Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Morgunblaðið á þakkir skildar

Morgunblaðið á þakkir skildar fyrir bestu umfjöllun um veður á Íslandi og úti í heimi af öllum íslenskum fjölmiðlum. Blaðið er reyndar eini fjölmiðillinn í seinni tíð sem sinnir þessum þætti frétta nokkurn vegin að staðaldri. Oft með viðtölum við veðurfræðinga og með skýringarmyndum.

Það á það jafnvel til að vitna í bloggskrifarann á góðum stundum! Og hefur birt mynd af honum og sjálfum Mala stjörnuketti sem er hans helsti ráðgjafi í veðurmálunum eins og öllu öðru!

Skýstrokkagangurinn í Bandaríkjunum hefur víst verið með mesta móti í vor en vorið er þar aðal skýstrokkatímabilið. 

Það er spurning hvort þetta einkennilega veðurlag tengist undarlegu veðurlagi á Íslandi síðustu vikur. 

Apríl er mönnum í fersku minni með sitt óvenjulega veðurlag, hvassviðri sem á vetri en miklum hlýindum  fyrir norðan og austan. 

Maí hefur líka verið undarlegur á ýmsa lund. Hann byrjaði með einhverjum mestu snjóalögum í þeim mánuði á Reykjavíkursvæðinu, en svissaði síðan yfir í einhverja hlýjustu viku sem þar hefur komið í fyrsta hluta maí. Upp úr miðjum mánuði kom kuldakast sem hefur verið ansi drjúgt, sem Morgunblaðið hefur líka gert nokkur skil, með furðu miklum snjó á austurlandi og alveg dæmalaust miklu úrkomumagni á norðanverðum austfjörðum eftir árstíma. 

Þegar einn dagur er enn eftir af mánuðinum er ljóst að bæði á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og Dalatanga er úrkoman orðin meiri en áður hefur mælst í maí  á öllum veðurstöðum í Vopnafirði (frá 1931) og á Dalatanga (frá 1939). Eins og ég hef nefnt í öðrum bloggpistli hefur svo aldrei mælst eins mikil sólarhringsúrkoma í Vopnafirði í maí eins og féll þ. 19. á Skjaldingsstöum, 116,0 mm. 

Úrkoman í Reykjavík er komin vel yfir meðallag og annars staðar en á  suðurlandsundirlendi er úrkoman víðast hvar í  meira lagi nema á stöð og stöð. Þetta er ekki einn af þessum þurru og ísköldu maímánuðum sem ætla allt lifandi að drepa. 

Stundum hefur þó orðið býsna kalt. Frostið mældist -8,0 stig á Grímsstöðum þ. 25. sem er dagshitamet fyrir mannaðar stöðvar og stöðvar í byggð og aldrei hefur mælst eins mikið frost á þeim stöðvum svo seint að vori. 

Meðalhitinn er hins vegar enn meira en hálft stig yfir meðallagi í Reykjavík miðað við árin 1961-1990, sem var kuldatímabil, en hins vegar mjög nærri meðallagi á Akureyri. Líklega heldur Reykjavík vel meðallaginu og Akureyri mun sennilega merja það. Sömu sögu er að segja um land allt. Alls staðar  verður meðalhitinn þó undir meðallaginu 1931-1960 sem var hlýindatímabil í líkingu við það sem við höfum lifað í býsna mörg ár og er reyndar eina meðallagið sem við tökum almennilega mark á hér á Allra veðra von! Á hálendinu verður hitinn samt líklega lítið eitt undir meðallaginu  1961-1990  enda hefur verið venju fremur kalt í háloftunum í þessum mánuði eins og í apríl.  

Hvað meðalhitann snertir, að hann sé enn yfir meðaltali, munar mestu um hlýindin í byrjun mánaðarins, sem flestir virðast reyndar vera búnir að steingleyma eða tóku kannski aldrei eftir! 

Síðustu tveir dagar hafa verið yfir meðalagi í Reykjavík og nokkuð dæmigerðir fyrir árstíðina. En fyrir þá daga var meðalhitnn frá þ. 14. alla daga nema einn undir meðallaginu, að meðaltali eitt og hálf stig.

Það er þetta ástand sem skapar þá tilfinningu hjá sumum, sem ekki geta haldið utan um heilann mánuð í huganum,  að ekki vori vel. Það er óneitanlega nokkuð öfugsnúið þegar fyrri  hluti maí er vel hlýr en seinni hlutinn kaldur.

Ástand trjágróðurs sýnist mér þó vera betra en oftast nær í lok maí. Það er nefnilega yfirleitt ekki fyrr en upp úr miðjum maí sem brum á trjám taka að sjást að ráði. Það gerðist núna miklu fyrr, hér í bænum að minnsta kosti. 

Eins og áður segir ætlar mánuðurinn að vera alveg í meðallagi í Reykajvík að hita. Og  viti menn! Sólin hefur nú þegar skinið meira en í meðalagi fyrir maí í Reykajvík.

Þetta er sem sagt allt í fína og enginn ástæða til að kvarta mikið og spyrja hvort fari nú ekki að vora. En sá söngur hefur reyndar staðið í nokkra mánuði og er vís með að halda áfram fram á haust!

Viðbót 31.5.  Á Skjaldþingsstöðum er maíúrkoman meira en fjórföld  miðað við meðallagið 1995-2010 og er þetta jafnframt úrkomusamasti mánuður yfirleitt sem enn hefur mælst á stöðinni. Hámarkshiti í Reykajvik í gær var sagður vera 15,0 stig og í dag 12,5 á kvikasilfrinu. Mér finnst þetta ansi ótrúlegt miðað við mælingar á sjálfvirku stöðvunum.


mbl.is Dularfull og skelfileg veðurfyrirbæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leyndarhyggja Landlæknis

Rannsókn hefur leitt í ljós að á einum þriðja hjúkrunarheimila  fyrir aldraða - ekki einum tíunda - sé ástandið óviðunandi. Nýlega komu fram fréttir um hræðilega vonda umönnun á heilabiluðum gömlum manni á hjúkrunarheimili.

Landlæknir vill ekki opinbera hvaða heimili koma verst út. Hann segist óttast að það muni leiða til þess að ekki fáist þá mannskapur til að vinna á þeim.

Og hvað með það? Ætti bara ekki að loka þeim ''hjúkrunarheimilum'' sem búa þannig að heilabiluðu fólki eins og lýst hefur verið með gamla manninn sem lá í eigin saur og óhreinindum dögum saman?

Og hvað með aðstandendur þeirra sem horfa fram til þess að neyðast til að setja ættingja sína á hjúkrunarheimili? Eiga þeir ekki rétt á að vita hvaða heimili eru  viðunandi áður en þeir vista ættingja sína á þeim?

Leyndarhyggja Landlæknis er óboðleg á okkar tímum. Það er augljóst að Landlæknir tekur hagsmuni heimilanna fram yfir hagsmuni almennings. Hann er bara að hlífa heimilunum. Þetta er ekkert flóknara en það.

Velferðarráðherra hefur sagt að ábyrgðin á þessu ófremdarástandi hvíli á hjúkrunarheimilunum og eftirliti Landlæknis. Féskortur sé svo engin afsökun. Og þetta liggur hreinlega í augum  uppi.

Það sem nú er að gerast með leyndina er hins vegar skólabókardæmi um það hvernig menn ætla að leysa þá sem ábyrgð bera undan ábyrgð. Allt bendir til að enginn mun þurfi  að bera minnstu ábyrgð á þessu ástandi og ekki verði blakað á neinn hátt við þeim hjúkrunarheimilum sem frekar ætti að kalla pyntingastofnanir en hjúkrunarheimili svo við hættum allri yfirborðskurteisi og orðum hlutina eins og þeir eru.

Þessi gamli maður er ekki einn. Fjöldi annarra býr við svipað ástand ef marka má rannsóknina. Það er einnig sláandi að aðstandendur gamla mannsins þora ekki að nefna hjúkrunarheimilið af ótta við að það muni bitna á gamla manninum.

Svona lagað er að gerast beint fyrir framan nefnið á okkur og Landlæknir  sýnir þjóðinni bara fingurinn!  

Í dag mun heilbrigðisnefnd Alþingis funda með Landlækni. Við skulum vona að þingmennirnir þori að mæta embættinu af fullum þunga. Hugsi sjálfstætt gagnvart kennivaldinu.

Það er líka hægt að ætlast til að fjölmiðlar taki fram fyrir hendurnar á Landlækni  og komist yfir listann yfir vondu heimilin og birti hann svo fólk geti forðast þau ef Landlæknisembættið ætlar ekki að gera það.

 


Sátt

Maður er alveg búinn að sætta sig það að ekki komi neitt sumar í sumar.

Ekki einu sinni rigningarsumar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kuldamet fyrir norðan

Í nótt fór frostið á Grímsstöðum á Fjöllum niður í 8,0 stig. Það er mesta frost sem mælst hefur þennan dag og á þessum árstíma á mannaðri veðurstöð.

Meðalhiti mánaðarins er nú minna en eitt stig yfir meðallagi í Reykjavík en er hálft stig yfir því á Akureyri. Enginn alvöru hlýindi eru boðuð framundan og þó hlýni sums staðar í einn eða tvo daga virðist sem aftur sæki í kuldafar út mánuðinn. Kannski lafir þó mánuðurinn í hitameðallaginu að lokun.

Mest snjódýpt í morgun var 8 cm á rafstöðinni við Skeiðsfoss í Fjótum. Jörð er ekki talin alhvít þar sem mest hefur snjóað á norðausturlandi. Snjóinn tekur hratt upp. Í dag var talið alautt í Neskaupstað en í gærmorgun var þar alhvítt og sjódýpt 12 cm.

Á einhverjum netfréttamiðli las ég að í gær hafi snjódýptin verið 60 cm á Egilsstöðum. Ekki fylgdu frekari skýringar. Á þessum slóðum eru ekki neinar snjódýptarmælingar sem koma inn á vef Veðurstofunnar.

Á vef Veðurstofunnar koma upplýsingar frá ýmsum mönnuðum úrkomustöðvum, en þar eru líka gerðar snjódýptarmælingar, afar óreglulega og sumar stöðvar mega heita nánast dauðar og engar eða fáar hafa verið alveg samfelldar t.d. í þessum mánuði á vefnum. Allra verst er Stafafell í Lóni.

Nú efast ég ekki um að athugunarmenn geri athuganir og skrái þær. En þeir hirða ekki um að koma athugununum til Veðurstofunnar. Þeir fá samt greitt fyrir að gera athuganir og þeir hljóta að gera sér ljóst að athuganirnar eru hluti af almannatengslum stofnunarinnar sem þeir eru að starfa fyrir - ekki einkamál milli þeirra og hennar- og birtast almenningi á vef Veðurstofunnar þegar þær berast þangað. Að koma skráningunni áleiðis hlýtur því að vera ein af þeim skyldum sem athugunarmenn gangast undir þegar þeir taka athuganir að sér - fyrir borgun. 

Og ég segi því bara þó það hljómi kannski harkalega: Þegar athugunarmenn senda ekki upplýsingar sem birtast þá ekki á vef Veðurstofunnar eru þeir einfaldega að bregðast skyldum sínum við almenning. 

Annars virðist líka vera einhver óregla á ýmsum mönnuðum veðurathugunarstöðvum öðrum en úrkomustöðvum. Það eru alltaf að koma þar eyður en slíkar eyður voru sjaldgæfar hér áður fyrr. 

Höfn í Hornafirði er sérlega slæm.

Jafnvel Stórhöfði, sem var lengst af ein af öruggustu veðurathugunarstöðvunum, er stundum að klikka. En aldrei klikkar nú Dalatanginn! Gaman af heimsókninni þangað í Landanum.

