Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
28.6.2011 | 22:46
Gamlar greinar um veðráttu
Get ekki stillt mig um að vísa á þessa grein í Skírni 1927 um veðráttu og veðurspár eftir Jón Eyþórsson veðurfræðing. Þar birtast opinberlega líklega fyrstu veðurkort fyrir Ísland sem sjást hafa á prenti hér á landi. Það er gaman að þessari grein.
Þá eru ekki síðri endurminningar Guðmundar skálds Friðjónssonar frá Sandi um harðindaárin 1880-1886 sem kom í Skírni 1938.
Guðmundi mundi eflaust láta sér fátt um finnast kveinstafi okkar núna yfir tíðinni.
Athugasemd: Fyrir utan það að þessi júní, sem fylgiskjalið nær nú utan um í heild, náði meðallaginu að hita í Reykjavík flýgur hann líka næstum því inn á miðjan topp tíu listann fyrir sólríkustu júnímánuði.
Ekki kæmi mér á óvart þó besti tími sumarsins sé nú að baki!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 2.7.2011 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.6.2011 | 18:26
Mali fjögurra ára í dag
Í dag er stjörnukötturinn Mali fjögurra ára.
Sú var tíðin að hann var alþekktur í bloggheimum og átti sér fjölmarga hysteríska aðdáendur í öllum heimshornum.
En upp á síðkastið hefur hann forðast sviðsljósið enda hefur hann fengið sig fullsaddan af frægðinni og þeim söguburði, rógi, öfund og illmælgi sem henni fylgir.
Þó Mali sé kominn af allra léttasta skeiði er hann þó enn feiknarlega grimmur og harðskeyttur og athyglin og einbeitnin alltaf jafn eiturskörp. Þetta sést glögglgega á efstu myndinni sem tekinn var fyrir örfáum dögum.
En Mali getur líka verið spakur og horft á heiminn úr sínum upphæðum.
Á velli er hann ætíð sperrtur og merkilegur með sig með sitt ótrúlega langa skott enda veit hann vel af verðleikum sínum.
Og enn er hann ekki kominn út úr skápnum. Það er alltaf hans uppáhaldsstaður.
Ef smellt er nokkrum sinnum á myndirnar verður afmæliskettið Mali larger than life
Mali | Breytt 26.6.2011 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.6.2011 | 00:53
Mikil dægursveifla
Hitinn í Reykjavík í þessum mánuði má nú heita kominn upp í meðallag. En ekki víst að hann hangi í því næstu daga. Nokkrir ágætir dagar með mikilli sól og hámarkshita upp á 15-16 stig hafa komið undanfarið og það gerist svo sannarlega ekki í hverjum júní. Hér í Reykjavík getum við ekki kvartað.
En annars staðar á landinu en suðvesturlandi er fremur kalt miðað við meðallag, meira að segja á suðurlandi og suðausturlandi. Og enn er hitinn vel undir tveimur stigum frá meðallagi fyrir norðan og jafnvel tiltölulega enn kaldara er á Vestfjörðum.
Aldrei er hlýtt loft yfir landinu en hitinn á suðurlandi hefur orðið furðu hár á daginn þegar sólin skín en næturkuldinn líka ansi mikill.
Á Þingvöllum fór hitinn í gær upp í 17,9 stig en í nótt féll hann niður í -1,8, en steig svo aftur í dag upp í 16,6 stig, dægursveifla upp á 19,7 stig, en annað eins gerist stundum snemma sumars á Þingvöllum. Bæði mesti og minnst hiti á landinu í dag í byggð var á Þingvöllum.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 28.6.2011 kl. 02:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.6.2011 | 15:46
Óþolandi Samtök ferðaþjónustunnar
Ekki legg ég dóm á það hvort stéttir sem tengjast flugi, en þær eru allnokkrar, séu hálaunastéttir eins og Samtök ferðaþjónustunnar hreyta út úr sér í þessari frétt. Hins vegar hafa þær verkfallsrétt. Hitt hefur ekki farið fram hjá mér að í hvert einasta skipti sem þær eiga í launadeilum og boða verkföll eru aðgerðir þeirra fordæmdar harkalega af Samtökum ferðaþjónustunnar.
Ekki beina samtökin tilmælum til beggja aðila sem eiga í vinnudeilum heldur er það venjan að þau ráðast gegn launafólkinu með skömmum og fordæmingu en segja aldrei styggðaryrði við flugfélögin.
Reyndar sýnist manni að Samtök ferðaþjónustunnar séu fyrst og fremst knúin áfram af græðgi og viðhorf þeirra til ferðamála og náttúrunnar sem koma fram við ýmis tækifæri eru með eindæmum lagkúruleg og peningaleg.
Samtök ferðaþjónustunnar eru gersamlega óþolandi.
Við þolum þetta ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2011 | 19:13
Góðviðri og maríutása
Í dag komst hitinn á landinu í fyrsta sinn í tuttugu stig í sumar. Á Þingvöllum fór hann í 21,7 stig en 20,2 í Hvalfirði og 19,6 á Hæli.
Í Reykjavík varð hitinn mestur 15,9 stig en tvisvar áður í mánuðinum hefur hann verið mjög svipaður, 15,7 stig þ. 12. og 15,9 stig þ. 15. og báða dagana var mikið sólskin. En meðalhitinn í dag verður mjög sennilega sá hæsti það sem af er í Reykjavík. Síðustu vikuna hefur reyndar verið ágætt sumarveður á suðvesturlandi.
Það er líka að skána fyrir norðan. Hitinn fór í dag a.m.k. yfir tíu stig þar sem best var.
Það var sumarlegt að vera úti í dag og ekki spillti að himininn var alveg óvenjulega fallegur. Hátt á lofti var maríutása sem sumir segja að séu allra skýja fegurst. Einnig voru vindskafin netjuský en neðar voru góðviðrisbólstrar.
Enda var sko góðviðri!
Viðbót kl. 19:30: Það er enn að hlýna í Reykjavík og hitinn var þar 16,6, stig á sjálfvirka mælinum kl. 19.
Veðurfar | Breytt 22.6.2011 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2011 | 14:19
Hitinn mjakast upp á við sunnanlands
Meðalhitinn í Reykjavík er nú kominn upp í 8,1 stig en það er 0,6 stig undir meðallagi. Hins vegar hefur hitinn frá þeim ellefta verið hvern dag yfir meðallagi en meðalhitinn fyrstu tíu dagana var 2,1 stig undir meðallagi. Hitinn hefur því vel sótt í sig veðrið á suðvesturlandi. Sömu sögu er ekki hægt að segja fyrir norðan en á Akureyri er hitinn eftir gærdaginn kringum 2,4 stig undir meðallagi og hver dagur eftir þann fjórða hefur verið vel undir meðallagi.
Ekki þarf langt að fara til að finna lægri meðalhita i Reykjavík fyrstu 17 dagana í júní. Hann var 8,0 stig árið 2001 og var þá þó ekkert kuldaskeið nema síður væri. Árið 1997 var hitinn hins vegar aðeins 7,0 stig og einnig 1986 og 1973.
Frá 1949 hefur verið kaldara en nú eða sami meðalhiti eftir 17. júní á þessum árum:
1949: 8,0
1952: 7,4
1956: 7,3
1959: 7,2
1970: 8,0
1973: 7,0
1975: 7,5
1977: 7,6
1978. 8,0
1983: 7,2
1986: 7,0
1992: 7,9
1994: 7,4
1997: 7,0
Heimurinn er sem sagt ekkert að farast.
Og hlýjast frá 1949:
2002: 12,1
1954: 10,9
2003: 10,8
2010: 10,8
Skylt er að geta þess að einmitt á sautjándanum 2002 fór mánuðurinn að koðna niður og endaði í 10,8 stigum. Sem er reyndar harla gott.
Fyrir 1949 má finna hlýjustu fyrstu 17 dagana í júní árin 1941 og 1934 en þá var hitinn svipaður og 1954 og 2003 en erfitt er enn sem komið er að finna út alveg nákvæmar meðaltalstölur fyrir dag hvern frá þessum árum. Þessar ályktanir hér um meðalhitann eru dregnar af meðaltali hámarks og lámarkshita.
Hvað eldgamlan kulda varðar hefur júní fyrstu 17 dagana árið 1885 varla skriðið mikið yfir 6 stig og júní 1882 og 1884 líklega verið undir 7 stigum
Við getum því verið þakklát fyrir að vera einmitt uppi núna.
Um hlýja og kalda júnímánuði í heild má lesa annars staðar hér á blogginu.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 19.6.2011 kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2011 | 19:08
Veðrið 17 júní 1811
Já, hyggjum nú að þjóðlegum dyggðum, ættjarðarást og vindgnauði aldanna!
Um það leyti sem Jón Sigurðsson fæddist gerðu danskir landmælingamenn veðurathuganir á Akureyri. Athugað var að morgni, um miðjan dag og að kvöldi, en ekki er vitað um klukkustundina nákvæmlega.
