Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
29.9.2011 | 11:18
Septemberarnir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2011 | 10:30
Afhverju ekki átak gegn dýraníði
Í þessari frétt á Vísi is. segir dýralæknirinn og bæjarfulltrúinn Eyrún Arnardóttir á Egilsstöðum að þar séu um 100 villikettir. Hún hefur líklega talið þá samviskusamlega. Hún heldur að þessir útlagar, sem oft eru kannski heimiliskettir sem reknir hafa verið út á guð og gaddinn, geti verið heimilsköttum hættulegir. Henni finnst því rétt að fara í átak gegn þeim.
Sem sagt útrýma þeim.
Hún segir líka frá því að á hverju ári komi upp nokkur tilvik þar sem köttum, bæði villiköttum og heimilsköttum, sé misþyrmt. Og dýralæknirinn telur að þar séu fullorðnir menn að verki sem viti alveg hvað þeir eru að gera.
Stöldrum nú við.
Fyrsta spurningin sem vaknar er auðvitað sú hverjir séu heimilsköttum hættulegri, villikettir eða manneskjur.
Svarið blasir við.
Sú spurning vaknar líka hvers vegna í ósköpunum sé ekki farið í átak gegn dýraníði á Egilsstöðum- og annars staðar- þegar vitað er að á hverju ári komi upp nokkur tilvik af úthugsuðu dýraníði í bænum? Þetta er sem sagt viðvarandi ástand sem bæjaryfirvöld hafa ekki brugðist við. Ekki lyft litla fingri.
Hvers konar mannúð og mórall ríkir eiginlega á Egilsstöðum?
Og hvað segir það um bæjarbraginn og reyndar um íslenskt þjóðfélag í heild að það sé látið líðast ár eftir ár að dýrum sé misþyrmt af fullorðnu fólki án þess að minnsta tilraun sé gerð til þess að hafa uppi á níðingunum og draga þá fyrir dómstóla?
Hvers vegna í ósköpunum sker þessi dýralæknir í valdastöðu sem bæjarfulltrúi ekki upp herör gegn níðingunum, gerendunum, í stað þess að efna til átaks gegn fórnarlömbunum, köttunum?
Þessi frétt, þar sem hvergi örlar á nauðsyn þess að sporna gegn dýraníði, en blessuð dýrin eru séð sem þau er vandræðunum valda og það af þeim sem síst skyldi, birtir ófagra mynd af ástandi dýraverndunarmála í landinu.
Hvort ætti að valda þjóðfélaginu meiri áhyggjum og meiri viðbrögðum, það að villikettir og aðrir kettir séu mönnum stundum til ama eða það að á hverju einasta ári sé dýrum misþyrmt á úthugsaðan og kaldrifjaðan hátt?
Í stað herfarar gegn fjórfætlingum, sem fylgt hafa manninum frá öndverðu, væri nær að gera röggsamlegt og hávært átak gegn hvers kyns dýraníði í landinu.
Þannig að það fari ekki á milli mála að slíkt framferði verði ekki þolað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.9.2011 | 17:14
Köldustu septembermánuðir
Eins og venjulega eru nánari upplýsingar um hita og úrkomu stöðva í fylgiskjalinu en innan sviga við hvert ár hér í textanum er meðalhiti þeirra allra. Röðin eins og ávallt áður er frá kaldasta mánuði til hins mildasta. Meðalhti stöðvanna níuer 6,7 stig 1961-1990.
1918 (4,6) Þessi september var allt annað en yndislegur og 2,1 stig undir meðallaginu 1961-1990. Í Reykjavík, Grímsey og Teigarhorni er þetta kaldasti september sem mælst hefur og einnig á landinu í heild. Lágmarkshiti mánaðarins á landinu var einnig með því með því lægsta sem gerist, -15,0 stig á Möðrudal. Meðalhitinn þar var -0,5 stig og er það minnsti meðalhiti í september á veðurstöð í byggð á Íslandi. Næturfrost byrjuðu snemma og spilltu uppskeru á kartöflum. Á Grímsstöðum fór frostið niður í -12 stig og þar hlánaði ekki að heita mátti frá þeim 13. og til mánaðarloka. Í Reykjavík mældist næstmesta frost sem þar hefur mælst í september, -4,6 stig þ. 29. (metið er -4,8 þ. 29. 1899). Mjög sólríkt var í norðanáttinni á suðvesturlandi, 162 klst mældust á Vífilsstöðum við Reykjavík og þar er mánuðurinn sá 8. sólríkasti september ef við teljum Vífilstaði þá með Reykjavík. Úrkoma var alls staðar í minna lagi, sérstaklega á suðurlandi. Aldrei mældist minni septemberúrkoma í Vestmannaeyjabæ meðan þar var mælt, 1882-1920. Stundum snjóaði reyndar fyrir norðan og um miðjan mánuðinn einnig á suðurlandi. Alhvítt var í Reykjavík þ. 26. en snjórinn bráðnaði fyrir hádegi, að sögn Morgunblaðsins daginn eftir. Í Mosfellssveit var öklasnjór. Í þessum kalda mánuði fór hitinn þó einhvern tíma í 17 stig á Akureyri og þ. 4. á Seyðisfirði. Sérlega harðsvíraður lágþrýstignur var yfir Norðurlöndum þennan mánuð og norðlægar áttir algengar á Íslandi. Kortið sýnir frávik hæðar í 500 hPa fletinu frá meðaltalinu 1981-2011.
Myndlistarmaðurinn Muggur opnaði málverkasýningu í Miðbæjarskólanum. Þann 28. var tónverkið Saga hermannsins eftir Igor Stravinsky var frumflutt í Lausanne í Sviss. Þá stóð yfir lokasókn bandamanna á vesturvígstöðvunum.
1892 (4,7) Næst kaldasti september var á því kalda ári 1892. Í Hreppunum er hann reyndar sá kaldasti af þeim öllum. Á Raufarhöfn mældist í mánuði þessum mesta frost sem þar hefur mælst í september, ótrúleg -10,5 stig. Þetta er kannski röng mæling en næst lægsta talan er -5,8 stig (þ. 28.) á Teigarhorrni sem er líka ótrúlega lág tala fyrir þá stöð í september og er kuldamet þar. Úrkoma var í meira lagi á suður- og vesturlandi, en minni á austurlandi eftir takmörkuðum mælingum að dæma. Annað slagið snjóaði fyrir norðan og þ. 18. var frost um hádaginn í Grímsey. Hlýjast varð 14,3 stig í Reykjavík þ. 2. Norðanátt var auðvitað algengust. Frostdagar voru taldir 22 á Raufarhöfn en 17 á Stóranúpi í Hreppunum. Kalt loft gerði sig heimakomið eins og kortið frá 850 hPa fletinum sýnir.
1979 (4,7) Hitinn í þessum hryssinglega mánuði var í heild 3,4 stig undir meðallaginu 1931-1960 sem þá var miðað við. Í innsveitum á norðurlandi var hitinn hins vegar allt að 5 stigum minni. Á Akureyri og í Vestmannaeyjum og Bolungarvík er þetta kaldasti september sem mælst hefur. Í Möðrudal og á Grímsstöðum var hitinn aðeins lítið eitt yfir frostmarki, 0,5 stig. Um miðjan mánuðinn komu dagar með meðalhita undir frostmarki í jafnvel betri sveitum. Þá gekk illviðri yfir með snjó-eða slydduéljum fyrir norðan. Á Grímsstöðum fór frostið í mánuðinum niður í -9,5 stig en það var reyndar ekki fyrr en þann 28. Þar var alhvítt í 16 daga en 15 við Mývatn. Á landinu var snjólagið 8% og hefur aðeins verið meira 1954, 1924, 1943 (sólarminnsti sept. í Reykjavík) og 1963. Mánuðurinn lá auðvitað í norðan-og norðaustanáttum. Úrkoman var nokkuð yfir meðallagi og reyndar alls staðar meiri en í meðallagi nema á sunnanverðum Austfjörðum og við Breiðafjörð þar sem hún var í minna lagi, en hins vegar var hún tvöföld í innsveitum á norðvestanverðu landinu, í Æðey og í Vestmannaeyjum. Úrkomudagar voru margir eiginlega alls staðar svo það var ekki neinum þurrkum og kuldum fyrir að fara heldur þvert á móti votviðrum og kuldum. Hryssingurinn var óskaplegur. Hlýjast varð 16,0 stig þ. 9. á Seyðisfirði. Mikið hret var dagana 15.-16. með fjársköðum og sköðum vegna ísingar. Þann 15. var meðalhitinn á Akureyri undir frostmarki, -0,1 stig og er þetta fyrsta dagsetning að hausti sem sólarhrignshiti þar er undir frostmarki (í Reykjavík er það sá 23. 1974, -0,2). Kortið ófrýnilega er af 850 hPa fletinum.
Þann 24. kom fyrsti hópur flóttamanna frá Víetnam til landsins.
Meðalhiti á landinu í september 1979.
1869 (4,9) Ef tekið er mið af meðalhita Reykjavíkur og Stykkishólms er þessi september líklega fjórði kaldasti september. Þá var aðeins athugað á þessum stöðum. Hlýtt var fyrstu fjóra dagana í Stykkishólmi, allt upp í 14,7 stig en eftir það komst hitinn þar aldrei upp í tíu stig fyrr en síðasta daginn. Úrkoma var lítil, alls 40,3 mm, og alls engin eftir fyrsta þriðjung mánaðarins en næturfrost voru nær hverja nótt seinni helming mánaðarins og dagshitinn oftast undir fimm stigum nema síðasta daginn. Fyrir norðan snjóaði í byggð og spillti heyskap. Norðangarður mikill gekk yfir dagana 11. og 12. og slitnuðu þá upp skip á Siglufirði og víðar.
