Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Svo ég endi nú trúmálasyrpuna

Þá þarf ekki að taka það fram að trúarbloggin á Moggablogginu eru þjóðinni til skammar. 

Talibanar

Talibanar eru einhver mesta ógn okkar tíma.

Ekki bara þessir múslimsku réttnefndu talibanar.

Ekki síður óeiginlegu talibanarnir, kristnir  öfgamenn í vestrænum samfélögum.

Hugsið ykkur ef þeir réðu hér öllu.

Þá væri ekkert blogg nema trúarblogg. 


Skömm

Það er hneyksli og skömm að sóa fé almennings í tugmiljónatali í þessu árferði til að gera við skemmdir á kirkjum.

Geta söfnuðirnir ekki fjármagnað þetta sjálfir? Og ef þeir geta það ekki mega kirkjurnar bara grotna niður.

Margt er nú mikilvægara en viðhald á þeim.

Þetta eru sannarlega blóðpeningar fyrir illa stadda þjóð.

 

 


mbl.is Gagnrýna styrki vegna skulda kirkna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll Baldvin tekur af mér ómakið

Í leiðara Fréttablaðsins segir Páll Baldvin Baldvinsson einmitt það sem ég vildi sagt hafa um ástand mála núna í þjóðfélaginu. Leiðarinn ber yfirskriftina Ryð og mölur.

Hrun í veraldlegum eigum þjóðanna heldur áfram þrátt fyrir innilegar óskir áhugamanna um að gengi taki að hækka: eignirnar halda áfram að vera til staðar en verðmiðarnir breytast ört. Peningaeign er hratt að nálgast vaxtaleysið og þá er ekki tekið tillit til þessa gríðarlega taps sem er orðið á öðrum fjárfestingum: hlutafé, húsnæði, listaverkum, farartækjum, nánast allt það sem áður var verðlagt hátt hefur lækkað. Og framleiðslutækin eru ekki lengur arðbær: birgðir hlaðast upp, ál, stál, bílar, fiskur, mjöl. Í snaggaralegum samdrætti neyslunnar standa stjórnmálamenn og rekstraraðilar gáttaðir og bjargarlausir.

Hrun í hinum andlegu verðmætum þjóðanna fylgir í kjölfarið: nú er viðurkennt að gróðavonin hafi leitt okkur af leið. Óbilgirni og harka í eftirsókn lífsins gæða hafi verið villuljós, en eftir sitja eldri gildi magnlítil á skrauthillu: sanngirni, réttlæti, heiðarleiki og traust. Og enn gera menn sér von um að þeirra vegur verði eins og hann er í bókunum og minningunni.

Í þessu róti öllu hér í okkar litla samfélagi er uppi hávær krafa um að enn skuli gengið á forðann: ekki þykir annað en sjálfsagt að lífeyrisforðinn verði tekinn til handargagns þrátt fyrir harkalegt tap sjóðanna. Þá skal enn rýrður hlutur þeirra sem eiga enn fjármagn geymt í bönkum þótt verðfall krónunnar hafi étið upp stóran hluta eigna þeirra, rétt eins og verðmæti vinnu alls þorra manna hefur verið gengisfellt grimmilega. Og örþrota atvinnulífi í höndum eigenda og stjórnenda sem fóru svo illa að ráði sínu að þeir sóuðu eigin fé fyrirtækja sinna, skal nú almenningur bjarga með skattfé sínu, auknu framlagi í banka til að borga niður afskriftir á hin sömu fyrirtæki.

Sama lið og setti atvinnufyrirtækin á hliðina getur með engu móti hugsað sér að verst stöddu en þó starfhæf fyrirtæki lendi í eignarsýslufélögum utan bankanna sem þegar eru farnir að sýna merki þess að þar er mest hugsað um efnahagsreikninginn og útvalda skjólstæðinga en allan þorra þeirra sem leggja bönkunum til rekstrarfé með innlögnum og ríkisframlagi. Ekki verður með neinum hætti greint að spilling og klíkukerfi þrífist síður í bankarekstrinum en stöku eignaumsýslufélögum. En á það ráðslag reyndra manna erlendis frá skal ekki reynt.

Og svo fer fólk að brotna, heimilin að sundrast, eymdin og miskunnarleysið taka að gera vart við sig. Menn stinga af og hverfa. Og fáum dögum eftir kosningar styrkist sá almannarómur að sami rassinn sé undir því öllu, þingliðinu. Vonleysið magnast og fyrirlitningin eykst.

Þá dugar harla lítið að ráðamenn þingmeirihlutans brosi breitt og tilkynni þjóðinni að þeim líði ljómandi vel þann daginn. Langdregin og óskýr stjórnarmyndun er óþolandi, óskiljanleg og óafsakandi. Kjósendur allir, og þó einkum þeir sem kusu þessa tvo flokka, eiga skýra kröfu á að stjórnarstefna verði lögð fram - ekki seinna en í gær og þjóðin upplýst um framhaldið. Því það er ekki nóg að gert og við erum ekki svo græn að halda að þetta reddist í þetta sinn.

Páll Baldvin segir þetta miklu betur en ég gæti nokkru sinni gert.  

 


Kaþólska kirkjan er söm við sig

Kaþólska kirkjan lítur spennubækur Dans Brown vægast sagt óhýru auga. Hún hefur reynt að flækjast fyrir kvikmyndatökum á bókinni Djöflum og englum.

Það er víst eitthvað í bókum þessa höfundar sem fer í taugarnar á kirkjunni, eins og til dæmis það að Jesú hafi gifst og átt barn með Maríu Magdalenu í Da Vinci lyklinum og einhverjar samsæriskenningar.  

Samt vita allir að þetta er bara skáldskapur.

Kaþólska kirkjan myndi áreiðanlega banna þessar bækur ef hún hefði vald til þess. 

Hún hefur bara ekkert vald lengur til þess. En hugur hennar er sá sami og hann hefur alltaf verið. Þröngsýnn hugur fullur af kúgun og fordæmingu.


Leiðinlegar matvöruverslanir

Flestar 10/11 og 11/11 matvörubúðirnar eru ekki aðeins dýrar heldur er vöruúrval þar oft fábreytt og búðirnar eru hálf sjabbí. Ég nefni til dæmis búðirnar í Austurstæti, við Hlemm og á Seljavegi.

Bónusbúðirnar eru líka voðalega leiðinlegar. Fyrst og fremst vegna þess hve lítið fæst í þeim. Ég efast um að það sé ódýrara að versla í þeim en annars staðar af því að maður  verður alltaf líka að fara í aðrar búðir til að kaupa það sem ekki fæst í Bónus. Og þeir snúningar kosta bæði peninga (bensín) og tíma. Það er líka einhver illur andi í Bónusbúðunum. Þær eru svo vúlgar.

Bestar finnst mér Nóatúnsbuðirnar hvað vöruúrval snertir, sérstaklega matvörur. Krónubúðirnar eru líka þolanlegar. 

En matur er orðinn svo dýr að það er eins gott að fara í megrun. Ég er reyndar ekki nema 53 kíló en betur má ef duga skal.   


Gáttaður

Ég botna nú ekkert í Borgarahreyfingunni,  sem ég hef þó mætur á, að hvetja fólk til að borga ekki skuldir sínar. Ef það yrði almenn regla myndi samfélagsleg upplausn hljótast af. 

Viðskiptaráðherra hefur orðið fyrir ómaklegri gagnrýni. Hann talar bara út frá staðreyndum og heilbrigðri skynsemi og pólitískir stælar eru víðs fjarri honum, ólíkt atvinnustjórnmálamönnunum. 

Á tímum eins og þessum á þjóðin að standa saman við að leysa vandann í stað þess að auka hann. 


Villandi frétt

Mynd af lögregluskildi fylgir þessari frétt. Það gæti gefið til kynna að upplýsingar í henni komi frá lögreglunni. Svo er þó alls ekki. Upplýsingarnar í fréttinni koma frá fjölskyldu þolandans eins og nær allar aðrar fréttir um málið. 

Það eina sem ég hef séð frá lögreglunni um málið er það að áverkar stúlkunnar séu ekki alvarlegir. 

Morgunblaðið á ekki að gefa villandi skilaboð í fréttum sínum.

Ég hef andstyggð á ofbeldi hvaða nafni sem nefnist. Það er hins vegar umhugsunarefni hvernig bregðast á við í málum þegar börn beita ofbeldi. Raddir hafa heyrst um að beita eigi mikilli hörku og t.d. loka árásarstelpurnar inni þar til þær verði dæmdar. Það eigi sem sé að beita þær meiri hörku en aðra í sambærilegum málum. 

Það á eftir að dæma þær. Við réttarhöldin koma öll málsatvik fram ásamt læknisfræðilegum áverkaskýrslum. Síðan dæma dómararnir. Ekki fjölskyldur og ekki bloggarar fullir af heift en ótrúlega  margir þeirra ganga af göflunum ef eitthvað ber út af í þjóðfélaginu. Og það er alltaf eitthvað að bera út af.

Læknir sagði um daginn að svona árásaratvik væru orðin algeng. 

Ég held að eitthvert þjóðfélagsmein liggi á bak við sem taka verði á.  

Harðir dómar eiga að leysa vandann er gegnumgangandi stef í bloggfærlsum. En  harðir dómar  í einstökum málum leysa ekki neinn vanda og hafa aldrei gert ef menn vilja ekki hyggja að rótum hans. 


mbl.is „Á enn langt í land með að ná sér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningunni um forgang ekki svarað

Í fréttaauka sjónvarpsins var fjallað um svínaflensuna. Þar kom fram að til eru lyf fyrir einungis þriðjung þjóðarinnar.

Hins vegar var þeirri spurningu ekki svarað hverjir fengju lyfin ef sóttin yrði mjög skæð. Það liggur í augum uppi að ekki gætu þá allir fengið þau sem myndu veikjast.

Spurt var um forgang í þættinum. En það komu engin svör frá þeim embættismönnum  sem spurðir voru. Aðeins sagt að mest áhersla yrði lögð á það að halda samfélaginu gangandi.

Þetta er ekkert svar.

En ætli valdastéttin muni ekki hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig. 

Alþýðan má drepast. 


Afhverju fá djöfladýrkendur ekki að prédika í Ríkisútvarinu?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband