Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
29.9.2012 | 13:16
Fyrsta næturfrost í Reykjavík
Í nótt kom fyrsta næturfrostið á þessu hausti í Reykjavík, -1,2 stig. Síðasta frost í vor var 17. maí. Frostlausi tíminn var því 134 dagar en meðaltalið frá 1920, þegar Veðurstofan var stofnuð, er 143 dagar en 147 árin 2001-2011.
Frá því Veðurstofan var stofnuð 1920 hafa 54 septembermánuðir af 93 (þessi talinn með) í Reykjavík verið frostlausir eða 58% allra mánaða. Meðaltal lágmarkshita þessi ár fyrir september er 0,1 stig.
Ekki hefur enn mælst frost á suðausturlandi og við suðurstöndina og reyndar á einstaka stöðvum annars staðar.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 9.10.2012 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.9.2012 | 12:24
Ekki mjög kaldur september en úrkomusamur
Þrátt fyrir óveðrið mikla sem kom í þessum mánuði ætlar hann ekki að koma sérlega illa út hvað hitann snertir. Æði margir septembermánuðir hafa þar slegið honum við. Meðalhitinn í Reykjavík er nú næstum því kominn upp í meðallagið 1961-1990. Ekki mun þó hlýna á lokasprettinum en fremur kólna og verður meðalhitinn lítið eitt undir meðalhita þessa tímabils en langt undir meðallagi áranna 1931-1960 og sömuleiðis meðalhita september það sem af er þessari öld.
Á Akureyri er hitinn nú hálft stig undir meðallaginu 1961-1990. Þar er mánuðurinn þegar orðinn næst úrkomsamasti september sem þar hefur mælst. Gaman væri nú að hann slægi metið sem er 166 mm frá árinu 1946. Víðast hvar er úrkoman þegar komin yfir meðallag, þar með talið í Reykjavík en hvergi þó jafn tryllingslega sem á Akureyri þar sem hún er orðin talsvert meira en þreföld.
Snjóalög í þessum september verða eflaust með því meira eða mesta á norðurlandi eftir árstíma.
Nú er komin sjálfvirk veðurstöð á Grímsstöðum á Fjöllum á vegum Veðurstofunnar en þar hafa verið mannaðar athuganir samfellt frá því 1907. Ætli sé ekki tímaspursmál hve nær mannaðar athuganir leggjast þarna af. Ekki hvarflar víst að landleigurum að fá þennan Nubo til að fjármagna mannaða veðurstöð sem athugaði allan sólarhringinn. Hvað þá gera það að skilyrði fyrir leigu jarðarinnar til hans. Hann mundi ekki finna fyrir þessu fjárhagslega.
En það er auðvitað til of mikil mælst að þeir sem sjá um þetta hafi minnsta skilning eða áhuga á veðurathugunum eða veðurfarslegum rannsóknum.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 28.9.2012 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2012 | 18:46
Sólarminnstu septembermánuðir
September 1943 er sá sem boðið hefur upp á minnst sólskin í Reykjavík frá 1911 með 40 sólskinsstundir en meðaltalið 1961-1990 er 125 klukkustundir. Og hann er sá þriðji sólarminnsti á Akureyri með 34 stundir. En sumarið í heild, júní til september, er það sólarslakasta sem mælst hefur á Akureyri frá 1928. Auk þess var veturinn og árið 1943 það sólarrýrasta sem þar hefur mælst. Í síðustu viku mánaðarins kom mikið hríðarveður fyrir norðan. Jörð varð reyndar hvít líka sums staðar á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Snjólag var 7% á landinu og hefur aðeins verið meira árin 1954 og 2005. Hitinn var í meðallaginu 1961-1990 en úrkoman langt yfir meðallaginu 1931-2000 en eins og áður í þessum sólskinspistlum er miðað við þessi meðaltöl svo einhver viðmiðun sé notuð um það hvernig mánuðurnir sem sagt er frá komu út í hita og úrkomu. Á Mælifelli í Skagafirði mældist úrkoman 172 mm og hefur aldrei mælst önnur eins septemberúrkoma á veðurstöðvum þar í grennd. Þetta voru þó smámunir miðað við úrkomuna á Horni í Hornvík á Ströndum sem var 442 mm. Á Blönduósi var einnig met úrkoma, 123 mm. Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness kom út þann 4. en heimsstyrjöldin stóð sem hæst.
Sólarlakasti september á Akureyri er hins vegar árið 1988, 24 klukkustundir, en meðaltalið er 85 stundir árin 1961-1990. Á Melrakkasléttu mældust sólskinsstundir aðeins 19 og er það minnsta sólskin sem mælst hefur í september á íslenskri veðurstöð. Á Hallormsstað voru sólskinsstundirnar 33 og voru þar aðeins færri í september 1981. Á Dalatanga hefur aðeins einu sinni mælst meiri úrkoma í september (frá 1938). Þar fór hitinn í 25,8 stig þann 14. sem er næst mesti septemberhiti sem mælst hefur á landinu. Sama dag fór hitinn í 24,5 stig á Neskaupstað. Snjólag var 5% á landinu.
Fyrir 1920 komu fjórir septembermánuðir sem ná inn á lista yfir þá tíu sem hafa minnst sólskin í Reykjavík. Á þessum árum, áður en Veðurstofan var stofnuð, voru sólskinsmælingarnar reyndar á Vífilsstöðum.
September 1912 er sá annar sólarminnsti með 39 sólskinsstundir. Þetta var úrkomusamur mánuður, meira en 50% yfir meðallaginu á landinu en vel hlýr, heilt stig yfir meðallaginu. Á austurlandi féllu skriður í fyrstu vikunni vegna mikilla rigninga. Næsti september, 1913, er sá áttundi sólarminnsti með 71 sólarstund. Það var fremur hlýtt, hitinn meira en hálft stig yfir meðallagi og úrkoman nokkuð undir því. Árið 1916 var landshitinn sá sami og 1913 og úrkoman mjög svipuð. Sólin í Reykjavík skein 69 stundir sem gerir hann sjöunda sólarminnsta september. Um miðjan mánuð kom mikið norðanáhlaup með brimi sem olli tjóni á Siglufirði. September 1919 var ólíkur þessum mánuðum. Hann var kaldur, heilt stig undir meðallagi, og úrkoman var ennþá minni, um þrír fjórðu af meðallaginu. Óþurrkar voru þó á norðausturlandi. Sólin skein í 61 stund í höfuðstaðnum og er þetta þar fimmti sólarsnauðasti september. Þann 3. var í fyrsta skipti flogið á Íslandi en þ. 10. var austurríska keisaradæmið lagt formlega niður.
Á fjórða áratugnum komu tveir septembermánuðir sem eru á topp tíu listanum á Akureyri fyrir sólarleysi. Árið 1934 voru sólskinsstundirnar þar 55 og er þetta áttundi sólarrýrasti september. Hitinn var meira en heilt stig yfir meðallagi á landinu og úrkoman var meira en 50% yfir því. Einstaklega úrkomusamt var á Kjörvogi á Ströndum, 268 mm, og hefur á veðurstöðvum þar í grennd aldrei mælst jafn mikil úrkoma í september eða nokkrum öðrum mánuði ársins. Litlu minni úrkoma var á útskögum allt frá austfjörðum norður og vestur um til Stranda. Þetta var austanátta september.
Í september 1935 skein sólin 57 stundir á Akureyri og gerir það mánuðinn níunda sólarminnsta september þar. Mánuðurinn var lítið eitt kaldari á landinu en árið áður en úrkoman var miklu minni, náði ekki þremur fjórðu af meðallaginu. Sérstaklega var þurrt á suðvesturlandi og er þetta þurrasti september sem mælst hefur í Stykkishólmi (frá 1857) og í Reykjavík. Á síðast talda staðnum voru sólarstundirnar 130 og meðalhitinn 9,2 stig og mun þetta vera með ljúfari septembermánuðum í höfuðborginni. Úrkoman á Vestfjörðum var einnig sjaldgæflega lítil. Þann 15 voru gyðingar í Þýskalandi sviptir mannréttindum með alærmdri lagasetningu.
Á fyrsta hernámsárinu, 1940, mældust sólskinsstundirnar 60,5 stundir á Akureyri og er hann þar með sá ellefti sólartæpasti. Hitinn á landinu var rúmlega eitt stig undir meðallagi en úrkoman var aðeins ríflega helmingur af meðalúrkomu og tel ég mánuðinn sjöunda þurrasta september. Það var í þessum mánuði, svo seint sem þann 24., sem dularfullur atburður gerðist á Teigarhorni við Berufjörð. Í Veðráttunni stendur: "Þ. 24. Milli kl. 15 og 16 kom hitabylgja á Berufirði og fannst hún einnig af sjómönnum á miðum úti af firðinum. Hámarksmælir á Tgh. Sýndi 36° þenna dag." Þessi tala hefur þó síðar verið strikuð út á Veðurstofunni. Klukkan 14 var hitinn 13.1 stig á stöðinni. En hvað fundu sjómennirnir?! Ætla menn að hetjur hafsins fari með rugl?! Mjög þurrt var þennan mánuð á Teigarhorni, 13,9 mm, og hefur aðeins tvisvar verið þar þurrviðrasamara í september (frá 1873). Mikið kuldakast gerði snemma í mánuðinum og setti niður snjó fyrir norðan kringum þann 10. en þann 7. var hámarkshitinn i Reykjavík aðeins 4,9 stig sem er algjört met þann dag. Meðalhitinn hefur þá ekki verið þar mikið meiri en þrjú og hálft stig sem er líka einsdæmi svo snemma i september í Reykjavík, a.m.k. síðan Veðurstofan var stofnuð 1920.
September 1945 er sá tíundi sólarminnsti á Akureyri en þá skein þar sólin í 58 stundir en 87 í Reykjavík. Það var svo úrkomusamt að úrkoman var um 80% umfram meðallagið og er þetta sjötti úrkomusamasti september á landinu að mínu tali. Mjög úrkomusamt var á suðausturlandi og hefur ekki mælst votari september á Fagurhólsmýri, 372 mm, (frá 1922) né á Kirkjubæjarklaustri, 444 mm (frá 1931). Tónsnillinganrir hrundu niður þennan mánuð. Anton von Webern var skotinn til bana af slysni þ.15. en Béla Bartók dór úr hvítblæði þ. 26.
Árið 1949 var september sá fjórði sólarsnauðasti í Reykjavík með 59 sólarstundir en 71 á Akureyri. Hitinn var hálft annað stig yfir meðalagi og úrkoman í rösku meðallagi. Það er annars merkilegast við þennan mánuð að þá mældist mesti hiti á landinu sem mælst hefur í september, 26,0 stig þann 12. á Dalatanga á austfjörðum. Um morguninn var sólarhringsúrkoman í Kvíginindisdal við Patreksfjörð 105 mm. Þann 8. dó enn einn tónsnillingurinn, Richard Strauss, síðasti dínósár 19. aldarinnar í tónlist.
Á því góða ári 1953 sem skartaði 8. hlýjasta september á landinu var hann þó sá sjötti sólarrýrasti í Reykjavík með 68 sólskinsstundir. Hitinn var um tvö og hálft stig yfir meðallagi en úrkoman var mikil, 45% umfram meðallag. Hún var mjög mikil á suðausturlandi og ekki hefur mælst meiri úrkoma í september á Hólum í Hornafirði, 376 mm (frá 1931).
September 1954 er sá sjöundi sólarminnsti á Akureyri með 53 stundir en í Reykjavík er hann sá tíundi sólríkasti. Þetta var kaldur norðanáttamánuður og tel ég hann sjöunda kaldasta september á landinu. Þetta er jafnframt snjóþyngsti september sem mælst hefur frá 1924. Snjólag á landinu var 11%, en var til jafnaðar 2% árin 1961-1990. Mesta frost sem mælst hefur á landinu í september mældist þann 27. í Möðrudal, -19,6 stig. Allvíða annars staðar þar sem lengi hefur verið athugað komu kuldamet í september. Úrkoman var mikil á norðausturlandi en lítil á suðvesturlandi en á landinu var úrkoman aðeins rúmlega hálf meðalúrkoma og að minni ætlan rétt skríður mánuðurinn inn á lista yfir tíu þurrustu septembermánuði. Í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst þurrari september frá 1881, 37,1 mm, og ekki heldur á Eyrarbakka, 19,2 mm
Ekki var sólinni fyrir að fara í september 1958, þriðja hlýjasta september, bæði á landinu og í Reykjavík. Sólskinið í höfuðborginni var 71 stund og er þetta þar níundi sólarminnsti september. Meðalhitinn í Reykjavík var 11,4 stig sem væri ágæt tala í júlí, og landshitinn var meira en þrjú stig yfir meðallagi en úrkoman náði ekki alveg meðallaginu. Á Akureyri vantaði sólskinsmælingar í fjóra daga (sem líklega voru sæmilegir eða góðir sólardagar) en það sem mælt var voru aðeins 40 klukkustundir. Fyrsta dag mánaðarins var landhelgin færð út í 12 mílur.
Sá ískaldi september, 1979, næst kaldasti í mælingasögunni frá 1866, er fimmti september í sólarleysi á Akureyri með 49 sólskinsstundir en þær voru 126 í Reykjavík. Hitinn var nær því þrjú stig undir meðallagi á landinu og úrkoman var mikil, hátt upp í að vera 50% meiri en meðallagið. Aðeins tveir septembermánuðir hafa verið úrkomusamari á Stórhöfða í Vestmannaeyjum en enginn á Hlaðhamri við Hrútafjörð, 123 mm (frá 1941). Mikið hret gerði um miðjan mánuð og við Mývatn voru 15 dagar taldir alhvítir. Þessi ósköp komu ofan í mjög kalt sumar.
September 1981 er sá næst sólarminnsti á Akureyri með 32 sólskinsstundir. Þetta er hins vegar sólarminnsti september á Hallormsstað, 28 klst og Hólum í Hornafirði, 49,5 klst. En hann aftur á móti sá níundi sólríkasti í höfuðborginni. Norðaustanátt var ríkjandi og úrkoman á landinu var í rétt aðeins rúmu meðallagi.
Sjötti sólarsnauðasti september á Akureyri er 1987 en sólarstundirnar voru þá 50 í Reykjavík. Bæði hiti og úrkoma voru í rösku meðallagi á landinu. Mikil úrkoma var á Seyðisfirði þann 22. Og mældist sólarhringsúrkoman þar næsta morgun 108 mm. Montrealsamningurinn um verndun andrúmsloftsins var undirritðaur í Montreal þ. 16.
September 1992 er sá fjórði sólarslakasti á Akureyri með 39 stunda sólskin en ekki hafa mælst færri sólskinsstundir í september á Hveravöllum, 45 klukkustundir. Ekki hefur heldur mælst minna sólskin í september við Mýatn frá 1990. Hitinn var aðeins undir meðallagi á landinu en þó gerðist það að næst síðasta daginn fór hitinn í Reykjavík í 16,8 stig og hefur aðeins einu sinni mælst þar hærri hiti svo síðla sumars, 16,9 stig, síðasta dag septembermánaðar 1958.
Sá hlýi september 1996, sá fjórði hlýjasti á landinu, var þriðji sólarminnsti í Reykjavík með 55 sólskinsstundir. Hitinn var næstum því þrjú og hálft stig yfir meðallagi landsins en úrkoman nálgaðist að vera 50% yfir meðallagi. Síðasta daginn hófst eldgos í Gjálp í Vatnajökli.
Númer tíu á listanum í Reykjavík er september 1966 með 71,9 sólarstundir og september 2009 var með nákvæmlega jafn fáar sólskinsstundir. Ekki hefur mælst minna sólskin en 1966 á Sámsstöðum, 46 klst. Hitinn á landinu var tæplega hálft stig yfir meðallaginu í 1966 mánuðinum en úrkoman aðeins liðlega helmingur af meðallaginu og kemst mánuðurinn inn á topp tíu þurrustu septembermánuði á landinu. Í september 2009 var hitinn hins vegar heilt stig yfir meðallaginu en úrkoman var um 40 % yfir meðallagi.
Meðalhiti ellefu septembermánaðanna með minnst sólskin í Reykjavík er 8,8, stig eða 2,1 stigi hlýrri en meðalhiti tíu sólríkustu septembermánaða en meðalhiti tíu sólarminnstu septembermánaða á Akureyri er 6,3 stig eða 1,4 stigum lægri en meðalhiti hinna tíu hlýjustu. Varla er hægt að fara í sólskinsskap yfir þessari staðreynd hvað Reykjavík varðar.
Veðurfar | Breytt 21.4.2013 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.9.2012 | 13:47
Der Stürmer gengur aftur
Á Moggablogginu er nú færsla sem fjallar um það að hælisleitandi frá Írak hefur verið fluttur úr landi til Noregs. Færslan er ekki vinsamleg í garð hælisleitanda. En það er fyrirsögnin sem hlýtur að vekja sérstaka athygli.
"Aflúsun".
Það er alveg ómögulegt að skilja þessa fyrirsögn öðruvísi en þannig að með því að flytja manninn úr landi sé verið að aflúsa íslensku þjóðina.
Litið er á manneskjur sem lýs.
Þetta gæti verið tekið beint upp úr Der Stürmer, hinu alræmda gyðingahatursblaði nazista en ritstjóri þess var að lokum hengdur fyrir glæpi gegn mannkyni. Þá voru það gyðingar sem urðu fyrir hatrinu, nú eru það hælisleitendur, flóttamenn og innflytjendur. Og þessi tónn er að verða óhugnanlega algengur hér á landi um þá hópa ef dæma má eftir skrifum á netinu.
Menn geta haft deildar meiningar um málefni hælisleitenda en menn tala ekki um manneskjur sem lýs. Það er einfaldlega hatursáróður.
Brýtur þetta annars ekki í bága við skilmála blogg is. um óviðurkvæmilegan málflutning?
20.9.2012 | 13:23
Nýjung
Við höldum áfram með þennan tiltölulega slappa september sem einn sem gerði einhvers staðar athugasemd við netfærslu sagði að líktist fremur október en september.
Hið nýjungagjarna fylgiskjal bryddar nú upp á tveimur nýjungum til vibótar.
Á blaði 1 hefur verið settur inn dálkur með meðaltali hámarkshita í Reykjavík hvern dag mánaðarins frá stofnun Veðurstofunnar 1920 og annar dálkur með meðaltali hámarkshita hvers dags á landinu frá 1949. Þetta eru bein dagsmeðaltöl en ekki útjöfnuð. Menn geta nú áttað sig á því hvernig hámarkshiti viðkoamndi dags stendur sig í samanburði við langtíma reynslu.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 26.9.2012 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2012 | 18:34
Sólríkustu septembermánuðir
Norðlægar áttir eru mestu sólaráttirnar í Reykjavík. Og því meiri norðanátt því meiri líkur á sól. Og því meiri norðanátt því meiri líkur á köldu veðri. Þess vegna er það svo að fimm af tíu köldustu septembermánuðum í Reykjavík eru einnig á lista yfir þá tíu sólríkustu.
Árið 1975 er sólríkasti september sem mælst hefur í Reykjavík frá 1911 með 187 sólarstundir en meðaltalið 1961-1990 er 125 stundir. Þetta er jafnframt fjórði kaldasti september í höfuðborginni en sá fimmti á landinu frá 1866 eftir mínum kokkabókum. Norðanáttin var svo að segja linnulaus. Á Sámsstöðum er þetta einnig sólríkasti september, 160 klst. Fremur sólríkt var líka fyrir norðan. Hitinn var 1,6 stig undir meðallagi á landinu fyrir þær stöðvar sem lengst hafa athugað. Úrkoman var í rúmu meðallagi miðað við meðaltalið 1931-2000 þeirra stöðva sem lengst hafa athugað. DV hóf göngu sína hinn 8.
Kaldasti september í Reykjavík og líka á landinu í heild er hins vegar árið 1918 en hann er sá áttundi sólríkasti í Reykjavík með 162 stundir. Mánuðurinn var ansi þurr á manninn ofan í kuldann, úrkoman liðlega helmingur af meðallaginu. Þá mældist mesta frost sem mælst hefur í Reykjavík í september, -4,6 stig þ. 29.
Sólríkasti september á Akureyri er hins vegar 1976 en þá mældust sólskinsstundirnar, 189 eða 2 stundum fleiri en í sólríkasta september í Reykjavík. Þetta er eina dæmið um það að sólskinsmet nokkurs mánaðar sé hærra á Akureyri en í Reykjavík. Meðaltal sólarstunda í september 1961-1990 á Akureyri er aðeins 87 stundir. Þetta er jafnframt sólríkasti septembermánuður sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð. Á Melrakkasléttu er þetta og sólríkasti september sem þar hefur mælst, 176 klst og einnig á Hveravöllum, 171 klst. Sólardagar með meira en tíu stunda sól voru fimm á Akureyri og hafa aldrei verið fleiri í september. Í Reykjavík var sólskin líka talsvert meira en í meðallagi. Þetta er þriðji þurrasti september á Akureyri, eftir 1958 og 1931. Alls staðar var þetta stilltur og hlýr mánuður, hitinn sjónarmun yfir meðallaginu 1931-1960 en þá var meðalhiti september 1,2 stig yfir meðallagi áranna 1961-1990. Það var líka mjög þurrviðrasamt. Á Vopnafirði var úrkoman aðeins 0,1 mm og hefur aldrei mælst minni septemberúrkoma á íslenskri veðurstöð. Á Raufarhöfn og Húsavík mældist aldrei minni septemberúrkoma og heldur ekki á Ströndum, Hrauni á Skaga og í Grímsey. Úrkoman á landinu var aðeins liðlega helmingur af meðallaginu 1931-2000 en mánuðurinn nær samt ekki alveg inn á topp tíu listann yfir þurrustu mánuði fyrir þær stöðvar sem allra lengst hafa athugað. Mao formaður andaðist þ. 9.
Næsti september, 1977, er sá tíundi sólríkasti á Akureyri með 118 sólskinsstundir. Hitinn á landinu var nákvæmlega í meðallagi en úrkoman átti þó nokkuð upp í það. Þetta er sólríkasti september sem mældist á Hallormsstað, 154 klst. Mjög sólríkt var einnig á Melrakkasléttu, 161 stund, og aðeins september árið áður var þar mældur sólarmeiri. Þann 8. opnaðist hraunsprunga við Leirhnúk og starfsmenn virkjunarinnar urðu að flýja.
Þess má hér geta að enginn septembermánuður kemst inn a topp tíu listann að rólríki bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Næst sólríkasti september í Reykjavík er 1954, 186 stundir. En þetta var kaldur norðanáttamánuður og tel ég hann sjöunda kaldasta september á landinu. Þetta er jafnframt snjóamesti september sem mælst hefur frá 1924, snjólag á landinu var 11%, en er til jafnaðar 2%. Vetrarríki mátti heita á norðurlandi síðustu vikuna og reyndar víðar. Jafnvel var skódjúpur snjór að morgni hins 28. í Reykjavík en hvarf þó fljótlega. Mesta frost sem mælst hefur á landinu í september mældist þann 27. í Möðrudal, -19,6 stig. Allvíða annars staðar þar sem lengi hefur verið athugað komu kuldamet í september. Úrkoman var mikil á norðausturlandi en lítil á suðvesturlandi en á landinu var úrkoman aðeins rúmlega hálf meðalúrkoma og að minni ætlan rétt skríður mánuðurinn inn á lista yfir tíu þurrustu septembermánuði. Í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst þurrari september frá 1881 og ekki heldur á Eyrarbakka frá 1880 en eyða var 1911-1925 og ekki í Hreppunum og í Fljótshlíð. Met þurrkar í september virðast hafa teygt sig um Borgarfjörð og sunnanvert Snæfellsnes en þar hefur verið skipt um stöðvar og erfitt að átta sig nákvæmlega á þessu.
Fjórir aðrir mjög sólríkir septembermánuðir í höfuðstaðnum eru einnig með þeim köldustu.
Árið 1924 var september sá tíundi sólríkasti með 155,5 stundir og hann var jafnframt sá 10. kaldasti. Tvo daga síðast í mánuðinum var alhvítt í borginni en snjódýpt var aðeins 1 cm. Snjólag á landinu var 7% og er með því mesta í september. Úrkoman var aðeins rétt rúmlega helmingur af meðalúrkomunni og örlítið minni en 1954 og kemst mánuðurinn inn á topp tíu listann fyrir þurrustu septembermánuði.
Tveir kaldir og sólríkir septembermánuðir komu í röð árin 1981 og 1982.
Sá síðarnefndi er sá sjöundi sólríkasti með 159 sólarstundir og á landinu er hann sjötti kaldasti september. Úrkoman var rétt neðan við meðallag.
September 1981 var hins vegar sá 9. sólríkasti í höfuðborginni en aftur á móti sá sólarminnsti bæði á Akureyri, 32 kkukkustundir, og Hallormsstað, 28 stundir og auk þess á Hólum i Hornafirði, 49,5 klukkustudnir. Norðaustanátt var ríkjandi og úrkoman á landinu var í rétt rúmu meðallagi. Hitinn var í tæpu meðallagi.
September 2005 er sá þriðji sólríkasti í Reykjavík með 185 sólskinsstundir. Hitinn var um hálft annað stig undir meðallagi á landinu og frávikið furðulega jafnt um allt land. Mjög kalt var síðustu vikuna. Þá var víða komin vetrarfærð fyrir norðan og festi snjó á Akureyri og líka á stöku stað sunnanlands og vestan. Snjólagsprósenta á öllu landinu var 98% og hefur ekki verið hærri nema 1954. Mjög úrkomusamt var norðantil á landinu en minni en í meðallagi sunnanlands en hvergi voru þó raunveruleg þurrviðri og landsúrkoman í kringum meðallag.
September 1957 var um landið rétt undir meðallagi 1961-1990 og er sá fjórði sólríkasti í Reykjavík með 177 sólskinsstundir. Hann hefur hins vegar metið í borginni fyrir fjölda sólardaga fleiri en 10 klukkustundir og voru þeir tíu. Menn töldu þetta mjög góðan mánuð. Aðeins september 1935 og 1927 hefur verið þurrari í Stykkishólmi frá 1856 og einungis september 1952 í Vík í Mýrdal frá 1925.
Þann 27. var mikið kjarnorkuslys nærri Sjeljabínsk Rússlandi en ekki var upplýst um það fyrr en nokkrum áratugum síðar. Margt gerðistí menningarlífinu heima og erlendis. Árbæjarsafn opnaði þ. 22., Sibelius lest þ. 20., skáldsagana On the Road (Á vegum úti) eftir Kack Kerourac kom þ. 5. en söngleikurinn West Side Story eftir Leonard Bernstein var flrumfluttur á Broadway þ. 26. Í Reykjavík fór fram alþjóðlegt skákmót sem kennd var við sænska stórmeistarnn Ståhlberg sem keppti á mótinu.
Aðeins hlýrri en þessi mánuður en 1958, þó hann hafi varla tekist að merja meðalhitann 1961-1990, var september 1994 sem er sjötti sólríkasti i Reykjavík með 168 stundir af sólskini. Hægviðrasamt var og þurrt, um þrír fjórðu af meðalúrkomu, og sólríkt um allt land. Á Akureyri er þessi mánuður sá annar sólríkasti en þar skein sólin 130 klukkustundir. Við Mývatn hefur ekki mælst sólríkari september í um 25 ára mælingasögu, 136,5 stundir.
Eini septembermánuðurinn meðal hinna tíu sólríkustu í Reykjavík sem náði klárlega meðalhita á landinu og var beinlínis hlýr er september 2011. Hann krækti í að vera fimmti sólríkasti september í borginni með 168 sólarstundir og var 1,7 stig yfir hitameðaltali landsins 1961-1990 og meira að segja hálft stig yfir meðaltali hlýju áranna 1931-1960. Í Reykjavík voru 9 dagar með meira en tíu klukkustunda sólskini, það næst mesta í nokkrum september. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar yfir meðallagi en sættu þó engum tíðinum.
Sólríkasta septembermánaðar á Akureyri, 1976, hefur áður verið getið. En það er skemmtilegt að sjálfur september 1939, glæsilegasti hitaseptember í sögunni á landinu (ásamt 1941) er áttundi sólríkasti september í höfuðstað norðurlands með 122 stundir. Meðalhitinn var þá 11,5 stig á Akureyri og hefur aðeins verið lítillega hlýrra þar í september 1941 og 1996.
Árið 1931 var fjórði sólríkasti september á Akureyri með 127, 5 klst sólskin. Þetta er jafnframt tíundi hlýjasti september á landinu og úrkoman var um þrír fjórðu af meðallaginu 1931-2000. Mjög þurrt var á austurlandi og sums staðar fyrir norðan. Aðeins september 1894 hefur verið þurrari á Teigarhorni frá 1873 og september 1958 á Akureyri frá 1925. Á Eiðum var úrkoman aðeins 2,9 mm.
Lýðveldisárið 1944 kom þriðji sólríkasti september í höfuðstað norðurlands með 128 klst. Hitinn var um hálft stig yfir meðallagi á landinu en úrkoman rúmlega einn fjórðu yfir meðallaginu. Kvikmyndaleikkonan fræga, Marlene Dietrich, skemmti hermönnum á Íslandsi þ. 14. en lokahnykkur styrjaldarinnar var í fullum gangni.
September árið 1967 er sá sjöundi sólríkasti á Akureyri með 122 stundir. Hitinn var um 1,3 stig yfir meðallaginu 1961-1990 og á því tímabili voru aðeins þrír septembermánuðir hlýrri á landinu. Úrkoman var hins vegar minni en þrír fjóðu af meðallaginu. Sólskin í Reykjavík var 125 stundir, fleiri en á Akureyri, en kemst þar ekki inn á topp tíu sólarlistann.
September eftir kulda og rigningasumarið mikla á suðurlandi 1983 var alls staðar sólríkur en ansi kaldur, um heilt stig undir meðallaginu á landinu en miklu meira en það á norðausturlandi. En hann er sá níundi sólríkasti á Akureyri með 122 stundir. Þar mældist svo mesti loftþrýstingur á Íslandi í september, 1038,3 hPa þ. 26. Það sýnir svo kannski nokkra (gamaldags) öfga í veðurfari að eftir þetta mikla úrkomusumar á suðurlandi skuli þessi september einfaldlega vera sá þurrasti sem mælingar eru til um á landinu með minna en 40% af úrkomunni 1931-2000 á þeim fáu stöðvum sem lengst hafa athugað. Ekki hefur mælst þurrari september á Hólum í Hornafirði, Fagurhólsmýri og Kirkjubæjarklaustri. Á Kvískerjum er þetta eini september þar sem úrkoman hefur mælst minni en 100 mm en hún var 46 mm. Oft var bjart yfir í þessum mánuði og enn var meira sólskin í Reykjavík en á Akureyri, 138 klukkustundir. Þann fyrsta varð sá ægilegur atburður að sovésk orustuþota skaut niður farþegaþotu frá S-Kóreu og fórust þar 269 manns.
Árið 1986 skein sólin á Akureyri í 125 klukkustundir sem gerir mánuðinn fimmta sólríkasta september þar. Á Hólum í Hornafirði hefur aftur á móti aldrei mælst eins sólríkur september, 184 klukkustundir. Hitinn var heilt stig undir meðallaginu á landinu. Og enn og aftur var sólríkara í Reykjavík en á Akureyri, 146,5 stundir. Úrkoman á landinu var aðeins rétt yfir helming af meðallagi og er þetta einn af allra þurrustu septembermánuðum, nærri því að vera á miðjum topp tíu listanum.
Síðasti septembermánuður sem kemst inn á topp tíu listann fyrir sólríki á Akureyri er árið 2000 en þá skein sólin 124 stundir og er þetta sjötti sólríkasti september á staðnum. Í Reykjavík voru sólarstundirnar 140. Úrkoman á landinu var í rúmu meðallagi en hitinn meira en hálft annað stig yfir því. Þann 3. lést Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur en þ. 9. kom þýska nóbelskáldið Gunther Grass til landsins. Og þ. 25. varð Vala Flosadóttir þriðja í stangarstökki á ólympíuleikunum í Sydney.
Meðalhiti tíu sólríkustu septembermánaða á Akureyri er 7,7 stig en meðaltal allra septembermánaða þar árin 1961-1990 er 6,5 stig en 7,8 stig árin 1931-1960. Meðalhiti tíu sólríkustu septembermánaða í Reykjavík er hins vegar 6,7 stig en meðaltalið 1931-1960 er 8,6 stig og 7,3 stig árin 1961-1990. Sú staðreynd að tíu sólríkustu septembermánuðir á Akureyri skuli vera heilu stigi hlýrri en samsvarandi mánuðir í Reykjavík segir sína sögu um það hvaða áttir eru sólarvænstar á hvorum stað, köld norðanátt í Reykjavík en hlý sunnanátt á Akureyri.
13.9.2012 | 20:04
Enginn alvöru bati
Hret getur komið í öllum sumarmánuðum og alhvíta jörð getur þá gert í heiðabyggðum norðanlands. En snjódýptin er ekki mikil, svona 10 cm mest í júlí og ágúst og frameftir september en yfirleitt miklu minni. Það er ekki fyrr en í seinni hluta september sem búast hefur mátt við meiri snjódýpt en þetta, allt upp í hálfan metra seint í mánuðinum og auðvitað bara einstaka sinnum. Það sem nú er að gerast á sér því ekki hliðstæðu síðustu áratugi svona snemma hausts eða réttara sagt svona síðla sumars hvað snjóinn varðar. Snjódýptin hefur sums staðar fyrir norðan verið 25-50 cm.
Í fyrradag hlánaði ekki allan sólarhringinn á Grímsstöðum á Fjöllum. Það er nauðasjaldgæft á þessum árstíma en hefur þó gerst áður einu sinni eða tvisvar á síðustu áratugum. En það er ekki kuldinn sem nú er aðalatriðið heldur snjóþyngslin og auðvitað hvassviðrið sem kom með þau.
Lítið mun leysa á næstunni til fjalla fyrir norðan og um helgina má jafnvel búast við meiri snjókomu en þegar enn lengra líður er gert ráð fyrir að létta muni til. En þá verður kuldatíð.
Er þetta þá ekki til vitnis um vaxandi öfgar í veðurfari?
Nei, skrattakornið! Þetta er fremur vitni um það að svo sem flest getur gerst í veðrinu á hverri árstíð.
Einstaka sinum gerast stórlega afbrigðilegir atburðir. Og svo ekki kannski næstu 50 árin.
Og hana nú!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 18.9.2012 kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2012 | 19:20
Mikill snjór
Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að mikill snjór er í heiðabyggðum á norðurlandi og víðar. Snjódýpt í morgun á Auðnum í Öxnadal var mæld 50 cm. Mesta snjódýpt sem ég veit um í byggð í öllum september er 55 cm á Sandhaugum í Bárðardal þann 24. árið 1975.
En nú er bara 11. september! Og þori ég að veðja að þetta sé mesta snjódýpt sem mælst hefur á landinu, nema kannski á fjöllum, á þessum árstíma. Á Grímsstöðum var snjódýptin 30 cm og 20 cm í Reykjahlíð við Mývatn. Þarna er reynt að mæla jafnfallin snjó.
Úrkoman á Akureyri var mæld 34,4 mm í morgun en 42,8 í gær. Á tveimur sólarhringum hafa þar því fallið 77 mm og er það ekki hversdagslegt.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 12.9.2012 kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2012 | 15:22
Leiðinda septemberbyrjun og tölvubilanir
Þessi september byrjar ansi leiðinlega. Fyrst miklar úrkomu en ekki kalt en svo þegar birtir hér í Reykjavík er hitinn um hádaginn undir tíu stigum. Og þetta eru fyrstu dagar mánaðarins.
Það er einmitt þetta sem ég óttaðist. Að sólardagar með sæmilegum hita væru fyrir bý.
Oft er ágætis sumarblær frameftir september en því er nú ekki að heilsa. Í Reykajvík er meðalhiti fyrstu tíu dagana í júni og fyrstu tíu dagana í september til langs tíma alveg sá sami. Það, ásamt mörgu öðru, rettlætir að september sé talinn til sumarmánaða en ekki hausmánaða. En auðvitað kólnar jafnt og þétt allan manuðinn.
Tölva á Veðurstofunni bilaði og hafði það áhrif á aðgengi upplýsinga á vefsíðu hennar og hefur kannski enn. Mæligögn sjálvirkra stövða eru nú lengi að opnast en það gerðist áður á augabragði.
Eitt hefur ekki komið aftur. Það eru upplýsingar af gamla vefnum um mannaðar stöðvar á þriggja tíma fresti, raðað eftir spásæðum. Þar var t.d. hægt að sjá hámarks-og lágmarksmælingar stöðvanna sem hvergi annars staðar er að finna. Auk þess voru þarna upplýsngar frá mörgum sjálfvirkum stöðvum, en ekki öllum, á klukkutíma fresti. Það var mjög handhægt að fletta þessu upp til að sjá svona margar stövar saman, mannaðar sem sjálfvirkar, og geta flett eftir veðurhéruðum. Þetta var ekki sýnt annars staðar í töfluformi. Þetta var já á gamla vefnum. Og hefur horfið áður án þess að um bilun hafi verið að ræða.
Ég óttast nú mjög að þetta hverfi varanlega án þess að nokkuð komi í staðinn.
Það er kannski lítið vit í því að vera með tvær vefsiður en ekki má þurrka burtu efni á gamla vefnum sem EKKI er aðgengilegt á þeim nýja. Enn er nokkuð af efni á gamla vefnum sem ekki er á þeim nýja.
Ég hef sagt það áður og segi það enn að þessar upplsýngar frá mönnuðum stöðvunum eigi að koma endurbættar á nýja vefinn.
Auk þess væri frábært ef hægt væri að skoða sólarhrings hámark-og lágmarkhita allra sjálvirku stöðvanna (frá kl.0-24) á einu skjali svo menn þurfi ekki að leita að þessu á hverri stöð fyri sig sem tekur svona nokkurn veginn allan daginn.
Og það skjal mætti alveg vera uppi í að minnsta kosti nokkra daga en helst allt til enda veraldar!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 8.9.2012 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2012 | 23:05
Sá hann í gær
Ég þykist hafa séð skaflinn í gær í Gunnlaugssskarði í kíki útum eldhgúsgluggann minn. En má vera að ég hafi séð ofsjónir. Alveg örugglega er hann þó enn í Kerhólakambi eins og segir reyndar í fréttinni.
Esjan er því ekki orðinn snjólaus þrátt fyrir hlýindin. Hún var það heldur ekki í fyrra þrátt fyrir hlýindi.
Fylgiskjalið er í vissum vandræðum sem vonandi greiðist þó úr áður en snjóa leysir!
Viðbót 7.9. Nú er aftur bjart yfir og áðan sá ég í forláta kíki, sem er merktur hakakrossi og þýska erninum og pabbi fékk frá kafbátaforingja í Noregi þegar hann varð innlyksa þar í stríðinu, að enginn skafl er nú í Gunnlaugsskarði.
Það er því staðfest að ég sá ofsjónir þegar ég þóttist sjá skafl í skarðinu. Það er reyndar ljós blettur í berginu sem áður hefur villt um fyrir mér þegar skaflarnir eru orðnir mjög litlir.
Skaflinn í Esjunni horfinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.9.2012 kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006