Reykir í Hrútafirði og Miðfjarðarnes eru stundum stopular og í minna mæli Hjarðarland og jafnvel Hæll i Hreppum og stundum Eyrarbakki. Upp á síðastastið hafa Bolungarvík og Æðey  verið að hlaupa út undan sér. Í dag Bergsstaðir.

Ég undra mig svo á því hvers vegna Þverfjall er aldrei inni í yfirliti um köldustu fjallastöðvar þó þar sé einmitt alloft mesti kuldinn, ekki síst síðustu daga. Er þetta eitthvað afbrigðileg stöð? 

Það mætti fara að endurnýja töflurnar fyrir mönnuðu stöðvarnar sem sumar eru reyndar hættar. Þar er greint frá hámarks og lágmarkshita og úrkomumagni frá klukkan 9-9 og frá kl 18 til 18. Mér finnst að úrkoman mætti alltaf vera frá klukkan 9-9 en aldrei hámarks og lágmarkshitinn. Hann ætti að vera frá kl. 9-18 og svo aftur á morgnana frá kl. 18-9. Það er alveg út í hött fyrir almenning og beinlínis villandi að hafa þessar tölur frá kl. 9-9 og frá 18-18. Úrkoman mætti gjarnan líka koma frá kl. 9-18.

Þetta er nú annars meira nöldrið og skal verða langt  til annars slíks!

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Im wunderschönen Monat Mai ...

Það er ekki hægt að hrópa húrra fyrir veðrinu núna. Í Reykjavík var fimm stiga hiti og sólarlaust á hádegi. Hvergi á landinu var hlýrra en átta stig. Á norðanverðu landinu, frá Vestfjörðum til  Austfjarða, var hitinn kringum frostmark og víða snjóél.

Um miðja vikuna á víst að snúast í sunnanátt með rigningu og hlýnar þá allmjög fyrir norðan. En varla er hægt að tala um sérstök hlýindi miðað við síðustu daga í maí.

Og fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu verða umskiptin ekki til bóta. Sæmilegt veður hefur verið hér undanfarið, sól og yfir tíu stiga hiti um hádaginn, en þegar sunnanáttin kemur verður hún skítköld og leiðinleg, hiti verður líklega alltaf undir tíu stigum í Reykjavík. Þar er meðalhiti mánaðarins þó enn 1,4 stig yfir meðallagi. 

Ekki bætir þetta eldgos úr skák með öskufalli víða um land ofan í vorgróðurinn en þá auðvitað mest kringum Kirkjubæjarklaustur sem er einhver sumarbesti staður landsins við eðlilegar kringumstæður.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tunglmynd af gosinu

Hér er Modis gervitunglamynd í sýnilegu ljósi af gosinu í Grímsvötnum frá því kl. 5:10 í morgun. Myndin er af Brunni Veðurstofunnar. Gosmökkurinn var í 15 km hæð skömmu fyrir  hádegi en var kl. 13 fallinn niður í 10 km. Toppurinn er þó enn ofar veðrahvarfa sem voru kl. 12 í tæplega 9 km hæð yfir Keflavík en kringum 7,5 km yfir Egilsstöðum.  Myndin er í efra fylgiskjalinu en hið neðra er hið venjulega um gang veðurmála í Reykjavik og Akureyri og víðar.  

Snjór er nú nokkur fyrir norðan og austan. Í gær var mest snjódýpt 21 cm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Þaðan hafa ekki borist upplýsingar í dag en mest snjódýpt í morgun voru 12 cm við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og 10 cm á  Ólafsfirði. Snjór festist í þessu kasti alveg frá Ísafjarðardjúpi til Austfjarða við ströndina og sums staðar norðaustanlands líka í innsveitum. Ekki varð þó alhvítt á Akureyri. 

Kuldinn sjálfur hefur ekki verið sérlega mikill. Meðalhitinn á Akureyri þ. 20. var þó nálægt því kaldasta sem mælst hefur frá 1949 á þeim degi. En lágmarkshiti alls staðar er langt frá metum. 

Í Reykjavík er úrkoman nú þegar komin 27% yfir meðaltali alls maímánaðar. Langmest munaði um úrkomuna að morgni þess fyrsta sem var 39 mm og féll að mestu daginn áður.

Á Skjaldþinsstöðum í Vopnafirði er úrkoman orðin meira en fjórföld miðað við meðallag þeirra ára sem mælt hefur verið,  frá 1995.  Úrkoman er þar nú rétt  um  300 mm og er það ekki aðeins mesta úrkoma í maí sem mælst hefur á Skjaldþinsstöðum heldur miklu meira en nokkru sinni hefur mælst í maí á veðurstöðvum við Vopnafjörð allt frá 1931. Á þremur dögum féllu þarna 228 mm.

Á Dalatanga er úrkoman vel tvöföld miðað við meðallagið 1961-1990. Þar hefur nokkrum sinnum mælst dálitið meiri úrkoma í öllum maí. En einn þriðji er enn eftir af mánuðinum. 

Annars hefur ekki verið úrkomusamt það sem af er mánaðar víðast hvar á landinu.

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kuldakast með bravúr

Meðalhitinn í maí er enn þá um það bil tvö stig yfir meðallagi, bæði fyrir sunnan og norðan. 

Menn tala mikið um kuldakastið sem nú er byrja. En enginn minnist á þau sjaldgæfu hlýindi sem voru framan af mánuðinum. 

Það óvenjulega við þennan mánuð er einmitt þessi hlýindi sem eiga sér fáar hliðstæður  í Reykjavík en ekki kuldakastið sem framundan er hvað kuldann snertir. Hann verður bara fremur hversdagslegur en hlýindin voru mjög sjaldgæfur viðburður.

Hið sama má þó líka segja um úrkomuna á Vopnafirði síðasta sólarhringinn. Í morgun var sólarhringsúrkoman 118,0 mm á Skjaldþingsstöðum.  Aldrei hefur fallið eins mikil sólarhrinhgsúrkoma í maí á þessu svæði og reyndar víðast hvar á landinu.

Aðeins í fimm maímánuðum hefur, að ég held, mælst meiri sólarhringsúrkoma á landinu í maí, mest 147,0 mm á Kvískerjum 1973 þann sextánda.

Og enn rignir í Vopnafirði. Frá klukkan 9 til 18 féllu 50,2 mm.

Þannig ætlar sem sagt kuldakastið að byrja. 

Með bravúr!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Köldustu júnímánuðir

1882 (5,8) Þetta er talinn kaldasti júní á öllu landinu, 2,3 stig undir meðallaginu 1961-1990. Hann var þó fyrst og fremst kaldur fyrir norðan, en líka við Breiðafjörð og á Ströndum.  Á þessu svæði var hann kaldasti júní sem þekkist, en á svæðinu frá sunnanveðrum austfjörðum til suðvesturlands var hann ekki alveg sá kaldasti. Kuldinn fyrir norðan við sjónn var með hreinum ólíkindum. Í Grímsey var hitinn eitt til tvö stig um hádaginn fyrstu fimm dagana en næstu fimm daga um eða undir frostmarki og frost var kvölds og morgna alveg fram í miðjan mánuð og stundum snjóaði.  Eftir miðjan mánuð komu fjórir skammlausir dagar og var hitinn jafnvel tólf stig í eyjunni þ. 19. kl. 14. Í Stykkishólmi voru næturfrost öðru hvoru fram í miðjan mánuð og snjóaði jafnvel stöku sinnum. Þann 10. var þar eins stigs hiti kl. 14 og hámarkshiti 2,2 stig. Ofurlítið hlýnaði þar líka um tíma eftir miðjan mánuð eins og í Grímsey. Tíu til þrettán stiga hámarkshiti var í Hólminum dagana 18. til 20. En von bráðar kom aftur mikið kuldakast og var jörð öll alhvít á norðurlandi á Jónsmessu. Ekki bætti úr skák að júníkuldarnir fyrir norðan  héldu áfram í júlí og ágúst sem einnig slógu öll kuldamet norðanlands og á þetta sumar þar sér enga hliðstæðu. Sérstaklega var kalt við sjóinn. Aftur á móti var tiltölulega mildara inn til landsins og á Grímsstöðum á Fjöllum var þetta ekki kaldasti júní, meðalhitinn var  5,1 stig. (Þetta var reyndar eini júní sem mældur var á staðnum á 19. öldinni). Frá þeim 25. var þokkalega hlýtt á suður og vesturlandi til mánaðarloka en svalviðri voru oftast fyrir norðan og austan. Úrkoma var fremur lítil á suður og vesturlandi í þessum mánuði en úrkomusamt fyrir norðan og austan. Hitinn komst mest í 20,9 stig á Grímsstöðum. Kaldast varð -5,7 á Siglufirði.

Mikill hafís var við landið. Hann lá frá Straumnesi og svo austur um og allt að Breiðamerkursandi. Sérstaklega var ísinn mikill við Austfirði en hann var lausari í sér fyrir norðan. Seint í mánuðinum losnaði ísinn frá Austur-Skaftafellssýslu og rak svo smátt og smátt vestur og suður. Þessi mikli hafís hefur haft sitt að segja um kuldann fyrir norðan en á suðurlandi var miklu mildara og mismunur milli landshluta óvenjuega mikill. Þann 20. febrúar 1883 lýsti Norðanfari á Akureyri svo veðurfarinu í júní 1882.   

Jún 1.-2. norðan hægur með þokulopti. 3. kyrrt og loptbert. 4.-11. norðan, opt austlægur, þjetthvass með þokulopti. 12. sunnan gola lítil og heiðríkt. 13. norðan hægur og heiðríkt. 14.- 15. norðan hægur og þokufullt. 16. -19. sunnan hægur, skýjað. 20. austan þjetthvass; þykkt lopt. 21. Norðaustan hvass með krapaskúrum. 22. til 28. norðan hægur með þokulopti; stundum skúrir. 29. kyrrt og skýjað. 30. sunnan hægur, skýjað. 3. daga af mánuðinum var frost, en 27 daga hiti. Mest frost að kvöldi hins 11.  2° C. Mestur hiti um hádegi hinn 30. 18° C.

Meðalhiti þessa mánaðar: 

jun_1882_1086200.gif

1885 (6,1) Ekki var kalt fyrsta daginn. Þá fór hitinn í Reykjavík í 10,6 stig. En næsta dag skall á hvöss norðanátt með feikilegum kulda. Þann sjötta mældist mesta frost sem mælst hefur í Reykjavík í júní, -2,4 stig (-2,0° þ. 5,) en næturfrost voru  þar allar nætur frá þeim þriðja til sjötta. Hámarksihiti var aðeins fimm til sjö stig dagana 2.-9. Frost voru mikil um nær allt land þessa daga, t.d. -3,3 stig í Hreppunum og mest -5,2 á Raufarhöfn sem er kuldamet þar í júní. Frostdagar urðu sjö í mánuðinum á Eyrarbakka og í Hreppunum. 1885_6_850_1086701.pngÁ síðar talda staðnum og í Vestmannaeyjum er þetta kaldasti júní sem mælst hefur. Ekki var mælt á þessum stöðum árin 1851 og 1867 þegar kaldast varð í Reykjavík en í Stykkishólmi var 1882 auðvitað kaldastur júnímánaða. Víða snjóaði og það jafnvel í Reykjavík þó ekki hafi snjóinn þar fest. Nokkrir hlýir dagar komu um miðjan mánuð og fór hitinn í 21 á Teigarhorni þ. 15. en svo kólnaði aftur. Síðustu vikuna voru þó suðlægar áttir með rigningu sunnanlands en  fremur svölu veðri  þar en fyrir austan var hlýtt og komst hitinn í 22,9 stig á Teigarhorni þ. 27. Í Reykjavík varð aldrei hlýrra en 12,5 stig  og  hefur mesti júníhiti þar aðeins einu sinni verið lægri, 12,2 stig, árið áður. Þrátt fyrir kuldann var ekki teljandi hafís við landið og tálmaði hann ekki siglingum. Í hafinu fyrir norðaustan land var einnig lítill ís. Kuldanæðingar héldu áfram alveg fram í júlí. Í mánaðarlok var enn allvíða ekki leyst snjó af túnum á austurlandi og frost og snjóar öðru hvoru og eins í Þingeyjarsýslum.  Á vesturlandi kól tún jafnóðum af af þeim leysti.  Kortið sýnir hæð 850 hPa flatarins í mánuðinum. Jónassen lýsti veðrinu í höfuðstaðnum í Ísafoldarblöðum: 

Eptir að norðanáttin hætti 30. f. m. hefir stilling verið á veðri með hlýindum og síðustu dagana með hægri lognrigningu af suðri (31.1.). Í dag 2. er hann aptur genginn til norðurs, bálhvass til djúpanna, hægri hjer innfjarðar. (3. júní) - Þessa vikuna hetir haldizt sama norðanáttin með sífelldum kulda og náttfrosti; aðfaranóttina h. 8. gjörði hjer alhvítt seinni part nætur og haglhryðjur voru um morguninn; Esjan var alhvít, rjett eins og um hávetur. Í dag bjart sólskinsveður, logn hjer, norðan til djúpanna. Loptþyngdarmælir stendur hátt. (10.júní) - Um kveldið hinn 9. gekk veður til landsunnanáttar (Sa) og hefir verið við sömu átt þessa viku, optast hvass og með mikilli úrkomu dag og nótt, einkum var úrhellisrigning kveldið 13. Við og við hefir hann gengið í vestur-útnorður (Sv) með haglhryðjum; kalsi hefir verið mikill í loptinu. í dag Landsunnan (Sa) hvass með regni. (17.júní). - Alla vikuna hefir hann verið við norðanátt, optast hægur og bjartur, 21. gekk hann til landssuðurs (Sa) með regni; aðfaranótt h. 22. snjóaði í Esjuna og var hjer hvass fyrri part dags á vestan útnorðan, logn að kveldi. Í  dag 23, norðvesan, hvass, dimmur; ýrði regn úr lopti stutta stund fyrri part dags. (24. júni) - Umliðna viku hefir optast verið við sunnan átt mqð talsverðri úrkomu en hægð á veðri, suddarigning. Í dag hægur á sunnan með sudda, dimmur mjög í morgun. (1. júlí). 

1892 (6,2) Þetta er annar kaldasti júní í Grímsey og þriðji kaldasti á Akureyri en sá allra kaldasti á Teigarhorni við Berufjörð. Hafís hafði verið mikill um vorið, ekki síst við austfirði og fór hann ekki af Berufirði fyrr en 8. júní, nokkru síðar af Eskifirði en ekki fyrr en þ. 24. af Seyðisfirði. Kuldarnir voru miklir, mestir -3,8 stig í Grímsey þ. 1. og sama frost mældist einhvern daginn á Raufarhöfn. 1892_6_500.pngVarla hlánaði í Grímsey fyrstu fimm dagana og sums staðar snjóaði. Síðan snérist til suðaustanáttar og hlýnaði nokkuð en austan eða norðaustanátt varð á ný aftur algengust með kuldum fyrir norðan en björtu veðri og sæmilega hlýju fyrir sunnan. Svo ótrúlegt sem það hljómar voru frostdagar 22 í Grímsey og 19 á Raufarhöfn, 12 á Borðeyri og 9 á Teigarhorni. Hlýjast varð 19,2 stig á Akureyri. Merkilegt nokk fraus ekki á Akureyri en næstum því alls staðar annars staðar. Úrkoma var lítil nema á austfjörðum þar sem hún var nokkur í byrjun og enda mánaðarins en annars var þar alveg þurrt meginhluta mánaðarðarins. Á undan þessum mánuði fór sjöundi kaldasti maí. Kortið er af  meðallagi 500 hPa flatarins.  Svona var veðurlagið í Reykjavík í lýsingu Jónassens í nokkrum blöðum Ísafoldar:

Hefir verið á norðan en hægur undanfarna daga, lítið eitt hlýrri í  gær og í dag. (4.júní) - Hinn 4. var hjer úrtæna, fagurt veður; logn. og dimmur með regnskúrum h. 5. Hvass á austan fyrir hádegi h. 6. gekk svo til landsuðurs með regnskúrum og h. 7. í suður, dimmur og vætulegur. Í dag (8) rjett logn, dimmur af suðri. Hlýindi nokkur síðustu dagana. (8. júní). - Hinn 8. var hjer bjart og fagurt veður h. 9. þoku-suddi fram undir hádegi er birti  upp; suðvestankuldi, bjart veður fyrri part dags h .10. dimmur síðari partinn með úða. Í dag (11.) bjart veður; hvass á norðan í morgun. (11. júní). - Undanfarua daga hægð á veðri, kom væta úr lopti h. 14. og var þá suddarigning allan daginn af suðvestri. Í dag (15.) hægur á suðvestan. (15.júní) - Hægt og stillt veður undanfarna daga með talsverðum hlýindum og loptþyngdamælir hefur varla haggazt. (18. júni) - Sama hægð á veðri, opt rjett logn, sje gola, kemur hún úr vestri; í dag (22.) hægur á sunnan, sudda-rigning í nótt. (22.júní ) - Vestan, hægur, dimmur h. 22. bjartur á vestan h.23. og einnig hinn 24.  og 25. (25. júní) - Ekki komu  meiri veðurlýsingar í blaðinu um júní.

Hér verður að minnast á júní 1896 sem er sá ellefti kaldasti (7,0) en þá mældist sólarhringsúrkoman þ. 13. á Teigarhorni 108,1 mm sem þá var mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hafði á landinu og gerði mánuðinn þar að sjötta úrkomumesta júní (frá 1873).  

1907 (6,3) Þetta er kaldasti júní á 20. öld. 1907_6_500_1086709.pngAldrei hefur mælst kaldari júní á Úthéraði, þar sem mælt hefur verið frá 1898, 4,3 stig (meðallag 1961-1990 er 7,8) og ekki á Seyðisfirði frá 1907, 5,5, stig (meðalhiti 7,9). Á Teigarhorni er þetta þriðji kaldasti júni. Ekki var kuldinn í Grímsey þó alveg jafn napur  og í köldustu júnímánuðum nítjándu aldar. Þar var að minnsta kosti aldrei frost kl. 14 síðdegis eftir íslenskum miðtíma þó næturfrost hafi verið hverja nótt til hins 11. Kaldast á landinu varð -6,1 stig á Stóranúpi í Hreppum en hlýjast 18,0 á Grímsstöðum á Fjöllum.  Austlægar eða norðaustlægar áttir voru ríkjandi og mjög var þurrviðrasamt nema við suðurströndina. Aðeins fjórir úrkomudagar voru í Stykkishólmi þar sem þetta er fimmti úrkomuminnsti júní. Úrkomudagar voru þrír á Teigarhorni en 14 í Vestmannaeyjum. Kortið af 500 hPa fletinum í mánuðinum er ekki beint hlýlegt.  

1975 (6,5) Kaldasti júní á síðari áratugum. Svo mikill var kuldinn í upphafi mánaðarins að fyrstu þrjá dagana var sólarhringsmeðalhitinn á Hallormsstað undir frostmarki! Á Akureyri var meðalhitinn þ. annan -0,6 stig og á hádegi var eins stigs frost. Daginn eftir var tveggja stiga frost á hádegi á Raufarhöfn. Í Reykjavík var meðalhitinn dagana 2.-4.  dagshitamet í kulda að meðaltali.  Hæð var yfir Grænlandi og norðaustanátt. Á norður-og austurlandi var nokkur snjókoma eða éljagangur en bjartviðri sunnanlands. Sólskin var mjög mikið í Reykjavík fyrstu sex dagana. Eigi að síður náði hitinn þar þann tíma aldrei tíu stigum fyrr en þ. 6. og þrjár nætur var næturfrost, mest -0,6 stig. Á Hólmi við Reykjavík fór frostið í  -2,5 stig þ. 2. Á Þingvöllum voru sex frostnætur. Frost mældist á öllum stöðvum nema í Vestmannaeyjum, í Mýrdal og vestast á Reykjanesskaga. Kaldast varð -8,8 stig í Sandbúðum á Sprengisandi þ. 1. en í byggð -6,5 stig á Grímsstöðum þ. 4. Snjó festi á stöku stað í byggð fyrir norðan og austan og auk þess á hálendinu. Til dæmis var snjódýptin á Dalatanga 5 cm þ. 1. Hiti komst hvergi í tíu stig fyrstu fimm dagana á landinu og er það sannarlega sjaldgæft þegar komið er fram í júní. 

1975_6_500.pngEftir þetta mikla kuldakast hlýnaði talsvert í nokkra daga með suðvestlægri átt og fór hitinn í 21 stig í Vopnafirði þ. 10. Þann tólfta kólnaði á ný en þó ekkert í líkingu við fyrstu vikuna en kuldatíð var þó alveg til hins 21. Ekki var mikil úrkoma en sólarlítið. Loks hlýnaði hinn 21. með sunnanátt sem hélst að mestu til mánaðarloka. Þann 27. komst hitinn í 20-21 sums staðar. Sólarlítið var í Reykjavík eftir fyrstu vikuna en um miðjan mánuð komu nokkrir svalir sólskinsdagar á vesturlandi en fáir eftir það. Einn og einn sólskinsdagur á stangli var annars staðar á landinu í mánuðinum en nokkrir komu síðustu dagana á norðausturlandi. Á sunnan  og vestanverðu landinu voru rigningar talsverðar síðustu tíu dagana eða svo eftir að fór að hlýna. Úrkomudagar voru óvenju margir í flestum landshlutum og úrkomumagn var yfirleitt í meira lagi, einkum á suður-og vesturlandi. Vindar milli norðurs og suðvesturs og algengastir eins og kortið gefur til kynna. 

Met lágmarkshiti í júní mældist mjög víða. Nefna má -3,9 stig á Hornbjargsviti þ. 1.  og -3,0 á Gjögri og -4,8 á Hólum í Hjaltadal sama dag; -6,5 á Grímsstöðum þ. 4. og -3,5 sama dag, -0,8 í Vík í Mýrdal þ. 2. og -2,4 á Sámsstöðum og -3,0 á Eyrarbakka þann sama dag.  

Í þessum kalda mánuði kom Svíakóngur í heimsókn þ. 10. og millilandaferjan Smyrill lagðist í fyrsta sinn að bryggju á Seyðisfirði. Í frægum fótboltaleik sigruðu Íslendingar A-Þjóðverja 2:1 á Laugardagsvellinum þ. 5. Meðan leikurinn fór fram var hitinn 4-5 stig og hefur það kannski haft  sitt að segja um úrslitin! Sumarhitinn á þessum árum sunnanlands var hreinlega annar heimur en sá sem við höfum vanist síðasta áratug.

Meðalhiti þessa kaldasta júnímánaðar í minni núlifandi manna:

jun_1975.gif

Í júní 1978 var óstöðug vestlæg átt ríkjandi og var mánuðrinn enn kaldari í Reykjavík en 1975, meðalhiti 7,8 stig, sá kaldasti þar síðan 1922, en fyrir norðan og austan var júní 1978 miklu mildari en 1975. Þetta er því ekki einn af köldustu júnímánuðum á landsvísu. Hámarkshiti í höfuðborginni var aðeins 13,2 stig sem er í lægsta lagi.  

