Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Hundrað og fimmtíu ára fangelsi

Eva Joly segir að margt sé líkt með íslenska bankahruninu og máli Madoff fjársvikara sem situr nú af sér 150 ára fangelsisdóm.  

Skyldi einhver Íslendingur eiga eftir að vera dæmdur í hundrað og fimmtíu ára fangelsi?

Og hver þá helst?

Ef ég á að svara af mínu eðlislæga raunsæi fremur en svartsýni held ég að enginn Íslendingur eigi eftir að hljóta annað en málamyndadóm.  


mbl.is Bankahrun líkist máli Madoffs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

''Meiri líkur en minni''. Blekkjandi orðalag.

Börnin sem voru á Kumbaravogi vilja að forsætisráðuneytið geri aðra skýrslu um starfsemi heimilisins. Þau fella sig ekki við þá sem verið var að leggja fram. Meðal annars eru þau ósátt með orðalagið að ''meiri líkur en minni'' séu fyrir því að börnin hafi orðið fyrir ofbeldi.

Þetta orðalag hefur ekki aðeins verið notað um börnin á Kumbaravogi heldur líka í Heyrnleysingjaskólanum og á Bjargi.

Eftir því sem skýrslunum er lýst er samt alveg ljóst að nokkur fjöldi barna segist hafa orðið fyrir ofbeldi og nefndin telur vitnisburð þeirra trúverðugan.

Það er því engu líkara en orðalag nefndarinnar sé til þess að draga úr hinum óþægilega sannleika: 

ÍSLENSK BÖRN URÐU ÁRUM SAMAN FYRIR LÍKAMLEGU OFBELDI, ÞAR MEÐ TÖLDU KYNFERÐISLEGU, Á OPINBERUM BARNAHEIMILUM. 

Þetta er staðreynd málsins. Og það á ekki að sveipa hana vafavekjandi lögfræðilegu orðalagi  enda  engin málaferli á döfinni þar eð sök einstaklinga er fyrnd. En samfélagslegt uppgjör er mikilvægt. 

En vegna þessa orðalags munu einmitt sumir segja: Ég trúi engu um þetta.

Áríðandi er líka að menn geri sér grein fyrir því að þó sum börn hafi misnotað önnur börn á þessum stofnunum, en það gerði líka starfsfólk sums staðar,  hefði það aldrei gerst ef viðhorfin að ofan, frá forsvarsmönnum heimilanna og jafnvel þjóðfélaginu í heild, hefðu ekki verið full af fjandskap og fyrirlitningu í garð barnanna.

Þeirri fyrirlitningu var vel lýst áðan í sjónvarpsfréttum RÚV þegar börn sem voru á Kumbaravogi höfðu orðið. Þau sögðu að litið hafi verið á þau sem hreina fávita og það kemur fram í bókunum sem enn eru til. Þeim bókunum ætti að gjöreyða.

Það verður fróðlegt að fylgjast með erindi Kumbaravogsbarna við forsætisráðuneytið um nýja skýrslu. 

Ekki verður síður fróðlegt að fylgjast með bótamálunum til Breiðavíkurdrengjanna en merkilegt viðtal var við tvo þeirra á Útvarpi Sögu fyrir skömmu.

 


Reykingar og drykkjuskapur

Læknar eru nú í herferð gegn reykingum. Þeir segja að þær séu versta heilsufarsógn þjóðarinnar. Hvergi sé tóbak þó flokkað með eiturlyfjum. En Læknar vilja að Ísland verði fyrsta landið til að gera það.

Frábær hugmynd sem endilega ætti að gera að veruleika. 

En það er fleira en tóbak sem ógnar heilsunni. Í fréttum um daginn var sagt að áfengisneysla í Bretlandi væri orðinn einhver mesta heilsufarsógnin þar í landi. 

Það er staðreynd að neysla áfengis á Íslandi hefur aukist mikið síðustu ár. Samt sem áður er því oft haldið fram að drykkjumenning þjóðarinnar hafi batnað. Ekki fæ ég nú beint séð það um helgar eða á útihátíðum. Þegar lögreglan segir að hafi verið mikill ''erill'. Það merkir að hafi verið mikið fyllirí. 

