Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
30.5.2007 | 14:58
Draumurinn
Það dreymdi mig í nótt að mér fannst ég staddur í löngum gangi og gekk ég fram og til baka eftir ganginum. Fyrir enda gangsins var stórt borð og þar sat Björn Bjarnason dómsmálaráðherra umkringdur mörgum konum, ungum og forkunnarfögrum. En Björn sýndi ekki sitt rétta andlit heldur var eins og Þór Whitehead í framan.
Þar sem ég gekk þarna fram og aftur um ganginn ávarpar Björn mig allt í einu með þessum orðum:
Viltu nú ekki koma og setjast hérna hjá okkur Siggi minn!
Þennan draum túlka ég umsvifalaust beint af augum eftir freudískum skilningi: Dómsmálaráðherrann er ekki svo lítið upp á kvenhöndina og er umvafinn villtu meyjum alla daga við sitt lífsins borð. Hann vill endilega að ég fylgi fordæmi hans í því efni. Hlammi mér við kvennahlaðborðið mikla sem svignar undan ilmandi og lostætum krásunum og eti og drekki og veri afskaplega glaður. Og ég er að hugsa um að taka hann bara á orðinu.
En það var meira en Freud í þessum djúpa og merkilega draumi. Hann var líka hinn huggulegasti daglátadraumur í þjóðlegum stíl.
Um hádegið leit ég við í Bókavörðunni á Hverfisgötu þar sem seldar eru gamlar bækur. Ég kem þarna oft og þeir hafa verið að taka frá fyrir mig, eftir því sem þær berast í búðina, bækurnar eftir Þór Whitehead um aðdragandann að hernámi Íslands. Og viti menn! Í dag var síðasta bókin komin sem mig vantaði: Bretarnir koma.
Ég hef miklar mætur á þessum bókum. Ekki síst vegna þess að þær ná einhvern veginn svo vel blænum á borgarlífinu á þessum tíma. Ég er að vísu fæddur eftir stríð en man vel fyrsta áratuginn þar á eftir og þá voru braggar og aðrar stríðsminjar enn úti um allt.
Mikið er nú gaman að dreyma flotta freudíska drauma og fyrir svona daglátum sem hitta beint í mark.
Allt í plati | Breytt 6.12.2008 kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.5.2007 | 18:24
Hún Vera frá Rússlandi
Þetta er allt annað líf síðan fór að hlýna. Nú er veðrið orðið eðlilegt eftir árstíma. Og það á eftir að batna enn til muna því hlýr loftmassi er að koma beint frá Rússlandi.
Fyrsta utanlandsferð mín var til smáborgar í Rússlandi sem heitir Onega og er innst í Hvítahafinu. Þá var ég þrettán ára og var messagutti á flutningaskipi. Þarna kynntist ég ungri stúlku sem kom oft í sjómannaklúbbinn á kvöldin en á daginn vann hún við uppskipun á timbri við höfnina.Við urðum miklir vinir þó hún væri nokkrum árum eldri en ég og við gætum ekki talað saman því hún skildi aðeins rússnesku. En við brostum bara inn í hvort annað. Hún fluttist síðar úr borginni og býr nú suður í Kákasusfjöllum. Við erum enn í sambandi.
Daginn sem ég sá hana fyrst, 6. júní 1961, var einmuna blíða og var það allan tímann sem við vorum í höfn en það voru nokkrar vikur. Við sigldum svo burt en komum aftur seinna um sumarið. Alltaf var sama blíðan. Og þetta reyndist með hlýjustu sumrum við Hvítahafið.
Þessi stúlka hét Vera. Og hér fyrir ofan er mynd af henni sem tekin var þegar hún var að vinna í timbrinu í Onega. Hún sendi mér myndina fyrir nokkrum árum. Og svona leit ég út þegar ég kynntist henni.
Allt gott kemur frá Rússlandi. Ljúfar minningar, sumarblær og sólskinsblíða.
Ég | Breytt 5.12.2008 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
28.5.2007 | 16:02
Lítið er of stutt
Jæja, þá er kominn tími til að hætta þessu andskotans gagnrýnis tuði. Nú er einmitt lag að vera bara í rokna stuði. Lífið er oft stutt til að eyða því í nöldur og nagg.
Ég er að hlusta á tónlist eftir Schumann. Hann var svo rómantiskt snaróður að margar spennitreyjur gátu ekki hamið hann. Hann var súperman. Hann var líka flottasti rómatíkerinn í tónlistinni. Hárómantíkin í músik á alveg sérstaklega vel við okkur. Við erum öll svo skemmtilega væmin og rómantísk inn við beinið. Og ástin hjá Schumann er eins og hún á að vera. Gersneydd öllum raunveruleika. Hún er bara Ástin með stórum staf eins og hún virðist eiga sameignlegt skjól í draumórum allra manna. Alltaf skal fylgja henni silfurbjart mánaskin og allt hvað þetta hefur.
Og af þessu tilefni ætla ég að birta hér aftur uppáhalds myndina mína af ástinni. Einmitt svona er ástin hjá honum Schumann.
Það held ég nú. Það er nú líkast til. En nú nenni ég ekki að blogga meira en ætla bara að halda áfram að njóta lífsins.
Ef ég dett þá ekki heiladauður niður í miðjum klíðum.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2007 | 19:38
Ranglæti drepur
Í dag skrifar Þórhildur Elín athyglisverða grein á Vísir.is. Þar segir hún frá konu sem þurfti að láta fjarlægja úr sér skjaldkirtilinn fyrir 20 árum en vegna mistaka voru kalkkirtlarnir líka teknir. Af þessu hlaust mikill heilsubrestur og konan verður að taka stóra skammta daglega af kalki því annars myndi hún deyja. Kostnaðinn hefur hún þurft að bera sjálf fram á síðustu tíma og í greininni er lýst glímu konunnar við harðsnúna lögfræðinga Tryggingarstofnunar. Í greininni er þessi athyglisverða setning: "Aðgerðin var gerð áður en sjúklingar öðluðust lagalega rétt gagnvart læknamistökum enda stóð aldrei til að draga einhvern til ábyrgðar." Það er eins og áhersla sé lögð á þetta í hálfgerðum afsökunartóni að aldrei hafi staðið til að draga einhvern til ábyrgðar.
Hvers vegna ekki? Af hvejru eru allir svona sammála um það að þó læknir eyðileggi líf einhvers þá skuli hann aldrei þurfa að standa við neins konar ábyrgð nema hann sé beinlínis blindfullur við vinnuna eða eitthvað álíka. Læknar vita þetta vel. Og þeir eru því öryggir með sig eftir þvi. Og þeir hafa mikið vald í þjóðfélaginu og líka við mótun laga. Enginn þorir þess vegna annað en að lyppast niður gegn þeim við lagasetningar. Allir verða sammála um að þeir þurfi ekki að bera neina ábyrgð, einir allra stétta, jafnvel þó þeir drepi fólk með klaufaskap, kæruleysi eða vanrækslu. Allt er það bara kallað "mistök" og læknirinn fær kannski þessa líka fínu stöðuhækkun. Áreiðanlega veldur einmitt þetta formlega ábyrgðarleysi og þá lka í reynd einmitt því að menn hirða ekki um að vanda sig nógu vel. Læknarnir vita að þeir eru alltaf hólpnir hvernig sem allt veltist. Það er talið fullvíst að jafnvel nokkur hundruð manns - þetta eru ekki öfgar í mér, heldur talið vera í raun og veru - skaðist eða deyji ár hvert á Landsspítalanum vegna "mistaka". En aldrei þarf neinn að bera neina ábyrgð - nema hinn dauði auðvitað.
Þetta þegjandi samkomulag að leyfa læknum að komast upp með allt nær jafnvel svo langt að þegar einstaklingur segir í fjölmiðlum frá læknamistökum sem eyðilagði líf hans þorir hann aldrei að nefna nafn lækinisins.Doktorinn sleppur því ekki aðeins við lagalega ábyrgð eða ábyrgð yfirleitt heldur nýtur líka undantekningarlaust nafnleyndar. Og hvað aðstandendur þeirra varðar sem látast vegna mistaka læknisins þá gefur hann þeim bara langt nef í krafti friðhelgi sinnar og þjófélagsleslegrar stöðu. Þetta fólk skiptir engu máli. Það er ekki sagt í orðum en verkin segja það.
Mér finnst alveg sjálfsagt að birta nafn viðkomandi læknis þegar fólk segir frá hremmingum sínum vegna læknamistaka. Það má ekki minna vera. Eftir sem áður starfar hann eins og ekkert sé og nýtur álits og virðingar (þó það nú væri) og veit að ekkert fær ógnað sér í alvörunni. En fólk veigrar sér við þessu vegna þess að það óttast að það verði fordæmt fyrir það. En læknirinn þarf aldrei neitt að óttast.
Vel á minnst. Frænka mín ein var fyrir löngu skorin upp við skjaldkirtilssjúkdómi af sjúkrahúslækni í Vestmannaeyjum sem ekki hafði neina menntun til aðgerðarinnar og klúðraði öllu sem hann gat klúðrað. Það gjörbreytti lífi frænku minnar. En læknirinn hefur nú fengið af sér styttu í bænum og þurfti aldrei að standa neins konar reiknisskap gerða sinna. Það vissi líka hvert mannsbarn í Vestmannaeyjum að hann var iðulega drukkinn við lækningar sínar en hann bara komst upp með það. Hann var ósnertanlegur.
Hann fékk bara af sér flotta styttu.
Í Mogganum í dag er skýrt frá því að ranglæti drepi fólk úr hjartaáföllum og öðrum meinum.
En hverjum er ekki sama? Það eru alltaf þeir sem eru fátækir og valdalausir sem verða fyrir ranglætinu. Fólk sem ekki fær af sér myndastyttu.
Það má alveg drepast.
Og því fyrr, því betra.
Heilbrigðismál | Breytt 5.12.2008 kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.5.2007 | 17:24
Sumarsnjór á suðurlandi
Það kom mörgum á óvart að jörð hvítnaði af snjó á suðurlandi í gærmorgun. Jafnvel á Rjúpnahæð við Reykjavík í 120 metra hæð. Ef til vill hefur þá verið hvítt líka efst í Breiðholtinu. Maður nokkur sagði mér að grátt hafi verið í rót í Fífuhvammi í Kóapvogi.
Þó kuldaköst séu algeng um allt land á þessum árstíma er það samt sem áður sjaldgæft að snjór liggi á jörðu fyrir sunnan svo síðla í maí.
Ég held að það hafi síðast gerst árið 1979 í kaldasta maí sem mælst hefur á Íslandi frá upphafi mælinga. Þá var alhvít jörð á Þingvöllum 25. maí og á Búrfelli 23.
Árið 1971 var snjór 27. maí á Þingvöllum og Laugardælum og 23. á Vegatungu, Hæli og Búrfelli.
Í Vegatungu var jörð hvit 31. maí 1970.
Í síðustu viku maí 1949 kom mikið kuldakast. Svo segir í Veðráttunni:
"23.-31.Mátti heita vetrarríki um allt land Linnulaus hríðarveður voru á Norðurlandi og suma dagana var einnig nokkur snjókoma sunnanlands. Vindur var norðlægur eða norðaustlægur og oft hvass .
Í Vestmannaeyjum var snjódýptin 20 cm 21. maí og þá var líka alhvítt á Sámsstöðum. Vorkuldunum 1949 linnti ekki fyrr en eftir miðjan júní en þá kom sérlega öflug hitabylgja. Óneitanlega miklir öfgar í veðurfari. Gróðurhúsáhrifin?!!
Síðasta dag maímánaðar árið 1936 mældist snjódýpt 1 cm á Kirkjubæjarklaustri.
En mest bizarre af öllu: 2. júní 1952 var snjódýptin á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 2 cm.
Það getur verið á allra seinustu árum, að snjór hafi verið á jörðu eftir 20. maí á suðurlandi en ég hef ekki óyggjandi gögn um það. Ég held samt ekki.
Síðast hefur verið talin alhvít jörð kl. 9 í Reykjavík að vori 16. maí árið 1979.
Á hádegi 27. maí 1949 var snjókomu getið bara sisvona í veðurathugun í Reykjavík í tveggja stiga hita.
Snjóhula er metin og dýptin mæld klukkan 9 að morgni og það er vel þekkt að snjór hafi verið á jörðu syðra seint í maí og einstaka sinnum langt fram eftir júnímánuði en hefur verið horfin fyrir sólaryl klukkan níu á suðurlandi. Í Reykjavík var vitað um snjó í efri borgarhverfum í júní t.d. í hvítasunnuhretinu 1992. Hér er tekið (traustataki nátturlega) úr bók Trausta Jónssonar "Veður í Íslandi í 100 ár": "Efst í Árnessýslu og Borgarfirði er vitað um snjó jafnvel í júlí. Á þeim stöðum eru líka til dæmi um snjó að nóttu í ágúst. ... Fram eftir sumri 1866 var tíðarfar mjög óvenjulegt og þá snjóaði í júlíbyrjun um stóran hluta Suður-og Vesturlands, en ekki er ljóst hvort althvítt varð þá í Reykjavík."
Í veðráttunni 1947 er sagt að snjóað hafi niður undir byggð 7. júlí á Þingvöllum. Sagt er að líka hafi hafi snjóað á Þingvöllum 10. júlí 1970 þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, kona hans og dóttursonur fórust í bruna þar. Þá var "norðan hávaðarok, föl á jörðu og grátt í fjöllum", segir Morgunblaðið 11. júlí. Sveinn Pálsson landlæknir mun geta þess í dagbók sinni að alhvítt hafi verið á Kjalarnesi niður að fjallsrótum 19. júlí árið 1801.
Ég hef víst verið óþarflega bjartsýnn þegar ég spáði "rigningasumrinu mikla" 2007. Nú skal úr því snarlega bætt með viðeigandi raunsæi: Það verður auðvitað "snjóasumarið mikla" 2007!
En ég verð í sól og sumri á Krít.
Bloggar | Breytt 24.4.2008 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.5.2007 | 14:22
Hvar er vorið góða grænt og hlýtt?
Vorið og fyrri hluti sumars finnst mér mest sjarmerandi tími ársins þó allar árstíðir séu góðar. Gróandinn og birtan er engu lík. Nú er gróður vel á veg kominn og munar þar mest um hlýindin í apríl. Þessi mánuður hefur hins vegar verið fremur kaldur en samt skástur hér á suðvesturlandi. Hlýjast var fyrstu dagana en síðan hefur hitinn ekki náð sér á strik.
Þetta er ekkert vorveður það sem af er mánaðarins. Það sést best á því að víða er meðaltal lágmarkshita á veðurstöðvum, jafnvel á suðurlandi, t.d. Þingvöllum og í dölunum í Húnavatnssýslum og í innsveitum fyrir norðan undir frostmarki, mest -1.0 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal. Snjór hefur komið og farið sums staðar á norðurlandi fram á síðustu daga.
Við bíðum sem sagt enn eftir vorinu. Og það kemur ekki næstu daga samkvæmt veðurspám. Þvert á móti á að kólna.
Þegar kemur fram í júní byrjar svo "rigningarsumarið mikla árið 2007".
Sanniði til lesendur góðir!
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.5.2007 | 20:04
Á dauða mínum átti ég von
Fremur en því að ég væri með atkvæði mínu að stuðla að því að hægri ríkisstjórn héldi áfram að ríkja í landinu. Ég kaus Samfylkinguna með það í huga að styrkja það afl sem sterkast væri í andstöðu sinni við Sjálfstæðisflokkinn í stjórnmálum.
Nú sit ég og aðrir uppi með það að Geir Haarde er ekki aðeins kominn með svikulustu stelpuna á ballinu heim til sín heldur liggur hún alveg marflöt fyrir honum.
Það hlýtur að verða algjört örverpi sem kemur undir í þeim ljóta leik.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2007 | 11:28
Hvað á að gjöra við ríka fólkið?
Ég held að ég sé kominn með heilablóðfall. Ég er svo sljór og heimskur eitthvað. Og þungur í hausnum. Einn vinur minn segir að ég sé með léttustu mönnum. En nú er ég með þyngstu mönnum. Kosningavindurinn er líka alveg rokinn úr mér. Mér leiðist reyndar pólitík eins og hún nú er orðin. Ef ég má orða það mjög ófrumlega: Það er sama rassgatið undir þeim öllum. Mér er reyndar ekkert verr við Framsóknarflokkinn en aðra flokka ef einhver hysterískur aðdáandi þessarar síðu skyldi halda það. Bye the way. Lesturinn á síðunni hefur tekið fjörkipp eftir að ég aflaði mér þessara fræknu og allsvakalegu bloggóvina.
En ég kaus núna í fyrsta skipti í nokkur ár vegna þess að ég er svo gamaldags að mér hrýs hugur við því hvernig þjóðfélagið er að breytast annars vegar í samfélag hinna ofurríku og hins vegar samfélag hinna blásnauðu. Ég kaus þess vegna með veika von um úrbætur í þeim efnum. Þegar ég var lítill og ég var víst alveg hlægilega lítill þegar ég var lítill eins og ég hef oft sagt á þessari síðu var bara einn og einn miljónamæringur á stangli og voru að mestu leyti til friðs. Og þeir voru öreigar í samanburði við ríkisbubba nútímans.
Ég trúi því ekki að það hafi eitthvað með dugnað, því um síður mannkosti, að gera að verða svona óskaplega ríkur. Óþolandi duglegt fólk er út um allt og nær frábærri færni í sínu starfi en verður ekki forríkt. Nei, þetta hefur eitthvað með skapgerð og viðfangsefni að gera að verða svona moldríkur. Að nenna að standa í því að vasast í viðskiptum eða bankastandi. Að vera gráðugur og svífast einskis.
Ég held að þetta sé fyrst og fremst andlegt undirmálsfólk. Og mér finnst að eigi að meðhöndla það eftir því en ekki að vera setja það á háan hest fyrir allra augum sem eitthvert yfirburðafólk.
Mér finnst að ætti að gera það höfðinu styttra.
En þar sem ég var að fá heilablóðfall og hugsanir mínar eru nú mjög blóðidrifnar ætla ég nú bara að halda þessari meiningu fyrir sjálfan mig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.12.2008 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.5.2007 | 21:59
Andstæður
Í dag var mesti hiti sem mældist á landinu 12.2 stig á Þingvöllum. Þar var líka mestur kuldi á landinu í nótt, 8.0 stiga frost.
Dægursveifla upp á meira en 20 stig!
Veðurfar | Breytt 6.12.2008 kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.5.2007 | 10:35
Lánið elti ekki Jón
Ef Jón Sigurðsson hefði nú bara haft vit á því að fara að syngja í sjónvarpssal í kosningabaráttunni sjálfri, en ekki fyrst í Kastljósi gær, hefði hann flogið inn á þing með glans. Alla vega hefði ég kosið hann. Þarna var hann kominn skemmtilegi maðurinn sem ég var að lýsa eftir hér á síðunni í ýkjustíl um daginn.
Mikið er gott að hann skuli vera enn á lífi og við góða heilsu.
Að öðru leyti tjái ég mig ekki um úrslit kosninganna nema hvað það er auðvitað alveg ljóst að Íslendingar eru hænsn, einsog þar stendur. Já, með stórum stöfum meira að segja
Og í þessum blogguðu orðum ætla ég að fara út og ærslast í sólinni!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006