1975 (5,1) Þessi kaldi mánuður er reyndar sólríkasti september sem mælst hefur í Reykjavík. Þar voru sex frostnætur. September er talinn með sumarmánuðum og sýnir þetta svo ekki verður um villst að ekki fer alltaf saman sólskin og hlýindi að sumarlagi í höfuðborginni. Óveður af vestri gerði þ. 15. og notaði hitinn þá tækifærið til að fara í 18,0 stig á Dalatanga og Seyðisfirði en þennan dag voru skriðuföll á Vestfjörðum. Æði vetrarlegt var nyrða í mánaðarlok. Síðasta daginn komst frostið í - 13,3 á Vöglum í Fnjóskadal sem þar er kuldamet í september og mesta frost á landinu á láglendi í september. Á Staðarhóli í Aðaldal mældust -12,8 og met kom á Grímsstöðum, -13,1 stig. Mesta snjódýpt sem mælst hefur í september á landinu mældist á Sandhaugurm í Bárðardal, 55 cm þ. 24. Þar og á Tjörn í Svarfaðardal voru 8 alhvítir dagar en 10 á Grímsstöðum. Snjólag á landinu var 7% en alauð jörð þó alls staðar á suður og vesturlandi. Kortið sýnir frávik hitans í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð.
1982 (5,2) Þetta var fremur þurrviðrasamur mánuður og snjólag var nú ekki meira en 1% en frá 1924 hafa rétt rúmlega 30 septembermánuður verið með snjólagstöluna 0. Hámarkshiti landsins var alveg óvenjulega lágur, 14,3 stig þ. 1. á Vopnafirði. Í Grímsey, Æðey og á Galtarvita komst hitinn aldrei í tíu stig allan mánuðinn. Kaldast varð -9,7 stig á Möðrudal þ. 22. og sama dag -9,0 á Staðarhóli en -10,3 á Hveravöllum. Þennan dag var víða bjart en meðalhiti sólarahringsns á Akureyri var undir frostmarki.
Kaldasti september eftir 1982 var árið 2005 þegar hitinn var 5,5 stig og er þetta ellefti kaldasti september frá 1866 en þriðji sólríkasti september í Reykjavík. Snjó festi þá tvo daga á Akureyri.
1954 (5,2) Þessi afburða kuldalegi september er þó sá annar sólríkasti í Reykjavík. Á Akureyri voru sólskinsstundir hins vegar aðeins 53 og 51 á Hallormsstað. Í Vestmannaeyjum, Sámsstöðum (16,8 mm), Hæli (10,7 mm) og Eyrarbakka (19,2 mm) er þetta úrkomuminnsti september og reyndar á nokkrum stöðum vestanlands, t.d. aðeins 3,0 mm á Hellissandi. Og aldrei hafa verið færri úrkomudagar í september í Reykjavík en þar voru þeir sjö. Úrkoman var undir meðallagi á landinu en tiltölulega mest var hún á norðausturlandi, allt að tvöföld, en aftur á móti mjög lítil á suðvestur-og vesturlandi. Þetta er hins vegar snjóþyngsti september sem um getur, miðað við snjólagstölu stöðva í prósentum, sem var 13%, en þær mælingar eru til frá 1924 og er meðaltal allra stöðva 2% í september. Á fjöllum var snjólagstalan 46% og er sú mesta í september síðan farið var að fylgjast með því árið 1935. Mjög víða festi snjó, jafnvel var snjódýptin 6 cm í Reykjavík að morgni þ. 26. en í mánaðarlok var hún 35 cm á Grímsstöðum, en þar var alhvítt í 11 daga og strax þann 14. Frostdagar hafa aldrei verið fleiri í Reykjavík í september, 10, en 17 í Möðrudal og á Þingvöllum. Mesta frost sem mælst hefur á landinu í september, -19,6 stig kom í Möðrudal þ. 27. og er þetta reyndar óhuganleg tala svo snemma hausts. En sama dag mældist mesta frost á Akureyri í september, -8,4 stig. Er þetta kaldasti septemberdagurinn á Akureyri frá 1948 a.m.k. með meðalhita upp á -2,9 stig. Daginn áður hafði mælst minnsta þykkt í neðri hluta veðrahvolfsins yfir Keflavík sem mælst hefur í september, 5130 m, sem er vetrarástand en því minni sem þessi þykkt er því kaldara er loftið. Mesta frost á veðurstöðvum í september mældist víða, t.d. í Síðumúla í Borgarfirði (-10,2), í Miðfirði (-10,0), á Húsavík (-7,0), Hallormsstað (-7,9) og Þingvöllum (-8,6). Síðustu vikuna var hreinlega vetrarveður fyrir norðan og miklir kuldar miðað við árstíma, t.d. tveggja stiga frost á hádegi á Akureyri þ. 27. í sólskini! Og á sama tíma var frost þar alla dagana sem eftir voru mánaðarins en altaf skreið hitinn þar þó upp fyrir frostmarkið smástund um miðjan daginn, en að kvöldi hins 27. var sex stiga frost í nokkrar klukkustundir á Akureyri. Dagarnir 25.-29. settu allir dagshitamet fyrir lægsta meðalhita í Reykjavík og 25.-28. á Akureyri. Fyrsta vika mánaðarins var aftur á móti nokkuð hlý og komst hitinn í 17,9 stig á Þingvöllum þ. 8 og daginn áður í Reykjavík. Kortið sýnir frávik þykktar frá meðallagi sem ég held að hafi aldrei verið minni í sepember en þessum.
1922 (5,3) Fremur hryssinglegur mánuður þar sem svalar suðaustan og austanáttir voru áberandi. En úrkomumagn var þó alls staðar eða víðast hvar í minna lagi. Um miðjan mánuð brá þó til norðaustanáttar í nokkra daga og sums staðar snjóaði þá fyrir norðan og austan. Hiti var þá aðeins kringum 1-3 stig á morgnana og kvöldin í Reykjavík í um vikutíma en eitthvað hærri um miðjan dag en sólarhringsmeðaltalið hefur varla náð þremur stigum. Sjá kortið þ. 16. sem stækkar mjög ef þrísmellt er á það eins og öll hin kortin. Frostið fór mest á landinu í -8,9 stig þ. 16. á Grímsstöðum á Fjöllum en þar varð líka hlýjast, 17,1 stig þ. 9. Eftir þann dag var úti um hlýindi í mánuðinum. Frostnætur voru 9 í Reykjavík og hafa aðeins verið fleiri í september 1954. Hlaup varð í Skeiðará þ. 28. Þessi mánuður er merkilegur í mælingasögu heimsins fyrir það að þann 13. mældist mesti hiti sem skráður er á jörðunni, 57,8 stig í El Aziza í Líbíu en sumir telja mælinguna reyndar vafasama. Þennan dag var kuldi mikill á Íslandi.
1882 (5,4) Eftir kaldasta sumar fyrir norðan, júní til ágúst, kom svo þessi 9. kaldasti september á landinu. Kalsaveður með úrkomu ríkti lengst af. Fyrstu dagarnir voru sæmilegir og komst hitinn í 17,2 á Hrísum. Svo segir í Fréttum frá Íslandi: Með höfuðdegi birti upp, og kom góður tími í viku; þá fór loksins hafísinn burtu frá Norðurlandi. En samt hjeldust hríðaköstin allt til rjetta, og taldist mönnum svo til, að 10 sinnum hefði alsnjóað nyrðra frá Jónsmessu til rjetta. Verst var það hríðarkastið, er gjörði 12. september og stóð í 3 daga með 7° R. [-9° C] frosti. Þá voru ár riðnar á ís í Skagafirði og í Dalasýslu og víðar, og gengið á skíðum úr Fljótum inn í Hofsós sakir ófærðar; fennti þá fje á afréttum milli sveita, en ei á heiðum frammi, því að hríðarnar náðu aldrei lengra en fram á fjallabrúnir; 23 sept. kom síðasta hríðin, og fennti þá hross í Laxárdalsfjöllum, afrjetti milli Húnavantssýslu og Skagafjarðar." Á Siglufirði fór frostið niður í -9,7 stig. Í norðanhríðinni laust fyrir miðjan mánuð var stórviðri á suðurlandi og fuku þá víða hey manna. Jónas Jónassen lýsti tíðinni í Reykjavík í Þjóðólfi 30. október:
1. 2. bjart veður, logn; 3. 4. sunnan, dimmur, regn; 5. vestanútsunnan, hægur ; 6. landssunnan, hvass, regn; 7. 8. 9. útsunnan, hvass, með hriðjum ; 10. norðanrok (snjór í miðja Esju); 11. 12. sama veður en vægara; 13. 14. 15. austan; rokh. 15. 16. 17. norðankaldi (hvass til djúpanna); 18.-23 hægur, við austurlandssuður með regni; 24. bjart veður, logn; 25.-29. austan-lands. með regni; 30. hvass mjög á austan-landnorðan.
1924 (5,4) Úrkoma í þessum september var mjög lítil, aðeins um helmingur meðalúrkomu á landinu. Þetta hafði reyndar verið með afbrigðum þurrt og sólríkt sumar á suðurlandi og var til þess tekið að síðast í mánuðinum hafi vatnsborð Þingvallavatns verið mörgum fetum lægra en venjulega. Syðra var áfram sólríkt í þessum mánuði enda norðan og norðaustanáttir algengar og er þetta níundi sólríkasti september í höfuðstaðnum. Hlýtt var fyrstu dagana og góður þurrkur fyrir norðan og komst hitinn í 19,8 stig þ. 2. á Möðruvöllum. Þar varð einnig kaldast, -8,4 þ. 23. En fljótlega hafði kólnað í mánuðinum. Alhvítir dagar voru tveir í Reykjavík og hafa ekki verið taldir fleiri í september frá stofnun Veðurstofunnar 1920. Snjóhula í bænum var metin 7% og aldrei verið meiri í september. Snjódýpt var þó aðeins 1 cm þessa tvo daga, 28. og 29. Snjóhula á öllu landinu var 11%, sú næst hæsta. Mestur var snjórinn á norðvesturlandi, 45 cm á Suðureyri við Súgandafjörð næst síðasta dag mánaðarins. Ekki sást á milli húsa á Vestfjörðum þegar þessi hríð stóð sem hæst, segir Morgunblaðið síðasta dag mánaðarins. Fleiri illvirði voru um þetta leyti og þ. 27. fórst Rask frá Ísafirði í ofviðri með allri áhöfn, 15 manns og fleiri skip lentu í hrakningum þann dag.
Þórbergur Þórðarson hafði lokið við Bréf til Láru á Ísafirði daginn áður en þess mánuður hófst og allan þennan mánuð og eflaust miklu lengur þóttist hann mikið verk hafa unnið enda var sál hans víð og djúp eins og alvaldið og bókin sannkallað tímamótaverk í íslenskum bókmenntum!
Mjög snarpir jaðskjákftakippir voru í Krísuvik þ. 4 og næsta daga og fundust þeir vel í Reykjavík. Talvert jarðrask varð í Krísuvík, langar sprungur komu þar víða í jörðu; stórar skriður féllu úr fjöllum og leirhver myndaðist. Þá skekktust hús. Kippirnir voru svo snarpir að mönnum og skepnum sló flötum. Þann 7. fundust svo tveir allsnarpir og tveir litlir landskjálftakippir á Akureyri.
Þann 29. skírði Vísir frá því að Adolf nokkur Hitler, sem dæmdur hafði verið í fangelsi fyrir uppreisnartilraun í München í Bæjaralandi, hafi fengið skilyrðisbundna náðun. Og hann braut víst aldrei skilorðið!
Af köldum septembermánuðum á fyrri tíð sker sá árið 1782 sig úr eins og allt það sumar og er hugsanlega kaldasti september sem einhverjar mælingar eru til um á Íslandi, en þær voru gerðar á Lambhúsum á Álftanesi og eru kannski vafasamar um margt. En að morgni síðasta dagsins var frostið talið -6,3 stig og hefur aldrei svo lág hitatala sést í september í Reykjavík á öðrum tíma. Þennan dag var hitinn um miðjan dag -3,1 stig og -3,8 um sama leyti daginn áður og reyndar -1,9 stig um miðjan dag þ. 25. en -5,0 um morguninn og -5,6 stig næstu tvo morgna þar á undan en fór rétt yfir frostmarkið um hádaginn. Árin 1809 og 1807 voru líka mjög kaldir septembermánuðir, líklega á borð við þá þrjá köldustu sem hér hefur verið sagt frá, eftir mælingum að dæma sem gerðar voru á Akureyri. Seinna árið var frostið þar 2-6 stig síðasta daginn. Fyrra árið var hins vegar frostið tvö til fimm stig um hábjartan daginn alla dagana 20.-25. og að kvöldi hins 23. var frostið -11,9 stig. Aldrei hefur seinna mælst svo mikið frost í september á Akureyri. Taka verður þó þessar gömlu mælingar, ekki síður en á Lambhúsum, með hæfilegri varúð ef ekki léttúð, en ljóst er að um óvenjulega kulda var að ræða.
Fylgiskjalið sýnir hita, úrkomu og sólskin fyrir stöðvarnar níu í hverjum mánuði.
Fréttir frá Íslandi, 1882.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 10.12.2011 kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2011 | 12:43
Köldustu ágústmánuðir
Í þessum mánuði hefir veður mátt heita stirt og óhagstætt, þar sem framan af rétt daglega var meiri eða minni úrkoma og seinna norðanveður mikil með kulda. 1. var útsynningur með sudda; 2. sama veður, nokkuð hvasst; 3. bjart veður, við norður; 4. landsynningur með rigningu; gekk síðan til útsuðurs; 5. austan, dimmur, með regni; 6.10. sunnan útsunnan, dimmur með úrkomu; 11. hægur á útnorðan, með úrkomu síðari hluta dags; 12. logn, rigning, norðankaldi til djúpanna; 13. landnorðan, hægur, dimmur; 14., 15., 16. hvass á norðan, gekk síðari hluta dags hinn 16. til austurs; 17. austan, bjartur; 18. hvass á norðan til djúpa, dimmur; 19. 26. norðanveður, opt hvass mjög; 27. hægur á austan, dimmu ; 28.31. optast bjart veður og hægur.
Eins og júlí eru ágústmánuðir áranna 1882, 1886, 1887 og 1888 allir með þeim köldustu. Það sætir því eiginlega furðu að Fréttir frá Íslandi skuli gefa sumrunum 1887 og 1888 mjög góða einkunn sem Þorvaldur Thoroddsen síðan endurtekur. Annars er svo sem ekki um auðugan garð að gresja með heimildir um flesta þessa mánuði, nema í töluformi í skýrslum dönsku veðurstofunnar fyrir örfáar stöðvar, og er ólíku saman að jafna eftir að mánaðarrit íslensku Veðurstofunnar, Veðráttan, byrjaði að koma út 1925 með talsverðu lesmáli um hvern mánuð auk tölulegra upplýsinga.
1903 (6,9) Mánuður þessi var miklu kaldari á suðvesturlandi og vesturlandi en 1882, en hins vegar mildari fyrir norðan en svipaður á austurlandi og suðurlandi. Mælt var í Möðrudal þar sem meðalhitinn var 3,6 stig. Nær linnulaus norðan eða norðaustanátt var allan mánuðinn með hæð yfir Grænlandi og lægðum fyrir austan land. Kuldapollur var oft yfir landinu eða í grennd við það. Kortið sýnir ástandið í um 1400 metra hæð. Þungbúið mjög var fyrir norðan og úrkomur en á suðurlandi var sólrikt og einstaklega þurrt. Úrkoma í Reykjavík hefur aldrei verið minni í ágúst, aðeins 0,8 mm og féll á tveimur dögum. Á Teigarhorni er þetta þriðji þurrasti ágúst. Mesti hitinn á landinu var mældur í Reykjavík, 18,1 stig þ. 2. en minnsti -3,5 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem frostnætur voru tvær. Frost mældist mjög víða. Á Eyrarbakka fór það niður í -3,4 stig en þar var ein frostnótt. Næst síðasta daginn mældist meira að segja frost í Reykjavík, -0,1 stig en í ágúst hefur þar aðeins mælst frost í þessum mánuði og árið 1956. Í Stykkishólmi var næturfrost þ. 26. og eftir miðjan mánuð komst hitinn þar aldrei í tíu stig eða meira. Í Grímsey fór hitinn allan mánuðinn ekki hærra en í 8,0 stig en þar fraus þó aldrei. Enginn hafís var við strendur landsins þetta sumar. Sjávarhiti var 4 stig við Grímsey en tíu og hálft stig við Vestmannaeyjar.
1907 ( 7,4) Þessi einstaklega hægviðrasami ágúst var enn þá þurrari en 1903. Það rigndi aðeins einn dag í Reykjavík, 0,9 mm. Og þetta er enda talinn þurrasti ágúst á landinu. Á Teigarhorni út af fyrir sig er þetta sá annar þurrasti. Kortið frá um 1400 metra hæð sýnir hægviðri í köldu lofti við Ísland sem einnig var niður við jörð. Á Grímsstöðum á Fjöllum er þetta fyrsti ágúst sem mældur var eftir að mælingar urðu þar samfelldar og var meðalhitinn 3,9 stig. Oft var bjart yfir vestanlands og sunnan og stundum einnig annars staðar. Mesti hiti í mánuðinum varð 21,1 stig á Akureyri en á Holti í Önundarfirði mældist frostið -3,8 stig. Á Eyrarbakka fór frostið niður í -3,2 stig. Næturfrost voru ekki alveg eins útbreidd og 1903 en frostnætur voru fleiri sums staðar þar sem fraus á annað borð, allt upp í sex á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Úthéraði. Þetta var hafíslaust sumar. Síðustu þrjá dagana náði hitinn ekki tíu stigum í Reykjvík og mikill kuldi var yfir landinu. Sjávarhiti var ívið lægri en 1903.
1886 (7,4) Í þessum ágúst var loftvægi óvenjulega lágt, aðeins 997,9 hPa að meðallagi í Reykjavík og hefur aldrei verið þar lægra í ágúst. Úrkoma var svipuð á suður- og vesturlandi og meðallagið 1961-1990 sem við þekkjum best en nokkru meiri annars staðar. Þrátt fyrir kuldann varð hvergi kaldara en -0,1 stig og var það í Möðrudal. En það varð heldur aldrei hlýrra en 18,7 stig, á Hrísum í Eyjafjarðardal. Lægðir voru oft að flækjast nærri landinu, sunnan við það eða norðan, eða jafnvel yfir því. Þetta hefur verið þungbúinn en rysjóttur ágúst en þó komu stöku sólardagar með köldum nóttum. Þrettán daga náði hitinn ekki tíu stigum í Reykjavík og þann 26. varð hámarkshiti ekki hærri en 5,4 stig en lágmarksmælingar vantaði þennan mánuð í bænum. Dæmafáir óþurrkar voru annars um allt land nema með köflum á suðurlandi, hefur Þorvaldur eftir Fréttum frá Íslandi. Úrkoman mældist 14 mm í Reykjavík þ. 23. og daginn eftir 12 mm. Þornaði upp síðustu vikuna", segir Suðurnesjaannáll. Ís hafði verið við landið snemma sumars en ekki þegar hér var komið sögu. Jónassen lýssti veðurfarinu í Reykajvik í nokkrum blöum Ísafoldar:
Alla vikuna hefur verið mesta hægð í veðri með talsverðri úrkomu; einkum rigndi hjer mikið eptir hádegið 31. f. m. Síðustu dagana hefur verið sunnan útsunnan átt með skúrum, opt bjartur á milli. Í dag 3. hægur landsynningur, rigningarlegur. Loptþyngdarmælir hefur staðið mjög stöðugur alla vikuna og hreyfist svo að kalla ekkert enn þá. (4. ág.). - Framan af vikunni hjelzt sama óþurkatiðin sem var fyrri vikuna, en föstudag 6. gekk hann til norðurs og hefur síðan verið á þeirri átt, stundum hvass til djúpa, en hjer hægur og bjartasta veður. Í dag 10. sama norðanveðrið; snjóaði í Esjuna í nótt og sömul. í öll austur, og suðurfjöll (12.ág.).- Alla vikuna hefir verið hægt norðanveður, bjart sólskin daglega; á nóttu mjög kalt; alveg úrkomulaust alla vikuna. í dag hægur landnorðan-kaldi, bjart veður. (18. ág.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer hæg sunnanátt með nokkurri rigningu; 19. sama veður, en gekk síðari part dags til landnorðurs og þá hvass og síðast um kveldið genginn til norðurs með slúð; daginn eptir (20.) var hjer hvasst útnorðanveður; síðan hefur verið sunnan-landsunnanátt, hæg og rignt mikið, einkum rigndi hjer mjög míkið allan daginn h. 22. í dag 24. hægur landsynningur (Sa.) dimmur og hefur rignt óeamju mikið i nótt sem leið, og rigning í dag. Loptþyngdarmælir fallið og stendur lágt. (25.ág.). - Alla umliðna viku hefir verið sunnanátt, optast með mikilli úrkomu dag og nótt; 28. var allbjart veður á norðan-landnorðan, en síðan einlægt öðru hvoru rigning. Í dag 31. hægur á sunnan með rigningarskúrum ; loptþyngdamælir nú að hækka. Í fyrra var sama veður síðustu daga þessa mánaðar. (1. sept.).
Þann 18. voru liðin hundrað ár síðan Reykjavík fékk kaupstaðaréttindi og var af því tilefni haldið samsæti í bænum.
1892 (7,5) Alls staðar var þurrt í þessum mánuði. Og kalt. Austan eða norðaustanátt var algeng og voru kuldarnir mestir við sjóinn á norður og austurlandi en á suðurlandi var hitinn næstum því sæmilegur sums staðar, talinn 10,4 stig á Eyrarbakka þó hann væri aðeins 7,7 á Stóranúpi í Hreppunum. Munurinn er ótrúlega og kannski grunsamlega mikill en Eyrarbakki á það til reyndar að njóta sín tiltölulega vel í björtum og köldum norðanáttum að sumri. Annars var undarlega kalt allt þetta ár í Hreppunum. Þurrkar á landinu voru góðir, segir Þorvaldur Thoroddsen, nema á austfjörðum þar sem hafi verið einlæg votviðri. Mjög sólríkt virðist hafa verið á vesturlandi mestallan mánuðinn og á suðurlandi seinni helming hans. Hitinn fór yfir tíu stig næstum því alla dagana í Stykkishólmi og alla daga í Vestmanneyjum þó meðalhitinn væri ekki hár. Lámarkshiti var hins vegar ekki mikill. Mestur hiti mánaðarins mældist í Reykjavík 18,6 stig þ. 10. Mjög kalt loft kom til landsins nokkra daga um miðjan mánuð og aftur allra síðustu dagana, Komst frostið niður -3,8 á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem frostnætur voru átta. Hafís var horfinn frá landinu, nema við Hornbjarg, en hafði verið mikill langt fram á sumar. Á eftir þessum ágúst kom annar kaldasti september en á undan honum fór þriðji kaldasti júlí. Engar veðurfarslýsingar komu frá Jónassen þennan mánuð.
1912 (7,5) Þetta er kaldasti ágúst sem mælst hefur í Reykjavík. Úrkomusamt var á norður og austurlandi, einkum er á leið en á suður- og vesturlandi var þurrt. Ekki var þó sólríkt, aðeins 92 sólskinsstundir mældust á Vífilsstöðum við Reykjavík. Í byrjun mánaðarins var gríðarlegt kuldakast sem skall á síðast í júlí. Þá snjóaði ekki aðeins sums staðar á norðurlandi heldur einnig á vesturlandi. Í Möðrudal fór frostið niður í -5,0 stig. Kortið sýnir kuldatungu suður um landið á miðnætti þ. 1. og áætlaðan hita í kringum 1400 m hæð og er 5 stiga frost yfir landinu. Fyrstu þrjá dagana var hitinn aldrei meiri en átta stig í Reykjavík um miðjan dag en aftur á móti fór hitinn þar í 20,9 þ. 15. en um miðjan mánuðinn komu þar fjórir hlýir dagar þegar hæð var norðan og austan við land og kom með mildara loft frá Norðurlöndum. Hvergi varð hlýrra í þessum mánuði. Íshrul sást í mánuðinum milli Siglufjarðar og Skaga.
Síðasta daginn var brúin yfir Rangá vígð.
1888 (7,7) Þetta var norðan eða norðaustanáttamánuður mikill. Kaldast var á útskögum fyrir norðan og austan og ekki var svo sem hlýtt heldur þar inn landsins. Minnstur var meðalhitinn á Raufarhöfn 3,9 stig og við Bakkaflóa var hann 4,7 stig. Á suður og suðvesturlandi var hins vegar ekki afskaplega kalt, 9,7 stig bæði á Eyrarbakka og í Reykjavík og reyndar talin 10,2 stig í Hafnarfirði en því trúi ég nú mátulega. Á austurlandi rigndi mikið en annars staðar lítið og minnst á suðvestur- og vesturlandi. Mestur hiti varð 18,7 stig á Núpufelli í Eyjafjarðardal en minnstur -3,0 í Grímsey þar sem frostdagar voru 13. Þorvaldur Thoroddsen segir að sumarið hafi verið mjög þurrviðrasamt víðast hvar nema hvað hafísþokubrælu hafi gætt á norðausturlandi og skýrir það hinn mikla kulda við sjóinn. Ísinn var þó farinn frá landi í byrjun ágúst nema á norðausturlandi, t.d, Þistilfirði. Að öðru leyti hafi verið sífelld góðviðri og sólskin, segir Þorvaldur. Skýjahulutölur frá veðurstöðvum bera þessu einnig vitni. Meira að segja í Grímsey kom viku kafli eftir miðjan mánuð með bjartviðri. Hitanum var þó ekki fyrir að fara. Víst er að þessi ágúst er sá 7. kaldasti á landinu eftir 1870 og júlí var líka sá 7. kaldasti. Kortið sýnir norrænt góðviðrið í um 1400 m hæð. Jónassen lýsti Reykjavíkurveðrinu í Ísafoldarblöðum:
Alla þessa viku hefir sama góðviðrið haldizt við, optast logn, síðustu dagana við austanátt með hægð; dálítil úrkoma var 6. þ. m. Loptþyngdarmælir heldur að lækka síðustu dagana. Í dag 7. vestanátt, hægur, dimmur eptir hádegi og regnlegur. (8. ág.). - Sama góða veðrið viðhelzt enn, logn og blíða á degi hverjum; dálítil rigning kom um tíma á laugardaginn 11. þ. m. í dag 14. logn, nokkuð dimmur, bjartur eptir hádegi. (15.8.). - Enn helst sama góðviðrið; h. 17. rigndi litið eitt af austri eptir miðjan dag, annars bjartasta sólskinsveður á degi hverjum. Í dag 21. hæg útræna bjartasta veður, svo að kalla logn. (23.8.) - Sama góðviðrið helzt enn sem nú í langan tíma að undanförnu; síðustu dagana hafir hann verið á norðan, opt hvass til djúpa. Í dag 28. hvass hjer innfjarða, en bálhvass úti fyrir á norðan, bjart og heiðskírt veður. (29. ág.). - Fyrsta dag vikunnar var hjer hvasst norðanveður allan fyrri part dags, gekk svo til útnorðurs (Sv) og síðan i landsuður (Sa), nokkuð hvass fyrripartinn og ákaflega mikil rigning um morguninn, suddi af suðri síðari part dags. ... (5.sept).
Kaldasti ágúst síðan Ísland varð sjálfstætt ríki var 1943 (7,8). Þetta var einnig kaldasti ágúst sem mælst hefur á Grímsstöðum, 3,6 stig og kaldari en 1882 og 1907. Á norðausturlandi voru miklir óþurrkar en annars var víðast þurrviðrasamt. Úrkoman á Dalatanga var 216,7 mm og þar af féllu 101,8 mm þ. 22. Sólríkt var í Reykjavík og er þetta þar þriðji sólríkasti ágúst, en aðeins 95 stundir mældust á Akureyri. Þetta var þurrasti ágúst síðan mælingar hófust í Stykkishólmi 1857, 0,8 mm. Þar rigndi tvo daga en aðeins einn á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Næturfrost voru víða og mest -5,5 stig á Grímsstöðum þ. 24. en þann dag var Himmler gerður að innanrikisráðherra Þýskalands. Þrátt fyrir kuldana snjóaði hvergi á landinu. Norðanátt var ríkjandi og alveg frá 9.-20. var hæð yfir Grænlandi og oft bjartviðri sunnanlands en kuldar, rigningar og þokur á norðurlandi. Nokkrir sæmilega hlýir dagar komu á suðurlandi þennan tíma og komst hitinn mest í 19,1 stig á Hæli þ. 16. Í lok mánaðarins kom eitthvert mesta kuldakast sem komið hefur í ágúst. Kortið sýnir hitann í um 1400 m hæð þ. 29 og er fimm stiga frost yfir landinu en 10-15 stig yfir Grænlandi. Eins og alltaf áður stækka kortin mjög ef smellt er nokkrum sinnum á þau.
Styrjöldin var í hámarki. Þann 5. var þýsk flugvél skotin niður yfir norðurlandi. Innrás Bandamanna á Sikiley stóð yfir og Mílanó var lögð í rúst í loftárásum. Seint í mánuðinum komu síðustu gyðingarnir til útrýmingar í Treblinka en þar höfðu fangar gert uppreisn í byrjun mánaðarins sem bæld var niður.
1887 (7,9) Þessi mánuður kom í kjölfar kaldasta júlí sem mælst hefur. Fremur var þurrviðrasamt nema í Reykjavík þar sem rigndi tiltölulega mest en samt ekki mikið meira en í núgildandi meðallagi. Þar rigndi þó mikið hvern dag fyrstu vikuna en aðeins sex daga á stangli eftir það. Mjög kuldalegt var við sjóinn á norður og austurlandi. Á Teigarhorni er þetta kaldasti ágúst. Í Grímsey voru frostdagar 13 og 10 á Teigarhorni. Á Akureyri og í Hrútafirði gerði þó ekki frost og því um síður á suður-og vesturlandi, en stöðvar voru reyndar mjög fáar. Kaldast varð á Raufarhöfn, -4,6 stig og hefur aldrei mælst þar eins mikill kuldi í ágúst. Á Hornafirði komst hitinn einn daginn í 21,4 stig og varð hvergi hlýrra á landinu. Þorvaldur Thoroddsen segir að þetta sumar hafi verið góð tíð og framúrskarandi á suðurlandi og á austurlandi nema í Húnavatns-, Skagafjarðar og Norður Þingeyjarsýslu en þar gengu þokur og suddar. Hann segir þó að nokkur næturfrost hafi verið fyrir norðan er leið á sumarið. Allt þetta hefur hann úr Fréttum frá Íslandi. Ágúst þetta ár er hinn 8. kaldasti en júlí var reyndar sá allra kaldasti á landinu í heild. Alveg framúrskarandi sumarblíða! Jónassen lýsti svo tíðarfarinu í Reykjavík í nokkrum blöðum Ísafoldar:
... hefir verið við suður eða útsuðurátt, hægur en dimmur og stundum rignt talsvert með köflum t. a. m. aðfaranótt h. 2. Í dag 2. hægur á sunnan, dimmur, húðarigning i morgun allt fram undir hádegi. (3. ág.). - Alla vikuna hefir verið sunnanátt með talsverðri úrkomu og optast dimmur, þar til að hann í dag 9. gekk til norðurs, hægur en bjartasta veður; loptþyngdarmælir hefir þotið upp síðan í gær og stendur nú mjög vel, svo útlit er fyrir að veður haldist við norður. (10. ág.). - Umliðna viku má heita að logn hafi verið daglega, bjart og fagurt veður optastnær; 13. og 14. var um tíma dimmviðri með nokkurri úrkomu; 15. gekk hann til norðurs og var hvass til djúpa, hjer hægur; í dag 16. logn og fagurt veður, hægur norðankaldi; Lítur út sem sje hvasst úti fyrir á norðan og talsverður uppgangur í vestri og norðri; mistur í lopti norðanundan bæði í gær og í dag. (18. ág.). - Alla vikuna má heita að hafi verið logn og bezta veður, og sama hægðin er enn þann dag í dag (23.). Eptir hádegi genginn til landssuðurs með hægð, og rigningarlegur og loptþyngdarmælirinn að lækka. (24. ág.). - Alla undanfarna viku hefir verið að heita má alveg logn dag sem nótt með miklum hita og er mjög langt siðan önnur eins stilling hefir verið á veðri eins og undanfarna tíð. Í fyrra var t. d. 25. ágúst útsynnings-ofsi með miklum kalsa (5 stiga hiti um hádegið) og hafróti. Í dag 30. rjett logn, dimmur i morgun og nokkur rigning, birti upp eptir hádegi. (31. ág.).
1921 (7,90). Upphaf þessa ágústmánaðar var eitt hið svalasta sem yfir Reykvíkinga hefur gengið og var þá mjög þurrt, en nokkuð rætist úr kuldanum er á leið, en aldrei varð mánuðurinn þó annað en kaldur og talsvert úrkomusamur seinni hlutann. Hámarkshitinn var einhver hinn lægsti sem um getur í Reykjavík í ágúst, 13,7 stig. Þess má og geta að aldrei hefur hámarkshiti ársins verið lægri Reykjavík en þetta ár, 14,7 stig en sá hiti mældist í júlí. Úrkomusamt var á austfjörðum og þar urðu mikil skriðuföll, en yfirleitt var þurrviðrasamt á suður-og vesturlandi. Norðan og norðaustanátt var áberandi. Frostið fór í -4,0 stig þ. 27. á Möðruvöllum. Hlýjast varð 20,6 stig á Seyðisfirði.
Tenórinn frægi Enrico Caruso, fyrsta stórstjarna grammófónsins, lést þ. 2. Daginn eftir stofnaði þýski nasistaflokkurinn stormsveitir sínar.
Hér verður að nefna ágúst 1983 þó hann sé ekki í tölu allra köldustu ágústmánaða á landinu í heild. Á suður-og vesturlandi var hann beint framhald af júlíkuldunum miklu það ár. Í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst kaldari ágúst, 8,0 stig og þar var hann einnig sá úrkomusamasti, 270 mm. Í Reykjavík var mánuðurinn einn af þremur köldustu ágústmánuðum frá 1866. Og hann er sólarminnsti ágúst sem þar hefur verið mældur. Fyrir norðan og austan var sæmileg tíð í suðvestanáttinni og bara góð á Vopnafirði þar sem meðalhitinn var heilt stig yfir góðærismeðallaginu 1931-1960 og þar mældist mesti hiti mánaðarins, 25,3 stig þ. 24. Í Reykjavík fór hitinn hins vegar aldrei hærra en í 13,4 stig og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum aðeins 10,7 stig. Skriðjöklar landsins voru um þetta leyti hættir að hopa í þeim kulda sem lengi hafði ríkt á þessum árum og er víst slíkra kulda saknað af sumum!
Óvenjulega kaldir ágústmánuður fyrir 1866 voru furðu fáir miðað við hvað veðurfar var þá almennt kalt. Árið 1850 var meðalhitinn í Reykjavík þó aðeins 7,4 stig en 6,9 í Stykkishólmi. Og 1841 var hitinn í Reykjavík 7,6 stig en 7,4 árið 1832. Seinna árið voru einnig mælingar á Möðruvöllum sem benda til meðalhita þar kringum sex stig. Mjög kalt var í ágúst 1832. Þá var aðeins athugað í Reykjavík og er meðalhitinn talinn 7,4 stig. Þetta eru því álíka kuldamánuðir í höfuðstaðnum og 1912. Sérlega kalt var fyrir norðan í ágúst 1864 þó ekki væri svo kalt í Stykkishólmi, 9,5 stig. En á Akureyri, áætlað eftir hitamælingum á Siglufirði og ber að taka með þó nokkurri varúð, var þessi mánuður jafnvel meira en hálfu stigi kaldari en ágúst 1882 og er þá kaldasti ágúst sem einhverjar tölur eru um á norðurlandi. Eftir mælingum að dæma sem gerðar voru hér og hvar á landinu, en reiknaðar hafa verið yfir til Stykkishólms, er ljóst að á kuldaárunum kringum 1815 var meðalhitinn þar í ágúst 1817 talinn 6,3 stig en 6,5 árið 1815. Þó þessar tölur séu ónákvæmar virðist þetta hafa þetta verið mánuðir í stíl við ágúst 1882 og 1903 með eins árs millibili.
Fréttir frá Íslandi 1882-1888, Suðurnesjaanáll 1886.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 10.12.2011 kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2011 | 22:53
Kattavinafélagið mótmælir
Við Mali tökum heilshugar undir orð Kattavinafélagsins og ætlumst til þess að dýraníðingar sem brjóta lögin um dýravernd fái miskunnarlaust að kenna á refsivendi laganna.
Það kemur ekki til mála sveitastjórnir fái að komast upp með svívirðilega grimmd gagnvart dýrum.
Mótmælir aðgerðum gegn köttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.9.2011 | 18:10
Hlýjustu septembermánuðir
Sá septembermánuður sem mestur ljómi stendur af hvað hita og góðviðri varðar er september 1939. Hann er að vísu strangt til tekið bara næst hlýjasti septembermánuðurinn, ef miðað er við þær 9 stöðvar sem lengst hafa athugað þó næstum því enginn munur sé á honum og þeim hlýjasta, en þar á móti kemur að hann var einstaklega blíðviðrasamur. Þetta er líka eini september sem 20 stiga hiti hefur mælst í Reykjavík. Síðast en ekki síst hefur mánuðurinn fest í minni fólks vegna þess að þá hófst síðari heimsstyrjöldin þó það komi veðurfari auðvitað ekkert við.
Eins og áður í þessum pistlum um hlýjustu og köldustu mánuði er hiti og úrkoma tíunduð í hverjum mánuði fyrir hverja og eina af hinum níu stöðvum sem við er miðað í fylgiskjalinu en innan sviga í þessum megintexta er meðalhiti þeirra allra. Hann er 6,7 stig fyrir árin 1961-1990.
1939 (10,6) Mánuðurinn var sá hlýjasti sem komið hefur á suðurlandi allt frá Kirkjubæjarklaustri til Hornbjargsvita, en þó ekki í Vestmannaeyjum, Vík í Mýrdal, Þingvöllum, Hvanneyri og á Reykjanesi þar sem hlýrra varð 1941. Fyrstu níu daga mánaðarins (reyndar frá 29. ágúst) fór hitinn í Reykjavík aldrei niður fyrir tíu stig og hámarkshitinn fór fyrstu þrjá dagana í 18, 19 og 20 stig og aftur í 18 stig þ. 6. og 17 stig næstu þrjá daga þar á eftir. Meðaltal lágmarkshita var 9,8 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum sem þýðir að hann hefur næstum því örugglega verið yfir tíu stigum í kaupstaðnum. Og það í september! Mikil hlýindi voru í byrjun mánaðarins, 24,6 stig þ. 1. á Sandi í Aðaldal og 23,4 á Húsavík og þ. 3. var yfir tuttugu stiga hiti víða á suðurlandsundirlendi og vesturlandi, allt upp í 22,7 stig á Hvanneyri. Í Reykjavík mældist mesti hiti sem þar hefur mælst í september, 20,1 stig þ. 3. sama dag og Bretar og Frakkar sögðu Þjóðverjum stríð á hendur og var sólskinsglæta í bænum í hægri suðaustanátt. Á norðausturhorninu komst hitinn yfir 20 stig þ. 6. og á austfjörðum þ. 21. Á Akureyri mældist mesti hiti sem þá hafði þar mælst í september, 22,0 stig þ. 1. Hiti fór í 20 stig eða meira á vel yfir helmingi allra veðurstöðva sem mældu hámarkshita sem er býsna óvenjulegt í september. Kaldast varð -3,5 stig á Nefbjarnarsstöðum þ. 14. Nokkuð kólnaði er á leið mánuðinn eins og eðlilegt er en alltaf máttu þó heita hlýindi.
Úrkoman var aðeins lítið eitt meiri en meðaltaið 1931-2000. Hún var meiri en venjulega syðra og á Austfjörðum og kringum meðallag á suðvesturlandi en minni nyrðra eins og vænta mátti eftir vindáttinni, en suðlægar áttir voru venju fremur tíðar. Á norðausturlandi var úrkoma sums staðar aðeins um 17 mm og úrkomudagar 5-7 en á suðurlandi voru þeir um og yfir 20. Mikil úrkoma var víða upp úr þeim 20. og mældist sólarhringsúrkoman 106 mm á Horni þ. 24. Það var hægviðrasamt í mánuðinum og mjög oft talið logn. Á Akureyri var fremur mikið sólskin en lítið í Reykjavík. Heyskapartíð var víðast mjög hagstæð en þó var þurrklítið sunnanlands. Uppskera úr görðum var óvenjulega mikil. Síðustu tvo dagana kólnaði nokkuð og sums staðar snjóaði þá fyrir norðan en hvergi festi snjó og var mánuðurinn alauður allstaðar. Yfir Bretlandseyjum var hlý háloftahæð þaulsetin sem hafði áhrif á veðurlagið hér á landi eins og sést á kortinu um meðalhæð 850 hPa flatarins í um 1400 m hæð.
Hér er samsett kort sem sýnir meðalhita hverrar stöðvar í septembermánuðum 1939 (blátt) og 1941 (rautt), eftir því hvort árið var hlýrra á viðkomandi stöð en mjög lítill munur var á meðalhita stöðva þessi ár. Báðir voru þessir mánuðir jafngildir vel hlýjum júlímánuðum að hita.
1941 (10,7) Hlýjasti september sem mælst hefur á landinu er svo 1941, fjögur stig yfir meðallaginu 1961-1990, og er hann aðeins 0,1 stigi hlýrri en bróðir hans frá 1939. Mánuðurinn var sá hlýjasti víðast hvar á svæðinu norðan og austan til á landinu frá Hrútafirði til Fagurhólsmýrar en auk þess á Hvanneyri, Vík í Mýrdal, Vestmannaeyjum, Þingvöllum og Reykjanesi. Meðalhitinn á Akureyri, 11,6 stig, er hæsti septembermeðalhiti sem skráður hefur verið á íslenskri veðurstöð. Þetta er einhver mesti sunnanáttaseptember sem vitað er um. Mánuðurinn var enda miklu votviðrasamari en 1939. Mest rigndi náttúrlega á suður og vesturlandi þar sem úrkoman var 2-21/2 sinnum meiri en í meðallagi en minna en helmingur af meðallagi á Akureyri. Minnst rigndi að tiltölu á norðausturströndinni, aðeins fjóra daga við Bakkafjörð og við Eyjafjörð. Mánaðarúrkomutölur fyrir sumar stöðvar eru ansi háar, 378,5 mm í Kvígindisdal sem er septembermet þar, 351 á Ljósafossi og 335 mm á Kirkjubæjarklaustri. Aldrei hafa verið fleiri úrkomudagar í september í Reykjavik, 28, og voru því líkir á suður og vesturlandi og á Ljósafossi jafnvel 29. Síðari hluta mánaðarins fór hver lægðin á fætur annarri norður fyrir land úr vestri og fylgdi úrkoma með og oft hvassvirði um vesturhluta landsins. Í heild var mánuðurinn þó ekki vindasamur. Gífurleg úrkoma var i kringum þ. 20. og aftur 25., víða 40-60 mm á sólarhring á suður- og vesturlandi. Mikil flóð urðu þá í Múlakvísl og Núpsvötnum. Eftir miðjan mánuðinn varð afar hlýtt á norður-og austurlandi, 24,4 stig á Hallormsstað þ. 15. sem þar er septembermet og 22,2 á Sandi þ. 19. Tuttugu stiga hiti eða meira mældist aðeins á sex veðurstöðvum sem mældu hámarkshita, þar af er ein mæling sem næstum því örugglega er röng, en á 17 stöðvum 1939. Kaldast varð -3,2 stig á Grímsstöðum þ. 6. í hægviðri sem stóð í einn dag. Ólíkt september 1939 kom seinni helmingur þessa mánaðar síst verr út í hitanum en fyrri hlutinn. Eins og 1939 var hæðasvæði yfir Bretlandseyjum en þó lengra frá landinu en þá en aftur á móti var lægða-og úrkomusvæði nær landinu vestan við það. Sjá kortið frá meðalhæð 850 hPa flatarins.
Heimsstyrjöldin geisaði og hófst umsátrið um Leningrad þann fyrsta. En síðasta daginn voru framin fjöldamorðin í Babi Yar.
Þessir tveir mánuðir, 1939 og 1941, eru eiginlega í sérflokki hvað hlýindi varðar.
September 1958 og 1996 eru þeir þriðji og fjórði hlýjustu. Þeir eru samt nokkru svalari en þeir tveir sem hér hafa verið taldir, en eigi að síður afar hlýir.
1958 (10,2) Eins og september 1939 er september 1958 einnig frægur af öðrum ástæðum en veðurfarslegum. Þá var landhelgin færð í 12 mílur og geisaði fyrsta þorskastríðið við Breta. Þessi mánuður var ekki eins úrkomusamur og þeir sem hér hafa verið taldir en sólin var fremur lítil. Mest rigndi á suðausturlandi, enda var suðaustanátt langalgengust í mánuðinum, en minnst rigndi á norðurlandi. Aldrei hefur mælst minni úrkoma á Akureyri, aðeins 0,4 mm sem féll á einum degi. Þurrkamet var einnig á Grímsstöðum, 1,5 mm. Mjög hlýtt var síðustu dagana og mesti hiti mánaðarins í Reykjavík mældist síðasta daginn, 16,9 stig sem er mesti hiti sem þar hefur mælst svo seint að sumri. Svipaður hiti eða meiri var þann dag allra syðst á landinu og á suðausturlandi. Á Stórhöfða kom þá mesti hiti þar í september, 15,4 stig. En á Seyðisfirði féllu miklar skriður. Mjög hlýtt var einnig dagana 3.-5. og hlýjast var þann þriðja þegar hitinn fór í 23,4 stig á Húsavík. Minnsti hitinn sem mældist í Reykjavík þennan mánuð var 5,4 stig og er það hæsti lágmarkshiti sem þar hefur mælst í nokkrum september. Meðalhitinn á Loftssölum í Dyrhólahreppi var 11,5 stig og er það einhver mesti meðalhiti á veðursstöð í september. Eiginlegt kuldakast kom aldrei en hitinn féll í þó -2,2 stig á Barkarstöðum í Miðfirði aðfaranótt hins 20. sem þykir nú ekki tiltökumál á þeim stað. Svokölluð þykkt yfir landinu var 70-80 metrum yfir meðallagi en því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kortið sýnir hins vegar frávik hitans frá meðallagi í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð yfir landinu.
1996 (10,15) var meðalhiti alls landsins svipaður og 1958 en fyrir sunnan var kaldara en norðanlands og austan var hitinn svipaður og 1941 og sums staðar meiri. Á Raufarhöfn (9,6°), Úthéraði (10,7°), Teigarhorni og Seyðisfirði var þetta hlýjasti september sem mælst hefur. Meðalhitinn á Seyðisfirði var 11,5 stig og er það eitt af fimm hæstu gildum meðalhita í september á veðurstöðvum. Hlýjast varð þ. 4. og var þá víða fyrir norðan yfir 20 stiga hiti, en mest 22,0 á Garði í Kelduhverfi. Sama dag komst hitinn í Grímsey í 18,6 stig sem er mesti hiti sem þar hefur verið skráður í september í ansi langri en ekki alveg samfelldri sögu hámarkshita. Í bjartri vestanátt þ. 11. komst hitinn í 20,4 stig í Norðurhjáleigu í Álftaveri og er slíkur hiti þar mjög sjaldgæfur í september.