Ef fram heldur sem horfir munu þeir dagar ekki vera langt undan að menn verði að viðurkenna að áfengisneysla sé líka einhver mesta heilsufarsógn þjóðarinnar eins og hún er orðin í Bretlandi og slái út öll  ólögleg eiturlyf  í heilsufarslegum og samfélagslegum skaða. 

En menn hika mjög en við að horfast í augu við skaðsemi áfengis. Menn umgangast það af ótrúlega mikilli virðingu sem virðist jafnvel fara vaxandi. Börn eru hiklaust hvött til að byrja aldrei að reykja en þau eru ekki hvött til þess að byrja aldrei að drekka. Þau  eru hvött til að drekka í hófi.  Það er mjög langt frá því að áfengi sé sett á sama óæðri bekk og tóbak þó það ætti heima þar og hvergi annars staðar.

Að því hlýtur samt að koma.  

 

 


Hvað er að Veðurstofunni?

Enn kemur ekkert yfirlit frá Veðurstofunni á vef hennar um næturveðrið, sem kom alltaf eftir klukkan níu og um dagsveðrið, sem kom alltaf eftir klukkan átján. Þetta hvarf af vefnum fyrr viku síðan.

Ekki kemur neitt svona í sjónvarpsveðurfréttunum.

Þessar upplýsingar eru því HVERGI landsmönnum aðgengilegar nema hvað sagt er frá þessu í morgunveðurfréttum klukkan tíu í Ríkisútvarpinu fyrir næturveðrið. ''Veðrið klukkan átján'' var hins vegar lagt niður í Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum árum með þeim rökum að nú væru allar upplýsingar að koma á netið, rétt eins og allir hafi aðgang að netinu eða menn geti ekki hæglega komist í þær aðstæður, til dæmis á ferðalögum, að komast ekki á netið þó þeir hafi útvarp.

Það ætti auðvitað aftur að lesa veðrið klukkan 18 í útvarpið.

Og svo ætti Veðurstofan að sjá sóma sinn í því að gefa landsmönnum kost á vönduðu uppgjöri um nætur og dagsveðrið á netinu eins og hefur verið í einhverju formi, í útvarpi, sjónvarpi og á netinu,  eins lengi og nokkur maður man.

Hvað eru þeir eiginlega að hugsa á Veðurstofunni?  

 


Bókmenntahátíð

Ísfólkið, nýjasta heftið, var að koma út!

Á að banna nafnlaus blogg

Það er uppi nokkuð hörð krafa um það að banna nafnlaus blogg og jafnvel önnur nafnlaus skrif á netinu. Ástæðan er sögð vera svívirðingar og ærumeiðingar nafnlausra bloggara.

Fullyrt er að nafnlausir bloggar geri ''lítt annað en að níðast á öðrum''. Þetta er djörf fullyrðing og hæpin. Hefur nokkur könnun, formleg eða óformleg, verið gerð á þessu? Meirihluti þeirra nafnlausu blogga sem ég hef lesið eru í lagi. Nafnlaus blogg geta meira að segja verið alveg stórmerkileg.

Það er hægt að bregðast við einstökum bloggurum sem haga sér ósæmilega, hvort sem þeir blogga undir nafni eða ekki.

En að krefjast þess taka upp þá lagareglu að nafnlaus blogg  verði bönnuð  sem slík er frumstæð árás á tjáningarfrelsið. Ýmsir góðir menn hafa skýrt út hvers vegna svo er. Það verður ekki endurtekið hér að sinni.  

Hvaðan koma þær raddir sem vilja loka á eða þrengja að nafnlausu bloggi og netskrifum? 

Frá stjórnmálamönnum fyrst og fremst. Til dæmis Björgvin G. Sigurðssyni og Ragnheiði Ríkharðsdóttir.

Við skulum ekki láta þá komast upp með fyrirætlanir sínar. 

Það er svo umhugsunarefni út af fyrir sig hvað þeir stjórnmálamenn sem háværastir eru í að hefta frjálsa umræðu á blogginu undir því yfirskyni að losna við rógburð hugsa mál sitt grunnt og flausturslega. Þeir færa eiginlega engin þjóðfélagsleg rök fyrir máli sínu, einungis reiðiþrungnar reynslusögur.

Að banna nafnlaus blogg eða jafnvel nafnlaus skrif á netinu yfirleitt er ekki hægt að réttlæta með jafn einföldum hætti og því að slíkt sé misnotað af einstaka fólki.

Það er sorglegur vitnisburður um þjóðfélagsástand að fólk sem gegnir ábyrgðastörfum eins og að vera á Alþingi leyfi sér slíkar einfaldanir og þröngsýni þegar um er að ræða jafn mikilvæg og viðkvæm mál sem tjáningarfrelsið er snertir allt þjóðfélagið frá mörgum hliðum. 

 

 


Reiður stjórnmálamaður á ekki að setja lög

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, segir farir sínar ekki sléttar varðandi rógburð nafnlausra manna um hann á netinu.

Það er eðlilegt að maður sem verður fyrir slíku sé sár og reiður.

Mér finnst þó mest ástæða til að menn láti ekki framhjá sér fara þessi orð Björgvins:

''Draga þarf þá til ábyrgðar fyrir róginn og nafnlausa níðið á netinu sem halda úti síðunum sem gera fólki kleift að hamast á æru fólks með lygum og rógburði í skjóli nafnleyndar.  Ljóst er að verulega þarf að skýra lög um ærumeiðingar og refsiábyrgð vegna hennar og mun ég beita mér að öllu afli til þess að hún fari fram og gangi hratt.''

Björgvin er alþingismaður og hefur því aðstöðu til að gera það sem hann segir: að  hrinda fram  löggjöf með hraði.

Það er hins vegar full ástæða til að hafa áhyggjur af því að reiður stjórnmálamaður sem á persónulegra harma að hefna og er auk þess hluti af valdakerfinu  vilji setja lög sem varða tjáningarfrelsi. Það er einfaldlega hætt við því að þó lögin eigi að hafa sómasamlegt markmið - að koma í veg fyrir nafnalausar  ærumeiðingar á netinu - verði þau þannig úr garði gerð að þau muni hefta ritfrelsi og tjáningarfrelsi á óeðlilegan hátt. Dæmi eru um það í öðrum löndum að lög sem eiga að tryggja vissa hagsmuni fólks, sem kannski eru góð og gild,  verði valdastéttunum kærkomið skálkaskjól  til að bæla niður gagnrýni og andóf. 

Lagagerð í málum sem eru jafn viðkvæm og flókin sem tjáningarfrelsi á  svo vitaskuld ekki að setja með hraði heldur að vandlega íhuguðu máli. Bálreiður stjórnmálamaður á   heldur alls ekki að setja lög. Hann á að hafa hægt um sig til að skapa ekki vandræði.

Það er full ástæða til að almenningur hafi stjórnmálamenn í strangri gæslu og veiti þeim strangt aðhald þegar þeir ætla sér að setja lög sem snerta tjáningarfrelsi. 

Reyndar er þessi pistill Björgvins afar óskýr. Hann talar til dæmis um að skýra þurfi lögin um ærumeiðingar þegar hann á greinilega við að setja þurfi ný lög. Það er einmitt oft háttur stjórnálamanna að vera óskýrir og gefa ekki almennilega uppi markmið sín. Þess vegna þarf að passa vel upp á þá að þeir fari ekki þjóðinni að voða.

Síðasta hugsun Björgvins í pistlinum er hreinlega út í hött og gengur ekki upp: 

''Verði það niðurstaðan að það sé löglegt og siðlegt að fólk níðist nafnlaust og án ábyrgðar á fólki á netinu skal það allavega liggja fyrir hver ber þá ábyrgðina og hvert skal hana sækja þegar um ærumeiðingar er að ræða''. 

Það liggur í augum uppi að verði  niðurstaðan sú að það sé löglegt að fólk níðist á öðrum nafnlaust og án ábyrgðar á netinu þarf enginn að bera á því ábyrgð  - það er jú löglegt - af því tagi sem Björgvin á við og ábyrgðina þarf því ekki að sækja neitt. 

Það er innri mótsögn í orðum hans. Þau eru því sannarlegt rugl. Eins og svo margt sem frá stjórnmálamönnum kemur og við höfum fengið okkur fullsödd af. 

Ég þarf varla að taka það fram að ég hef andstyggð á þess háttar rógburði og slúðri sem Björgvin segist hafa orðið fyrir.

Það breytir ekki því að ástæða er til að veita honum og öðrum stjórnmálamönnum strangt aðhald í hvers konar hugsanlegri lagasetningu sem þeir stofna til er varða tjáningarfrelsi.

Þjóðin hefur reynslu af því að stjórnmálamönnum er varlega treystandi fyrir mikilvægustu hagsmunum þjóðarinnar.  


Ingólfstorg

Þetta torg finnst mér voða ljótt og leiðinlegt. Það er svo sóðalegt eitthvað og hirðuleysislegt.

Ekki get ég séð að það versni mikið þó það verði þrengt nokkuð.

Það stendur ekki til að rífa gamla fallega Sjálfstæðishúsið við Austurvöll en hins vegar salinn þar sem Nasa er. Ekki er sú bygging augnayndi utan frá. Inn í hana hef ég hins vegar ekki komið frá því Sigtún var og hét. Þá voru þar oft sætustu stelpur bæjarins.

En nú hefur kreppan gert allar stelpur alveg ferlega súrar og sjúskaðar og þær eru ekkert sætar lengur.

Mér finnst annars að eigi að byggja hótelið  bara á  Ingólfstorgi en þar var Hótel Ísland í gamla daga áður en það brann til ösku. 

Síðan á að hefja Lækjartorg aftur til vegs og virðingar. Þessi graslagning þar í steinkeri er eitthvað það misheppnaðasta og hallærislegasta sem mönnum hefur nokkru sinni dottið í hug.

Og hefur mönnum þó dottið æði margt misheppnað og hallærislegt í hug. 

 

 

 


Góð hugmynd

Í fjölmiðladálki Morgunblaðsins í dag, Ljósvakanum, kemur Sveinn Sigurðsson með þá hugmynd að  sjónvarpið geri veðrinu meiri og betri skil öðru hverju, til dæmis mánaðarlega, umfram veðurfréttirnar. ''Þá mætti til dæmis fjalla um veðráttu síðustu vikna eða mánaða og bera hana saman við sama tíma fyrir ári eða á fyrri árum. Öll saga lands og þjóðar er öðrum þræði veðurfarssaga. Það mætti alveg velta því upp hvernig hafi viðrað á ýmsum örlagatímum. Hvernig blésu vindar í móðuharðindunum, hvaða veðrakerfi olli kuldunum miklu 1918?''

Svona skýringarþættir myndu auðvitað kosta peninga og ekki er líklegt að sjónvarpið hafi áhuga á að fjármagna þá. Fremur að það setji peninga í íþróttir eða poppþætti. Sjónvarpsfræðsla um veðrið held ég því að sé ekki sérlega raunsæ hugmynd.

Hins vegar virðist netið vera kjörið fyrir þetta. Það væri mjög gaman ef til dæmis á vef Veðurstofunnar væru fastir dálkar þar sem veðuratburðir væru skýrðir.  Ekki hefur verið hörgull af merkilegum veðuratburðum síðustu árin, hitabylgjur, þurrkar, votviðri, kuldaköst, svo sem það einkennilega kast sem kom allt í einu seint í síðasta júlímánuði ofan í mikil hlýindi, og þar fram eftir götunum. 

Það væri engin hörgull á viðfangsefnum fyrir svona síðu.

Á vef Veðurstofunnar má reyndar finna ýmsar fróðleiksgreinar en þær virðast koma nokkuð tilviljanakennt og eru langflestar skrifaðar af einum manni. Það vantar fastan dálk.     

Aðeins einn veðurfræðingur heldur úti föstu veðurbloggi, Einar Sveinbjörnsson. Blogg hans hefur  stöðugan og nokkuð fjölmennan lesendahóp að því er virðist. Áreiðanlega væri grundvöllur fyrir fleiri veðurbloggum.

Fyrir nokkrum áratugum gáfu íslenskir veðurfræðingar út tímaritið Veðrið, alþýðlegt rit um veður, sem kom út í ein tuttugu ár. Þá höfðu veðurfræðingar yndi af því að fræða almenning.

En núna? Nú gerist lítið sem ekkert í þeim efnum.

Hitt er annað mál að talsverð vinna fer í að taka saman veðurlegt efni og veðurfræðingar eru  væntanlega önnum kafnir.

Mig langar samt til að halda að fíknin til að fræða sé ekki alveg horfin meðal veðurfræðinga. 

Hugmynd Sveins Sigurðssonar ættu þeir endilega að gera að veruleika - á netinu.

 


Pirringur

Vefir Veðurstofunnar á netinu eru þeir bestu sem veðurstofur Norðurlanda bjóða upp á og þó miklu víðar væri leitað.

Þeir eru nú tveir í gangi, sá nýi og sá gamli.

Eigi að síður ætla ég að kvarta dálítið yfir þeim núna. 

Á gamla vefnum birtist kvölds og morgna yfirlit um nóttina og daginn. Á morgnana er hægt að sjá þarna sólskinsstundirnar sem mældust daginn áður í Reykjavík og kemur þetta hvergi annars staðar fram á vefum Veðurstofunnar. En undanfarið hefur verið óregla á þessum upplýsingum. Þær koma ekki. Síðustu upplýsingar núna eru t.d. frá því klukkan sex í gær. Engar upplýsingar er þá að hafa um sólina í Reykjavík auk þess sem hámarks-og lágmarkshiti í Reykjavík og á landinu um nóttina og svo aftur yfir daginn og mest úrkoma og vindur kom þarna alltaf fram.

Mesti og minnsti hiti koma fram hér á nýja vefnum fyrir sjálfvirkar stöðvar en aðeins fyrir þrjár stöðvar í einu. En ekki fyrir mönnuðu stöðvarnar. 

Þær koma hins vegar á gamla vefnum hér. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að hitinn er frá kl. 18 til 18 sem þýðir það að stundum er mesti hiti sem gefinn er upp í rauninni frá því daginn áður. Annar listi er frá kl. 9 til 9 sem kemur á morgnanna. Hann er skárri að þessu leyti. Það var áður hægt að smella á sjálfvirku stöðvarnar sem fylgja þarna með hinum mönnuðu og leiddi það menn beint inn á upplýsingar frá viðkmomandi sjálfvirkir stöð. Þetta er ekki hægt lengur heldur kemur þetta sem þýðir  að menn verða að leggja í leit og vesen. Þetta er afturför.

Ég botna satt að segja ekkert í því að ekki sé búið að setja inn á nýja vefinn daglegt uppgjör fyrir allar stöðvar fyrir hita og úrkomu, að ógleymdu sólskini fyrir Reykjavík og Akureyri. Hitalistarnir fyrir mönnuðu stöðvarnar ættu alls ekki að vera frá klukkan 18 til 18 eða klukkan 9 til 9 heldur frá klukkan 9-18 og svo aftur frá klukkan 9 til 18. Listarnir fyrir sjálfvirku stöðvarnar mættu vera frá miðnætti til miðnættis eins og nú er á nýja vefnum en einungis fyrir þær þrjár stöðvar sem mæla mest og minnst. Þær ættu allar að vera inni með daglegan hámarks-og lágmarkshita og úrkomu sem það mæla. 

Á gamla vefnum voru skemmtileg kort sem birtust reglulega á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn. En nú hefur óregla hlaupið í þetta.  Kortin birtast þannig að einhvern tíma eftir klukkan níu á morgnana koma kortin frá klukkan 3,6 og 9 en fremst er alltaf kortið frá hádegi daginn áður! Síðan kemur ekkert meira á síðuna fyrr en næstu nótt þegar hægt er að sjá kortin sem komu eftir hádegi og fram til miðnættis. En alltaf er eitthvað hádegiskort fremst. Upplýsingarnar sem á þessum kortum er hægt að sjá annars staðar. En þessi kort eru mjög skemmtileg og falleg og þau eiga að vera í lagi úr því verið er að birta þau á annað borð. 

Mér sýnist gamli vefurinn vera að drabbast niður án þess að hirt sé um að koma upplýsingum á honum inn á þann nýja. Pirrandi! 

Að lokum: Eitthvað er í ólagi með lágmarkshitann á mönnuðu stöðinni á Höfn í Hornafirði. Hún er nú hvað eftir annað með mesta kulda á landinu, með eins stigs frost í nótt. Það gengur engan veginn upp.

Afsakið pirringinn í mér í dag. En þetta er meðfæddur andskoti!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband