Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs
23.5.2012 | 13:35
Vorið er komið
Ekki fer á milli mála að vorið er komið. Meðalhitinn gæti alveg náð meðallagi áður en mánuðurinn er úti.
Tuttugu stigin gætu verið handan við hornið eins og hamingjan.
Fylgiskjalið er aftur komið á kreik eftir krankleika skjalavarðar!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 28.5.2012 kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2012 | 12:39
Nú fer ballið að byrja
Maí byrjaði ekki illa. Meðalhitinn hefur verið yfir meðallagi fram á allra síðustu daga að hann fór niður fyrir það í Reykjavík. Þar er hitinn 0,7 stig undir meðallagi. Á Akureyri er hann hins vegar 0,3 stig yfir meðalhita ellefu fyrstu dagana.
Kuldinn strax eftir helgi virðist ætla að verða ansi ískyggilegur.
Þetta kast er nokkuð síðbúið miðað við styrk þess. Það verður kominn miður maí þegar það verður upp á sitt besta eða versta öllu heldur, dagana 14-16.
Þess má hér endilega geta að hlýjustu dagar sem mælst hafa í maí í Reykajvík voru 14. og 15. árið 1960 upp á 14,5 og 14,9 stig að meðalhita og með hámarkshita upp 19,5 og 20,6 stig á en 15. maí 1988 var með meðalhitann 14,8 stig og hámark 18,8.
Mikið kuldakast skall yfir um þetta leyti árið 1955. Þá var meðalhitinn Reykjavík -1,3 stig þ. 14. og -0,2 stig daginn eftir.
Í þeim ofurkalda maí 1979 var sá 18. -0,4 stig að meðalhita í Reykjavík og er þetta síðasta dagsetning að vori í borginni með meðalhita undir frostmarki.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 22.5.2012 kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2012 | 13:25
Eftir apríl kemur maí
Apríl slapp alveg sæmilega. Hann var þurr og snjóléttur, fremur hlýr nema á austurlandi og allt í lagi sólarlega, reyndar komu nokkrir óvenjulega góðir og samfelldir sólardagar í Reykjavík.
Eftir úrkomuna síðustu daga hefur gróður þotið upp og orðinn venju fremur mikill í görðum í Reykjavík svona í blábyrjun mámánaðar.
Nú er bara að vona það besta með maí.
Undanfarið hafa verið mikil hlýindi í austur og mið Evrópu, mjög nærri því hlýjasta sem gerist eftir árstíma og sums staðar meira en það. Leiðinda kast er nú að hellast yfir Norðurlönd.
En við fylgjumst með veðrinu á okkar landi í fylgiskjalinu.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 12.5.2012 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2012 | 14:02
Sumarkoma
Sumarið byrjar með bjartviðri á öllu suður og vesturlandi, alveg frá Hornafirði vestur um að Ísafjarðardjúpi. Hins vegar hefur verið að kólna síðustu daga. Síðustu tveir dagarnir hafa verið þeir einu sem hafa verið undir dagsmeðalhita í Reykjavík það sem af er mánaðar. En þeir voru reyndar sólríkustu dagar ársins það sem af er í höfuðstaðnum.
Eftir helgi mun víst lítillega hlýna. Engin stórhlýindi eru þó framundan.
Meðalhitinn í Reykajvík er nú 4,1 stig eða 2,2 stig yfir meðallagi. Á Akureyri er hann 1,6 stig og er það 1,1 stig yfir meðallagi.
Í nótt snjóaði sums staðar á austurlandi og var snjódýpt í morgun 15 cm á Gilsá í Breiðdal, 14 á Hánefsstöðum í Seyðisfirði og 10 cm á Skjaldingsstöðum í Vopnafirði. Snjólítið eða snjólaust er annars staðar á landinu nema helst sums staðar við Eyjafjörð, þar sem hefur verið dálítill snjór, en þó er alautt á Akureyri. Snjór er samt meiri en hann var eftir mestu hlýindin í lok mars.
Á nokkrum stöðum á norður og norðausturlandi er úrkoma þegar komin yfir meðallag. Á suðausturlandi hefur aftur á móti verið sérlega þurrviðrasamt miðað við það sem venjan er. En það er enn heilmikið eftir af mánuðinum.
Dægursveifla hitans hefur verið óvenjulega mikil undanfarið eins og hér má sjá. Þurrkar þessir og hitabrigði eru ekkert sérlega hagstæð fyrir gróðurinn sem þó er í Reykajvík á góðu róli. Tré farin að blómgast heilmikið og vorlegt um að litast í görðum.
Ekki fer víst að rigna fyrr en eftir helgi.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 3.5.2012 kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2012 | 12:14
Veðurfréttir í sjónvarpinu
Þessi frétt sem hér er vísað til er nú mest lesna fréttin á mbl.is. Það hafa 352 líkað hana og fimm hafa bloggað um hana. Á fasbók hefur nokkuð verið með þetta gert hvað ég hef séð til.
Um er að ræða mistök tæknimanna - ekki veðurfræðingsins. Þau eru á engan hátt merkileg en það er óvanalegt að sjá svona og sumum finnst það skemmtilegt. Og auðvitað er þetta eins saklaust og hugsast getur. En veðurfréttir eru samt ekki og eiga ekki að vera skemmtiefni þó furðu oft séu menn með einhvers konar kröfur í þá átt.
Það segir sína sögu að nær aldrei er veðurfréttum, þegar ekkert ber út af, gefin minnsti gaumur í blogg eða fasbókarati fólks - ef undanskildir eru veðurfræðingarnir sjálfir sem blogga og einn eða tveir af skringilegustu sérvitringum landsins!
Um veðurfregnirnar sem slíkar er aldrei rætt.
Ég gríp þá gæsina á meðan hún gefst og segi þetta: Í sjónvarpsveðurfregnum ættu menn að einbeita sér að Íslandi einu og sleppa þessari yfirferð um Evrópu og Ameríku sem hægt er að sjá á erlendum veðurvefum og reyndar líka venjulegum fréttavefum. Við það gæfist meiri tími til að fjalla um veðrið á landinu.
Hitt er annað mál að sjónvarpsveðurfréttir skipta æ minna máli. Þær koma einu sinni á sólarhring en á netinu er hægt að sjá veðurfréttir frá öllum heimshornum hve nær sem menn vilja í miklu meiri smáatriðum en hægt er að koma við í sjónvarpi.
Veðurfréttamaður RÚV vekur athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 11.4.2012 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.4.2012 | 01:39
Apríl er grimmastur mánaða
Mér finnst nú alltaf komið vor þegar fyrsti apríl kemur. En það geta alltaf komið vorhret. Einstaka sinnum heldur veturinn jafnvel bara áfram frá mars eins og ekkert hafi ískorist langt fram í mánuðinn.
Ég gef nú lítið fyrr þessa fullyrðingu skáldsins T. S. Eliot sem felst í fyrirsögninni. Mjög oft er þó til hennar vitnað og á víst að vera voða fínt.
Fylgiskjalið heldur áfram að njósna um veðrið en fellir enga dóma. En Allra veðra von bendir á nýjustu gerð skáldsins T. S. Eliots á veðurvísum sínum, er hann gekk frá skömmu fyrir andlátið og fundust nýlega á háalofti og komið hefur verið til útgáfu.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 9.4.2012 kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2012 | 21:00
Met eða ekki met - það er hin regindjúpa spurning!
Þetta var nokkuð æsilegur dagur á austurlandi. Hitinn á sjálfvirku veðurstöðinni á Teigarhorni fór í 18,2 stig. Þar hefur mælst mest á mönnuðu stöðinni ( sem er ný hætt) í mars 16,0 stig þ. 7. árið 1968 og mikið man ég vel eftir þeim degi.
Þetta hlýtur að teljast marsmet á stöðinni sem hefur stritað baki brotnu við að mæla hitann frá 1873.
Á sjálfvirkri stöð Veðurstofunnar á Kvískerjum fór hitinn í 18,6 stig.
Það er samt EKKI met á sjálfvirkum stöðvum Veðurstofunnar. Á Eskifirði mældust 18,8 stig þ. 28. árið 2000 og reyndar 17,0 stig daginn áður.
Í dag mældust hins vegar 19,6 stig á sjálfvirku stöð vegagerðarinnar við Kvísker.
Það er hæsta tala sem nokkur veðurstöð hefur mælt í marsmánuði á Íslandi.
En er þetta þá íslandsmet fyrir mars?
Það hefði verið meira gaman ef þetta hefði mælst á sjálfvirkri stöð Veðurtofunnar, að ekki sé nú talað um kvikasilfursmæli. Einhvern veginn á ég erfitt með að samþykkja þetta sem gilt Íslandsmet. Metið frá Eskifirði standi í rauninni enn. Ekki ætla ég þó að fara í hart út af því!
Ég bíð eftir kvikasilfursmeti sem er hærra en Sandsmælingin frá 1948, 18,3 stig, eða sjálfvirkri mælingu á einhverri stöð Veðurstofunnar sem er hærra en 18,8.
Á Kollaleiru, Neskaupstað og Seyðisfirði halda metinn sem komu fyrir fáum dögum.
Á Akureyri var sett dagshitamet, 15,2 stig og ætli það sé ekki næstmesti hiti sem þar hefur mælst í mars. Dagshitamet fyrir sólarhringsmeðalhita alls marsmánaðar (frá 1949) er ekki ólíklegur. Núverandi met er 11,2 stig frá þeim 28. árið 2000.
Mýri í Bárðardal bætti svo marsmetið sitt í dag upp í 12,6 stig (frá bara 1970).
En eins og ég sagði þegar hitahasarinn byrjaði:
Allt undir 20 stigum verða vonbrigði!
Hitametið í mars fallið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2012 | 19:22
Allt fór ekki á versta veg - en vonbrigði samt
Hitinn í dag fór í 18,2 stig á kvikasilfursmælinum á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Það er mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi í mars á slíkum mæli í nútíma hitamælaskýli. Og þetta er aðeins 0,1 stigi lægra en mesti hiti sem mælst hefur í mars á kvikasilfursmæli, en í gamaldags skýli, á Sandi í Aðaldal þann 27. árið 1948.
Ég verð því að éta ofan í mig, með glöðu geði, fyrri fullyrðingar um það að allt hafi farið á versta veg. Það er náttúrlega fjarri lagi en samt er ergilegt að marshitametið hafi ekki verið slegið, þetta elsta kvikasilfurshitamet að vetrarlagi á landinu.
Hitinn í dag er marsmet fyrir Skjaldþingsstaði (frá 1994) og reyndar mesti hiti sem mælst hefur í mars í Vopnafjarðarhéraði öllu með kvikasilfri (frá 1930).
Þetta er líka dagshitamet fyrir hámarkshita á landinu en gamla metið var líka frá Skjaldþingsstööum, 16,2 stig frá 2005.
Á Syðisfirði fór hitinn í dag sjálfvirkt í 17,6 stig og var mældur í 92 metra hæð. Gaman hefði verið ef hann hefði enn verið mældur skammt frá kirkjunni eins og lengi var á mannaðri stöð. Marsmetið á þeirri stöð (1958-2002) var 15,2 stig.
Á Akureyri var dagshitametið frá 2005 jafnað, 14,4 stig. Aftur fór hitinn í dag á Torfum í Eyjafjarðardal í 15,1 stig eins og þann 24. og er það þá jöfnun á marsmeti þar en aðeins hefur verið athugað í mars frá 1998.
Marsmet var hins vegar sett á Mýri í Bárðardal 12,2 stig (frá 1979).
Á Kollaleiru í Reyðarfirði fór hitinn í dag alveg sjálfvirkt í 15,6 stig en metið á gömlu mönnuðu stöðinni (1977-2006) var 14,6 stig. Á Neskaupstað mældust 15,8 í dag en metið á mönnuðu stöðinni (1976-2000 og eitthvað) var 14,0. Ekki man ég í bili hvað sjálfvirku stöðvarnar á þessum stöðum hafa mælt.
Egilsstaðir og Hallormsstaður halda örugglega sínum gömlu og góðu metum. Hins vegar fór Brú á Jökuldal sjálfvirkt í 11,3 stig en mest hefur hún mælt á kvikasilfur 10,5 stig (1970-1998).
Það eru mikil vonbrigði að metið frá 1948 hafi ekki verið slegið vafalaust í eitt skipti fyrir öll.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 28.3.2012 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2012 | 13:36
Allt fer víst á versta veg
Ekkert stórkostlegt gerðist í hitamálunum í gær. Þó komu dagshitamet að meðalhita bæði í Reykjavík og á Akureyri eins og sést í fylgiskjalinu. Hámarkshiti varð mestur 15,0 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði sem ekki er þar marsmet og ekki heldur dagshitamet á landinu að hámarkshita.
Á hádegi í dag var þykktin yfir Egilsstöðum 5480 metrar sem er hásumarástand og ætti að duga í ein 20 stig eða meira ef allt færi á allra hugsanlega besta veg. Á Vatnsskarði, fjallveginum til Borgarfjarðar eystra var 12 stiga hiti í 430 metra hæð á hádegi en slíkur hiti sést þar varla um hásumarið því þetta er skítaveðursheiði mikil. En á láglendi hefur hitinn ekki náð sér neitt á strik enn þá miðað við þær glæstu vonir sem til hans eru gerðar. Þó hafa komið 16 stig niðri á austfjörðum. En hvað er það!
Allt virðist ætla fara á versta veg.
Ekki kom háloftaathugun frá Keflavík á hádegi en þær eru orðnar æði stopular þar í seinni tíð en þar munu þó ekki vera jafn sérstök hlýindi í háloftunum og yfir austurlandi.
Í Reykjavík hefur hitinn enn ekki náð 10 stigum í þessum mánuði. Slíkur hiti er þar enda fremur sjaldgæfur í mars. Frá 1872 hefur hann aðeins komið í 18 mánuðum, þar af fimm frá 2001, en einstaka sinnum oftar en einu sinni í þeim mánuðum sem hann kom.
Andstyggilegu kuldakasti með frosti allan sólarhringinn er svo spáð í mánaðarlok!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.3.2012 | 19:14
Hitamet byrjuð að falla
Hlýindahasarinn er þegar byrjaður þó þetta sé vonandi bara bláupphafið.
Í dag mældist hitinn 15,0 stig á sjálfvirku stöðinni á Seyðisfirði, sem er reyndar í um 100 m hæð.
Það mun vera dagshitamet á landinu. Gamla metið var 14,9 stig frá árinu 1964 í Fagradal í Vopnafirði. Það var kvikasilfursmæling en í dag mældust 13,6 stig á kvikasilfrinu á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Þetta er nokkuð frá allsherjar marsmeti á þessum stöðvum. Á Seyðisfirði er það met þó ekki nema 15,4 stig, frá þeim 28. árið 2000.
Á Akureyri fór hitinn í dag í 12,0 stig og er það jöfnun á dagshitameti hámarkshita frá 1959. Miklar líkur eru á því að dagshitamet sólarhringsmeðalhita falli þar líka.
Þess ber að geta að dagshitametalistinn minn, sem er að mestu leyti tekinn saman af mér, auðvitað eftir gögnum frá Veðurstofunni, getur stundum verið ekki alveg réttur en mikið vesen er að týna metin saman og villur geta auðveldlega slæðst inn. Hann er samt í sífelldri leiðréttingu og borinn saman við aðra sams konar lista sem hafa birst á netinu en ekki er endilega til einn réttur listi. Ég reyni t.d. að sía út hin svokölluðu tvöföldu hámörk, (frá deginum áður) en það getur stundum verið brösugur og óviss bissness. En fáir hafa líklega miklar áhyggjur af þessu!
Gaman verður svo að fylgjast með hitanum næstu daga.
Allt nema skýr 20 stig verða vonbrigði!
Viðbót: Dagshitamet að meðalhita var sett á Akureyri og líka - nokkuð óvænt- í Reykjavík. Frostmarkshæð yfir Keflavík er í um 2300 metra hæð nú á miðnætti.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 24.3.2012 kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006