1886 (6,6) HafÍsinn var ekki alveg farinn fyrr en vika var af mánuðinum sem telst sá sjötti kaldasti. Víða á vötnum nyrðra var enn lagnaðarís í mánaðarbyrjun. Jörð var  mjög kalin um margar sveitir.  Frost og fjúk voru á norður og vesturlandi allan mánuðinn þó úr þeim drægi er líða tók á hann. 1886_6_850.pngÚrkoma var mikil, sérstaklega í fyrri helmingi mánaðarins. Í Vestmanneyjum voru 24 úrkomudagar. Mikil rigning var á austfjörðum kringum þ. 10. og síðustu dagana í Vestmannaeyjum en þá snjóaði í Grímsey eins og gert hafði þar annað slagið og hélt áfram fram í miðjan mánuð. Veður var oft umhleypingasamt og rysjótt. Loftþrýstingur var lágur yfir landinu eins og sést á kortinu sem sýnir hæð 850 hPa flatarins. Eina hlýndagusu gerði dagana 15.-20. en þó aðeins á austurlandi en þá var hryssingsleg suðvestanátt í höfuðstaðnum. Fór hitinn mest í 22,5 stig á Teigarhorni og yfir tuttugu stig þar í fjóra daga. Ekki gætti hitanna verulega fyrir norðan því á Akureyri fór hitinn aldrei hærra en í 19 stig. Kaldast í mánuðinum var -3,1 á Borðeyri.  Jónassen fjallaði um  veðrið í nokkrum tölublöðum Ísafoldar:  

Í dag 1. júní er hægur vestan kaldi, bjart veður. (2. júní) - Þessa vikuna hefir optast verið við sunnanátt og rignt mikið með köflum; aðfaranótt h. 7. snjóaði þó efst í Esjuna (útsynningur í lopti). Siðustu dagana hefir hlýnað mikið í veðri og jörð tekið miklum framförum. Hinn 7.og 8. hægur landsynningur, allbjartur. (9. júní) - Fyrri part vikunnar var hjer sunnan- og austanátt með talsverðri rigninug ; 12. gekk hann i utanátt og hefir nú síðustu dagana verið á norðan. Í dag (15.) bjart norðanveður, hvass til djúpanna og hvass hjer eptir hádegi. (16. júní) - Alla vikuna hefir verið sunnanátt (ýmist suðaustan eða suðvestan), og hefir framan af vikunni rignt mikið með köflum, einkum sunnud. 20.; hafi tekið fyrir sól, hefir einlægur kalsi verið í lopti; síðustu dagana hefir verið útsynningur með brimhroða til sjávarins og ónotalegum kalsa. Í dag 22. hægur sunnan-útsunnan (sv) með brimhroða til sjávarins, dimmur upp yfir og kaldur, með skúrum. (23. júní) - Framan af vikunni var hægt norðanveður, bjartur en kaldur á hverri nóttu; sfðustu dagana hefir verið logn og í  gær gekk hann til S með dimmviðri og ákafl. mikilli rigningu aðfaranótt h. 29. Í dag 29. dimmur á sunnan með rigningarskúrum. (30. júní).

1867 (6,6) Næst kaldasti júní í Reykjavík er sagður vera árið 1867 þegar meðalhitinn var talinn 6,4 stig en 7,6 í Stykkishólmi. Dálítið er samt erfitt að trúa því að svona mikilu kaldara hafi verið í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi og er þetta eina dæmið um slíkt í júní en þetta ár voru mælingarnar í Reykjavík víst ekki sérstaklega góðar. Aðeins var mælt í Reykjavík og Stykkishólmi. Hafíshroði var að flækjast fram í júní á Húnaflóa, Skagafirði og Eyjafirði, síðast þann 22. inni á Eyjafjirði. Kaldar norðlægar eða norðaustlægar áttir voru fram undir miðjan mánuð með engri úrkomu í Stykkishólmi en eftir það sunnanátt með sæmilegum hlýindum og talsverðri rigningu.  

Á áttunda tug nítjándu aldar komu þrír mjög kaldir júnímánuðir í röð frá 1875-1877 en samkvæmt mælingum á þeim veðurstöðvum sem þá og síðar voru í gangi, nær þó aðeins einn þeirra, 1877, að vera einn af hinum tíu köldustu.  

1877 (6,8) Mánuðurinn hófst með afskaplega kaldri norðanátt. Hiti var um og undir frostmarki í Grímsey um hádaginn fyrstu átta dagana. Stundum snjóaði. Kaldast á landinu varð einmitt í Grímsey, ð12,2 stig í Grímsey þann fyrsta. Frostdagar voru 7 í eyjunni.  Þessa daga var fremur bjart yfir vestanlands þó kalt væri. Frá þeim ellefta hlýnaði talsvert með suðlægum og síðar vestlægum og austlægum áttum. Komst hámarkshiti þá í Stykkishólmi flesta daga upp í tíu stig eða meira til mánaðarloka og síðustu fjórir dagarnir voru vel hlýir. Eftir sæmileg hlýindi í viku í Grímsey frá þ. 11. varð þar hálf kalt það sem eftir var mánaðar en nokkru skárra var á Teigarhorni. Á þeim sjö stöðvum sem mældu hámarkshita varð hann mestur 16,0 stig á Teigarhorni þ. 18 og einnig 16,0 í Hafnarfirði einhvern tíma í mánuðinum. Seinni helming mánaðarins var oft fremur bjart yfir á vesturlandi. Hafíshroði hafði verið fyrir norðurlandi um vorið en rak frá landi í byrjun júní. Úrkoma var kringum meðallag í Stykkishómi en lítil á Teigarhorni og þar voru úrkomudagar aðeins fimm. Ofsaveður gerði þ. 12. fyrir sunnan og vestan.

1973 (6,9) Júní þessi var sá fyrsti af þremur afar köldum júnímánuðum, ekki síst á suður og vesturlandi, sem komu, auk þessa mánaðar, árin 1975 og 1978. Þeir voru þó á margan hátt ólíkir. Norðanátt var yfirgnæfandi í þessum mánuði, norðægar og vestlægar áttir 1975 en vestlægar 1978. Þegar þessi mánuður kom var hann á suðurlandi víða sá kaldasti síðan 1922 (og einnig á landinu í heild  fyrir utan 1952) en fyrir norðan var kaldara í júní 1952 og svipað 1946. 1973_6_thick_an.pngFrægt kuldakast kom þann 10.  um hvítasunnuna og hefur það verið kallað „hvítasunnuhretið". Hitinn fyrir norðan á hádegi var eitt til tvö stig dagana 11.-12. Mest frost sem mælt hefur verið á Íslandi í júní mældist þ. 11. í Nýjabæ á hálendinu sunnan Eyjafjarðardals, -10,5 stig. Daginn áður mældist mesta frost sem mælst hefur í byggð í júní, -7,7 á Vöglum í Fnjóskadal. Frost mældist nær því alls staðar. Nokkur kuldamet fyrir júní voru sett, svo sem -1,9 stig á Dalatanga þ. 1., -3,7 á Hvanneyri og -6,9 á Hveravöllum þ. 11. en -6,3 stig á Staðarhóli, -6,0 á Brú á Jökuldal, -4,5 á Egilsstöðum og -4,5 stig á Hallormsstað þ. 10. Það sýnir kuldana þessa daga að hiti náði hvergi á landinu tíu stigum daganna 10.-12. um hádaginn þegar þessi næturfrost voru. Snjókoma var allvíða og jafnvel sunnanlands þó þar festi ekki snjóinn. Jörð varð aftur á móti alhvít á Sauðárkróki, Reyðará og Dalatanga. En auðvitað sáu sumir þennan vorkulda fyrir! Meðalhitinn í Reykjavík þ. 11. var aðeins 3,8 stig og hámarkið 6,8 stig og var þó mikið sólskin. Upp úr miðjum mánuði hlýnaði með sunnanátt og komst hitinn í 20,0 stig á Akureyri þ. 16. en hvergi annars staðar náði hitinn tuttugu stigum í þessum mánuði. Þolanlega  hlýtt var svo til mánaðarloka en stundum úrkomusamt og rysjótt veður. Kortið sýnir frávik á þykktinni í þessum mánuði en því kaldara verður því minni sem hún er.  

Nixon forseti Bandaríkjanna og Pompidou forseti Frakklands funduðu í Reykjavík í byrjun mánaðarins í glampandi sól en miklum kulda. Heimaeyjargosinu lauk þ. 26.

1952 (7,0) Þetta er kaldasti júní sem mælst hefur Grímsstöðum á Fjöllum frá upphafi mælinga 1907, 2,5 stig, og kaldari en hinn kaldi júní 1907 og miklu kaldari en 1882! Á Raufarhöfn var þetta einnig kaldasti júni sem þar hefur mælst 1885-1898 og frá 1921, 3,2 stig. Fyrstu vikuna var nánast vetrarveður. Él voru fyrir norðan og jafnvel einnig sunnanlands. Að morgni hins annars var snjódýpt 2 cm á Stórhöfða. Er það eina dæmið um snjó á jörðu að morgni á suðurlandi í júní frá stofnun Veðurstofunar 1920. Frostið fór niður í -5,9 stig í Möðrudal þ. 2. 1952_6_850.pngKuldamet fyrir júní voru sett  á Hólum í Hornafirði (frá 1924) -1,5 stig þ. 2. og Fagurhólsmýri -0,6 þ. 3. (1903-1912 og frá 1935). Snjó festi fyrir norðan og var hann 24 cm á Grímsstöðum mest alla fyrstu vikuna.  Hitinn fór ekki í tíu stig í Reykjavík fyrr en þ. 9. þrátt fyrir það að margir daganna hafi verið afar sólríkir. Skammvinna sunnanátt með hlýrra veðri gerði þ. 8. en dagana 12. til 22. var stöðug norðanátt með dimmviðri á norðurlandi og stundum snjókomu. Bjart var þá á suður og vesturlandi og fór hitinn þar sums staðar í 17-18 stig en mest 19,5 í Síðumúla þ. 22. (Glaðasólskin var í Reykjavík 17. júní og 15 stiga hiti og  liggur við að bloggarinn muni eftir stemningunni!). Eftir það var nokkur lægðagagnur með rigningu  víða en þokkalegum hita en loks  var aftur norðanátt síðustu dagana og bjart syðra en dimmviðri  og kuldi nyrðra.  Í heild var þetta ekta norðanáttamánaður með lægðum milli Íslands og Noregs en  hæð yfir Grænlandi og kortið sýnir stöðu mála í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð. Sunnanlands var mikið sólskin í þessum mánuði eins og verða vill  við þessar aðstæður. Í Reykjavík er þetta fimmti sólríkasti júní. Sums staðar á suðurlandsundurlendi komst hitinn í þessari miklu sól næstum því upp í meðallagið 1931-1960. Á Sámsstöðum var meðalhitinn t.d. 9,9 stig og þar hefur ekki mælst þurrari júní, 12,2 mm. Úrkoman í Grindavik var aðeins 6,9 mm. Gróðri fór lítið fram vegna kulda og þurrka. Á norðausturlandi voru hagar varla orðnir grænir í lok mánaðarins.

Síðasta daginn var Ásgeir Ásgeirsson kosinn forseti Íslands.  

Í  Reykjavík var kaldasti júní síðan einhvers konar mælingar þar hófust árið 1851 þegar meðalhitinn var talin 6,3 stig en var 5,9 í Stykkishólmi, sá næst kaldasti þar.  En á Akureyri var hitinn þá 6,2  sem er nær tveimur stigum mildara en 1882. Úrkoman í Reykjavík var 28 mm. Í Stykkishólmi fór hitinn ekki yfir tíu stig fyrr en þann 28. Ljóst er að Þetta er einhver allra kaldasti júní. 

Snemma á nítjándu öld eru til nokkrar athuganir frá ýmsum stöðum á landinu sem hafa verið áætlaðar yfir til Stykkishólms. Eftir þeim virðist sem júnímánuðir árin 1811  og 1817 hafi verið  nokkru mildari en júní 1882. Mælingarnar voru á Akureyri eða við Eyjafjörð árið 1811 og voru gerðar að morgni, um miðjan dag og að kveldi. Fyrstu sex dagana var óskaplega kalt. Um morguninn þ. 5. var frostið -6,5 stig sem slær nú allt út allan júníkulda sem mælst hefur á Akureyri frá 1882 þegar danska veðurstofan hóf þar athuganir.  Um miðjan dag þ. 2. var frostið -0,3 stig og -1,9 stig þ. 6. Þetta eru kannski ótrúlegar tölur en í ljósi júní 1975 eru þær alls ekki svo vitlausar. Hægur vindur var af norðri eða norðaustri og getið um hríð og þoku. Um miðjan  mánuð var hitinn orðinn þokkalegur en hlýindi voru síðustu vikuna. Þann 28. var hitinn tuttugu stig um miðjan dag en 17 að morgni. Meðalhitinn hefur verið reiknaður 5,9 stig fyrir Akureyri þennan mánuð, sami hiti og 1952 en hafa verður í huga hvað þetta eru gamlar mælingar og öðru vísi en nú á dögum. En kaldur hefur þessi júní sannarlega verið.        

Fyrra fylgiskjali er hið venjulega með tölum yfir veðurstöðvarnar í hverjum þeim mánuði sem fjallað er um en hitt sýnir  ástand mála í Reykjavik og Akureyri í júní 1885, 1952 og 1975.

Skýringar.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumarið hörfar

Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er maí er nú 8,7 stig sem er 3,6  stig yfir meðallagi.  Sjaldgæft  mjög er að  svo hlýtt sé þegar ekki er lengra fram komið í mánuðinn en ekki held ég þó að þetta  sé  alveg einsdæmi. Ef þetta frávik héldi sér til mánaðarloka yrði meðalhinn kringum tíu stig og yrði maí sá hlýjasti maí sem mælst hefði í Reykjavík. Síðustu daga hefur ekki verið neitt ''vorveður'' heldur hreinlega sumarblíða sem gæti sómst sér um hásumarið á suðvesturlandi.

Það er þess vegna ekki rétt að borgarbúar hafi  lengi þurft að bíða eftir sumrinu að þessu sinni. Þvert á móti hefur það komið alveg óvenjulega snemma. Það er alls ekki venjan, eins og áður segir, að svona veðurblíða sé svo snemma í maí  eins og  verið hefur eftir  fyrsta daginn. Það er heldur ekki venjan að sé neitt sérstakt sumarveður í apríl á suðurlandi  en hann var  þó reyndar hagstæður fyrir vorkomuna um land allt þrátt fyrir snjókomu síðasta daginn í Reykjavík og næstum því hvergi annars staðar. Sá atburður var hreint ekki  til vitnis um almennan og alvarlegan skort á vori.  

Tvö dagshitamet að sólarhringsmeðalhita hafa komið undanfarna daga í Reykjavík,  þ. 8. og 10. Þetta má sjá í fylgiskjalinu. Hámarkshitinn í bænum hefur ekki verið lægri en þrettán stig í fimm daga samfellt fyrr en í dag en þá var hann aðeins 7,8 stig. Samt var mikið sólskin. 

En það er alls ekki sami sumarabragurinn á veðrinu og áður.

Þessum góða sumarhlýindakafla sem verið hefur undanfarið er sem sagt að ljúka í bili. Sumarið er því ekki neitt að ganga í garð næstu daga heldur er það beinlínis að hörfa til baka.  Það á víst að  koma vestanátt. Og bráðlega gætu jafnvel komið fjandans kuldar.

Fátt er ömurlegra í maí en kuldar með frosti og snjókomu fyrir norðan en mikilli sól fyrir sunnan. 

Það er ekki sumar. Það er vorhret.  

Fylgiskjalið er fylgið sér að vakta veðrið í Reykjavík og Akureyri og reyndar á öllu landinu bláa.

Viðbót 14.maí. Nú á hádegi er kafþykk og svöl vestanmolla í Reykjavík með 5,8 stiga hita. Það er nákvæmlega þetta sem ég átti við þegar ég segi hér að ofan að hinum góða sumarkafla sé lokið, honum lauk nánar tiltekið sama daginn og þessi frétt birtist, en nú hörfi sumarið um tíma að minnsta kosti. Fréttin er sem sagt afar villandi eins  og mjög oft er með fréttir í fjölmiðlum um veður. Það er t.d. algengt að þegar hitabylgjur eða sérstök góðviðri hafa ríkt, en slíkt varir aldrei lengi, taka fjölmiðlar oft ekki við sér fyrr en það er afstaðið. Þá  loks koma fréttir um það og láta þá eins og góðviðrið ríki enn og verði svo bara áfram! Ég er mjög undrandi á þessu. 


mbl.is Sólríkir dagar framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Köldustu maímánuðir

1979 (0,9) Þetta er ef til vill kaldasti maí sem mælst hefur á landinu og var 4,3 stig undir meðallaginu 1961-1990. Hann var svo kaldur að hann verður að teljast viðundur. Á einhverjum vorbesta stað á landinu, Akureyri, var meðalhitinn undir frostmarki, -0,3 stig. Reyndar var  meðalhitinn undir frostmarki á öllum stöðvum frá Ísafjarðardjúpi að Neskaupstað og auk þess á Galtarvita, Búðardal og Reykhólum. Á Raufarhöfn var hann -1,9 stig og er það lægsti meðalhiti sem mælst hefur á Íslandi í maí á láglendi. Enn kaldara var þó í Möðrudal, -4,3 stig (7 og hálft stig undir meðallagi) og -4,1 á Grímsstöðum en á Hveravöllum var meðalhitinn -4,7 stig. 1979_5_thick_an.pngÁ nokkrum stöðum, jafnvel á suðvesturlandi, komst hitinn aldrei í tíu stig. Byrjaði mánuðurinn reyndar á  því að setja maíkuldamet fyrir lágmarkshita í Vík í Myrdal, -6,2 stig (frá 1926). Auk þess sólarhringskuldamet á Akureyri, -6,0 stig og er það næst kaldasti maídagur þar frá 1949 (metið er -6,2 þ. 3. 1982 í   einhverju mesta kuldakasti sem komið hefur í maí). Fyrstu viku mánaðarins var meðalhiti hvers dags undir frostmarki í Reykjavík en fyrstu þrjár vikurnar á Hallormsstað! Ekki hlánaði allan sólarhringinn í höfuðborginni fyrstu tvo dagana og heldur ekki þ. 4. þó þann dag hafi sólin skinið allan liðlangan daginn og þ. 3. var hámarkshitinn 0,2 stig. Hins vegar var alveg glampandi sólskin fyrstu tíu dagana.

Fyrstu þrjár vikur mánaðarins eða meira mátti sem sagt heita eitt samfellt hret. En inni í þessu langa hreti komu svo ýmis aukahret. Þann 12. kom slæmt kast með snjókomu fyrir norðan en slyddu fyrir sunnan. Hitinn á landinu var næstu tvo daga 5 ½ stig undir meðallaginu sem þá var miðað við en síðan fór enn kólnandi þó veðrið gengi niður. Hinn 18. var hitinn hvorki meira né minna en 8 ½ stig undir meðallagi og var það kaldasti dagur mánaðarins. Næstu nótt mældust mestu kuldarnir í mánuðinum, -17,0 á Brú á Jökuldal, -16,4 stig á Grímsstöðum, sem er maíkuldamet  þar (frá 1907) og -16,3 stig á Möðrudal. (Þess má geta að tveimur dögum fyrr mældist mesta frost sem mælst hefur nokkru sinni á Hawai, -11 stig á  Mána Kea eldfjallinu). Aldrei hefur mælst jafn mikið frost á landinu svo seint að vori. Meðalhitinn í Reykavík var -0,4 stig þ. 18. og er það síðasta dagsetning að vori sem meðalhiti þar hefur verið undir frostmarki a.m.k. síðan Veðurstofan var stofnuð.

Annað hret kom 22.-24. og króknuðu þá lömb í Skagafirði. Frost var alls 17 daga í Reykjavík og hafa aldrei verið fleiri í maí en þeir voru 30 á Mýri í Bárðardal, Brú  á Jökuldal og Hveravöllum. Fæstir voru frostdagar 14 í Vík í Mýrdal og á Reykjanesvita. Hæsti lágmarkshiti var -5,3 stig á Keflavíkurflugvelli og -5,4 á Reykjanesvita. Á Akureyri setti mánuðurinn hvorki meira né minna en 8 kuldamet fyirr sólarhringsmeðalhita, þar af fjóra daga í röð, 17.-21. 1979_5_500t.gifSnjólag var 42 % á öllu landinu og hefur aldrei verið meira nema 1949. Snjór var annars  í meðallagi á sunnanverðu landinu en mun meiri annars staðar. Aldrei hefur verið talin alhvít jörð kl. 9 að morgni jafn seint að vori í Reykjavík sem þennan mánuð, 2 cm þ. 16. Reyndar var alhvítt aðeins þennan eina dag í borginni en á norðausturlandi var víða alhvítt í kringum 25 daga en 28 á Dalatanga. Éljagangur var meira og minna mest allan mánuðinn á norðaustanverðu landinu. Meðalsnjódýpt á Raufarhöfn var 80 cm og þar var alhvítt í 26 daga. Mesta snjódýptarmæling var hins vegar á Hveravöllum 107 cm að morgni hins 7. Annað kortið sýnir frávik þykktar  yfir landinu sem var að tiltölu það mesta  í mínus á norðurhveli og er þetta ugglaust þunnasti maí sem þekktur er yfir landinu! Meðalþykktin milli 1000 og 500 hPa flatanna á viðmiðunartímabilinu var kringum 5350 metrar. Því meiri sem þessi þykkt er því hlýrra er loftlagið á milli flatanna að meðaltali og samsvara 100 þykktarmetrar um það bil  5 stigum. Hitt kortið sýnir  kuldaloppuna í 500 hPa fletinum, kringum 5 km hæð yfir landinu.    

Eins og af líkum lætur var úrkomusamt á norðausturlandi en þurrt á vesturlandi og einkum á Vestfjörðum. Á Stóra-Botni i Hvalfirði mældist aldrei minni úrkoma í maí þau ár sem þar var mælt (1948-1982) og ekki heldur á Andakílsárvirkjun (frá 1950) eða á Reykhólum þar sem úrkoman var aðeins 0,3 mm og 0,5 á Mjólkárvirkjun inn af Arnarfirði (frá 1960). Allra minnst var úrkoman  þó í Forsæludal í Húnvatnsssýslu, 0,2 mm. Víðar á vesturlandi voru met þurrkar.  Í Stykkishólmi er þetta sjötti þurrasti maí frá 1857. Úrkoma í heild á landinu var dálítið undir meðallagi. Norðan og norðaustanáttir voru ríkjandi í mánuðinum en austanátt var einnig algeng. Stundum var hvasst. Hafís var talsverður úti fyrir og kom að landi við Tjörnes og í Þistilfirði svo höfnin á Raufarhöfn lokaðist alveg og að mestu leyti á Þórshöfn á Langanesi um miðjan mánuð í nokkra daga. Þann 25. voru þó allar hafnir orðnar íslausar. Ekki vantaði að sólríkt væri syðra en það var til lítils í kuldanum og á Akureyri skein sólin líka meira en í meðalári þó mánuðurinn væri undir frostmarki að  meðalhita. Eftir þessa martröð hlýnaði loks mjög snögglega næstsíðasta daginn. Og  þann 31. fór hitinn víðast hvar yfir 10 stig og mældist þá mesti hiti mánaðarins, 14,6 stig á Akureyri. 

Margrét Thatcher varð forsætisráðherra Bretlands snemma í  þessum ólánsmánuði.  Kortið sýnir meðalhita mánaðarins. 

mai_1979_1081328.gif

1866 (1,1, 0,6) Maí 1866 er sá næst kaldasti ef aðeins er miðað við Reykjavík og Stykkishólm en ef líka er miðað við Akureyri og þessar þrjár stöðvar vegnar saman er þetta einfaldlega kaldasti mældi maí á landinu. Og auðvitað sá kaldasti á Akureyri. Þar hefur hitinn verið áætlaður -0,8 stig eftir mælingum á Siglufirði sem voru -1,3 stig. Þess kuldi kom í kjölfar næst kaldasta vetrar (des.-mars) í Stykkishólmi síðan mælingar hófust þó apríl hafi verið þokkalegur að hita.

Hvert kuldakastið kom eftir annað, segir Árbók Reykjavíkur. Að kvöldi hins annars gerði gríðarlega harðan frostakafla af norðaustri, líklega þann mesta sem komið hefur á landinu í maí  síðan farið var að mæla í Stykkishólmi laust fyrir miðja 19. öld. Þann þriðja var frostið þar  7-14 stig, 5-14 stig daginn eftir og 1-10 þann fimmta. Þetta eru mestu frost sem komið hafa í Stykkishólmi í maí. Ekki snjóaði í  Stykkishólmi meðan mestir voru kuldarnir,  en þá var fremur bjart yfir, en hins vegar nokkuð þegar kuldakastið var að skella á og aftur þegar því lauk. Tuttugu stiga frost hefur aldrei mælst á Íslandi í maí. En mér finnst líklegt að hefðu mælingar verið þessa daga á öllum þeim stöðvum sem nú mæla hefði mælst tuttugu stiga frost einhvers staðar á stöðvum þar sem mestan kulda gerir í maí, svo sem á Möðrudal og Hólsfjöllum, í Miðfirði, dölum í Þingeyjarsýslum og jafnvel á útskögum eins og Raufarhöfn. Kuldakast þetta kom á auða jörð í uppsveitum í Árness-og Rangárvallasýslum og olli miklum fjársköðum. Kastið leið hjá þann 6. Eftir það var hiti þolanlegur  um hádaginn í Stykkishólmi, 6-9 stig dagana 13.-16., en sífelld næturfrost. Annað mikið norðaustanveður skall á rétt fyrir hvítasunnu, þann 18. Kom þá blindbylur syðra með svo miklu fannfergi að skaflar tóku víða í klyftir í Reykjavík. Í Mýrdal voru skaflar sums staðar jafnháir húsum. Miklir fjárskaðar urðu einnig í þessu veðri. Í Stykkishólmi hlánaði ekki dagana 18. og 19. og þar snjóaði líka nokkra daga um þetta leyti. Enginn dagur var alveg frostlaus í Stykkishólmi en síðasta daginn komst hitinn þar að deginum i 10,3 stig og varð ekki meiri í mánuðinum. Var þá komin hæg suðvestanátt. Síðasta dag mánaðarins segir Þjóðólfur að mestur hiti í mánuðinum við Landakot í Reykjavík hafi verið 4,7° R  (5,8 C) þ. 16. en mesta frost -8,7° R ( -10,9 C ) þ. 4. Meðaltal allan mánuðinn hafi verið 0,3° R (0,4 C). Veturinn hafði verið með mestu ísavetrum. Skip komst loks inn á Eyjafjörð 22. maí eftir mánaðarhrakninga í ísnum og annað skip komst inn á Siglufjörð.

1888 (1,9) Hafís var við allt norður og austurland þennan mánuð og náði hann reyndar í júní byrjun til Vestmannaeyja þar sem hann fyllti höfnina og var þá íshella  við Dyrhólaey. Ekki kom annar eins hafís við landið fyrr en 1968 en náði þá ekki lengra vestur en að Skeiðarárósi.  Norðankuldar voru í byrjun mánaðar og snjóaði víða þó nokkuð bjart væri yfir syðst á landinu. Komst frostið í 12,2 stig á Stóranúpi og hefur aldrei orðið meira í maí í Hreppunum. Kafaldsbylur var af norðri þ. 7. og var talinn einhver sá mesti sem dæmi voru um á þeim árstíma sunnanlands. Þann 9. dró til sunnanáttar með sæmilegum hlýindum sem spilltust aftur þ. 14. með norðaustanátt í um vikutíma og snjóaði þá nokkuð á austurlandi en rigndi eða snjóaði syðra og vestra. Alvöru hlýindi með sunnanátt komu loks þ. 21. og mældist mesti hiti á landinu 20,1 stig einhvern tíma síðdegis þ. 24. á Teigarhorni. Hellirigning var í höfuðstaðnum dagana 21. og 22., 11-14 mm. Síðustu sex dagana kólnaði á ný með norðaustanátt og var frost meira og minna á landinu nema á suður og vesturlandi þar sem var frostlaust að degi en næturfrost hverja nótt. Stundum snjóaði. Úrkoma var annars  fremur lítil í þessum maí nema í Reykjavík þar sem hún var í kringum meðallag.  

Jónassen afgreiddi veðurfarið í nokkrum Ísafoldarblöðum:

...  Í dag 1. mai er vestanhroði með snjóhryðjum og kaldur. (2. maí) - Alla þessa viku hefur verið norðanvindur, stundum all-hvass, stundum hægur að minnsta kosti að kveldi; snjór hefur fallið talsverður einkum h. 7.; gekk hann til vesturs-útnorðurs og var ofanhríð rjett allan daginn með kulda rjett sem væri á miðþorra. Í dag 8. hægur á norðan bjart og fagurt veður og bræðir sólin nú óðum aptur allan snjóinn. (9. maí) - Framan af vikunni var hæg sunnanátt  með talsverðri hlýju, gekk síðan til vesturs - útsuðurs og var hvass til djúpa, þótt hjer væri logn innfjarðar; hefur síðan verið sama veðurátt, snjóað við og við í fjöll og mikill kalsi. Í dag 15. hjer logn en útifyrir hvass á norðan; hefur snjóað talsvert í fjöll í nótt. (16. maí). - Framan af þessari viku hjelzt við norðanáttin optast hvass og kaldur og snjó ýrði úr lopti við og við; um 20. gekk veður til austurs-landsuðurs með dimmviðri og regni og hefir sú veðurátt haldizt síðan; bæði í gær og í dag (22.) talsverð hlýindi, svo grænkað hefir þessa tvo dagana. Í dag 22. rok-hvass á landsunnan um og eptir hádegið. Þessa vikuna í fyrra var hjer norðanbál með miklum kulda; 19. maí í fyrra var tjörnin hjer frosin og 2 stiga frost um hádegi. (23. maí). - Fyrsta dag vikunnar var hjer hvasst sunnanveður fram að kveldi, síðan logn næsta dag; síðan hefir verið rjett að kalla logn en einlægt við norður, kuldar og snjójel við og við úr lopti. Í dag 29. hægur á norðan með snjóýring við og við, bjartur að öðru leyti. (30. maí). - Framan af vikunni hjelzt sama norðanveðrið með kulda og var hvasst einkum til djúpa og snjór til fjalla. ... (6. júní.

1906 (2,2) Norðlægar og norðaustlægar áttir voru ákaflega þrálátar í þessum mánuði. Hæð var yfir Grænlandi en  lágur loftþrýstingur yfir Bretlandseyjum. Sjá kortið. Fyrstu átta dagana var sérstaklega kalt. Ekki hlánaði þá í Stykkishólmi allan sólarhringinn og jafnvel ekki í Reykjavík einn daginn. 1906_5_1000.gifNæstu daga skreið hitinn oftast yfir frostmark en næturfrost voru stöðug. Í Grímsey má reyndar segja að ekki hafi hlánað fyrstu 17 dagana. Í Vestmannaeyjum var hitinn hins vegar oftast yfir frostmarki og alveg sæmilegur suma dagana er á leið. Sömu sögu er að segja frá Reykjavik. Það var loks hinn 18. að mestu kuldarnir létu undan síga, en þó fáum dögum fyrr á suðvesturlandi, en á útkjálkum fyrir norðan þráuðust kuldarnir við þangað til síðustu vikuna. Mestur varð kuldinn -10,0 stig á Holti í Önundarfirði. Hríðar voru fyrir norðan þennan kuldatíma og stundum einnig á vesturlandi  en lítil úrkoma var á austfjörðum og suðurlandi.  Til marks um fannferngið var hnédjúpur snjór við Grenivík þ. 3.  Á suðurlandi og stundum líka vestanlands voru bjartviðri í eina tíu daga frá miðjum mánuðinum. Hýjast á landinu varð 13,7 stig og var það í Reykjavík síðasta daginn. Engin úrkoma féll fyrstu tólf dagana í Reykjavík, þá í þrjá daga og svo ekki aftur fyrr en þ. 30. Úrkomudagar voru því aðeins fjórir. Alls staðar var lítil úrkoma, kringum helmingur af meðallaginu.   

Eftir íslítinn vetur var töluverður íshroði fyrir  norðurlandi. Hann fór inn í Húnaflóa og að Ströndum og rak svo austur eftir framhjá Skaga, Siglufirði og Melrakkasléttu, en varð  hvergi hafa orðið landfastur nema á Ströndum.

Norska leikskáldið Henrik Ibsen dó 23. maí og nokkrum dögum síðar stjórnaði Gustav Mahler frumflutningi á sjöttu sinfóníu sinni í Essen.  

1914 (2,4) Þessi maí var engu skárri en 1906 hvað veðurlag snerti þó hann eigi að heita ofurlítið hlýrri. Mánuðurnir voru samt ekki líkir. Landið var algjölega í maí 1914 undir áhrifum kaldra loftstrauma  úr vestri og norðri. Kortið sýnir áætlað ástand í kringum 1400 metra hæð. Mesti hiti í Reykjavík var sá lægsti í nokkrum maí, 9,7 stig (þ. 28.).  Þetta er eini maí í mælingasögu borgarinnar sem hiti hefur ekki náð tíu stigum. Mikil snjókoma var á landinu fyrstu vikuna og aftur kringum þann 20. Krapahryðjur voru viðloðandi svo að segja út mánuðinn vestanlands. Þess á milli voru stórrigningar. Eftir þokkalegan fyrsta maí kom frostakafli í viku með norðaustanátt þó frostlaust væri á daginn syðst á landinu. 1914_5_850.gifNorðan hvassviðri og 6-8 stig frost  var fyrir norðan að morgni hins 7. og svipað næstu tvo daga. Snjór var í Reykjavík þ. 9. Tóku síðan við suðvestlægar áttir  í tíu daga og var það besti kafli mánðarins. Hiti fór í 14,5 stig á Teigarhorni þ. 12. Hörkunorðanveður skall á þ. 21. sem stóð í tvo til þrjá daga með snjókomu fyrir norðan. Austri á Seyðisfirði greindi frá því þ. 21. að hafi gjört þar stórhríð og þar sé kominn töluveðrur snjór og  á  heiðum nái snjórinn hestum í kvið. Ísafold segir hinn 23. að þá sé alhvít jörð í Reykjavík og hafi snjóað drjúgum um morguninn og frameftir degi. Sé þetta óefað algert einsdæmi á þessum tíma árs, bætir blaðið við. Eftir þetta snérist til suðvestlægra og vestlægra átta út mánuðinn. Var þá  sæmilega hlýtt stundum og komst hitinn í 14,8 stig þ. 26. á Möðruvöllum í Hörgárdal. Mjög hvessti af norðvestri á sunnanverðum austfjörðum næst síðasta daginn en þá voru hryðjur á vesturlandi í útsynningnum.

Í byrjun mánaðar kom hafísinn einu sinni sem oftar þetta árið upp að Horni og var hann þá 45 vikur sjávar undan landi frá Siglufirði en varð landfastur við Langanes og allt suður að Vopnafirði. Hann dreifðist þó við Langanes þ. 6. svo skip komust leiðar sinnar. Upp að Grímsey kom ísinn í byrjun maí stutta stund og svo aftur 21. og lagðist þá upp að eyjunni og fór smátt að smátt að mjakast nær norðurlandi. Var ís að flækjast við Grímsey og aðra útskaga fram undir miðjan júní. Hvítabjörn var felldur á Melrakkasléttu. 

Sá merkismaður, Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi dó um miðjan mánuðinn. Mikill og mannskæður jarðskjálfti varð á Sikiley.

1883 (2,5) Mánuðurinn byrjaði fremur vel með hægri vestlægri átt og og þ. 4. komst hitinn í 14,7 stig á Teigarhorni og mældist aldrei hærri hiti á landinu. En þann 5. hófust norðanhríðir á norðurlandi  með frostum. Hélst þetta veðurlag allan mánuðinn á norðurlandi. Dagana 7.-12. gerði allmikið frost í Reykjavík, mest -6,4 stig þ. 12. Lagði þá Tjörnina en allur gróður hvarf sem kominn var. Versta tíð var svo í bænum til mánaðarloka þó nokkuð mildaðist fáeina daga upp úr miðjum mánuðinum en kólnaði svo aftur í lokin og voru þá snjókomur á vesturlandi. Mestur kuldi á landinu var -9,1 stig á Grímsstöðum. Í lok maí rak hafís að Langanesi og Hornströndum en um veturinn hafði verið lítill ís. Úrkoma var kringum meðallag í Stykkishólmi og á Teigarhorni en í minna lagi í Vestmannaeyjum. Jónassen var erlendis og frá honum komu því engar  æsispennandi veðursögur þennan mánuð! 

1892 (2,5) Fyrstu tvo dagana var köld norðanátt með 5-7 stiga næturfrosti í Reykjavík.  Í Grímsey fór frostið í -12,2 stig þ. 1 sem er þar kuldamet í maí (frá 1872)  Næstu daga hlýnaði með vestanátt. En hinn 7. færðist yfir óvenjulega köld og hvöss norðanátt og snjóaði þá norðanlands og austan en léttskýjað var á suður-og vesturandi. Frostið í Reykjavík fór í -8,2  stig  (eða -9,1) þ. 9. og er það mesta frost sem þar hefur mælst í maí. Á Gilsbakka í Hvítársíðu fór frostið í 14,2 stig. Ísafold segir að um þetta leyti hafi höfnina lagt á einni nóttu á Ísafirði og Dýrafirði en frostið hafi verið 12-14 stig á Celsíus. Dagsetningar  á þessum atburði er ekki getið en líklega hefur það verið áttunda eða níunda. 1892_5_1000.gifEftir að kuldarnir gengu niður var sæmilega hlýtt á  landinu í um það bil viku en í Grímsey voru þó kuldar flesta daga til mánaðarloka. Hitinn í Reykjavík fór í 12-13,8 stig dagana 12.-14. og var hlýjast þ. 13. og mældist hvergi meiri hiti í þessum mánuði á landinu, en líka var þó  fremur hlýtt á suðurlandi. Annað kuldakast, en þó vægara en hið fyrra, var dagana 18.-20. Var þá bjart yfir nokkra daga syðra og sæmilegur dagshiti en stundum næturfrost. Síðustu tvo dagana kólnaði enn á ný með hvassri norðanátt. Snjóaði þá enn fyrir norðan og austan, þar sem snjókomur voru reyndar tíðar allan mánuðinn og jafnvel í Vestmanaeyjum varð snjókomu vart. Austri á Seyðisfirði segir í mánaðarlok að þar snjói nær daglega. Annars var þetta afar þurrviðrasamur maí. Bæði í Reykjavík og Stykkishólmi féll úrkoma aðeins fjóra daga og alltaf minna en einn mm í  Stykkishólmi. Frá þeim 13. féll þar engin úrkoma. Þetta er enda þurrasti maí í Hólminum  frá 1857. Hæð var yfir Grænlandi í mánuðinum en lægðasvæði austur við Noreg og eindreginn norðanstrengur um landið og hlýtt loft oftast víðsfjarri.  Á kortinu á að vera L í  staðinn fyrir H þarna suður í hafi! Jónassen gerði tíðarfarinu skil í Ísafold: 

Hvass á norðan til djúpa bæði 30. [apríl] og 1. hægur og bjartur hjer; hinn 2. rjett logn og dimmur austankaldi, síðan útnorðankæla um kveldið h. 3. Suðvestangola, dimmur og ýrði suddi úr lopti síðari part dags. Í morgun (4.) hægur á útnorðan, dimmur. (4. maí) - Hinn 4. á vestan-útnorðan, hægur; logn og dimmt veður h. 5. með útsynnings-sudda síðari part dags; hægur á vestan h. 6., bjartur. Í morgun (7.) bjart sólskin og logn; norðangola, fyrir utan.(7. maí). - Hægur á norðan h. 7., en hvass á norðan hínn 8. með miklum gaddi; kl. 9 um morguninn var 8 stiga frost og frusu gluggar um miðjan dag; logn eða hæg útræna h. 9. Landnorðan, hvass og kaldur h. 10. Hægur á austan og dimmur í morgun (11.) og ýrir regn úr lopti. (11. maí). - Undanfarna daga hefir verið austanátt hæg og hlýnað mikið í veðri. Enn þá er hjer mikill klaki í jörðu. (14. maí). - Hægur á austan og bjartur h. 14. gekk svo til norðurs, hægur hjer en hvass útifyrir; logn og regn úr lopti h. 16. bjartur á landnorðan að morgni h. 17., landsunnan  hægur síðari part dags. Í morgun (18.) rjett logn, bjartur. (17. maí). - Undanfarna daga á norðan, kaldur og við og við snjór úr lopti, hvítt hjer snemma morguns h. 20. Ekkert útlit enn að breytast muni veður. (21. maí). - Hægur á norðan al!a undanfarna daga, optast logn á kvöldin; Einlægt sami kuldinn á nóttu. (25. maí). - Undanfarna daga rjett logn og bezta veður; loksins regn úr lopti h. 27. Í morgun (28.) hæg útræna, bjart og fagurt veður. (28. maí). - Alla undanfarna daga norðanveður, þó eigi mjög hvass nema 30. og 31. rokhvass með köflum. Ekkert útlit enn til breytingar á veðri. (1. júní). 

Við Hornbjarg og Melrakkasléttu var hafís langt fram í maí. Um miðjan mánuðinn var engin sigling enn kominn til hafna milli Ísafjarðar og Akureyrar og héldust hafþök af ís fyrir norðurlandi milli nyrstu útkjálka og var ísinn landfastur beggja megin og hindraði þannig allar siglingar. Við austfirði var einnig mikill ís og fór hann ekki af Seyðisfirði fyrr en um Jónsmessu og um svipað leyti af Eskifirði og Berufirði. Skip komust hins vegar til hafna vestanlands og norðan um miðjan maí.    

1949 (2,6) Þessi mánuður var lengi alveg alræmdur í minni fólks. Það hjálpaði líka til að  muna hann að þetta var vorið sem landið gekk í NATÓ með tilheyrandi þjóðfélagsátökum. Í skáldsögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar Drekar og smáfuglar, sem fjallar um þessi átök, eru vorkuldarnir stundum notaðir sem bakgrunnur atburða. Kom þessi maí í kjölfar næst kaldasta apríl á 20.öld.  Norðanlands og í innsveitum syðra voru fádæma snjóþyngsli og víða horfði til vandræða vegna heyleysis. Jafnvel var gripið til þeirra ráða að varpa heyi úr flugvél því samgöngur voru allar úr skorðum gengnar vegna fannkynngi. Snjólag var 48%, það mesta í maí sem snjóalgstölur ná yfir frá 1924. Alls staðar var mjög snjóþungt miðað við maí nema á sjávarstöðvum við suðurströndina. Alautt var á Loftssölum við Dyrhólahey, Reykjanesvita og Sámsstöðum en hvergi annars staðar. Í Reykjavík voru alauðir dagar 30. Á suðurlandi voru reyndar engir dagar heldur alhvítir nema einn á Kirkjubæjarklaustri og sá 25. í Vestmannaeyjum þar sem snjódýptin var 25 cm. Snjór hefur reyndar einu sinni verið meiri í maí á Stórhöfða og þar hefur jafnvel mælst snjór í júni. Á Hólsfjöllum, við Mývatn og á Möðrudal, var alhvítt í eina tuttugu daga. Alhvítt á láglendi var allvíða kringum 15 dagar á Vestfjörðum og á norðurlandi en sums staðar þó minna, t.d. þrír dagar á Akureyri. Í mánaðarlok var enn mikill snjór sums staðar, t.d. 55 cm á Sandi í Aðaldal og 85 cm á Siglunesi.  Sama snjóþekjan á Siglunesi átti svo eftir að setja Íslandsmet í snjódýpt í júní þegar sá mánuður rann upp. Það er til marks um fannfergið að þ. 30. lét þak á nýju húsi á Siglufirði undan vegna snjóþyngsla! Aldrei hefur mælst eins úrkomusamur maí á Sandi, 84,9 mm (1934-2004) og sólarhringsúrkoman þar 29,2 mm þann 30. er líka met og var hún snjór! Á Húsavik mældist einnig meiri mánaðarúrkoma en í nokkrum maí, 105 5 mm (1927-2004)  og í Reykjahlíð við Mývatn 79,0 mm (frá 1938). Í Fagradal í Vopnafirði var sólarhringsúrkoman 20,2 mm þ. 28. og varð aldrei meiri meðan mælt var (1932-1964). Þann morgun var úrkoman 34,8 mm á Raufarhöfn sem þar er einnig maímet.

Mánuðurinn hófst reyndar með sæmilegum hlýindum með mikilli rigningu fyrstu tvo dagana. Síðan gekk hann í norðanátt og kulda og þ. 4. mældist metkuldi í maí á Suðureyri  við Súgandafjörð, -7,4 stig (1923-1989). 1949_5_thick.pngLinnti norðanáttinni varla allan mánuðinn nema dagana 8.-12. þegar vindátt var breytileg og ekki kalt í veðri. Hitinn komst í 17,5 stig þ. 9. á Hallormsstað og 17 á Akureyri sem er reyndar mesti hiti  sem þar  hefur mælst 9. maí frá 1949. Héldu nú kannski sumir að vorið væri að koma. En það var öðru nær. Aðfaranótt hins 13. fór lægð norður með austurströndinni og bar með sér kalt loft yfir landið sem gerði sig heimakomið.  Blindhríð var á Siglufirði.   Síðustu viku mánaðarins „mátti heita vetrrarríki um allt land", segir Veðráttan. Fyrir norðan var linnulaust hríðarveður og suma dagana snjóaði einnig sunnanlands. Oft var hvasst. Vindhraði fór í 11 vindstig í Reykjavík þ. 28. Þetta var nokkru áður en Sigurður Þórarinsson orti „ekkert er fegurrra en vorkvöld í Reykjavík".  Kuldamet fyrir sólarhringsmeðalhita viðkomandi daga í maí komu á Akureyri dagana 24.-26. og aftur 29.-30. Tvo síðustu dagana hlýnaði reyndar talsvert þó ekki væri hægt að tala um nein alvöru hlýindi. Sólríkt var fyrir sunnan þennan mánuð enda var norðanátt mjög algeng. Dagana 15.-25, var t.d. mikil sól í Reykjavík og á suðurlandi en oft næturfrost og svalt um  daga nema 20.-22 þegar fremur hlýtt var um hádaginn. Á Kirkjubæjarklastri hefur ekki mælst minni úrkoma í maí, 22,1 mm (frá 1931). Á landinu öllu var úrkoman talsvert minni en í meðallagi. Kortið sýnir þyktina þennan mánuð. Yfir Keflavík er þyktinn að meðaltali margra ára  um 5350 m í maí.   

Snemma í mánuðinum lést belgíska nóbelsskáldið Maurice Maeterlinck. Hann er víst flestum gleymdur en Debussy samdi frábæra óperu sína Pelleas og Melisande við leikrit eftir hann.   

1882 (2,7) Sífelldir næðingar einkenndu þennan maí auk kuldanna. Og mánuður þessi var eins konar upptaktur að hraklegasta sumri sem komið hefur á norðurlandi síðan sæmilega nákvæmar veðurskráningar með mælitækjum hófust. Gróður var nær enginn í mánaðarlok. Fyrstu vikuna voru látlaus frost en um miðjan mánuð kom viku kafli með þokkalegum hita. Komst hitinn í Stykkishólmi í 14,2 stig þ. 20. Klukkan 14 þann dag var hitinn 13 stig í Grímsey og næsta morgun 13,7 stig á Teigarhorni. Það hlýtur að hafa verið um þetta leyti sem sagt er í prentuðum skýrslum að hitinn hafi farið í 16,3 stig í Reykjavík, 19,8 á Akureyri og  mest í 20,7 stig á Hrísum í Eyjafjarðardal. En þessi dýrð stóð ekki lengi. Norðanbál gerði dagana 23.-26, með miklu sandfoki á suðurlandi en stórhríð fyrir norðan. Þann 24. júní lýsti Þjóðólfur svo veðrinu í Reykjavík og víðar þessa daga: „Stormur þessi stóð hér í tvo daga, enn síðan lægri þann 25. enn hélzt þó við næstu daga á eptir. Frost var hér nokkurt og fjúkslitringur með köflum, enn festi aldrei hér, enn upp til sveita kom snjór nokkur. Svo mun verið hafa víðast um land, því úr Skagafirði er oss ritað þann 28., að þá væri þar alstaðar alsnjóa niður í sjó. Ur Borgarfirði hefir frétzt, að þá hafi komið slíkur snjór og óveður, að sauði marga hafi fent til bana i Hvítársíðu og Norðurárdal.”  

Var síðan kuldatíð til mánaðarloka. En í apríllok hafði norðan illvirði fyllt firði fyrir norðan og austan með hafís sem náði langt frá landi. Komst ísinn allt að Breiðamerkursandi og Ingólfshöfða en á Vestfjörðum fór hann ekki suður fyrir Ísafjarðardjúp en lagðist upp að Straumnesi. Sums staðar losnaði ísinn við og við og  var hann að koma og fara, t.d. á Eyjafirði og Vopnafirði. Úrkoman var mikil á austurlandi, kringum meðallag í Stykkishólmi en í minna lagi í Vestmannaeyjum.

Engar veðurlýsingar eru til frá Jónansen þennan mánuð en 20. febrúar 1883 birti Norðanfari á Akureyri yfirlit yfir veður hvers mánaðar árið 1882 eins og það var „framarlega í Eyjafirði''. Svo segir um maí:

1.-2. norðan hvass með snjófjúki og þokulopti. 3. kyrr og bjartur. 4.-5. norðan hægur; loptbert. 6,-7. kyrrt og heiðríkt. 8. suðvestan hvass; loptbert. 9. kyrr og þykkt lopt. 10.-12. norðan hægur með þokulopti; smáskúrir. 13. -15. suðvestan hægur með þykku lopti og smáskúrum. 16.-18. suðvestan hvass; þykkt lopt. 19.-20. suðaustan hægur; skýjað. 21.-25. norðaustan þjetthvass; þokufullt og snjófjúk stundum. 26. kyrrt og þokufullt. 27.-30. norðan hægur með þokulopti. 31. suðvestan hægur með skúrum. 11. daga af mánuðinum var frost, en 20 daga hiti. Mest var frost að morgni hins 1. 10° C. Mestur hiti um hádegi hins 20. 21° C.

1886 (2,9) Mildar suðaustlægar og suðlægar áttir voru fyrstu dagana og úrkomusamt syðra.  Hitinn komst t.d. í tíu stig þann fyrsta í Reykjavík og svipað næstu þrjá daga. Síðan gekk í norðlægar áttir og austlægar og var oft bjart syðra seinni helming mánaðarins.  Hæð var þá yfir Grænlandi en tiltölulega lágur loftþrýstingur yfir vestanverðum Bretlandseyjum. Þó kalt væri framan af voru frost þó aldrei afskaplega hörð miðað það sem oft er í mjög köldum maímánuðum, aldrei meira en eitt stig að morgni í Stykkishólmi. Kaldast varð -7,1 stig á Raufarhöfn. Kaldasti tíminn var frá þeim 6. til hins  17. en þá hlánaði ekki í Grímsey. Hríðar voru viðloðandi á vesturlandi fram yfir miðjan mánuð. Aldrei varð almennilega hlýtt en þó komu örfáir sæmilega hlýir dagar upp úr þeim 20. og komst hitinn mest í 14,1 stig á Teigarhorni þ. 24. Fróði á Akureyri segir frá því hinn 31. að síðastliðna viku hafi verið mjög kalt, frost á hverri nóttu og alveg gróðurlaust. Úrkoma var lítil á lanidnu í mánuðinum. Á þessum tíma birti Jón Á. Hjaltalín á Möðruvöllum í Hörgárdal eins konar veðuruppgjör í Fróða á Akureyri um hvern mánuð. Hvað sem um áreiðanleika þeirra má segja greinir hann frá því 6. júlí í blaðinu að í maí hafi snjóað sjö daga í mánuðinum en þurrrir dagar verið 23 og hvassir dagar 6. Mesta hita mældi hann 14,2 °C þ. 2. en mesta kulda -2,0° þ. 11. Meðaltal allan mánuðinn gefur hann upp sem 3,75° C sem er miklu miera en reiknaður meðalhiti fyrir Akureyri sem sjá má í fylgiskjalinu vinsæla, eftirlæti blogglesenda! Svo lýsir Jónassen veðrinu í Ísafold:

Mestalla vikuna hefir verið sunnanátt eða landsunnan með hlýindum, og hefir við og við rignt nokkuð. 3. var hjer landsunnanrok fyrri part dags, hægur á sunnan að kveldi. Í dag 4. hæg austanátt, dimmur. Jörð grænkar óðum. (5. maí). - Umliðna viku hefir viðrað óvenjulega vel bæði til lands og sjávar, rigningaskúrir og sólskin hafa skiptzt á, svo nú er jörð hjer eins græn eins og um miðbik júnímánaðar í fyrra; stöku nótt hefir snjóað lítið eitt í fjöll. Í dag h 11. hæg útnorðanátt, bjart sólskin. - í fyrra var hér norðanbál um þetta leyti með talsverðu frosti, svo alla glugga lagði móti norðri; 8. mai snjóaði hjer í bænum og gjörði alhvítt. (12. maí) -  Alla umliðna viku hefir hjer verið norðanátt með talsverðum kulda; þótt eigi hafi hann verið mjög hvass hjer; hefir verið að sjá rok til djúpa á hverjum degi; við og við hefir snjó ýrt úr lopti; í Esjuna hefir snjóað, svo alhvít hefir orðið alveg niður sjávarbakka. Ekkert útlit er fyrir, enn að hann sje að ganga niður veðrið. Í dag 18. vægari með veður, bjartur og með hlýasta móti. (19. maí) - Mestalla vikuna hefir verið hjer sama norðanáttin sem fyrri vikuna, opt hvass mjög til djúpanna; 22. og 23. var vestanútnorðanátt með dimmviðri, og gekk aðfaranótt h. 24. til hánorðurs með bjartviðri; kuldi hefir verið talsverður í lopti og sama helzt við enn; í dag 25. hægur á norðan, bjartur. (26. maí). - Framan af vikunni hjelzt sama norðanáttin sem að undanförnu (síðan 12. maí). Síðan hefir verið hæg veðurátt; 30. rigndi lítið eitt síðari part dags; jörð skrælþurr. Á hverri nóttu hefir legið við frosti hjer niður við sjó. Alla vikuna hefir loptþyngdarmælir staðið mjög hátt og varla hreyft sig. Í dag 1. júní er hægur vestan kaldi, bjart veður. (2. júní).

Ís var við Grísmey þennan mánuð. Íshroði komst einnig inn á Ísafjarðardjúp en 2. maí hvarf hins vegar síðasti íshroði af Eyjafirði. Ís lónaði úti fyrir norðurlandi en í lok mánaðarins rak hann að landi á útskögum og hélst þar við viku af júní. Allan mánuðinn voru kuldar og næðingar og stundum hretviðri, einkum þó vestanlands og norðan. Lagnaðarís var riðinn yfir Hrútafjörð frá Þóroddsstöðum að Borðeyri þ. 20 og snemma í júní var enn ís á vötnum í norðlenskum sveitum          

Snemma á 19. öld komu nokkrir ótrúlega kaldir maímánuðir samkvæmt mælingum sem gerðar voru hér og hvar á landinu, en hafa verið reiknaðar til meðalhita í Stykkishólmi. Árið 1812 var meðalhitinn þar talinn 1,5 stig, 1,6 árið 1820 og 1,7 árin 1811 og 1803. Eftir þessu virðist sem maímánuðir af svipuðum kuldaflokki og 1979 og 1866 hafi verið  furðu algengir á landinu í upphafi 19. aldar ofan á harða vetur og rysjótt sumur sem þá ríktu. Árin 1811 og 1812 voru mælingarnar gerðar á Akureyri og var þar aðeins lítillega kaldara en reiknað er yfir til Stykkishólms. Mæliaðstæður voru aðrar en nú gerist en mælt þrisvar á dag: á morgnana, um miðjan dag og seint á kvöldin. Þess má geta að feikilegt kuldakast var 2.-4. maí  1811 á Akureyri. Frostið á athugunartímum var þá aldrei minna en -5 stig en mest -13,8 stig að kvöldi annars maí. Mesta frost á seinni áratugum í maí á Akureyri er tíu stig. Í maí 1812 var líka mikið kuldakast á Akureyri 3.-5. maí. Tólf stiga frost var þar að kvöldi hins fimmta. 

Árbók Reykjavíkur; Ísafold 9, maí 1888; 16. maí; 19. maí  1906; Ísafold 1. júní 1892;  Austri 30. maí 1892;  Fróði 1. júní 1882.  

Fyrra fylgiskjalið sýnir ýmsa veðurþætti á stöðvunum eins og venjulega en hið síðar er  dálítill vorglaðningur um maí 1979 og 1949. 

Skýringar.  

     


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband