Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013
29.3.2013 | 15:10
Mesti hiti á landinu í mars
Hiti hefur einu sinni komist í tuttugu stig eða meira í mars á Íslandi. Það var hinn 29. árið 2012. Þá fór hitinn á sjálfvirkri stöð Veðurstofunnar á Kvískerjum í 20,5 stig. Trausti Jónsson veðurfræðingur fjallaði um þennan atburð á bloggi sínu. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur spáði líka í þessa hitabylgju sem stóð í nokkra daga. Litlu munaði á hitinn á mannaðri stöð næði eldra slíku meti en á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði komst hitinn í 18,2 stig þann 26. Nimbus karlinn var hins vegar illa úti að aka meðan mest gekk á sem líklega hefur stafað af spennu og taugaæsingi! Hann fylgdist þó vel með almennt þessa dagana meðan hitabylgjan stóð yfir.
Elsta hitamet að vetri sem enn stendur á mannaðri veðurstöð var aftur á móti sett 27. mars árið 1948 á Sandi í Aðaldal, 18,3 stig. Það var mælt í gamaldags hitamælaskýli sem fest var á húsvegg.
Mörg hitamet sem komu þennan dag á landinu standa enn. Þar skal fyrst nefna marsmetið í Reykjavík, 14,2 stig. Í Reykjavík var á þessum tíma komið sérstætt mælaskýli líkt og nú tíðkast. Þennan dag, sem var laugardagurinn fyrir páska, var sléttur fjórtán stiga hiti kl. 14 að íslenskum miðtíma þegar veðurathugun var gerð, minna en hálfskýjað og áttin var austsuðaustan sex vindstig. Það hefur verið alveg þokkalegt skjól í görðum og mönnum hefur þótt þetta vera ótrúlega góður dagur.
Á nokkrum veðurstöðvum sem lengi hafa athugað hefur síðan ekki komið eins hár hiti í mars: Stykkishólmi 15,5, Gjögri 13,4, Akureyri 16,0, Reykjahlíð við Mývatn 13,1, Grímsstöðum 14,1 og Hallormsstað 16,5 stig. Allt mælt þ. 27. Þann dag var hæð yfir NV-Evrópu en lægð suður af Grænlandi og landið laugað í hlýjum loftsstraumi eins og sést á korti hér að neðan.
Næst mestu hitarnir í mars komu síðasta dag mánaðarins hafísaárið 1965. Það sérstaka var að hans gætti eingöngu á suður-og vesturlandi og mældist þá langmesti hiti sem mælst hefur á suðurlandsundirlendi í mars: Sámsstaðir, 17,9 (17,5 kl. 15), Hella 16,8, Akurhóll, 16,5, Hæll 13,5, Þingvelir 13,5. Einnig var mjög hlýtt í Borgarfirði: 15,8 stig á Hvanneyri og 15,2 í Síðumúla. en í Reykjavík hélt metið frá 1948. Þennan dag var austan eða suðaustanstrekkingur við suðvesturströndina en annars staðar lyngt og víða léttskýjað. Kannski olli hafísinn því að hitinn fyrir norðan náði sér ekki á strik. Mistur var í lofti þennan dag. Það þótti vorlegt á þeim árum en mistrið var í rauninni efnamengun frá Bretlandseyjum. Í Reykjavík skein sól fram á hádegi en síðan byrgði mistrið hana en hitinn fór í 13 stig.
Árið 1956 fór hitinn á Dalatanga upp í 17,4 stig þ. 27. Þá var veðri öðru vísi farið en í þeim hitabylgjum sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, allhvöss sunnan og suðvestanátt með mestu hlýindunum á Austfjörðum.
Þann 28. mars árið 2000 kom álitleg hitabylgja. Þá mældist hitinn 16,6 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði á kvikasilfursmæli en á sjálfvirku stöðinni á Eskifirði fór hitinn í 18,8 stig. Það var þá hæsta hitatala sem skráð hafði verið á íslenskri veðurstöð i mars.
Hér fyrir neðan má sjá veðurkort frá hádegi frá nokkrum þeirra daga sem hér er frá sagt og auk þess kort sem sýna ástand mála í 850 og 500 hPa flötunum, í kringum 1400 og 5000 m hæð. Þar sést hitinn í þessum hæðum en einnig má átta sig á veðurkerfunum við jörð. Biðst forláts á því að fyrir handvömm vantar kvarðann á efstu kortin en hann sést neðar.
Smápistil um mesta kulda í mars má sjá hér.
hæð. Þar sést hitinn í þessum hæðum en einnig má átta sig á veðurkerfunum við jörð.
Veðurfar | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2013 | 18:42
Sólríkustu marsmánuðir á Akureyri
Á Akureyri er mars 1996 sá sólríkasti með 154,1 sólarstund en meðaltalið 1961-1990 er 76,7 stundir. Við Mývatn var þó enn meiri sól, 182 klukkustundir. Alls staðar var sólríkt. Þetta var hlýr mánuður og snjóléttur. Snjólag var 29% Hitinn var tvö og hálft stig yfir meðallagi á landinu og sjaldan því vant í mars var hann hálfu stigi meiri á Akureyri en í Reykjavík og hafa aðeins sjö marsmánuðir verið hlýrri á Akureyri en 13 á landinu frá 1866. Úrkoman var rétt yfir meðallagi á landinu en mjög þurrt var víða á norðausturlandi og er þetta þurrasti mars sem mælst hefur í Grímsey, 4,8 mm, Tjörn í Svarfaðardal,1,2 mm, Lerkihlíð í Fnjóskadal, 4,3 mm, Mýri í Bárðardal,0,4 mm, Sandi, 1,7 mm, Staðarhóli í Aðaldal, 4,7 mm og á Grímsstöðum á Fjöllum, 0,4 mm.
Í þessum mánuði stóðu hinar hatrömmu deilur milli Flóka Kristinssonar sóknarprests í Langholtskirkju og organistans Jóns Stefánssonar. Kúariðan geisaði í Bretlandi og þ. 28.tilkynti enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson um það að hann byði sig fram til forsetakjörs.
Næstur er mars 1965 en þá skein sólin í 124 stundir í höfuðstað norðurlands. Á Reykhólum mældist aldrei sólríkari mars meðan mælt var 1958-1986, 165,6, klukkustundir og heldur ekki á Hallormsstað 1953-1989, 134 stundir. Þetta var reyndar fyrsti mánuður hafísáranna fyrir alvöru og náði ísinn lengst suður að Berufirði. Kalt var í veðri. Hitinn var tæp tvö stig undir meðallaginu. Svo var þurrt að mánuðurinn er á miðjum topp tíu listanum yfir þurrka. Ekki hefur mælst þurrari mars á Hrauni á Skaga, 5,0 mm, og við Grímsárvirkjun á austurlandi, 9,1 mm. Í blálokin gerði sjaldgæf hlýindi sem voru mest á suður og vesturlandi. Síðasta daginn komst hitinn í 17,9 stig á Sámsstöðum sem er lang mesti hiti sem mælst hefur á suðurlandi í mars. Fremur snjólétt var í þurrkinum og kuldanum en snjólagið var 42%.
Víetnamstríðið var að hefjast af fullu krafti í þessum mánuði. Fyrsta gervitunglamyndin var Íslandi birtist seint í mánuðinum en nokkru áður var fyrsta geimgangan og Hljómar frá Keflavík gáfu út sína fyrstu hljómplötu.
Þriðji sólríkasti mars á Akureyri er 1960 þegar sólin skein í 121 stund en þetta er aftur á móti sólarminnsti mars á Hólum í Hornafirði frá 1950, 55,4 stundir. Tíðarfarið var talið afbragðsgott eftir fyrstu vikuna og allt árið sem á eftir fór var mikið gæðaár. Snjólag var 39%, úrkoman var nokkuð yfir meðallag en hitinn var 2,7 stig yfir því. Þann 25. var fyrst haldið upp á alþjóðlega veðurdaginn. Elvis var leystur úr herþjónustu þ. 5 en tveimur dögum áður fór bandaríski landherinn frá Íslandi. Bresk herskip héldu svo úr landhelginni um miðjan mánuðinn.
Fjórða og fimmta sólríkasta marsmánaðar á Akureyri, 1934 og 1979, hefur áður verið getið hér að framan en þeir voru þeir fimmtu og fjórði sólríkasti í Reykjavík.
Mars 1976 er sá sjötti sólarmesti fyrir norðan en þá skein sólin í 110 klukkustundir á Akureyri en á Reykhólum mældist aldrei minni sól í mars, 44 stundir. Hitinn var um eitt og hálft stig yfir meðallagi en úrkoman var feiknarlega mikil á landinu og er þetta næst úrkomusamasti mars á þeim fáu stöðvum sem lengst hafa athugað úrkomu (metið er mars það sögufræga ár 1918). Á Akureyri sjálfri var úrkoman þó minni en í meðallagi. Mest var úrkoman hins vegar á Fljótsdalshéraði. Á Skriðuklaustri var hún sjö og hálf meðalúrkoman sem þá var miðað við á Veðurstofunni, 195,1 mm. Ekki hefur þar mælst úrkomusamari mars og ekki heldur á Hallormsstað, 292,6 mm, Grímsárvirkjun, 251,0 mm og Brú á Jökuldal, 103,7 mm. Hins vegar var met úrkomuleysi á Hólum í Hjaltadal, 6,3 mm og á Vopnafirði, 5,2 mm. Snjólag var 55% á landinu. Þann annan fórst vélbáturinn Hafrún við Reykjanes með 8 mönnum. Lögreglan hélt blaðamannafund um Geirfinnsmálið þ. 24. rétt eftir að herforingjar höfðu tekið völdin í Argentínu.
Árið 1982 voru 110 sólskinsstundir á Akureyri sem gerir mánuðinn þann sjöunda sólríkasta. Alls staðar var nokkuð sólríkt. Hitinn á landinu var hálft stig yfir meðallagi en úrkoman mátti heita í meðallagi. Eins og í mars 1976 var úrkoman tiltölulega mest á Fljótsdalshéraði, þrjú og hálf meðalúrkoma á Hallormsstað. Snjólagið var 69% og er þetta eini marsmánuðurinn af þeim tíu sólríkustu á Akureyri sem snjólag á landinu var yfir meðallaginu 1961-1990.
Mars 2005 er sá áttundi sólríkasti á Akureyri með 109 sólarstundir. Landshitinn var mjög svipaður og 1960 en úrkoman miklu minni og náði aðeins meðallagi á stöku stað. Mjög snjólétt var, 23%, sem gerir mánuðinn fjórða snjóléttasta mars frá 1924 á eftir 1929, 1964 og 1963, en árin 2003 og 2004 var snjólagsprósentan 24 og 25%. Þrír snjóléttir marsar í röð! Í lok mánaðarins kom Bobby Fischer til landsins sem íslenskur ríkisborgari en um miðjan mánuðinn hélt stórsöngvarinn Placido Domingo tónleika í Egilshöll.
Níundi sólarmesti mars á Akureyri er 1928 þegar sólin skein í 109 klukkustundir en 130 í Reykjavík. Hitinn á landinu var heilt stig yfir meðallagi en úrkoman kringum meðallagið. Hægviðrasamt var og snjólítið. Sjólagstalan var 39%. Þann 17. Fórst bátur frá Vogum með sex mönnum. Síðasta dag mánaðarins hóf vikublaðið Fálkinn göngu sína og var mjög vinsælt næstu áratugina.
Neðst á topp tíu listanum yfir sólríkustu marsmánuði á Akureyri er svo árið 1974 en þá voru sólarstundirnar þar 106 en aðeins 65 í Reykjavík. Þetta er hlýjasti mars á landinu af þeim tíu sólríkustu á Akureyri og var hitinn um 3,8 stig yfir meðallagi sem gerir hann að sjöunda hlýjasta mars en fimmta hlýjasta á Akureyri sjálfri. Úrkoman var næstum því eins mikil og 1976 og er þetta þar með þriðji úrkomumesti mars á landinu ef miðað er aðeins við þær örfáu stöðvar sem allra lengst hafa mælt úrkomu. Á nokkrum stöðvum voru þó sett þurrkamet í mars, Skeiðsfossvirkjun í Fljótum, 24,9 mm, Reykjahlíð við Mývatn, 0,2 mm og á Mánárbakka, 2,3 mm. Úrkomumet komu aftur á móti í Stóra-Botni í Hvalfirði,298,2 mm, Hamraendum í Dölum,141,1, mm, Mjólkárvirkjun, 248,1 mm, Þingvöllum, 280 mm og Hveravöllum, 160,9 mm. Snjólag var 33% á landinu. Á eftir þessum mánuði kom svo hlýjasti apríl sem mælst hefur og hafði það jafnframt af að vera sá sólarminnsti í Reykjavík.
Þann þriðja fórst þota við París með 346 manns og var það þá mannskæðasta flugslys sögunnar en þ. 21 hófst undirskriftarsöfnun Varins lands um það að varnarliðinu væri ekki vikið úr landi.
Meðalhiti tíu sólríkustu marsmánuðir á Akureyri er -0,2 stig eða heilt stig yfir meðallagi marsmánaða 1961-1990 en 0,1 yfir meðallaginu 1931-1960. Í Reykjavík er meðalhiti tíu sólríkustu mánaðanna -1,2 stig, nákvæmlega heilu stigi kaldari en samsvarandi mánuðir á Akureyri og 1,6 undir meðallaginu 1961-1990 en 2,6 undir meðallaginu 1931-1960.
Bloggar | Breytt 26.3.2013 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2013 | 18:35
Sólríkustu marsmánuðir í Reykjavík
Eins og menn vita eru jafndægur á vori seint í mars. Síðasta þriðjung mánaðarins er þá sól á lofti meira en helming sólarhringsins. Meðaltal sólskinsstunda í Reykjavík í mars 1961-1990 eru 111 klukkustundir.
Sólríkastur mars í borginni er 1947 en þá skein sólin í 218,3 klukkustundir. Veður voru yfirleitt stillt og hæglát en köld, 2,7 stig undir meðallaginu á landinu 1961-1990 sem hér er miðað við um hita. Hægviðrið var ástand sem líka ríkti í febrúar en hann er einnig sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík og sá sem mestan hefur haft mánaðarloftþrýsting. Þessi vetur, desember til mars, er reyndar sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík með tæpar 400 sólskinsstundir. Mikill snjó var víða í mars og á öllu norðanverðu landinu, frá Vestfjörðum til Djúpavogs mátti heita alhvítt. Úrkoman var lítil og mun þetta vera einn af fimm þurrustu marsmánuðum miðað við úrkomuna 1930-2000, sem hér er gengið út frá, á þeim örfáu stöðvum sem lengst hafa athugað hana. Einkum var þurrt á suður og vesturlandi. Á Loftssölum við Dyrhólaey var úrkoman ekki mælanleg og heldur ekki á Kirkjubæjarklaustri en 0,3 mm á Fagurhólsmýri og á þessum stöðum er þetta þurrasti mars sem mælst hefur og sömu sögu er að segja um Vík í Mýrdal,15,5, mm og Hóla í Hornafirði, 2,1 mm. Á sunnanverðu Snæfellsnesi hefur heldur ekki mælst þurrari mars, 11,1 mm á Arnarstapa. Úrkomudagar voru aðeins einn á Fagurhólsmýri, Hellissandi og Djúpavogi. Snjólag á landinu var 83% en meðaltalið er 61% árin 1961-1990. Einna merkust tíðindi í þessum mánuði voru þau að Heklugos hófst snemma morguns þann 29.
Mars 1962 sló 1947 reyndar út í þurrki. Hann er þurrasti mars sem mælst hefur á landinu. En hann er einnig sá næst sólríkasti í Reykjavík þar sem sólin skein í 193 stundir. Á Hólum í Hornafirði mældist sólskin í 234,8 stundir og er það sólríkasti mars sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð en Hólar voru í mars að meðaltali sólríkasti staðurinn á þeim fáu stöðum þar sem sól var mæld árin 1961-1990 en þá voru sólarstundirnar þar að meðaltali 116,8 klukkustundir. Í Reykjavík skein sólin 1962 yfir 10 stundir í 9 daga og aldrei verið fleiri og sex daga í viðbót 9-10 stundir. Alla þessa daga var þó svo kalt að ekki hlánaði allan sólarhringinn. Sólskin var jafnara í borginni í mars 1947 en þá skein sólin aðeins þrjá daga meira en 10 stundir en sex aðra í 9-10 stundir. Alls engin úrkoma mældist á Stóra-Botni í Hvalfirði í mars 1962 og er það þurrasti mars á veðurstöð. Á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað úrkomu á suður og vesturlandi er þetta þurrasti mars sem mælst hefur. Stykkishólmur var með 2,5 mm (frá 1857), Reykjavík með 2,3 (1885 með hléum) og Eyrarbakki einnig með 2,3 mm (frá 1880 með hléum). Á ýmsum öðrum stöðvum með nokkuð langa en þó mislanga mælingasögu er þetta þurrasti mars, svo sem í Síðumúla í Borgarfirði, 0,6 mm, Hellissandi, 0,9 mm, Lambavatni,2,3 mm, Kvígindisdal, 2,5 mm, Hlaðhamri 4,0 mm, Barkarstöðum í Miðfirði, 1,6 mm, Forsæludal, 2,3 mm, Nautabúi, 2,8 mm, Dalatanga, 21,1 mm, Hólum í Hornafirði, 2,1 mm, Sámsstöðum, 2,7 mm, Hellu,1,0 mm, Hæli í Hreppum, 0,6 mm, Jaðri 1,3 mm og Þingvöllum, 0,3 mm. Um miðbik norðurlands var úrkoma sums staðar nokkuð mikil, mest 92,4 mm á Vöglum í Vaglaskógi. Þetta er snjóléttasti mars í Reykjavík en þar og víða á Reykjanesskaga var alautt allan mánuðinn. Á landinu var snjólagið 50%. Loftvægi mánaðarins var hærra en í nokkrum öðrum mars. Það var mest 1027,7 hPa á Galtarvita en minnst 1021,4 í Vestmannaeyjum. Þann fyrsta mældist loftvægið á Galtarvita 1048,5 hPa. Bæði 1962 og 1947 var loftþrýstingur óvenjulega hár yfir landinu og vestur af því þó var nokkru mildara 1962, hitinn 2,4 stig undir meðallagi.
Mars 1937 er sá þriðji sólríkasti í Reykjavík með 183,3 sólarstundir. Hitinn var tvö stig undir meðallagi. En úrkoman var lítil og er þetta líklega einn af tíu þurrustu marsmánuðum. Ekki hefur mælst minni úrkoma í mars á Hvanneyri, aðeins 0,3 mm, svo og í Dölunum og Bolungarvík, 4,3 mm og einng á norðausturhorninu, á Raufarhöfn, 5,6 mm og í Bakkafirði, 1,2 mm. Ansi kalt var stundum og fór frostið í -27,3 stig þann 18. á Grímsstöðum. Fyrir norðan var yfirleitt alhvítt en snjólétt á suðvesturhorninu en snjólag á landinu var 75%.
Þann 8. var fyrsta óperusýning á Íslandi þegar flutt var óperan Systirin frá Prag eftir Wenzel Müller. Hann var þekkt tónskáld um sína dag og er enn þekkt nafn í Austurríki. Skíðalandsmót Íslands var haldið í fyrsta sinn þ. 13. en Sundhöllin opnaði þ. 23.
Í mars 1979 skein sólin í Reykjavík 0,1 stund skemur en 1937. Á Akureyri er þetta fimmti sólríkasti mars með 118 sólarstundir. Þetta er sólríkasti mars sem mælst hefur á Sámsstöðum frá 1962, 191 stund, og á Reykjum í Ölfusi 1973-2000, 188 stundir og á Hveravöllum 1966-2004, 150 klukkustundir. Kannski er þessi kuldalegi mánuður sólríkasti mars á landinu í heild en 1965 þá næstur. En þetta er fimmti kaldasti mars á landinu eftir mínum kokkabókum og sá kaldasti síðan 1919. Hitinn var meira en 4 stig undir meðallaginu 1961-1990. Fyrsta hálfan mánuðinn hlánaði varla nokkurs staðar að heitið geti. Þann 5. fór frostið í -26,5 stig á Þingvöllum. Hámarkshiti í Reykjavík var sá lægsti í mars, 3,5 stig. Hafís var fyrir norðurlandi og komst alveg suður á Norðfjörð. Úrkoman var aðeins minni en 1937 og víðast hvar var mjög þurrt. Ekki hefur mælst minni úrkoma í mars við Mjólkárvirkjun inn af Arnarfirði, 2,8 mm, Þórustöðum í Önundarfirði, 8,9 mm, Skógum undir Eyjafjöllum, 37,3 mm og á Hveravöllum, 10,2 mm. Snjólag var 87% á landinu, það fimmta mesta í mars frá og með 1924.
Fimmti sólarmesti mars í höfuðborginni er 1934 þegar sólin skein í 171 stund. Á Akureyri er þetta fjórði sólríkasti mars en þar voru sólskinsstundirnar 118. Hitinn var um hálft stig undir meðallagi en úrkoman um þrír fjórðu af því. Snjólag var 76%. Næst síðasta daginn hófst eldgos í Grímsvötnum og Skeiðarárhlaup var um svipað leyti.
Sá topp tíu sólarmars í Reykjavík sem næstur okkur er í tíma er 1999 en þá skein sólin í 165 klukkustundir og er þetta því sjötti sólríkasti mars í borginni. Hitinn var rúmlega eitt stig undir meðallagi en úrkoman var um helmingur af meðallaginu. Snjólag var 83% og hefur ekki orðið jafn mikið síðan í nokkrum mánuði fyrir utan desember þetta sama ár og í desember 2011.Í upphafi mánaðarins dó hin vinsæla breska söngkona Dusty Springfield en í síðustu vikunni byrjaði NATO að gera loftárásir í Júgóslavíu þar sem menn voru að stríða.
Næstur er mars 1951 með 163,5 stundir af sól. Fannfergi var með fádæmum norðanlands og austan í þrálátri norðaustanátt og þar var yfirleitt alhvítt allan mánuðinn en mikil svellalög voru víða sunnanlands. Nyrst á Tröllaskaga hefur ekki mælst meiri úrkoma í mars. Snjólag á landinu var 88% og hefur ekki orðið meira í mars nema árin 1989 (94%), 1990 (95%) og 1995 (89%). Hitinn var næstum því þrjú stig undir meðallagi. Næsti mars á undan, 1950, krækir í níunda sætið að sólríki með 151 sólarstund. Þetta er reyndar hlýjasti mars sem nær inn á topp tíu listann fyrir sólríki í Reykjavík og var hitinn um eitt stig yfir meðallagi en úrkoman liðlega þrír fjórðu af því. Snjólag var 53%.
Árið 1912 var sólskin mælt á Vífilsstöðum en við teljum það með Reykjavík og þessi mars nær áttunda sæti með 152 sólskinsstundir. Hitinn á landinu var nákvæmlega í meðallagi. Þann 12. mældist minnsti loftþrýstingur sem mælst hefur á landinu í mars, 939,9 hPa. Í lok mánaðarins varð pólfarinn Scott og föruneyti hans úti eftir að hafa náð á suðurpólinn.
