrúlegt langlundargeð og þolinmæði. Hvað á það að ganga lengi? Þó ég sé með afbrigðum friðsamur maður finnst mér álitamál hvort ekki sé kominn tími til að útskúfa þessu hommahatursliði úr kristinna manna tölu af svona álíka hógværð og lítillæti og það úthúðar hommum og lesbíum. Æ, það þykist víst elska einstaklingana sem eru hommar og lesbíur en hata þá synd sem þeir eiga að hafa ratað í með kynhneigð sinni. En það er bara ekki þannig. Þetta fólk hatar einfaldlega homma og lesbíur. Af allri sálu sinni og af öllu hjarta sínu. Og ekkert með það bara. Eins gott að það segi það hreint út en sleppi  þessu kærleikskjaftæði.  

Því það er bara kjaftæði sem enginn innistæða er fyrir. 

 


Lokið upp hinum óttalega leyndardómi á Krít

Í fyrradag sagði ég á blogginu að ég hefði dregið mig í hlé síðan ég kom heim frá Krít. Og ég lauk færslunni með þessum orðum.

"Hvað var það á Krít sem snéri mér frá heimsins glaumi inn á innri brautir?

Það er leyndardómur."  

En nú ætla ég að ljóstra upp þessum óttalega leyndardómi.

Það var hann Míó minn. 

Míó var húsköttur sem fylgdi íbúðinni þar sem ég bjó fyrir endanum á langa og dimma ganginum sem lá að íbúðinni hennar Gerðar Rósu asnabónda og lífsspekingi. Þarna hafði hann Mió búið í sæmd sinni lengur en eltsu menn mundu með eiganda sínum þar til það hljóp í ólukkans eigandann að flytja burtu í annað og fullkomlega ómerkilegt húsnæði. En meistari Míó vildi ekki flytja og strauk hvað eftir annað frá nýja staðnum á sínar gömlu og góðu heimaslóðir.   

Þar settist hann að sem húsköttur og verndari íbúðarinnar. Þjónaði hann öllum íbúum, sem þar bjuggu síðan, með spekt sinni og efirlátssemi.  

PICT2303Hann gerði sig heimakominn í rúminu mínu á hverju kvöldi og malaði eins og þotuhreyfill upp við brjóstið á mér. Einu sinni tókst mér með vinstri hendi að að taka mynd af okkur saman.  

Þegar ég fór fram í stofu fylgdi hann mér við hvert fótmál. Ef ég settist við tölvuna til að skrifa malaði hann þar líka  til að auka mér innblástur. Og þegar ég opnaði ísskápinn rak hann upp gleðimjálm eitt hvellt og snjallt og allt hans pavlovska skilyrtamunnrennsli fór í gang alveg skilyrðislaust enda brást honum aldrei spádómsgáfan að opinn ísskápur þýddi svínasteik og aðrar gómsætar krásir.

Míó var alveg sama hvaða skoðanir ég hafði, t.d. á umhverfismálum, dýravernd eða femínisma. Hann kærði sig líka kollóttan um það hvort ég tryði á guð eða ekki.  

Hann skeytti aðeins um það sem leynist að baki allra skoðana og látaláta í hverjum manni. Gegnum hjartað lá hans leið og það er einmitt vegurinn til friðar og fagnaðar segja þeir sem best vita það. 

Þegar ég kom heim var þar enginn Míó. Þess vegna varð ég að draga mig í hlé frá heimsins glaumi til að finna aftur leiðina til hjartans.   

Eftir veginum hans Míó.

Þetta var leyndardómurinn hinn dýri sem ég uppgötvaði á Krít. 

P.S. Hægt er stækka myndina af honum Míó með því að klikka á hana.
 


Veðrabesta þjóðhátíðin í Eyjum

Ekki hefur verið betra veður í heildina á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en nú síðan a.m.k. um miðja  síðustu öld. Reyndar varð að fresta opnun hátíðarinnar um nokkrar klukkustundir vegna hvassviðris en fljótlega varð veðrið skaplegt og á föstudaginnn og laugardaginn var einmuna sól og blíða og reyndar var einnig ágætt veður á mánudaginn. Frá laugardegi til mánudags var hiti meiri en áður hefur komið í Vestmannaeyjum á þjóðhátíð þá daga. Á Stórhöfða mældist hámarkshitinn þessa þrjá daga 16,4, 16,6 og 14.6 stig. Á sjálfvirka mælinum í kaupstaðnum, við varmaveituna, mældist  17,9, 17,0  og 14.2  stig. Meðalhitinn þessa þrjá daga á Stórhöfða var á milli 12 og 12 og hálft stig og gerist slíkt ekki oft á þeim stað. Hlýrra var en í Reykjavík. Úrkoma alla þjóhátíðardagana var aðeins 0.2 mm á Stórhöfða, mæld kl. 9 á laugardagsmorguninn og síðan ekki söguna meir.

Veðrið var alveg þokkalegt víða um land að þessu sinni um verslunarmannahelgina og sums staðar alveg ágætt. Ekki mun því koma til þess að birtist blaðagreinar um það að nausðynlegt sé að færa verslunarmannahelgina fram um svona tvær helgar eins og  gerst hefur hvað eftir annað síðustu ár ef "rok og rigning" hefur verið um þessa helgi, en slíkt veður er æði algengt hér á landi á sumrin yfirleitt. Ómar Ragnarsson hefur verið manna ötulastur við að koma þessari hugmynd á framfæri. Á bloggsíðu hans í fyrradag er þessi fullyrðing:

"Verslunarmannahelgin er hálfum mánuði eftir að sumarhitinn nær hámarki og oftar bjóða helgarnar á undan upp á betra veður."

Gaman þætti mér og fróðlegt ef Ómar rökstyddi þessar fyllyrðingar sína. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann ber þær fram. Þetta eru vafasamar staðhæfingar í heild ef ekki beinlínis rangar. En ekki get ég farið lengra út í það að sinni. En Ómar hefur stundum heilmikil áhrif. Og það væri alveg eftir öðru að menn rjúki til og færi verslunarmannahelgina fram um tvær helgar í von um að þá verði oftar betra veður. 

En það er bara ekki þannig.    

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband