Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
29.8.2011 | 11:20
Hlýindi
Nú er að hlýna. Það er kannski eins gott því lítil von var í áframhaldandi norðaustanátt. Á miðnætti var aðeins 13 stiga frost í 500 hPa fletinum yfir Keflavík sem var í 5690 metra hæð en þykktin var 5550 metrar. Aldrei hefur verið hlýrra þarna uppi í sumar.
Er einhver að tala um haust?
Næstu daga, óvíst hve marga, er ekki víst að ég komist í tölvu svo dagavöktunin liggur þá niðri en reynt verður þó að brúa bilið þegar þar að kemur.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 3.9.2011 kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2011 | 13:01
Nýtt stjórnmálaafl
Ég gjöri hér með kunnugt að ég hefi í hyggju að stofna nýtt stjórnmálaafl, hvers afl verður ekkert smáræði.
Ég ætla að stofna Góðviðrisflokkinn því ég er engan veginn sáttur við það veður sem að mér er haldið með eigi litlu gerræði og stundum beinu harðræði. Helsta baráttumál hins nýja flokks mun verða jöfnun veðurgæðanna milli landshluta og betra veður um allt land með sterku ívafi af evrópulofti.
Ég finn alveg rokstuðning úr öllum áttum.
Fylgjendur hins nýja flokks munu taka fylgiskjalinu fagnandi við þessa færslu en það birtir það veður fyrir norðan og sunnan og bara um allt land sem ætlunin er að stórbæta.
Ekki veitir af!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 28.8.2011 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2011 | 21:29
Hlýjustu ágústmánuðir
Meðalhiti stöðvanna níu sem miðað er við var 9,5 stig árin 1961-1990.
2003 (12,20) Þetta er ekki aðeins hlýjasti ágústmánuður sem mælst hefur á landinu í heild heldur blátt áfram hlýjasti mánuður allra mánaða ársins síðan áreiðanlegar mælingar hófust. Hann er jafnframt hlýjasti ágúst sem komið hefur alls staðar á landinu nema víða á svæðinu frá Eyjafirði til Seyðisfjarðar. Auk þess er hann hlýjasti mánuður sem yfirleitt hefur mælst á svæðinu frá Borgarfirði norður og austur um til Skagafjarðar nema sums staðar á Vestfjörðum og hann var líka allra mánaða hlýjastur í Vestmannaeyjum og í Mýrdal. Meðalhitinn var 3,5 stig fyrir ofan meðallagið 1961-1990 á Mývatnssvæðinu og í A-Húnavatnssýslu en 2-3 stig annars staðar. Í Vík í Mýrdal var meðalhitinn 13,2 stig og sama á Írafossi en þetta voru hlýjustu staðirnir. Á landsvísu voru allir dagar mánaðarins yfir meðallagi og líka í Reykjavík út af fyrir sig. Þar hefur aldrei mælst meiri meðalhiti í ágúst síðan mælingar urðu sæmilega góðar. Meðaltal lágmarkshita var þar 10,4 stig og hefur aldrei verið hærra. Á Vatnsskarðshólum í Mýrdal var þetta meðaltal 10,8 stig. Það sýnir hlýindin að fyrstu 6 dagana og síðustu 9 dagana, auk nokkurra annarra daga, fór hitinn aldrei niður fyrir 10 stig allan sólarhringinn í borginni.
Sunnanátt var algengust en þó ekki af drungalegasta tagi. Sólskin mátti heita í meðallagi í Reykjavík en örlítið yfir því á Akureyri. Sólríkast var hins vegar við Mývatn og á miðhálendinu. Úrkoma var víðast hvar í minna lagi en náði þó meðallagi á Reykjanesi, við Mývatn, á Hornafirði og stöku öðrum stöðum. Hiti var í hærra lagi allan mánuðinn en þó komu engar raunverulegar hitabylgjur. Mesti hiti sem mældist á landinu var ekki óskaplega mikill miðað við hvað mánuðurinn var hlýr, 24,6 stig á mönnuðu stöðinni á Raufarhöfn og þeirri sjálfvirku á Húsavík þ. 9. Að morgni þessa sama dags mældist mest sólarhringsúrkoma í mánuðinum, 58,3 mm á Snæbýli í Skaftártungu. Í Reykjavík komst hitinn í 20,0 stig þ. 1. Í Álftaverinu mældist mesti hiti sem þá hafði mælst þar í ágúst frá 1959, 23,6 stig þ. 25. á Norðuhjáleigu. Þennan dag var meðalhitinn á Kirkjubæjarklaustri 17,2 stig sem er með því mesta sem gerist á Íslandi svo seint á sumri. Þrátt fyrir hlýindin mældust næturfrost á sex stöðvum í byggð í mánuðinum. Kortið sýnir frávik þykktar upp í 500 hPa flötin miðað við árin 1981-2100. Því meiri sem þessi þykkt er því hlýrra er loftið í sínu eðli en að jafnaði liggur 5450 m þykktarlínan yfir miðju landsins í ágúst.Kortin stækka ef smellt er á þau.
Herra Idi Amin, fyrrverandi snarbrjálaður einræðisherra Uganda, geispaði golunni um miðjan mánuðinn.
Meðalhiti á veðurstöðvum í þessum hlýjasta mánuði mælingaögunnar.
Næst hlýjasti ágúst var svo árið eftir, 2004 (11,77). Það sem mestu olli um það var fádæma hitabylgja dagana 9.-14. Þá kom hitamet í Reykjavík, 24,8 stig þ. 11. sem slegið var í júlí 2008. Meðalhitinn í Reykjavík þennan dag var 20,1 og er það í eini dagurinn síðan mælingar hófust að sólarhringsmeðaltalið þar nær 20 stigum. Kortið sýnir hlýju hæðina í háloftunum sem var yfir landinu þessa daga. En þ. 11. voru teknar tunglmyndir af landinu sem oft hafa birst hér og hvar. Fjóra daga í röð fór hitinn í Reykjavík (og víðar á vesturlandi) í 20 stig eða meira og er það met. Á sjálfvirka mælinum á Egilsstaðaflugvelli fór hitinn í 29,2 stig þ. 11. en daginn áður í 29,1 í Skaftafelli í Öræfum en hlýjast á mannaðri stöð varð 28,5 stig á Hjarðarlandi þ. 10. Meðaltal hámarkshita á Staðarhóli í Aðaldal í mánuðinum var 18,5 stig og 18,4 á Torfum í Eyjafirði og gerist varla hærra á Íslandi en þess ber að gæta að þessar tölur fást þegar skipt er milli sólarhringa kl. 18 sem þýðir að mikil hlýindi á þeim tíma einn daginn er skráður sem hámarkshiti næsta dag þó miklu kaldari sé. Úrkoman var rétt undir meðallagi á öllu landinu en þó yfir því á suðausturlandi. Óvenjulega sólríkt var og á Akureyri er þetta sólríkasti ágúst sem þar hefur mælst, 209 klukkustundir, en sólríkara varð þó í Reykjavík, 248 stundir og þar er þetta fjórði sólríkasti ágúst og sá sólarmesti síðan 1960. Seinni helmingur mánaðarins var talsvert svalari en fyrri hlutinn og ekkert sérstakur, en fyrri hlutinn var svo hlýr að hann tryggði mánuðinum silfrið meðal ágústmánaða.
Í síðustu vikunni kom Bill Clinton til landsins og fékk sér eina pulsu með öllu. James Brown hélt tónleika í Reykjavík. Klassíski stórsöngvarinn Gerard Souzay lést þ. 17. og daginn eftir tónskáldið og tónlistarvinurinn Gylfi Þ. Gíslason.
Bronsið hlýtur sá sögufrægi ágúst 1880 (11,76) sem var hluti af undrasumrinu mikla 1880, langhlýjasta sumri á Íslandi frá því sæmilega áreiðanlegar mælingar hófust og þar til fór verulega að hlýna á tuttugustu öld. Þetta var hægviðrasamur ágústmánuður og úrkoma ekki langt frá núverandi meðallagi en var þó umkvörtunarefni sunnanlands og vestan. Mánuðurinn skartar svo hlýjasta mánuði sem nokkru sinni hefur mælst á íslenskri veðurstöð, 13,97 stigum á Valþjófsstað. Ef sá hiti yrði hér settur í stað Akureyrar, sem mældi ekki þetta ár, myndi þessi ágúst verða sá næst hlýjasti. Þetta minnir reyndar á að röð hlýjustu mánaðana er langt í frá einhlít. Á seinni áratugum eru veðurstöðvar til dæmis miklu fleiri en þær 9 sem hér er miðað við og yrði innbyrðis röð mánaðana kannski eitthvað öðruvísi síðustu áratugina ef fleiri veðurstöðvar væru undir heldur en þessar 9 sem lengst hafa starfað. Mjög úrkomusamt var sunnan-lands og vestan þegar fór að líða á mánuðinn og síðustu vikuna rigndi eiginlega alveg stöðugt sums staðar. Mjög hlýtt var þó og í Stykkishólmi má t.d. segja að hiti hafi varla farið niður fyrir tíu stig allan sólarhringinn dagana 16.-27. Lágmarkshiti var líka alloft yfir tíu stigum í Grímsey, t.d. 25.-29. Þann 25. komst hitinn þar í 19,4 stig en 17,4 í Stykkishólmi. Mestur hiti sem mældist á þessum fáu veðurstöðvum sem mældu hámark var 20,4 á Eyrarbakka en áreiðanlega hefur hitinn á landinu komist einhvers staðar hærra. Kortið sýnir hæð 1000 hPa flatarins við sjávarmáli eða með öðrum orðum loftþýstinginn. Hæð var oft yfir Bretlandseyjum í þessum mánuði en lægðir vestur af landinu. Jónas Jónassen lýsti þessum ágústmánuði svo í Þjóðólfi 11. september 1880:
Fyrstu viku mánaðarins var optast logn og bjart veður en úr því hefir verið mesta óþurkatíð, því síðan 7. þ. m. hefir ýmist verið landsunnanátt eða útsynningur með mikilli úrkomu, stundum mátt heita ofsaveður með aftaka rigningu t. d. 27.
Hér er ágúst 1939 (11,39) sá fjórði í röðinni og hann var hluti af hlýjasta sumri (júní-sept.) sem stöðvarnar 9 hafa mælt. Hann var hins vegar sá úrkomusamasti sem mælst hefur í Reykjavík, 164,8 mm. Á Hólum í Hornafirði hefur heldur aldrei rignt meira í ágúst, 242,1 mm og í Grímsnesinu var úrkoman líka með allra mesta móti. Í Stykkishólmi er þetta níundi úrkomusamasti ágúst, frá 1857. Út frá þeimi fáu stöðvum sem ég miða úrkomu lauslega við hafa ágúst árin 1884 og 1981 aðeins verið úrkomusamari á landinu en 1969 var svipaður. Það var sem sagt mjög úrkomusamt, einkum sunnanlands- og vestan, en á norður og austurlandi voru góðir þurrkar og ágæt heyskapartíð. Þrátt fyrir þetta voru sólskinsstundir 5 klukkustundum fleiri í Reykjavík en á Akureyri. Það rigndi líka talsvert fyrir norðan suma daga en stórrigningar gerði á suðurlandi á síðasta þriðjungi mánaðarins. Og reyndar víðar! Á Horni í Hornvík mældist sólarhringsúrkoman 106 mm að morgni þ. 25. sem þá var næst mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hafði á landinu í ágúst. Tiltölulega hlýjast varð næst síðasta og síðasta daginn en þá komst hitinn í Reykjavík í 21,4 stig sem var mesti hiti sem mældist þar í ágúst alla tuttugustu öldina og fram til 2004. Þennan dag var víða um og yfir 20 stiga hiti á suðvesturlandi. Sterkari hitabylgju gerði þó fyrir norðan og austan dagana 2.-4. en þá komst hitinn í 27,1 stig á Sandi í Aðaldal og 27,0 á Hallormsstað. Í þessum mánuði voru oft lægðir vestan við landið en hæðarsvæði var yfir Rússlandi. Eftir þessum ágúst kom svo næst hlýjasti eða hlýjasti september sem mælst hefur á landinu.
Seint í mánuðinum undirrituðu Hitler og Stalín hinn illlræmda griðasáttmála milli Þýskalands og Sovétríkjanna.
1947 (11,20) Þessi mánuður er víða hlýjasti ágúst sem mælst hefur á svæðinu frá Eyjafirði til Seyðisfjarðar en þó ekki við Mývatn og á Hólsfjöllum. Fyrir norðan og austan ver enda talin einmuna tíð. Á Akureyri hefur aldrei orðið jafn hlýtt í ágúst, 13,2 stig og sömu sögu er að segja um Sand í Aðaldal og síðast en ekki síst Húsavík þar sem meðalhitinn var 13,9 stig sem er mesti meðalhiti á nokkurri veðurstöð á landinu í nokkrum mánuði fyrir utan Valþjófsstað í ágúst 1880. Meðaltal lágmarkshita á Akureyri var 10,0 stig og hefur aldrei verið jafn hátt í ágúst. Þetta var mikill rigningarmánuður á suðurlandi og vesturlandi en tiltölulega var þó votast á sunnanverðum Vestfjörðum. Úrkomumagnið var að vísu víða minna en 1939 en úrkomudagar aftur á móti fleiri og í Reykjavík hafa þeir aldrei verið fleiri í ágúst, 27. Þetta var einnig sólarminnsti ágúst í Reykjavík sem þá hafði verið mældur en það met var slegið 1983 og er þetta því næst sólarminnsti ágúst í höfuðborginni. Hann lá í sunnan og suðvestanáttum svo að segja allan mánuðinn og fremur var vindasamt miðað við árstíma. Hitinn gerði aldrei neinar rósir sunnanlands en á norður og austurlandi voru miklir hitar fyrir og um þ. 25. Komst hitinn í 27,2 stig á Sandi og 25,0 á Hallormsstað þ. 22. Veðurlag var ekki ósvipað og 1939, lægðafar vestan við land en hæðin var yfir Bretlandseyjum og þar í grennd, mun vestar en 1939. Líkindi eru með öllum hlýju ágústmánuðunum 1880, 1939 og 1947.
Um miðjan mánuð varð Indland sjálfstætt ríki og Pakistan varð til. Í mánaðarlok var gjaldeyrisvaraforði Íslendinga uppurinn.
2010 (11,06) Þetta er sjötti hlýjasti ágúst. Hæstur var meðalhitinn á Garðskagavita 12,3 stig en lægstur 3,0 stig á Brúarjökli. Fyrstu 19 dagarnir voru allir yfir meðallagi í Reykjavík og hámarkshiti fór í 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu alla dagana nema þrjá. Hlýjast varð 23,0 stig þ. 12. í Skaftafelli en á mannaðri stöð 21,8 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þ. 15. Þann 20. kólnaði all nokkuð þó engir sérstakir kuldar væru. Kaldast varð í Möðrudal, -3,7 þ. 29. og sama daga mældist minnsti hiti á mannaðri stöð, -3,0 stig á Staðarhóli í Aðaladal. Síðustu dagana hlýnaði á ný og var það upphafði á óvenjulegri hitabylgju sem varð mest í september en sá mánuður krækti reyndar í fimmta sætið yfir hlýjustu septembermánuði. Mjög þurrt var um vestanvert landið svo til vandræða horfði sums staðar með vatn. Nokkuð sólríkt var í Reykjavík en fremur sólarlítið á Akureyri.
Mánuðurnir júní til ágúst hafa aldrei verið jafn hlýir og þetta ár í Reykajvík frá upphafi sæmilega traustra mælinga.
Í ágúst 1931 (11,04) var tíð talin mjög góð og hagstæð til lands og sjávar, hlýtt lengst af og góðir þurrkar. Á Kirkjubæjarklaustri var þetta annar hlýjasti ágúst sem þar hefur mælst, 12,3 stig (hlýjast 13,0, 2003) enda var vindurinn oft vestanstæður. Mánuðurinn var líka vel sólríkur, bæði fyrir sunnan og norðan. Í Reykjavík var einstök sólskinstíð dagana 8.-23. Þessi ágúst var líka mjög þurr, einkum á austurlandi. Úrkomudagar voru næstum því alls staðar færri en 15 og víða undir 10. Á Akureyri rigndi einn dag. Dagana 11.-16. var talið óslitið góðviðri og hitabylgja var 12.-14. með 24-26 stiga hita víða. Á Hlíð í Hrunamannahreppi mældist hitinn 26,0 þ. 14. og var það mesti hiti sem mældist í ágúst á suðurlandsundirlendi allt fram í ágúst 2004. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa fletinum meðan hitabygljan stóð einna hæst. Hlýtt loft úr suðaustri var yfir landinu. Heildarstaðan í mánuðinum var ekki mjög ósvipuð en auðvitað ekki eins sterk í hlýindunum en áttirnar vor oft austlægar eða suðaustlægar.
Fyrstu dagana tefldi Aljekín heimeistari í skák fjöltefli í Reykjavík.
2006 (10,79) Bæði í Reykjavík og á Aureyri var sólskin nærri meðallagi. Úrkoman var það líka í Reykjavík en hún var heldur meiri en í meðallagi á Akureyri. Mjög hlýtt var fyrstu dagana og fór hitinn í 24,7 stig í Ásbyrgi þ. 3. og 24,4 stig daginn eftir á Húsavík. Hlýtt var einnig upp úr miðjum mánuði þegar hitinn fór í 23,5 stig á Reykjum í Fnjóskadal þ. 18. og daginn eftir í 23,3 stig á Hallormsstað. Meðaltal hámarkshita á landinu var 20,1 stig sem telst ansi gott. Næturfrost komu þó í mánuðinum, mest -1,5 stig á Torfum þ. 16.
Í síðustu vikunni slapp austuríska stúlkan Natascha Kampusch úr haldi eftir átta ára vist í haldi mannræningja. Öðlaðist hún heimsfræg eftir lausnina.
1978 (10,71) Þessi hlýi ágúst kom eiginlega eins og skrattinn úr sauðarleggnum á árum kaldra sumarmánaða. Hann krækir í níunda sæti yfir hlýjustu ágústmánuði út frá stöðvunum níu sem hér er alltaf miðað við. Veður voru stillt en þungbúin og fremur úrkomusamt var á suður og vesturlandi. Einna minnst hlýtt að tiltölu, fyrir utan austurströndina, var kringum Reykjavík. Þar sást lítið til sólar og þó milt væri vantaði almennilega hlýja daga. Á norður og austurlandi komu hins vegar nokkrar góðar hlýindagusur. Mjög hlýtt var fyrstu dagana og fór þá hiti víða í um og yfir tuttugu stig fyrir norðan, mest 25, 7 stig þ. 2. á Barkarstöðum í Miðfirði og er þetta reyndar mesti hiti sem nokkurn tíma hefur mælst í þeirri sveit. Dagana 11.og 12. kom önnur hlýindaskorpa og mældist seinni daginn 23,8 stig á Akureyri en þessi hlýindi náðu ekki almennilega austur á land. Loks var mjög hlýtt dagana 18.-20. og komu þau hlýindi við í Skaftafellssýslum og fór hitinn þ. 18. í 22,5 stig á Mýrum í Álftaveri. Nokkuð kólnaði síðustu dagana og þ. 25. mældist frostið -1,4 stig á Vöglum í Fnjóskadal. Úrkoman var undir meðallagi en á vesturlandi, frá Borgarfirði til Barðastrandar var hún í meira lagi og einnig á Fljótsdalshéraði og við suðurströndina. Kortið sýnir hlýja tungu yfir landinu í 500 hPa fletinum þar sem sem frostið í ágúst er yfirleitt um 19-20 stig.
2008 (10,71) Þessi mánuður, sem kom á eftir fimmta hlýjasta júlí, er í tíunda sæti. Hlýjast var fyrsta daginn, 24,3 stig á Þyrli í Hvalfirði, en sama dag mældist mesti hiti á mannaðri stöð, 23,8 stig á Torfum í Eyjafirði. Í Reykjavík mældist hitinn 23,6 stig þ. 1. en sólarhringsmeðaltalið var 17,5 stig og var þetta framhald hitabygjunnar miklu sem kom í júlílok. Kaldast var -3,2 stig á Brú á Jökuldal þ. 10. en á mannaðri stöð -0,5 stig þ. 12 á Torfum. Sólskin var í kringum meðallag í Reykjavík en í rösku meðallagi á Akureyri. Þar var líka óvenjulega þurrt en nokkuð vott syðra.
Rússneska nóbelskáldið Alexander Solsjenítsín dó. þ. 3. en á ólympíuleikunum í Peking hlutu Íslendingar silfrið í handbolta undir lok mánaðarins. - Hrunið lúrði svo handan við hornið.
Nú verður lauslega vikið að næstu tíu hlýjustu mánuðum. Umsögnin verður þó stundum næsta snautleg og aðeins er svo sem bara verið að minnna á þessa mánuði.
Árið 1945 (10,83) naut ágúst sín einkar vel inn til landsins fyrir norðan og austan eins og júlí sama ár og var þar tiltölulega hlýjast. Þetta er hlýjasti ágúst sem mælst hefur á Hólsfjöllum og hlýrri en 2003. Á suður-og vesturlandi var hins vegar úrkomusamt, einkum á suðausturlandi. Þurrast var á austurlandi. Fádæma rigningar voru á suðurlandi dagana 12.-14. með allt að 78 mm sólarhringsúrkomu þ. 12. á Ljósafossi. Olli þetta flóði í ám og flæddu Varmá í Ölfusi og Norðurá í Borgarfirði yfir bakka sína. Í Reykjavík var mjög þungbúið og er þetta þar sjötti sólarminnsti ágúst, en fyrir norðan var sæmilega sólríkt og meira sólskin en 1947. Þetta var tíundi úrkomusamasti ágúst í Reykjavík. Hlýjast varð á Hallormsstað 24,5 þ. 6., daginn sem kjarnorkusprengjunni var varpað á Hírosíma. Kaldast var -1,1 stig á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði þ. 30. Kortið sýnir mánaðarhitann í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð sem að jafnaði er 2-3 stig í ágúst.
1932 (10,64) Á suður- og vesturlandi gengu rigningar í þessum ágúst. Það rigndi líka mikið norðanlands nema vestan til en þurrara var á austurlandi. Tíðin var þó alls staðar hlý og hægviðrasöm. Meðalhiti var óvenjulega jafn um land allt. En mestur hámarkshiti varð á Eiðum 23,8 stig þ. 23. en minnstur -2,2 stig á Grímsstöðum þ. 20. Hollenskir vísindamenn komu til landsins í þessum mánuði til þess að rannsaka veðurfar.
1899 (10,64) Votviðrasamur mánuður víðast hvar og versnaði er á leið. Á Eyrarbakka var úrkoman 218 mm sem er með mesta móti. Í Reykjavík er þetta fjórði úrkomusamasti ágúst. Möðrudalur krækti í mesta hitann, 24,8 stig en Holt í Önundarfirði tók til sín mesta kuldann, - 1,9 stig.
Í ágúst 1991 féll 18 mm úrkoma Reykjavík milli klukkan 21.30 og 22.30 þ. 16. og varð miljónatjón af völdum vatnselgs. Þessi annars ágæti mánuður var svo auðvitað beint framhald af hinum sögufræga júlí 1991. Hlýjast varð í Reykjahlíð 26,8 stig þ. 3. Það var á laugardeginum um verslunarmannahelgina og er þetta mesti hiti sem mælst hefur á veðurstöð á nokkrum degi um veslunarmannahelgi frá því a.m.k. um miðja tuttugustu öld. Kaldast á landinu varð -2,1 á Brú þ. 24.
Harðlínumenn í Rússlandi gerðu misheppnaða valdaránstilraun þ. 17. og seint í mánuðinum viðurkenndu Íslendingar sjálfstæði Esystrasaltsríkjanna. Enginn annar en Pele, knattspyrnumaðurinn heimsfrægi, kom til landsins í fyrstu vikunnu.
1953 (10,58) Fremur hægviðrasamt og líka nokkuð úrkomusamt, einkum á austurlandi. Hlýjast var á Raufarhöfn 21,2 þ. 3. en kaldast -0,4 stig á Þingvöllum þ.19.
Friðrik Ólafsson varð norðurlandameistari í skák og Elly Vilhjálms söngkona kom fyrst fram opinberlega.
1969 (10,53) Þessi mánuður er sá 16. hlýjasti ágúst á landinu í heild. Hann var þó talinn mjög óhagstæður vegna mikilla votvirða á miklu rigningarsumri um allt land. Hann var svipaður ágúst 1939 að þessu leyti en sá mánuður var þó talsvert hlýrri. Í þessum ágúst 1969 mældist mesta úrkoma í ágústmánuði á veðurstöð, 552,6 mm á Kvískerjum í Öræfum. Í Stykkishomi er þetta áttundi úrkomusamasti ágúst, frá 1857. En í þessum mánuði mældist mesti hiti sem kom í Reykjavík á svölu sumrunum 1961-1975, 19,9, stig þ. 5. En mesti hiti á landinu varð 22,5 stig þ. 10. á Akureyri en kaldast -1,5 stig á Dratthalastöðum á Úthéraði þ. 22.
Woodstockhátíðin fór fram þ. 17. og skömmu síðar komu breskir hermenn til Norður-Írlands þar sem róstursamt var næstu árin.
Í að öðru leyti hægviðrasömum ágúst árið 1933 (10,53) gerði sunnan stórviðri vestanlands þ. 27. með mikilli úrkomu. Þá fórst bátur með fimm mönnum á leiðinni frá Hrísey til Ísafjarðar. Hlýjast varð á Kollsá 21,4 stig þ. 4. og 5. og þar varð einnig kaldast, 0,1 stig þ. 17. Sumarið 1933 er hið hlýjasta sem komið hefur á norðurlandi og þess var getið í sumarlok að þá hafi ýmsar fannir horfið úr fjöllum sem ekki höfðu áður horfið í manna minnum. Hér má taka fram að í sumum heimildum er sagt að þ. 11. hafi hitinn mælst 58 stig í San Luis Potosi í Mexikó og sé það heimsmet en ekki mun það þó vera viðurkennt almennt sem hitamet á jörðunni. Öll þau met sem gera tilkall til þess að vera heimsmet í hita eru umdeilt og er mesta furða að gróðurhúsaáhrifin ógurlegu skuli ekki hafa bætt þar um í eitt skipti fyrir öll.
1950 (10,53) Ágúst árið 1950 var alræmdur rigningarmánuður á austurlandi. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma á Dalatanga (frá 1938), 407 mm. Á Seyðisfirði biðu sex manns bana af völdum skriðufalla þ. 19. er skriða gereyddi tvílyftu steinhúsi. Á suður- og vesturlandi var þetta óvenjulega hlýr mánuður. Í Reykjavík er hann fjórði hlýjasti ágúst frá 1866, á eftir 2003, 2004 og 1880. Hlýjast á landinu varð 20, 5 stig á Hamraendum í Dölum þ. 3. en kaldast 1,2 stig á Bolungarvík þ. 30. Júli var einnig hlýr í höfuðstaðnum og þess má geta að 17. júlí mældist hitinn þar 23,4 stig sem var þá mesti hiti sem mælst hafði í Reykjavík í nútímaskýli en metið var slegið 1976 og síðan nokkrum sinnum enn frekar. Í þessum ágúst munað litlu að hitimn kæmist í tuttugu stig í bænum, varð mestur 19,7 stig þ. 21. en á rafstöðinni við Elliðaáar komst hann í nákvæmlega tuttugu stig þennan dag. Þess má og geta að þann 15. mældist mesti jarðskjálfti sem þá hafði mælst í heiminum, 8,6 stig og fannst hann á mælum í Reykjavík. Upptökin voru í Assam. Austanáttinn var nær ófrávíkjanleg í mánuði þessum eins kortið sýnir sem er frá 850 hæðafletinum í um 1400 m hæð en mikið lægðarsvæði var suður af landinu.
Í síðustu vikunni fór fram evrópumótið í frjálsum íþróttum í Brussel og urðu Gunnar Huseby og Torfi Bryngeirsson þar evrópumeistarar.
1999 (10,50) Þetta var sólríkur mánuður nema á suður og suðvesturlandi. Hlýjast varð 23,7 stig þ. 4. í Lerkihlíð í Vaglaskógi. Á Hjarðarlandi fór hitinn þennan dag í 23,6 stig og mjög víða fór hitinn yfir tuttugu stig inn til landsins. Kaldast varð -2,5 stig í Möðrudal þ. 9.
Mick Jagger kom til Ísafjarðar þann fyrsta og kvikmyndaleikarinn Kevin Costner nokkrum dögum síðar og fékk hitabygjuna í ferð sinni um suðurland.
1934 (10,49) Votviðrasamt var í þessum mánum og einkum fyrir norðan og austan. Þetta er kringum sjötti votviðrasamasti ágúst að mínu tali. En það var hlýtt. Hlýjast varð 22,0 stig á Kirkjubæjarklaustri þ. 10. en kaldast 0,8 stig á Grímsstöðum þ. 23.
Þann annan dó Hindenburg og Adolf Hitler gjörðist allsráðandi í Þyskalandi að formi jafnt sem í reynd.
Í Reykjavík voru mælingar frá 1820 til 1853. Athyglin beinist þá einkum að fjórum mánuðum. Árið 1828 er með töluna 13,2 stig. Sumarið í heild var reyndar eitt það allra hlýjasta sem mælst hefur en þess bera að gæta að þessar tölur eru óvissar. Ágúst árið 1829 kemur út með 13,6 stig og er ekki hægt að finna hærri tölu fyrir meðalhita í Reykjavík í ágúst. Þó þessi tala sé ónákvæm og mjög líklega fremur of há en hitt er víst af ýmsum heimildum að mikið góðæri ríkti á landinu þetta ár. "Grasvöxtur varð góður um sumarið og nýting eins og hún getur best orðið", segir Árbók Reykjavíkur. Úrkoman var mæld 47 mm í Reykjavík í þessum fyrsta ágúst sem þar var nokkru sinni mæld úrkoma. Árið 1838 var svo meðalhitinn 13 stig í ágúst í bænum en úrkoman 34 mm. Brandstaðaannáll segir: "Í ágúst besta veðurátt og oft sterkir hitar, þó ei breiskjur til lengdar og aldrei rigningar til skemmda." Þorvaldur Thoroddsen skrifar um sumarið 1838 í Árferði á Íslandi í þúsund ár: "Sumarið var svo fagurt og blítt, að fáir mundu annað eins, og kom það að kalla jafnt yfir alt land. Var löngum hægviðri og hitar, stundum dumbingur og smáleiðingar, en þó oftar bjart og heiðskírt, einkum sunnanlands." Árið 1842 var ágúst í Reykjavík talinn 12,7 stig en úrkoman var nokkuð mikil, 89 mm. Og loks er svo ágúst 1847 í Reykjavík með 12,3 stig en úrkoman 81 mm. Þá var byrjað að mæla í Stykkishólmi og var mánuðurinn þar 11,9 stig en úrkomumælingar voru þar þá ekki byrjaðar.
Það var ekki alltaf kalt á Íslandi í gamla daga!
Og þá er orðið ljóst hvaða mánuðir eru þeir hlýjustu á Íslandi frá 1866. Top twenty five!
Ágúst 2003, 12,20
Júlí 1933, 11,92
Ágúst 2004, 11,77
Júlí 1880, 11,74
Ágúst 1880, 11,67
Júlí 1991, 11,53
Júlí 1894, 11,45
Ágúst 1939,11,39
Júlí 2008, 11,39
Júlí 1917, 11,38
Júlí 1908, 11,31
Júlí 2010, 11,29
Júlí 1936, 11,25
Júlí 1929, 11,24
Ágúst 1947, 11,20
Júlí 1927, 11,15
Júlí 1934, 11,15
Júlí 1926, 11,12
Júlí 2004,11,09
Júlí 1945, 11,08
Ágúst 2010, 11,06
Ágúst 2010, 11,06
Júlí 1941, 11,05
Ágúst 1931, 11,04
Júlí 1939, 11,02
Þetta eru 25 mánuðir. Og þar hættum við!
Í fyrra fylgiskjalinu má sjá hita og úrkomu stöðvanna 9 sem miðað er við en í hinu síðara hita, sól og úrkomu í Reykjvík í ágúst 2003 og 2004 og mesta hita hvers dags á landinu í þeim mánuðum.Skýringar.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 31.8.2012 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2011 | 13:42
Síðsumar
Hitinn í Reykjavík á menningarnótt var næstum því nákvæmlega í meðallagi. Næturhitinn var nokkru lægri en dagshitinn aðeins hærri en meðaltalið segir til um fyrir 20. ágúst. Það er meðaltal margra ára og ekki er oft sem einstaka dagur fellur nákvæmlega að meðaltalinu. Það var sólríkt í gær, sólin skein í 12,2 klukkustundir. Það var sólskinið sem olli því að mönnum fannst mikil veðurblíða.
En nokkurn veginn svona eru heiðarlegir og hversdagslegtr dagar í borginni á þessum árstíma.
Haustlegt?
Ekki til í dæminu. Það nýjasta í veðurfarsmálum á netsíðum er þó það að menn eru farnir að finna lyktina af haustinu.
Já, það er víst meiri stækjan.
Í mínum huga er enn sumar. Það er síðsumar. En það hugtak er lítið notað í seinni tíð enda heimta menn að tala um haust strax og verslunarmannahelgin er liðin.
Að mínu viti fer ekki að hausta fyrr en hámarkshiti dagsins er svona nokkurn veginn að staðaldri undir tíu stigum. Það gerist yfirleitt svona upp úr miðjum september. Stundum haustar þó fyrr en stundum seinna. Einstaka sinnum haustar verulega snemma í veðrinu, jafnvel þegar ágúst er ekki búinn. En þegar allt er nokkurn vegin eðlilegt og sómasamlegt tel ég vera síðsumar frá því um miðjan ágúst eða aðeins fyrr og fram undir miðjan september. Október finnst mér fyrst og fremst vera mánuður haustins.
Meðalhitinn í Reykjavík í þeim ágúst sem er að líða er enn meira en heilt stig yfir meðallagi og sólin er alveg um það bil að ná meðaltali alls mánaðarins en úrkoman á langt í land. Á Akureyri hefur sigið á ógæfuhliðina og hitinn þar er fallinn meira en hálft stig undir meðallagið og úrkoman komin yfir helminginn af meðallagi alls mánaðarins. Mánuðurinn er að hita undir meðallagi frá Hornströndum og austur og suður um til sunnanverðra austfjarða. Annars staðar er hitinn yfir meðallagi en þó mismikið. Kaldast er á norðausturhorninu.
En ágúst er ekki liðinn. Og haustið er ekki komið þó það sé kannski handan við hornið eins og hamingjan.
Njótum síðsumarsins meðan það enn þá varir.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 22.8.2011 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.8.2011 | 23:13
Veðurraus
Eins og fram hefur komið í fréttum var hlýtt og þurrt næstum því alls staðar á landinu í júlí . Hins vegar var víðast hvar kalt í júní, eins og sannarlega frægt er orðið, en þó ekki svo mjög á höfuðborgarsvæðinu. Í júlí var sólríkt í hlýindunum bæði fyrir norðan og sunnan. Það sem af er ágúst er hitinn 1,7 stig yfir meðallagi í höfuðborginni en á Akureyri hefur hitinn sigið lítillega undir meðallagið síðustu daga eftir ágæta mánaðarbyrjun.
Samt sem áður má furðu víða á netinu lesa um það að nú hausti snemma og það hafi ekki verið neitt sumar og þar frameftir götunum. Í dag slær svo Víkverji Morgunblaðsins einmit þennan tón. Reyndar eru skrif hans svo fjarstæðukennd og út í hött að kannski er hann einfaldlega að djóka eða um einhvers konar kaldhæðni er að ræða.
Mér datt jafnvel í hug í sjálfhverfu minni að hann væri bara að að gera at í mér til að hleypa mér upp!
Sé svo hefur það tekist fullkomlega!
Ekki kemur fram hvar Víkverji býr en líklega er það þó í Reykjavík þar sem veðrið hefur verið einna best á landinu. Segist hann hafa verið að bíða eftir sumarveðri í allt sumar en bara fengið kulda, rigningu, rok, skýjaðan himinn og almenn leiðindi.
Sumarið hefur þó hingað til verið sérlega þurrviðrasamt og eins og áður segir fremur sólríkt og vel hlýtt eftir að júní sleppti og reyndar fyrir miðjan júní hvað Reykjavík varðar. Í gær kólnaði þó nokkuð og geri ég ráð fyrir að Víkverji sé nú hreint alveg í öngum sínum! Ekki síst vegna þess að hann viðurkennir að síðustu daga hafi veðrið bara verið nokkuð gott - sem gluggaveður - þótt gert hafi frost, eins og hann segir. (Síðustu dagar hafa vissulega verið sólríkir í Reykjavík). Ansi mikið finnst mér annars hafa verið gert í fréttum úr þessum næturfrostum sem komu á einstaka stað, þessum gamalkunnu frostastöðum þar sem stundum frýs um hásumarið, í björtu hægviðri í langvinnri þurrkatíð. Það er út af fyrir sig ekki sterkt merki um haustlega tíð en einmitt þannig hefur þó oft verið lagt út frá þessu á netsíðum.
Víkverji spyr hvað sé eiginlega að frétta af hlýnun jarðar og hvað sé málið með þetta kalda sumar.
Svarið er auðvitað það að sumarið hefur alls ekki verið kalt eftir júní.
Í lokin heldur Víkverj að sumrinu hafi kannski bara verið frestað þar til á næsta ári.
Ég efast um að þá verði endilega mikið hlýrra og betra.
Og þá komum við einmitt að aðalatriðinu í veðurrausi þessu sem líta má á sem eins konar andsvar og virðingarvott við veðrurraus Víkverja!
Síðustu sumur, reyndar ótrúlega mörg, hafa verið svo óvenjulega hlý, bæði í heild og margir einstakir mánuðir, að flestir nema flón ættu að gera sér ljóst að þess sé ekki að vænta að þannig verði bara sumrin áfram von úr viti, að þetta sé hið venjulega íslenska sumar. Engan ætti því að undra þegar svo eitthvað slaknar á hlýindunumm og þau færist nær meðallagi en þó ekki nauðsynlega alveg að því. Menn hljóta að búast við því.
Gróðurhúsaáhrifin halda svo sínu striki um allan heim. Þau eru ef til vill einhver miðvirkandi áhrifavaldur um okkar hlýindi en fyrst og fremst virðist vera um einhverja náttúrulega - eða kannski öllu fremur mjög ónáttúrulega - sveiflu að ræða og er hún sannarlega umhugsunarefni.
Og hún þarf reyndar ekki neitt að vera búin. Þetta sumar æpir engan vegin með stórum stöfum: NÚ SÝNIR ''SUMARKULDINN'' AÐ HLÝINDASYRPAN ER Á ENDA! Þvert á móti eru hlýindin enn þá á heilmiklu blússi þó þau séu að vísu ekki alveg jafn geggjuð og undanfarin ár. En það hafa samt verið hlýindi yfirleitt á landinu í sumar eftir júní en ekki kuldatíð. Ef svalviðrin í júní væru meira og minna enn viðvarandi (reyndar virðast sumir telja sér trú um að svo sé) væri hægt að segja að kalt sumar hafi verið og breytt hefði stórlega um veðurtakt. En svo er bara ekki. Það hafa samt orðið vissar breytingar en þær réttlæta ekki harðindahjal.
Hvað sem síðar verður.
Fylgiskjalið vaktar veðrið áfram, á blaði eitt fyrir Reykjavík og landið, blaði tvö fyrir Akureyri.
Það er eitthvað undarlegt að gerast rétt einu sinni með hámarksmælingar í Reykjavík á kvikasilfursmnælinum. Í gær var hámarkið frá kl. 9-18 talið 16,0 stig og í dag 15,7 þó sjálfvirku mælararnir og líka á flugvellinum hafi gefið upp miklu lægri tölur.
Gott væri svo að athuganir frá Teigarhorni, næst elstu veðurstöð landsins, færu aftur að birrtast á vefsíðu Veðurstofunar en þaðan hefur ekkert komið frá sumarsólstöðum.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 21.8.2011 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.8.2011 | 20:07
Sýnið nú veðuráhugann í verki
Markaðsstjóri Austurlands vildi í frétt í gær fá fleiri veðurstöðvar á austurlandi. Í þessari frétt , sem bloggfærslan tengir við, kemur fram að þær kosti nú sitt og það hindri Veðurstofuna í að fjölga þeim.
En ég veit um ágæta lausn á þessu máli. Hún felst einfaldlega í því að sveitarfélögin kaupi fyrsta flokks veðurstöðvar í sína byggð en þær væru svo reknar af Veðurstofunni.
Ýmis fyrirtæki á markaðnum, einmitt í ferðaþjónustunni, gætu líka lagt sitt af mörkum. Sum eru víst að græða heil ósköp. Þeim myndi nú ekki muna mikið um að spandera í nokkrar veðurvélar - sem fjærst öllum kuldapollum nátturlega en þar á mót ofan í heitum pottum - sem myndi vakta góðviðrið nótt sem nýtan dag og trekkja að glás af ríkum ferðamönnum. Þeir sýndu þá góðviðrisáhugann í verki.
Ef þessir aðilar fást hins vegar ekki til að gera þetta smáræði til að auka veðurhag landsmanna og ekki síst sinna heimamanna geta þeir ekki kvartað yfir því að vanti fleiri veðurstöðvar.
Þeir ættu þá bara að hafa sig hæga.
En við fylgjumst með sumarhasarnum áfram í hinu sjóðheita fylgiskjali.
Kostnaður of hár fyrir Veðurstofuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 15.8.2011 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.8.2011 | 19:34
Veðurstöðvar á austurlandi
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands vill meina í þessari frétt að þriðjungs fækkun ferðamanna sums staðar á austurlandi stafi af því að Veðurstofan hafi spáð svakalegra veðri en svo varð. Er þó veðrið oft allsvakalegt á austurlandi og drungalega Dalatangi syngur.
Hún er reyndar að tala um sjálfvirkar vélrænar spár. Þær eru auðvitað gagnlegar en alltaf er nú Veðurstofan að brýna fyrir fólki að gæta líka að nýjustu spám í útvarpi, sjónvarpi og netmiðlum sem bæta við þær sjálfvirku.
Ekki hef ég fylgst svo glöggt með spám eða hvernig þær hafa ræst en man þó vel hve spáin var góð fyrir austurlannd um veslunarmannahelgina. Enda þusti fólk á þetta skrall á Egilsstöðum og þetta eistnaflug -eða var það neistaflug- á Neskaupstað.
Nú er reyndar verið að kanna gæði veðurspáa fyrir Ísland, bæði innlendra og erlendra.
En þessi markaðsstjóri hefur eflaust gert sjálf sína góðu könnun. Ég trúi því ekki að hún hlaupi með kvartanir í fjölmiðla nema hafa þetta allt á hreinu. Í Morgunblaðinu segir hún að kuldapollur sé á Egilsstaðaflugvelli sem ekki sé inni í Egilsstaðabæ og stafi hann af framkvæmdum á Kárahnjúkum sem hafi kælt vatnið. Oft muni tveimur eða þremur stigum á hita á flugvellinum og í bænum.
Það er reyndar merkilegt athugunarefni hvort breyting á vatninu í Lagarfljóti hafi breytt veðurfari á svæðinu.
Ég styð markaðsstjóra austurlands annars eindregið í því að þörf sé á fleiri veðurstöðvum á austurlandi, þar með talið einni í Egilsstaðabæ - sem lengst frá leginum svala.
Það vantar líka sjálfvirkar stöðvar á Úthéraði. Eina vil ég fá á Eiðum, aðra á svæðinu kringum Hjaltastað.
Ég heimta líka sjálfvirka stöð á Skriðuklaustri.
Já og í Skriðdal, til dæmis þar sem einu sinni var mönnuð veðurstöð, í Birkihlíð.
Nú, þá væri ekki úr vegi að fá veðurstöð á Sleðbrjót í Jökulsárhlið og aðra á Jökuldal, einhvers staðar á milli Fossvalla og Brúar.
Niðri á fjörðum krefst ég þess skilyrðislaust að fá öfluga veðurvél í Borgarfirði eystra og aðra ekki lakari inni í Seyðisfjarðarbæ, en ekki þarna uppi í fjallinu þar sem nú er alltaf verið að mæla tveimur til þremur stigum lægra en í bænum. Ég vil líka flytja þokubrælustöðina í Neskaupstað lengra inn í bæinn þar sem hitarnir koma almennilega. Auk þess fer ég fram á að fá veðurstöð við Kirkjuból inni í dalnum. Það gæti jafnvel orðið talsvert hitamál fyrir mér!
Loks heimta ég veðurstöð, jafnvel mannaða með einvalaliði, á Ásunarstöðum í Breiðdal þar sem 35 stiga hitinn lofar að koma í fyllingu tímans þegar 1939 bylgjan snýr aftur.
Hof i Álftafirði og Stafafell í Lóni mættu svo alveg fylgja með.
Ef þetta verður allt að veruleika efast ég ekki um að einmuna veðurblíða mun ríkja eftir það um gjörvallt austurland. Og tala ferðamanna mun rjúka upp úr öllu valdi.
„Ekki eins svakalegt“ og veðurspá gefur til kynna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 10.8.2011 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.8.2011 | 16:58
Ýkjur um veður
Framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla segir að sé ''brjáluð blíða'' á Dalvík núna. Ekki er veðurstöð á Dalvík en á Hámundarstaðahálsi, skammt frá, en reyndar í 103 m hæð, hefur hitinn varla farið upp fyrir 12 stig. Á Eyjafjarðarsvæðinu utanverðu hefur verið gola af hafi í dag og svona 11-13 stiga hiti. Það er svona þolanlegt um hásumarið og alls ekki fram yfir dæmigert meðalástand. Að kalla það ''brjálaða blíðu'', sem á víst að merkja alveg sérdeilis mikla veðurblíðu, eru vægast sagt ýkjur. Það er eiginlega merkingarleysa. En ef hefði verið 20 stiga hiti hefði þetta orðalag alveg gegnið.
En svona ýkjur mótshaldara útihátíða um veður mega heita regla. Aldrei geta þeir skýrt frá veðri á sæmilega hlutlægan og skilmerkilegan hátt. Þeir segja t.d. aldrei: það er hafgola og nokkuð skýjað en sér þó stundum til sólar og 12 stig hiti. Nei, þeir þurfa alltaf að búa til glansmynd af veðrinu út fyrir allan raunveruleika. Það á víst að bæta ímynd viðkomandi útihátíðar.
Ekki kaupi ég það athugunarlaust, fremur en ''brjáluðu blíðuna'', að nú sé sólskin í ellfta sinn í röð á Fiskideginum. Hvað er til dæmis átt við með þessu orðalagi? Að sjáist eitthvað til sólar eða alltaf hafi verið glaðasólskin? Ellefu skipti í röð! Það er á móti öllum líkum.
Ef einhver skyldi svo freistast til að halda að þessi ellefta meðferð á veðurfari eigi að sýna hvað alltaf sé sólríkt fyrir norðan þá er það óhagganleg staðreynd að sól skín á sumrin meira í Reykjavík heldur en fyrir norðan.
Vel á minnst. Í Reykjavík fór fram gleðiganga í dag í alveg snarbrjálaðri blíðu. Sólin skein bara alveg og skein allan guðslangn daginn og hitinn var 15-16 stig á mælum Veðurstofunnar.
En við höfuðstaðabúar erum nú svo sem vanir slíku og þurfum ekki að búa til neinar glansmyndir. Bara telja fram beinharðar staðreyndir!
Brjáluð blíða á Dalvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 11.8.2011 kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.8.2011 | 19:03
Tuttugu stig í Reykjavík
Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði! Komst ekki hitinn í nákvæmlega tuttugu stig í höfuðborginni á kvikasilfursmæli þó ekki sæi til sólar. Á sjáfvirka mælinum fór hitinn í 20,2 stig. Á flugvellinum fór hitinn í 20,7 stig, 20,7 á Þyrli og 20,4 í Straumsvík. Hlýjast á landinu varð 20,9 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi.
Annars kom þetta svo sem ekkert sérstaklega á óvart. Hlýtt loft er yfir landinu og áttin hagstæð fyrir okkur hér á vesturlandi.
Fáir dagar eru jafn sjarmerandi eins og góðviðrisdagar snemma í ágúst og jafnvel enn fremur þegar skýjað er en glaðasólskin. Þá er svo mikil blómleiki og fylling í náttúrunni.
Við suðurströndina hellirigndi. Í Vík í Mýrdal mældust 40,5 mm kl. 18 frá því kl. 9 í morgun.
Kannski að við fáum nú tólf stiga ágúst að meðalhita ofan í öll ''harðindin''!
Og ef ég á má kalla fram æði sérvitrinslega veðurnostalgíu minnir þessi dagur mig sterklega á 5. ágúst 1969! Þá komst hitinn í 19,9 stig í ekki ósvipuðu veðri, þó suðlægara væri, og var það dagshitamet hámarkshita fyrir Reykjavík sem nú var þá slegið. Varla er þó von til þess að meðalhitadagsmetið verði slegið.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 6.8.2011 kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2011 | 18:30
Ótrúleg hlýindi
Meðalhitinn í júlí síðastliðnum var 12,2 stig í Reykjavík. Í einni frétt var sagt að ekki hafi verið kaldara í fimm ár. Það er að vísu alveg rétt en orðalagið er samt mjög villandi. Menn gætu haldið að hér væri þá um kaldan mánuð að ræða.
En það er öðru nær.
Meðalhiti júlí í Reykjavík 1961- 1990 er aðeins 10,5 stig. Þetta var fremur kalt tímabil en árin 1931-1960 var hann 11,4 stig.
Sjaldgæft er yfirleitt að meðalhiti nái tólf stigum í Reykjavík.
Það hafa júlímánuðir eftirfarandi ára gert, innan sviga er hitatalan: 2010 (13,0), 2009 (12,8), 2008 (12,5), 2007 (12,8), 2003 (12,1), 1997 (12,0), 1991 (13,0), 1960 (12,2), 1958 (12,0), 1957 (12,0), 1950 (12,4), 1944 (12,6), 1939 (12,55), 1936 (12,8), 1933 (12,4), 1917, (12,7), 1894 (12,2), 1880 (12,2).
Auk þess hafa fimm ágústmánuðir náð tólf stigum, 2001 (12,1), 2004 (12,6), 2003 (12,8), 1950 (12,1) og 1880 (12,4).
Eftir 1960 voru sumur á suðurlandi alveg einstaklega svöl um langa hríð. Frá 1961-1990 var enginn í júlí í Reykjavík hlýrri en 11,6 stig (1968) og aðeins tveir eða þrír aðrir júlímánuðir náðu meðallaginu 1931-1960. (Flutningar veðurstöðvarinnar og endurreikningur meðaltala vegna þess veldur nokkurri óvissu). Loks kom svo þessi metmánuður í júlí 1991 með hita upp á þrettán stig. Þá voru komin nákvæmlega 30 ár frá því einhver júlí, eða annar mánuður, náði tólf stiga meðalhita í Reykjavík og er það út af fyrir sig einsdæmi í svo langan tíma.
Aðrir sumarmánuðir á þessum köldu árum voru svo ekkert hlutfallslega skárri. Meðalhiti sumarsins, júní til september 1931-1960 var í Reykjavík talinn 10,1 stig eftir endurreikning en meðaltal áranna 1961-1990 er 9,3 stig.
Enginn smáræðis munur. Hann virðist reyndar kannski ekki mikill sem tala á blaði en í upplifun manna í raunveruleikanum um svo mörg ár stendur þetta fyrir miklar breytingar.
Þeir sem muna sumargóðærið, eða a.m.k. síðasta huta þess, sem ríkti að öllu jöfnu fyrir 1960 (og líka á öðrum árstíðum) og voru ofurlítið meðvitaðir um það sem þeir upplifðu, hnykkti eiginlega í brún þegar aldrei, bókstaflega aldrei, kom eftir það verulega hlýr sumarmánuður, hvað þá heil sumur, áratug eftir áratug. Stundum komu vitanlega skammlausir mánuðir eða nokkrar vikur sem voru svo sem hlýjar og sólríkar og notalegar en það duldist ekki að eitthvað mikið vanatði miðað við sem menn höfði upplifað þar á undan. Og furðu oft voru bara hreinir kuldar og stundum mikil votviðri með kuldanum. Fyrir norðan var líka yfirleitt sumarkalt á þessum ár en þó komu þar nokkrir afbragðs hlýir mánuðir sem ekki komu í Reykjavík. En köldu sumarmánuðirnir fyrir norðan, og þeir voru margir, voru enn ógeðlegri en syðra á þessum tíma.
En bíðum nú við. Eftir þennan undramánuð júlí 1991 fór eitthvað að gerast. Það sumar náði meðallagi í Reykjavík miðað við 1931-1960. Næstu sumur voru svöl en frá og með 1996 hafa öll sumur í Reykjavík verið yfir meðallaginu 1961-1990 og öll nema þrjú nokkurn veginn eða alveg náð meðallaginu 1931-1960 eða meira. Síðasta áratug hefur enn hert á sumarhlýindunum. Meðalhiti síðustu tíu ára er um það bil hálft stig yfir meðalaginu 1931-1960 og meðallag síðustu fimm ára er 0,8 stig yfir því hlýindameðallagi og þá 1,4 stig yfir gildandi langtímameðallagi 1961-1990!
Ef miðað er við allt landið á þann hátt sem ég hef verið að leika mér með í pistlunum um hlýjustu og köldustu mánuði er svipað uppi á teningnum. Meðalhiti sumars síðustu tíu ár yfir landið er 1,2 stig yfir meðallaginu 1961-1990 og 0,5 stig yfir hlýindameðaltalinu 1931-1960.
Nýliðinn júlí, sem á landsvísu er líklega tiltölulega hlýrri en hann var í Reykjavík, var alveg í sama stíl og sumrin hafa verið síðustu ár sem eru reyndar orðin svo mörg og hlý að þau eiga sér enga hliðstæðu. Nú hafa komið fimm júlímánuðir í röð með yfir tólf stiga meðalhita. Ótrúleg hlýindi!
En geta þessi hlýindi staðið alveg endalaust? Hvað gerist þegar bakslagið kemur? Það verður geðslegt- eða hitt þó heldur!
Ég vona að minnsta kosti að þá verði ég dauður og kominn á einhvern verulega heitan og notalegan stað!
Fylgjumst svo með ágúst á þessum síðustu og langheitustu tímum.
Bloggar | Breytt 5.8.2011 kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006