Tíundi sólarmesti mars í höfuðborginni er 1941 með 150 sólskinsstundir. Þetta var fremur hlýr mánuður, svipaður eða örlítið kaldari og 1950. Úrkoman á þeim stöðvum sem lengst hana athugað var hins vegar í rösku meðallagi og raunar svipuð og 1912 og 1951. Snjólag á landinu var aðeins 44%, það minnsta í þessum tíu sólríkustu marsmánuðum í Reykjavík. Þann annan fórust þó tvær telpur í snjóflóði við Ísafjörð. Í Kvígindisdal við Patreksfjörð var alautt allan mánuðinn.
Ýmislegt gekk á í heiminum og ekki allt vegna styrjaldarinnar. Þann fyrsta fórust til dæmis tíu þúsund manns í jarðskjálfta í Grikklandi. En styrjöldin var í fullum gangi og þ. 10. var Reykjaborgin skotin í kaf og fórust þar 13 en tveim var bjargað. Annar þeirra bjó reyndar í húsinu þar sem bloggarinn átti heima sem unglingur. Og daginn eftir var skotið á línuveiðarann Fróða þar sem fimm létust.
Veðurfar | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2013 | 17:50
Sólarminnstu marsmánuðir
Mars 1929 er sólarminnsti mars Reykjavík síðan mælingar hófust þar á sólskini fyrir hundrað árum. Skein sólin í 38,9 stundir en meðaltalið 1961-1990 er 111 klukkustundir. Það er nánast hlálegt að þetta er einnig hlýjasti mars sem mælst hefur á landinu og einnig á öllum einstökum veðurstöðvum. Hitinn var 5,7 stig yfir meðallaginu 1961-1990 sem hér verður miðað við um hitann. Um allt land var talin öndvegistíð, tún væru græn og gróðurnál í úthaga og sóleyjar sprungu út. Minnsti hiti á landinu var -8,0 stig á Eiðum og er það hæsta mánaðarlágmark yfir allt landið í nokkrum marsmánuði. Alveg frostlaust var í Vík í Mýrdal og á Hólum í Hornafirði. Á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað var úrkoman í rúmu meðallagi áranna 1931-2000 sem hér er við miðað varðandi úrkomu. Fyrir norðan var lítil úrkoma en mest á suðausturlandi. Á Fagurhólsmýri hefur ekki mælst meiri úrkoma frá 1931, 341,2 mm. Þetta er snjóléttasti mars sem mælst hefur á landinu frá og með 1924, 4% en meðaltalið 1961-1990 er 61%.
Næst sólarminnsti mars í Reykjavík er 1923 þegar sólin skein í 48 stundir. Á landinu er þetta fjórði hlýjasti mars og var hitinn 4,2 stig yfir meðallagi. Úrkoman var hins vegar meira en 50% yfir meðallagi. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma í mars í höfuðstaðnum, 183,2 mm.
Árið 1945 er þriðji sólarminnsti mars með 49 sólskinsstundir. Hitinn á landinu var þrjú og hálft stig yfir meðallagi og er þetta níundi hlýjasti mars eftir mínum kokkabókum. Og þetta er einn af fimm úrkomusömustu marsmánuðum eftir sömu bókum. Einkum var úrkomusamt syðst á landinu en fyrir norðan var úrkomulítið. Í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst meiri úrkoma í mars 319,6 mm og ekki á Loftssölum í Dyrhólahreppi árin 1940-1978, 235,0 mm. Miklir vatnavextir ollu tjóni um miðjan mánuðinn. Snjólag var 44%. Lokahnykkur stríðsins var i gangi með miklum loftárásum á Þýskaland og Japan og bandamenn hófu að hernema Þýskaland.
Mars 1938 var óstöðugur og úrkomusamur og er sá fjórði sólarminnsti í Reykjavík með 57,8 sólskinsstundir. Úrkoman var mjög mikil nema á norðausturlandi en annars meiri norðanlands en 1945 en úrkoman á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað var 43% umfram meðallag en 67% árið 1945. Snjólag 1938 var 59%. Hlýtt var í veðri, 0,9 stig fyrir meðallagi og reyndar mældist ekki frost í Vík í Mýrdal og Vestmannaeyjum.
Þann 12. á fimmtugs afmælisdegi Þórbergs innlimuðu Þjóðverjar Austurríki. Hætt er við að meistaranum hafi lítt líkað sú ósvífna afmælisgjöf en hann hafði reyndar verið dæmdur fyrir meiðyrði gegn foringjanum. Stendur sá hæstaréttardómur enn óhaggaður!
Í mars 1922 var góð tíð og þurrviðrasöm en sólskinsstundir í Reykjavík voru aðeins 58 sem gerir mánuðinn fimmta sólarminnsta mars. Úrkoman var tæplega þrír fjórðu af meðallagi en hitinn 1,2 stig yfir meðallagi. Tólf fórust þegar þilskipið Talismann frá Akueyri strandaði í afspynru norðanveðri við Súgandafjörð þann 25.
Umhleypingasamt var í mars 1993 sem er sá fimmti sólarminnsti í Reykjavík með 58,1 sólarstund en úrkoman var um 50% fram yfir meðallag. Hún var sérlega mikil á suðausturlandi. Á Kvískerjum var hún 483,3 mm. Hitinn var alveg sá sami og 1922 og snjólagið það sama og 1938.
Árið 1936 var norðaustanátt ríkjandi í mars en þrátt fyrir það voru sólskinsstundir í Reykjavík aðeins 59,5 og er þetta þar sjöundi sólarminnsti mars. Fyrir norðan var ekki mikið minni sól (56 klst á Akureyri) en þar voru mikil snjóalög. Var þar víðast hvar alhvítt og á Grímsstöðum á Fjöllum var snjódýptin 160 cm kringum vorjafndægur. Snjólag var 69% á öllu landinu. Á Vestfjörðum og víðar féllu snjóflóð en ekki ollu þau manntjóni. Úrkoman var í rösku meðallagi og hitinn sömuleiðis.
Sá hlýi og úrkomusami mars, 1974, er sá áttundi sólarminnsti með 65 sólskinsstundir í Reykjavík en aftur á móti 106 á Akureyri þar sem þetta er tíundi sólríkasti mars. Hitinn um 3,8 stig yfir meðallagi sem gerir hann að sjöunda hlýjasta mars á landinu en fimmta hlýjasta á Akureyri. Úrkoman var mikil, 69% fram yfir meðallag á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað hana. Sums staðar voru þó sett þurrkamet í mars en annars staðar úrkomumet. Sjá pistilinn um sólríkustu marsmánuði, þann tíunda sólríkasta á Akureyri. Snjólag var 33% á landinu.
Níundi sólarminnsti mars í Reykjavík er árið 2000 með 70 sólskinsstundir. Hann var afar úrkomusamur en nær þó ekki alveg inn á topp tíu listann yfir úrkomusömustu marsmánuði á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað. Hann er hins vegar úrkomusamasti mars í Vík í Mýrdal, 417,4 mm (frá 1926), Stafholtsey í Borgarfirði, 154,5 mm, Brekku í Norðurárdal, 307,7, mm, Lambavatni á Rauðasandi, 237,1 mm, Kvígindisdal við Patreksfjörð, 457,3 mm, Hlaðhamri í Hrútafirði, 174,8 mm, Barkarstöðum í Miðfirði, 117,0 mm, Norðurhjáleigu í Álftaveri, 339,4 mm og Snæbýli í Skaftártungu 343,1 mm. Í Kerlingardal við Mýrdal mældist úrkoman þó mest á landinu, hvorki meiri né minni en 500,8 mm sem er með því mesta sem mælst hefur á landinu í marsmánuði. Snjólag var það mesta í þeim árum sem hér er vikið að, 80%. Mikið tjón varð norðaustanlands í norðvestanveðri dagana 5.-6.
Þriðji hlýjasti mars á landinu, 1964, er sá tíundi sólarminnsti í Reykjavík með 71 sólarstund en aftur á móti sá sólríkasti á Melrakkasléttu 1958-1999, 123 lukkustundir. Í mánuði þessum, þegar talin var einmuna tíð, mældist mesta úrkoma á veðurstöð sem þá hafði mælst í mars í mars, 509,0 mm á Kvískerjum (núgildandi met, á sama stað, er 566,8 mm, 2003). Snjólag var aðeins 11%, það annað minnsta, eftir 1929. Einhver mesti jarðskjálfti sem mældur hefur verið á jörðunni kom í Alaska þ. 27. upp á 8,3 stig á Richter.
Þessi mánuður var reyndar æði viðburðaríkur. Þjóðskáldið Davíð Stefánsson lést þann fyrsta. Bítlaæði mikið var á tónleikum í Háskólabíói þ. 4. og tveimur dögum síðar kom kvikmyndaleikarinn Gregory Peck til landsins. Undanþágur Breta til veiða í landhelginni runnu út þann 11. sama dag og áskorun sextíumenninganna svokölluðu kom fram um að útsendingar kanasjónvarpsins yrðu bundnar við Keflavíkurflugvöllinn en þær náðu þá um allt Reykjavíkursvæðið og loks var Tívoli í Vatnsmýrinni lagt niður þennan sama dag. Þann 18. hófust magnaður reimleikar á Saurum á Skaga og voru þeir nefndir Sauraundrin. Þórbergur fullyrti ofvitalega og kennivaldslega að þetta væri alveg dæmigerður draugagangur og ekkert annað en síðar kom í ljós að þetta voru bara brellur af mannavöldum!
Á Akureyri er mars 1935 sá sólarminnsti með 26,4 klukkustundir en meðallagið 1961-1990 er 76,7 stundir. Tíðin var óstöðug og vindasöm og hitinn hálft stig undir meðallagi en úrkoman var mikil, um 44% fram yfir meðallagið á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað. Á Hvanneyri var úrkoman 205,8 mm og hefur þar aldrei mælst meiri í mars í nokkuð langri en sundurslitinni mælingasögu. Laust fyrir miðjan mánuð urðu miklir vatnavextir í Vestur- Skaftafellssýslu. Snjólag var 57%. Í Þýskalandi var tekin upp herskylda og tilkynnt að landið hefði komið sér upp flugher.
Mars 1981 var kaldur og snjóþungur. Og hann er sá næst sólarminnsti á Akureyri með 30 sólskinsstundir. Úrkoman var mikil á norðausturlandi en í heild um þrír fjórðu af meðalúrkomu. Snjólag var 77%. Á Raufarhöfn komst snjódýptin í 150 cm. Kvikmyndin Punktur, punktur, komma strik var frumsýnd í þessum mánuði, skotið var á Reagan forseta Bandaríkjanna en Mitterand varð forseti Frakklands.
Þriðji sólarminnsti mars á Akureyri var 1970 með 32,5 sólarstundir. Þetta er kaldasti marsmánuðurinn meðal hinna tíu sólarminnstu á Akureyri og var hitinn tæpt tvö og hálft stig undir meðallagi á landinu. Hafís var nið norðausturströndina og á Húnaflóa. Úrkoman var í meðallagi en snjólag var 78%.
Þrír tiltölulega nýliðnir marsmánuðir í röð eru á topp tíu listanum fyrir lítið sólskin í höfuðstað norðurlands.
Mars 2007 er sá áttundi með með 50 sólskinsstundir Hann er vel inni á topp tíu listanum fyrir úrkomusömustu marsmánuði og hitinn var rúm tvö stig yfir meðallagi en snjólagið 48%. Síðasta daginn fór hitinn á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga í 18,4 stig og 16,9 á Sauðanesvita. Mars 2008 er sá fjórði sólarminnsti með 38 sólskinsstundir. Bæði hiti og úrkoma máttu heita í meðallagi en snjólagið var 76%. Óvenjulega mikið snjóaði í Vestmannaeyjum þ. 2. og mældist snjódýptin á Stórhöfða 65 cm næsta morgunn sem þykir mikið á þeim bæ. Mars 2009 er sá níundi með sólarminnsti á Akureyri með 51 sólskinsstund og hita og úrkomu mjög nærri meðallagi en snjólagið var 72%.
Fimmti sólarminnsti mars á Akureyri er 1991 með 43 sólskinsstundir. Hitinn var rúm tvö stig yfir meðallagi en úrkoman var rétt yfir meðallagi en mjög mikil á norðaustur og austurlandi, allt að áttföld meðalúrkoma á Húsavík þar sem mældist meiri úrkoma en í nokkrum mars, 204,3 mm. Sólarhringsúrkoman á Eskifirði mældist 139,9 mm þ. 17. sem þá var marsmet á veðurstöð (metið var slegið þ. 22. 1995 í Stíflisdal, 142 mm). Snjólétt var í mánuðinum, snjólagið 47%.
Eldgos var í Heklu sem lauk þ. 11. Hinn fræga upptaka af lögreglumönnum að lúberja Rodney King var hinn þriðja. Davíð Oddsson varð formaður Sjálfstæðisflokksins þann 10. en þann 14. var sex föngum í Birmingham sleppt úr fangelsi eftir að hafa setið saklausir inni í 17 ár dæmdir fyrir sprengjutilræði.
Mars árið 1933 er sá sjötti sólarminnsti á Akureyri en sólin skein þá í 44 stundir. Hitinn var rúmlega hálft annað stig yfir meðallagi á landinu en úrkoman var 21% fram yfir. Ekki hefur mælst meiri úrkoma á Hólum í Hornafirði í mars (frá 1931), 357 mm. Snjólag var 52%. Þann 27. mældist hitinn 15,2 stig á Hraunum í Fljótum sem þá var jöfnun á landsmeti fyrir mars en hefur síðan margsinnið verið slegið. Stefán skáld frá Hvítadal andaðist þann 7. Í Þýskalandi gekk mikið á, Hitler var formlega veitt alræðisvald, Göbbels varð ráðherra og fangabúðirnar í Dachau voru settar á fót.
Sjöundi sólarminnsti mars er 1953 á Akureyri með 50 sólskinsstundir. Þetta er einn af allra úrkomumestu marsmánuðum með mörgum mánaðarmetum: Andakílsárvirkjun 437 mm, Síðumúli 271,9 mm, Blönduós, 149,5 mm, Nautabú 156,7 mm, Akureyri 142,8 mm, Sandur í Aðaldal 88,7 mm, Sámsstaður 382,2, mm og Hæll í Hreppum 301,1 mm. Hlýtt var í veðri, hátt upp í þrjú stig yfir meðallagi og er þetta hlýjasti mars af þeim tíu sólarminnstu á Akureyri. Fremur var snjólett, 50% snjóhula.
Þann 5. dó illmennið Jósef Stalin og eðal tónskáldið Sergei Prókóféff. Um miðjan mánuðinn kom hingað sænski söngvarinn Snoddas og gerði allt vitlaust úr hlátri fremur en hrifningu.
Tíundi sólarminnsti mars á Akureyri er svo árið 1962 þegar sólin skein í 52 klukkustundir. En þetta er næst sólríkasti mars í Reykjavík. Eins og greint er frá í pistlinum um sólríkustu marsmánuði er þetta þurrasti mars sem mælst hefur í Síðumúla í Borgarfirði, Hellissandi, Lambavatni, Kvígindisdal, Hlaðhamri, Barkarstöðum í Miðfirði, Forsæludal, Nautabúi, Dalatanga, Hólum í Hornafirði, Sámsstöðum, Hellu, Jaðri, Ljósafossi og Þingvöllum. Þetta er snjóléttasti mars í Reykjavík en þar og víða á Reykjanesskaga var alautt allan mánuðinn.
Meðalhiti tíu sólarminnstu marsmánaða í Reykjavík er 2,95 stig eða 2 stig yfir meðallaginu 1961-1990 og 1,6 yfir meðallaginu 1931-1960 en 4,2 stig yfir meðallagi tíu sólríkustu marsmánaðanna! Á Akureyri er meðalhiti samsvarandi mánaða -0,7 stig eða hálft stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 0,4 stig undir meðallaginu 1931-1960 og hálft stig undir meðallagi tíu sólríkustu mánaðanna þar.
Veðurfar | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2013 | 13:43
Náttúruvá á Íslandi
Ég hef nú lokið við að lesa ritið Náttúruvá á Íslandi. En ég á örugglega eftir að lesa það margsinnis aftur. Bókin er að mestu leyti sniðin fyrir almenning.
Fyrri hluti hennar, kaflarnir um eldgos, er einstaklega læsilegur og auðskilinn.
Það á einnig að miklu leyti við um seinni hlutann um jarðskjálfta en þar eru þó líka kaflar sem eru nokkuð harðir undir tönn enda beinlínis tekið fram að þeir séu fremur skrifaðir sem samantekt fyrir fræðimenn en sauðsvartan almúgann. En ekkert af þessu er samt óyfirstíganlegt fyrir almennan lesanda, jafnvel sauð eins og mig.
En bókin hefur einn leiðinlegan galla. Hann er sá hvað hún er stór, þung og umfangsmikil sem gripur. Hreinlega sá harðsvíraðasti sem ég þekki með íslenska bók. Það er næsta vonlaust að reyna að lesa hana uppi í rúmi eða liggjandi í sófa. Hana verður að lesa á borði (og ég á reyndar ekkert slíkt borð í réttri hæð nema eldhúsborðið) og þá er hún svo stór að sjóndapurt fólk á ekki auðvelt með að lesa það sem efst er á síðunni! Sum jarðfræðikortin eru hálf misheppnuð af því að letur á þeim er svo smátt að það er ekki greinanlegt nema með stækkunargleri. Auk þess er litaval til aðgreiningar hraunfláka ekki nógu skýrt. Litirnir vilja renna saman fyrir manni. Þeir eru oft svo líkir.
