Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Hár næturhiti

Nokkuð hár næturhiti var á landinu í nótt. Næstum því alls staðar upp um allar sveitir, jafnvel til fjalla á norðausturlandi, var hann yfir tíu stigum. Á Kirkjubæjarklaustri fór hann ekki lægra en í 15 stig slétt. Minnstur var hann við austurströndina, 5,7 stig í Seley.

Hár næturhiti er oft ávísun á háan sólarhringsmeðalhita ef síðdegishitinn verður sæmilegur. 

Á hádegi var hlýjast á suðausturlandi, 23 stig á Kirkjubæjarklaustri og 21-22 víða annars staðar frá Mýrdalssandi að Öræfum. Þarna er þykktin nú hæst yfir landinu og gæti kannski komið 25 stiga hiti.

Því miður stefnir svo kuldapollur á austanvert landið en stansar þó ekki lengi við- vonandi. 

Það er alltaf gaman að svona háum næturhita. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Undarlegar mælingar

Nokkrar undarlegar mæliniðurstöður hafa sést á vef Veðurstofunnar í dag.

Í fyrsta lagi var sólarhringsúrkoman í morgun gefin upp sem 39 mm á Brjánslæk. Ekki trúi ég því.

Í öðru lagi var skráður hámarkshiti á Akureyri frá kl. 18 í gær til kl. 9 í morgun sagður 22,0 stig. Erfitt er að koma því heim og saman við mælingar á mönnuðu stöðinni á athugunartímum og þá ekki síður samfelldar mælingar á sjálfvirku stöðinni. Síðdegis í dag fór hitinn á Akureyri hins vegar í slétt tuttugu stig. 

Í þriðja lagi var hámarkshitinn í Æðey núna kl 18 tilfærður sem 24,0 stig. Það væri met á stöðinni í hvaða mánuði sem væri. Á Ísafirði var reyndar 18 stiga hiti mest í dag en annars staðar minna í Djúpinu. Ég er vantrúaður á þessa tölu í Æðey þó ekki þori ég að hengja mig upp á að hún sé ekki rétt. Hæsti hiti sem þar hefur nokkru sinni mælst er reyndar hlægilega lágur. Þetta er enginn hitastaður.

En það er aldrei að vita! 

Nú er víst allt hvort eð er vitlaust í veðurmálunum í heiminum, hitabylgja í Ameríku, rigningar í Bretlandi og Rússlandi og helvítis kuldar bara á norðurpólnum!

Á þessu er náttúrlega bara ein skýring, enda hefur veðrátta heimsins aldrei áður hlaupið út undan sér: 

GRÓÐURHÚSAÁHRIFIN ÓGURLEGU!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júnímánuður með ólíkindum

Það má með sanni segja að júní sem var að líða hafi verið þurrviðrasamur og sólríkur. 

Hann er meira að segja þurrasti júní sem mælst hefur í Stykkishólmi alveg frá 1857.

Þurrkamet fyrir júní hafa verið sett á fjölmörgum veðurstöðvum vestanlands, með mislanga mælingasögu, allt frá Faxaflóa og að Ströndum og Tröllaskaga.

Ekki var þó þurrkametið slegið í Reykjavík. 

Svo kemur það í ljós í fyrramálið hvort þetta sé ekki næst sólríkasti júní sem mælst hefur í Reykjavík og þar með einn af fimm sólríkustu mánuðum sem mælst hafa nokkru sinni í höfuðborginni. 

Loks er mánuðurnn alveg við það að komast inn á lista yfir tíu hlýjustu júnímánuði í Reykjavík en fremur kalt var reyndar víða á austanverðu landinu. 

Þessi kosningamánuður var sem sagt ekkert venjulegur. Það má jafnvel segja að hann sé um sumt með hreinum ólíkindum eins og ýmislegt í úrslitum forsetakosninganna! 