Sunnanáttin var þrálát og þetta er þriðji sólarminnsti september í Reykjavík frá því mælingar hófust, 55 klst, en hins vegar mældust 104 klst á Akureyri og 113 við Mývatn, en aðeins 41 klst við Hveragerði. Á norðausturlandi var úrkoman einungis um helmingur þess sem venjan er og upp að meðallagi en votast var tiltölulega norðvestanlands, en á suðurlandi var úrkoma kringum helmingi meiri en venjulega. Úrkomudagar á suður-og vesturlandi voru margir, 25-27 víða og sums staðar 29. Á Kvískerjum var heildarúrkoman 454 mm. Kortið sýnir þykktina yfir landinu sem var heldur minni en 1958.
Svavar Gests, hinn þekkti tónlistar-og útvarpsmaður, lést fyrsta dag mánaðarins en síðasta daginn hófst eldgosið í Gjálp í Vatnajökli.
2010 (9,4) Mestur var meðalhitinn í þessum mánuði 10,9 stig á Garðskagavita. Nú voru komnar sjálfvirkar veðurstöðvar víða en engar slíkar voru vitanlega í september 1939, 1941 og 1958. Í fyrstu vikunni kom einhver mesta hitabygja (sjá kortið sem sýnir hita í 850 hPa fletinum þ. 3.) sem mæld hefur verið í september. Komst hitinn í 24,9 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þ. 4. og sama dag 24,7 stig á Mánárabakka og er þetta nærri Íslandsmetinu í september (26,0 stig á Dalatanga, þ. 12. 1947). Staðarmetið frá 1939 féll á Akureyri þar sem hitinn fór 23,6 stig þennan dag og á Staðarhóli fór hitinn í 23,1 stig. Meðalhitinn á Akureyri þann fjórða var 17,9 stig og er það mesti meðalhiti nokkurs dags í september frá a.m.k. 1948 og sennilega miklu lengur. Í þessum látum komu reyndar dagshitamet að sólarhringsmeðalhita í Reykjavík alla dagana frá þeim fjórða til níunda og á Akureyri dagana 3.-5. og 8. Kaldast í byggð í þessum mánuði varð -6,1 stig á Barkarstöðum í Miðfirði þ. 23. en -8,5 stig mældust þ. 21. á Brúarjökli. Úrkoman var mjög lítil fyrir norðan en kringum meðallag á landinu í heild.
Þetta sumar, frá júní til september, er hið hlýjasta sem mælst hefur víða á suður og vesturlandi, svo sem í Reykjavík, Stykkishólmi og Stóhöfða en allar þessar stöðvar hafa lengi athugað. Einnig er þetta hlýjasta sumar á Hveravöllum (frá 1963).
Danski skákmeistarinn Bent Larsen, góðkunningi Íslendinga, lést þ. 9. en í mánaðarlok samþykkti Alþingi að stefna Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdóm.
1901 (9,3). Þá voru óþurrkar miklir á suðurlandi. En litlar fréttir fara af úrkomu á norðurlandi því þar voru engar úrkomumælingar. Á Teigarhorni var úrkoma hins vegar meira en tvöföld miðað við meðallag. Mánuðurinn lá í sunnan-og suðaustlægum áttum svo fáir mánuðir jafnast við hann að því leyti. Hlýjast varð 18,7 stig á Kóreksstöðum á Úthéraði en kaldast - 2,1° i Grímsey.
2008 (9,2) Mjög úrkomusamt var á suður- og vesturlandi. Met úrkoma var í Stykkishólmi og í Reykjavík er þetta næst úrkomusamasti september og munar sáralitlu á metmánuðinum og þessum (176,0 mm 1887). Miðað við þær fimm úrkomustöðvar sem hér er stuðst við er þetta einfaldlega úrkomusamasti september sem þær hafa mælt. Á Akureyri var úrkoman þó í minna lagi. Á Nesjavöllum var úrkoman 665,9 mm og er það mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á landinu á veðursstöð í september. Sólarhringsúrkoman mældist á Nesjavöllum 197,0 mm þ. 17. og er það mesta sólarhringsúrkoma á mannaðari stöð í september (árið eftir, þ. 27. mældust 220,2 mm á sjálvirku stöðinni á Ölkelduhálsi). Hlýjast varð á sjálfvirku stöðinni á Raufarhöfn, 20,6 stig þ. 17. og sama dag mældust 20,1 stig á mönnuðu veðurstöðnni þar. Kaldast í byggð var -4,2 stig á Möðrudal síðasta dag mánaðarins. Sama dag mældist frostið -7,3 stig uppi á Brúarjökli. Lægðir og úrkomusvæði voru oft nærri landinun eins og kortið frá 850 hPa fletinum sýnir.
Undir lok mánaðarins varð hrunið mikla í íslenska bankakerfinu.
1953 (9,2) Áttundi hlýjasti september er svo hinn ágæti góðviðrismánuður 1953. Þá var hitinn mjög jafn um land allt, 9-10 stig í betri byggðum, úrkoma var nokkuð mikil nema á norðurlandi og sólin var af skornum skammti. Hlýjast varð 20,2 stig á Hallormsstað þ. 7. en kaldast -5,9 á Möðrudal þ. 12. Býsna mikil úrkoma var sunnanlands og vestan og ekki hefur fallið meiri úrkoma í september á Hólum í Hornafirði, 375,9 mm og á Keflavíkurflugvelli, 225,2 mm. Uppskera garðávaxta þótti með afbrigðum góð. Mánuðurinn var veðragóður en þó hvessti dagana 24.-26. af vestri og varð þá mikill sjávargangur í Faxaflóa og við Breiðafjörð sem olli nokkrum skaða. Í kjölfar vestanáttarinnar kólnað og snjóaði víða í fjöll en þó var alls staðar snjólaust í byggð í mánuðinum nema einn dag við Mývatn.
Þann 6. varð fjögurra ára telpa úti skammt frá Hólmavík. Vakti sá atburður mikla sorg um land allt en hans er þó hvergi getið í nýrri annálabókum.
1933 (9,2) Þetta var síðasti mánuðurinn í hlýjasta sumri sem komið hefur norðanlands. Á Akureyri var meðalhitinn í mánuðinum 10,4 stig og þar var þetta því fimmti hlýjasti september. Miklar rigningar voru á suður-og vesturlandi og er þetta úrkomusamasti september sem mælst hefur í Stykkishólmi og með þeim úrkomumestu í Reykjavík. Sunnanáttir voru með allra mesta móti. Á Hvanneyri var úrkoman 282,3 mm og var aldrei meiri þar í september meðan mælt var. Úrkomudagar voru þó færri yfirleitt en 1941. Mánaðarrúrkoman í Vík var talinn 474,9 mm sem er það mesta þar í september og sólarhringsúrkoman var 150,3 mm þ. 9. , sem er líka met þar, en einhver óvissa er þó víst um töluna. Þennan dag mældist mesti hiti mánaðarins, 20,1 stig í Fagradal í Vopnafirði. Rigningin þessa daga ollu miklum vexti í mörgum ám og skriðum sums staðar. Mánuðurinn var enda talinn mjög rosasamur á suður-og vesturlandi. Það var í þessum rigningarmánuði sem Þórbergur Þórðarson reið yfir Skeiðará og segir frá því í hinni mögnuðu frásögn Vatnadeginum mikla. Að mínu tali nær mánuðurinn upp í það að vera tíundi úrkomusamasti september en þó ekki meira en það. Mikið jökulhlaup kom þ. 8. eða 9. í Jökulsá á Sólheimasandi og skemmdist brúin mikið. Kaldast varð - 3,3° á Kollsá þ. 13. í stuttu kuldakasti. Sumarið í heild, frá júní til september, er það hlýjasta sem mælst hefur á Akureyri.
1931 (9,15) Þessi september er sérstakur fyrir það hve vestanáttinn var eindregin. Hún var þurr og loftþrýstingur oft hár framan af og fylgdi þessu venju fremur mikið sólskin. Mánuðurinn var hægviðrasamur og þurr sunnanlands og vestan fram yfir miðjan mánuð en allan mánuðinn á norður-og austurlandi. Hiti fór þar yfir tuttugu stig um miðjan mánuð og aftur þ. 21. og 22. og fyrri daginn mældist mesti hiti mánaðarains, 22,1 stig á Eiðum. Eftir miðjan mánuð gerði óþurrka mikla sunnanlands og vestan. Ekkert raunverulegt kuldakast kom en næturfrost voru sums staðar í fyrstu vikunni í hægri norðanátt, mest -4,9 stig á Grímsstöðum þ. 4. Ekki var mánuðurinn samt eintóm blíða. Vestan hvassviðri var um allt land þ. 17. og aftkaveður gerði við Eyjafjörð og þá snjóaði á Vestfjörðum svo þ. 18. var alhvítt á Suðureyri við Súgandafjörð og Þórustöðum í Önundarfirði.
Nokkurra annarra septembermánaða ber að geta. Mjög hlýtt var í september lengi fram eftir 1968 á suður og vesturlandi. Þetta var hins vegar á hafísárunum og var mánuðuirnn ekki hlýr við sjóinn á norður-og austurlandi og meðalhitinn ekki meiri en 8,0 stig á Akureyri, lítið yfir meðallaginu 1931-1960. Þegar fjórir dagar voru eftir af mánuðinum var meðalhitinn í Reykjavík 10,6 stig en síðustu dagana kom óvenjulega hastarlegt kuldakast svo lokatala hitans í mánuðinum varð 9,7 stig. Mánuðurinn kólnaði sem sagt um 0,9 stig á fjórum dögum. Slíkt hrun í mánaðarmeðalhita var algengt á ísaárunum. Í þessum mánuði var einkanlega hlýtt kringum þ. 10. og mældist þá mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í september síðan 1939, 18,5 stig, tvo daga í röð, og á Þingvöllum komst hitinn í 20,2 stig þ. 10. Tiltölulega sólríkt var á suðurlandi þegar um hlýja september er að ræða, en þeir eru oft þungbúnir sunnanáttamánuðir, 114 klst mældust á Sámsstöðum í Fljótshlíð.
September 2006 krækir í 11. sæti að hlýindum. Þá eru þrír septembermánuðir eftir 2000 meðal ellefu hlýjustu septembermánaðanna.
Árið 1935 var september reyndar ekki nema í meðallagi í hita á landinu miðað við meðaltalið 1931-1960 og í kaldara lagi fyrir norðan og austan, en á suðvesturlandi var hann vel hlýr, 9,2 stig í Reykjavík. Það er hins vegar merkilegt með þennan mánuð að hann er allra mánaða mestur austanáttamánður enda var hann í Reykjavík, Stykkishólmi og Vestmannaeyjum úrkomuminnstur septembermánaða, 12,6, 1,6 og 39,9 mm. Í rigningarbælinu Kvígindisdal í Patreksfirði var einn úrkomudagur (0,2 mm) og reyndar einnig í Hrútafirði. Mánuðurinn var einnig tiltölulega sólríkur vestanlands með 130 sólarstundir í Reykjavík. Svona hlýir, þurrir og sólríkir septembermánuðir í höfuðborginni eru sannarlega sjaldgæfir. Fádæma úrkoma var aftur á móti á Seyðisfirði í linnulausri austanáttinni, 492 mm sem er með því mesta sem mælist í september og sólarhringsúrkoman var 110 mm þ. 15. Þessi mánuður er sláandi dæmi um breytilegt veðurlag í landshutum eftir því hvort vindur er af hafi eða landátt ríkir. Einnig rigndi mikið sunnanlands og suðaustan. Rigningarnar ollu skriðuhlaupum víða sem ollu miklu tjóni. Kortið sýni stefnu og styrk vindsins í um 5 km hæð.
Af eldri mælingum, fyrir okkar helsta viðmiðunarár 1866, má ráða að september 1828 var mjög hlýr í Reykjavík, eins og allt sumarið, 10,2 stig. September 1850 var þar einnig 10,2 stig en ekkert sérstakur í Stykkishólmi.
Fyrra fylgiskjalið sýnir hita og úrkomu stöðvanna en hið síðara sýnir veðrið í Reykjavík og fleira í hinum sögufræga og hreint ótrúlega september 1939.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 10.12.2011 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2011 | 16:57
Opið bréf frá Mala til Egilsstaðabúa
Gestaskrifari á bloggi dagsins að þessu sinni er enginn annar en hinn nafntogaði Mali sem klórað hefur saman eftirfarandi galopið bréf til Egilsstaðabúa:
Í Fréttablaðinu í dag er frétt um það að 26 meira en vafasamir einstaklingar (hvað búa annars margir á Egilsstöðum) hafi safnað undirskriftum til bæjarfélagsins um að skera upp herör gegn ''kattaplágu'' sem þeir segja að þar geysi. Og svo virðist af fréttinni að bæjarfélagið ætli að bregðast við þessari fámennisklíku með herferð gegn köttum með blóðirennandi raðmorðum í stórum stíl.
Þrátt fyrir þetta segir bæjarstjórinn að vandræði vegna katta séu ekki meiri á Egilsstöðum en annars staðar.
Það er einmitt. Og kettir hafa verið í þéttbýli síðan það myndaðist á Íslandi og auðvitað í sveitum þar á undan. Það er þó ekki fyrr en á allra síðustu árum sem sumir eru orðnir óðamála og illmála út af ''plágunni'' sem þeir allt í einu eru sagðir vera.
Hvers vegna?
Vegna þess að til er til fólk sem er ekki aðeins meinilla við ketti heldur hatar þá beinlínis út af lífinu. Af einhverjum ástæðum hefur þetta grimma og guðlausa vandræðafólk fengið meira vægi en áður og veður nú uppi í bæjarstjórnum og í fjölmiðlum.
Fulltrúi þessara 26 hvumleiðu Egilsstaðabúa, Þórhallur nokkur Þorsteins, eys úr hatursskálum sínum í Fréttablaðinnu. Hann kvartar hástöfum með ámáttlegum orðum yfir því að barnabörn sín, sem áreiðanlega eru andstyggilegir óþekktarormar, geti ekki lengur verið úti vegna katta sem geri þarfir sínar í blómabeð þar sem fagrar skrautjurtir og blóm eigi að spretta.
Ýmislegt getur vitanlega farið miður í kattheimum eins og í mannheimum. En þessar lýsingar Þórhalls eru áreiðanlega stórýktar ef ekki bara hrein lygi.
Þær eru það sem venjulega er kallað hatursáróður.
Í bakgarðinum þar sem ég á heima, stóru porti með einkagörðum í kring, eru margir kettir, hver öðrum skemmtilegri og vitrari. Oft tökum við bræður þar mal saman um landsins gagn og nauðsynjar. Aldrei hef ég á minni lífsfæddri ævi rekist þar á kattaskít og aldrei fundið kattarhlandslykt, en hins vegar er ekki farandi um undirgöng í nágrenninu vegna stækrar mannahlandfýlu úr einhverri álíka mannfýlu og þessum Þórhalli.
Við sómakisur þurfum auðvitað að kúka og pissa ekki síður en Þórhallur. En við förum fínlega í það samkvæmt okkar náttúrlega eðli og oftast í kassann okkar heima og gerum það til dæmis alls ekki í fjölmiðlum.
Það er fyrir neðan virðingu okkar.
Það er engin raunveruleg kattaplága í þessu landi. Hins vegar eru manntuðrur eins og Þórhallur Þorsteins orðnar meiriháttar plága hvar sem þær láta til sín taka í þjóðlífinu. Og bæjarstjórnir og aðrar stjónir sem hlaupa eftir fordómum þeirra og hatursæði eru ekkert annað en mann-og kattfjandsamlegar fasistabullustjórnir.
Þórhallur erkibulla Þorsteins, sem ég mundi klóra úr augun ef ég næði til hans, hótar því að þeir vondu einstaklingar sem hugsa eins og hann muni grípa til sinna eigin ráða gegn köttum, sem sagt fari í algjört holókast, ef bæjarstjórnin muni ekki leysa gyðingavandamálið í bænum... nei, kisuvandamálið vildi ég sagt hafa, kemur út á eitt því söm er gjörðin og samt er hjartalagið.
Við kettir trúum því að til sé fleira gott fólk en vont fólk. Og ég skora á góða Egilsstaðabúa, menn og kisur, að rísa upp gegn vondu Egilsstaðabúunum og berja niður með harðri hendi og klóm og kjafti þessar siðlausu og guðlausu ofóknir gegn hinu göfuga kattakyni. Þær eru blettur á bæjarfélaginu.
Við treystum því að allir kattaunnendur muni grípa til sinna eigin ráða gegn þessu morðóða hyski, svo ekki þurfi að spyrja að leikslokum, ef bæjarafélagið getur ekki sjálft verndað sína spakvitrustu og ljúfast malandi þegna fyrir öðrum eins hamfara ofsóknum og til er blásið.
Hvæsum á þessar níðingslegu aðfarir!
Mali Sigurðsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.9.2011 | 14:07
Haustjafndægur
Í dag eru jafndægur að hausti. Þá er sólargangur jafn langur allst staðar á jörðunni eins og kunnugt er. Það er þó ekki fyrr en á mánudaginn sem sólargangur í Reykjavík verður minni en tólf stundir.
Og sólinni þykir nú gaman að skína. Ef ég hef ekki ruglast í ríminu er þessi september þegar kominn í tíunda sæti yfir sólríkustu septembermánuði í Reykjavík og við það að komast upp í það níunda þó enn séu 8 dagar eftir af honum. Það verður gaman að sjá hver lokastaðan verður.
Enn er hitinn víðast hvar á landinu yfir meðallagi en það gengur nokkuð á það nú með degi hverjum. En það gæti nú breyst.
Viðbót 24.9.: September í Reykjavík er nú kominn upp í 8. sæti yfir sólríkustu septembermánuði.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 30.9.2011 kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.9.2011 | 18:57
Orð dagsins
Ef ég lýsti því yfir á áberandi hátt að ég hefði andúð á kynlífi rauðhærðra eða hefði andúð á svörtu fólki og gyðingum, væri þá hægt að kalla það skoðanakúgun ef menn létu það vera að klappa mig upp eða stuðla að því að ég kæmi skoðunum mínum sem víðast á framfæri?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.9.2011 | 00:35
Óvenjuleg sólskinstíð
Það fór lítið fyrir sólinni í Reykjavík í dag. Það er samt engin ástæða til vanþakklætis. Öðru nær. Í gær lauk sex daga sólskinsskeiði þar sem sólin skein alla dagana í tíu klukkustundir eða meira. Það er ótrúlegt en samt satt að aldrei hefur það gerst síðan sólskinsmælingar hófust í Reykjavík árið 1923 að jafn margir dagar í röð hafi komið með tíu stunda sólskini í september. Það sýnir líka glögglega hvað Ísland er nú lítið sólarland.
Þessi sólskinstíð var því kærkomnari að henni fylgdi engin kuldi eins og oft er þegar sólin skín í höfuðstaðnum í september. Það var alveg frostlaust um nætur og bara fremur hlýtt á daginn. Fjöldi sólarstunda í Reykjavík er reynar farinn að nálgast meðallag alls mánaðarins þó hann sé aðeins hálfnaður.
Þetta er munaður og sannarlega sjaldgæfur munaður.
Mánaðarhitinn er nú kominn upp í meðallagið aftur á Akureyri en er næstum því hálfu öðru stigi yfir því í Reykjavik. Og framundan eru hlýindi.
Hver veit nema skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni hverfi þá eftir allt saman áður en haustið gengur alveg í garð.
Fylgiskjalið fylgist áfram með hita, sól og úrkomu.
Bloggar | Breytt 23.9.2011 kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006