Mér finnst að svona bók hefði átt að vera í þremur bindum sem væru viðráðanleg sem bækur í hendi. Eitt bindi fyrir eldgos, annað fyrir jarðskjálfta og svo bindi fyrir náttúruvá af völdum veðurs en hennar er hvergi getið í ritinu.
Þrátt fyrir þetta vil ég nú bara segja:
Vá, hvað þetta er athyglisverð og fróðleg bók!
Óvæntur appendix: Það gladdi mig sem músikunnenda að í heimildarskrá er vitnað bæði í Schubert og Schumann!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 8.4.2013 kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2013 | 13:51
Veðurmetingur
Nú liggja Reykvíkingar í því!
Þar hefur verið snjólaust. En hríðarbylurinn sem var að ganga yfir náði sér eiginlega hvergi á strik nema þar. Í morgun var jafnfallinn snjódýpt 12 cm bæði í Reykjavík og á Korpu. Það er ekkert afskaplega mikið en getur þó valdið vandræðum hvar sem er fyrir umferð venjulegra fólksbíla. En snjórinn er ekkert jafnfallinn. Það er vindstrekkingur með stormhviðum og stórir skaflar hafa myndast mjög víða. Það eru þeir sem skapa mesta vandann. Annað slagið er talsvert kóf sem dregur úr skyggni svo menn eiga erfitt með að sjá skaflana.
Umferðarvandræðin láta því ekki á sér standa.
Það stendur heldur ekki á því að sumir landsbyggðarmenn á netinu séu farnir að gera lítið úr úr þessu veðri og þeim vandræðum sem af því skapast. Þeir fyrirlíta reykvísk óveður sem þeim finnst annars flokks og óæðri veður miðað við þau göfugu hamfaraveður sem verða í þeirra heimabyggðum.
Það sem þeir taka yfirleitt ekki með í reikninginn er í fyrsta lagi það að ýmis hríðarveður sem gerir á reykjavíkursvæðinu myndi alls staðar valda vandræðum. Í öðru lagi er það fólksfjöldinn á reykjavíkursvæðinu og bílamergðin. Þær aðstæður eru allt aðrar og snúnari en í fámennum byggðum.
Miklir hríðarbyljir eru sjaldgæfari og yfirleitt vægari (ekki samt alltaf) fyrir sunnan en á norðanverðu landinu. Hins vegar eru illvirði með regni og miklum vindi algengari á suðurlandi en norðurlandi og skapa oft heilmikinn vanda. Illviðri gerir því sannarlega líka í höfuðborginni og nágrenni. Ekki má svo gleyma því að flestir fjölmiðlar eru einmitt í Reykjavík og eiga auðvellt með að segja fréttir af vettvangi. Jú, það vill við brenna að þeir geri stundum full mikið úr hlutunum.
Það er enginn ástæða fyrir íbúa nokkurs landshluta til að setja sig á háan hest í alvöru með veður í öðrum landshlutum en alltaf er gaman að góðlátlegri stríðni milli landshluta í þeim efnum. Illviðri skapa vandræði hvar sem þau koma en aðstæður geta verið mismunandi á hverjum stað.Svipað veður sem ekki veldur verulegum usla á einum stað getur gert það á öðrum vegna búsetulegra og félagslegra aðstæða.
Ekkert veðurtengt finnst mér fáfengilegra en metingur um veður milli landshluta ef hann er settur fram í fúlustu alvöru og með hroka og yfirlæti.
Eins og sumir landsbyggðarlúðar iðka í garð okkar reykvíkinga! Við sem höfum ekkert til saka unnið annað en lepja okkar latte!
Strætó metur stöðuna næst kl. 15:30 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 12.3.2013 kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2013 | 00:38
Mars
Varla er hægt að búast við að mars verði jafn hlýr og tveir síðustu mánuðir.
Það er samt aldrei að vita og fylgiskjalið fylgist með mánuðinum marsera sinn gang.
Landið má nú víðast hvar heita alautt af snjó eða því sem næst. Næstum því alls staðar á suður,vestur og austurlandi er jörð algerlga alauð á láglendi. Víða á norðurlandi er líka snjólaust, svo sem á Akureyri. Enn er talsverður snjór í Fljótum, á Ólafsfirði, í Svarfaðardal og sums staðar í innsveitum á norðausturlandi og í heiðabyggðum.
Snjóalög komu snemma vetrar fyrir norðan og voru mikil vikum saman fram eftir öllum vetri en hafa verið að minnka smám saman síðustu vikur. En næstu daga má aftur búast við snjó.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 5.3.2013 kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2013 | 01:33
Þriðji hlýjasti febrúar í Reykjavík
Febrúar sem var að líða er sá þriðji hlýjasti í Reykjavík frá því mælingar hófust, eftir 1932 og 1965. Meðalhitinn er 3,9 stig.
Ef janúar og febrúar eru hins vegar teknir saman slá þeir öll met í Stykkishólmi, eru hlýrri saman en sömu mánuðir 1964 sem næstir koma, en athugað hefur verið þessa mánuði í Stykkishólmi frá 1846 en mánuðurnir eru í öðru sæti í Reykjavík núna, á eftir 1964.
Við suðurströndina og á suðausturlandi virðist þetta vera næst hlýjasti febrúar.
Og reyndar hugsanlega líka á landinu öllu á eftir 1932 en kannski var 1965 hlýrri. Þetta kemur ekki í ljós alveg strax.
Á Akureyri er hann sá fjórði, en auk 1932 og 1965 var 1956 hlýrri þar en 1921 var svipaður.
Fylgiskjalið sýnir herlegheitinn í heild sinni.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006