Daginn sem Jón Sigurðsson fæddist var suðlæg átt og fremur hlýtt í veðri. Hér sést tafla um veðrið á Akureyri á athugunartímum. Hitinn er í celsíusgráðum og loftþrýstingurinn í hektópaskölum eða millibörum. Þurrt var.
Hiti Loftvægi Átt
Morgun 11,0 1005 Suðsuðvestan
Miðdegi 14,8 1005 Suðsuðvestan
Kvöld 2,3 1008 Logn
Svo er fylgiskjalið enn að forvitnast um veðrið á okkar tímum.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 18.6.2011 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.6.2011 | 01:09
Hugsa fyrst - gjamma svo!
Í dag var lang besti dagurinn á suðurlandi það sem af er sumars. Hitinn komst í 15,7 stig í Reykjavík og notalegt var að ganga úti í kvöld í fyrsta sinn. Meðalhitinn var fyrir ofan meðallag eins og í gær en það gildir ekki enn um aðra landshluta en suður og suðvesturland. Annars staðar er áfram kalt þó gærdagurinn hafi sums staðar verið sæmilegur.
Í dag komst hitinn á Árnesi í 18,8 stig sem er lúxus miðað við það sem verið hefur.
Eftir spám að dæma virðist sem lítið breytist næstu daga, sumarið verði aðallega sunnanlands.
Það má því spyrja hvort enn sé nokkuð sumar komið.
Svo langar mig líka til að spyrja hvort vit sé í því, eins og menn eru nú sumir að gera hvergi bangnir, að tengja hvarf sandsíla og hrun sjófuglastofna við hlýindi síðustu ára. Ég veit ekki betur en ástæður þessa séu óþekktar.
Ekkert svona gerðist þegar hlýnaði mjög hratt á þriðja áratug 20. aldar og þá stóðu hlýindin í 40 ár þó toppurinn hafi verið á fjórða áratugnum.
Menn mega nú alveg hugsa ofurlítið áður en þeir fara að gjamma.
Bloggar | Breytt 18.6.2011 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.6.2011 | 13:48
Fjöldadauði
Það deyr sprautufíkill á þriggja vikna fresti.
Þættirnir í Kastljósi um læknadóp" vöktu athygli og hafa vafið nokkuð upp á sig. Ekki er þess að vænta að nein slík umfjöllun fari fram án þess að um hana verði skiptar skoðanir. Engin umræða er það eina sem ekki mun valda neinum deilum. Og sumir vilja kannski helst hafa engar umræður.
Ýmsar staðreyndir um notkun á rítalíni, sem er einna mest notaða læknadópið',' eru sláandi.
Þeim sem taka lyf í þeim lyfjaflokki sem rítalín tilheyrir fjölgaði um næstum því um helming frá árinu 2006 til 2010 en á sama tíma fjölgaði ávísunum á þessi lyf um 70%. Níutíu prósent sprautufíkla sem voru í meðferð hjá SÁA í fyrra höfðu sprautað sig með þessum lyfjum og segja sjúklingsarnir að fíknin í það sé sterkari en í flest önnur vímuefni. Þetta er lyfið sem þeir nota mest eða næst mest. Eftir að hömlum á ávísun lækna á þessi lyf var létt hefur sala þeirra aukist stórkostlega. Nú er svo komið neysla þeirra hefur unnið upp þá minnkun sem orðið hefur á neyslu á kókaíni og e-pillum. Þessi lyf eru sem sagt líka ógurleg fíkniefni og eru orðin hættulegustu lyfin sem sprautufíklar nota.
Einn þeirra deyr á þriggja vikna fresti. Flest fólk í blóma lífsins.
Frétt um þetta kom nýlega í sjónvarpinu. Hún hefur ekki vakið minnstu viðbrögð og alls engar umræður hafa orðið um hana. Miklar og heitar umræður hafa hins vegar orðið um það að í Kastljósi voru birt nöfn þeirra lækna sem mestu hafa ávísað af þessum lyfjum.
Ef mönnum er einhver alvara með það að binda enda á þennan fjöldadauða sprautufíkla er alveg óhjákvæmilegt að gefa þeirri staðreynd gaum að öll koma þessi lyf upphaflega frá læknum. Þeim er ekki smyglað til landsins. Einn læknir hefur ávísað einum fjórða af öllu því rítalíni sem ávísað hefur verið til fullorðinna. Og miðað við þær staðreyndir sem komið hafa fram um aukningu þessara lyfja og að þau eru orðin helsta fíkniefnið er það varla nein goðgá þó menn álykti að hugsanlega megi læknar gæta vel að sér í þessu sambandi. Þeir séu hluti af þessum banvæna vanda. Formaður Læknafélags Íslands sagði reyndar í Kastljósi um daginn eitthvað á þá leið að þeir sem ávísa mest af þessum lyfjum verði að sýna fram á það að allt það athæfi sé byggt á traustum læknisfræðilegum grunni og bættri reyndar við að engar sannanir væru fyrir því að ritalín kæmi fullorðnum að gagni sem haldnir væru ofvirkni með athyglisbresti. Hún var sem sagt með alvarlegan efa og hann hlýtur að kvikna upp í huga hvers manns, sem lætur sig málefni fólks í fíkniefnavanda einhverju skipta, ef hann beitir sjálfan sig hreinlega ekki andlegu ofbeldi.
En nú er ekki lengur á þessa ábendingu formanns Læknafélagins minnst. Enginn talar um að skýra verði með rökum þessa gífurlegu notkun á lyfi sem er að deyða fólk í stórum stíl. Nú er bara verið að slá því föstu í blaðagrein eftir blaðagrein að alls ekkert sé athugavert við allar þessa lyfjaávísanir. Þær séu allar með tölu byggðar á réttlætanlegum læknisfræðilegum grunni. Þetta er ekki orðað alveg svona en þannig er tóninn.
Komið hefur fram í fréttum frá SÁÁ að fyrir enga muni eigi að ávísa þessum lyfjum til fíkla. En það hefur líka komið mjög skýrt fram frá SÁÁ að geðlæknar leita næstum því aldrei eftir upplýsingum frá meðferðarstofnunum um þá sjúklinga sem þeir eru að ávísa þessum lyfjum til. Eru það öfgar eða ærumeiðandi aðdróttanir að álykta að slíkt sé óafsakanlegt hirðuleysi og kæruleysi um líf samborgaranna í ljósi þess að einn sprautufíkill deyr á þriggja vikna fresti og þeirra uppáhaldslyf eru einmitt rítalín og skyld lyf?
Er virkilega hægt að yppta bara öxlum yfir þessu eins og ekkert sé?
Líta verður á nafnbirtingu Kastljóss á læknum og einnig afdráttarlausar vangaveltur formanns SÁÁ um gagnsleysi rítalíns til lækninga á ofvirkni á fullorðnum (sama hugsun og hjá formanni Læknafélagsins), sem hugsanlega standast ekki í öllum smáatriðum, sem ábendingu um það að ef menn vilja í alvöru leysa þann vanda sem getur fylgt notkun rítalíns sem fíkniefnis sé nauðsynlegt að beina athyglinni undabragðalaust að þætti lækna í ávísun þessara lyfja.
En hvað gerist? Reynt er að kveða alla þessa umræðu harðlega í kútinn með því að kalla hana nornaveiðar, mannorðsmorð, fordóma og árás á sjúklinga. Allt reyndar mjög gamalkunnug viðbrögð.
Það sem er núna að gerast er einfaldlega þetta: Þrátt fyrir það að allt það rítalín sem er í umferð sé frá læknum komið er verið að byggja upp rammgerðan varnarmúr utan um læknaheiminn, bæði í heild og þá einstaklinga sem nefndir hafa verið, og nánast staðhæft að þar sé alls ekkert misjafn eða athugunarvert, allt sé í sjaldgæfum sóma, þar sé orsaka vandans á engan hátt að leita. Sá læknir sem mest hefur ávísað af því lyfi sem fíklar eru að deyja út af, meira ein einn í mánuði hverjum, er jafnvel sleginn til riddara og kallaður frumkvöðull. Leiðari Morgunblaðsins krefst þess að Kastljós biðjist afsökunar á því að hafa birt nafnalistann yfir þá lækna sem mest hafa ávísað á lyfin. Enginn leiðari er skrifaður um þá æpandi staðreynd á einn fíkill deyr á þriggja vikna fresti og flestir þeirra eða allir hafa notað læknadóp". Vel á minnst það má ekki kalla þetta dauðalyf læknadóp" þó það sé eingöngu frá læknum komið því það er víst dónaleg móðgun við sjúklinga.
Jafnframt þessu er verið að búa til þá mynd af orsök þessa vanda og öllu eðli hans og umfangi að hans sé eingöngu að leita í heimi fíkla í undirheimunum. Átakanlegasti vitnisburður um þetta er ályktun stjórnar ADHD sem segir þetta nánast berum orðum. Fíklar iðka það vissulega að ganga frá lækni til læknis til að láta þá skrifa upp á fyrir sig. En þegar læknar trassa það algjörlega að tékka á sögu þessara sjúklinga eins og SÁÁ staðhæfir er ekki hægt að kenna fíklum eingöngu um þetta. Læknarnir eiga líka hlut að máli.
En það er einmitt í gangi feiknarleg og krampakennd afneitun á því að læknar eigi nokkurn minnsta hlut í þeim fjöldadauða sem nú geisar meðal fíkla. Þess í stað er öll áhersla á það lög að glæpavæða vandann, láta sem hann sé ekkert annað en sé undirheimassukk og spilling og tengist ekki á neinn hátt hinni virðulegu og valdamiklu læknastétt.
Ef þetta sjónarmið verður ofan á, með hjálp ofurþunga læknastéttarinnar, sjúklingafélaga og sumra fjölmiðla, er enginn von til þess að sporna megi við þeim hryllingi og dauða sem er fylgifiskur fíkniefna sem er sprautað í æð og hefur verið kallað læknadóp."
Og á meðan menn iðka þessi ómerkilegu undanbrögð fellur einhver ung manneskja í valinn á þriggja vikna fresti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2011 | 13:06
Slæðingur af minniháttar kuldametum
Í nótt voru næturfrost mjög víða um land. Mest var það í byggð -5,6 stig á Reykjum í Fnjóskadal en á reginfjöllum -9,1 á Brúarjökli.
Nokkuð er í dagsmetið í byggð en aldrei hefur reyndar mælst meira frost þennan dag á reginfjöllum. En það segir kannski ekki mikið því mælingar á þeim hafa ekki staðið nema í nokkur ár og met á þeim eru því ekki góður mælikvarði á styrkleika kuldans miðað við fyrri tíð, jafnvel þegar þaðan koma lægri tölur en nokkru sinni hafa mælst á veðurstöð yfirleitt. En hvað hefðu þær sýnt í kuldaköstum fyrri ára?
Þrjú mánaðarkuldamet á láglendi fyrir júní voru reyndar sett í nótt en ekki á stöðvum sem ýkja lengi hafa athugað. Þessi met verða því að teljast minniháttar.
Í Stafholtsey mældust -3,6 stig en gamla metið var -3,1 stig frá þeim öðrum árið 2000. Mælingar frá 1988. Sjálfvirka stöðin á Hvanneyri átti nokkuð í það í nótt að mæla eins mikið frost eins og mannaða stöðin þar mældi í langri en nokkuð slitróttri mælingasögu, -3,7 stig þ. 11. 1973 í einhverju mesta kuldakasti eftir árstíma sem komið hefur. Á Húsafelli mældist frostið í nótt -4,3 stig.
Á Hjarðarlandi í Biskupstungum mældust -3,5 stig en gamla metið var -2,7 þ. 3. 2000. Mælt frá 1990.
Á Torfum inni í Eyjafjarðardal mældust -5,5 stig en þar höfðu áður mælst mest í júní -4,8 stig þ. 3. árið 2000. Mælingar í júní frá 1998.
Á stöðvum sem athugað hafa áratugum saman hafa engin kuldamet komið. Það er kalt þessa daga en ekki alveg eins og kaldast hefur orðið um þetta leyti, t.d. árin 1975 og 1973. Það leiðinlega við þetta kuldakast er það að slík hafa ekki verið að sumarlagi í háa herrans tíð og ekki hefur komið verulega kaldur sumarmánður yfir landið síðan júní 1997.
Ekki hafa skeyti komið frá Staðarhóli það sem af er júní en hann er alveg trúanlegur til að hafa sett kuldamet en þar hefur verið mælt síðan 1961. Það er segin saga að ef mælingar á stöð falla niður gerast stórtíðindi sem þar með verða án skráningar. En ætli sé nokkuð búið að leggja Staðarhól niður sem mannaða veðurstöð?
Þær eru nú óðum að týna tölunni.
Á Suðurlandsundirlendi var frost út um alllt, mest -4,4, stig í Þykkvbæ og -4,9 á sjálfvirku stöðinni á Hjarðarlandi en -3,5 á kvikasilfursmælinum. Mismunurinn sýnir vel að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á hvort um raunverulegt hita- eða kuldamet er að ræða á stöðvum sem voru lengst af mannaðar en eru nú orðnar sjálfvirkar og þær eru ansi margar.
Ekki mældist í nótt frost í Reykjavík en hins vegar í Straumsvík og á Hólmsheiði og jafnvel á Skrauthólum á Kjalarnesi.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 12.6.2011 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006