Viðbót 1.7.: Júní sem var að líða er sá næst sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík og þriðji sólríkasti mánuður yfirleitt sem þar hefur mælst. Og þetta er sólríkasti mánuður sem komið hefur í borginni eftir maí 1958. Það er því engin þörf að kvarta þegar blessuð sólin skín. - Þrátt fyrir allt.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólarminnstu júnímánuðir

Vitaskuld er minni ljómi yfir mjög sólarsnauðum sumarmánuðum en afar sólríkum. Þess vegna verður umfjöllunin um sólarlitla júnímánuði öllu fátæklegri en pistillinn um þá sólríku

Sumrin 1913 og 1914 voru alræmd rigningarsumur á suðurlandi. Sólinni var þá ekki fyrir að fara. Seinna sumarið var  reyndar sumarið sem Þórbergur réði sig til að mála hús að utan en þar sem aldrei þornaði á steini var ekkert hægt að mála og hann fékk því ekkert kaup munaði minnstu að ofvitinn dæi úr hungri. Ef við teljum Vífilsstaði til Reykjavíkur, en þar hófust sólskinsmælingar árið 1911, er júní 1914 sá sólarminnsti sem mælst hefur í höfuðborginni með aðeins 61 sólskinsstund en meðaltalið 1961-1990 er 161 stund. Engar úrkomumælingar voru þá í Reykjavík en hins vegar á Vífilsstöðum. Þar var úrkomumagnið ekkert sérstaklega mikið en fáir þurrir dagar. Í Vestmannaeyjakaupstað mældist aftur á móti meiri úrkoma en þar mældist á árunum 1881-1921 en eftir það var veðurstöðin flutt til Stórhöfða. Hrakleg og svöl tíð var talin á vestanverðu landinu en fyrir norðan var besta tíð og alveg þokkalega hlýtt. Í heild var hitinn á landinu kringum hálft stig undir meðallaginu 1961-1990 sem við þekkjum best og ekki svo sem að góðu en hér er alltaf miðað við þetta meðaltal hvað hita varðar. Úrkoman var í rúmu meðallagi á landinu miðað við þær örfáu stöðvar sem lengst hafa athugað árin 1931-2000. Þetta var annars ekkert venjulegur mánuður í heiminum. Fyrri heimstyrjöldin hófst í mánaðarlokin. 

Júní 1913 er sá fimmti sólarminnsti í Reykjavík með 104 sólarstundir. Hann var reyndar þurrari en 1914, en samt talinn rigningarsamur syðra en skárri fyrir norðan en  alls staðar var hann  í svalara lagi og aðeins kaldari en 1914.  En úrkoman var undir meðallagi. 

Fjórði sólarminnsti júní í borginni er 1925,  95 stundir. Úrkomusamt var á suðurlandi og hiti ekki langt frá meðallagi en vel hlýtt fyrr norðan og þar með telst mánuðurinn meira en eitt stig yfir meðalaginu á landinu í heild. 

Árið eftir, 1926, mældist svo áttundi sólarminnsti júní á Akureyri, 130 klukkustundir. Í Reykjavík skein sólin reyndar tíu stundum skemur þó úrkoma væri lítil en þar sem mælingasagan er nokkru lengri í  Reykjavík en á Akureyri kemst mánuðurinn þar ekki á topp tíu listann yfir sólarminnstu júnímánuði en er reyndar í ellefta sæti. Mætti kannski leika sér að því að kalla þetta sólarnauðasta júní sem mælst hefur á Íslandi! Miklar rigningar voru austanlands og á Teigarhorni var þetta úrkomusamasti júní sem komið hafði frá 1874, 213,5 mm en það met var þó slegið árið 2003, 234 mm.  

Á miðju hlýindaskeiðinu á fyrra hluta tuttugustu aldar, 1938, mældist svo sólarminnsti júní á Akureyri, 94 klukkustundir en meðaltalið er 177 stundir 1961-1990. Fádæma úrkoma var þennan mánuð á ýmsum útskögum fyrir norðan. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma í júní í Grímsey, á Raufarhöfn, nyrst á Tröllaskaga, á Ströndum og í Bolungarvík. Reyndar ekki heldur á Lambavatni á Rauðasandi  þar sem þetta var fyrsti júní sem úrkoman var mæld.  Í Reykjavík var fremur sólríkt. Svalt var alls staðar og leiðindatíð.

Júní  1946 var sá fimmti sólarminnsti á Akureyri með 120 stundir en fremur sólríkt var á suðurlandi. Þetta var kaldur mánuður, um hálft stig undir meðallaginu á landinu eins og júní 1938. Alræmt kuldakast gerði snemma í mánuðinum með snjó sums staðar á láglendi fyrir norðan.

Enn kaldari júní í heild, 1952, var svo sá tíundi sólarminnsti á Akureyri með 130 klukkustundir en hann er sá fimmti sólríkasti í Reykjavík, Hans er að illu getið í pistlinum um sólríkustu júnímánuði. Hann reynist vera tíu kaldasti júní á landinu frá 1866 og sá tíundi þurrasti. Metavænn júní! En á verri veg! 

Kringum 1960 komu nokkrir mjög sólarlitlir júnímánuðir í Reykjavík.

Níundi sólarminnsti júní þar var 1958, 119 stundir, en þá var fremur sólríkt á Akureyri. Úrkoman á landinu var aðeins um helmingur af meðallaginu en hitinn var  í kringum meðallag. 

Áttundi sólarminnsti var 1960 með 116 stundir og þá var lítil sól einnig fyrir norðan. Úrkoman var um einn fjórða fram fyrir meðallagið á landsvísu.

Þrátt fyrir þessa slöppu sumarbyrjun áttu sumrin 1958 og 1960 er upp var staðið eftir að verða eftirminnileg sólskinssumur í Reykjavík og á suðurlandi og teljast þar enn með betri sumrum fyrir sól og hita.

Júní 1962 var svo í Reykjavík sá tíundi sólarminnsti með 119 stundir og ekki var mikið skárra fyrir norðan. Úrkoman á landinu var líka mikil. 

Júní 1969 tel ég þann þriðja úrkomusamasta á landinu. Og hann er sá sjötti sólarminnsti í Reykjavík  með 106 stundir. Við suðurströndina var þetta einn af tveimur eða þremur  úrkomusömustu mánuðum í júní og í Stykkishólmi er þetta sjötti úrkomusamasti júní, allar götur frá 1857 með 80 mm en metið er frá 1889, 105 mm. Fremur sólríkt var fyrir norðan. En í hönd fór svo eitthvert hið mesta rigningarsumar í öllum landshlutum.

Næsti júní á undan, 1968, var aftur á móti næst sólarminnsti júní sem mælst hefur á Akureyri með 102 sólarstundir. Þetta var á miðjum hafísárunum.

Skammt var svo á Akureyri í þriðja sólarminsta júní, 1972, með 111 stundir. Þetta er einnig úrkomumesti júní á Akureyri, 117,2 mm. Á Fljótsdalshéraði, í Æðey og sums staðar í Þingeyjarsýslum hefur heldur aldrei mælst eins mikil júníúrkoma. Ég tel þetta raunar tíunda úrkomusamasta júni á landinu en það er ekki sérlega nákvæmt tal en gefur þó bendingu.

Níundi sólarminnsti júní á Akureyri var svo ekki langt undan, 139 stundir, árið 1975. Þetta var afar kaldur mánuður og er reyndar sá fimmti kaldasti júní á landinu að mínu tali frá 1866.

Árið 1983 kom sjötti sólarminnsti júní á Akureyri með 121 stund. Ég tel hann einnig sjötta úkomumesta júní á landinu. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma í Vestmanneyjum í júní eða rigningarbælinu Vík í Mýrdal og aðeins einu sinni á Eyrarbakka, 1887, í dálítið sundurslitinni en samt langri mælingasögu. Metúrkoma var einnig á Hæli í Hreppum, Mýrum í Álftaveri, Brekku í Norðurárdal og jafnvel Hólum í Hjaltadal og Vopnafirði. Þessar stöðvar mældu allar nokkuð lengi en mælingarsagan var þó mislöng og ekki alltaf samhliða. Í mánuði þessum mældist svo minnsta lofvægi sem mælst hefur á landinu í júní, 957,5 hPa í Vestmanneyjum að morgni þess ellefta. Sumarið átti eftir að reynast eitthvert það sólarminnsta og allra kaldasta á suður og vesturlandi en var þokkalegt fyrir norðan eftir að júní sleppti.  

Þriðji sólarsnauðasti júní í Reykjavík var 1986 með 88 stundir. Aldrei mældist minni sól í júní á Hveravöllum, 106 stundir. Ekki var heldur minni sól í nokkrum júní  á Reykhólum, 78 klst og Reykjum í Ölfusi þar sem sólarstundirnar voru aðeins 62 en ekki var sérlega lengi athugað á þessum stöðum. Á Akureyri var vel sólríkt og hlýtt en svalt syðra í ríkjandi sunnan og suðvestanátt. 

Annar sólarminnsti júní í höfuðborginni kom svo árið 1988. Þá skein sólin í 72 stundir. Fyrir norðan var heilmikil sól, 224 klst á Akureyri. Þar var líka vel hlýtt en svalt syðra eins og 1986. Hitinn þann 26. fór i 28,6 stig á Vopnafirði. Eitthvert mesta vestanveður í júní kom þann 18. Þá stórsá á gróðri  suðvestanlands svo hann jafnaði sig aldrei allt sumarið. Veðurhæð komst í 9-11 vindstig á 22 veðurstöðvum.  

Árin 1994-1996 koma öll við sögu sólskinsleysis í júní.

Á Akureyri var júní 1994 sá fjórði sólarminnsti með 120 stundir. Þetta var úrsvalur mánuður en ekki úrkomusamur. Hann státar hins vegar af einu merkismeti: Meðalloftvægi í Stykkishólmi hefur aldrei orðið lægra í júní alveg frá 1846, 1001,9 hPa.   

Árið eftir, 1995, kom sjöundi sólarminnsti júní í höfuðborginni með 110 stundir. Svalt var vestanlands en veruleg hlýindi á austur og suðausturlandi.

Loks var júní 1996 sá sjöundi sólarminnsti á Akureyri með 129 stundir. Þetta var annars meðalmánuður að hita og úrkomu.         

Eftir þetta ár hefur enginn júnímánuður skandalíserað með topp tíu sólarleysi, hvorki fyrir sunnan né fyrir norðan.   

Að maður skuli svo nenna að standa í þessu í góðviðrislegum júnímánuði sem þegar er kominn upp í fimmta sæti í Reykjavík fyrir sólríkustu júnímánuði og er enn á leið upp metorastigann! Afhverju er maður ekki úti úí góða veðrinu! En þetta er víst það sem kallað er veðurdella og er víst ekki besta dellan!

Fylgiskjalið fyrir júní fylgir hér með. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tom Cruise á Íslandi

Í gær mældist hitinn á Egilsstaðaflugvelli 21,5 stig og á nokkrum öðrum stöðvum náði hitinn tuttugu stigum.  Eigi að síður mældist meiri hiti á landinu alla fyrstu fjóra daga mánaðarins.

Þetta er svo sem ekki neitt neitt.

Mesti hiti sem mælst hefur á landinu, 30,5 stig á Teigarhorni, mældist einmitt þann 22. júní árið 1939 og þann 23. árið 1974 nældust 29,4 stig á Akureyri. Hitinn í gær og væntanlega í dag sætir því svo sem engum sérstökum tíðindum en er góður samt.

Hlýtt er þar sem Tom Cruise er að vafstra  fyrir norðan ásamt sínu liði, gæti alveg gengið sem veður í siðmenntuðum löndum Evrópu og Ameríku en auðvitað ekki í úrvalsflokki hvað hitastigið varðar. Svo halda þeir að þetta sé bara hversdagslegt veður á landinu. Þetta sé bara alltaf svona hér á þessum árstíma!

Verst að ekki skuli vera hægt að bjóða Tuma þumal upp á 30 stiga hitann sem sagt er að sé alveg yfirvofandi á landinu við gott tækifæri!  Annars finnst útlendignum sem vanir eru yfir 30 stiga hita á daginn í sínum heimalöndum á sumrin kanski bara þægilegt að fá sól og 20 stig þegar þeir eru að vinna úti við.

Pólskur eftirlaunaþegi tók um daginn vitlausa ferju úti í Danmörku og lenti á austfjörðum. Honum fannst kalt á Íslandi enda var þá kuldakast austanlands.

Það er annars merkilegur fjandi hvað fólk sem dvelur nokkra daga á Íslandi hefur sterka tilhneigingu til að halda að veðrið þá daga sem það er á landinu sé alveg dæmigert þó það sé það kannski alls ekki. Þó er þetta oft fólk sem á heima í tempraða loftslagsbeltinu þar sem veður er oft mjög breytilegt.

Mikið væri það nú gott ef hægt væri að sjá töflu um daglegan hámarks- og lágmarkshita (og auðvitað frá miðnætti til miðnættis) á hverri sjálfri stöð á vefsíðu Veðurstofunar. Slíka töflu er hægt að sjá fyrir mönnuðu stövarnar.    Meðalhitinn í júní í Reykjavík er hátt yfir meðallagi en er enn þá undir því á Akureyri. Sólskinsstundir í Reykjavík eru þegar komnar vel fyir meðallag.
  Þurrkarnir eru svo kapituli út af fyrir sig.
  Þetta má allt sjá í hinu staðfasta fylgiskjali.   
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þurrkurinn

Í dag komu skúrir í Reykjavík og á suðurlandi. Mjög þurrt hefur verið víðast hvar á landinu frá og með 28. maí.

Í fylgiskjali má sjá úrkomu frá þeim tíma á öllum skeytastöðvum Veðurstofunnar, nokkrum völdum mönnuðum úrkomustöðvum og loks nokkrum völdum sjálfvirkum stöðvum.

Úrkoma er mælt klukkan níu að morgni og sýnir það sem fallið hefur frá sama tíma deginum áður.

Þegar 0,0 stendur í dálki merkir það að úrkoman hafi verið það lítil að hún hafi ekki verið mælanleg, sum sé verið minni en 0,1 mm, en millimetrar eru mæleiningar úrkomu eins og menn vita. 

Á sjálfvirku stöðvunum er ekki greint á milli alls engrar úrkomu og úrkomu minna en 0,1 mm, 0,0 sem sagt, og þar læt ég vera auða dálka nema úrkoman hafi náð 0,1 mm eða meira. 

Kannski er eitthvað athugavert við Surtsey sem ekki hefur mælt neina úrkomu þennan tíma.

Stafinn v hef ég sett inn þegar engar upplýsingar komu frá viðkmomandi stöð inn á netstíðu Veðurstofunnar en þar hef ég náð í allar þessar upplýsingar. Þetta er óþægilega algengt en í þessu tilfelli má eiginlega fullyrða að þar sem v stendur hafi svo sem enginn úrkoma verið.

Villur geta verið í þessu og ferst ekki heimurinn þó svo kunni að reynast.

Fyrst og fremst er þetta veðurdellufólki til skemmtunar, að vísu nokkuð þurrlegrar. Og  bara sjónrænt sést úrkomuleysið ansi vel, einkum vestanlands.

Þrumupistill um þrumur og eldingar er svo í undirbúningi hér á Allra veðra von þar sem alltaf er einmitt allra veðra von!

Þurrkafylgiskjalinu verður eitthvað haldið við- áður en hið alræmda rigningarsumar 2012 tekur völdin!  Hitt fylgiskjalið er svo hið hefðbundna.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mesti hiti sumarsins í Reykjavík

Í dag mældist hámarkshitinn 18,4 stig í Reykjavík þegar lesið var af mælinum kl. 18 og hugsanlega á hann enn eftir að stíga í kvöld. Þetta er mesti hiti í Reykjavík það sem af er sumars. 

Hlýjast á landinu varð á Þingvöllum 21,6 stig og 20,9 í Árnesi í Hreppunum.

Á Korpu við Reykjavík mældist hitinn 20,5 stig, í Geldinganesi varð hann 19,5 stig, 19,4 á Hólmsheiði og 18,8 á Reykjavíkurflugvelli. Á Miðbakka vð hafnarhúsið í Reykjavíkurhöfn var 17,1 stigs hiti mestur miðað við mælingar á tíu mínútna fresti, hvað sem er nú að marka þá stöð Hafnarmálastjórnar en ekki er þetta ósannfærandi. Í Bláfjöllum var fimmtán stiga hiti en tólf uppi á Skálafelli.

Ef ég ætti svo að leggja út frá þessu fremur en að þegja þumbaralega segi ég bara að þetta verði líklega síðasti góðviðrisdagurinn í borginni þetta sumarið!

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Merkileg sólar og þurrkatíð

Júní byrjar með sama bjartvirði, þurrkum og hlýindum og einkenndu síðustu dagana í maí.

Í gær komst hitinn í 22,8 stig á Hellu og í Árnesi. Víða fór hitinn yfir tuttugu stig á suðurlandsundurlendi og í Borgarfirði. Í gærkvöldi fór hitinn svo 16,6 stig í Reykjavík. En varla er nú hægt að tala um þá smámuni í sömu andrá og vel fyir 20 stiga hita.

Frá og með 25. maí hefur hitinn einhvers staðar á landinu náð tuttugu stigum nema síðasta daginn í maí.

Síðustu þrjátíu daga hefur sólin í höfuðborginni skinið í 306 stundir og er það með því mesta sem gerist á 30 dögum. 

Frá og með 28. mai hefur eiginlega ekki komið dropi úr lofti á öllu landinu og oft verið heiðskírt eða svo gott sem um allt landið. Hlýindi hafa fylgt þessu veðurlagi en ekki einhver heljarkuldi enda er  það ekki Grænlandshæðin gamla, staðnaða og kuldalega sem veldur heldur fersk, vingjarnleg og hlý  fyrirstöðuhæð með nútímalegar hugmyndir um veðurfar á breyttum og hlýnandi tímum.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkur maí í Reykjavík

Af því að ég var um daginn að fjalla um sólríkustu maímánuði er gaman að geta upplýst að sá maí sem var  að líða flaug upp í fimmta sæti yfir sólríkustu maímánuði í Reykjavík. Sólin skein í 296,3 klukkustundir. Meðalhitinn skreið upp í meðallagið 1961-1990. 

Á Akureyri var meðalhitinn ofurlítið yfir meðallaginu. 

Mjög þurrt var í mánuðinum. Í Reykjavík munar litlu að hann komist inn á lista yfir tíu þurrustu maímánuði. Víðast hvar á landinu var mjög þurrt en þó var ansi mikil úrkoma á stöku stað á vestur og norðvesturlandi. 

Veðurstofan mun eflaust að vanda upplýsa um leyndardóma þessa maímánaðar á vefsíðu sinni.

Viðbót: Ekki hef ég aðgang að daglegum sólskinsstundum á Akureyri fyrr en nokkrir dagar eru liðnir frá hverjum mánuði. En nú er ljóst að sólskinið á Akueyri sætir enn meiri tíðindum en sólin í Reykjavík í þessum maí. Svo segir á vef Veðurstofunar: 

Sérlega sólríkt var einnig á Akureyri. Þar mældust sólskinsstundirnar 287,4 eða nærri því jafnmargar og þær hafa flestar orðið áður í maí. Það var í maí 1968 sem sólskinsstundirnar á Akureyri mældust 290,8. Nú skein sól á Akureyri 114 stundir umfram meðallag í maí.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hitamet í Borgarfiði

Í dag fór hitinn í Stafholtsey í Borgarfirði í 21,6 stig. Það er mesti hiti sem mælst hefur í Borgarfjarðarhéraði í maí á mannaðri stöð. En á sjálfvirku stöðinni á Hvanneyri komu 21,7 stig þ. 8. árið 2006 og en þá mældist gamla metið einnig í Stafholtsey, 21,2 stig. Sama dag mældust 21,5 stig á Húsafelli en í dag 20,1 stig.  

Mjög hlýtt loft er nú yfir landinu, einkum vestantil. Á miðnætti var frostmarkshæð yfir Keflavík 3218 metrar (á hádegi í gær 3660) og þykktin var þá 5565 metrar en ekki komu háloftamælingar á hádegi frá Keflavikurflugvelli fremur en vanalega þegar mikið liggur við!

 


mbl.is 21,6 gráður í Húsafelli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband