Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
29.6.2008 | 14:39
Víkverji um blogg
Víkverji á Morgunblaðinu segir þetta í dag um blogg og bloggara:
"Víkverji sér ansi oft vitnaði í blogg í fjölmiðlum. Hann getur ekki séð að menn hafi þar ýkja mikið fram að færa. Mest eru þetta skammir eða raus á fremur illa skrifaðri íslensku. Það er eitthvað sérlega dapurlegt við það að fólk sé farið að eyða mörgum tímum á dag í að kynna sér þessi ómerkilegu skrif. Fólk ætti að taka sér góða bók í hönd eða horfa á fugla himinsins, fremur að eyða þeim í leit að vitleysislegum og síst mannbætandi skrifum á netinu."
Alveg er ég hjartanlega sammála Víkverja en bendi á með fágætri auðmýkt og lítillæti að það er svo sem hægt að rausa og skammast líka á hinn vitleysislegasta hátt í blöðunum á óprenthæfri íslensku og það jafnvel nafnlaust eins og huglausustu og ómerkilegustu bloggararnir.
Það sannaar grein Víkverja.
Blogg | Breytt 6.12.2008 kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.6.2008 | 12:21
Spurning dagsins
Ef norðurpóllinn skyldi nú verða íslaus í haust, hvað er þá svona voðalegt við það?
Nú bið ég umhverfisséníin að misskilja ekki spurninguna þannig að hún merki eitthvað annað en bara spurningu um það HVAÐ sé svona voðalegt við það en ekki t.d. að það sé ekki neitt voðlaegt við það.
Ég hef séð á bloggsiðum að þetta sé alveg voðalegt. En HVAÐ er svona voðalegt við það?
Könnum svo getspeki bloggverja. Á síðunni er skoðanakönnun, hávísindaleg, um það hvort menn haldi að norðurpóllinn verði íslaus í haust.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.6.2008 | 19:41
Í tilefni dagsins
Þar sem bloggið er vettvangur sjálfhverfunnar þar sem menn segja skoðun sína á öllum hlutum ætla ég að nota tækifærið og segja álit mitt á náttúruvernd skýrt og skorinort nú meðan Sigurrós og Björk eru að reyna að bjarga náttúrunni með tónleikum í norðangarranum í Laugardal.
Ég er algjörlega andvígur því virkjanaæði og þeim olíuhreinsunardraumum sem heltekið hefur suma. Ég vil á engan hátt hrófla við náttúrunni nema hvað ég vil endilega láta græða upp landið eins og hægt er. Mér svíður mjög hvað það er nakið og bert miðað við það sem það var í fornöld og gæti verið enn af náttúrufarslegum ástæðum. Ég geri mér samt engar grillur um það að Ísland sé "hreint og ósnortið". Það er einmitt afskaplega óhreint og snortið. Í þessu sambandi langar mig til að benda á grein í Lesbók Morgunblaðsins í dag "Ímyndin Ísland" eftir Önnu Björk Einarsdóttir sem færir m.a. rök að því að söguskoðun Bjarkar smellpassi við söguskoðun nýfrjálshyggjunnar og hina rómantísku söguskoðun sem kemur fram í skýrslu forsætisráðuneytisins sem sagnfræingar hafa mótmælt sem helberri firru.
Hvað hlýnun jarðar varðar finnst mér ég vera í einkennilegri stöðu. Ég hef haft brennandi áhuga fyrir veðurfari í yfir 40 ár og kynnt mér vel það sem vísindamenn segja um hlýnun hnattarins. En ég get ómögulega lesið út úr því allar þær ógnir sem fjölmiðlar, stjórnmálamenn og margir umhverfissinnar segja að séu yfirvofandi. En ég er alveg til í að viðurkenna að þrátt fyrir fjörtíu ára pælingar um loftslagsmál sé ég bara í afneitun og hvaða náttúrusinnaður listamaður, fjölmiðlamaður og umhverfissinni sem er viti miklu betur en ég í þessum efnum.
Vildi bara koma þessu auðmjúklega á framfæri.
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
28.6.2008 | 15:17
Sólríkur júní í Reykjavík
Í gær skein sólin í Reykjavík í 17 klukkustundir og 24 mínútur. Þetta er ellefti dagurinn í röð sem sólskinsstundir í borginni eru fleiri en tíu. Það hefur aldrei gerst áður. En í afar köldum apríl árið 2000 voru slíkir dagar tíu í röð.
Sólskinsstundir mánaðarins voru í gær orðnar 282,6. Þar með var mánuðurinn orðinn fimmti sólríkasti júní frá upphafi mælinga árið 1911 og þegar þessar línur eru skrifaðar er hann örugglega kominn upp í fjórða sæti því fjórði sólríkasti júní var með 286,6 klukkustundir árið 1952 sem var miklu kaldari en þessi.
Þessi mánuður hefur verið hlýr í Reykjavík. Meðalhitinn er nú 10,7 stig og er þetta með allra hlýjustu júnímánuðum sem af er. Hins vegar mun kólna nú síðustu þrjá dagana og mun meðalhitinn líklega falla um svona 0,2 stig. Eigi að síður mun þetta verða með hlýrri júnímánuðum á suður-og vesturlandi og í Vestmannaeyjum er alveg sérstaklega hlýtt. Menn hafa kvartað um kulda fyrir norðan en þar hefur hitinn þó líka verið vel yfir meðallagi, en heldur kaldara inn til landsins fyrir austan en tiltölulega hlýrra við sjóinn. Það er því engan veginn hægt að segja að þessi júní hafi verið kaldur fyrir norðan og austan.
Það er reyndar mesta furða hve hlýtt hefur verið því kuldi í háloftunum hefur lengi verið viðloðandi landið, mesti kuldapollurinn verið rétt fyrir norðaustan land. Hvern dag hefur þó verið hlýrra en maður átti von á og undanfarið hafa kvöldin verið sérlega ljúf. Loftið hefur verið þurrt og þess vegna hafa næturfrost verið tíð í sveitunum þrátt fyrir tiltölulega háan dagshita. En nú er kuldinn að koma yfir landið af fullum krafti. Það verður þó vonandi ekki lengi. Í þeim spám sem ég hef séð er gert ráð fyrir því að kuldapollurinn eyðist að fullu fyrstu dagana í júlí og ekki nóg með það heldur muni þá koma þessi hlýja austanátt sem gerir allt brjálað þegar hún leggur leið sína hingað til lands. Hæð fyrir austan land og allt hvað þetta hefur!
Úrkoman í Reykjavík hefur aðeins verið 12 mm það sem af er (meðalúrkoma alls mánaðarins er 50 mm) og hefur fallið á aðeins fimm dögum og veitti nú ekki af því að fá dálitla rigningu áður en hitabylgjan kemur!
Mér finnst í seinni tíð fjölmiðlar hlaupa of mikið til og geri meira úr veðri en efni standa til. Það má ekki hvessa að vetri án þess að búist verði við hamförum. Fyrir skömmu var blásið út að von væri á hitameti í maí þó það væri fjarri lagi. Og nú er mikið gert úr þessu kuldakasti. Það er að vísu andstyggilegt að fá það svo seint í júní en oft hefur verið miklu kaldara í slíkum köstum. Í nótt fraus hvergi í byggð og hvergi var föl á jörð í morgun á veðurstöð.
Það er auðvitað alveg týpískt að einmitt þegar útitónleikar eru haldnir í Laugardal skuli vera komin köld og leiðinleg norðanátt eftir margra vikna blíðu!
Hér er svo loks kort af hafís á norðurslóðum mönnum til íhugunar og uppbyggingar.
Athugasemd: Þessa færslu tók ég niður og setti inn á nýjan leik til þess að hún yrði ofar færslunni um kulda og snjó í júní. Þá hafði Emil H. Valgeirsson sett inn eftirfarandi athugassemd:
Það er nefnilega það. Þá ætti þessi mánuður að ná þriðja sætinu af júní 1991 með 295 stundir og möguleki á 300 sólarstundum í fyrsta sinn frá 1928, hafi ég lesið gögnin rétt. En eitthvað sýnist mér hann þó vera að þykkna upp núna.
Bloggar | Breytt 28.10.2008 kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2008 | 11:08
Bók sem allir verða að lesa
Í gær keypti ég bók sem þannig er kynnt á bókarkápu:
Fourteen billion or so years ago, the Big Bang exploded - and it's been downhill from there. For every spectacular discovery throughout history, there have been hundreds of davastating epidemics; for every benevolent despot, a thousand like Vlad the Impaler; for every cup half -full, a larger cup half-empty. This enthralling, enlightening and devilishly entertaining chronicle of disasters and dastardly deeds brings to light the darkest events in histoy and the most abysmal calamities to strike the planet ... so far.
Ég vænti mér mikil af þessari bók enda heitir hún The Pessimist´s Guide to History. An irresistible compendium of catastrophes, barbarities, massacres and mayhem - from 14 billion years ago to 2007.
Ég er að vísu enginn sérstakur svartsýnismaður - aðeins raunsær. Einn kunningi minn hefur reyndar lýst mér þannig að ég sé svartsýnasti bjartsýnismaður sem hann hafi þekkt eða bjartsýnasti svartsýnismaður. Og ég held að mér verði ekki betur lýst.
En lesið endilega þessa bók. Hún svíkur engan á fögrum og björtum júnídegi.
Allt í plati | Breytt 6.12.2008 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
25.6.2008 | 00:22
Hann á afmæli í dag ...
Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag,
hann á afmæli hann Mali,
hann á afmæli í dag!
Hann er eins árs í dag,
hann er eins árs í dag,
hann er eins árs hann Mali,
hann er eins árs í dag!
Með sínu lagi.
Mali | Breytt 6.12.2008 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
24.6.2008 | 19:34
Á að segja sjúklingum frá því að þeir eru með heilabilun?
Í gær skrifar Sigrún Huld Þorgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur á öldrunardeild Landsspítalans í Morgunblaðið greinina Á að segja sjúklingum frá því ef þeir eru með heilabilun?" Hún svarar ekki spurningunni beint en dregur fram ýmislegt með og móti. Það dylst þó ekki að henni finnst að eigi að segja sjúklingum frá þessu. Þess vegna finnst mér að hún hefði átt að segja það hreint út. Ég hef getið þess áður opinberlega að umræða um heilabilun einkennist oftar af einhvers konar undanbrögðum en flest önnur umræða. Einu sinni las ég grein um heilabilun eftir öldrunarlækni og mátti helst af henni ráða að heilabilun væri tæknilegt atriði en hvergi örlaði á þeim raunveruleika sem sjúklingarnir og aðstandendur þeirra verða að búa við.
Sigrún segir að mikil umskipti hafi átt sér stað frá fyrri tíð með að upplýsa sjúklinga um sjúkdómsgreiningu þeirra, en það viðgangist enn að þeir sem þjást af heilabilun fái ekki alltaf að vita það. Aðeins helmingur þeirri fái að vita um sjúkdómsgreininguna. Sjúklingar eigi þó lagalegan rétt á upplýsingum. Það "reynist yfirleitt vel" segir hún þegar sjúklingarnir fái að vita um greiningu sína. En ekki skýrir hún nánar frá því hvað er á bak við þessa fullyrðingu.
Sigrún telur það m.a. upp sem ástæður fyrir því að greiningu er haldið leyndri fyrir sjúklingnum að menn óttist að greiningin geti valdið þunglyndi hjá sjúklingnum, örvæntingu og sjálfsmorði og engin lækning sé til. Það þyki líka vafamál hvort sjúklingurinn hafi vitræna getu til að skilja greininguna. Sumir sjúklingar vilji almennt ekki vita um greiningu sína og rannsóknir bendi til að sjúklingar með heilabilun sé þar í sérstöðu.
Sitthvað fleira segir Sigrún um þetta en þetta verður hér látið nægja.
Það er ýmislegt, eins og áður er vikið að, sem sýnir að Sigrún vill að heilabilunarsjúklingum verði sagt frá ástandi sínu. Hún segir t.d. að flestar faglegar leiðbeiningar gangi út frá því að skýra skuli sjúklingum frá heilabilunargreiningu. Hún kvartar yfir því að í leiðbeiningum Landlæknis sé sú afstaða að fara beri varlega í þessum efnum, ekki sé víst að skilningur sjúklings sé til staðar vilji hann meina, og í heild séu leiðbeiningar Landlæknis orðaðar þannig, segir Sigrún, að þær fremur hvetji heilbrigðisstarfsfólk fremur en hvetji það til að skýra sjúklingnum frá því hvað að þeim gangi.
Sigrún telur að ekki sé hægt að veita sjúklingum fræðslu eða hjálpa honum af viti í því að aðlagast sjúkdómnum ef honum er ekki sagt frá sjúkdómsgreiningunni. Ekki sé hægt að búast við að hann hafi innsæi í sjúkdóminn og líklegra sé að án upplýsingar um greiningu megi fremur búast við afneitun, tortryggni, ótta og reiði.
Sjúkdómnum sjálfum lýsir Sigrún þannig: "Heilabilunarsjúkdómar eru alvarlegir stigversnandi sjúkdómar, sem ráðast ekki einungis á minni, heldur dómgreind, verklega færni og hæfni til að sinna um sjálfan sig. Margir sem greinast með sjúkdóminn þurfa síðar á stofnanavistun að halda. Sjúkdómurinn endar með dauða. Það liggur í augum uppi að einstaklingur sem veit ekki af slíkum sjúkdómi getur ekki búið sig undir framtíðina með neinum hætti."
Af þessari lýsingu að dæma er kannski ekki að furða þó Landlæknir vilji fara varlega í því að skýra sjúklingum frá raunverulegu ástandi þeirra af ótta við að þeir botni ekki í því baun.
Ég er auðvitað ekki starfsmaður á öldrunarstofnun en hef þó líkt og margir aðrir kynnst heilabilun og gangi sjúkdómsins af eigin raun og auk þess heyrt hljóðið í ýmsum sem hafa gengið í gegnum sömu reynslu.
Nú langar mig til að hugsa dálítið upphátt um þessi mál án þess að setja fram skipulega heildarskoðun.
Eins og Sigrún virðist viðurkenna er heilabilun nokkuð sérstakur sjúkdómur sem ræðst fyrst og fremst á vitgetu manna, dómgreind, sjálfsstjórn og aðra vitræna þætti. Þegar menn meta það hvort rétt sé að skýra sjúklingum frá sjúkdómsgreiningu þeirra hlýtur að verða að taka einmitt tillit til þessara sérstöku aðstæðna.
Greining á heilabilun á sér oft ekki stað fyrr en sjúkdómurinn er nokkuð langt genginn. Menn átta sig ekki þegar í stað á því hvað er að gerast. Sumir þeir sem eru með heilabilun er mjög lagnir í því að leyna ástandi sínu. Ég gæti trúað að í mörgum tilvikum sé dómgreind og tilfinningasjálfstjórn sjúklinga þegar orðin svo sköðuð þegar þeir eru greindir að þeir geti ekki gert sér grein fyrir öllum afleiðingum ástands síns. Geta þessir sjúklingar "gengið frá sínum málum" eins og aðrir sem bíða dauðans af "einhverju viti"? Og hvað ef þeir gera einhverjar ráðstafanir en breyta þeim svo þegar sjúkdómurinn er lengra gengin og dómgreindin löngu farin? Eftir hvaða vilja þeirra á þá á að fara? Þegar til kastanna kemur er hætt við að það sé í reynd vilji aðstandenda og annarra sem ræður en ekki vilji sjúklingsins. Því ekki að viðurkenna það bara.
Nú á dögum vita menn þó nokkuð um það hvernig þessi sjúkdómur þróast og margir hafa fylgt aðstandendum sínum eftir á sjúkdómsferlinu. Þegar mönnum er sagt að þeir séu með heilabilun ættu þeir sem enn hafa vit til að að vera kunnugt um það hvers konar örlög bíða þeirra. Það er dálítið annað að glíma við krabbamein t.d. með einhverri reisn heldur en lúta í lægra haldi fyrir heilabilun sem einmitt tekur af mönnum alla reisn. Ég held að eðlileg og fullkomlega heilbrigð viðbrögð fólks við að fá þann dóm að þeir séu með heilabilun séu einmitt óbærileg örvænting, ótti, þunglyndi og auðvitað fyrst og fremst þau viðbrögð að nú væri best að fyrirfara sér til að forða sér frá þeim ósköpum sem framundan eru. Eru menn tilbúnir til að mæta þessum viðbrögðum sjúklinga af fullum heiðarleika en ekki undanbrögðum? Ætla menn t.d. að deyfa þessi viðbrögð niður með lyfjum eða segja sjúklingunum að enn sé margs að njóta og allt það þegar sannleikurinn er einmitt sá að heilabilun rænir menn fljótlega þeirri tilfinningu að geta notið einhvers. Geta menn mætt þessum aðstæðum án þess að koma fram af óheilindum við sjúklingana?
Reyndar finnst mér það sterkasta ástæðan fyrir því að segja mönnum að þeir séu með heilabilun að það gefur mönnum einmitt færi á að fyrirfara sér áður en lengra er haldið. En má segja svona? Má ræða þetta á þessum nótum? Á ekki fremur að líta undan og láta sem þessi möguleiki sé ekki til umræðu? En annars nokkur heiðarleg meining í raun og veru með því að vilja endilega segja fólki frá því að það sé með heilabilun?
Reyndar þarf nokkuð skýran vilja, heilmikla fyrirhyggju og dómgreind til að fyrirfara sér svo ég held að jafnvel þessi ástæða fyrir því að segja frá sjúkdómsgreiningu komi oft fyrir ekki hjá heilabilunarsjúklingum því einbeittur vitsmunavilji er ekki þeirra sterka hlið. En í sjálfu sér hlýtur sjálfsvíg að vera raunhæfur og reyndar ákjósanlegur möguleiki í stöðunni fyrir mann sem var að frétta að hann sé með heilabilun, t.d. Alzheimer.
Í kvikmyndinni Sang for Martin er sagt frá frægum hljómsveitarstjóra sem er greindur með heilabilun. Myndin endar á því að hann liggur endilangur í rúmi sínu og opnar munninn eins og fuglsungi þegar sælgæti er lagt að vitum hans. Myndin lýsir því hins vegar ekki þegar hann hættir jafnvel þessum viðbrögðum og getur ekki lengur tuggið og borðað og deyr úr hungri og kannski með krampa. Það eru oft endalok heilabilunarsjúklinga sem ekki fara áður úr öðrum sjúkdómum.
Ef Martin hefði nú notið síðustu vitsmunaglampa sinna til að fyrirfara sér, hefði það verið eitthvað slæmt?
En það má víst ekki tala svona um þessi mál, að minnsta kosti af heilbrigðisstarfsfólki. Það má bara horfa framhjá hlutunum.
Í þáttunum Boston Legal á Skjá einum er aðalhetjan, hinn óviðjafnanlegi Danny Crane, með heilabilun sem hann kallar reyndar kúrariðu. Þættirnir eru auðvitað bara skemmtiefni og óborganlegt sem slíkt en öllu gamni fylgir nokkur alvara. Og um daginn var einmitt fjallað um það í einum þættinum hvort hætta bæri virkri læknismeðferð á manni sem var á síðustu stigum heilabilunar. Ýmis rök voru færð fram bæði með og á móti. Málið var sem sagt til umræðu.
Þessir skemmtiþættir gera umræðu um heilabilun á Íslandi skömm til með því að þora að tæpa á alvöru málum, einhverju sem skiptir raunverulega máli og brennur á fólki.
Af hverju ræðum við ekki svona alvörumál varðandi heilabilun heldur en að koma fram með þá hugmynd að best væri að hafa það sem nokkuð algilda reglu að skýra sjúklingum, sem varla eru með fullum sönsum, frá því að þeir séu nú komnir með andstyggilegasta og vonlausasta sjúkdóm sem hugsast getur. Og nú skuli þeir bara njóta lífsins.
Ekki dugir að hengja sig í reglufestu. Þeirri gullvægu reglu að sjúklingar eigi almennt rétt á upplýsingum verður að beita í samræmi við aðstæður. Ef það er rétt að helmingi heilabilunarsjúklinga, sem er nokkuð mikið miðað við eðli málsins, sé greint frá sjúkdómi sínum finnst mér það sýna að þessari reglu sé fyrst og fremst beitt af skynsemi í íslensku heilbrigðiskerfi miðað við aðstæður.
Varfærnisregla Landlæknis um það að fara skuli varlega í því að skýra heilabilunarsjúklingum frá raunverulegu ástandi þeirra sýnist mér einmitt byggja á mannúðarsjónarmiðum og heilbrigðri skynsemi sem lítil ástæða er til að víkja frá.
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2008 | 13:27
Jónsmessunæturmartröð
Þetta var nú skrýtið! Mér fannst í alla nótt að einhver voldugur andi hefði náð valdi yfir mér og ég færi hamförum.
Þetta var algjört óráð og æði!
Mér var sagt á blogginu að Mali hafi náð algjöru valdi yfir mér og mynd hans birtist öllum hvarvetna á netinu í minn stað.
Nú er þessari Jónsmessunæturmartröð á fjallinu helga liðin og ég er aftur kominn til sjálfs míns. Og myndin af mér og Mala er aftur komin á sinn stað.
En svei mér ef það er ekki miklu djúpviturlegra að vera bara hann Mali!
Bloggar | Breytt 4.12.2008 kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2008 | 02:07
Jónsmessunótt
Hefur ykkur aldrei fundist þið vera einhver annar en þið sjálf?
Eins og sál einhvers annars hafi yfirtekið ykkur? Eins og þið hafið tekið algjörum hamskiptum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.6.2008 | 19:17
Komist að niðurstöðu
Nú hef ég komist að þeirri grandgæfilegu niðurstöðu að hann Mali minn sé í rauninni ísbjörn í dulargervi.
Ég er ekki sú manntegund sem sér ísbirni í hverju skoti. Þess vegna er þetta örugglega rétt.
Og hvað á ég nú að gjöra?
Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006