Færsluflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir
22.8.2011 | 21:29
Hlýjustu ágústmánuðir
Meðalhiti stöðvanna níu sem miðað er við var 9,5 stig árin 1961-1990.
2003 (12,20) Þetta er ekki aðeins hlýjasti ágústmánuður sem mælst hefur á landinu í heild heldur blátt áfram hlýjasti mánuður allra mánaða ársins síðan áreiðanlegar mælingar hófust. Hann er jafnframt hlýjasti ágúst sem komið hefur alls staðar á landinu nema víða á svæðinu frá Eyjafirði til Seyðisfjarðar. Auk þess er hann hlýjasti mánuður sem yfirleitt hefur mælst á svæðinu frá Borgarfirði norður og austur um til Skagafjarðar nema sums staðar á Vestfjörðum og hann var líka allra mánaða hlýjastur í Vestmannaeyjum og í Mýrdal. Meðalhitinn var 3,5 stig fyrir ofan meðallagið 1961-1990 á Mývatnssvæðinu og í A-Húnavatnssýslu en 2-3 stig annars staðar. Í Vík í Mýrdal var meðalhitinn 13,2 stig og sama á Írafossi en þetta voru hlýjustu staðirnir. Á landsvísu voru allir dagar mánaðarins yfir meðallagi og líka í Reykjavík út af fyrir sig. Þar hefur aldrei mælst meiri meðalhiti í ágúst síðan mælingar urðu sæmilega góðar. Meðaltal lágmarkshita var þar 10,4 stig og hefur aldrei verið hærra. Á Vatnsskarðshólum í Mýrdal var þetta meðaltal 10,8 stig. Það sýnir hlýindin að fyrstu 6 dagana og síðustu 9 dagana, auk nokkurra annarra daga, fór hitinn aldrei niður fyrir 10 stig allan sólarhringinn í borginni.
Sunnanátt var algengust en þó ekki af drungalegasta tagi. Sólskin mátti heita í meðallagi í Reykjavík en örlítið yfir því á Akureyri. Sólríkast var hins vegar við Mývatn og á miðhálendinu. Úrkoma var víðast hvar í minna lagi en náði þó meðallagi á Reykjanesi, við Mývatn, á Hornafirði og stöku öðrum stöðum. Hiti var í hærra lagi allan mánuðinn en þó komu engar raunverulegar hitabylgjur. Mesti hiti sem mældist á landinu var ekki óskaplega mikill miðað við hvað mánuðurinn var hlýr, 24,6 stig á mönnuðu stöðinni á Raufarhöfn og þeirri sjálfvirku á Húsavík þ. 9. Að morgni þessa sama dags mældist mest sólarhringsúrkoma í mánuðinum, 58,3 mm á Snæbýli í Skaftártungu. Í Reykjavík komst hitinn í 20,0 stig þ. 1. Í Álftaverinu mældist mesti hiti sem þá hafði mælst þar í ágúst frá 1959, 23,6 stig þ. 25. á Norðuhjáleigu. Þennan dag var meðalhitinn á Kirkjubæjarklaustri 17,2 stig sem er með því mesta sem gerist á Íslandi svo seint á sumri. Þrátt fyrir hlýindin mældust næturfrost á sex stöðvum í byggð í mánuðinum. Kortið sýnir frávik þykktar upp í 500 hPa flötin miðað við árin 1981-2100. Því meiri sem þessi þykkt er því hlýrra er loftið í sínu eðli en að jafnaði liggur 5450 m þykktarlínan yfir miðju landsins í ágúst.Kortin stækka ef smellt er á þau.
Herra Idi Amin, fyrrverandi snarbrjálaður einræðisherra Uganda, geispaði golunni um miðjan mánuðinn.
Meðalhiti á veðurstöðvum í þessum hlýjasta mánuði mælingaögunnar.
Næst hlýjasti ágúst var svo árið eftir, 2004 (11,77). Það sem mestu olli um það var fádæma hitabylgja dagana 9.-14. Þá kom hitamet í Reykjavík, 24,8 stig þ. 11. sem slegið var í júlí 2008. Meðalhitinn í Reykjavík þennan dag var 20,1 og er það í eini dagurinn síðan mælingar hófust að sólarhringsmeðaltalið þar nær 20 stigum. Kortið sýnir hlýju hæðina í háloftunum sem var yfir landinu þessa daga. En þ. 11. voru teknar tunglmyndir af landinu sem oft hafa birst hér og hvar. Fjóra daga í röð fór hitinn í Reykjavík (og víðar á vesturlandi) í 20 stig eða meira og er það met. Á sjálfvirka mælinum á Egilsstaðaflugvelli fór hitinn í 29,2 stig þ. 11. en daginn áður í 29,1 í Skaftafelli í Öræfum en hlýjast á mannaðri stöð varð 28,5 stig á Hjarðarlandi þ. 10. Meðaltal hámarkshita á Staðarhóli í Aðaldal í mánuðinum var 18,5 stig og 18,4 á Torfum í Eyjafirði og gerist varla hærra á Íslandi en þess ber að gæta að þessar tölur fást þegar skipt er milli sólarhringa kl. 18 sem þýðir að mikil hlýindi á þeim tíma einn daginn er skráður sem hámarkshiti næsta dag þó miklu kaldari sé. Úrkoman var rétt undir meðallagi á öllu landinu en þó yfir því á suðausturlandi. Óvenjulega sólríkt var og á Akureyri er þetta sólríkasti ágúst sem þar hefur mælst, 209 klukkustundir, en sólríkara varð þó í Reykjavík, 248 stundir og þar er þetta fjórði sólríkasti ágúst og sá sólarmesti síðan 1960. Seinni helmingur mánaðarins var talsvert svalari en fyrri hlutinn og ekkert sérstakur, en fyrri hlutinn var svo hlýr að hann tryggði mánuðinum silfrið meðal ágústmánaða.
Í síðustu vikunni kom Bill Clinton til landsins og fékk sér eina pulsu með öllu. James Brown hélt tónleika í Reykjavík. Klassíski stórsöngvarinn Gerard Souzay lést þ. 17. og daginn eftir tónskáldið og tónlistarvinurinn Gylfi Þ. Gíslason.
Bronsið hlýtur sá sögufrægi ágúst 1880 (11,76) sem var hluti af undrasumrinu mikla 1880, langhlýjasta sumri á Íslandi frá því sæmilega áreiðanlegar mælingar hófust og þar til fór verulega að hlýna á tuttugustu öld. Þetta var hægviðrasamur ágústmánuður og úrkoma ekki langt frá núverandi meðallagi en var þó umkvörtunarefni sunnanlands og vestan. Mánuðurinn skartar svo hlýjasta mánuði sem nokkru sinni hefur mælst á íslenskri veðurstöð, 13,97 stigum á Valþjófsstað. Ef sá hiti yrði hér settur í stað Akureyrar, sem mældi ekki þetta ár, myndi þessi ágúst verða sá næst hlýjasti. Þetta minnir reyndar á að röð hlýjustu mánaðana er langt í frá einhlít. Á seinni áratugum eru veðurstöðvar til dæmis miklu fleiri en þær 9 sem hér er miðað við og yrði innbyrðis röð mánaðana kannski eitthvað öðruvísi síðustu áratugina ef fleiri veðurstöðvar væru undir heldur en þessar 9 sem lengst hafa starfað. Mjög úrkomusamt var sunnan-lands og vestan þegar fór að líða á mánuðinn og síðustu vikuna rigndi eiginlega alveg stöðugt sums staðar. Mjög hlýtt var þó og í Stykkishólmi má t.d. segja að hiti hafi varla farið niður fyrir tíu stig allan sólarhringinn dagana 16.-27. Lágmarkshiti var líka alloft yfir tíu stigum í Grímsey, t.d. 25.-29. Þann 25. komst hitinn þar í 19,4 stig en 17,4 í Stykkishólmi. Mestur hiti sem mældist á þessum fáu veðurstöðvum sem mældu hámark var 20,4 á Eyrarbakka en áreiðanlega hefur hitinn á landinu komist einhvers staðar hærra. Kortið sýnir hæð 1000 hPa flatarins við sjávarmáli eða með öðrum orðum loftþýstinginn. Hæð var oft yfir Bretlandseyjum í þessum mánuði en lægðir vestur af landinu. Jónas Jónassen lýsti þessum ágústmánuði svo í Þjóðólfi 11. september 1880:
Fyrstu viku mánaðarins var optast logn og bjart veður en úr því hefir verið mesta óþurkatíð, því síðan 7. þ. m. hefir ýmist verið landsunnanátt eða útsynningur með mikilli úrkomu, stundum mátt heita ofsaveður með aftaka rigningu t. d. 27.
Hér er ágúst 1939 (11,39) sá fjórði í röðinni og hann var hluti af hlýjasta sumri (júní-sept.) sem stöðvarnar 9 hafa mælt. Hann var hins vegar sá úrkomusamasti sem mælst hefur í Reykjavík, 164,8 mm. Á Hólum í Hornafirði hefur heldur aldrei rignt meira í ágúst, 242,1 mm og í Grímsnesinu var úrkoman líka með allra mesta móti. Í Stykkishólmi er þetta níundi úrkomusamasti ágúst, frá 1857. Út frá þeimi fáu stöðvum sem ég miða úrkomu lauslega við hafa ágúst árin 1884 og 1981 aðeins verið úrkomusamari á landinu en 1969 var svipaður. Það var sem sagt mjög úrkomusamt, einkum sunnanlands- og vestan, en á norður og austurlandi voru góðir þurrkar og ágæt heyskapartíð. Þrátt fyrir þetta voru sólskinsstundir 5 klukkustundum fleiri í Reykjavík en á Akureyri. Það rigndi líka talsvert fyrir norðan suma daga en stórrigningar gerði á suðurlandi á síðasta þriðjungi mánaðarins. Og reyndar víðar! Á Horni í Hornvík mældist sólarhringsúrkoman 106 mm að morgni þ. 25. sem þá var næst mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hafði á landinu í ágúst. Tiltölulega hlýjast varð næst síðasta og síðasta daginn en þá komst hitinn í Reykjavík í 21,4 stig sem var mesti hiti sem mældist þar í ágúst alla tuttugustu öldina og fram til 2004. Þennan dag var víða um og yfir 20 stiga hiti á suðvesturlandi. Sterkari hitabylgju gerði þó fyrir norðan og austan dagana 2.-4. en þá komst hitinn í 27,1 stig á Sandi í Aðaldal og 27,0 á Hallormsstað. Í þessum mánuði voru oft lægðir vestan við landið en hæðarsvæði var yfir Rússlandi. Eftir þessum ágúst kom svo næst hlýjasti eða hlýjasti september sem mælst hefur á landinu.
Seint í mánuðinum undirrituðu Hitler og Stalín hinn illlræmda griðasáttmála milli Þýskalands og Sovétríkjanna.
1947 (11,20) Þessi mánuður er víða hlýjasti ágúst sem mælst hefur á svæðinu frá Eyjafirði til Seyðisfjarðar en þó ekki við Mývatn og á Hólsfjöllum. Fyrir norðan og austan ver enda talin einmuna tíð. Á Akureyri hefur aldrei orðið jafn hlýtt í ágúst, 13,2 stig og sömu sögu er að segja um Sand í Aðaldal og síðast en ekki síst Húsavík þar sem meðalhitinn var 13,9 stig sem er mesti meðalhiti á nokkurri veðurstöð á landinu í nokkrum mánuði fyrir utan Valþjófsstað í ágúst 1880. Meðaltal lágmarkshita á Akureyri var 10,0 stig og hefur aldrei verið jafn hátt í ágúst. Þetta var mikill rigningarmánuður á suðurlandi og vesturlandi en tiltölulega var þó votast á sunnanverðum Vestfjörðum. Úrkomumagnið var að vísu víða minna en 1939 en úrkomudagar aftur á móti fleiri og í Reykjavík hafa þeir aldrei verið fleiri í ágúst, 27. Þetta var einnig sólarminnsti ágúst í Reykjavík sem þá hafði verið mældur en það met var slegið 1983 og er þetta því næst sólarminnsti ágúst í höfuðborginni. Hann lá í sunnan og suðvestanáttum svo að segja allan mánuðinn og fremur var vindasamt miðað við árstíma. Hitinn gerði aldrei neinar rósir sunnanlands en á norður og austurlandi voru miklir hitar fyrir og um þ. 25. Komst hitinn í 27,2 stig á Sandi og 25,0 á Hallormsstað þ. 22. Veðurlag var ekki ósvipað og 1939, lægðafar vestan við land en hæðin var yfir Bretlandseyjum og þar í grennd, mun vestar en 1939. Líkindi eru með öllum hlýju ágústmánuðunum 1880, 1939 og 1947.
Um miðjan mánuð varð Indland sjálfstætt ríki og Pakistan varð til. Í mánaðarlok var gjaldeyrisvaraforði Íslendinga uppurinn.
2010 (11,06) Þetta er sjötti hlýjasti ágúst. Hæstur var meðalhitinn á Garðskagavita 12,3 stig en lægstur 3,0 stig á Brúarjökli. Fyrstu 19 dagarnir voru allir yfir meðallagi í Reykjavík og hámarkshiti fór í 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu alla dagana nema þrjá. Hlýjast varð 23,0 stig þ. 12. í Skaftafelli en á mannaðri stöð 21,8 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þ. 15. Þann 20. kólnaði all nokkuð þó engir sérstakir kuldar væru. Kaldast varð í Möðrudal, -3,7 þ. 29. og sama daga mældist minnsti hiti á mannaðri stöð, -3,0 stig á Staðarhóli í Aðaladal. Síðustu dagana hlýnaði á ný og var það upphafði á óvenjulegri hitabylgju sem varð mest í september en sá mánuður krækti reyndar í fimmta sætið yfir hlýjustu septembermánuði. Mjög þurrt var um vestanvert landið svo til vandræða horfði sums staðar með vatn. Nokkuð sólríkt var í Reykjavík en fremur sólarlítið á Akureyri.
Mánuðurnir júní til ágúst hafa aldrei verið jafn hlýir og þetta ár í Reykajvík frá upphafi sæmilega traustra mælinga.
Í ágúst 1931 (11,04) var tíð talin mjög góð og hagstæð til lands og sjávar, hlýtt lengst af og góðir þurrkar. Á Kirkjubæjarklaustri var þetta annar hlýjasti ágúst sem þar hefur mælst, 12,3 stig (hlýjast 13,0, 2003) enda var vindurinn oft vestanstæður. Mánuðurinn var líka vel sólríkur, bæði fyrir sunnan og norðan. Í Reykjavík var einstök sólskinstíð dagana 8.-23. Þessi ágúst var líka mjög þurr, einkum á austurlandi. Úrkomudagar voru næstum því alls staðar færri en 15 og víða undir 10. Á Akureyri rigndi einn dag. Dagana 11.-16. var talið óslitið góðviðri og hitabylgja var 12.-14. með 24-26 stiga hita víða. Á Hlíð í Hrunamannahreppi mældist hitinn 26,0 þ. 14. og var það mesti hiti sem mældist í ágúst á suðurlandsundirlendi allt fram í ágúst 2004. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa fletinum meðan hitabygljan stóð einna hæst. Hlýtt loft úr suðaustri var yfir landinu. Heildarstaðan í mánuðinum var ekki mjög ósvipuð en auðvitað ekki eins sterk í hlýindunum en áttirnar vor oft austlægar eða suðaustlægar.
Fyrstu dagana tefldi Aljekín heimeistari í skák fjöltefli í Reykjavík.
2006 (10,79) Bæði í Reykjavík og á Aureyri var sólskin nærri meðallagi. Úrkoman var það líka í Reykjavík en hún var heldur meiri en í meðallagi á Akureyri. Mjög hlýtt var fyrstu dagana og fór hitinn í 24,7 stig í Ásbyrgi þ. 3. og 24,4 stig daginn eftir á Húsavík. Hlýtt var einnig upp úr miðjum mánuði þegar hitinn fór í 23,5 stig á Reykjum í Fnjóskadal þ. 18. og daginn eftir í 23,3 stig á Hallormsstað. Meðaltal hámarkshita á landinu var 20,1 stig sem telst ansi gott. Næturfrost komu þó í mánuðinum, mest -1,5 stig á Torfum þ. 16.
Í síðustu vikunni slapp austuríska stúlkan Natascha Kampusch úr haldi eftir átta ára vist í haldi mannræningja. Öðlaðist hún heimsfræg eftir lausnina.
1978 (10,71) Þessi hlýi ágúst kom eiginlega eins og skrattinn úr sauðarleggnum á árum kaldra sumarmánaða. Hann krækir í níunda sæti yfir hlýjustu ágústmánuði út frá stöðvunum níu sem hér er alltaf miðað við. Veður voru stillt en þungbúin og fremur úrkomusamt var á suður og vesturlandi. Einna minnst hlýtt að tiltölu, fyrir utan austurströndina, var kringum Reykjavík. Þar sást lítið til sólar og þó milt væri vantaði almennilega hlýja daga. Á norður og austurlandi komu hins vegar nokkrar góðar hlýindagusur. Mjög hlýtt var fyrstu dagana og fór þá hiti víða í um og yfir tuttugu stig fyrir norðan, mest 25, 7 stig þ. 2. á Barkarstöðum í Miðfirði og er þetta reyndar mesti hiti sem nokkurn tíma hefur mælst í þeirri sveit. Dagana 11.og 12. kom önnur hlýindaskorpa og mældist seinni daginn 23,8 stig á Akureyri en þessi hlýindi náðu ekki almennilega austur á land. Loks var mjög hlýtt dagana 18.-20. og komu þau hlýindi við í Skaftafellssýslum og fór hitinn þ. 18. í 22,5 stig á Mýrum í Álftaveri. Nokkuð kólnaði síðustu dagana og þ. 25. mældist frostið -1,4 stig á Vöglum í Fnjóskadal. Úrkoman var undir meðallagi en á vesturlandi, frá Borgarfirði til Barðastrandar var hún í meira lagi og einnig á Fljótsdalshéraði og við suðurströndina. Kortið sýnir hlýja tungu yfir landinu í 500 hPa fletinum þar sem sem frostið í ágúst er yfirleitt um 19-20 stig.
2008 (10,71) Þessi mánuður, sem kom á eftir fimmta hlýjasta júlí, er í tíunda sæti. Hlýjast var fyrsta daginn, 24,3 stig á Þyrli í Hvalfirði, en sama dag mældist mesti hiti á mannaðri stöð, 23,8 stig á Torfum í Eyjafirði. Í Reykjavík mældist hitinn 23,6 stig þ. 1. en sólarhringsmeðaltalið var 17,5 stig og var þetta framhald hitabygjunnar miklu sem kom í júlílok. Kaldast var -3,2 stig á Brú á Jökuldal þ. 10. en á mannaðri stöð -0,5 stig þ. 12 á Torfum. Sólskin var í kringum meðallag í Reykjavík en í rösku meðallagi á Akureyri. Þar var líka óvenjulega þurrt en nokkuð vott syðra.
Rússneska nóbelskáldið Alexander Solsjenítsín dó. þ. 3. en á ólympíuleikunum í Peking hlutu Íslendingar silfrið í handbolta undir lok mánaðarins. - Hrunið lúrði svo handan við hornið.
Nú verður lauslega vikið að næstu tíu hlýjustu mánuðum. Umsögnin verður þó stundum næsta snautleg og aðeins er svo sem bara verið að minnna á þessa mánuði.
Árið 1945 (10,83) naut ágúst sín einkar vel inn til landsins fyrir norðan og austan eins og júlí sama ár og var þar tiltölulega hlýjast. Þetta er hlýjasti ágúst sem mælst hefur á Hólsfjöllum og hlýrri en 2003. Á suður-og vesturlandi var hins vegar úrkomusamt, einkum á suðausturlandi. Þurrast var á austurlandi. Fádæma rigningar voru á suðurlandi dagana 12.-14. með allt að 78 mm sólarhringsúrkomu þ. 12. á Ljósafossi. Olli þetta flóði í ám og flæddu Varmá í Ölfusi og Norðurá í Borgarfirði yfir bakka sína. Í Reykjavík var mjög þungbúið og er þetta þar sjötti sólarminnsti ágúst, en fyrir norðan var sæmilega sólríkt og meira sólskin en 1947. Þetta var tíundi úrkomusamasti ágúst í Reykjavík. Hlýjast varð á Hallormsstað 24,5 þ. 6., daginn sem kjarnorkusprengjunni var varpað á Hírosíma. Kaldast var -1,1 stig á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði þ. 30. Kortið sýnir mánaðarhitann í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð sem að jafnaði er 2-3 stig í ágúst.
1932 (10,64) Á suður- og vesturlandi gengu rigningar í þessum ágúst. Það rigndi líka mikið norðanlands nema vestan til en þurrara var á austurlandi. Tíðin var þó alls staðar hlý og hægviðrasöm. Meðalhiti var óvenjulega jafn um land allt. En mestur hámarkshiti varð á Eiðum 23,8 stig þ. 23. en minnstur -2,2 stig á Grímsstöðum þ. 20. Hollenskir vísindamenn komu til landsins í þessum mánuði til þess að rannsaka veðurfar.
1899 (10,64) Votviðrasamur mánuður víðast hvar og versnaði er á leið. Á Eyrarbakka var úrkoman 218 mm sem er með mesta móti. Í Reykjavík er þetta fjórði úrkomusamasti ágúst. Möðrudalur krækti í mesta hitann, 24,8 stig en Holt í Önundarfirði tók til sín mesta kuldann, - 1,9 stig.
Í ágúst 1991 féll 18 mm úrkoma Reykjavík milli klukkan 21.30 og 22.30 þ. 16. og varð miljónatjón af völdum vatnselgs. Þessi annars ágæti mánuður var svo auðvitað beint framhald af hinum sögufræga júlí 1991. Hlýjast varð í Reykjahlíð 26,8 stig þ. 3. Það var á laugardeginum um verslunarmannahelgina og er þetta mesti hiti sem mælst hefur á veðurstöð á nokkrum degi um veslunarmannahelgi frá því a.m.k. um miðja tuttugustu öld. Kaldast á landinu varð -2,1 á Brú þ. 24.
Harðlínumenn í Rússlandi gerðu misheppnaða valdaránstilraun þ. 17. og seint í mánuðinum viðurkenndu Íslendingar sjálfstæði Esystrasaltsríkjanna. Enginn annar en Pele, knattspyrnumaðurinn heimsfrægi, kom til landsins í fyrstu vikunnu.
1953 (10,58) Fremur hægviðrasamt og líka nokkuð úrkomusamt, einkum á austurlandi. Hlýjast var á Raufarhöfn 21,2 þ. 3. en kaldast -0,4 stig á Þingvöllum þ.19.
Friðrik Ólafsson varð norðurlandameistari í skák og Elly Vilhjálms söngkona kom fyrst fram opinberlega.
1969 (10,53) Þessi mánuður er sá 16. hlýjasti ágúst á landinu í heild. Hann var þó talinn mjög óhagstæður vegna mikilla votvirða á miklu rigningarsumri um allt land. Hann var svipaður ágúst 1939 að þessu leyti en sá mánuður var þó talsvert hlýrri. Í þessum ágúst 1969 mældist mesta úrkoma í ágústmánuði á veðurstöð, 552,6 mm á Kvískerjum í Öræfum. Í Stykkishomi er þetta áttundi úrkomusamasti ágúst, frá 1857. En í þessum mánuði mældist mesti hiti sem kom í Reykjavík á svölu sumrunum 1961-1975, 19,9, stig þ. 5. En mesti hiti á landinu varð 22,5 stig þ. 10. á Akureyri en kaldast -1,5 stig á Dratthalastöðum á Úthéraði þ. 22.
Woodstockhátíðin fór fram þ. 17. og skömmu síðar komu breskir hermenn til Norður-Írlands þar sem róstursamt var næstu árin.
Í að öðru leyti hægviðrasömum ágúst árið 1933 (10,53) gerði sunnan stórviðri vestanlands þ. 27. með mikilli úrkomu. Þá fórst bátur með fimm mönnum á leiðinni frá Hrísey til Ísafjarðar. Hlýjast varð á Kollsá 21,4 stig þ. 4. og 5. og þar varð einnig kaldast, 0,1 stig þ. 17. Sumarið 1933 er hið hlýjasta sem komið hefur á norðurlandi og þess var getið í sumarlok að þá hafi ýmsar fannir horfið úr fjöllum sem ekki höfðu áður horfið í manna minnum. Hér má taka fram að í sumum heimildum er sagt að þ. 11. hafi hitinn mælst 58 stig í San Luis Potosi í Mexikó og sé það heimsmet en ekki mun það þó vera viðurkennt almennt sem hitamet á jörðunni. Öll þau met sem gera tilkall til þess að vera heimsmet í hita eru umdeilt og er mesta furða að gróðurhúsaáhrifin ógurlegu skuli ekki hafa bætt þar um í eitt skipti fyrir öll.
1950 (10,53) Ágúst árið 1950 var alræmdur rigningarmánuður á austurlandi. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma á Dalatanga (frá 1938), 407 mm. Á Seyðisfirði biðu sex manns bana af völdum skriðufalla þ. 19. er skriða gereyddi tvílyftu steinhúsi. Á suður- og vesturlandi var þetta óvenjulega hlýr mánuður. Í Reykjavík er hann fjórði hlýjasti ágúst frá 1866, á eftir 2003, 2004 og 1880. Hlýjast á landinu varð 20, 5 stig á Hamraendum í Dölum þ. 3. en kaldast 1,2 stig á Bolungarvík þ. 30. Júli var einnig hlýr í höfuðstaðnum og þess má geta að 17. júlí mældist hitinn þar 23,4 stig sem var þá mesti hiti sem mælst hafði í Reykjavík í nútímaskýli en metið var slegið 1976 og síðan nokkrum sinnum enn frekar. Í þessum ágúst munað litlu að hitimn kæmist í tuttugu stig í bænum, varð mestur 19,7 stig þ. 21. en á rafstöðinni við Elliðaáar komst hann í nákvæmlega tuttugu stig þennan dag. Þess má og geta að þann 15. mældist mesti jarðskjálfti sem þá hafði mælst í heiminum, 8,6 stig og fannst hann á mælum í Reykjavík. Upptökin voru í Assam. Austanáttinn var nær ófrávíkjanleg í mánuði þessum eins kortið sýnir sem er frá 850 hæðafletinum í um 1400 m hæð en mikið lægðarsvæði var suður af landinu.
Í síðustu vikunni fór fram evrópumótið í frjálsum íþróttum í Brussel og urðu Gunnar Huseby og Torfi Bryngeirsson þar evrópumeistarar.
1999 (10,50) Þetta var sólríkur mánuður nema á suður og suðvesturlandi. Hlýjast varð 23,7 stig þ. 4. í Lerkihlíð í Vaglaskógi. Á Hjarðarlandi fór hitinn þennan dag í 23,6 stig og mjög víða fór hitinn yfir tuttugu stig inn til landsins. Kaldast varð -2,5 stig í Möðrudal þ. 9.
Mick Jagger kom til Ísafjarðar þann fyrsta og kvikmyndaleikarinn Kevin Costner nokkrum dögum síðar og fékk hitabygjuna í ferð sinni um suðurland.
1934 (10,49) Votviðrasamt var í þessum mánum og einkum fyrir norðan og austan. Þetta er kringum sjötti votviðrasamasti ágúst að mínu tali. En það var hlýtt. Hlýjast varð 22,0 stig á Kirkjubæjarklaustri þ. 10. en kaldast 0,8 stig á Grímsstöðum þ. 23.
Þann annan dó Hindenburg og Adolf Hitler gjörðist allsráðandi í Þyskalandi að formi jafnt sem í reynd.
Í Reykjavík voru mælingar frá 1820 til 1853. Athyglin beinist þá einkum að fjórum mánuðum. Árið 1828 er með töluna 13,2 stig. Sumarið í heild var reyndar eitt það allra hlýjasta sem mælst hefur en þess bera að gæta að þessar tölur eru óvissar. Ágúst árið 1829 kemur út með 13,6 stig og er ekki hægt að finna hærri tölu fyrir meðalhita í Reykjavík í ágúst. Þó þessi tala sé ónákvæm og mjög líklega fremur of há en hitt er víst af ýmsum heimildum að mikið góðæri ríkti á landinu þetta ár. "Grasvöxtur varð góður um sumarið og nýting eins og hún getur best orðið", segir Árbók Reykjavíkur. Úrkoman var mæld 47 mm í Reykjavík í þessum fyrsta ágúst sem þar var nokkru sinni mæld úrkoma. Árið 1838 var svo meðalhitinn 13 stig í ágúst í bænum en úrkoman 34 mm. Brandstaðaannáll segir: "Í ágúst besta veðurátt og oft sterkir hitar, þó ei breiskjur til lengdar og aldrei rigningar til skemmda." Þorvaldur Thoroddsen skrifar um sumarið 1838 í Árferði á Íslandi í þúsund ár: "Sumarið var svo fagurt og blítt, að fáir mundu annað eins, og kom það að kalla jafnt yfir alt land. Var löngum hægviðri og hitar, stundum dumbingur og smáleiðingar, en þó oftar bjart og heiðskírt, einkum sunnanlands." Árið 1842 var ágúst í Reykjavík talinn 12,7 stig en úrkoman var nokkuð mikil, 89 mm. Og loks er svo ágúst 1847 í Reykjavík með 12,3 stig en úrkoman 81 mm. Þá var byrjað að mæla í Stykkishólmi og var mánuðurinn þar 11,9 stig en úrkomumælingar voru þar þá ekki byrjaðar.
Það var ekki alltaf kalt á Íslandi í gamla daga!
Og þá er orðið ljóst hvaða mánuðir eru þeir hlýjustu á Íslandi frá 1866. Top twenty five!
Ágúst 2003, 12,20
Júlí 1933, 11,92
Ágúst 2004, 11,77
Júlí 1880, 11,74
Ágúst 1880, 11,67
Júlí 1991, 11,53
Júlí 1894, 11,45
Ágúst 1939,11,39
Júlí 2008, 11,39
Júlí 1917, 11,38
Júlí 1908, 11,31
Júlí 2010, 11,29
Júlí 1936, 11,25
Júlí 1929, 11,24
Ágúst 1947, 11,20
Júlí 1927, 11,15
Júlí 1934, 11,15
Júlí 1926, 11,12
Júlí 2004,11,09
Júlí 1945, 11,08
Ágúst 2010, 11,06
Ágúst 2010, 11,06
Júlí 1941, 11,05
Ágúst 1931, 11,04
Júlí 1939, 11,02
Þetta eru 25 mánuðir. Og þar hættum við!
Í fyrra fylgiskjalinu má sjá hita og úrkomu stöðvanna 9 sem miðað er við en í hinu síðara hita, sól og úrkomu í Reykjvík í ágúst 2003 og 2004 og mesta hita hvers dags á landinu í þeim mánuðum.Skýringar.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 31.8.2012 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2011 | 12:24
Köldustu júlímánuðir
Nokkrir júlímánuðir skera sig úr á landinu fyrir kulda. Þeir voru langflestir á 19. öld þegar afar fáar veðurstöðvar voru starfandi. Flestir hlýjustu júlímánuðir voru aftur á móti á 20. öld þegar veðurstöðvar voru orðnar margar.
Fyrir 1866 voru gerðar athuganir í Reykjavík frá 1823-1853 og í Stykkishólmi frá 1846. Á þessu tímabili virðast reyndar hafa komið allra köldustu júlímánuðirnir.
Árið 1826, fyrsta sumarið eftir að Beethoven dó sem var í mars, er meðalhitinn í Reykjavík talinn 7,9 stig og er ekki hægt að finna þar lægri tölu fyrir nokkurn júlí. Brandsstaðaannáll, sem skrifaður var í Húnavatnssýslu, segir um sumarið 1826: "Með júlí fóru lestir suður, fengu ófærð og óveður til þrautar. 5.-6. júlí mesta vestanóveður, svo ær króknuðu sumstaðar, enn fremur 7.-8., 11. og 16. miklar rigningar, þar eftir kuldar og blástur. Sláttur fyrst 19. júlí. Kom þá þurrviðri og varð góð nýting á töðu og hirt 3. ágúst."
Júlí næsta ár, 1827, var einnig mjög kaldur, 9,1 stig í Reykjavik eða á svipuðu róli og júlí 1970 og 1886.
Kaldasti júlí í Stykkishólmi var árið 1862, 7,5 stig. Mikill grasbrestur var það sumar. Þorvaldur Thoroddsen segir í Árferði á Íslandi í þúsund ár að fram í miðjan mánuðinn hafi varla komið eðlilega hlýr eða lygn dagur og varla hafi komið sú nótt að ekki hafi verið frost til fjalla. Í Borgarfirði hafi verið svo mikil næturfrost í byrjun mánaðarins að mýrar voru mannheldar fyrir sólaruppkomu. Meðaltal hámarkshita í Stykkishólmi var aðeins 9,7 stig en lágmarksins 1,6 og það voru tvær frostnætur. Meðaltal morgunhita var þar 6,8 stig, nákvæmlega einu stigi lægri en í júlí 1882 og var aldrei hærri en 9,4 stig en lægst 3,5. Áttin var yfirgnæfandi milli norðurs og austurs. Úrkoma var 34 mm og féll á aðeins fjórum dögum og tvo dagana rigndi mikið, 18 og 10 mm. Ekki var athugað þennan mánuð í Reykjavík en giskað er á að hitinn hafi verið mjög um sama bil og júlí 1874. Hins vegar voru einhvers konar athuganir á Siglufirði þar sem meðalhitinn er reiknaður aðeins rúm 5 stig og út frá því rétt rúm sex stig á Akureyri eða mjög svipað og júlí 1882 og 1812. Hvort sem miðað er aðeins við hitann í Reykjavík og Stykkishólmi eða Akureyri líka bætt við er þetta óneitanlega kaldasti eða næst kaldasti júlí sem hægt er að finna. Fjallkonan hefur nú áreiðanlega króknað þarna uppi á fjöllunum á þessum allt annað en rómantísku árum!
Árið 1812, þegar Napoleonsstyrjaldirnar geysuðu í Evrópu, var hitinn áætlaður svipaður fyrir Stykkishólm eða lægri en 1862 eftir athugunum sem gerðar voru á Akureyri. Hann keppir við júlí 1862 sem kaldasti júlí sem einhverjar tölur eru um. Ís var fyrir norður og austurlandi allt fram í ágúst. Svo segir Þorvaldur: "Þá var júlí harður með kuldum og hríðum sem á vetri fyrir norðan og hið mesta grasleysi og bjargarleysi hvarvetna."
Í Reykjavík mældist meðalhitinn í júlí 8,4 stig árið 1874, árið sem Íslendingar fengu stjórnarskrá. Þetta er lægsti meðalhiti sem þekkist þar í mánuðinum eftir að athuganir voru teknar upp aftur í bænum árið 1871. Í Stykkishólmi var þá 0,9 stigum hlýrra en í Reykjavík sem er óvenjulegt. Þessi mánuður var hvergi með þeim allra köldustu nema í Reykjavík en reyndar var aðeins mælt á þremur öðrum stöðum á landinu, Stykkishómi, Teigarhorni og Grímsey. Eftir meðalhita þeirra er hægt að áætla meðalhitann 8,65 fyrir allar níu stöðvarnar og gerir það mánuðinn þann 11. og 12. kaldasta júlí frá 1866 ásamt júli 1877. Í Árferði á Íslandi í þúsund ár segir að framan af mánuðinum hafi verið kuldahret við og við nyrðra, vestra og eystra með krapaskúrum og jafnvel snjó niður í byggð. Dagana 8.-9. snjóaði víða.
Allir þessir júlímánuður sem hér hafa verið taldir, nema 1874, eru kaldari í Stykkishólmi en nokkrir aðrir mánuðir og eru þessir upptöldu mánuðir því líklega köldustu júlímánuðir á landinu sem einhverjar hitatölur finnast um. Og þó! Allir mánuðirnir frá júní til september árið 1782, eftir ófullkomnum mælingum á Bessastöðum að dæma, virðast hafa verið kaldari en nokkrir aðrir þessara þriggja sumarmánaða hafa síðar orðið. Hins vegar má efast um trúverðugleika mælinganna. En kalt hefur sumarið örugglega verið og var það nú ekki sérlega heppilegt fyrir síðasta sumarið fyrir Skaftárelda! Djáknaannálar segja svo: "Hret kom um Jónsmessu og annað stærra 7da og 8da Júlii; snjóaði þá ofan í byggð svo kýr og fé var hýst í 2 nætur fyrir norðan."Höskuldsstaðaannáll segir: "Sumarið var þurrt og kalt, sérdeilis þá á leið. (Hret um Jónsmessu og aftur eftir þingmaríumessu). Stórmikill grasbrestur yfir allt norðan lands, þó næsta misjafnt á bæjum í sveitunum." Þorvaldur Thoroddsen skrifar: "Á harðlendi varð mesti grasbrestur, og í Þingeyjarþingi var gras svo lítið sprottið, að á bæjum á Langanesi urðu ekki hærð tún. Hafísar hindruðu kaupskip frá að hafna sig og nokkrir menn gengu frá heimilum sínum." Hafís var fyrir norðan og austan og reyndar allt til Eyrarbakka.
Víkjum nú að hinum köldu júlímánuðum frá og með 1866 sem er hið fasta viðmiðunaraár fyrir þessa pistla. Fremst við hvert ár er innan sviga meðaltal hinna níu stöðva, oft áætlað út frá meðalhita 7 stöðva en meðaltalið 1961-1990 fyrir 9 stöðvar var 9,73 stig en örlítið lægra fyrir 7 stöðvar.
Það er eftirtektarvert að fjórir af sex köldustu mánuðunum komu svo að segja í röð, 1885, 1886, 1887 og 1888 og árin 1882 og 1892 voru ekki langt undan. Á ellefu árum, 1882-1892, komu fimm af sex köldustu júlímánuðum eftir 1873. Neðst á síðunni eru kort er sýna mánaðarloftþrýsting við jörð í júl 1885-1888. Kortin sýna reynar hæð 1000 hPa flatarins í metrum miðað við 1000 sem er þá 0 en að öðru leyti eru þau eins og venjuleg þrýstikort og ég hef merkt inn á þau þrýstinginn á þann veg sem við erum vönust að lesa hann á kortum, sem sagt í hPa.
1887 (7,6) Suðurnesjaannáll segir svo um sumarið: "Tíðarfar mátti heita hið bezta yfir allt suðurland, grasvöxtur með betra móti og nýting ágæt, svo hey náðist óhrakið." Árbók Reykjavíkur: "Sumarveðrátta var hin hagstæðasta, grasvöxtur ágætur og nýting í bezta lagi um alt Suðurland." Þorvaldur Thoroddsen skrifar: "Sumarveðrátta var þó yfir höfuð góð og framúrskarandi góð á Suðurlandi og Austurlandi." Hann segir líka að veðráttan hafi verið "óvenjulega hlý og þurr um mestallt land enda áttin sjaldan af norðri". Þetta er síður en svo eina dæmið um það að tíðarfar sem mælingar segja að sé með mestu frávikum í kalda átt sé talið ágætt þegar menn lýsa því huglægt með orðum. Þessi júlí er sá kaldasti á landinu frá 1873 samkvæmt mælingum. Á undan honum fór kaldur júní og á eftir honum ískaldur ágúst og líka september. Sumarið í heild var eitt af þeim allra köldustu. Hins vegar virðist hafa verið sólríkt og verið hægviðrasamt en norðaustanátt var ríkjandi. Heyskapur hefur því gengið vel og það ræður líklega úrlistum um lýsingar manna á tíðarfarinu. Norðurljósið á Akureyri segir 13. ágúst að veðurfar hafi verið afbragðsgott um heyskapartímann, sem er reyndar líka í ágúst, og alls staðar hafi taða náðst með góðri verkun. Úrkoman í júlí þessum var minni en helmingur af meðallaginu 1931-2000. Hún var var aðeins 22 mm í Reykjavík sem einnig er minna en helmingur meðallagsins. Annars staðar á landinu var líka lítil úrkoma. Ekki kom dropi úr lofti fyrri helming mánaðarins í Stykkishólmi, síðan var nokkur úrkoma í viku en eftir það var aftur þurrt nema einn dag. Í Grímsey var sama og engin úrkoma en á öðrum stöðvum sem mældu var dálítil úrkoma annað kastið. En kuldarnir voru miklir. Í Grímsey mældist mesta frost sem þar hefur nokkurn tíma mælst í júlí, -3,0 stig, þ. 4. Í Reykjavík komu fimm dagar í röð frá þ. 22. þar sem hitinn komst aldrei í tíu stig sem mun hreinlega vera einsdæmi. Var þó glaðasólskin. Frostdagar í Grímsey voru 14, þar af á hverjum degi 24.-30. en síðdegishiti var þá svona tvö stig og snjóaði oft. Meðaltal lágmarkshita mánaðarins í Grímsey var 0,5 stig. Fyrstu fimm daganna var kafskýjað þar en 5.-10. var talið heiðskírt en seinni hluta mánaðarins mátti kalla alskýjað alla daga. Í Stykkishólmi var talið heiðskírt á öllum athugunartímum dagana þriðja til níunda. Síðdegishitinn þá daga var þar alveg þokkalegur, 11-14 stig. Þarna koma þá líklega blíðviðrin hans Þorvaldar! Á Raufarhöfn var mælt þennan mánuð og þar fór frostið í -1,6 stig og hefur þar heldur aldrei orðið eins kalt í júlí. Suðvestan átt gerði loks síðustu dagana fyrir þ. 20, og fór hitinn þá í 19,5 stig á Teigarhorni. Jónas Jónassen segir svo um veðurfarið þennan mánuð í Ísafoldarblöðum:
Fyrri hluta vikunnar var optast hæg sunnanátt með talsverðri úrkomu ; h. 3. var hjer útnyrðingskaldi og bjart veður og hefir síðan verið heiðskirt og gott veður ; Í dag 5. er hægur landsunnan (Sa) kaldi með miklum hlýindum (kl. 2 + 16°C. i forsælunni). Loptþyngdarmælir stendur hátt og haggast eigi. (6. júlí) - Fyrsta dag vikunnar var hjer austanátt, hvass allt til kvelds, að hann lygndi ; daginn eptir h. 7- var hæg austanátt með mikilli rigningu; stytti upp síðari part dags og gjörði logn. Síðan hefir verið bjart og fagurt veður, hæg útræna nema 10. var dimmviðri en logn allan daginn. Í dag 12. hæg norðangola, bjart veður. (13. júlí) - Allan fyrri hluta vikunnar var optast logn og bjart sólskin; að kveldi h. 16. gekk hann til suðurs og hefir síðan verið við þá átt með dimmviðri og nú síðast með mikilli úrkomu. Í dag 19. hefir í allan morgan verið húðarigning á sunnan útsunnan (S S v) og mjög dimmur i lopti. (20. júlí) - Fyrstu daga vikunnar var hjer talsverð rigning af suðri og austri, en fyrir hádegi h. 22. gekk hann til norðurs, hvass til d|úpa, hægur hjer, bjart og fagurt sólskin á degi hverjum og enn í dag 26. er sama veðrið, hægur norðankaldi og bjartasta veður. (27. júlí) - Fyrri part vikunnar var bjart og fagurt veður optast rjett að kalla logn ; síðari part dags h. 30. var hjer úði af suðri og síðan hefir verið við suður eða útsuðurátt, hægur en dimmur og stundum rignt talsvert með köflum ... (3. ágúst).
1882 (8,0) Þetta er alræmdasti og kaldasti júlí sem nokkurn tíma hefur komið á norðurlandi síðan mælingar hófust og ekki bætti úr skák að sömu sögu er að segja um júní og ágúst. Hafís var fyrir öllu norðurlandi fram á höfuðdag og fylgdu honum kuldasvækjur og úrkoma. Vetrarís var ekki leystur af Ólafsfjarðarvatni 6. júlí og sýnir það kuldann. Norðlingur skrifar þ. 12.: Tíðarfarið hefir í vor alstaðar um land verið mjög kalt, enda hafþök af hafis fyrir öllu Norður- og Austurlandi; má heita að hvert hretið hafi rekið annað, og síðast snjóaði hér ofan í sjó 6. þ. m., en menn urðu úti í blindbyljum."
Hafísinn fór af austfjörðum í byrjun mánaðarins en jafnan var þar votviðrasamt og kalt. Lítið sást til sólar fyrir norðan. Í Grímsey var aldrei talið minna en hálfskýjað og lang oftast alskýjað. Meðaltal skýjahulu á athugunartímum var 9,3 af tíunduhlutum. Seinustu dagana létti þó loks upp fyrir norðan að sögn Þorvaldar Thoroddsen en þó varla í Grímsey samkvæmt athugunum. Sérlega kalt var við Húnaflóa að tiltölu. Meðalhitinn á Skagaströnd var aðeins 3,5 stig, lægri en í Grímsey þó júlí sé að jafnaði talsvert hlýrri á svæðinu kringum Skagaströnd en í Grímsey. Minnsti hiti mánaðarins á landinu mældist reyndar á Skagaströnd, -1,0 og finnst manni það vel sloppið, en þess ber að gæta að fyrir norðan var oftast mjög skýjað og litlar hitabreytingar milli dags og nætur. Á Akureyri var meðalhitinn, 6,1 stig, sá lægsti sem þar hefur mælst, en á Hrísum, langt inni í Eyjafjarðardal, var meðalhitinn 7,2 stig og sýnir það hvað hafísísinn hefur haldið hitanum á Akureyri meira niðri en innar í sveitinni. Mesti hiti mánaðarins mældist reyndar á Hrísum, 20,7 stig. Líklega var það þ. 26. eða 27. en það voru einu dagarnir í mánuðinum sem hitinn fyrir norðan líktist eitthvað því sem venjan er í júlí. Á Grímsstöðum á Fjöllum var mælt þennan mánuð og þar náði meðalhitinn 7,4 stigum. Á Valþjófsstað í Fljótsdal var meðalhitinn enn hærri en á Hrísum, 9,0 stig og hafa þrír júlímánuðir á 20. öld á Hallormsstað, skammt frá, verið kaldari (1938, 1967, 1970, áreiðanlega líka 1993 en þá var hætt að mæla á Hallormsstað). Á suðurlandi var skárra tíðarfar en annars staðar, "allgóð hlýindi og sunnanvætur, þó stöku sinnum hlypi á norðan, varð aldrei neitt úr því", segir Þorvaldur Thoroddsen. Í Vestmannaeyjum var meðalhitinn ofan við meðallagið 1961-1990 og enn meira yfir því á Eyrarbakka. Andstæður milli landshluta um hásumarið hvað hita varðar hafa líklega aldrei verið meiri en í þessum mjög svo óvenjulega júlímánuði. Úrkoman var aðeins rúmlega helmingur af meðalúrkomu. Hún var þó mikil í Grímsey þar sem snjóaði reyndar einstaka sinnum. Fyrsti þriðjungur mánaðarins var mjög kaldur á landinu og einnig úrkomusamur. Eftir það kom vikukafli sem var sæmilegur á suður og vesturlandi en eftir hann kom fimm daga kuldakast. Frá þ. 21. og til mánaðarloka var aftur þokkalega hlýtt syðra og vestra en svipaður kuldi áfram fyrir norðan og austan og var lengst af fyrir utan þessa þrjá sæmilegu daga kringum þ. 25.
Mikil mislingasótt gekk þetta sumar og margir dóu af hennar völdum.
1892 (8,1) Sagt var að sumarið kæmi ekki þetta árið fyrr en um miðjan júlí. Í Hreppunum hefur aldrei mælst kaldari júlí, aðeins 7,9 stig á Hrepphólum sem er reyndar ótrúlega lág tala. Ákaft hret kom 7.-9. og snjóaði ofan í sjó á norðurlandi. Og hvarf snjórinn ekki að fullu úr byggðum í viku. Mánuðurinn var votviðrasamur um allt land og rigndi alls staðar meira og minna allan mánuðinn þó þurr og þurr dagur kæmi inn á milli. Úrkoman var 43% yfir meðallagi, þó aðeins lítið eitt yfir því í Stykkishólmi, en 70% yfir því á Eyrarbakka. Úrkoman var 91 mm á Teigarhorni og þar af féllu 50,1 mm á einum degi, mældir að morgni hins þriðja. Í Reykjavík voru miklar úrkomur seinni hluta mánaðarins. Mjög kalt var fram í miðjan mánuð. Á arhugunartíma kl. 14 var ekki tíu stiga hiti í Stykkishólmi fyrr en þ. 13. en í Grímsey var hitinn á sama tíma aðeins um 3-4 stig. Kaldast varð -1,5 stig á Raufarhöfn. Áttin var oftast norðaustlæg. Hlýjast í mánuðinum varð 22,8 stig í Möðrudal líklega þ. 20. en þann dag komst hitinn á Teigarhorni í 21,4 stig.
Jónassen lýsti veðrinu ekki þennan mánuð. Og er hans sárt saknað!
1970 (8,2) Yfir allt landið er þetta kaldasti júlí sem núlifandi fólk hefur lifað. Á Akureyri er þetta næst kaldasti júlí en á Grímsstöðum, þar sem athuganir hófust árið 1907, hefur aldrei mælst eins kaldur júlí, 4,7 stig, ásamt júlí 1993. Sláttur hófst ekki fyrr en síðari hluta mánaðarins. Sums staðar var jafnvel ekki byrjað að slá í mánaðarlok. Góð heyskapartíð var sunnanlands og vestan. Heyfengur var þó víðast hvar lítill vegna kulda og óvenju mikils kals í túnum. Sunnanlands var sérlega sólríkt enda áttin oftast norðlæg. Í Reykjavík er þetta næst sólríkasti júlímánuðurinn en mikill gæðamunur er þó á þessum mánuði og sólríkasta júlí í borginni, 1939, sem var þremur stigum hlýrri. Dagar með tíu stunda sól eða meira voru 15. Frá þeim 18. til hins 27. var einstök sólskinstíð í borginni og dag og dag var alveg þokkalega hlýtt, mest 16,8 stig þ. 22. Þrátt fyrir alla sólina komst hitinn á suðurlandi þó aldrei hærra en í 17-18 stig. Norðanlands og austan var úrkomusamt. Á Fljótsdalshéraði var tvöföld til þreföld meðalúrkoma. Mikið norðankast kom þ. 9. og snjóaði þá sums staðar á norðurlandi svo jörð varð alhvít einn dag á Brú á Jökuldal (6 cm), Grímsstöðum á Fjöllum (4 cm) og Mýri í Bárðardal (1 cm) en tvo daga á Hveravöllum, 8 cm þ. 10. og 11. Á Þingvöllum snjóaði niður undir byggð aðfararnótt þess 10. í norðan hvassviðri, en ekki festi þann snjó. Úrkoman um morgunin mældist 36 mm. Um nóttina brann ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum og fórst þar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, kona hans og dóttursonur. Annað norðanhret kom þ. 17. og snjóaði þá á Ísafirði og ær króknuðu í Önundarfirði. Það sýnir kuldann að í níu daga samfellt, þ. 5.-14., komst hitinn á Akureyri aldrei í tíu stig. Síðan komu þrír sæmilegir dagar en aftur frá. 18.-24. í sex daga, fór hitinn ekki í tíu stig. Fjögur dagshitamet fyrir sólarahringsmeðalhita í kulda voru sett en þó aðeins tvö fyrir lágmarkshita sólarhringsins. Svipað var ástandið á Hallormsstað á Héraði. Meðaltal hármarkshita var aðeins um 8 stig við sjóinn þar sem svalast var en um eða yfir 14 stig í allra bestu sveitum á suðurlandi. Á Hveravöllum voru frostnætur níu. Jafnvel á láglendi gerði stundum frost, t.d. -1,0 stig á Kornvöllum rétt við Hvolsvöll þ. 24. og sömu nótt -0,6 stig á Hjaltabakka við Blönduós en þá varð frostið -3,3 stig á Grímsstöðum á Fjöllum. Mesti hiti á landinu varð 22,4 stig á Vopnafirði þann 16. á eina verulega hlýja deginum fyrir norðan og austan. Meðalhitinn í þessum kalda mánuði sést á kortinu hér fyrir neðan en frávik þykktar yfir landinu á litkortinu. Að meðaltali er þykktin kringum 5456 m yfir suðvesturlandi. Því meiri sem þyktin er því hlýrra er loftið og því meiri þynnka því auðvitað kaldara.
1886 (8,2) Norðlægar eða norðaustlægar áttir voru ríkjandi. Oft var bjart yfir vestanlands í mánuðinum og einnig á suðurlandi fyrri hluta mánaðarins. Þann þriðja og fjórða var hlý vestlæg átt og komst hitinn þá í 26,3 stig á Teigarhorni. Að öðru leyti var nokkru hlýrra seinni hluta mánaðarins en þeim fyrri. Í Grímsey voru ekki hámarksmælingar en tíu stiga hiti eða meiri var aldrei þar á mæli á athugunartímum allan mánuðinn. Minnstur hiti mældist 0,1 á Raufarhöfn. Þar var meðalhtinn aðeins 5,4 stig en á Borðeyri var hann 6,4 stig. Úrkoman var í kringum meðallag við austurströndina en annars staðar nokkuð undir meðallagi. Fróði á Akureyri segir 7. ágúst um veðurfarið norðanlands og austan þennan mánuð: ''Norðan og norðaustanátt hefir lengst af ríkt, optar rjgningar og kuldi, aðeins undantekning ef hlýr og regnlaus dagur hefir komið. Á Austurlandí hefir verið líkt tíðarfar, eptir frjettum, sem nýlega eru komnar þaðan. Tún og harðvelli þar kalið eptir vorharðindin eins og hjer norðanlands. Í Breiðdal og og innri hluta Hjeraðsins er grasvöxtur skástur, svo einstaka menn byrjuðu þar slátt í 14. viku sumars. Í Fjörðunum og á Úthjeraði er grasvöxtur á túnum og engjum mjög lítill, en þó tekur yfir þegar kemur norður fyrir Vopnafjörð, á Langanesi og Langanessströndum má ekki heita meira en gróður fyrir skepnur í úthaga og túnin 13 vikur af sumri lítið betri en um fráfærur, þegar vel árar.'' Jónassen gerði veðrinu skil í Ísafold:
Fyrst framan af vikunni var hægur sunnan-útsynningur, en er áleið gekk hann til landsuðurs með mikilli úrkomu, en hægð á veðri. Í dag 6. er hann genginn til norðurs, hægur og dimmur fyrir og um hádegið með rigningarskúrum. (7. júlí) - Umliðna viku hefir optast verið norðanátt hæg; aðfaranótt h. 10. gekk hann þó til landsuðurs (sa.) með mikilli rigningu fram að hádegi h. 10. Daginn eptir var hjer hæg austanátt með talsverðri úrkomu og síðari part dags gekk hann til vestur-útnorðurs með svækju; síðan hefir verið eindregin norðanátt, opt hvass til djúpanna; í dag 13. bjartasta veður á norðan, hvass til djúpanna. ... (14. júlí) - Alla vikuna hefur hann verið við norðanátt, hægur og optast hið hjartasta veður. Síðari part víkunnar hefur heldur hlýnað í veðri. Alla vikuna hefur verið úrkomulaust. Í gær 19. mikið mistur í loptinu um og eptir miðjan dag. (21. júlí) - Alla vikuna hefur verið mesta hægð í veðri, mátt heita logn á hverjum degi; engin hefur verið úrkoman, að heita má, nema 22. rigndi litið eitt um tíma, og í morgun (27.) hefur við og við ýrt regn úr lopti. Í dag er hæg útsunnanátt, dimmur fyrir hádegi, bjartur síðari part dags. (29. júlí) - Alla vikuna hefur verið mesta hægð í veðri með talsverðri úrkomu; einkum rigndi hjer mikið eptir hádegið 31. f. m. Síðustu dagana hefur verið sunnan útsunnan átt með skúrum, opt bjartur á milli. ... (4 ágúst).
Landsbanki Íslands tók til starfa þann fyrsta.
1979 (8,3) Fremur þurrviðrasamur mánuður og kaldur. Framan af var oft vestanátt með kuldum á vestanverðu landinu en sæmilegum hita dag og dag fyrir norðan og austan. Hiti náði ekki meðallagi í Reykjavík fyrr en þ. 23. Eftir það var nokkuð hlýtt og sólríkt sunnanlands en kalt eða í besta falli sæmilegt fyrir norðan. Þar var tiltölulega kaldast í mánuðinum, meira en 3 stig sums staðar undir meðallaginu 1931-1960, en á suðvesturlandi var hitinn kringum hálft annað stig undir því meðallagi. Í heild var mánuðurinn alls staðar fremur sólarlítill nema á Hveravöllum þar sem sólríkt var í kuldanum og er þetta með sólríkustu júlímánuðum sem þar var mældur. Sérstaklega var þó sólarsnautt á norðausturhorninu, aðeins 88 klukkustundir á Höskuldarnesi við Raufarhöfn. Slydda var víða fyrir norðan þ. 12. og 13. og festi sums staðar snjó í nokkrar klukkustundir, gránaði alveg niður að snjó á stöku stað, þó alautt væri talið að morgni. Mestur hiti kom þ. 24. Var þá hæð yfir Grænlandi en hæðahryggur um Ísland og víða bjart. Fór hitinn þá í 23 stig á Grundartanga og víða yfir 20 stig á suðurlandsundirlendi og reyndar í slétt tuttugu á Hólmi við Reykjavík en 18,6 í borginni. Um nóttina hafði hins vegar mælst mesti kuldi mánaðarins, -1,8 stig í bjartviðrinu á Staðarhóli í Aðaladal. Á Vöglum í Vaglaskógi fór frostið sömu nótt í -1,1 stig. Kortið sýnir meðallegu 850 hPa flatarins.
1888 (8,3) Suðurnesjaannáll segir: "Tíðarfar yfir sumarið hér hið æskilegasta. Grasvöxtur í góðu meðallagi og nýting hin besta." Í Árferði á Íslandi segir að verið hafi sífelld góðviðri, sólskin og þurrkar og mjög þurrviðrasamt um sumarið. Mánuðurinn var samt afar kaldur. Sérstaklega var hann kaldur á útskögum á norður og austurlandi og hefur ekki mælst kaldari júlí á Teigarhorni. Það var einnig mjög kalt í Grímsey þar sem voru næturfrost nær hverja nótt til hins 10. og einnig fjórar nætur seint í mánuðinum. Grímsey og Teigarhorn draga meðaltalið mikið niður en þetta var ekki meðal allra köldustu júlímánaða annars staðar. Eigi að síður er erfitt að skilja eftir hitatölum hina góðu einkunn sem Þorvaldur gefur sumrinu, líkt og sumrinu áður. Hinir sumarmánuðirnir voru enn kaldari þetta sumar en 1887 og var sumarið í heild því eitt af þeim allra köldustu líkt og 1887. Í þessum mánuði mældist reyndar minnsti lágmarkshiti í júlí nokkru sinni í Hreppunum, 0,7 stig á Hrepphólum en kaldast á landinu varð -2,8 stig í Grímsey þ. 10. Norðanátt var fyrstu tíu dagana en síðan yfirleitt austlægar áttir. Hlýjast varð 24,2 stig á Núpufelli í Eyjafjarðardal. Sólfar virðist þó hafa verið mikið og góðir þurrkar og það var alveg einstaklega hægviðrasamt. Þetta er enda þurrasti júlímánuður sem um getur á landinu, minna en 10% af meðalúrkomunni. Bæði í Vestmannaeyjum og Teigarhorni var minni úrkoma en í nokkrum öðrum júlí, á síðar nefnda staðnum aðeins 0,7 mm sem er minnsta úrkoma sem mælst hefur á veðurstöð í júli og aðeins rigndi einn dag. Í Vestmannaeyjum og Grísmey voru fimm úrkomudagar en sex í Stykkishólmi. Mánuðurinn var sem sagt þurr, kaldur og hægviðrasamur. Heimskautabragur á honum. Jónasson hafði þetta að segja um veðrið í Ísafoldarblöðum:
Alla vikuna hefir verið einmuna fagurt veður daglega optast rjett logn. Í dag 3. hægur útnorðan-kaldi og bjartasta sólskin. (4. júlí) - Einmuna fagurt veður hefur verið alla þessa vikuna, optast alveg logn og bjartasta sólskin, aldrei dropi úr lopti. Í dag 10. logn og fegursta veður, sunnangola eptir kl. 4. (11. júlí) - Umliðna viku hefir verið mesta hægð á veðri rjett logn alla vikuna, optast dimmur og stundum með svækju-rigningu. Í dag 17. logn og dimmur. (18. júlí) - Sama blíðan hefir haldizt alla vikuna optast verið logn og bjart veður. Í dag 24. dimmur til hádegis, að hann gekk til norðurs með hægð, rjett logn og bjartasta sólskin. Loptþyngdartnælir mjög stöðugur. (25. júlí) - Alla umliðna viku hefir verið bjart og fagurt veður á degi hverjum, optast við norður hafi nokkur vindur verið; síðustu tvo dagana hefir heldur hvesst til djúpa og i gær h. 30. var úrhellis-rigning við og við eptir hádegi á vestan-útnorðan. Í dag 31. norðan, hvass útifyrir, bjart og fagurt veður í morgun, en þó við og við með krapa um og eptir hádegi. Í nótt snjóaði efst í Esjuna. (1. ágúst).
1885 (8,3) Suðurnesjaannáll segir svo: "Sumarið svo kalt, að engir menn muna, að annað eins hafi átt sér stað og fóru tún hér sunnan lands ekki að spretta fyrr en eftir Jónsmessu, enda leit svo víða út, að ekki mundu vera ljáberandi. Þó var sláttur byrjaður hér um pláss seinast í júlí, því þá var veðurátta snúin í votviðri, svo rekja fékkst meðan sláttur stóð yfir, sem ekki var lengi." Sérlega kalt var fyrstu þrjár vikurnar. Þá var í fyrstu ísköld vestanátt en síðan jafnvel enn kaldari norðlægar áttir. Ísafold þ. 22 júlí lýsti svo tíðinni í byrjun mánaðarins: Viku af þessum mánuði, 11 vikur af sumri, var ekki leyst af túnum sumstaðar á Austurlandi. Þar voru frost og snjóar öðru hverju allt til þess tíma, og eins í Þingeyjarsýslu og víðar nyrðra. Fjenaður allur hafður í heimahögum, og þó við rýran kost. Á Vestfjörðum einnig ódæma-árferði: tún kólu af frosti jafnóðum og af þeim leysti; málnyta hálfu minni en í meðalári. Varla hægt að komast yfir fjallvegi öðru vísi en skaflajárnað." Þetta er einn af allra köldustu júlímánuðum á suður-og suðvesturlandi frá 1866, næst kaldastur í Reykjavík, Hreppunum, Vestmannaeyjum og Eyrarbakka. Mánuðurinn er sá úrkomusamasti sem hér er fjallað um, 81% yfir meðallaginu 1931-2000. Í Reykjavík er þetta úrkomusamasti júlí sem þar hefur mælst, 127 mm og féll þó aðeins á 14 dögum. Í Stykkishólmi var úrkoman meira en helmingi meiri en núverandi meðaltal. Sömu sögu er að segja um Grímsey (67 mm), Teigarhorni og Eyrarbakka (170 mm) en úrkoman var hins vegar nærri meðallaginu í Vestmannaeyjum. Ekki fór að rigna að ráði fyrr en eftir þann 20. þegar dró til suðlægra átta en eftir það voru miklar úrkomur um allt land. En þetta var líka hlýjasti kafli mánaðarins þó æði rysjóttur væri. Mestur hiti varð 20,1 stig á Teigarhorni þ. 20. Lægstur hiti var 1,2 á Raufarhöfn. Þorvaldur Thoroddsen skrifar: Í lok júlímánaðar kom loksins alls staðar hagstæð sumartíð ... ." Tún spruttu reyndar svo illa í þessum mánuði segir hann líka að varla fékkst af þeim helmingur miðað við það sem vant var. Fróði á Akureyri skrifaði 27. júlí: ,,Vegna stöðugra norðanstorma með kulda, er grasið svo lítið enn, að sláttur er óvíða byrjaður, þó er nú síðustu dagana hlýrra veður, svo heldur er útlit til að tún spretti nokkuð, engjar eru víðast enn lítt sprottnar og skemmast sumstaðar af vatnavöxtum''. Og 10. ágúst er í blaðinu bréf frá Patreksfirði 27. júlí þar sem segir að næsturfrost hafi verið í júli, snjór í fjöllum og óþíðinn snjór enn í giljum á túnum. En þannig útlistaði Jónassen Reykjavíkurveðrið í Ísafold:
Þessa vikuna hefir verið óstöðugt, hlaupið úr einni átt í aðra, og má segja, að óvenjulegur kuldi sje í loptinu; 1. gjörði hjer alhvítt skömmu fyrir miðnætti af hagljelum og sama átti sjer stað að morgni daginn eptir; þá varð Esjan alhvít niður til miðs rjett sem um hávetur; njóti eigi sólarinnar er hitamælir óðara kominn niður í 5-6 stig a daginn. í dag 7. hægur á landsunnan (sa) dimmur og væta í lopti ; mikil úrkoma síðan í gær. (8. júlí) - Einlægt er sami kalsi í verðinu og því almennt gróðrarleysi. Fyrri part vikunnar var hann um tima við norðanátt, optast hægur, síðari partinn við austanátt með nokkurri úrkomu. Í dag, 14., hægur á austan, dimmur, en þó úrkomulaus hjer fram yfir hádegi, en síðan suddarigning fram yfir nón. (15. júlí) - Sífelld norðanátt var hjer alla vikuna þangað til í dag, 21. að hann er genginn til landssuðurs (Sa). Sami kalsi hefir því verið allt til þessa í veðrinu. Í dag, 21., er hægur landsynningur (Sa). og lítur út fyrir úrkomu; loptþyngdarmælir stendur hátt og hefir ekki haggast síðan í fyrra kvöld. (22. júlí) - Þegar hann síðast í fyrri vikunni gekk úr norðanáttinni til landsuðurs (Sa), leit hann strax úrkomulega út og hefur og síðan mátt heita, að rignt hafi dag og nótt án afláts og síðustu dagana tvo óhemju-rigning og ekkert útlit enn í dag (28.) til breytingar; í þessu dimmviðri hefur loptþyngdamælir staðið hátt og varla hreyft sig 3 síðustu dagana. (29. júlí) - Allan fyrri part vikunnar hjelzt við rining sú, sem var alla fyrri viku... (5. ágúst).
1915 (8,6) Þessi júlí var sá næst kaldasti sem mælst hefur á Akureyri. Á Grímsstöðum var þetta fjórði kaldasti júlí frá 1907. Kaldara var þar 1918, 1970 og 1993. Sæmilega hlýtt var fyrstu tíu dagana og mesti hiti mánaðarins mældist í Vestmannaeyjum, 20,6 stig þ. 4. en á Grímsstöðum komst hitinn í tuttugu stig. þ. 9. En hinn 11. skal á hörku norðanátt með miklum kuldum. Á Akureyri mældist mesta frost sem þar hefur mælst í júlí, 1,0 stig þ. 12. og á Möðruvöllum í Hörgárdal mældist frostið -2,0 sömu nóttina en mesta frost mánaðarins mældist reyndar þ. 1. á Grímsstöðum, -3,0 stig. Kortið sýnir þegar norðanáttinn var að skella á með lofti norðan af heimskauti nánast. Sýnir kortið loftvægi við jörð en háloftahæð var yfir Grænlandi en austan við hana streymdi mjög norrænt loft en suðaustan við land var lægð í háloftunum. Ekki linnti norðankuldunum fyrr en síðustu dagana en þá mildaðist talsvert og var þá vindur orðinn hægur. Víða snjóaði nyrðra kringum þ. 10. Á suður og suðvestulandi var stundum nokkuð hlýtt í þessari norðanátt sem þar var yfirleitt björt. Á Stóranúpi og í Vestmannaeyjum varð meðalhiti mánaðarins yfir meðalaginu 1961-1990. Hitamunur milli landshluta var óvenjulega mikill. Hafís var talsverður á Eyjafirði og víðar fyrir norðan allan mánuðinn og hefur ekki síst valdið kuldunum þar. Sólarstundir á Vífilstöðum við Reykjavík voru 243 klukkustundir sem er langt yfir núverandi meðallagi fyrir Reykjavik og úrkoman á Vífilsstöðum var aðeins 12 mm og féll á þremur dögum, þar af var helmingur hennar mældur að morgni hins 1. Í Stykkishólmi var úrkoman einungis 5,8 mm og 28 mm í Vestmannaeyjum. Fyrir norðan rigndi meira. Á Möðruvöllum í Hörgárdal mældist úrkoman 8,6 mm sem er samt í minna lagi og sömu sögu er að segja um Teigarhorn.
Þann sjöunda var kvenréttindadagurinn haldinn hátíðlegur á Austurvelli.
1993 (8,6) Þetta er víst hvorki meira né minna talinn mesti norðanáttamánuður allra júlímánaða, eftir því sem bloggbróðir Trausti Jónsson segir á sinni síðu! Fyrir norðan var líka úrkomusamt og alveg einstaklega kalt, allt að fjórum stigum undir meðalhitanum 1931-1960 inn til landsins á norðausturlandi. Aldrei hefur orðið kaldara á Grímsstöðum frá 1907 (ásamt 1970) og ekki heldur Möðrudal (4,6°) og Úthéraði (6,5°) frá 1898. Mikið norðanveður gerði 27.-28. og komst vindhæð í 12 vindstig í Æðey í Ísafjarðardjúpi. Það er þó mesta furða að aldrei festi snjó í byggð þó snjóað hafi í fjöll norðanlands aðfaranótt hins 10. Ekki kom heldur frost í byggð. Minnsti hiti mældist 0,1 stig í Möðrudal. Á suðurlandi var hitinn aðeins kringum eitt stig undir meðallagi og sólskinsstundir vel yfir meðallagi í Reykjavík. Enginn júlí eftir að 19. öld sleppti hefur boðið upp á jafn lágan hámarkshita á öllu landinu og þessi (ásamt júlí 1961), 20,6 stig á Norðurhjáleigu, þ. 19. Þrátt fyrir það munaði þó litlu að hitinn færi í tuttugu stig í Reykjavík þar sem mældust 19,7 stig þ. 26. en þann dag var hiti um og yfir 20 stigum á suðurlandsundirlendi. Tuttugu stiga hiti er sjaldgæfur í höfiuðstaðnum. Á Hrauni á Skaga og Sauðanesvita komst hiti hins vegar aldrei í tíu stig! Á Hrauni var hámarkið 9,6 stig en lágmarkið 3,5. Munurinn milli mesta og minnsta hita var því ekki nema 6,1 stig. Mánuðurinn var líka ótrúlega þungbúinn fyrir norðan og austan. Á Vopnafirði voru allir dagar taldir alskýjaðir sem er eiginlega súrrealískt! Sólskinsstundir á Akureyri voru 58 og hafa aldrei verið færri í júlí en 26 við Raufarhöfn og 40 við Mývatn. Er þetta minnsta sólskin sem mælt hefur verið í júlí á íslenskum veðurstöðvum. Úrkoman var mikil á norðausturlandi, mjög nærri meðallagi á Akureyri, en sáralítil á öllu sunnan og vestanverðu landinu en aftur á móti mikil á Vestfjörðum. Úrkomudagar voru aðeins 4-9 sunnnan og vestanlands en allt upp í 30 á Raufarhöfn og um eða yfir 25 annars staðar á norðausturlandi. Kortið sýnir ástandið í 850 hpa fletinum í kringum 1400 m hæð.
Debutplata Bjarkar Guðmundsdóttur, sem kom út í júní þetta ár, rauk í byrjun mánaðarins upp í þriðja sæti vinsældalistans í Bretlandi.
1983 (8,8) Þetta er 14. kaldasti júlí á öllum níu stöðvunum en er hér getið vegna þess að hann er sá kaldasti sem mælst hefur í Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Eyrarbakka eftir 1874. Í Reykjavik var meðalhitinn 8,5 stig, 8,0 á Stórhöfða og 9,0 á Eyrarbaka. Það var líka úrkomusamt syðra og vestra. Úrkomudagar voru 24 í Reykjavík og voru hvergi fleiri á landinu nema á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi og Brjánslæk á Barðaströnd þar sem þeir voru 25. Það var einnig mjög sólarlítið í borginni þar sem þetta er sjöundi sólarminnsti júlí. Hámarkshitinn í Reykjavík er sá lægsti í nokkrum júlí, 13,8 stig. Og meðaltal hámarkshita var aðeins 10,4 stig ef sneitt er hjá tvöföldum hámörkum og hefur aldrei verið lægra í júlí í borginni. Á Reykjanesvita fór hitinn aldrei hærra en í 11,5 stig. Á Hólmi, rétt við Rauðhóla hjá Reykjavík, mældist frostið -1,7 stig þ. 18. Kuldarnir voru mestir að tilölu á suðvesturlandi og upp í Borgarfjörð og vestanvert Snæfellsnes. Fyrir norðan var hiti aðeins lítið eitt undir meðallaginu 1931-1960, hvað þá 1961-1990, og reyndar fyrir ofan það á Vopnafirði. Á Héraði var sólríkt og sól var yfir meðallagi á Akureyri. Nokkrir verulega góðir dagar komu fyrir norðan og austan. Á Vopnafirði komst hitinn í 24,7 stig þ. 20. og á Hallormsstað fór hann fimm sinnum yfir tuttugu stig. Kaldast varð -2,5 stig á Staðarhóli í Aðaldal þ. 19. og -2,1 á Brú á Jökuldal sömu nótt. Þetta voru köldustu dagar mánaðarins og var meðalhitinn talinn 6-61/2 stig undir meðallagi á landinu í heild. Þá var auðvitað norðanátt og varð jörð alhvít á Hveravöllum báða dagana (1 cm) og þ. 18. á Grímsstöðun en snjódýpt var þar ekki mæld. Þann 22. mældist svo mesti kuldi sem mælst hefur á jörðunni, -89,2 stig á stöðinni Vostok (sem þýðir austur) á Suðurskautslandi en ósagt skal látið hvort hann tengist kuldanum á suðurlandi! En þennan dag var fólki eðlilega nóg boðið og efndi harðskeyttur hópur sólarsinna t til mótmælastöðu við Veðurstofuna og krafðist góðs veðurs um allt land! Úrkoma var lítil á norðusturlandi og austurlandi í þessum mánuði en annars staðar í meira lagi og mjög mikil sunnanlands og á norðvesturlandi. Í Vestmannaeyjum hefur aldrei mælst eins mikil úrkoma í júli. Vindar voru oft af vestlægum toga og kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins í kringum 5 km hæð.
Bush eldri, sem þá var varaforseti Bandaríkjanna, kom til Íslands þ. 5. en Ray Charles skemmti á Broadway í Reykjavík þ. 7.
Í fylgiskjalinu sjást veðurtölurnar fyrir allr stöðvarnar.
Brandstaðaannáll; Suðurnesjannáll; Höskuldsstaðaanáll.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 9.12.2011 kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2011 | 17:49
Hlýjustu júlímánuðir
Jæja, þá erum við komin að helsta sumarmánuðinum, sjálfum júlí. Í tilefni af því að landsmenn eru nú orðnir æði sumarþyrstir verður hér fjallað um fleiri liðna glæsimánunuði en venjan er í þessum pistlum. Nú reynir sko á fyrir alla sanna veðurfana enda nær lengdin á pistlinum nýjum og áður óþekktum hæðum eða lengdum öllu heldur!
Engir júlímánuðir á nítjándu öld koma til álita sem verulega hlýir nema 1880, 1889 og 1894. Röð tíu allra hlýjustu mánuðina er annars þessi: 1933, 1880, 1991, 1894, 2008, 1917, 1908, 2010, 1936, 1929, 1934, 1927.
Nú verður farið í alla þessa mánuði og fleiri þó. Þeir eru svona margir vegna þess að um hásumarmánuði er að ræða og margir þeirra eru merkilegir fyrir eitthvað þó þeir komist ekki í röð þeirra allra hlýjustu. Meðalhiti stöðvanna níu, sem miðað er við, var 9,73 stig 1961-1990 og fremst við hvert ár er gefinn meðalhiti þess mánaðar sem um ræðir fyrir allar þessar stöðvar eins og venjan er í þessum pistlum. Í fylgiskjalinu má hins vegar sjá hita, úrkomu og sólskin í töfluformi fyrir allar þessar stöðvar og einnig fyrir Dratthalastaði á Úthéraði og Eyrarbakka og eru þessi atriði því lítt tíunduð hér í lesmálinu fremur en vanalega. Vegna þess hve mánuðirnir eru margir og litlu eða engu munar á sumum eru notaðir tveir aukastafir í heildarmeðalhita mánaðanna (fyrir allar stöðvarnar) en ekki má taka þetta alltof hátíðlega.
Nr. 1, 1933 (11,92) Þetta er hlýjasti júlí yfir allt landið og einnig út af fyrir sig víða á svæðinu frá Ísafjarðardjúpi og austur og suður um alveg að Hornafirði. Akureyri telst meðal annara til þessara staða, Skriðuland í Skagafirði, Húsavík (meðalhiti 13,3 stig) og Hólar í Hornafirði. Veður voru hægviðrasöm. Ágætir þurrkar og góð heyskapartíð var norðanlands og austan en vestanlands og sunnan var fremur votviðrasamt en þó komu nokkrir þurrkdagar. Suðvestanátt var algengasta vindáttin. Sól var talsverð fyrir norðan miðað við meðallag en nokkuð undir því fyrir sunnan. Á Akureyri var meðaltal lágmarkshita 10,4 stig sem er einsdæmi á þeim stað. Sama lágmarkstala var á Eyrarbakka sem ekki er jafn sérstakt. Hæsti lágmarkshiti á veðurstöð mældist einnig á Akureyri, 7,8 stig sem er óvenjulega hátt sem lágmarkshiti alls júlímánaðar þar. Hitinn fyrir norðan var jafn og hár en samt voru enginn stórkostleg hlýindi. Mesti hiti á Akureyri var aðeins 20 stig en hitinn var þar að jafnaði 16 stig að hámarki. Enn hlýrra um hádaginn var inn til landsins, hátt upp í 18 stig til jafnaðar á Grímsstöðum (hámarksmeðaltöl þar eru samt kannski ívið of há vegna mæliaðstæðna) en þar var þetta næst hlýjasti júlí.
Fyrstu fimm dagana var suðvestanátt og rigningar vestanlands en góðviðri fyrir austan. Brá síðan til austanáttar í aðra fimm daga með dumbungsveðri sunnan og austanlands. Sums staðar rigndi æði mikið, til dæmis 53,5 mm í Vík í Mýrdal að morgni þess 4. og 48 mm í uppsveitum suðurlands en um 15 mm í Reykjavík. Mjög hlýtt var þessa daga víða um land. Hitinn fór 25,9 stig þ. 7. á Grímsstöðum á Fjöllum og 23,5 á Hvanneyri. Sunnanlands var líka hlýtt þennan dag, 22,8 stig á Hlíð í Hrunammannahreppi og 20,2 í Vík í Mýrdal þar sem tuttugu stiga hiti er sjaldgæfur. Daginn áður fór hitinn í 24,7 stig á Höfn í Bakkafirði en 23,0 á Húsavík þann 9. Norðaustanátt var næstu vikuna þó oft væri tvíátta á suðurlandi en samt var þar góðviðri. Lægð var komin norðaustur um Færeyjar. Mikið rigndi frá henni sums staðar austanlands. Að morgni hins 11. mældist úrkoman 49 mm í Fagradal, en þá var blíða sunnanlands og síðar um daginn fór hitinn í Reykjavík í 19,4 stig en tuttugu á Eyrarbakka, 18 í Vestmannaeyjum en 21,5 stig á Kirkjubæjarklaustri. Eftir þetta kólnaði nokkuð norðanlands og þ. 15. fór hitinn í 1,0 stig á Kollsá í Hrútafirði og var það minnsti hiti sem mældist á landinu í byggð en á Jökulhálsi við Snæfellsjökul fór hitinn í 0,5 stig. Dagana 17.-24. var óþurrkasamt, einkum sunnanlands. Lægð kom vestan yfir Grænlandshaf og síðan voru lægðir yfir landinu eða í grennd við það og var vindátt breytileg. Hlýtt var norðaustanlands og hitinn fór í 22,4 stig í Fagradal í Vopnafirði þ. 19. Frá þeim 25. var aftur norðanátt og voru þá oftast góðir þurrkar á landinu og hlýtt.
Úrkoman var lítillega undir meðallagi. Hún var kringum meðallag á suðurlandi en fyrir norðan og austan var hún fremur lítil nema kringum Vopnafjörð og úrkomudagar á norðausturlandi voru yfirleitt færri en tíu.
Óperan Arabella eftir Richard Strauss var frumflutt fyrsta dag mánaðarins i Dresden. Balbó flugmálaráðherra Ítalíu og sannur fasisti kom til landsins þ. 5. Koma hans varð kveikjan að frægri smásögu eftir Halldór Laxness Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík.
Meðalhiti þennan hlýjasta júlí sem mælst hefur yfir landið sést á kortinu.
Nr. 2, 1880 (11,80). "Þá var hin mesta árgæzka og blíðviðri um allt land, svo menn mundu ekki jafngott ár ...Tún voru orðin algræn löngu fyrir sumarmál og vorið var hið blíðasta og fegursta. Sumarið var heitt og þurrt og þurkuðust sums staðar hagar svo, að nær því varð vatnslaust með öllu. Útengjar spruttu ágætlega, nema sízt mýrar, sem þornuðu upp í hitunum, en þar, sem voru foraðsflóar, varð hið bezta gras. Nýting á heyjum var hin bezta til höfuðdags, og mátti svo segja, að hverju strái mætti raka þurru af ljánum í garð." Svo segir í Árferði á Íslandi í þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen.
Meðalhitinn sést á kortinu. Mjög fáar veðurathuganarstöðvar voru komnar á fót á þessu ári, aðeins í Reykjavík, Hafnarfirði (hér sleppt), Stykkishólmi, Skagaströnd, Grímsey, Valþjófsstað, Teigarhorni, Papey, Hrepphólum, Vestmannaeyjum og Eyrarbakka. Þessi júlí var sá hlýjasti sem mælst hefur bæði í Stykkishólmi, þar sem athugað hefur verið í júlí frá 1846, og í Vestmannaeyjum þar sem athuganir hófust 1878. Í Hreppunum er þetta fjórði hlýjasti júlí. Á Akureyri voru engar athuganir en hins vegar á Valþjófsstað á Fljótsdalshéraði. Hiti fylgist talsvert að á þessum tveimur stöðum á sumrin, ekki síst í mjög afbrigðilega hlýjum mánuðum. Meðalhitinn á Valþjófsstað þennan mánuð er reiknaður 13,7 sem er það hæsta sem nokkur stöð hefur fengið í júlí ásamt Írafossi árið 1991. Ef hitinn á Valþjófsstað yrði settur í stað Akureyrar mundi þetta verða hlýjasti júlí sem mælst hefur eftir mínu kerfi. En við skipum honum í annað sæti. Það vekur athygli í þessum mánuði hve hlýindin voru jafndreifð eftir landshlutum og til sjávar og sveita. Á Eyrabakka var meðalhitinn t.d. 13,0 stig en 13,2 á Hrepphólum í Hreppunum. Mér finnst mjög líklegt að meðalhitinn hafi náð 13 stigum á Akureyri en kannski verið ívið lægri þó en á Valþjófsstað. Á Skagaströnd var meðalhitinn 10,9 stig sem er talsvert minna en hæst hefur mælst seinna á Blönduósi, 11,8 stig 1945. Hitinn var einnig mjög jafn milli daga í þessum mánuði og milli dags og nætur. Sem dæmi um það má nefna að hámarkshiti mánaðarins í Stykkishómi var 16,9 stig en lágmarkið 5,9. Meðaltal hámarkshita í Reykjavík var 15,0 stig en aldrei fór hitinn þar hærra en í 16,8 stig, þann 7. og 9., en var lang flesta daga 15-16 stig. Hiti fór þar ekki niður fyrir tíu stig allan sólarhringinn í 22 daga sem er æði óvenjulegt og var alltaf yfir tíu stigum dagana 6.-28. nema tvær nætur. Mesti hiti á landinu mældist 24,5 stig á Valþjófsstað en það var eini staðurinn þar sem hámarksmælingar voru gerðar á sæmilega hámarkshitavænum stað. Þarna mældist líka minnsti hiti mánaðarins 1,8 stig. Einna svalast að tiltölu var við sjóinn á austfjörðum en á Teigarhorni var meðalhtinn aðeins 0,6 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Þar var sólin lítið á ferli eftir meðaltali skýjahulu að dæma. Í Stykkishólmi var hins vegar oft léttskýjað fyrsta þriðjung mánaðarins en síðan meira skýjað þangað til síðustu dagana að aftur birti til. Ekkert raunverulegt kuldakast kom þó ívíð kaldara hafi verið allra síðustu dagana í hægri norðaustanátt og björtu veðri vestanlands. Sagt er að hitnn kl. 9 í Stykkishólmi sé nokkuð góður mælikvarði á meðalhitann á öllu landinu. Þennan mánuð var hann mestur 15,8 stig þ. 11. og 15,0 stig þ. 14. og var yfir 14 stigum þ. 10., 19. og 23. Þegar morgunhiti er svona hár við strendur má til sveita búast við tuttugu stiga hita eða meria. Aðeins einn dag var morgunhitinn í Stykkishólmi undir tíu stigum, 9,4 stig þ. 29. En það stóð nú ekki lengi því hlýindin héldu svo áfram í ágúst og voru þá jafnvel enn meiri en í júlí. Einna hlýjast var í öðrum þriðjungi mánaðarins. Að kvöldi þess 14. komst hitinn á Teigarhorni í 21,5 stig í vestanátt en þá var hlýtt um allt land og voru þeir 14.-15. líklega einna hlýustu dagarnir ásamt 21.-22. en þá var sunnanátt og lítilsháttar rigning á suður og vesturlandi. Úrkoma var svo lítil á þeim örfáu stöðum þar sem hún var mæld að þetta er ef til vill næst þurrasti júlí sem mælst hefur að meðaltali ef miðað er við samanlagða úrkomu Teigrahorns og Stykkishólms en á þeim stöðvum hefur úrkoman til samans aðeins verið minni í júlí 1888. Úrkomudagar voru einungis 7 í Stykkishólmi, 4 á Teigarhorni og 2 í Grímsey. Í Stykkishólmi er þetta 15. þurrasti júlí frá 1857 en sá fimmti á Teigarhorni frá 1873. Kortið sýnir áætlað frávik500 hPa flatarins á norðurhveli og er hann langt yfir meðalagi á stóru svæði yfir Íslandi og þar vestan við.Jónas Jóanssen lýsti svo veðrinu í þessum mánuði í Þjóðólfi 26. ágúst 1880:
Eins og í undanfarandi mánuði hefir veðuráttan þennan mánuð verið einstaklega blíð og stilt. Fyrstu 5 daga mánaðarins var veður bjart og logn, að eins nokkur úrkoma hinn 4., 6. og 7. var norðankaldi en úr því optast logn til hins 14. að hann gekk til suðurs, en þó lygn með nokkrum sudda í 2 daga, svo aptur bjart veður og stilt með lítilli úrkomu við og við á landsunnan, þangað til 25. að hann gekk til norðurs, optast hægur og bjartasta veður (hvass 29. á norðan).
Eftir þennan júlí kom næst hlýjasti ágúst sem mælst hefur og hann var sá hlýjasti alveg fram í ágúst 2003. En næsti vetur varð sá kaldasti sem dæmi eru um. Veðráttan á Íslandi var því stórkostlega afbrigðileg á þessum árum.
Nr. 3, 1991 (11,63) Þetta er hlýjasti júlí sem núlifandi Íslendingar hafa lifað nema þeir elstu. Hann er kannski merkilegastur fyrir það hve hlýtt var á suður- og suðvesturlandi. Þetta er annar af tveimur júlímánuðum sem nær 13 stigum í Reykjavk og er sá hlýjasti sem þar hefur mælst, ásamt 2010. Á sunnanverðu Snæfellsnesi hefur aldrei mælst eins hlýr júlí. Hiti fór aldrei undir meðallag allan mánuðinn á landsvísu og í flestum landshlutum. En í um vikutíma frá þeim 19. var hitinn þó lítillega undir meðallagi á norður og austurlandi. Mikla hitabylgju, eina þá mestu sem komið hefur, gerði snemma í mánuðinum og stóð hún í 9 daga, 1.-9. en á suðurlandi gerði litla aukabylgju dagana 11.- 13. Hitinn fór í 29 stig þ. 2. á Kirkjubæjarklaustri, sem er þar júlímet, en sólarhringsmeðaltal var 20,8 stig á staðnum. Þennan dag fór hitinn á Norðurhjáleigu í Álftaveri í 27,6 stig sem er þar ársmet. Á Egilsstöðum mældust í 28,0 stig þ. 4, en en sólarhringsmeðaltalið var 22,3 stig en næsta dag fór hitinn í 28,8 stig, sem er þar ársmet en sóalrhringsmeðaltalið var 21,4 stig. Meðan þessu fór fram var vindur hægur og vestlægur, bjart inn til landsins en þokuloft við strendur. Hæð var fyrir austan land (sjá mynd ) en grunnar lægðir fóru norðaustur um Grænlandssund. Þessa hlýju daga, 3.-5., voru sett hitamet á ýmsum öðrum stöðvum á norður og austurlandi, t.d. 28,9 á Kollaleiru í Reyðarfirði, 28,2 stig á Vopnafirði og Dratthalastöðum á Úthéraði, 27,6 á Birkihlíð í Skriðdal og Strandöfn í Vopnafirði. Dagshitamet að meðalhita komu á Akureyri 3.-5. og var meðalhitinn yfir tuttugu stigum tvo seinni dagana, 20,6 stig þ. 5. og hefur aðeins 31. júlí 1980 verið hlýrri að meðalhita í júlí, 20,8 stig, og 24. júlí 1955, 20,9 stig. Eftir þann 6. var hitinn mestur annars staðar en í Skaftafellssýslum og norðausturlandi og var mikill víða um land en þó nokkru lægri en þessar háu tölu sem nefndar hafa verið. Yfir landinu var hæðarhryggur en lægðir voru suður undan. Suður og vesturland naut sín nú einkar vel. Í Reykjavík fór hitinn í 20 stig fjóra daga í mánuðinum sem var met fram í ágúst 2004. Hitinn þar fór í 20,0 þann 7. og 22,0 daginn eftir, 23,7 stig þann 9. en svo ekki fyrr en síðasta daginn, 20,7 stig. Dagana 6.-8. voru dagshitamet sett að meðalhita ó borginni. Á Korpu og í Heiðmörk fór hitinn í 25 stig þ. 8. Nokkur allsherjar hitamet voru sett kringum þ. 7. Á Nautabúi mældust 26,2 stig þann dag, 27,4 stig í Lerkihlíð í Vaglaskógi, 26,8 á Mýri í Bárðardal og 27,0 á Brú á Jökuldal (þ. 8) en júlímet kom á Staðarhóli í Aðaldal, 26,3 stig. Líklegt er þó að meiri hiti hafi verið á þessum stöðvum t.d. í hitabylgjunni miklu í júlí 1911 og jafnvel einstaka öðrum hitabylgjum en þessar síðast töldu stöðvar eiga minna en hálfrar aldar mælingasögu. Mjög hlýtt var einnig þessa daga á suður og vesturlandi, 23-26 stig, þó ekki hafi þar verið sett hitamet sem enn standa. Þrumuveðurs varð vart í Reykjavík og Keflavík þ. 7. og daginn eftir á nokkrum stöðvum á suðurlandsundirlendi. Nokkra aðra daga er getið um þrumur á stöku stað. Þessi júlí var jú eins konar eftirherma af útlendum hitamánuði! Og var þetta allt eins og hver annar lottóvinningur!
Úrkoma var víðast hvar lítil og hvergi til neinna vandræða þar sem hún var þó meiri en í meðalagi. Fremur var sólríkt, ekki síst inn til landsins á norðausturlandi og á hálendinu. Síðasta dag mánaðarins gerði aðra hitabylgju um land allt sem stóð í tvo daga. Þennan dag fór hitinn í 19,6 stig í Stykkishólmi sem þrátt fyrir frægð sína fyrir langa mælingasögu er einvher ónæmasta veðurstöð landsins fyrir hitabylgjum. Meðalhiti mánaðarins á Írafossi var 13,7 stig sem er mesti meðalhiti í júlí sem vitað er um á Íslandi. Á Hjarðarlandi var meðalhitinn 13,5 stig, 13,3 á Görðum á sunnanverðu Snæfellsnei, 13,1 á Hellu og Sámsstöðum, 13,0 á Kirkjubæjarklaustri (næst hlýjasti júlí), 13,0 í Reykjahlíð við Mývatn (sá hlýjasti með 1984) en 13,4 á Birkihlíð í Skriðdal. Síðasta talan er mjög eftirtektarverð og mun vera meira en þremur stigum yfir meðallagi. Til allrar óhamingju voru engar mælingar gerðar á Hallormsstað en alveg má búast við að þar hafi meðalhitinn verið um 14 stig. Aldrei hefur orðið hlýrra á Hveravöllum í júlí eða nokkrum öðrum mánuði, 10,5 stig. Þar uppi komst hitinn fimm daga í 20 stig eða meira, mest 22,7 stig þ. 7. sem er mesti hiti sem þar mældist meðan stöðin var mönnuð.
Austlægar áttir voru ríkjandi og gætti oft hlýrra loftstrauma frá Evrópu í þessum mánuði, sjá kortið sem sýnir frávik á hæð 850 hPa flatarins í um 1400 m hæð. Meðaltal lágmarkshita er sá hæsti sem um getur í Reykjavík, 10,8 stig en 11,0 á Görðum á Snæfellsnesi sem er Íslandsmet. fyrir lágmarkshita veðurstöðva. Kaldast í mánuðinum varð -0,2 á Grímsstöðum þ. 22.
Kvikmynd Friðriks Þórs Óskarssonar Börn náttúrunnar var frumsýnd í Stjörnubíói síðasta dag mánaðarins, einum af hinum ofurhlýju dögum í höfðstðanum. Hún var síðar tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Nr. 4, 1894 (11,51) Mikil hitabylgja kom fyrstu dagana. Þá mældist mesti hiti í júlí í Reykjavík allt til ársins 1976, 23,8 stig þ. 2. og 20.7 stig þ. 1. og í Stykkishólmi fór hitinn í 22,9 stig þ. 2. og 22,1 daginn eftir. Í Möðrudal fór hitinn í 28,8 stig sem var þá mesti hiti sem mælst hafði á landinu og stóð það met til 1911. Reyndar eru hámarkstölur á þessum árum frá Möðrudal ekki alveg trúverðugar, eru í hæsta lagi miðað við það sem mælt hefur verið þar í nútímaskýlum á mjög hlýjum dögum. Á Akureyri fór hitinn í 24,9 stig. Bjart var yfir landinu þessa heitu daga. Þennan júlí verður að teljast mesta hitabylgjumánuðinn á landinu á síðustu áratugum 19. aldar. "Á Norðurlandi og Austurlandi var öndvegistíð allt sumarið en aftur á móti fremur votviðrasamt á suður- og vesturlandi. Á Vestfjörðum var óþurrkasamt fram í miðjan mánuð en um miðjan mánuð breyttist til þurrviðra. Meðan á túnaslætti stóð voru ofurlitlar vætur í Eyjafirði en síðan gerði hagstæða þurrka sem héldust til mánaðarloka. Heyskapur var þó misjafn. Á suðurlandi gekk erfiðlega að ná inn heyjum vegna votviðranna og skemmdust þau víða, aftur var nýting heyja heldur betri á Vesturlandi, en á Norðurlandi og Austfjörðum heyaflinn mikill og góður; þar var grasspretta í betra lagi og nýting hin bezta." Þetta segir í Árferði á Íslandi í þúsund ár. Þrátt fyrir úrkomuna syðra var síðasta vika mánaðarins þurr og úrkoman var heldur aldrei alveg stöðug framan af mánuðinum. Inn á milli komu á úrkomusvæðunum þurrir og jafnvel nokkuð bjartir dagar. Úrkomudagar voru nú heldur ekki fleiri en 14 í Reykjavík, 13 í Stykkishólmi og 18 í Vestmannaeyjaum sem er svipað og venjulega, en reyndar 21 á Eyrarbakka sem er í meira lagi. Og alltaf var hlýtt. Minnsti hiti mældist 3,9 stig á Stórinúpi. Það er hæsta landslágmark í nokkrum júlí en þess ber að gæta að stöðvar voru fáar en sú kuldavænasta, Möðrudalur, var samt í gangi. Lágmarkshiti fór ekki undir tíu stig í Reykjavík síðustu vikuna og áfram fyrstu átta dagana í ágúst. Er þetta með lengstu slíkum tímabilum þar.Svo segir Jónassen um tíðarfarið í nokkrum Ísafoldarblöðum:
Fyrri vikuna var optast austanátt með talsverðri úrkomu; hinn 2. júlí var hjer óminnilegur hiti; aðfaranótt h. 9. miklar skruggur; síðari vikuna hefir þornað upp og ýmist verið logn eða útnorðankuldi og nú síðustu dagana útsunnanvari með sudda. Í morgun (14.) austanvari, dimmur í lopti. (14. júlí) - Hefir verið hægur með nokkurri úrkomu optast logn; var vart við jarðskjálfta kl. rúml. 7. e. m. hinn 17. (einn vægur kippur). (21. júlí) - Undanfarna tíð megnasti óþurkur af suðri, þar til birti upp h. 27. og gerði hæga útrænu. Í dag (28.) fegursta sólskin, útræna. (28. júlí) - Logn hefir verið alla undanfarna viku og þokumugga optast nær, hafi kaldað ofurlitla ögn hefir það verið úr vestri. ... (4. ágúst)
Nr. 5, 2008 (11,39) Í Stykkishólmi var þessi góðviðrasami júlí sá þriðji hlýjasti, eftir 1933 og 1880. Á Hæli náði meðalhitinn 13 stigum í fyrsta sinn síðan 1944 en aðeins sá júlímánuður og júlí 1939, 1894 og 1880 hafa þar verið hlýrri. Í Reykjavík voru allir daga nema sá 14. yfir dagsmeðallagi en þar er þetta sjöundi hlýjasti júlí frá 1867. Einkanlega var hlýtt síðustu tíu dagana á landinu. Kom þá einhver mesta hitabylgja sem gengið hefur yfir. Í Reykjavík fór hitinn í 22,5 stig eða meira fjórum sinnum frá þeim 25. til 1. ágúst og er slíkt algjört einsdæmi í mælingasögu borgarinnar. Fór hitinn í 22,5 stig þ. 25. og aftur 29. Fyrsta ágúst varð hann 23,6 stig. Og þann 30. júlí mældist svo mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík, 25,7 stig á kvikasilfursmæli, en 26,4 stig mældust á sjálfvirku stöðinni og 26,2 á Reykjavíkurflugvelli. Kortið sýnir veðrið kl. 15 á suðvesturlandi og stækkar ef smellt er tvisvar á það eins og öll önnur kort í þessum pistlum. Sólin skein allan daginn. Þykktin yfir Keflavík fór þennan dag í um 5600 m sem er æði háttt en því meiri sem hún er því hitavænlegra verður. Hér í fylgiskjali má lesa um þykktarhugtakið í veðurfræði. Yfir landinu og austan við það teygði sig háloftahæð. Á Korpu fór hitinn í 27,2 stig, 27,5 í Geldinganesi, 27,1 á Hólmsheiði, 28,4 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi og 26,9 á Sandskeiði. Frá og með hinum 19. fór hitinn í tuttugu stig eða meira einvhers staðar á landinu. Meðaltal daglegs hámarkshita yfir landið í öllum mánuðinum var 22,0 stig. Á Þingvöllum mældust 27, 1 stig þ. 29. og 29,7 stig þ. 30. Það er mesti hiti sem mælst hefur á staðlaðri sjálfvirkri veðurstöð á landinu. Hitinn var yfir 29 stigum i nokkrar klukkustundir. En auðvitað eru það vonbrigði að hann skyldi aldrei ná 30 stigum! Það sýnir reyndar kannski best hve Ísland er sumarsvalt land að 30 stiga hiti hefur aldrei mælst þar í nútíma hitamælaskýli á mannaðri stöð. Hitamet voru víða slegin í þessum mánuði. Mestur hiti á mannaðri stöð var 28,8 stig á Hjarðarlandi. Önnur ársmet voru í Vestmannaeyjum 21,6 og Hólum í Dýrafirði 26,0 stig (frá 1983); Bláfeldi á sunnanverðu Snæfellsnesi, 24,5 (1998) og Ásgarði í Dölum 25,5, stig (1993). Júlímet voru sett á Hæli (1929) 27,1 stig; Vík í Mýrdal (1926) 23,1; Vatnsskarðshólum (1951) 23,7 og Eyrarbakka (1924) 27,5 stig. Í Vestmannaeyjabæ mældist hitinn 23,4 stig og 25,3 í Bíldudal. Meðalhitinn í Reykjavík var 17,5 stig þ. 30. en sló þó ekki út metdaginn í meðalhita í júlí sem var sama dag árið 1980, 18,0 stig. Hins vegar var dagshitamet í meðalhita þ. 29. í borginni þegar meðalhitinn var 16,6 stig. Úrkoma var í rösku meðallagi yfir landið. Sólríkt var fremur á landinu og ekki hefur mælst meiri sól í júlí við Mývatn, 257 klst. en mælingasagan er þar reyndar ekkilöng. Þurrt var víða vestanlands. Í Stykkishólmi er þetta 9. þurrasti júlí og sá þurrasti síðan 1974.
Nr. 6, 1917 (11,38). Í mánuðinum mældist mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á Íslandi í júlí, 1036,6 hPa, að kvöldi hins þriðja í Stykkishólmi. Þrýstingur alls mánaðarins var einnig óvenjulega mikill. Fyrstu vikuna eða rúmlega það voru mikil bjartviðri víða en stundum þoka við strendur. Varla kom dropi úr lofti. Hlýtt var en þó mældist minnsti hiti mánaðarins 0,3 stig á Grímsstöðum þ. 2. Vindur varð síðan vestlægari eða suðvestlægari. Hitinn fór mest í 25,1 á Möðruvöllum í Hörgárdal þ. 21. og sennilega sama dag í 26,3 á Akureyri og í Grímsey voru þá 21,8 stig. Nokkuð óþurrkasamt var síðasta þriðjunginn á suður-og vesturlandi en heildarúrkomumagn varð þó sjaldan mikið. Sérlega þurrt var fyrir norðan og á austfjörðum þennan mánuð og einnig var lítil úrkoma á vesturlandi og jafnvel einnig í Vestmannaeyjum. Hlýindi voru ríkjandi. Í Vestmannaeyjakaupstað fór hitinn aðeins einu sinni niður fyrir tíu stig alveg frá þeim 13. og til 4. ágúst. og næst síðasta júlídaginn fór hitinn þar í tuttugu stig en 19 í Reykjavík. Tveir síðustu dagarnir voru einna hlýjustu dagarnir. Sólskinstundir á Vífilsstöðum voru 163 sem er í tæpu núverandi meðallagi. Úrkomudagar voru þar fáir, aðeins 8 og úrkomumagnið var 46,3 mm sem er í tæpu meðallagi. Hæðasvæði var austan við landið í mánuðinum og inn á austurland en fyrir sunnan Grænland var þrýstingur lægri eins og sést á kortnu.
Fyrri heimsstyrjöldin var í algleymingi og æðisgengir bardagar voru í Belgíu.
Nr. 7, 1908 (11,31) Hitinn var sérlega jafn um allt land, 12 stig svo á Vestfjörðum sem á Blönduósi. Tiltölulega svalast var á austurlandi og í Vestmannaeyjum. Þurrt var fram yfir miðjan mánuð og virðist víða hafa verið sólríkt. Loftþrýstingur var hár í fyrstu og mikil hlýindi dagana 2.-5. og fór hitinn svo víða yfir tuttugu stig að nær eindæmi má telja og er þetta því einhver útbreiddasta hitabylgja sem dæmi er um. Tuttugu stiga hita eða meira er getið í Stykkishólmi, Holti í Önundarfirði, Ísafirði, Blönduósi, Grímsey, Akureyri, Grímsstöðum, Seyðisfirði, Teigarhorni, Fagurhósmýri og Vestmanneyjaum, en þó ekki í Reykjavík þar sem hitinn fór mest í 19,1 stig þ. 4. Sá dagur var hlýjasti dagurinn og fór hitinn þá í 26,6 stig á Gilsbakka í Hvítársíðu. Alveg áreiðanlega hefur hitinn komist þessa daga vel yfiir tuttugu stig á suðausturlandi og suðurlandsundirlendi þó þar hafi engar hámarksmælingar verið gerðar. Kortið sýnir háloftahæðina sem kom með hitabylgjuna. Seinni hluti mánaðarins var nokkuð votviðrasamur en úrkomumagn í heild var samt alls staðar vel undir meðallagi. Kaldast varð í þessum mánuði 1,0 stig á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði. Á Akureyri fór hitinn aldrei lægra en í 8,7 stig og er það hæsti lágmarkshiti sem þar er skráður í nokkrum mánuði.
Fyrsta dag mánaðarins eignaðist Reykjavík sinn fyrsta borgarstjóra sem var Páll Einarsson. Daginn áður féll reyndar loftsteinninn frægi í Tunguska í Síberíu með miklum hamförum.
Nr. 8, 2010 (11,29) Sérlega hlýr mánuður á suðvesturlandi. Kortið sýnir frávik þykktar frá meðallagi. Þetta er hlýjasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík ásamt júli 1991. Hiti var furðu jafn allan mánuðinn í borginni. Mestur varð hann 21,2 stig þ. 17. og var það eini dagurinn sem hitinnn náði tuttugu stigum. Þá var glaðasólskin eins og alla dagana 15.-19. en þá daga fór hiti vel yfir tuttugu stig víða á suðurlandi. Ekkert dagshitamet var þó sett í Reykjavík þrátt fyrir hlýindin, hvorki í meðalhita né hármarkshita. Hins vegar var meðaltal lágmarkshita eins og ég reikna það afar hátt, 10,2 stig, en hámarkshita 16,2 stig. Síðustu níu dagana fór hitinn aldrei lægra en í 10,2 stig. Á Eyrarbakka er þetta hlýjasti júlí frá 1880, 13,4 stig. Í Vestmannaeyjum er þetta hins vegar næst hlýjasti júli en sá fimmti hlýjasti í Stykkishólmi. Fyrir norðan var kalt framan af en hlýnaði svo mjög. Alls staðar á landinu varð hitinn vel fyrir meðallagi. Óvenju djúpar lægðir voru suður af landinu þ. 1. og aftur þ 6. og 8. og ollu þær hvassviðri. Allmikið þrumuveður kom á suðurlandi kringum þann 20. Mestur hiti mældist í Bjarnarflag í Mývatnssveit 24,6 stig þ. 25. en á mannaðri stöð 23,2 stig á Hæli þ. 18. Hiti fór í 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu á sjálfvirkri stöð dagana 17. júlí til 1. ágúst og er það met hvað samfelldan dagafjölda varðar. Meðaltal dagslegs hámarkshita var 20,5 stig.
Mjög þurrt var vestan til á landinu. Á Lambavarni á Rauðasandi hefur aldrei mælst minni úrkoma i júlí (frá 1938) 6,3 mm og heldur ekki á Hjarðarfelli á sunnanverðu Snæfellsnesi (frá 1971). Í Stykkishólmi er þetta 14. þurrasti júlí (frá 1857). Á austurlandi var fremur úrkomusamt, sérstaklega dagana 1.-8. Á sumum stöðvum með ekki langa mælingasögu hefur aldrei mælst eins mikil úrkoma í júlí. Mesti kuldi á landinu mældist -1,0 stig á Gagnheiði í 749 m hæð þ. 21. en mesti kuldi á láglendi mældist -0,1 stig á Þingvöllum þ. 12. og 13. en á mannaðri veðurstöð 0,7 stig á Grímsstöðum þ. 19.
Herjólfur fór að sigla frá Landeyjarhöfn þ. 21. og átti það æfintýri eftir að ganga vægast sagt ólánlega.
Nr. 9, 1936 (11,25) Þetta var lúxusmánuður á suður- og vesturlandi og vestan til á norðurlandi. Þar var mikil sól og mikill hiti. Mánuðurinn var reyndar ágætur um allt land en nokkuð votviðrasamur við norðausturströndina. Á Suðureyri við Súgandafjörð er þetta hlýjasti júlí meðan mælt var (1922-1989), 12,2 stig, og hlýrri en 1933 og 1939. Það var líka ágætlega sólríkt bæði fyrir sunnan og norðan. Í Reykjavík er þetta tíundi sólríkasti júlí. Hiti fór ótrúlega marga daga í tuttugu stig eða meira fyrri helming mánaðarins. Fyrstu vikuna var suðaustan átt og rigningarsamt en hlýindi ríktu, sérstaklega dagana 4.-9. Á Grímsstöðum komst hitinn í 25,5 stig þ. 3. og 21,9 á Akureyri en daginn áður fór hitinn í 22,2 stig á Grímsstöðum og daginn þar á eftir í 21,9 í Reykjavík og 19,7 á Suðureyri. Hlýtt var á suðausturlandi þ. 28. þegar hitinn komst í 21,5 stig á Kirkjubæjarklaustri og 21,0 í Vík í Mýrdal. Daginn eftir fór Reykjavíkurhitinn í 21,9 stig. Norðaustanátt mátti heita einráð alveg frá þeim 8. til hins 20. Var þá yfirleitt mjög þurrt og sólríkt á suðurlandi og vesturlandi en nokkur úrkoma austanlands. En þetta var ekki köld norðaustanátt. Kortið sýnir stöðu veðrakerfanna að meðallagi við jörð. Hitinn á Teigarhorni varð 23,8 stig strax þann 8. og 19,5 í Stykkishólmi en næsta dag komst hitinn á Stórhöfða í Vestmananeyjum í 18,5 stig sem er ekki á hverjum degi. Hlýindi voru þann dag og næstu daga einnig á suðurlandsundirlendi. Fór hitinn í 20,5 stig á Sámsstöðum þ. 10. og 22,4 stig á Hæli þ. 12. Hlýindin náðu líka til suðausturlands en á Fagurhólsmýri mældust 21,6 stig þ. 12. og daginn eftir 21,1 stig á Hólum í Hornafirði. Hvergi mældist frost í þessum mánuði en minnstur hiti varð 0,1 stig þ. 21. á Skriðulandi í Kolbeinsdal í Skagafirði. Norðlægu áttirnar voru lítilllega rofnar þ. 24. með hægviðri en norðlægar og norðvestlægar áttir snéru svo aftur og þ. 28. komst hitinn á Kirkjubæjarklaustri í 21,5 stig en 21,0 í Vík í Mýrdal. Þann dag var bjart víðast hvar. Þessar tölur, sem hér hafa veirð tilgreindar, eiga bara við um hámarkshita mánaðarins á hverri stöð (eins og flestar hámarkshitatölur hér í pistlunum frá því 1920 til 1948) en tuttugu stiga hiti eða meira hefur líklega verið víða á landinu marga þessa daga. Síðustu dagana snérist hins vegar til sunnanáttar og rigninga.
Úrkoman í heild í mánuðinum var samt minni en helmngur af meðalúrkomu og náði hvergi meðallagi en var þó nærri því sums staðar við norðausturströndina. Úrkoma var einstaklega lítil á norðvestanverðu landinu. Á Hesteyri í Jökulfjörðum mældist hún aðeins 1,0 mm og er það minnsta úrkoma á veðurstöð í júlí frá 1888 þegar úrkoman mældist 0,7 mm á Teigarhorni. Í Stykkishólmi hefur mælst minni úrkoma í 8 júlímánuðum. Á Eyrarbakka er þetta fjórði þurrasti júlí. Úrkomudagar voru víðast hvar færri en tíu alveg frá suðurlandsundurlendi vestur, norður og austur um allt til Húsavíkur. Á austurlandi voru úrkomudagar hins vegar tólf til nítján.
Þann 19. hófst hið grimmilega borgarsstríð á Spáni með umsátri um Madrid.
Nr. 10, 1929 (11,24) Þetta var óvenjulega sólríkur mánuður. Á Akureyri er hann sólríkasti júlí sem þar hefur mælst. Eigi að síðu voru sólskinsstundirnar enn fleiri í Reykjavík en þar er þetta sjöundi sólríkasti júlí. Það var líka hlýtt, þurrt og stillt veður á landinu. Úrkoman var mjög lítil og úrkomudagar víðast hvar færri en tíu inn til landsins en nokkru fleiri við ströndina en hvergi fleiri en 16 sem ekki er nú alveg hversdagslegt. Aldrei hefur úrkoman verið minni í júlí á Akureyri, aðeins 7 mm og var reyndar hvergi minni á landinu. Mánuðurinn kemst að mínu viti inn á topp tíu lista yfir þurrustu júlímánuði. Norðvestlæg átt var óvenjulega algeng enda var meðalhitinn hæstur á suðausturlandi, 12,8 stig á Kirkjubæjarklaustri. Fyrstu fjóra dagana var reyndar svöl norðanátt og varð vart við snjókomu norðaustanlands þó ekki festi snjóinn. Hitinn féll niður í -0,3 stig þ. 3. á Grímsstöðum. Frá þeim fjórða til mánaðarloka mátti hins vegar heita stöðugt blíðviðri á landinu. Miklir hitar voru viðloðandi alveg frá þeim 17. þegar hitinn fór í 25,5 stig á Teigarhorni og 24,0 á Stóranúpi í Hreppum, til hins 28. Á þessum tíma komst hitinn m.a. í 25,1 stig þ. 22. á Grímsstöðum og 23,4 á Akureyri sama dag en 22,9 á Hvanneyri þ. 18. og 25,5 stig á Hraunum í Fljótum þ. 25. og daginn eftir í 22,3 í Stykkishólmi sem sannarlega er sjaldgæfur hiti á þeim bænum. Miklar þrumur voru þ. 18. á suðausturlandi, allt frá Berufirði til Fagurhólsmýrar og voru þær í fjórar stundir í Hornafirði, kl. 12-16. Nokkur hafís var á Húnaflóa eins og verið hafði fyrr um vorið og sumarið og varð ísinn landfastur þ. 20. við Gjögur. Farþegaskipið Nova rakst á hafísjaka á flóanum þ. 25. og skemmdist nokkuð, en komst þó hjálparlaust til hafnar.
Mikill jarðskjálfi fannst í Reykjavík þ. 23. Skjálftinn reið yfir kl. 17:43 að íslenskum miðtíma og fannst á öllu suðurlandi, allt frá Skeiðarársandi, um allt vesturland og sums staðar á vestanverðu norðurlandi og allt austur á Siglufjörð. Langsterkastur varð hann þó við innanverðan Faxaflóa og í sveitunum þar upp af. Í Reykjavík komu sprungur í loft og steinveggi sem hlaðnir voru úr grágrýti en steinsteypuveggir högguðust minna. Myndir duttu af veggjum og hlutir af hillum. Áhrif skjálftans voru meiri í Reykjavík en í skjálftunum 1896 eða nokkurs skjálfta síðan. Sjálftinn var 6,3 stig á Richter og upptökin í Brennisteinsfjöllum eða skammt austan við þau. Daginn fyrir skjálftann var Landakotskirkja í Reykajvík vígð.
Nr. 11, 1927 (11,15) Þetta er einn af þeim júlímánuðum sem leynir á sér. Hann var hægviðrasamur og hlýr. Á suðvesturlandi var ágæt heyskapartíð og alls staðar sæmileg. Sólskin var í rífu núverandi meðallagi í Reykjavík en ekki var mælt á Akureyri. Þar var mánuðurinn hins vegar einn af þeim allra hlýjustu með meðalhita upp á 13,0 stig og hafa aðeins júlí 1933, 1955 og 1894 verið hlýrri þar. Ekki var heldur mæld úrkoma á Akureyri þennan mánuð. Í Grímsey er þetta hlýjasti júlí sem mælst hefur. Gott hjá Grímsey! Hitinn í Reykjavík komst í 20,3 stig þ. 6. Þá voru mikil hlýindi á landinu því sama dag fór hitinn í 25,7 stig á Hvanneyri og 25,7 á Eyrarbakka en daginn eftir í 26,1 stig á Grímsstöðum. Hitinn komst svo í 19,0 stig á Stórhöfða í Vestmannayjum þ. 5. sem telst mikið þar. Kaldast varð 0,4 Eiðum þ. 21. og aftur þ. 29. Úrkoman var mest norðvestantil en minnst á Fljótsdalshéraði.
Þrumuveður voru furðu algeng. Þann 10. voru þrumur á Hvanneyri, síðdegis þ. 14. á Eiðum, í Fagradal í Vopnafirði og um kvöldið á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði. Þrumur og eldingar voru svo daginn eftir í Fagradal og á Þorvaldsstöðum við Bakkafirði. Þrumuveður með eldingum og hagli gekk loks þann frá suðaustri yfir Rangárvallasýslu þann 25., um Austur-Landeyjar, Fljótshlíð, Rangárvelli og Landsveit. Og þá voru einnig þrumur í Vestmannaeykum kl. 14-18 og um svipað leyti á Kirkjubæjarklaustri.
Nr. 12, 1934 (11,15) Þó þetta hafi verið hlýr mánuður og hæviðrasamur var hann yfirleitt votviðrasamur, einkum á vesturlandi og vestantil á norðurlandi, en einnig á suðausturlandi og hröktust töður í þessum landshlutum. Skást að þessu leyti var á suðurlandi og upp í Borgarfjörð þar sem mánuðurinn má kallast fremur þurrvirðasamur. Sólin var lítið á ferli, einkum fyrir norðan. Það er sérstakt með þennan mánuð að ekki eru dæmi um hlýrri júlí í Vík í Mýrdal síðan mælingar hófust þar 1926 en norðanátt var algengust vindátta. Hitinn komst í Reykjavík í 20,1 stig þ. 8. en á suðurlandsundirlendi komst hitinn aldrei í tuttugu stig. Dagana 8.-12. voru hins vegar miklir hitar fyrir norðan en rigningar syðra í suðvestanátt. Fór hitinn allt upp í 26,8 stig á Hraunum í Fljótum þ. 12. Á Hólum í Hornafirði komst hann í 25,5 stig þ. 18. þegar vindur var að snúast til norðurs upp úr hægviðri. Þetta er mesti skráði júlíhiti á stöðinni (frá 1924) en mér finnst talan reyndar nokkuð grunsamleg. Fyrir norðan voru stórrigningar seint í mánuðinum. Á Kjörvogi við Reykjarfjörð á Ströndum mældist sólarhringsúrkoman 64,1 mm að morgni þess 27. en morguninn áður 60,1 mm í Fagradal í Vopnafirði. Var þessa daga norðan hvassviðri fyrir norðan í rigningunni og kalt og þ. 31. féll hitinn á Kjörvogi í 2,1 stig og varð hvergi lægri á landinu. Aðfaranótt hins 28. hljóp skriða á Márstaðatún í Vatnsdal og hjá Aralæk í Húnaþingi. Fleiri smáskriður féllu en gerðu lítin usla. Kornsá og Stóra-Giljá flæddu yfir bakka sína.
Brúin yfir Markarfljót var vígð þann fyrsta. Glæpaforinginn alræmdi John Dillinger var skotinn til bana í Chicago þ. 22. Dolfuss kanslari Austurríkis var myrtur af nasistum þ. 25. Og daginn eftir varð Hermann Jónasson forsætisráðherra og átti eftir að standa ærlega uppi í hárinu á þýskum nasistum sem leituðu eftir flugaðstöðu á Íslandi.
Þetta eru sem sagt 12 hlýjustu júlímánuðirnir.
En nú verður nokkura annarra júlímánaða getið fyrir það sem þeir hafa helst unnið sér til frægðar annað en vera meðal þeirra 34 hlýjustu..
Tveir annálaðir júlímánuðir fyrir góðviðri komu á suður og vesturlandi árið 1939 og 1944.
Nr. 17. 1939 (11,02). Þetta er sólríkasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík. Sólskinsstundir voru 308,3 klukkustundir eða nær tíu stundir á dag til jafnaðar. Það var líka sólríkt fyrir norðan en þetta er fjórði sólríkasti júlí á Akureyri. Í Hreppunum er þetta hins vegar hlýjasti júlí sem mælst hefur. Meðalhitinn á Hæli var 13,6 stig og er það næst mesta meðalhitatala á júlímánuði nokkurs staðar á landinu. Mánuðurinn byrjaði reyndar með snörpu norðankasti og var jörð alhvít á Grímsstöðum þ. 3. en þ. 6. fór hitinn á Reykjahlíð við Mývatn niður í -2,6 stig. Alls staðar var mánuðurinn góður eftir kastið en þó bestur á suður-og vesturlandi. Í Reykjavik var sérstaklega hlýtt dagana 23.-28. og eru það líklega einhverjir hlýjustu ef ekki hlýjustu dagar þar sem komið hafa á þeim dagsetningum síðan byrjað var að mæla. Hitabylgja var reyndar á öllu suðurlandi 24.-26. og komst hitinn í Reykjavík í 22,1 stig, 26 á suðurlandsundirlendi og á Hvanneyri en dagana 19.-20. var einnig mjög hlýtt, en þá mest fyrir norðan, og fór þá hitinn í 25,5 stig við Mývatn. Skýfall með þrumum og eldingum kom í Hveragerði í hitunum. Úrkoma var lítil, einkum á vesturlandi, aðeins 3,9 mm í Stykkishólmi og hefur aldrei verið þar minni í júlí frá 1857. Einnig var þetta þurrasti júlí á suðausturlandi, frá Hólum í Hornafirði til Víkur í Mýrdal og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Á Lambavatni á Rauðasandi, nokkurn vegin vestast á landinu, var þetta annar þurrasti júlí en sá þriðji í Vestmannaeyjum. Í heild er mánuðurinn fjóðri þurrasti júlí samkvæmt mínum reikniaðferðum.
Unnendur blíðviðra hafa lengi séð sumarið 1939 í hillingum í huganum. En Þann 17. sást Snæfellsjökull í alvöru hillingum úr 550 km fjarlægð. Nýr Dalai Lama var fundinn í Tíbet þ. 20. og er hann enn á lífi og kom til Íslands fyrir fáum árum. Tveir þýskir kafbátar komu í Reykjavíkurhöfn þ. 22. og daginn eftir kom Stauning forsætisráðherra Dana í heimsókn til Íslands og um það leyti var skáldsagan Gyðjan og uxinn eftir Kristmann Guðmundsson bönnuð í Þýskalandi.
Nr 31, 1944 (10,98) var nokkuð svipaður júlí 1939. Hann var bestur sunnanlands og vestan en samt góður um land allt. Á Þingvöllum var þetta hlýjasti júlí sem þar kom meðan mælt var 1935-1982, en líklega hefur 1991 þó verið svipaður en athuganir voru þá komnar að Heiðabæ í Þingvallasveit. Dagana 19.-21. kom einhver mesta hitabylgja á suður og vesturlandi sem dæmi eru um og komst hitinn þ. 21. í 26,7 stig í Síðumúla í Borgarfirði og 26,5 á Þingvöllum en 22,3 stig í Reykjavík. Það er merkilegt að í þessum mánuði mældist einnig mesta frost sem mælst hefur á landinu í júlí á láglendi, -4,0 stig þ. 27. í Núpsdalstungu í Miðfirði.
Emil Thoroddsen tónskáld lést hinn 7. sama dag og Rauði herinn hertók Vilníus. Lokasprettur styrjaldarinnar stóð sem hæst. Rússar endurheimtu Minsk þ. 7 en Bandamenn tóku Caen þ. 9. og þ. 20. réðust Bandaríkjamenn á Guam. Sama dag mistókst Stauffenberg að ráða Hitler af dögum.
Nr. 23, 2007, (10,83) má teljast nokkuð líkur að eðli og 1936, 1939 og 1944. Afskaplega hlýr og sólríkur á suðvesturlandi en hins vegar fremur dumbungslegur á norðausturlandi. Úrkoma var mjög lítil og er þetta sjötti þurrasti júlí út frá þeim fimm stöðvum sem hér er reiknað með. Í Reykjavík og á Eyrarbakka er þetta næst hlýjasti júlí. Þann 9. gerði óvenjulega mikið þrumuveður á suðurlandi. Hlýjast varð 22,2 á Akureyri þ. 3. en kaldast 0,2 stig í Möðrudal þ. 15. og 18.
Reykingarbann gekk í gildi þ. 1. á opinberum stöðum en þ. 7. snjóaði í Buenos Aires í Argentínu í fyrsta sinn í hundrað ár.
Nr 23, 1960, (10,83) Þessi júlí var eiginlega annars flokks eftirlíking af ofantöldum mánuðum. Hann var sólríkur og ansi hlýr á suðvesturlandi en jafnaðist að því leyti þó engan veginn á við 1936, 1939 og 1944, en var hlýjasti júlí í áratugi í þessum landshluta eftir 1960 og oft til hans vitnað á þeim sumarsvölu áratugum sem fóru í hönd eftir það ár. Fyrir norðan og austan var þungbúið og úrkomusamt og er þetta þriðji úrkomusamasti júlí á Akureyri, eftir 1932 og 1943. Og þetta var allra sólarminnsti júlí sem mældist á Hallormsstað, 75 klst (1953-1989). Í Reykjavík er þetta aftur á móti fimmti sólríkasti júlí en sá þriðji þegar hann kom. En á Fagurhólsmýri hefur aldrei mælst önnur eins úrkoma í júli, 338 mm.
Kongó fékk sjálfstæði en þar braust fljótlega út langvinn styrjöld. Fyrsta kona í heimi varð forsætisráðherra, Bandaranaike á Ceylon sem nú heitir Sri Lanka.
Nr. 33, 1953 (10,60) er sérstakur fyrir það að hann er hlýjasti júlí sem mældist á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Þar var meðalhitinn 13,1, ásamt júlí 1991. Góðviðri var um allt land. Mesti hiti á landinu var þó furðu lágur, 21,9 stig við rafstöðina í Andakíl þ. 9 en næstu nótt fór frostið í 0,7 stig í Möðrudal.
Þann 17. var gerður vopnahléssamningur í Kóreu þar sem stríð hafði geisað er kostaði þrjár miljónir lífið.
Nr. 15, 1945 (11,08), er merkastur fyrir það að hann er sá hlýjasti sem komið hefur á suðausturlandi. Á Kirkjubæjarklaustri var meðalhitinn 13,1 stig og 12,4 á Fagurhólsmýri og mánuðurinn er sá næst hlýjasti á Hólum í Hornafirði, 12,1 stig. Á Blönduósi hefur aldrei mælst eins hlýr júlí, 11,8 stig. Sums staðar annars staðar inn til landsins var þetta tiltölulega einnig sérlega hlýr mánuður. Hlýjast varð 26,7 stig á Teigarhorni þ. 30. en 25,2 stig á Hallormsstað þ. 17.
Stríðinu var enn ekki lokíð í Asíu og þ. 16. gerðu Bandaríkjamenn fyrstu tilraunir með kjarnokrusprengju og daginn eftir hófst ráðstefna Bandamanna í Potsdam.
Nr. 16, 1941 (11,05) er einhver úrkomuasamsti júlí sem mælst hefur. Á Teigarhorni við Berufjörð er hann næst úrkomusamasti júlí sem þar hefur mælst (mest 281,3 mm 1994). Hlýjast varð 25,0 stig á Hallormsstað þ. 21. en kaldast -0,4 í Núpsdalstunga, þ. 5.
Bandaríkjamenn tóku að sér hervernd Íslands þ. 7. og áttu eftir að vera ansi lengi að vernda.
Nr. 20, 2009 (10,94) Undarlegur mánuður. Í Reykjavík hafa aðeins fjórir júlímánuðir verið hlýrri, 2010, 1991 og 2007 en 1936 var jafn hlýr. Lengi leit út fyrir að mánuðurinn mundi setja mánaðar hitamet í höfuðstaðnum. Þegar 22 dagar voru liðnir af honum var meðalhitinn 13,5 stig. En þ. 23. skall á hastarlegt kuldakast sem stóð í fjóra daga og dró meðalhitann niður. Snjóaði þá í fjöll norðanlands en næturfrost komu syðra. En síðustu dagana var aftur hlýtt. Á landsvísu var þetta kast ekkert óskaplega vont miðað við ýmis önnur kuldaköst í júlí en á nokkrum stöðum á suðurlandsundirlendi mældist þó meiri kuldi en dæmi er um í júlí. Á Eyrarbakka fór hitinn í 0,5 stig þ. 25. og nóttina áður fór hann niður í 0,0 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum. Á sjálfvirku stöðinni á Hellu voru tvær frostnætur, minnst -1,6 stig þ. 24. Í Þykkvabæ mældist líka frost og fóru kartöflugrös þar mjög illa. Mjög þurt var í mánuðinum. Í Reykjavík hefur aðeins mælst minni úrkoma í júlí 1888 (8,1 mm). Þurrkamet voru víða sett. Hlýjast varð 25,6 stig þ. 1. á Torfum en sama dag mældust 26,3 stig þar á sjálfvirku stöðinni. Kaldast varð-2,7 stig á Brú í Jökuldal þ. 24. en á mannaðri stöð -1,0 stig á Torfum þ. 26. Hiti fór hvergi í 20 stig síðustu 10 daga mánaðarins, eftir kuldakastið.
Næstu fjórir mánuður sem hér verða taldir eiga það sameiginlegt að hafa verið afskaplega hlýir fyrir norðan og austan en að sama skapi votviðrasamir og rysjóttir á suður-og vesturlandi.
Nr. 13, 1926 (11,1). Þetta var mikll rigningarmánuður á suður-og vesturlandi og úrkomusamt var um allt land nema á norður- og austurlandi. Bæði í Reykjavík og Stykkishólmi er þetta úrkomusamasti júlí sem mældur hefur verið síðan Veðurstofan tók til starfa 1920. Í Reykjavík hafa aldrei verið fleiri úrkomudagar í júlí, 28. Mjög sólarlítið var í bænum en heldur skárra á Akureyri. Það er merkilegt við þennan mánuð að hann er hlýjasti júlí á ýmsum útnesjum fyrir norðan og austan, t.d. á Teigarhorni. Dagana 2.-7. voru miklir hitar fyrir norðan allt upp í 28,2 stig á Húsavik þ. 2. sem er mesti hiti sem þar hefur mælst. Eins og vænta má var heyskapartíð afleit víðast hvar á landinu nema á norður og austurlandi þar sem hún var þokkaleg. Mikið þrumuveður gekk yfir á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 7. og brotnuðu þá sjö símastaurar vegna eldinga.
Nr. 34, 1955 (10,59). Sumarið 1955 var alræmt á suðurlandi fyrir úrkomu og var lengi hið arkatýpíska rigningarsumar í hugum fólks þar um slóðir en er nú tekinn að fyrnast nokkuð. Þetta er fjórði sólarminnsti júlí í Reykajvík. Sunnan og suðvestan var alsráðandi og sýnir kortið suðvestanstrenginn í háloftunum. Þessi júlí var enda sá úrkomusamasti sem komið hefur á Eyrarbakka, 228,0 mm, og í Vestmannaeyjum. Einnig á Andakílsárvirkjun í Borgarfirði frá 1950, 175 mm og sunnanverðu Snæfellsnesi. Í Kvígindisdal mældist aldrei meiri úrkoma í júlí 1928-2004, 292 mm og á Lambavatni frá 1922, 183 mm. Á suður-og vesturlandi var sem sagt með afbrigðum óþurrkasamt og náðist ekkert hey í hlöður nema vothey, en á norðausturlandi- og austfjörðum gekk heyskapur að óskum. Óþurrkarnir náðu hins vegar að nokkru leyti til vestanverðs norðurlands. Eftir mínum kannski ófullnægjandi en samt skýru reikniaðferðum (sjá Skýrignar) er þetta úrkomusamasti júlí síðan mælingar hófust. Á Akureyri er þetta næst hlýjasti júlí sem mælst hefur og víða á öllu svæðinu frá norðvesturlandi til austfjarða en á Úthéraði og á Hallormsstað er þetta hins vegar hlýjasti júlímánuðurinn. Einnig á Húsavík og í Aðaldal. Hitinn á Skriðuklaustri var skráður 13,6 stig sem er næst mesti meðalhiti í júlí á landinu á eftir júlí 1991 á Írafossi þar sem meðalhitinn var 13,7 stig. Mjög hlýtt var þ. 24. fyrir norðan og austan og komst hitinn þá í 27,3 stig í Fagradal í Vopnafirði. En að sólarhringsmeðaltali var hitinn þennan dag sá mesti nokkurn dag ársins á Akureyri frá 1949, 20, 9 stig. Eftir þennan mánuð hafa ekki komið 13 stiga mánuðir á Akureyri.
Í þessu rigningarsama mánuði skaust fyrsta rokklagið upp í efsta sæti vinsældalistans í Bandaríkjunum, Rock around the Clock með Bill Haley. Eisenhower forseti Bandaríkjanna kom við á Keflavíkurflugvelli þ. 16. og þ. 18. var Disneyland opnað. Magnús Ásgeirsson skáld lést hinn 30.
Nr. 27, 1984 (10,79). Júlí þessi var einnig mikill rigningarmánuður syðra eftir þ. 11. en aftur á móti hlýr og góður á norður og austurlandi. Í Reykjavík er þetta áttundi sólarminnsti júli. Fyrir norðan hafði ekki komið eins hlýr júlí síðan 1955. Aldrei hefur mælst hlýrri júlí í Reykjahlíð við Mývatn en þar hófust mælingar 1937 og þetta er næst hlýjasti júlí á Hallormsstað. Hlýjast varð 26,3 stig á Vopnafirði þ. 18. Hafísa varð vart á norðanverðum Vestfjörðum, í utanverðum Húnaflóa allt að Gjögurtá og austan Eyjafjarðar. Á Sámmstöðum í Fljótshlíð hefur aldrei mælst minna sólskin í júlí, 49,7 klst (frá 1964).
Ragnar Jónsson í Smára dó hinn 12. en ólympíuleikarnir hófust þann 28. í Los Angeles.
Nr. 21, 1976 (10,87) Þessi mánuður er minnisstæðastur fyrir mikla hitabylgju sem gerði dagana 9. og 10. Fyrri daginn komst hitinn í Reykjavík í 24,3 stig sem þá var mesti hiti sem þar hafði mælst í nútímaskýli. Mestur varð hitinn á landinu hins vegar 26,8 stig á Akureyri þ. 9. Eftir hitana brá fljótlega til rigninga á suðurlandi og var þetta þar mikið rigningasumar.
Nr. 28, 1919 (10,80) Vestan- eða suðvestanáttamánuður mikil enda mældist þá hlýjasti júlí sem komið hefur á Seyðisfirði frá 1907, 13,5 stig. Nokkrir afar hlýir dagar komu í mánuðinum og á Möðruvöllum í Hörgárdal voru 9 dagar sem hitinn náði 20 stigum eða meira. Þar var mánuðurinn reyndar votviðrasamasti júlí sem þar mældist árin 1914-1925, 71,7 mm. Á Seyðisfirði var 26 stiga hiti einn morguninn kl. 6 en því miður voru engar hámarksmælingar á staðnum. Á mestöllum Húnaflóa var talsverður hafís. Í höfuðstaðnum er mánuðurinn sá níundi í röðinni að sólarleysi.
Hið ólánsama Weimarlýðveldi var stofnað í Þýskalandi síðasta daginn.
Nr. 35, 1913 (10,50) Þessi mánuður er aðeins sá 35. hlýjasti á veðurstöðvunum níu. Hann er hins vegar ódauðlegur fyrir það að enginn júlí í höfuðborginni hefiur verið eins nískur á sólarblíðu sína, aðeins 66 klukkustundir. Þórbergur var eitthvað að væflast í höfuðstaðnum, skólaus og svangur, en það var reyndar ekki fyrr en næsta sumar sem hann var næstum því dauður úr hungri. Hann hafði ráðið sig í að mála hús en þá þornaði aldrei á steini svo tekjurnar urðu engar. Sumarið 1914 var líka mikið rignargarsumar.
Sumrin fóru að hlýna nokkuð á Íslandi á tíunda áratug 20. aldar eftir langan tíma með svölum sumrum. Komu þá nokkrir fremur hlýir mánuðir en eftir að 21. öldin gekk í garð fór að hlýna verulega. Hafa síðan verið yfirleitt góð og hlý sumur, ekki síst sunnanlands og vestan. Þrír hlýir júlímánuðir í röð, nr. 17, 2003 (10,99), nr. 14, 2004 (11,09) og nr. 15, 2005 (11,01) eru til vitnis um breytta veðurtíma, en þó verður að segjast að sumarhlýindin sem nú eru jafnast ekki alveg á við það besta sem var frá miðjum þriðja áratugnum fram í miðjan fimmta áratuginn.
1990 Nr. 23 (10,81) Óvenjulega þurrt var um miðbik norðurlands og er þetta næst þurrasti júlí á Akureyri. Úrkoma var hins vegar mikil sunnanlands, einkum síðari hluta mánaðarins, og er þetta næst úrkomusamasti júlí í Vestmannaeyjum. Á Kvískerjum var úrkoman 472,1 mm en aðeins 7,7 mm á Ísafirði. Mikið úrfelli var á suðausturlandi þ. 24. og næstu nótt og á Vagnsstöðum í Suðurveit mældist sólarhringsúrkoman 111,2 mm að morgni þ. 25. og 106,5 mm á Kvískerjum. Mjög hlýtt var þ. 14. þegar hitinn fór í 26,1 stig á Vopnafirði. Í Reykjavík fór hitinn í 20,4 stig þ. 27. en tuttugu stiga hiti er ekki alltof algengur í Reykjavik.
1994 Nr. 21 (10,9) Þetta er úrkomusamasti júlí sem mælst hefur á Teigarhorni frá 1873, 281,3 mm. Enn meiri var þó úrkoman á Kvískerjum, 484,3 mm og þar var sólarhringsúrkoman 185,0 m þ. 30. sem er mesta sólarhringsúrkoma í júlí á landinu. Sama dag mældust 177,5 mm í Skaftafelli og 146,1 mm á Vagnsstöðum í Suðursveit. Á Egilsstöðum var mánaðarúrkoman aðeins 7,6 mm. Þetta var annars suðaustanáttamánuður og var fremur dumbungslegt víða en þó sólríkt við Mývatn. Þar mældist mesti hiti mánaðarins, 26,4 stig þ. 6.
Í þessum mánuði hófst þjóðarmorðið ægilega í Ruanda.
2000 Nr. 28 (10,7) Þurr og sólríkur mánuður um allt land og víða var talinn einmuna blíða. Óvenjulega þurrt var norðan lands og austan. Í Neskaupstað var úrkoman aðeins 2,6 mm. Á Teigarhorni er þetta áttundi þurrasti júlí. Mjög votviðrasamt var hins vegar syðst á landinu, 439,7 mm á Skógum undir Eyjafjöllum þar sem sólarhringsúrkoman mældist 184,7 mm að morgni þ. 22. sem er aðeins 0,3 mm frá Íslandsmetinu 1994. Mjög hlýtt var um þetta leyti og hitinn fór í 24,8 stig þ. 24. á Torfum í Eyjafirði.
Enginn annar en Paul McCartney kom til landsins og einnig Haraldur Noregskóngur og hans drottning.
2003 Nr 19 (10,99) Hlýr en afar vætusamur og fremur sólarlítill mánuður. Hann er ekki síst eftirtektarverður fyrir það að í kjölfar hans fór hlýjasti ágúst sem mælst hefur og reyndar hlýjasti mánuður sem mælst hefur á landinu yfirleitt. Hitabylgju gerði dagana 17.-19. og var hún mest á suðurlandsundirlendi. Komst hitinn í 26,2 stig á Írafossi þ. 18. og 26,0 á Jaðri og víða í 25 stig á suðurlandi þennan dag og þann næsta. Þann 18. gerði mikið skúraveður með þrumum og eldingum við Landmannahelli. Úrfelli mun hafa verið gríðarlegt og féllu margar skriður úr fjöllum sem skildi eftir sig ljót sár.
2004 Nr, 14 (10,9) Fremur sólríkur mánuður alls staðar og þurr fyrir norðan. Á Sauðanesvita var úrkoman aðeins 2,9 mm. Þann 5. var feiknarlegt staðbundið úrfelli með þrumuveðri á Galtalæk og nágrenni í Hrunamannahreppi. Féllu aurskriður við bæinn Sólheima og ollu nokkrum skemmdum á gróðri. Á Staðarhóli í Aðaldal mældist mesti hitinn á mannaðri stöð, 25,2 stig þ. 9 - og einnig mest kuldinn -2,1 stig þ. 4.
Stórleikarinn Marlon Brando lést fyrsta daginn.
2005 Nr. 18 (11,0) Votviðrasamur mánuður. Seinni hluta mánaðarins kom langur góðviðriskafli sunanlands og vestan. Dagana 19.-27. fór hitinn yfir 17 stig alla dagana nema einn í Reykjavík en þó aldrei hærra en í 19,4 stig og flesta þessa daga var sólríkt. Miklu hlýrra varð þó innsveitum eins og venjulega. Komst hitinn í 24 stig á Þingvöllum þ. 22. en 25,9 stig á Búrfelli þ. 23. og 25,6 á Kálfhóli og nokkrum öðrum stöðvum yfir 25 stig, svipað næsta dag, en svo nokkru minna nokkra daga þar á eftir en þó vel fyrir tuttugu stig.
Þann 14. lést Hlynur Sigtryggsson fyrrverandi Veðurstofustjóri og fór útför hans fram nokkru seinna í óminnilegri veðurblíðu.
Ef litið er til júlímánaða fyrir 1867 allt til aldamótanna verður fyrstur á vegi júlí 1808. Þá var athugað í grennd við Akureyri og eftir þeim virðist mánuðurinn hafa verið hlýindamánuður fyrir norðan á borð við júli 1955. Reyndar hófst þessi júlí á hryssingslegri norðanátt en hlýindin hófst þann 4. þegar hitinn flaug upp í 24 stig um miðjan dag. Samkvæmt mælingunum var tuttugu stiga hiti eða meira lesinn á mæli fimm daga og mestur 25,8 stig um miðjan dag þ. 22. og þá voru 19 stig um morguninn og kvöldið. Að kvöldi hins 8. var lesinn minnsti hitinn, 3,4 stig. Undir lok mánaðarins kólnaði og voru kuldar lengst af í ágúst eins og flesta mánuði á þessum árum. Árið 1855 er júli á Akureyri talinn vera hvorki meira né minna en 13,8 stig eftir mælingum sem gerðar voru í nánd við Siglufjörð. Í Stykkishólmi var hitinn þá 11,5 stig en ekki var athugað í Reykjavik. Eftir athugunum Jóns Þorsteinsssonar í Reykjavik skera júlímánuðirnir þar árin 1829 og 1838 sig úr. Sá fyrri með 13,5 stig en sá síðari með 13,0 stig. Júlí 1824 og 1828 eru báðir með 12,8 stig. Allar þessar tölur eru ónákvæmnar og líklega fremur ofætlaðar en hitt. Í júli 1842 var meðalhitinn í Reykjavík 12,7 stig en 11,7 í Stykkishólmi.
Í fylgiskjalinu, sem allir bíða með öndina í hálsinu eftir að kynna sér, má sjá hita og úrkomu allra 35 hlýjustu júlímánuðina (já, ansi margir) á þeim stöðum sem lengst hafa athugað og auk þess sólskinsstundir í Reykjavík og á Akureyri.
Það má líka sjá hlýjustu mánuði eftir landshlutum, suður-vesturland og norður-austurland. Í fyrri flokknum eru Reykjavík, Hæll, Eyrarbakki og Vestmannaeyjar, en í þeim seinni Akureyri, Grímsey, veðurstöðvar á Úthérað og Teigarhorn. Geta þá þolinmóðir og óbugaðir lesendur spreytt sig á að finna hlýjustu mánuðina í þessum landshlutum út af fyrir sig. Meðaltal úrkomu er líka haft með að gamni þó mælingar á henni séu stundum stopular fyrir þessa staði.
Komist einhver í gegnum allan þennan vísdóm alveg klakklaust er honum sannarlega ekki alls varnað í veðurdellu sinni!
Seinna fylgiskjalið sýnir veður í Reykajvík í júlí 1880, 1939, 1991 og 2010 og Akureyri 1955 og svo hámarkshita hvers dags 1991 og 2008.
Þjóðviljinn 20. júlí 1894, Stefnir 19. júli 1894.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 8.12.2011 kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2011 | 00:36
Hlýjustu júnímánuðir
Meðaltal stöðvanna níu í júní 1961-1990 er 8,1 stig.
1933 (10,3) Júní 1933 er sá hlýjasti sem mælst hefur landinu í heild og einnig á Akureyri þó nokkur vafi leiki þó reyndar á hitanum þar þennan mánuð. Hvergi á öðrum veðurstöðvum á norður og austurlandi var þetta allra hlýjasti júní en litlu munaði þó. Á suðurlandi var einnig mjög hlýtt. Veðráttan gerir undarlega lítið með þennan góða mánuð: Tíðarfarið var yfirleitt hagstætt, einkum á NA-landi. Fyrri hluti mánaðarins var vætusamur og voru þá sunnan eða suðaustanáttir." Úrkoma var mikil um allt land, kringum 75% yfir meðallaginu, en þó einkum á austanverðu landinu og á suðausturlandi. Á Teigarhorni er þetta fjórði úrkomumesti júní (frá 1873) og fjórði á Akureyri (frá 1925) en undangenginn maí var ekki mælanleg úrkoma þar. Á Fagurhólsmýri mældist sólarhringsúrkoman 81,5 mm að morgni þ. 5. og 64,3 mm á Kirkjubæjarklaustri. Þrátt fyrir mikið úrkomumagn austanlands var suðvestanátt algengasta vindáttin og var fremur hægviðrasöm. Sólin var af skornum skammti syðra en kringum meðallag fyrir norðan. Eitt stutt kuldakast kom í þessum blíða mánuði, dagana 16.-18. Þá var norðaustanátt og slydda á Vestfjörðum og til heiða á norðurlandi og gránaði jörð einn daginn á Hesteyri í Jökulfjörðum. Í þessu kasti mældist mesti kuldi í byggð, 1,0 stig á Grænhóli á Ströndum þ. 17. Kaldast á landinu varð hins vegar -3,1 stig á Jökulshálsi, austan við Snæfellsjökul í 825 m hæð en þar var mælt þetta ár. Eftir kastið tók við hægviðri og hlýindi. Dagana 24.-26. var kyrrt og bjart veður og afar hlýtt og fór hitinn í 26,6 stig á Kirkjubæjarklaustri þ. 26. Á suðurlandsundirlendi var einnig um og yfir tuttugu stiga hiti þessa daga. Jafnvel í Reykjavík var hámarkshitinn 17-19 stig og glampandi sólskin og urðu bæjarbúar glaðir við. Hæð var fyrir sunnan land og um Grænlandshaf.
Síðustu fjóra dagana var vestanátt með rigningu á vesturlandi en hlýindum og þurrviðri á norðausturlandi og austfjörðum. Hitinn fór í 22,2 stig á Hólum í Hornafirði þ. 27. en daginn eftir í 25,1 stig á Hraunum í Fljótum og 23,4 á Grímsstöðum og síðasta daginn mældust í 22,1 stig á Teigarhorni. Á Klaustri var meðaltal hámarkshita í mánuðinum skráð 17,1 stig, sem er reyndar grunsamlega hátt, en meðalhitinn var 12,0 stig. Tuttugu stiga hiti á landinu var tiltölulega oft í þessum mánuði, bæði fyrstu dagana og síðustu vikuna. Kortið sýnir áætlað frávik hita í 850 hPa fletinum í rúmlega 1400 metra hæð og er hann tvö til þrjú stig yfir meðallagi 1968-1996 sem er ansi nærri því sem hann var við yfirborð en munurinn á hita 1961-1990 og 1968-1996 á Íslandi má heita enginn. Talsverður jarðskjálfti varð þann 10. á suðvesturlandi. Upptökin voru skammt fyrir sunnan Keili og stærðin var tæpir sex á Richter. Skjálftinn olli engum skemmdum.
Á eftir þessum mánuði kom hlýjasti júlí á landinu og á undan honum fór fimmti hlýjasti maí.
Meðalhiti mánaðarins:
1909 (10,2) Þetta er hlýjasti júní sem mælst hefur á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum og sá næst hlýjasti á suðurlandsundirlendi og í Grímsey. Það var svo hægviðrasamt að næstum því má segja að ekki hafi hreyft vind allan mánuðinn. Og þetta er einn af allra þurrustu júnímánuðum. Segja má að háþrýstisvæðið við Asoreyjar hafi teygt sig alveg til landsins. Sjá kortið frá hæð 500 hPa flatarins. Miðað við Stykkishólm, Teigarhorn og Vestmannaeyjar er þetta sjötti þurrasti júní ef júní 2010 er undanskilinn en þá var ekki mælt á Teigarhorni en sá mánður var einnig mjög þurrviðrsamur. Úrkomudagar voru einungis fjórir á Teigarhorni. Fyrir norðan þótti líka ansi þurrt. Hægar vestlægar áttir voru viðvarandi fram yfir miðjan mánuð og var þá oft skýjað og sólarlítið vestanlands en mikil hlýindi suma daga fyrir norðan og austan. Þann 5. var hitinn 21,5 stig á Akureyri og 21,7 stig á Seyðisfirði þ. 12. Vindur snérist til austlægar áttar í fáeina daga frá þeim 16. og fór hitinn í Reykjavík í 17 stig þ.17. Fljótlega snérist aftur til vestanáttar eða hæðgviðris og síðustu dagana var mjög hlýtt, 21,4 stig á Akureyri þ. 24. og síðasta daginn 21,2 stig á Seyðisfirði. Kaldast í mánuðinum var 0,3 stig á Grímsstöðum. Sláttur á bestu bæjum byrjaði viku fyrir Jónmessu og þótti einsdæmi.
Vatnsveitan í Reykjavík var tekin í notkun í þessum mánuði.
2010 (10,1) Bæði í Stykkishólmi og Reykjavík er þetta hlýjasti júní sem mælst hefur og líka fyrir þessa staði saman. Fyrir allar níu stöðvarnar eru júní 1933, 1909 og 1941 hins vegar hlýrri. Og það sýnir vel að stöðvarnar í Stykkishólmi og Reykjavík duga ekki einar sér til að gera sér nokkurn vegin grein fyrir hita á öllu landinu. En þær verða þó að nægja þegar ekki er um að að ræða mælingar frá fleiri stöðvum eins og er um sum árin sem fjallað er um í þessum pistlum. Þetta er einnig hlýjasti júní sem mælst hefur í Hreppunum frá 1880 og á Hveravöllum frá 1965, 8,5 stig. Á Kirkjubæjarklaustri er þetta þriðji hlýjasti júní, eftir 1933 og 1941. Meðaltal hámarkshita á Hæli var 16,1 stig sem er með því mesta sem gerist í júni. Mánuðurinn var afskaplega þurr á norðausturlandi, sá þurrasti við Mývatn og næst þurrasti á Akureyri, eftir 2007. Þar var þetta fjórði sólríkasti júní frá 1926. Mjög hlýtt og bjart veður var á landinu í upphafi mánaðarins. Meðalhitinn þann 4. var dagshitamet að sólarhringsmeðaltali í Reykjavík 14,4, stig, en hámarkshitinn var 19,2 stig. Aldrei varð hámarkshi þó neitt afskaplega mikill á landinu öllu miðað við háan meðalhitann. Hlýjast varð 22,5 stig á Torfum í Eyjafirði þ. 18. Hámarkshiti á landinu var reyndar lægstur síðasta daginn, 17,4 stig. Kaldast varð aftur á móti -3,0 stig á Staðarhóli í Aðaldal þ. 3. Meðalhiti allra daga var í Reykjavík yfir dagsmeðaltalinu. Meðalhiti hámarkshita á landinu á mönnuðum stöðvum var 18,7 stig en með sjálfvirkum stöðvum 20,0 stig og gerist varla meiri. Þykktin yfir Keflavík á hádegi og miðnætti var 5475 m en á kortinu má sjá frávikið frá meðallagi. Mikil þykkt skapar skilyrði fyrir hlýindi.
Áttundi hlýjasti júlí kom á eftir þessum mánuði. Meðalhiti júní 2010 á nokkrum stöðvum:
1871 Ef eingöngu er miðað við Reykjavík og Stykkishólm er ljóst að júní 1871 er sá næst hlýjasti, eftir 2010, 2,3 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Næstur í röðinni fyrir þessa tvo staði er júní 2003 en sá júní nær þó ekki að vera með allra hlýjustu júnímánuðum eftir að hægt er að fylla út töflu með þeim níu veðurathugunarstöðvum sem lengst hafa mælt frá því fyrir aldamótin 1900. Það er því ómögulegt að segja hver meðalhitinn á þeim öllum hefur verið í júní 1871. En ljóst er að sá mánuður var afar hlýr. Við setjum hann hér í fjórða sæti af því að hann er ekki alveg jafn hlýr í Reykjavík og Stykkishólmi og 2010. Hæðasvæði var oft milli Skotlands og Noregs en lægðir á Grænlandshafi. Kortið sýnir áætla hæð 850 hPa flatarins í rúmlega 1400 m hæð.
Framan af voru miklir hitar, einkum i dölum norðanlands, í Eyjafirði voru t.d. 20° R. [25° C] í forsælu um hádegi og 15° R [19° C] undir miðnætti, segir Þorvaldur Thoroddsen án þess að skýra það nánar með stað og dagsetningu. Nokkuð rigndi í Stykkishólmi þennan tíma í mildri sunnanátt. Þar var hitinn 11-13 stig hvern morgun frá þeim 8. til hins 16. Þegar sláttur hófst, segir Þorvaldur ennfremur, tók að þorna vestan- og sunnanlands, en fór í staðinn að rigna norðanlands- og austan. Var alveg þurrt í Stykkishólmi frá því rétt fyrir miðjan mámuð og til mánaðarloka og stundum bjart yfir að undanteknum tveimur dögum í síðustu vikunni þegar rigndi nokkuð. Áttin var þennan tíma oft austlæg. Hámarkshiti varð engan dag lægri en tíu stig í Stykkishólmi en var furðu oft um og yfir fimmtán en mest 17,2 stig þann 10. og aftur þann 29. Minnstur hiti var 2,3 stig þann 20. Þetta var því gósentíð. Sagt var að sunnanlands hafi þurkurinn verið minnstur í Skaftafellssýslu en fyrir norðan voru rigningar minnstar í Húnavatnssýslu þegar þar fór að rigna. Um miðjan mánuð var grasvöxtur orðinn meiri en vanalega í júlí og byrjaði sláttur því víða næstum því mánuði fyrr en venjulega.
1941 (10,1) Þessu júní kom á eftir níunda hlýjasta maí. Veðráttan segir: Tíðarfarið var mjög gott og hagstætt. Spretta ágæt og gæftir til sjávar góðar. Óþurkasamt síðari hluta mánaðarins." Á Hólum í Hornafirði er þetta hlýjasti júní sem þar hefur mælst 11,3 stig og einnig á Kirkjublæjarklaustri, 12,0, ásamt júní 1933. Síðasta talan er reyndar hæsta júnítala meðalhita á veðurstöð á sunnanverðu landinu. Í Borgarfirði og á suður Snæfellsnesi hefur ekki heldur mælst hlýrri júlí. Í Reykjavík var mánuðurinn sá fjórði hlýjasti eftir 2011, 2003 og 1871. Fyrstu dagana var afar hlýtt, 25,7 stig þ. 3. á Teigarhorni en nóttina áður mældist reyndar lægsti hiti mánaðarins í Reykjavík, 6,7 stig sem þá var hæsti lágmarkshiti sem þar hafði mælst í júní og var ekki slegið fyrr en árið 2003. Hæð var þessa daga yfir landinu eða nærri því og hægviðri. Hélst hægviðrið áfram þegar grunn lægð var yfir landinu 7.-12. og var þá bjart að mestu. Aðfaranótt hins 10. var næturfrost á fáeinum stöðvum, mest -2,0 stig á Grímsstöðum. Um daginn fór hitinn á Þingvöllum hins vegar í 18, 3 stig. Eftir þetta fór að rigna allmikið sunnanlands og í heild var óþurrkasamt það sem eftir lifði mánaðar. Þann 19. var mjög hvasst af suðri og fauk þá þak af húsum sums staðar. Um morguninn mældist mikil úrkoma á suður og suðausturlandi, mest 52,3 mm á Fagurhólsmýri. Djúp lægð var að fara austur yfir landið. Í kjölfarið kom mjög hlý sunnanátt en í Vestmannaeyjum var þá stormur í tvo daga. Þar á bæ fór hitinn í mánuðinum aldrei lægra en í 7,3 stig sem er í hæsta lagi óvenjulegt í júní. Veit ég ekki betur en þetta sé hæsta mánaðarlágmark veðurstöðvar í þeim mánuði. Eins konar hitabylgja kom þ. 23. þegar 24,8 stig mældust á Hallormsstað en 20-23 í innsveitum norðanands. Mikið þrumuveður var þennan dag fyrir norðan, alveg frá Skagafirði til Mývatnssveitar. Þann 25. dró til skammvinnrar og hægrar norðaustanáttar með talsveðri úrkomu víða. En síðustu dagana var hægur vindur en grunnar lægðir í námunda við landið. Á Hallormsstað var meðaltal hámarkshita í mánuðinum 17,6 stig sem er það hæsta sem skráð hefur verið í júní á nokkurri stöð en líklega hafa mæliaðstæður valdið því að þetta meðaltal er óeðlilega hátt miðað við meðalhitann sem var ekki meiri en 11,3 stig. Á Hallormsstað var meðalhitinn 11,7 stig í júní 1953 en þá var meðaltal hámarkshita aðeins 15,3 stig. Það er áberandi hve hámarkshitameðaltöl á sumrin eru oft skráð ótrúlega há í Veðráttunni á þriðja, fjórða og fimmta áratugnum. Valda því líklega fyrst og fremst ófullnægjandi aðstæður varðandi hitamælaskýli. Úrkoman var aðeins undir meðallagi í heild á landinu og miklu minni en 1933, einkum á suðausturlandi og norðurlandi. Sólarstundir voru lítið eitt færri í Reykjavík en 1933 en 30 klukkustundum færri á Akureyri. Þetta var því ekki neinn sólskinsmánuður. Suðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum enda var úrkoman á Höfn í Bakkafirði aðeins 12 mm. Hæðahryggur var yfir Norðurlöndum en þrýstingur var lágur suðvestur af landinu. Sjá kortið sem sýnir meðalþrýsting við sjávarmál.
Þau stórtíðindi gerðust þann 22. að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin með lengstu víglínua sögunnar.
Árið 1940 (9,2, nr. 14) féllu veðurathuganir niður á Hallormsstað en á Úthéraði var þá veðurstöð og hafa þar verið stöðvar allt frá 1898. Þessi júní var sá hlýjasti á þessum slóðum þó hann hafi hvergi slegið met nema þar. Hann lá líka í suðvestanátt með rigningu og sólarleysi víðast hvar nema á norðausturlandi. Samt sem áður var gífurleg úrkoma á austurlandi síðast í mánuðinum. Að morgni þess 29. mældust 111,6 mm á Dalatanga sem var þá met fyrir sólarhringsúrkomu í júní sem féll svo árið 2002. Miklir skaðar urðu af skriðuföllum og sérstaklega varð Eskifjörður illa úti.
2007 (9,8) Þetta er þá sjöttu hlýjasti júní. Fyrstu vikuna var oft rigning á suður- og vesturlandi en blíðviðri fyrir norðan. Á Akureyri var úrkoman reyndar aðeins 0,4 mm í öllum mánuðinum og hefur aldrei verið minni í júní. Eftir miðjan mánuð var góðviðri um allt land og kom varla dropi úr lofti í Reykjavík. Þann 23. var sólin þar 18,0 klst og hitinn fór upp í 17,4 stig. Síðustu þrjá dagana var líka hlýtt og sólríkt i höfuðstaðnum. Hitinn var yfir meðallagi í Reykjavík alla daga nema tvo. Varla gerði næturfrost í byggð. Þó fór hitinn í -0,3 stig þ. 12. á Grímsstöðum en í -3,7 stig á sjálfvirku stöðinni á Gagnheiði uppi á reginfjöllum þ. 12. Mesti dagshiti á landinu var oft um eða yfir tuttugu stig en fór þó aldrei mjög hátt. Mestur hiti mældist á sjálfvirku stöðinni á Egilsstaðaflugvelli 23,0 stig þ. 9. en mest á mannaðri stöð 21,0 stig þ. 5. á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og Raufarhöfn. Kortið sýnir frávik 500 hPa flatarins í mánuðinum.
1953 (9,7) Á Húsavík var meðalhitinn 12,7 stig og er það mesti meðalhiti sem skráður er á veðurstöð á Íslandi í júní. Þetta er einnig hlýjasti júní á Grímsstöðum á Fjöllum frá upphafi mælinga 1907, 10,8 stig. Grasspretta var með ágætum en sunnanlands og vestan voru óþurrkar svo slætti var allvíða frestað. Í Vík í Mýrdal var úrkoman 286 mm en aðeins 0,8 á Húsavík. Það var sólríkara en 1933 og 1941, bæði fyrir sunnan og norðan. Mánuðurinn byrjaði reyndar fremur kuldalega og var sá fyrsti kaldasti dagurinn. Hægviðri var þá og mikið til bjart á norðausturlandi. Fór frostið þann annan í -4,8 stig í Möðrudal og víða voru næturfrost fyrir norðan og austan og jafnvel á Þingvöllum fraus eina nótt. Hæð var fyrst yfir landinu en síðan sunnan við það. Frá þeim sjötta og til mánaðarloka voru lægðir oftast sunnan eða vestanvert við landið. Var þá oft úrkomusamt á suður og vesturlandi og einstaka sinnum um land allt. Hæðahryggur var annars oft yfir Norðurlöndum en hæð yfir Kolaskaga í þessum mánuði en lægðir á Grænlandshafi. Þykktin yfir landinu upp í 500 hPa flötin var því meiri sem norðaustar dró. Sjá kortið. Gott veður var á sautjándanum, 15 stiga hiti í Reykajvík en 18 í Borgarfirði og á Hólsfjöllum. Á suðurlandi og um miðbik vesturlands voru stórrigningar 22.-23. Að morgni hins 23. mældist sólarhringsúrkoman í Vík í Mýrdal t.d. 72 mm og 58 mm á Kirkjubæjarklaustri. Hlýtt var fyrir norðan og næsta dag mældist hitinn 26,2 stig á Sandi í Aðaldal og meðalhitinn á Akureyri var 17,3 stig sem er dagshitamet og með hlýrri júnídögum sem koma yfirleitt að meðalhita. Daginn eftir fór hámarkshitinn í 25,0 á Húsavík. Þessa daga komst hitinn víða annars staðar fyrir norðan í 20-24 stig. Héldust hlýindi á landinu nánast til mánaðarloka og þ. 28. fór hitinn á Síðumúla í Hvítarsíðu í 21 stig, 20 í Dölum og svipað í Hrútafirði.
Elísabet Englandsdrottning var vígð þann 2. í alveg sjaldgæfum kulda miðað við árstíma í Englandi. Daginn áður barst sú frétt um heiminn að Everest hefði verið klifið í fyrsta sinn. Uppreisn var gerð í A-Berlín en hún var bæld miskunnarlaust niður. Síðast en ekki síst var þetta frægur aftökumánuður. Rosenberghjóinin voru tekin af lífi í Bandaríkjunum þ. 19. og er það einhver umdeildasta aftaka sögunar. Og þ. 29. var fjöldamorðinginn og kynferðisglæpamaðurinn John Christie tekinn af lífi í Englandi.
Júní 1954 var aðeins í rúmu meðallagi að hita yfir landið en sló þó met í Hreppunum þar sem athugað hefur verið síðan 1880. Meðalhitinn á Hæli var 11,4 stig og hefur aðeins orðið hærri árið 2010. Meðaltal hámarkshita þar var og óvenju hátt, 16,8 stig sem er það hæsta sem skráð er í júnímánuði á suðurlandsundirlendi. Þetta var reyndar síðasti júní á stöðinni þar sem mælt var í veggskýli og er þetta hámarksmeðaltal kannski grunsamlega hátt. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð var meðalhitinn 11,0 stig en meðaltal hámarkshita 14,4 stig og þar var líka bara veggskýli. En á Sámsstöðum verður hámarkshiti á sumrin reyndar yfirleitt ekki eins mikill sem á Hæli. Mjög hlýtt var á landinu dagana 4.-6. Þann 6. á hvítasunnudag fór hitinn í Reykjavík í 20,7 stig en víða á suður og vesturlandi í 21-23 stig. Þetta voru hlýjustu dagar mánaðarins. Og menn voru alveg ölvaðir af sumargleði!
Það voru mikil tíðindi þegar almyrkvi á sólu varð syðst á landinu þ. 30. en vel rökkvaði í Reykjavík. Man bloggarinn ágætlega eftir þessum atburði. Hann fór reyndar að skæla því einhver barnagárunginn skrökvaði því að honum að væri að koma heimsendir! Myrkvinn sást á 150 km belti sem lá reyndar að mestu fyrir sunnan land en norðurtakmörk þess var bein lína sem lá yfir Kross í Landeyjum, og Langholt í Meðallandi. Annars staðar varð deildarmyrkvi. Í Vestmannaeyjum hófst almyrkvinn kl. 11:04 og stóð í rúmlega hálf aðra mínútu. Bjart var á suðurlandi þegar þetta gekk yfir.
2003 (9,7) Þetta er áttundi hlýjasti júní og virðist vera einhver sá allra úrkomusamasti sem mælingar ná yfir, næstur á eftir 1889 og svipaður og 1930 og 1969 og er þetta úrkomusamasti mánuður sem hér er fjallað um. En hann státar einnig af því að vera næst hlýjasti júní sem mælst hefur í Reykjavík en sá níundi úrkomusamasti. Á Lambavatni á Rauðasandi í Barðarstrandarsýslu, þar sem mælt hefur veríð síðan 1923, var þetta hlýjasti júní sem þar hefur komið, 11,1 stig. Í Reykjavík var meðlhitinn mjög jafn, aldrei mjög hár, hæstur 12,4 þ. 24., en heldur aldrei lægri en 9,5 stig þ. 3. Ekki var sérlega hlýtt á landinu lengi framan af. Næturfrost mældist til dæmis -0,1 stig á Hveravöllum þ. 3. en á Gagnheiði -2,3 stig þ. 16. Á láglendi fór hitinn minnst í 0,2 stig á Staðarhóli þ. 3 og aftur þ. 16. á Miðfjarðarnesi. Hiti komst ekki í tuttugu stig á mönnuðum veðurstöðum fyrr en þann 22. en var það svo hvern dag til mánaðarloka. Á Akureyri komu dagshitamet fyrir meðalhita þ. 25. og 26. Mestur hámarkshiti varð 23,6 stig á Mánárbakka þ. 26. en á sjálfvirkri stöð 24,9 stig á Hallormsstað þ. 29. Síðasta dag mánaðarins var blíða á suðurlandsundirlendi og fór hiti þar víða í nákvæmlega tuttugu stig. Meðaltal hámarkshita mannaðra stöðva var 18,5 stig en 19,0 í júní 2002. Mjög var vætusamt sunnanlands og austan en þurrviðrasamt á norðvesturlandi. Úrkoman á Kvískerjum var 405,5 mm en 15,9 mm á Mjólkárvirkjun inn af Arnarfirði og 15,2 mm í Dalsmynni í Skagafirði. Sólskinsstundir á Hólum í Hornafirði voru einungis 45,6. Það er ekki aðeins minnsta sólskin sem þar hefur mælst í júní frá 1958 heldur hefur aldrei mælst eins lítið sólskin í júní á veðurstöð á Íslandi. Lægðir gerðu sig aðsópsmiklar suður af landinu en kortið sýnir loftþrýsting við yfirborð.
Júní 2002 (9,2), sautjándi hlýjasti á landinu, er tekinn hér með vegna þess að þá mældist mesti hiti sem mælst hefur í júní í Reykjavík og mesta sólarhringsúrkoma á landinu þó mánuðurinn nái ekki að vera meðal tíu hlýjustu yfir landið. Meðalhitinn var 10,8 stig í Reykjavík, sjötti hlýjasti þar frá 1866, og mánuðurinn var svipaður að hlýindum á suðurlandsundirlendi og 2003. Á Hellu var hitinn 11,1 stig en 11,7 á Írafossi sem er hæsta júnímeðalhitatala á suðurlandsundirlendinu. Hitaskil fóru yfir landið þ. 8 með þrumuveðri syðst á landinu. Var síðan sérlega hlý austanátt næstu tvo daga. Hitamet fuku á nokkrum stöðvum vestanlands. Á þeim fræga stað Breiðavík fór hitinn til dæmis í 24,0 stig þ. 10. og er það langmesti hiti sem nokkru sinni hefur mælst á þeim slóðum í nokkrum mánuði. Dagshitamet fyrir sólarhringsmeðalhita var sett í Reykjavík hvern dag 8.-14. og þann tíunda var meðalhitinn 16,2 stig sem er mesti meðalhiti sem þar hefur mælst nokkurn dag í júní. Daginn eftir var meðalhitinn 15,1 stig en þá mældist mesti hámarkshiti sem komið hefur í júní í Reykjavík í nútímaskýli, 22,4 stig (þ. 24. 1891 mældust 24,7° í annars konar skýli). Sólin skein nokkuð glatt í höfuðborginni þessa tvo ofurhlýju daga á reykvískan mælikvarða. Mesti hiti á landinu varð hins vegar 24,7 stig á Írafossi þ. 12. Hiti fór einhvers staðar í tuttugu stig eða meira alla dagana 4.-14. á mönnuðum veðurstöðvum.
Meðan á hlýindunum stóð kom forseti Kína í heimsókn til Íslands og vakti framkoma yfirvalda við félaga Falungong sem hingað komu þá líka miklar deilur. Góðviðriskaflanum lauk eiginlega á sautjándanum með foráttuveðri af norðaustri með vatnsveðri og skriðuföllum á austfjörðum. Úrkoman að morgni hins 18. á Gilsá í Breiðdal var hvorki meiri né minni en 167,1 mm sem mun vera met í júní. Veðrið gekk von bráðar niður en mánuðurinn var ekkert sérstakur að hita eftir það og eiginlega hálf leiðinlegur. Líkt og í júní árið eftir var lægðasvæði þaulsetið suður af landinu eins og kortið yfir loftþrýsting við yfirborð sýnir.
1939 (9,7) Júní þessi, sem er sá níundi hlýjasti í heild á landinu og kom í kjölfarið á næst hlýjasta maí, státar af mesta hita sem mælst hefur á Íslandi og mesta loftþrýstingi í júní á landinu. Hann var allur talinn hagstæður en samt nokkuð þurr fyrir norðan. Fram eftir voru aðallega suðlægar áttir með dálítilli úrkomu. Þann 6. var þrumuveður með miklu hagléli í Þistilfirði. Myndaðist þá hola allmikill í mýri og er talið að eldingnu hafi þar lostið niður. Dagana 10.-12 var hægviðri og víðast hvar þurrt og bjart. Þá mældust sums staðar næturfrost, mest -3,0 stig í Núpsdalstungu í Miðfirði þ. 11. Síðan gekk í suðaustanátt og mældist sólarhringsúrkoman 53,2 mm á Vattarnesi þ. 14. en 77,6 mm þ. 16. á Hólum í Hornafirði og 48 mm þ. 18. í Fagradal í Vopnafirði. Aðal veðurballið byrjaði hins vegar mánudaginn þann 19. þegar geysimikil hæð byggðist upp fyrir sunnan land og svo yfir landinu sjálfu. Klukkan 17 (kl. 18 að okkar tíma) þ. 21. mældist loftþrýstingur 1040,4 hPa í Stykkishólmi. Er það eins og áður segir mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á landinu í júní. Óvenju mikil hlýindi fylgdu þessu. Á kortinu er sýndur mesti hámarkshiti sem mældist á viðkomandi stöð í hitabylgjunni. Í Stykkishólmi voru ekki hámarksmælingar en sýndur mesti hiti sem lesinn var á mæli á athugunartímum. Stykkishólmur er alls ekki hitavænleg stöð. Hámarksmælingar vantar líka frá ýmsum öðrum stöðvum.
Hlýindin héldust í nokkra daga en mesti hitinn færðist nokkuð til milli landshluta. Í eina fimm eða sex daga var hitinn yfir tuttugu stig í mörgum sveitum þar sem hafgola náði ekki til. Sums staðar varð þó aldrei sérstaklega hlýtt, t.d. í Borgarfirði, á Vestfjörðum og í Reykjavík. Þar varð hlýjast 18,7 stig þ. 20. og aftur þ. 23. Fyrri daginn varð hámarkshitinn aftur á móti 21,7 á Kirkjubæjarklaustri. Daginn eftir voru þar 28,0 stig en á suðurlandsundirlendi var víða 20 til 23 stiga hiti en 25,0 stig í Vík í Mýrdal. Sama hitastig var mælt á Mælifelli í Skagafirði en 24,0 stig í Miðfirði og Teigarhorni og 26,0 stig í Möðurdal og á Hallormsstað. Á Akureyri fór hitinn hins vegar í 28,6 stig í hægri vestanátt þennan dag og var kominn í 24 stig strax um morguninn. Fréttir af veðri voru fáskrúðugar í blöðunum á þessum árum og sjaldan eða aldrei minnst á hitabylgjur. En nú gátu menn ekki orða bundist! Þann þ. 22. náðu hlýindin hámarki. Mældist þá mesti hiti sem mælst hefur á landinu, 30,5 stig á Teigarhorni í Berufirði en 30,2 á Kirkjubæjarklaustri, 28,5 á Fagurhólsmýri og 26,5 stig á Akureyri. Aftur fór hitinn á Hallormsstað þennan dag í 26 stig en 26,5 stig á Sandi í Aðaladal, 25,3 á Húsavík og 25,2 á Grímsstöðum. Á suðurlandsundirlendi var líka mikill hiti, til dæmis 23,2 stig á Berustöðum, skammt frá Hellu. Næsta dag kólnaði mjög á norðurlandi þegar vindur varð norðlægari, en þar var þó enn bjart, en aftur komst hitinn í 26,6 stig á Kirkjubæjarklaustri en 22 á Eyrarbakka og í Vestmannaeyjum varð sá dagur heitasti dagurinn þó hitinn yrði ekki meiri en 17,5 stig. Fyrir utan tölurnar frá Kirkjubæjarklaustri, Hallormsstað og Teigarhorni og fyrir hitann þann 22. á Akureyri hef ég reyndar ekki handbærar hámarkshitatölur allra stöðva frá degi til dags en einungis dagsetningar þegar hitinn fór hæst á stöðvunum í mánuðinum. Þann 24. varð svo hámarkið í Reykjahlíð við Mývatn, 25,4 stig og á Hamraendum í Dölum varð það 23,6 stig þ. 25. og var þá kominn sunnudagur. Þetta þýðir að hitarnir stóðu frá þeim 20. til a.m.k. hins 25. þó þeir hafi komið misjafnt niður og allmikið hafi dregið úr þeim síðustu dagana. Hafgolan var leiðinleg, t.d. kólnaði mjög skarpt á Akureyri þegar hún kom þar. Óvenjulega mikil sólskinstíð hófst í Reykjavík þ. 23. sem hélst til 5. júlí þó ekki væri nú alltaf hlýtt þá daga. Myndin er af Teigarhorni á 19.öld. Hún er í eigu Þjóðminjasafnsins en er tekin af vef Veðursstofunnar.
Júnihitamet sem enn standa og voru sett í þessari hitabylgju eru þau í Miðfirði, á Sandi, Grímsstöðum og Vík í Mýrdal og á Sámsstöðum, 22,6 stig þ. 21. En ársmetin á Teigarhorni, Kirkjubæjarklaustri og Fagurhólsmýri standa öll enn. Miklir vatnavextir urðu í hlýindunum í Eyjafirði og hljóp vöxtur gríðarlegur í Eyjafjarðará, Hörgá, Svarfaðardalsá og Glerá þar sem brúin eyðislagðist. Vegurinn um Öxnadal varð ófær á kafla og skriða stíflaði næstum því Eyjafjarðará. Ýmsar fleiri skemmdir urðu á brúm, vegum túnum, engjum og matjurtagörðum. Eftir að hlýindin höfu gengið yfir var enn hæð yfir landinu eða nærri því. Hægviðri var suma daga en aðra daga var norðan eða norðaustan átt og sums staðar allhvasst. Veður var oft bjart og úrkoma mjög lítil.
Neðst á síðunni eru nokkur kort sem sýna þróun hæðarinnar miklu frá þ. 20 til 25. í endurgreiningunni amerísku. Þykktin upp í 500 hPa flötin hefur jafnvel verið nokkuð yfir 5600 m þegar mest var. Merkt er með rauðu nokkrar hitatölur inn á landið. Þá er kort sem sýnir hæð 5 hPa flatarins þegar hann var talinn hæstur. Viðbót 10.6. Þykktin yfir suðvesturlandi fór svo hátt sem í 5655 m en hæðin var 5961 sem er hitabeltisástand og vel það!
1934 (9,6) Fyrstu fimm dagana voru hlýjar sunnanáttir með rigningu sunnanlands en blíðu mikilli fyrir norðan. Komst hitinn í 25,5 stig á Hraunum í Fljótum þann þriðja. Hlýindin ollu miklum leysingum til fjalla, einkum fyrir norðan. Gríðarlegir vatnavextir urðu í Skagafirði og Eyjafirði. Héraðsvötn og fleiri vatnsföll skemmdu vegi og sums staðar sópustu æaðarvörp burt í flóðum. Á Vestfjörðum runnur skriður úr fjöllum og ollu skemmdum á túnum og görðum.
Þessi mánuður er svo auðvitað þekktur fyrir jarðskjálfann mikla sem reið yfir eða réttara sagt undir Dalvík þ. 2. kl. 13:42. Stærðin var 6,3 stig á Richterskvarða en skjálftinn átti upptök í sundinu milli Dalvíkur og Hríseyjar en fannst frá Breiðafirði til austfjarða. Tólf hús eyðilögðust en 85 skemmdust. En enginn meiddist.
Mikil veðurblíða var um allt land dagana 6.-14. í hægviðri. Á Húsavík fór hitinn í 26,0 stig þ. 7. sem er þar júnímet og þ. 10. var yfir tuttugu stiga hiti á suðurlandsundirlendi. En skjótt skipast veður í lofti og upp úr miðjum mánuði kom leiðinda kuldakast með norðaustanátt. Veður var þó víða bjart og þurrt og voru sums staðar næturfrost, mest -2,4 stig þ. 21. á Grímsstöðum. Síðustu vikuna var breytileg átt en rigningar víða en ekki kalt. Úrkoma á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði var aðeins 3,7 mm í þessum mánuði og mældist aldrei minni meðan mælt var (1924-1995). Á eftir þessum júní kom ellefti hlýjasti júlí.
Síðasta daginn lét Hitler til skarar skríða gegn þeim sem hann taldi ógna veldi sinu innan raða nasista í aðgerð sem nefnd hefur verið Nótt hinna löngu hnífa.
Fyrir 1867 var júní 1830 einstaklega hlýr líkt og maí sama ár og eru þau hlýindin ansi stórkarlaleg og ekki alveg trúanleg. Enn hlýrri var þó júní 1831. Þetta eru mælingar frá Reykjavík. Tölurnar sjást í fylgiskjalinu. Einnig var mjög hlýtt 1846 þegar hitinn í Stykkishólmi var 10,4 stig, en 10,3 í Reykjavík og er það ekkert út í hött.
Fjallkonan, 19. júní 1909; Ingólfur 1. júlí 1909.
Fyrra fylgiskjalið er hið hefbundna en hið síðar er um júní á Akureyri 1953 og Reykjavík 2002 og 2010. Þau eru fyrir neðan kortin.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 7.12.2011 kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2011 | 17:47
Köldustu júnímánuðir
1882 (5,8) Þetta er talinn kaldasti júní á öllu landinu, 2,3 stig undir meðallaginu 1961-1990. Hann var þó fyrst og fremst kaldur fyrir norðan, en líka við Breiðafjörð og á Ströndum. Á þessu svæði var hann kaldasti júní sem þekkist, en á svæðinu frá sunnanveðrum austfjörðum til suðvesturlands var hann ekki alveg sá kaldasti. Kuldinn fyrir norðan við sjónn var með hreinum ólíkindum. Í Grímsey var hitinn eitt til tvö stig um hádaginn fyrstu fimm dagana en næstu fimm daga um eða undir frostmarki og frost var kvölds og morgna alveg fram í miðjan mánuð og stundum snjóaði. Eftir miðjan mánuð komu fjórir skammlausir dagar og var hitinn jafnvel tólf stig í eyjunni þ. 19. kl. 14. Í Stykkishólmi voru næturfrost öðru hvoru fram í miðjan mánuð og snjóaði jafnvel stöku sinnum. Þann 10. var þar eins stigs hiti kl. 14 og hámarkshiti 2,2 stig. Ofurlítið hlýnaði þar líka um tíma eftir miðjan mánuð eins og í Grímsey. Tíu til þrettán stiga hámarkshiti var í Hólminum dagana 18. til 20. En von bráðar kom aftur mikið kuldakast og var jörð öll alhvít á norðurlandi á Jónsmessu. Ekki bætti úr skák að júníkuldarnir fyrir norðan héldu áfram í júlí og ágúst sem einnig slógu öll kuldamet norðanlands og á þetta sumar þar sér enga hliðstæðu. Sérstaklega var kalt við sjóinn. Aftur á móti var tiltölulega mildara inn til landsins og á Grímsstöðum á Fjöllum var þetta ekki kaldasti júní, meðalhitinn var 5,1 stig. (Þetta var reyndar eini júní sem mældur var á staðnum á 19. öldinni). Frá þeim 25. var þokkalega hlýtt á suður og vesturlandi til mánaðarloka en svalviðri voru oftast fyrir norðan og austan. Úrkoma var fremur lítil á suður og vesturlandi í þessum mánuði en úrkomusamt fyrir norðan og austan. Hitinn komst mest í 20,9 stig á Grímsstöðum. Kaldast varð -5,7 á Siglufirði.
Mikill hafís var við landið. Hann lá frá Straumnesi og svo austur um og allt að Breiðamerkursandi. Sérstaklega var ísinn mikill við Austfirði en hann var lausari í sér fyrir norðan. Seint í mánuðinum losnaði ísinn frá Austur-Skaftafellssýslu og rak svo smátt og smátt vestur og suður. Þessi mikli hafís hefur haft sitt að segja um kuldann fyrir norðan en á suðurlandi var miklu mildara og mismunur milli landshluta óvenjuega mikill. Þann 20. febrúar 1883 lýsti Norðanfari á Akureyri svo veðurfarinu í júní 1882.
Jún 1.-2. norðan hægur með þokulopti. 3. kyrrt og loptbert. 4.-11. norðan, opt austlægur, þjetthvass með þokulopti. 12. sunnan gola lítil og heiðríkt. 13. norðan hægur og heiðríkt. 14.- 15. norðan hægur og þokufullt. 16. -19. sunnan hægur, skýjað. 20. austan þjetthvass; þykkt lopt. 21. Norðaustan hvass með krapaskúrum. 22. til 28. norðan hægur með þokulopti; stundum skúrir. 29. kyrrt og skýjað. 30. sunnan hægur, skýjað. 3. daga af mánuðinum var frost, en 27 daga hiti. Mest frost að kvöldi hins 11. 2° C. Mestur hiti um hádegi hinn 30. 18° C.
Meðalhiti þessa mánaðar:
1885 (6,1) Ekki var kalt fyrsta daginn. Þá fór hitinn í Reykjavík í 10,6 stig. En næsta dag skall á hvöss norðanátt með feikilegum kulda. Þann sjötta mældist mesta frost sem mælst hefur í Reykjavík í júní, -2,4 stig (-2,0° þ. 5,) en næturfrost voru þar allar nætur frá þeim þriðja til sjötta. Hámarksihiti var aðeins fimm til sjö stig dagana 2.-9. Frost voru mikil um nær allt land þessa daga, t.d. -3,3 stig í Hreppunum og mest -5,2 á Raufarhöfn sem er kuldamet þar í júní. Frostdagar urðu sjö í mánuðinum á Eyrarbakka og í Hreppunum. Á síðar talda staðnum og í Vestmannaeyjum er þetta kaldasti júní sem mælst hefur. Ekki var mælt á þessum stöðum árin 1851 og 1867 þegar kaldast varð í Reykjavík en í Stykkishólmi var 1882 auðvitað kaldastur júnímánaða. Víða snjóaði og það jafnvel í Reykjavík þó ekki hafi snjóinn þar fest. Nokkrir hlýir dagar komu um miðjan mánuð og fór hitinn í 21 á Teigarhorni þ. 15. en svo kólnaði aftur. Síðustu vikuna voru þó suðlægar áttir með rigningu sunnanlands en fremur svölu veðri þar en fyrir austan var hlýtt og komst hitinn í 22,9 stig á Teigarhorni þ. 27. Í Reykjavík varð aldrei hlýrra en 12,5 stig og hefur mesti júníhiti þar aðeins einu sinni verið lægri, 12,2 stig, árið áður. Þrátt fyrir kuldann var ekki teljandi hafís við landið og tálmaði hann ekki siglingum. Í hafinu fyrir norðaustan land var einnig lítill ís. Kuldanæðingar héldu áfram alveg fram í júlí. Í mánaðarlok var enn allvíða ekki leyst snjó af túnum á austurlandi og frost og snjóar öðru hvoru og eins í Þingeyjarsýslum. Á vesturlandi kól tún jafnóðum af af þeim leysti. Kortið sýnir hæð 850 hPa flatarins í mánuðinum. Jónassen lýsti veðrinu í höfuðstaðnum í Ísafoldarblöðum:
Eptir að norðanáttin hætti 30. f. m. hefir stilling verið á veðri með hlýindum og síðustu dagana með hægri lognrigningu af suðri (31.1.). Í dag 2. er hann aptur genginn til norðurs, bálhvass til djúpanna, hægri hjer innfjarðar. (3. júní) - Þessa vikuna hetir haldizt sama norðanáttin með sífelldum kulda og náttfrosti; aðfaranóttina h. 8. gjörði hjer alhvítt seinni part nætur og haglhryðjur voru um morguninn; Esjan var alhvít, rjett eins og um hávetur. Í dag bjart sólskinsveður, logn hjer, norðan til djúpanna. Loptþyngdarmælir stendur hátt. (10.júní) - Um kveldið hinn 9. gekk veður til landsunnanáttar (Sa) og hefir verið við sömu átt þessa viku, optast hvass og með mikilli úrkomu dag og nótt, einkum var úrhellisrigning kveldið 13. Við og við hefir hann gengið í vestur-útnorður (Sv) með haglhryðjum; kalsi hefir verið mikill í loptinu. í dag Landsunnan (Sa) hvass með regni. (17.júní). - Alla vikuna hefir hann verið við norðanátt, optast hægur og bjartur, 21. gekk hann til landssuðurs (Sa) með regni; aðfaranótt h. 22. snjóaði í Esjuna og var hjer hvass fyrri part dags á vestan útnorðan, logn að kveldi. Í dag 23, norðvesan, hvass, dimmur; ýrði regn úr lopti stutta stund fyrri part dags. (24. júni) - Umliðna viku hefir optast verið við sunnan átt mqð talsverðri úrkomu en hægð á veðri, suddarigning. Í dag hægur á sunnan með sudda, dimmur mjög í morgun. (1. júlí).
1892 (6,2) Þetta er annar kaldasti júní í Grímsey og þriðji kaldasti á Akureyri en sá allra kaldasti á Teigarhorni við Berufjörð. Hafís hafði verið mikill um vorið, ekki síst við austfirði og fór hann ekki af Berufirði fyrr en 8. júní, nokkru síðar af Eskifirði en ekki fyrr en þ. 24. af Seyðisfirði. Kuldarnir voru miklir, mestir -3,8 stig í Grímsey þ. 1. og sama frost mældist einhvern daginn á Raufarhöfn. Varla hlánaði í Grímsey fyrstu fimm dagana og sums staðar snjóaði. Síðan snérist til suðaustanáttar og hlýnaði nokkuð en austan eða norðaustanátt varð á ný aftur algengust með kuldum fyrir norðan en björtu veðri og sæmilega hlýju fyrir sunnan. Svo ótrúlegt sem það hljómar voru frostdagar 22 í Grímsey og 19 á Raufarhöfn, 12 á Borðeyri og 9 á Teigarhorni. Hlýjast varð 19,2 stig á Akureyri. Merkilegt nokk fraus ekki á Akureyri en næstum því alls staðar annars staðar. Úrkoma var lítil nema á austfjörðum þar sem hún var nokkur í byrjun og enda mánaðarins en annars var þar alveg þurrt meginhluta mánaðarðarins. Á undan þessum mánuði fór sjöundi kaldasti maí. Kortið er af meðallagi 500 hPa flatarins. Svona var veðurlagið í Reykjavík í lýsingu Jónassens í nokkrum blöðum Ísafoldar:
Hefir verið á norðan en hægur undanfarna daga, lítið eitt hlýrri í gær og í dag. (4.júní) - Hinn 4. var hjer úrtæna, fagurt veður; logn. og dimmur með regnskúrum h. 5. Hvass á austan fyrir hádegi h. 6. gekk svo til landsuðurs með regnskúrum og h. 7. í suður, dimmur og vætulegur. Í dag (8) rjett logn, dimmur af suðri. Hlýindi nokkur síðustu dagana. (8. júní). - Hinn 8. var hjer bjart og fagurt veður h. 9. þoku-suddi fram undir hádegi er birti upp; suðvestankuldi, bjart veður fyrri part dags h .10. dimmur síðari partinn með úða. Í dag (11.) bjart veður; hvass á norðan í morgun. (11. júní). - Undanfarua daga hægð á veðri, kom væta úr lopti h. 14. og var þá suddarigning allan daginn af suðvestri. Í dag (15.) hægur á suðvestan. (15.júní) - Hægt og stillt veður undanfarna daga með talsverðum hlýindum og loptþyngdamælir hefur varla haggazt. (18. júni) - Sama hægð á veðri, opt rjett logn, sje gola, kemur hún úr vestri; í dag (22.) hægur á sunnan, sudda-rigning í nótt. (22.júní ) - Vestan, hægur, dimmur h. 22. bjartur á vestan h.23. og einnig hinn 24. og 25. (25. júní) - Ekki komu meiri veðurlýsingar í blaðinu um júní.
Hér verður að minnast á júní 1896 sem er sá ellefti kaldasti (7,0) en þá mældist sólarhringsúrkoman þ. 13. á Teigarhorni 108,1 mm sem þá var mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hafði á landinu og gerði mánuðinn þar að sjötta úrkomumesta júní (frá 1873).
1907 (6,3) Þetta er kaldasti júní á 20. öld. Aldrei hefur mælst kaldari júní á Úthéraði, þar sem mælt hefur verið frá 1898, 4,3 stig (meðallag 1961-1990 er 7,8) og ekki á Seyðisfirði frá 1907, 5,5, stig (meðalhiti 7,9). Á Teigarhorni er þetta þriðji kaldasti júni. Ekki var kuldinn í Grímsey þó alveg jafn napur og í köldustu júnímánuðum nítjándu aldar. Þar var að minnsta kosti aldrei frost kl. 14 síðdegis eftir íslenskum miðtíma þó næturfrost hafi verið hverja nótt til hins 11. Kaldast á landinu varð -6,1 stig á Stóranúpi í Hreppum en hlýjast 18,0 á Grímsstöðum á Fjöllum. Austlægar eða norðaustlægar áttir voru ríkjandi og mjög var þurrviðrasamt nema við suðurströndina. Aðeins fjórir úrkomudagar voru í Stykkishólmi þar sem þetta er fimmti úrkomuminnsti júní. Úrkomudagar voru þrír á Teigarhorni en 14 í Vestmannaeyjum. Kortið af 500 hPa fletinum í mánuðinum er ekki beint hlýlegt.
1975 (6,5) Kaldasti júní á síðari áratugum. Svo mikill var kuldinn í upphafi mánaðarins að fyrstu þrjá dagana var sólarhringsmeðalhitinn á Hallormsstað undir frostmarki! Á Akureyri var meðalhitinn þ. annan -0,6 stig og á hádegi var eins stigs frost. Daginn eftir var tveggja stiga frost á hádegi á Raufarhöfn. Í Reykjavík var meðalhitinn dagana 2.-4. dagshitamet í kulda að meðaltali. Hæð var yfir Grænlandi og norðaustanátt. Á norður-og austurlandi var nokkur snjókoma eða éljagangur en bjartviðri sunnanlands. Sólskin var mjög mikið í Reykjavík fyrstu sex dagana. Eigi að síður náði hitinn þar þann tíma aldrei tíu stigum fyrr en þ. 6. og þrjár nætur var næturfrost, mest -0,6 stig. Á Hólmi við Reykjavík fór frostið í -2,5 stig þ. 2. Á Þingvöllum voru sex frostnætur. Frost mældist á öllum stöðvum nema í Vestmannaeyjum, í Mýrdal og vestast á Reykjanesskaga. Kaldast varð -8,8 stig í Sandbúðum á Sprengisandi þ. 1. en í byggð -6,5 stig á Grímsstöðum þ. 4. Snjó festi á stöku stað í byggð fyrir norðan og austan og auk þess á hálendinu. Til dæmis var snjódýptin á Dalatanga 5 cm þ. 1. Hiti komst hvergi í tíu stig fyrstu fimm dagana á landinu og er það sannarlega sjaldgæft þegar komið er fram í júní.
Eftir þetta mikla kuldakast hlýnaði talsvert í nokkra daga með suðvestlægri átt og fór hitinn í 21 stig í Vopnafirði þ. 10. Þann tólfta kólnaði á ný en þó ekkert í líkingu við fyrstu vikuna en kuldatíð var þó alveg til hins 21. Ekki var mikil úrkoma en sólarlítið. Loks hlýnaði hinn 21. með sunnanátt sem hélst að mestu til mánaðarloka. Þann 27. komst hitinn í 20-21 sums staðar. Sólarlítið var í Reykjavík eftir fyrstu vikuna en um miðjan mánuð komu nokkrir svalir sólskinsdagar á vesturlandi en fáir eftir það. Einn og einn sólskinsdagur á stangli var annars staðar á landinu í mánuðinum en nokkrir komu síðustu dagana á norðausturlandi. Á sunnan og vestanverðu landinu voru rigningar talsverðar síðustu tíu dagana eða svo eftir að fór að hlýna. Úrkomudagar voru óvenju margir í flestum landshlutum og úrkomumagn var yfirleitt í meira lagi, einkum á suður-og vesturlandi. Vindar milli norðurs og suðvesturs og algengastir eins og kortið gefur til kynna.
Met lágmarkshiti í júní mældist mjög víða. Nefna má -3,9 stig á Hornbjargsviti þ. 1. og -3,0 á Gjögri og -4,8 á Hólum í Hjaltadal sama dag; -6,5 á Grímsstöðum þ. 4. og -3,5 sama dag, -0,8 í Vík í Mýrdal þ. 2. og -2,4 á Sámsstöðum og -3,0 á Eyrarbakka þann sama dag.
Í þessum kalda mánuði kom Svíakóngur í heimsókn þ. 10. og millilandaferjan Smyrill lagðist í fyrsta sinn að bryggju á Seyðisfirði. Í frægum fótboltaleik sigruðu Íslendingar A-Þjóðverja 2:1 á Laugardagsvellinum þ. 5. Meðan leikurinn fór fram var hitinn 4-5 stig og hefur það kannski haft sitt að segja um úrslitin! Sumarhitinn á þessum árum sunnanlands var hreinlega annar heimur en sá sem við höfum vanist síðasta áratug.
Meðalhiti þessa kaldasta júnímánaðar í minni núlifandi manna:
Í júní 1978 var óstöðug vestlæg átt ríkjandi og var mánuðrinn enn kaldari í Reykjavík en 1975, meðalhiti 7,8 stig, sá kaldasti þar síðan 1922, en fyrir norðan og austan var júní 1978 miklu mildari en 1975. Þetta er því ekki einn af köldustu júnímánuðum á landsvísu. Hámarkshiti í höfuðborginni var aðeins 13,2 stig sem er í lægsta lagi.
1886 (6,6) HafÍsinn var ekki alveg farinn fyrr en vika var af mánuðinum sem telst sá sjötti kaldasti. Víða á vötnum nyrðra var enn lagnaðarís í mánaðarbyrjun. Jörð var mjög kalin um margar sveitir. Frost og fjúk voru á norður og vesturlandi allan mánuðinn þó úr þeim drægi er líða tók á hann. Úrkoma var mikil, sérstaklega í fyrri helmingi mánaðarins. Í Vestmanneyjum voru 24 úrkomudagar. Mikil rigning var á austfjörðum kringum þ. 10. og síðustu dagana í Vestmannaeyjum en þá snjóaði í Grímsey eins og gert hafði þar annað slagið og hélt áfram fram í miðjan mánuð. Veður var oft umhleypingasamt og rysjótt. Loftþrýstingur var lágur yfir landinu eins og sést á kortinu sem sýnir hæð 850 hPa flatarins. Eina hlýndagusu gerði dagana 15.-20. en þó aðeins á austurlandi en þá var hryssingsleg suðvestanátt í höfuðstaðnum. Fór hitinn mest í 22,5 stig á Teigarhorni og yfir tuttugu stig þar í fjóra daga. Ekki gætti hitanna verulega fyrir norðan því á Akureyri fór hitinn aldrei hærra en í 19 stig. Kaldast í mánuðinum var -3,1 á Borðeyri. Jónassen fjallaði um veðrið í nokkrum tölublöðum Ísafoldar:
Í dag 1. júní er hægur vestan kaldi, bjart veður. (2. júní) - Þessa vikuna hefir optast verið við sunnanátt og rignt mikið með köflum; aðfaranótt h. 7. snjóaði þó efst í Esjuna (útsynningur í lopti). Siðustu dagana hefir hlýnað mikið í veðri og jörð tekið miklum framförum. Hinn 7.og 8. hægur landsynningur, allbjartur. (9. júní) - Fyrri part vikunnar var hjer sunnan- og austanátt með talsverðri rigninug ; 12. gekk hann i utanátt og hefir nú síðustu dagana verið á norðan. Í dag (15.) bjart norðanveður, hvass til djúpanna og hvass hjer eptir hádegi. (16. júní) - Alla vikuna hefir verið sunnanátt (ýmist suðaustan eða suðvestan), og hefir framan af vikunni rignt mikið með köflum, einkum sunnud. 20.; hafi tekið fyrir sól, hefir einlægur kalsi verið í lopti; síðustu dagana hefir verið útsynningur með brimhroða til sjávarins og ónotalegum kalsa. Í dag 22. hægur sunnan-útsunnan (sv) með brimhroða til sjávarins, dimmur upp yfir og kaldur, með skúrum. (23. júní) - Framan af vikunni var hægt norðanveður, bjartur en kaldur á hverri nóttu; sfðustu dagana hefir verið logn og í gær gekk hann til S með dimmviðri og ákafl. mikilli rigningu aðfaranótt h. 29. Í dag 29. dimmur á sunnan með rigningarskúrum. (30. júní).
1867 (6,6) Næst kaldasti júní í Reykjavík er sagður vera árið 1867 þegar meðalhitinn var talinn 6,4 stig en 7,6 í Stykkishólmi. Dálítið er samt erfitt að trúa því að svona mikilu kaldara hafi verið í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi og er þetta eina dæmið um slíkt í júní en þetta ár voru mælingarnar í Reykjavík víst ekki sérstaklega góðar. Aðeins var mælt í Reykjavík og Stykkishólmi. Hafíshroði var að flækjast fram í júní á Húnaflóa, Skagafirði og Eyjafirði, síðast þann 22. inni á Eyjafjirði. Kaldar norðlægar eða norðaustlægar áttir voru fram undir miðjan mánuð með engri úrkomu í Stykkishólmi en eftir það sunnanátt með sæmilegum hlýindum og talsverðri rigningu.
Á áttunda tug nítjándu aldar komu þrír mjög kaldir júnímánuðir í röð frá 1875-1877 en samkvæmt mælingum á þeim veðurstöðvum sem þá og síðar voru í gangi, nær þó aðeins einn þeirra, 1877, að vera einn af hinum tíu köldustu.
1877 (6,8) Mánuðurinn hófst með afskaplega kaldri norðanátt. Hiti var um og undir frostmarki í Grímsey um hádaginn fyrstu átta dagana. Stundum snjóaði. Kaldast á landinu varð einmitt í Grímsey, ð12,2 stig í Grímsey þann fyrsta. Frostdagar voru 7 í eyjunni. Þessa daga var fremur bjart yfir vestanlands þó kalt væri. Frá þeim ellefta hlýnaði talsvert með suðlægum og síðar vestlægum og austlægum áttum. Komst hámarkshiti þá í Stykkishólmi flesta daga upp í tíu stig eða meira til mánaðarloka og síðustu fjórir dagarnir voru vel hlýir. Eftir sæmileg hlýindi í viku í Grímsey frá þ. 11. varð þar hálf kalt það sem eftir var mánaðar en nokkru skárra var á Teigarhorni. Á þeim sjö stöðvum sem mældu hámarkshita varð hann mestur 16,0 stig á Teigarhorni þ. 18 og einnig 16,0 í Hafnarfirði einhvern tíma í mánuðinum. Seinni helming mánaðarins var oft fremur bjart yfir á vesturlandi. Hafíshroði hafði verið fyrir norðurlandi um vorið en rak frá landi í byrjun júní. Úrkoma var kringum meðallag í Stykkishómi en lítil á Teigarhorni og þar voru úrkomudagar aðeins fimm. Ofsaveður gerði þ. 12. fyrir sunnan og vestan.
1973 (6,9) Júní þessi var sá fyrsti af þremur afar köldum júnímánuðum, ekki síst á suður og vesturlandi, sem komu, auk þessa mánaðar, árin 1975 og 1978. Þeir voru þó á margan hátt ólíkir. Norðanátt var yfirgnæfandi í þessum mánuði, norðægar og vestlægar áttir 1975 en vestlægar 1978. Þegar þessi mánuður kom var hann á suðurlandi víða sá kaldasti síðan 1922 (og einnig á landinu í heild fyrir utan 1952) en fyrir norðan var kaldara í júní 1952 og svipað 1946. Frægt kuldakast kom þann 10. um hvítasunnuna og hefur það verið kallað hvítasunnuhretið". Hitinn fyrir norðan á hádegi var eitt til tvö stig dagana 11.-12. Mest frost sem mælt hefur verið á Íslandi í júní mældist þ. 11. í Nýjabæ á hálendinu sunnan Eyjafjarðardals, -10,5 stig. Daginn áður mældist mesta frost sem mælst hefur í byggð í júní, -7,7 á Vöglum í Fnjóskadal. Frost mældist nær því alls staðar. Nokkur kuldamet fyrir júní voru sett, svo sem -1,9 stig á Dalatanga þ. 1., -3,7 á Hvanneyri og -6,9 á Hveravöllum þ. 11. en -6,3 stig á Staðarhóli, -6,0 á Brú á Jökuldal, -4,5 á Egilsstöðum og -4,5 stig á Hallormsstað þ. 10. Það sýnir kuldana þessa daga að hiti náði hvergi á landinu tíu stigum daganna 10.-12. um hádaginn þegar þessi næturfrost voru. Snjókoma var allvíða og jafnvel sunnanlands þó þar festi ekki snjóinn. Jörð varð aftur á móti alhvít á Sauðárkróki, Reyðará og Dalatanga. En auðvitað sáu sumir þennan vorkulda fyrir! Meðalhitinn í Reykjavík þ. 11. var aðeins 3,8 stig og hámarkið 6,8 stig og var þó mikið sólskin. Upp úr miðjum mánuði hlýnaði með sunnanátt og komst hitinn í 20,0 stig á Akureyri þ. 16. en hvergi annars staðar náði hitinn tuttugu stigum í þessum mánuði. Þolanlega hlýtt var svo til mánaðarloka en stundum úrkomusamt og rysjótt veður. Kortið sýnir frávik á þykktinni í þessum mánuði en því kaldara verður því minni sem hún er.
Nixon forseti Bandaríkjanna og Pompidou forseti Frakklands funduðu í Reykjavík í byrjun mánaðarins í glampandi sól en miklum kulda. Heimaeyjargosinu lauk þ. 26.
1952 (7,0) Þetta er kaldasti júní sem mælst hefur Grímsstöðum á Fjöllum frá upphafi mælinga 1907, 2,5 stig, og kaldari en hinn kaldi júní 1907 og miklu kaldari en 1882! Á Raufarhöfn var þetta einnig kaldasti júni sem þar hefur mælst 1885-1898 og frá 1921, 3,2 stig. Fyrstu vikuna var nánast vetrarveður. Él voru fyrir norðan og jafnvel einnig sunnanlands. Að morgni hins annars var snjódýpt 2 cm á Stórhöfða. Er það eina dæmið um snjó á jörðu að morgni á suðurlandi í júní frá stofnun Veðurstofunar 1920. Frostið fór niður í -5,9 stig í Möðrudal þ. 2. Kuldamet fyrir júní voru sett á Hólum í Hornafirði (frá 1924) -1,5 stig þ. 2. og Fagurhólsmýri -0,6 þ. 3. (1903-1912 og frá 1935). Snjó festi fyrir norðan og var hann 24 cm á Grímsstöðum mest alla fyrstu vikuna. Hitinn fór ekki í tíu stig í Reykjavík fyrr en þ. 9. þrátt fyrir það að margir daganna hafi verið afar sólríkir. Skammvinna sunnanátt með hlýrra veðri gerði þ. 8. en dagana 12. til 22. var stöðug norðanátt með dimmviðri á norðurlandi og stundum snjókomu. Bjart var þá á suður og vesturlandi og fór hitinn þar sums staðar í 17-18 stig en mest 19,5 í Síðumúla þ. 22. (Glaðasólskin var í Reykjavík 17. júní og 15 stiga hiti og liggur við að bloggarinn muni eftir stemningunni!). Eftir það var nokkur lægðagagnur með rigningu víða en þokkalegum hita en loks var aftur norðanátt síðustu dagana og bjart syðra en dimmviðri og kuldi nyrðra. Í heild var þetta ekta norðanáttamánaður með lægðum milli Íslands og Noregs en hæð yfir Grænlandi og kortið sýnir stöðu mála í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð. Sunnanlands var mikið sólskin í þessum mánuði eins og verða vill við þessar aðstæður. Í Reykjavík er þetta fimmti sólríkasti júní. Sums staðar á suðurlandsundurlendi komst hitinn í þessari miklu sól næstum því upp í meðallagið 1931-1960. Á Sámsstöðum var meðalhitinn t.d. 9,9 stig og þar hefur ekki mælst þurrari júní, 12,2 mm. Úrkoman í Grindavik var aðeins 6,9 mm. Gróðri fór lítið fram vegna kulda og þurrka. Á norðausturlandi voru hagar varla orðnir grænir í lok mánaðarins.
Síðasta daginn var Ásgeir Ásgeirsson kosinn forseti Íslands.
Í Reykjavík var kaldasti júní síðan einhvers konar mælingar þar hófust árið 1851 þegar meðalhitinn var talin 6,3 stig en var 5,9 í Stykkishólmi, sá næst kaldasti þar. En á Akureyri var hitinn þá 6,2 sem er nær tveimur stigum mildara en 1882. Úrkoman í Reykjavík var 28 mm. Í Stykkishólmi fór hitinn ekki yfir tíu stig fyrr en þann 28. Ljóst er að Þetta er einhver allra kaldasti júní.
Snemma á nítjándu öld eru til nokkrar athuganir frá ýmsum stöðum á landinu sem hafa verið áætlaðar yfir til Stykkishólms. Eftir þeim virðist sem júnímánuðir árin 1811 og 1817 hafi verið nokkru mildari en júní 1882. Mælingarnar voru á Akureyri eða við Eyjafjörð árið 1811 og voru gerðar að morgni, um miðjan dag og að kveldi. Fyrstu sex dagana var óskaplega kalt. Um morguninn þ. 5. var frostið -6,5 stig sem slær nú allt út allan júníkulda sem mælst hefur á Akureyri frá 1882 þegar danska veðurstofan hóf þar athuganir. Um miðjan dag þ. 2. var frostið -0,3 stig og -1,9 stig þ. 6. Þetta eru kannski ótrúlegar tölur en í ljósi júní 1975 eru þær alls ekki svo vitlausar. Hægur vindur var af norðri eða norðaustri og getið um hríð og þoku. Um miðjan mánuð var hitinn orðinn þokkalegur en hlýindi voru síðustu vikuna. Þann 28. var hitinn tuttugu stig um miðjan dag en 17 að morgni. Meðalhitinn hefur verið reiknaður 5,9 stig fyrir Akureyri þennan mánuð, sami hiti og 1952 en hafa verður í huga hvað þetta eru gamlar mælingar og öðru vísi en nú á dögum. En kaldur hefur þessi júní sannarlega verið.
Fyrra fylgiskjali er hið venjulega með tölum yfir veðurstöðvarnar í hverjum þeim mánuði sem fjallað er um en hitt sýnir ástand mála í Reykjavik og Akureyri í júní 1885, 1952 og 1975.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 8.12.2011 kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2011 | 14:11
Köldustu maímánuðir
1979 (0,9) Þetta er ef til vill kaldasti maí sem mælst hefur á landinu og var 4,3 stig undir meðallaginu 1961-1990. Hann var svo kaldur að hann verður að teljast viðundur. Á einhverjum vorbesta stað á landinu, Akureyri, var meðalhitinn undir frostmarki, -0,3 stig. Reyndar var meðalhitinn undir frostmarki á öllum stöðvum frá Ísafjarðardjúpi að Neskaupstað og auk þess á Galtarvita, Búðardal og Reykhólum. Á Raufarhöfn var hann -1,9 stig og er það lægsti meðalhiti sem mælst hefur á Íslandi í maí á láglendi. Enn kaldara var þó í Möðrudal, -4,3 stig (7 og hálft stig undir meðallagi) og -4,1 á Grímsstöðum en á Hveravöllum var meðalhitinn -4,7 stig. Á nokkrum stöðum, jafnvel á suðvesturlandi, komst hitinn aldrei í tíu stig. Byrjaði mánuðurinn reyndar á því að setja maíkuldamet fyrir lágmarkshita í Vík í Myrdal, -6,2 stig (frá 1926). Auk þess sólarhringskuldamet á Akureyri, -6,0 stig og er það næst kaldasti maídagur þar frá 1949 (metið er -6,2 þ. 3. 1982 í einhverju mesta kuldakasti sem komið hefur í maí). Fyrstu viku mánaðarins var meðalhiti hvers dags undir frostmarki í Reykjavík en fyrstu þrjár vikurnar á Hallormsstað! Ekki hlánaði allan sólarhringinn í höfuðborginni fyrstu tvo dagana og heldur ekki þ. 4. þó þann dag hafi sólin skinið allan liðlangan daginn og þ. 3. var hámarkshitinn 0,2 stig. Hins vegar var alveg glampandi sólskin fyrstu tíu dagana.
Fyrstu þrjár vikur mánaðarins eða meira mátti sem sagt heita eitt samfellt hret. En inni í þessu langa hreti komu svo ýmis aukahret. Þann 12. kom slæmt kast með snjókomu fyrir norðan en slyddu fyrir sunnan. Hitinn á landinu var næstu tvo daga 5 ½ stig undir meðallaginu sem þá var miðað við en síðan fór enn kólnandi þó veðrið gengi niður. Hinn 18. var hitinn hvorki meira né minna en 8 ½ stig undir meðallagi og var það kaldasti dagur mánaðarins. Næstu nótt mældust mestu kuldarnir í mánuðinum, -17,0 á Brú á Jökuldal, -16,4 stig á Grímsstöðum, sem er maíkuldamet þar (frá 1907) og -16,3 stig á Möðrudal. (Þess má geta að tveimur dögum fyrr mældist mesta frost sem mælst hefur nokkru sinni á Hawai, -11 stig á Mána Kea eldfjallinu). Aldrei hefur mælst jafn mikið frost á landinu svo seint að vori. Meðalhitinn í Reykavík var -0,4 stig þ. 18. og er það síðasta dagsetning að vori sem meðalhiti þar hefur verið undir frostmarki a.m.k. síðan Veðurstofan var stofnuð.
Annað hret kom 22.-24. og króknuðu þá lömb í Skagafirði. Frost var alls 17 daga í Reykjavík og hafa aldrei verið fleiri í maí en þeir voru 30 á Mýri í Bárðardal, Brú á Jökuldal og Hveravöllum. Fæstir voru frostdagar 14 í Vík í Mýrdal og á Reykjanesvita. Hæsti lágmarkshiti var -5,3 stig á Keflavíkurflugvelli og -5,4 á Reykjanesvita. Á Akureyri setti mánuðurinn hvorki meira né minna en 8 kuldamet fyirr sólarhringsmeðalhita, þar af fjóra daga í röð, 17.-21. Snjólag var 42 % á öllu landinu og hefur aldrei verið meira nema 1949. Snjór var annars í meðallagi á sunnanverðu landinu en mun meiri annars staðar. Aldrei hefur verið talin alhvít jörð kl. 9 að morgni jafn seint að vori í Reykjavík sem þennan mánuð, 2 cm þ. 16. Reyndar var alhvítt aðeins þennan eina dag í borginni en á norðausturlandi var víða alhvítt í kringum 25 daga en 28 á Dalatanga. Éljagangur var meira og minna mest allan mánuðinn á norðaustanverðu landinu. Meðalsnjódýpt á Raufarhöfn var 80 cm og þar var alhvítt í 26 daga. Mesta snjódýptarmæling var hins vegar á Hveravöllum 107 cm að morgni hins 7. Annað kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu sem var að tiltölu það mesta í mínus á norðurhveli og er þetta ugglaust þunnasti maí sem þekktur er yfir landinu! Meðalþykktin milli 1000 og 500 hPa flatanna á viðmiðunartímabilinu var kringum 5350 metrar. Því meiri sem þessi þykkt er því hlýrra er loftlagið á milli flatanna að meðaltali og samsvara 100 þykktarmetrar um það bil 5 stigum. Hitt kortið sýnir kuldaloppuna í 500 hPa fletinum, kringum 5 km hæð yfir landinu.
Eins og af líkum lætur var úrkomusamt á norðausturlandi en þurrt á vesturlandi og einkum á Vestfjörðum. Á Stóra-Botni i Hvalfirði mældist aldrei minni úrkoma í maí þau ár sem þar var mælt (1948-1982) og ekki heldur á Andakílsárvirkjun (frá 1950) eða á Reykhólum þar sem úrkoman var aðeins 0,3 mm og 0,5 á Mjólkárvirkjun inn af Arnarfirði (frá 1960). Allra minnst var úrkoman þó í Forsæludal í Húnvatnsssýslu, 0,2 mm. Víðar á vesturlandi voru met þurrkar. Í Stykkishólmi er þetta sjötti þurrasti maí frá 1857. Úrkoma í heild á landinu var dálítið undir meðallagi. Norðan og norðaustanáttir voru ríkjandi í mánuðinum en austanátt var einnig algeng. Stundum var hvasst. Hafís var talsverður úti fyrir og kom að landi við Tjörnes og í Þistilfirði svo höfnin á Raufarhöfn lokaðist alveg og að mestu leyti á Þórshöfn á Langanesi um miðjan mánuð í nokkra daga. Þann 25. voru þó allar hafnir orðnar íslausar. Ekki vantaði að sólríkt væri syðra en það var til lítils í kuldanum og á Akureyri skein sólin líka meira en í meðalári þó mánuðurinn væri undir frostmarki að meðalhita. Eftir þessa martröð hlýnaði loks mjög snögglega næstsíðasta daginn. Og þann 31. fór hitinn víðast hvar yfir 10 stig og mældist þá mesti hiti mánaðarins, 14,6 stig á Akureyri.
Margrét Thatcher varð forsætisráðherra Bretlands snemma í þessum ólánsmánuði. Kortið sýnir meðalhita mánaðarins.
1866 (1,1, 0,6) Maí 1866 er sá næst kaldasti ef aðeins er miðað við Reykjavík og Stykkishólm en ef líka er miðað við Akureyri og þessar þrjár stöðvar vegnar saman er þetta einfaldlega kaldasti mældi maí á landinu. Og auðvitað sá kaldasti á Akureyri. Þar hefur hitinn verið áætlaður -0,8 stig eftir mælingum á Siglufirði sem voru -1,3 stig. Þess kuldi kom í kjölfar næst kaldasta vetrar (des.-mars) í Stykkishólmi síðan mælingar hófust þó apríl hafi verið þokkalegur að hita.
Hvert kuldakastið kom eftir annað, segir Árbók Reykjavíkur. Að kvöldi hins annars gerði gríðarlega harðan frostakafla af norðaustri, líklega þann mesta sem komið hefur á landinu í maí síðan farið var að mæla í Stykkishólmi laust fyrir miðja 19. öld. Þann þriðja var frostið þar 7-14 stig, 5-14 stig daginn eftir og 1-10 þann fimmta. Þetta eru mestu frost sem komið hafa í Stykkishólmi í maí. Ekki snjóaði í Stykkishólmi meðan mestir voru kuldarnir, en þá var fremur bjart yfir, en hins vegar nokkuð þegar kuldakastið var að skella á og aftur þegar því lauk. Tuttugu stiga frost hefur aldrei mælst á Íslandi í maí. En mér finnst líklegt að hefðu mælingar verið þessa daga á öllum þeim stöðvum sem nú mæla hefði mælst tuttugu stiga frost einhvers staðar á stöðvum þar sem mestan kulda gerir í maí, svo sem á Möðrudal og Hólsfjöllum, í Miðfirði, dölum í Þingeyjarsýslum og jafnvel á útskögum eins og Raufarhöfn. Kuldakast þetta kom á auða jörð í uppsveitum í Árness-og Rangárvallasýslum og olli miklum fjársköðum. Kastið leið hjá þann 6. Eftir það var hiti þolanlegur um hádaginn í Stykkishólmi, 6-9 stig dagana 13.-16., en sífelld næturfrost. Annað mikið norðaustanveður skall á rétt fyrir hvítasunnu, þann 18. Kom þá blindbylur syðra með svo miklu fannfergi að skaflar tóku víða í klyftir í Reykjavík. Í Mýrdal voru skaflar sums staðar jafnháir húsum. Miklir fjárskaðar urðu einnig í þessu veðri. Í Stykkishólmi hlánaði ekki dagana 18. og 19. og þar snjóaði líka nokkra daga um þetta leyti. Enginn dagur var alveg frostlaus í Stykkishólmi en síðasta daginn komst hitinn þar að deginum i 10,3 stig og varð ekki meiri í mánuðinum. Var þá komin hæg suðvestanátt. Síðasta dag mánaðarins segir Þjóðólfur að mestur hiti í mánuðinum við Landakot í Reykjavík hafi verið 4,7° R (5,8 C) þ. 16. en mesta frost -8,7° R ( -10,9 C ) þ. 4. Meðaltal allan mánuðinn hafi verið 0,3° R (0,4 C). Veturinn hafði verið með mestu ísavetrum. Skip komst loks inn á Eyjafjörð 22. maí eftir mánaðarhrakninga í ísnum og annað skip komst inn á Siglufjörð.
1888 (1,9) Hafís var við allt norður og austurland þennan mánuð og náði hann reyndar í júní byrjun til Vestmannaeyja þar sem hann fyllti höfnina og var þá íshella við Dyrhólaey. Ekki kom annar eins hafís við landið fyrr en 1968 en náði þá ekki lengra vestur en að Skeiðarárósi. Norðankuldar voru í byrjun mánaðar og snjóaði víða þó nokkuð bjart væri yfir syðst á landinu. Komst frostið í 12,2 stig á Stóranúpi og hefur aldrei orðið meira í maí í Hreppunum. Kafaldsbylur var af norðri þ. 7. og var talinn einhver sá mesti sem dæmi voru um á þeim árstíma sunnanlands. Þann 9. dró til sunnanáttar með sæmilegum hlýindum sem spilltust aftur þ. 14. með norðaustanátt í um vikutíma og snjóaði þá nokkuð á austurlandi en rigndi eða snjóaði syðra og vestra. Alvöru hlýindi með sunnanátt komu loks þ. 21. og mældist mesti hiti á landinu 20,1 stig einhvern tíma síðdegis þ. 24. á Teigarhorni. Hellirigning var í höfuðstaðnum dagana 21. og 22., 11-14 mm. Síðustu sex dagana kólnaði á ný með norðaustanátt og var frost meira og minna á landinu nema á suður og vesturlandi þar sem var frostlaust að degi en næturfrost hverja nótt. Stundum snjóaði. Úrkoma var annars fremur lítil í þessum maí nema í Reykjavík þar sem hún var í kringum meðallag.
Jónassen afgreiddi veðurfarið í nokkrum Ísafoldarblöðum:
... Í dag 1. mai er vestanhroði með snjóhryðjum og kaldur. (2. maí) - Alla þessa viku hefur verið norðanvindur, stundum all-hvass, stundum hægur að minnsta kosti að kveldi; snjór hefur fallið talsverður einkum h. 7.; gekk hann til vesturs-útnorðurs og var ofanhríð rjett allan daginn með kulda rjett sem væri á miðþorra. Í dag 8. hægur á norðan bjart og fagurt veður og bræðir sólin nú óðum aptur allan snjóinn. (9. maí) - Framan af vikunni var hæg sunnanátt með talsverðri hlýju, gekk síðan til vesturs - útsuðurs og var hvass til djúpa, þótt hjer væri logn innfjarðar; hefur síðan verið sama veðurátt, snjóað við og við í fjöll og mikill kalsi. Í dag 15. hjer logn en útifyrir hvass á norðan; hefur snjóað talsvert í fjöll í nótt. (16. maí). - Framan af þessari viku hjelzt við norðanáttin optast hvass og kaldur og snjó ýrði úr lopti við og við; um 20. gekk veður til austurs-landsuðurs með dimmviðri og regni og hefir sú veðurátt haldizt síðan; bæði í gær og í dag (22.) talsverð hlýindi, svo grænkað hefir þessa tvo dagana. Í dag 22. rok-hvass á landsunnan um og eptir hádegið. Þessa vikuna í fyrra var hjer norðanbál með miklum kulda; 19. maí í fyrra var tjörnin hjer frosin og 2 stiga frost um hádegi. (23. maí). - Fyrsta dag vikunnar var hjer hvasst sunnanveður fram að kveldi, síðan logn næsta dag; síðan hefir verið rjett að kalla logn en einlægt við norður, kuldar og snjójel við og við úr lopti. Í dag 29. hægur á norðan með snjóýring við og við, bjartur að öðru leyti. (30. maí). - Framan af vikunni hjelzt sama norðanveðrið með kulda og var hvasst einkum til djúpa og snjór til fjalla. ... (6. júní.
1906 (2,2) Norðlægar og norðaustlægar áttir voru ákaflega þrálátar í þessum mánuði. Hæð var yfir Grænlandi en lágur loftþrýstingur yfir Bretlandseyjum. Sjá kortið. Fyrstu átta dagana var sérstaklega kalt. Ekki hlánaði þá í Stykkishólmi allan sólarhringinn og jafnvel ekki í Reykjavík einn daginn. Næstu daga skreið hitinn oftast yfir frostmark en næturfrost voru stöðug. Í Grímsey má reyndar segja að ekki hafi hlánað fyrstu 17 dagana. Í Vestmannaeyjum var hitinn hins vegar oftast yfir frostmarki og alveg sæmilegur suma dagana er á leið. Sömu sögu er að segja frá Reykjavik. Það var loks hinn 18. að mestu kuldarnir létu undan síga, en þó fáum dögum fyrr á suðvesturlandi, en á útkjálkum fyrir norðan þráuðust kuldarnir við þangað til síðustu vikuna. Mestur varð kuldinn -10,0 stig á Holti í Önundarfirði. Hríðar voru fyrir norðan þennan kuldatíma og stundum einnig á vesturlandi en lítil úrkoma var á austfjörðum og suðurlandi. Til marks um fannferngið var hnédjúpur snjór við Grenivík þ. 3. Á suðurlandi og stundum líka vestanlands voru bjartviðri í eina tíu daga frá miðjum mánuðinum. Hýjast á landinu varð 13,7 stig og var það í Reykjavík síðasta daginn. Engin úrkoma féll fyrstu tólf dagana í Reykjavík, þá í þrjá daga og svo ekki aftur fyrr en þ. 30. Úrkomudagar voru því aðeins fjórir. Alls staðar var lítil úrkoma, kringum helmingur af meðallaginu.
Eftir íslítinn vetur var töluverður íshroði fyrir norðurlandi. Hann fór inn í Húnaflóa og að Ströndum og rak svo austur eftir framhjá Skaga, Siglufirði og Melrakkasléttu, en varð hvergi hafa orðið landfastur nema á Ströndum.
Norska leikskáldið Henrik Ibsen dó 23. maí og nokkrum dögum síðar stjórnaði Gustav Mahler frumflutningi á sjöttu sinfóníu sinni í Essen.
1914 (2,4) Þessi maí var engu skárri en 1906 hvað veðurlag snerti þó hann eigi að heita ofurlítið hlýrri. Mánuðurnir voru samt ekki líkir. Landið var algjölega í maí 1914 undir áhrifum kaldra loftstrauma úr vestri og norðri. Kortið sýnir áætlað ástand í kringum 1400 metra hæð. Mesti hiti í Reykjavík var sá lægsti í nokkrum maí, 9,7 stig (þ. 28.). Þetta er eini maí í mælingasögu borgarinnar sem hiti hefur ekki náð tíu stigum. Mikil snjókoma var á landinu fyrstu vikuna og aftur kringum þann 20. Krapahryðjur voru viðloðandi svo að segja út mánuðinn vestanlands. Þess á milli voru stórrigningar. Eftir þokkalegan fyrsta maí kom frostakafli í viku með norðaustanátt þó frostlaust væri á daginn syðst á landinu. Norðan hvassviðri og 6-8 stig frost var fyrir norðan að morgni hins 7. og svipað næstu tvo daga. Snjór var í Reykjavík þ. 9. Tóku síðan við suðvestlægar áttir í tíu daga og var það besti kafli mánðarins. Hiti fór í 14,5 stig á Teigarhorni þ. 12. Hörkunorðanveður skall á þ. 21. sem stóð í tvo til þrjá daga með snjókomu fyrir norðan. Austri á Seyðisfirði greindi frá því þ. 21. að hafi gjört þar stórhríð og þar sé kominn töluveðrur snjór og á heiðum nái snjórinn hestum í kvið. Ísafold segir hinn 23. að þá sé alhvít jörð í Reykjavík og hafi snjóað drjúgum um morguninn og frameftir degi. Sé þetta óefað algert einsdæmi á þessum tíma árs, bætir blaðið við. Eftir þetta snérist til suðvestlægra og vestlægra átta út mánuðinn. Var þá sæmilega hlýtt stundum og komst hitinn í 14,8 stig þ. 26. á Möðruvöllum í Hörgárdal. Mjög hvessti af norðvestri á sunnanverðum austfjörðum næst síðasta daginn en þá voru hryðjur á vesturlandi í útsynningnum.
Í byrjun mánaðar kom hafísinn einu sinni sem oftar þetta árið upp að Horni og var hann þá 45 vikur sjávar undan landi frá Siglufirði en varð landfastur við Langanes og allt suður að Vopnafirði. Hann dreifðist þó við Langanes þ. 6. svo skip komust leiðar sinnar. Upp að Grímsey kom ísinn í byrjun maí stutta stund og svo aftur 21. og lagðist þá upp að eyjunni og fór smátt að smátt að mjakast nær norðurlandi. Var ís að flækjast við Grímsey og aðra útskaga fram undir miðjan júní. Hvítabjörn var felldur á Melrakkasléttu.
Sá merkismaður, Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi dó um miðjan mánuðinn. Mikill og mannskæður jarðskjálfti varð á Sikiley.
1883 (2,5) Mánuðurinn byrjaði fremur vel með hægri vestlægri átt og og þ. 4. komst hitinn í 14,7 stig á Teigarhorni og mældist aldrei hærri hiti á landinu. En þann 5. hófust norðanhríðir á norðurlandi með frostum. Hélst þetta veðurlag allan mánuðinn á norðurlandi. Dagana 7.-12. gerði allmikið frost í Reykjavík, mest -6,4 stig þ. 12. Lagði þá Tjörnina en allur gróður hvarf sem kominn var. Versta tíð var svo í bænum til mánaðarloka þó nokkuð mildaðist fáeina daga upp úr miðjum mánuðinum en kólnaði svo aftur í lokin og voru þá snjókomur á vesturlandi. Mestur kuldi á landinu var -9,1 stig á Grímsstöðum. Í lok maí rak hafís að Langanesi og Hornströndum en um veturinn hafði verið lítill ís. Úrkoma var kringum meðallag í Stykkishólmi og á Teigarhorni en í minna lagi í Vestmannaeyjum. Jónassen var erlendis og frá honum komu því engar æsispennandi veðursögur þennan mánuð!
1892 (2,5) Fyrstu tvo dagana var köld norðanátt með 5-7 stiga næturfrosti í Reykjavík. Í Grímsey fór frostið í -12,2 stig þ. 1 sem er þar kuldamet í maí (frá 1872) Næstu daga hlýnaði með vestanátt. En hinn 7. færðist yfir óvenjulega köld og hvöss norðanátt og snjóaði þá norðanlands og austan en léttskýjað var á suður-og vesturandi. Frostið í Reykjavík fór í -8,2 stig (eða -9,1) þ. 9. og er það mesta frost sem þar hefur mælst í maí. Á Gilsbakka í Hvítársíðu fór frostið í 14,2 stig. Ísafold segir að um þetta leyti hafi höfnina lagt á einni nóttu á Ísafirði og Dýrafirði en frostið hafi verið 12-14 stig á Celsíus. Dagsetningar á þessum atburði er ekki getið en líklega hefur það verið áttunda eða níunda. Eftir að kuldarnir gengu niður var sæmilega hlýtt á landinu í um það bil viku en í Grímsey voru þó kuldar flesta daga til mánaðarloka. Hitinn í Reykjavík fór í 12-13,8 stig dagana 12.-14. og var hlýjast þ. 13. og mældist hvergi meiri hiti í þessum mánuði á landinu, en líka var þó fremur hlýtt á suðurlandi. Annað kuldakast, en þó vægara en hið fyrra, var dagana 18.-20. Var þá bjart yfir nokkra daga syðra og sæmilegur dagshiti en stundum næturfrost. Síðustu tvo dagana kólnaði enn á ný með hvassri norðanátt. Snjóaði þá enn fyrir norðan og austan, þar sem snjókomur voru reyndar tíðar allan mánuðinn og jafnvel í Vestmanaeyjum varð snjókomu vart. Austri á Seyðisfirði segir í mánaðarlok að þar snjói nær daglega. Annars var þetta afar þurrviðrasamur maí. Bæði í Reykjavík og Stykkishólmi féll úrkoma aðeins fjóra daga og alltaf minna en einn mm í Stykkishólmi. Frá þeim 13. féll þar engin úrkoma. Þetta er enda þurrasti maí í Hólminum frá 1857. Hæð var yfir Grænlandi í mánuðinum en lægðasvæði austur við Noreg og eindreginn norðanstrengur um landið og hlýtt loft oftast víðsfjarri. Á kortinu á að vera L í staðinn fyrir H þarna suður í hafi! Jónassen gerði tíðarfarinu skil í Ísafold:
Hvass á norðan til djúpa bæði 30. [apríl] og 1. hægur og bjartur hjer; hinn 2. rjett logn og dimmur austankaldi, síðan útnorðankæla um kveldið h. 3. Suðvestangola, dimmur og ýrði suddi úr lopti síðari part dags. Í morgun (4.) hægur á útnorðan, dimmur. (4. maí) - Hinn 4. á vestan-útnorðan, hægur; logn og dimmt veður h. 5. með útsynnings-sudda síðari part dags; hægur á vestan h. 6., bjartur. Í morgun (7.) bjart sólskin og logn; norðangola, fyrir utan.(7. maí). - Hægur á norðan h. 7., en hvass á norðan hínn 8. með miklum gaddi; kl. 9 um morguninn var 8 stiga frost og frusu gluggar um miðjan dag; logn eða hæg útræna h. 9. Landnorðan, hvass og kaldur h. 10. Hægur á austan og dimmur í morgun (11.) og ýrir regn úr lopti. (11. maí). - Undanfarna daga hefir verið austanátt hæg og hlýnað mikið í veðri. Enn þá er hjer mikill klaki í jörðu. (14. maí). - Hægur á austan og bjartur h. 14. gekk svo til norðurs, hægur hjer en hvass útifyrir; logn og regn úr lopti h. 16. bjartur á landnorðan að morgni h. 17., landsunnan hægur síðari part dags. Í morgun (18.) rjett logn, bjartur. (17. maí). - Undanfarna daga á norðan, kaldur og við og við snjór úr lopti, hvítt hjer snemma morguns h. 20. Ekkert útlit enn að breytast muni veður. (21. maí). - Hægur á norðan al!a undanfarna daga, optast logn á kvöldin; Einlægt sami kuldinn á nóttu. (25. maí). - Undanfarna daga rjett logn og bezta veður; loksins regn úr lopti h. 27. Í morgun (28.) hæg útræna, bjart og fagurt veður. (28. maí). - Alla undanfarna daga norðanveður, þó eigi mjög hvass nema 30. og 31. rokhvass með köflum. Ekkert útlit enn til breytingar á veðri. (1. júní).
Við Hornbjarg og Melrakkasléttu var hafís langt fram í maí. Um miðjan mánuðinn var engin sigling enn kominn til hafna milli Ísafjarðar og Akureyrar og héldust hafþök af ís fyrir norðurlandi milli nyrstu útkjálka og var ísinn landfastur beggja megin og hindraði þannig allar siglingar. Við austfirði var einnig mikill ís og fór hann ekki af Seyðisfirði fyrr en um Jónsmessu og um svipað leyti af Eskifirði og Berufirði. Skip komust hins vegar til hafna vestanlands og norðan um miðjan maí.
1949 (2,6) Þessi mánuður var lengi alveg alræmdur í minni fólks. Það hjálpaði líka til að muna hann að þetta var vorið sem landið gekk í NATÓ með tilheyrandi þjóðfélagsátökum. Í skáldsögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar Drekar og smáfuglar, sem fjallar um þessi átök, eru vorkuldarnir stundum notaðir sem bakgrunnur atburða. Kom þessi maí í kjölfar næst kaldasta apríl á 20.öld. Norðanlands og í innsveitum syðra voru fádæma snjóþyngsli og víða horfði til vandræða vegna heyleysis. Jafnvel var gripið til þeirra ráða að varpa heyi úr flugvél því samgöngur voru allar úr skorðum gengnar vegna fannkynngi. Snjólag var 48%, það mesta í maí sem snjóalgstölur ná yfir frá 1924. Alls staðar var mjög snjóþungt miðað við maí nema á sjávarstöðvum við suðurströndina. Alautt var á Loftssölum við Dyrhólahey, Reykjanesvita og Sámsstöðum en hvergi annars staðar. Í Reykjavík voru alauðir dagar 30. Á suðurlandi voru reyndar engir dagar heldur alhvítir nema einn á Kirkjubæjarklaustri og sá 25. í Vestmannaeyjum þar sem snjódýptin var 25 cm. Snjór hefur reyndar einu sinni verið meiri í maí á Stórhöfða og þar hefur jafnvel mælst snjór í júni. Á Hólsfjöllum, við Mývatn og á Möðrudal, var alhvítt í eina tuttugu daga. Alhvítt á láglendi var allvíða kringum 15 dagar á Vestfjörðum og á norðurlandi en sums staðar þó minna, t.d. þrír dagar á Akureyri. Í mánaðarlok var enn mikill snjór sums staðar, t.d. 55 cm á Sandi í Aðaldal og 85 cm á Siglunesi. Sama snjóþekjan á Siglunesi átti svo eftir að setja Íslandsmet í snjódýpt í júní þegar sá mánuður rann upp. Það er til marks um fannfergið að þ. 30. lét þak á nýju húsi á Siglufirði undan vegna snjóþyngsla! Aldrei hefur mælst eins úrkomusamur maí á Sandi, 84,9 mm (1934-2004) og sólarhringsúrkoman þar 29,2 mm þann 30. er líka met og var hún snjór! Á Húsavik mældist einnig meiri mánaðarúrkoma en í nokkrum maí, 105 5 mm (1927-2004) og í Reykjahlíð við Mývatn 79,0 mm (frá 1938). Í Fagradal í Vopnafirði var sólarhringsúrkoman 20,2 mm þ. 28. og varð aldrei meiri meðan mælt var (1932-1964). Þann morgun var úrkoman 34,8 mm á Raufarhöfn sem þar er einnig maímet.
Mánuðurinn hófst reyndar með sæmilegum hlýindum með mikilli rigningu fyrstu tvo dagana. Síðan gekk hann í norðanátt og kulda og þ. 4. mældist metkuldi í maí á Suðureyri við Súgandafjörð, -7,4 stig (1923-1989). Linnti norðanáttinni varla allan mánuðinn nema dagana 8.-12. þegar vindátt var breytileg og ekki kalt í veðri. Hitinn komst í 17,5 stig þ. 9. á Hallormsstað og 17 á Akureyri sem er reyndar mesti hiti sem þar hefur mælst 9. maí frá 1949. Héldu nú kannski sumir að vorið væri að koma. En það var öðru nær. Aðfaranótt hins 13. fór lægð norður með austurströndinni og bar með sér kalt loft yfir landið sem gerði sig heimakomið. Blindhríð var á Siglufirði. Síðustu viku mánaðarins mátti heita vetrrarríki um allt land", segir Veðráttan. Fyrir norðan var linnulaust hríðarveður og suma dagana snjóaði einnig sunnanlands. Oft var hvasst. Vindhraði fór í 11 vindstig í Reykjavík þ. 28. Þetta var nokkru áður en Sigurður Þórarinsson orti ekkert er fegurrra en vorkvöld í Reykjavík". Kuldamet fyrir sólarhringsmeðalhita viðkomandi daga í maí komu á Akureyri dagana 24.-26. og aftur 29.-30. Tvo síðustu dagana hlýnaði reyndar talsvert þó ekki væri hægt að tala um nein alvöru hlýindi. Sólríkt var fyrir sunnan þennan mánuð enda var norðanátt mjög algeng. Dagana 15.-25, var t.d. mikil sól í Reykjavík og á suðurlandi en oft næturfrost og svalt um daga nema 20.-22 þegar fremur hlýtt var um hádaginn. Á Kirkjubæjarklastri hefur ekki mælst minni úrkoma í maí, 22,1 mm (frá 1931). Á landinu öllu var úrkoman talsvert minni en í meðallagi. Kortið sýnir þyktina þennan mánuð. Yfir Keflavík er þyktinn að meðaltali margra ára um 5350 m í maí.
Snemma í mánuðinum lést belgíska nóbelsskáldið Maurice Maeterlinck. Hann er víst flestum gleymdur en Debussy samdi frábæra óperu sína Pelleas og Melisande við leikrit eftir hann.
1882 (2,7) Sífelldir næðingar einkenndu þennan maí auk kuldanna. Og mánuður þessi var eins konar upptaktur að hraklegasta sumri sem komið hefur á norðurlandi síðan sæmilega nákvæmar veðurskráningar með mælitækjum hófust. Gróður var nær enginn í mánaðarlok. Fyrstu vikuna voru látlaus frost en um miðjan mánuð kom viku kafli með þokkalegum hita. Komst hitinn í Stykkishólmi í 14,2 stig þ. 20. Klukkan 14 þann dag var hitinn 13 stig í Grímsey og næsta morgun 13,7 stig á Teigarhorni. Það hlýtur að hafa verið um þetta leyti sem sagt er í prentuðum skýrslum að hitinn hafi farið í 16,3 stig í Reykjavík, 19,8 á Akureyri og mest í 20,7 stig á Hrísum í Eyjafjarðardal. En þessi dýrð stóð ekki lengi. Norðanbál gerði dagana 23.-26, með miklu sandfoki á suðurlandi en stórhríð fyrir norðan. Þann 24. júní lýsti Þjóðólfur svo veðrinu í Reykjavík og víðar þessa daga: Stormur þessi stóð hér í tvo daga, enn síðan lægri þann 25. enn hélzt þó við næstu daga á eptir. Frost var hér nokkurt og fjúkslitringur með köflum, enn festi aldrei hér, enn upp til sveita kom snjór nokkur. Svo mun verið hafa víðast um land, því úr Skagafirði er oss ritað þann 28., að þá væri þar alstaðar alsnjóa niður í sjó. Ur Borgarfirði hefir frétzt, að þá hafi komið slíkur snjór og óveður, að sauði marga hafi fent til bana i Hvítársíðu og Norðurárdal.
Var síðan kuldatíð til mánaðarloka. En í apríllok hafði norðan illvirði fyllt firði fyrir norðan og austan með hafís sem náði langt frá landi. Komst ísinn allt að Breiðamerkursandi og Ingólfshöfða en á Vestfjörðum fór hann ekki suður fyrir Ísafjarðardjúp en lagðist upp að Straumnesi. Sums staðar losnaði ísinn við og við og var hann að koma og fara, t.d. á Eyjafirði og Vopnafirði. Úrkoman var mikil á austurlandi, kringum meðallag í Stykkishólmi en í minna lagi í Vestmannaeyjum.
Engar veðurlýsingar eru til frá Jónansen þennan mánuð en 20. febrúar 1883 birti Norðanfari á Akureyri yfirlit yfir veður hvers mánaðar árið 1882 eins og það var framarlega í Eyjafirði''. Svo segir um maí:
1.-2. norðan hvass með snjófjúki og þokulopti. 3. kyrr og bjartur. 4.-5. norðan hægur; loptbert. 6,-7. kyrrt og heiðríkt. 8. suðvestan hvass; loptbert. 9. kyrr og þykkt lopt. 10.-12. norðan hægur með þokulopti; smáskúrir. 13. -15. suðvestan hægur með þykku lopti og smáskúrum. 16.-18. suðvestan hvass; þykkt lopt. 19.-20. suðaustan hægur; skýjað. 21.-25. norðaustan þjetthvass; þokufullt og snjófjúk stundum. 26. kyrrt og þokufullt. 27.-30. norðan hægur með þokulopti. 31. suðvestan hægur með skúrum. 11. daga af mánuðinum var frost, en 20 daga hiti. Mest var frost að morgni hins 1. 10° C. Mestur hiti um hádegi hins 20. 21° C.
1886 (2,9) Mildar suðaustlægar og suðlægar áttir voru fyrstu dagana og úrkomusamt syðra. Hitinn komst t.d. í tíu stig þann fyrsta í Reykjavík og svipað næstu þrjá daga. Síðan gekk í norðlægar áttir og austlægar og var oft bjart syðra seinni helming mánaðarins. Hæð var þá yfir Grænlandi en tiltölulega lágur loftþrýstingur yfir vestanverðum Bretlandseyjum. Þó kalt væri framan af voru frost þó aldrei afskaplega hörð miðað það sem oft er í mjög köldum maímánuðum, aldrei meira en eitt stig að morgni í Stykkishólmi. Kaldast varð -7,1 stig á Raufarhöfn. Kaldasti tíminn var frá þeim 6. til hins 17. en þá hlánaði ekki í Grímsey. Hríðar voru viðloðandi á vesturlandi fram yfir miðjan mánuð. Aldrei varð almennilega hlýtt en þó komu örfáir sæmilega hlýir dagar upp úr þeim 20. og komst hitinn mest í 14,1 stig á Teigarhorni þ. 24. Fróði á Akureyri segir frá því hinn 31. að síðastliðna viku hafi verið mjög kalt, frost á hverri nóttu og alveg gróðurlaust. Úrkoma var lítil á lanidnu í mánuðinum. Á þessum tíma birti Jón Á. Hjaltalín á Möðruvöllum í Hörgárdal eins konar veðuruppgjör í Fróða á Akureyri um hvern mánuð. Hvað sem um áreiðanleika þeirra má segja greinir hann frá því 6. júlí í blaðinu að í maí hafi snjóað sjö daga í mánuðinum en þurrrir dagar verið 23 og hvassir dagar 6. Mesta hita mældi hann 14,2 °C þ. 2. en mesta kulda -2,0° þ. 11. Meðaltal allan mánuðinn gefur hann upp sem 3,75° C sem er miklu miera en reiknaður meðalhiti fyrir Akureyri sem sjá má í fylgiskjalinu vinsæla, eftirlæti blogglesenda! Svo lýsir Jónassen veðrinu í Ísafold:
Mestalla vikuna hefir verið sunnanátt eða landsunnan með hlýindum, og hefir við og við rignt nokkuð. 3. var hjer landsunnanrok fyrri part dags, hægur á sunnan að kveldi. Í dag 4. hæg austanátt, dimmur. Jörð grænkar óðum. (5. maí). - Umliðna viku hefir viðrað óvenjulega vel bæði til lands og sjávar, rigningaskúrir og sólskin hafa skiptzt á, svo nú er jörð hjer eins græn eins og um miðbik júnímánaðar í fyrra; stöku nótt hefir snjóað lítið eitt í fjöll. Í dag h 11. hæg útnorðanátt, bjart sólskin. - í fyrra var hér norðanbál um þetta leyti með talsverðu frosti, svo alla glugga lagði móti norðri; 8. mai snjóaði hjer í bænum og gjörði alhvítt. (12. maí) - Alla umliðna viku hefir hjer verið norðanátt með talsverðum kulda; þótt eigi hafi hann verið mjög hvass hjer; hefir verið að sjá rok til djúpa á hverjum degi; við og við hefir snjó ýrt úr lopti; í Esjuna hefir snjóað, svo alhvít hefir orðið alveg niður sjávarbakka. Ekkert útlit er fyrir, enn að hann sje að ganga niður veðrið. Í dag 18. vægari með veður, bjartur og með hlýasta móti. (19. maí) - Mestalla vikuna hefir verið hjer sama norðanáttin sem fyrri vikuna, opt hvass mjög til djúpanna; 22. og 23. var vestanútnorðanátt með dimmviðri, og gekk aðfaranótt h. 24. til hánorðurs með bjartviðri; kuldi hefir verið talsverður í lopti og sama helzt við enn; í dag 25. hægur á norðan, bjartur. (26. maí). - Framan af vikunni hjelzt sama norðanáttin sem að undanförnu (síðan 12. maí). Síðan hefir verið hæg veðurátt; 30. rigndi lítið eitt síðari part dags; jörð skrælþurr. Á hverri nóttu hefir legið við frosti hjer niður við sjó. Alla vikuna hefir loptþyngdarmælir staðið mjög hátt og varla hreyft sig. Í dag 1. júní er hægur vestan kaldi, bjart veður. (2. júní).
Ís var við Grísmey þennan mánuð. Íshroði komst einnig inn á Ísafjarðardjúp en 2. maí hvarf hins vegar síðasti íshroði af Eyjafirði. Ís lónaði úti fyrir norðurlandi en í lok mánaðarins rak hann að landi á útskögum og hélst þar við viku af júní. Allan mánuðinn voru kuldar og næðingar og stundum hretviðri, einkum þó vestanlands og norðan. Lagnaðarís var riðinn yfir Hrútafjörð frá Þóroddsstöðum að Borðeyri þ. 20 og snemma í júní var enn ís á vötnum í norðlenskum sveitum
Snemma á 19. öld komu nokkrir ótrúlega kaldir maímánuðir samkvæmt mælingum sem gerðar voru hér og hvar á landinu, en hafa verið reiknaðar til meðalhita í Stykkishólmi. Árið 1812 var meðalhitinn þar talinn 1,5 stig, 1,6 árið 1820 og 1,7 árin 1811 og 1803. Eftir þessu virðist sem maímánuðir af svipuðum kuldaflokki og 1979 og 1866 hafi verið furðu algengir á landinu í upphafi 19. aldar ofan á harða vetur og rysjótt sumur sem þá ríktu. Árin 1811 og 1812 voru mælingarnar gerðar á Akureyri og var þar aðeins lítillega kaldara en reiknað er yfir til Stykkishólms. Mæliaðstæður voru aðrar en nú gerist en mælt þrisvar á dag: á morgnana, um miðjan dag og seint á kvöldin. Þess má geta að feikilegt kuldakast var 2.-4. maí 1811 á Akureyri. Frostið á athugunartímum var þá aldrei minna en -5 stig en mest -13,8 stig að kvöldi annars maí. Mesta frost á seinni áratugum í maí á Akureyri er tíu stig. Í maí 1812 var líka mikið kuldakast á Akureyri 3.-5. maí. Tólf stiga frost var þar að kvöldi hins fimmta.
Árbók Reykjavíkur; Ísafold 9, maí 1888; 16. maí; 19. maí 1906; Ísafold 1. júní 1892; Austri 30. maí 1892; Fróði 1. júní 1882.
Fyrra fylgiskjalið sýnir ýmsa veðurþætti á stöðvunum eins og venjulega en hið síðar er dálítill vorglaðningur um maí 1979 og 1949.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 7.12.2011 kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2011 | 15:03
Hlýjustu maímánuðir
Blómaskeið hinna ofurhlýju maímánaða var fremur snemma á tuttugustu öld. Frá árinu 1928 til 1947 komu átta maímánuðir þegar meðalhitinn í Reykjavík náði 8 stigum en frá 1948 eru þeir aðeins fimm og þar af einn eftir 1974. Meðalhiti í maí á stöðvunum níu var 5,2 stig árin 1961-1990.
1935 (7,8) Á nær öllu suður og vesturlandi frá Mýrdal til Snæfellsness er þetta hlýjasti maí sem mælst hefur, svo og á svæðinu kringum Hrútafjörð og á Fagurhólsmýri. Og þetta er einnig hlýjasti maí á landinu öllu miðað við stöðvarnar níu sem lengst hafa athugað og hér eru lagðar til grundvallar.
Loftþrýstingur var óvenjulega mikill yfir landinu, reyndar sá næst mesti frá upphafi mælinga. (Kortið sýnir frávik á hæð 500 hPa fletinum). Hann var minnstur á Akureyri, 1021,1 hPa en mestur í Vestmannaeyjum, 1023,5 hPa. Þetta var hluti af hlýrri hæð sem var suðaustur af landinu. Fyrstu tvo dagana var suðaustan og austanátt og rigndi dálítið á suður- og austurlandi. Hæg austanátt var næstu þrjá daga og var þá fremur kalt norðaustanlands og þokusamt. Dagana 6.-10. var sunnan og suðvestanátt og stundum allhvasst á suðvesturlandi með dálítilli rigningu en góðviðri og hlýndi voru annars á landinu. Hlýjastir að tiltölu í mánuðinum voru þeir 7. og 8. Hæg norðan og norðvestanátt var dagana 11.-13. og víðast hvar var þurrt og bjart veður. Hiti komst síðast talda daginn í 15 stig í Vík Mýrdal. En þann 14. skall á norðaustan hvassvirði með kuldahreti norðaustanlands. Lægð var þá á milli Íslands og Færeyja. Næstu tvo daga var hæg norðanátt og bjartvirði en fremur kalt var á norðausturlandi. Í þessu væga hreti mældist mesti kuldi mánaðarins. -5,0 stig á Grímsstöðum þ. 15. Þann 17. var dálítil rigning vestanlands enda var þá vestanátt vegna lægðar fyrir norðan land á austurleið. Daginn eftir olli hún norðanátt með þokusúld á austurlandi en bjartvirði sunnanlands og vestan.
Dagana 19.-24. var yfirleitt hægviðri og úrkomulítið en stundum þó lítilsháttar rigning eða þoka á vestur- og norðurlandi en mikil rigning á Vestfjörðum þ. 21. Hitinn í Reykjavík fór í 16,4 stig þ. 19. Hæð var sunnan og suðvestan við landið en grunnar lægðir norðan og austan við það. Hiti fór þ. 20. í 20,1 stig á Hólum í Hornafirði og var það mesti hiti mánaðarins en þann dag fór hitinn ekki hærra en í 9,4 stig í Reykjavík. Sunnan og suðvestanátt var 25.-26. Var þá þurrt og hlýtt á austurlandi en dálítil rigning vestanlands. Síðustu fimm dagana var áttin suðaustlæg. Hægviðri var fyrir norðan og austan og sólríkt en allhvasst á suðvesturlandi en alls staðar var úrkomulaust. Hlýtt var í veðri, hámarkshiti 15-19 stig á norðausturlandi og þ. 30. mældust tuttugu stig á Hvanneyri. Á þeirri stöð var meðaltal hámarkshita 13,2 stig og einnig á Hæli í Hreppum. Þetta gæti alveg gengið í júlí. Í Reykjavík var meðaltal hámarkshita 12,8 stig og var hámarkshiti allra daga nema tveggja ( 14. og 20.) yfir tíu stigum og er það alveg dæmalaust. Meðaltal hámarkshita fyrir allan maí er að jafnaði ekki nema kringum tíu stig í betri sveitum en þess ber að gæta að mikil árstíðaleg hlýnun er í gangi í mánuðinum. Enginn mánuður ársins hlýnar eins mikið frá fyrsta til síðasta dags. Oftast gerist það í seinni hluta maí að hitafarið nær sumarblæ, t.d. að hámarkshiti í betri sveitum nái því að vera tíu stig að staðaldri sem helst svo fram á haust þó stundum kunni dagur og dagur að bregðast að þessu leyti.
Aldrei hafa jafn margar veðurstöðvar haft meðalhita upp á 9 stig eða meira sem í þessum mánuði. Þær voru sex. Sámsstaðir voru með 9,5 stig sem er mesti meðalhiti sem reiknaður hefur verið fyrir nokkra veðurstöð í maí, ásamt maí 1933 á Akureyri og aftur á Sámsstöðum 1946. Aðrar stöðvar sem voru með yfir 9 stig voru Hvanneyri, Kirkjubæjarklaustur og Vík í Mýrdal (allar 9,1), Eyrarbakki og Grindavík (9,2) og Reykjanesviti (9,1). Allt er þetta hiti sem væri júní samboðin. Tíðarfarið var einmuna gott, því nær óslitin hlýindi og stillur, svo að gróðri fór ört fram og skepnur komu af gjöf. Sumstaðar austanlands var heldur þurrt fyrir gróðurinn í lok mánaðarins." Svo segir Veðráttan. Úrkoman var meira en helmingur undir meðallagi. Sól mátti heita nálægt meðallagi syðra en yfir því fyrir norðan. Austanátt var tíðust allra átta en veðurhæð var undir meðallagi og aldrei gerði storm. Snjólag var mjög lítið 2 %, það næst minnsta í maí, en meðaltalið 1924-2002 er 16%. Hvergi var jörð talin alhvít í mánuðinum en á nokkrum stöðum var talin flekkótt jörð í örfáa daga. Frostlaust var í Reykjavík allan mæan uðinn og við sjóinn á suðurlandi. Hæðarsvæði við jörð og í háloftunum var ríkjandi suðaustur af landinu. Mjög kalt var í Evrópu að tiltölu þennan mánuð og 1. maí snjóaði í Berlín og um miðjan mánuð víða á Englandi, jafnvel í Lundúnum.
Í góðviðrinu á Íslandi var golf leikið þar í fyrsta sinn. Spretthlauparinn Jesse Owens gerði sér lítið fyrir og setti fimm heimsmet á sama deginum, 25. maí!
Kortið sýnir meðalhitann í þessum maí á landinu.
1939 (7,6) Árið 1939 er goðsögn hvað hlýindi varðar á landinu. Þá mátti heita gósentíð frá mars til október. Á norðurlandi, frá Blönduósi og Skagafirði að Melrakkasléttu, var þetta hlýjasti maí sem þar hefur mælst. Mánuðurinn sker sig úr fyrir það að aldrei hafa jafn margar veðurstöðvar verið frostlausar í maímánuði. Það var bókstaflega allt landið, til sjávar og sveita, nema nokkrar stöðvar á norðausturlandi og ein í Miðfirði. Í Reykjavík var lágmarkið það hæsta sem mælst hefur í maí, 3,1 stig. Á Stórhöfða og á Arnarstapa á sunnanverðu Snæfellsnesi fór hitinn ekki lægra en í 3,8 stig. Kaldast á landinu varð hins vegar -1,7 stig í Reykjahlíð við Mývatn þ. 3. Mánuðurinn var auðvitað talin einmuna góður til lands og sjávar. Fyrri hlutinn var yfirleitt heldur hlýrri en seinni hlutinn miðað við meðallag. Sérlega hlýtt var dagana 9.-16. Var þá fyrst sunnanátt með hlýindum en síðan hægviðri. Í Reykjavík var glaðasólskin og hitinn 16,4 stig h. 9. Þann 11. var hitinn 19-20 stig á norðausturlandi. Þann dag var lítil sól á Akureyri en næstu dagar voru þar ágætir sólardagar og enn var hlýtt. Fyrir sunnan var líka stundum blíðvirði. Hitinn var til dæmis 15-18 stig á suðurlandsundirlendi þ. 15. Mesti hiti á landinu mældist þó ekki fyrr en næst síðasta daginn, 20,5 stig á Núpsdalstungu í Miðfirði (en þetta var ein þeirra örfáu stöðva þar sem frost mældist líka í mánuðinum). Og er þetta reyndar mesti maíhiti sem mælst hefur þar í sveit. Mánuðurinn var hagstæður gróðri hvað úrkomu varðar sem hvergi var of lítil eða of mikil og í heildina kringum meðallag. Suðvestan og suðaustan voru algengustu áttir. Kortið sýnir að í mánuðinum var hæð ríkjandi ytfir Norðurlöndum en lægðasvæði fyrir sunnan Grænland. Víðast hvar var snjólaust allan mánuðinn en snjólag var þó 6%. Á Hornbjargsvita var snjódýpt 34 cm fyrsta dag mánaðarins. Sól var fremur lítil í Reykjavík, þar sem mánuðurinn var 9. sólarminnsti maí frá 1911, en sólríkt var fyrir norðan. Í kjölfar þessa maí kom níundi hlýjasti júní á landinu með mesta hita sem mælst hefur á landinu og sumarið í heild var það hlýjasta á suður og vesturlandi.
Gerlach ræðismaður Þýskalands og ofstækisfullur boðberi nasismans fór aldeilis að láta til sín taka í bæjarlífinu í þessum mánuði en hann kom til landsins 30. apríl.
1946 (7,55) Sá hlýi og þurri maí 1946 kemst kannski helst á spjöld veðursögunnar fyrir það að þá mældist alls enginn úrkoma á Húsavík. Úrkoma á landinu í heild var aðeins kringum 30% af meðalúrkomunni. Alls staðar var lítil úrkoma nema í Kvikyndisdal þar sem hún var í meira lagi en stór hluti hennar var reyndar mældur að morgni hins fyrsta og féll því að mestu leyti daginn áður. Þetta er að mínu tali (sjá skýringar) einhver þurrasti maí frá 1873. Stóðu þurrkar gróðri í sumum landshlutum fyrir þrifum. Sól var mikil fyrir norðan en á Akureyri er þetta sjötti sólríkasti maí. Ríkjandi voru suðvestlægar og vestlægar áttir en háloftahlýindi austanað voru í gangi. Á Kirkjubæjarklaustri var einstaklega hlýtt, 9,2 stig og hlýjasti maí þar. Á staðnum mældist hámarkshiti yfir tíu stig alla daga nema þrjá og alla frá þ. 5. Þessi mánuður var reyndar hlýjasti maí sem mælst hefur á öllu suðausturlandi, frá Hólum í Hornafirði til Klausturs. Þá var þetta og hlýjasti maí á Sámsstöðum í Fljótshlíð, 9,5 stig sem er jöfnun á Íslandsmetinu. Eins og 1939 var talsvert sólríkara á Akureyri en í Reykjavík. Meðalhitinn á Akureyri var reyndar hærri en í Reykjavík, 8,6 stig á móti 8,5. Á Húsavík var meðalhiti mánaðarins 9,1 stig. Sérlega hlýtt var síðari helming mánaðarins. Meðalhinn í Reykjavík var þann tíma nærri 10,9 stigum. Hitinn fór í 20,5 stig á Akureyri þ. 25. Frost mældist í mánuðinum um allt land nema á fáum stöðvum á suðausturlandi. Kaldast varð -7,8 stig þ. 4. á Nautabúi í Skagafirði og þann dag var snjódýt þar 2 cm og snjór á jörð í tvo daga. Snjólag á landinu var reyndar aðeins 4%. Hvergi var umtalsverður snjór nema á Horni en þar var snjódýpt hálfur metri þ. 4. Hagi var talinn 100% á öllum stöðvum og þótti óvenjulegt. Líkt og í maí 1928 var talsverður hafís norðan við land en kom ekki að landi. En lítið olíuflutningaskip lenti í ís 25 sjómílur austur af Horni þ. 29. og laskaðist það nokkuð.
Miklar umræður voru á Íslandi um málaleitan Bandaríkjamanna um herstöðvar á landinu til 99 ára. Verið var að rétta yfir stríðsglæpamönnum nasista í Nurnberg.
1928 (7,5) Maí 1928 hefur það sér til sérstöðu, fyrir utan að vera með óvenju mikinn loftþrýsting, að vera sá hlýjasti sem mælst hefur nyrst á Vestfjörðum þó maí 1933 sé reyndar svipaður, svo og á Ströndum. (Kortið sýnir frávik hæðar 500 hPa flatarins). Á undan þessum mánuði var tíundi hlýjasti apríl. Þann fyrsta komst hitinn 15,5 stig í suðaustanátt á Suðureyri við Súgandafjörð og er svo mikill hiti þar sannarlega sjaldgæfur á hádegisdegi verkalýðsins. Og sama dag var hitinn í Reykjavík 15,1 stig og hefur aldrei mælst hærri þar fyrsta mai. Fyrstu fjórir dagar mánaðarins voru reyndar þeir hlýjustu að tiltölu. Þann 3. var 17 stig hiti í Reykjavík. Nokkuð kólnaði dagana 4.-8. og mældist þá mesti kuldi mánaðarins, -5,8 stig þ. 5. á Grímsstöðum, en hlýnaði svo aftur næstu vikuna, en kólnaði síðan enn á ný þar til hlýnaði vel í mánaðarlokin. Hlýjast varð 20,6 stig á Húsavík næst síðasta daginn en næsta dag voru 18 stig í Grímsey sem er óvenjulegur hiti þar í maí. Mjög þurrt var víða og var úrkoman aðeins 1,3 mm á Akureyri. Í Stykkishólmi er þetta næst þurrasti maí (frá 1857). Sólríkt var fyrir norðan og á Akureyri er þetta fimmti sólríkasti maí (frá 1925) en í Reykjavík var sól í kringum núverandi meðallag. Mikil sólskinstíð var á Akureyri dagana 13. til 20. Snjólag var 3% á landinu og hvergi talin alhvít jörð. En dálítill snjór var sums staðar á Vestfjörðum framan af mánuðinum og flekkótt alla daga á Hraunum í Fljótum. Eins og 1935 var frostlaust í Reykjavík og við sjóinn á suðurlandi. Þrátt fyrir þessi hlýindi var hafís á sveimi við landið en ekki varð hann landfastur. Á undan þessum mái fór tíundi hlýjasti apríl.
1933 (7,3) Einmuna tíð allan mánuðinn. Þurrkar háðu þó sums staðar gróðri framan af. Þetta er hlýjasti maí á Akureyri, meðalhitinn 9,5 stig og er það íslandsmet fyrir veðurstöð í maí eins og áður hefur komið fram. Á Lambavatni á Rauðasanfi og í Kvígyndisdal í Patreksfirði og sums staðar á Vestfjörum er þetta líka hlýjasti maí sem þar hefur mælst. Framundan var svo hlýjasti júní á landinu og besta sumar sem yfir norðurland hefur gengið. Suðaustanátt var yfirgnæfandi og mikil úrkoma var á suðausturlandi, 234 mm á Vattarnesi. Á Akureyri var hins vegar engin mælanleg úrkoma en tvo daga var úrkoma þar svo lítil að hún mældist ekki"! Aldrei hefur mælst eins lítil úrkoma á Akureyri í maí og ekki heldur á Grímsstöðum, 0,2 mm. Sólin lék við Akureyringa þar sem þetta er fimmti sólríkasti maí. Tólf daga skein sólin þar í tíu klukkustundir eða meira, þar af fjóra daga í röð, 14.-17. Því miður féllu hámarksmælingar niður í þessum mánuði á Akureyri en þ. 18. fór hitinn í 20,0 stig á Húsavík. Hámarkshiti í Reykajvík í þessum frostlausa mánuði þar fór 25 daga í tíu stig eða meira og hvern dag frá þeim ellefta en sól var af fremur skornum skammti. Alla dagana 16.-21. var óslitið góðvirði norðanlands en oft hvassvirði við suðurströndina og býsna úrkomusamt á suðausturlandi. Sólarhringsúrkoma mældist á stöðvum þar 37-63 mm að morgni hins 21. Snjólag var 5% á landinu. Hvergi varð alhvít jörð nema tvo daga í Fagradal í Vopnafirði. Þar var snjódýpt 14 cm að morgni hins fyrsta og var það eftirstöðvar eftir snjóakast síðast í apríl. Eftir hlýjan fyrsta maí kom stutt og vægt kuldakast og þ. 3. mældist mesta frost mánaðarins, -4,7 stig á Grænhóli á Ströndum. Kortið sýnir frávik hæðar í 500 hPa fletinum sem er tiltölulega hæstur við norðausturland. Manni finnst ansi góðviðrislegt þar eitthvað.
Nasistar voru komnir til valda í Þýskalandi og þeir fóru að brenna bækur á torgum í Berlín. En íslensk bókmenning blómstraði og fræðileg útgáfa Fornritafélagsins á íslenskum fornritum hóf göngu sína með Egilssögu sem Sigurður Nordal sá um.
1936 (7,3) Þetta er hlýjasti maí á Teigarhorni, 7,3 stig ásamt maí 1961. Sunnan og suðvestanvindar voru tíðastir. Tíð var talin mjög góð en þó var fyrri hluta mánaðarins nokkuð úrkomusamt og óstöðugt á suður og vesturlandi. Aðfaranótt hins 3. var þrumuveður í Stykkishólmi og Reykjavík og sló eldingu niður í loftskeytastöðina og ollu dálitlum skemmdum. Talsverð úrkoma var á vesturlandi um nóttina. Sunnan og suðvestanáttir, stundum hvassar á suður og vesturlandi með úrkomu, voru ríkjandi fram yfir miðjan mánuð. Kortið sýnir ástandið í um 9 km hæð. í mánuðinum. Eftir það var oft vestlæg átt og hæðir fyrir sunnan land en stundum yfir því alveg til hins 27. Í Vestanáttinni komst hitinn rétt yfir 20 stig þ. 23. á Fagurhólsmýri og Teigarhorni. Þann 28. snérist í norðanátt og mældist þá mesti hiti mánaðarins, 21,1 stig á Hólum i Hornafirði og hefur aldrei mælst þar eins mikill hiti í maí. En með norðanáttinni kólnaði þó talsvert og voru síðustu dagarnir köldustu dagar mánaðarins. Mældist þá víða frost og mest -3,7 stig á Grímsstöðum þ. 30. Sums staðar á suður og vesturlandi fraus þó ekki, t.d. í Reykjavík. Óneitanlega var það svo nokkuð kaldhæðnislega óvorlegt að síðasta dag mánaðarins var athugaður eini alhvíti dagurinn á veðurstöð á láglendi og var það á Kirkjubæjarklaustri af öllum stöðum og var snjódýptin 1 cm. Þennan dag var líka hvítt á Hólsfjöllum og við Mývatn. Alls staðar annars staðar nema á Klalustri á suður og vesturlandi var þó alautt allan mánuðinn og hverfandi snjór fyrir norðan og austan.
Úrkoman var nokkuð mikil, kringum 60% yfir meðallagi og er þetta næst úrkomusamasti maí sem hér er fjallað um. Fyrir norðan var þó fremur þurrt. Á Kirkjubæjarklaustri var úrkoman 206,2 mm rn aftur á móti aðeins 0,4 mm á Grímsstöðum og 0,9 mm á Raufarhöfn sem er þar þurrkamet í maí (frá 1933). Mjög mikið sólfar var í höfuðstaðnum síðustu fjóra dagana í norðanáttinni en fremur svalt. Sól var annars nærri núverandi meðallagi en heldur meiri á Akureyri en í Reykjavík. Snjólag var talið 5% eins og 1933.
Hið vinsæla tónverk fyrir börn og fulloðrna, Pétur og Úlfurinn eftir Prókóféff var frumflutt í Moskvu annan dag mánaðarins.
2008 (7,2) Loksins kom þetta ár verulega hlýr maímánuður sem ekki hafði þá gerst síðan 1974. Í Reykjavík er þetta þriðji hlýjasti maí. Á Hveravöllum hefur ekki mælst jafn hlýr maí, 3,7 stig, frá 1965. Úrkoman var nokkuð undir meðallagi. Sól var fremur lítil bæði fyrir norðan og sunnan. Hlýjast á mannaðari stöð varð 19,6 stig á Torfum í Eyjafirði en sama dag mældust 21,7 stig á sjálfvirka mælinum á Hallormsstað. Mest frost á mannaðri stöð mældist -4,8 stig á Grímsstöðum þ. 16. en á Þingvöllum mældist -7,0 þ. 2 á sjálfvirkan mæli en uppi á reginfjöllum mest -8,0 stig á Gagnheiði þ. 16. Góðviðrasamt var í þessum mánuði.
1960 (7,2) Þessi maí er nú líklega frægastur í veðursögunni fyrir það að þá mældist mesti hiti í höfuðborginni sem þar hefur mælst í nútímaskýli í maí. Mánuðurinn byrjaði ágætlega en það var hinn 11. sem tók að hlýna fyrir alvöru með austlægri átt. Þennan dag mældust 19,6 stig á Hæli í Hreppum og 19 stig á Skriðuklaustri og Síðumúla í Borgarfrði. Vart varð við þrumur í Borgarfirði og Hvalfirði. Næstu tvo daga var mikið sólskin í Reykjavík. Alla dagana 12.-14. voru sett í borginni dagshitamet fyrir meðalhita og meðalhitinn þ. 14. sem var 14,9 stig, er mesti meðalhiti nokkurs maídags í Reykjavík og daginn áður voru 14,5 stig. Hámarkshitinn fór þann tólfta í 17,6 stig og daginn eftir í 19,5 stig. Loks fór hitinn í Reykjavík hæst þann 14. og voru þá 20,6 stig. Þennan dag var þó nokkru minni sól en hlýju dagana tvo þar á undan. Hinn 12. mældist aftur á móti mesti hitinn á landinu, 20,9 stig á Egilsstöðum, en næsta dag voru 20,3 stig á rafstöðinni við Andakíl, en víða 18-19 stig á suðurlandsundirlendi. Hlýindi þessi, sem nutu sín svona einstaklega vel í höfuðborginni, eiga sinn þátt í því að þetta er næst hlýjasti maí sem þar hefur mælst. Á þessum tíma voru veðurkort birt í Morgunblaðinu og voru þau í miklu stuði dagana 14. og 15. Allir nutu svo sannarlega veðurblíðunnar. Í þessari hitabylgju mældist á nokkrum stöðum á vesturlandi og á Vestfjörðum meiri hiti en dæmi eru um í maí, 18-19 stig, t.d. á Lambavatni, Kvígindisdal og í Æðey. Og mánuðurinn mældist sá næst hlýjasti á Suðureyri við Súgandafjörð, 7,7 stig (1922-1989). Eftir mestu hitabylgjuna kólnaði síðan smám saman næstu daga á landinu án þess að um kulda væri að ræða. En aðfaranótt hins 20. hvessti af austri og síðan norðri með rigningu og síðar snjókomu vegna krapprar lægðar sem fór suðaustur yfir landið. Næsta morgun mældist á Húsavík mesta sólarhringsúrkoma þar í maí 32,3 mm (1928-1964). Stóð þetta leiðindahret í eina þrjá daga fyrir norðan en var miklu vægara á suðurlandi. Festi snjó á fáeinum stöðvum á Vestfjörðum, norðurlandi og Fljótsdalshéraði og urðu þar nokkrir fjárskaðar. Hretið leið þó hjá og varð aftur besta veður. Snjólag var 6% í mánuðinum. Úrkoman var fremur lítil nema á norðausturlandi. Í Gunnhildargerði á Úthéraði var hún sú sem mesta sem þar mældist í maí þau fimmtán ár sem mælt var. Snemma í mánuðinum var aftur á móti fádæma úrkoma syðst á landinu. Í Vík í Mýrdal mældist sólarhringsúrkoman þ. 5. sú mesta sem þar hefur mælst í maí, 77,7 mm (frá 1926) og einnig á Loftssölum við Dyrhólaey, 42,5 mm (1940-1977).
Heilmikið var að gerast í heiminum. Allt varð vitlaust þegar Rússar skutu niður bandaríska njósnaflugvél yfir Sovétríkjunum snemma í mánuðinum og varð ekkert úr toppfundi ráðmanna Bandaríkjamanna og Rússa sem var fyrirhugaður. Þess í stað fóru menn bara í kaldastríðsgírinn! Glæpamaðurinn og rithöfundurinn Cyril Chessmann var loks tekin af lífi í gasklefanum eftir að búið var að fresta aftökunni margsinnis árum saman og varð þetta mjög frægt mál. Miklar hamfarir urðu á Kyrrahafi vegna jarðsjálfta í Chile. Ísraelsmenn skýrðu frá handtöku Adolfs Eichmanns seint í mánuðinum og í mánaðarlok lést rússneska nóbelskáldið Boris Pasternak.
Og sólin gekk líka sinn gang og átti eftir að sýna sig óvenjulega mikið um sumarið á suðurlandi.
1941 (7,2) Ásamt maí 1974 er þetta snjóléttasti maí síðan mælingar hófust. Snjólag var aðeins 1%. Víðast hvar var alveg autt á suður og vesturlandi, frá Papey til Bolungarvíkur. En þarna er mikilvæg undantekning. Á einum stað var einn alhvítur dagur með eins cm snjódýpt þ. 14. Og hvar þá? Jú, auðvitað á Kirkjubæjarklaustri! Á örfáum stöðvum á norðausturlandi og Ströndum var líka dálítill snjór. Úrkoman var fremur lítil, rúmlega hálf meðalúrkoma. Kringum þ. 20. var þó víða geysileg úrkoma. Þann morgun mældust 89,0 mm á Lambavatni og 80,3 mm í Kvígyndisdal sem hvort tveggja er maímet í sólarhringsúrkomu á stöðvunum. Fylgdi þessu hvassviðri sem fór þó mjög hægt yfir. Miklar skemmdir urðu á þessum stöðum í úrkomunni. Féllu á Rauðasandi 35 stórar skriður og margar smærri og skemmdu tún, bithaga, vegi og girðingar. Matjuragarðar, brú og stíflugarður skemmdust einnig. Sunnan og suðvestanáttir voru algengastar í þessum mánuði en þrátt fyrir þetta slagveður var veðurhæð í minna lagi. Veðrátta var talin kyrrlát og hagstæð enda lítið um að vera í náunda við landið (sjá kortið). Úrkoma var nokkuð yfir meðallagi. Hæð var yfir landinu að mestu alveg fram í miðjan mánuð en grunn lægð fór þá suðaustur yfir landið. Fylgdi henni fyrst hlýtt loft og komst hitinn í 24,4 stig á Hallormsstað þ. 11. Það var þá mesti hiti sem mælst hafði á landinu í maí og stendur enn sem Hallormsstaðamet. Þennan dag gerðu Þjóðverjar hörðustu loftárásir sem þá höfðu verið gerðar Lundúni. Mjög kólnaði þegar lægðin var komin suðaustur fyrir og fór að snjóa fyrir norðan. Mestur kuldi á landinu mældist -7,3 stig í Reykjahlíð þ. 13. og sama dag -7,0 á Núpsdalstungu í Miðfirði. Fleiri dagar urðu reyndar mjög hlýir á Hallormsstað. Þann 10. fór hitinn þar í 21,6 stig, 20 slétt þ. 22. og loks í 22,0 stig þ. 30. Alls staðar mældist frost í mánuðinum nema á Sámsstöðum í Fljótshlíð, Vík í Mýrdal og Vestmannaeyjum. Eftir kuldakastið dró til suðlægra átta og síðan norðaustlægra en undir lok mánaðarins var hæð yfir landinu, hægviðri og hlýtt. Á eftir þessum mánuði kom fimmti hlýjasti júní á landinu.
Ekki varð mikið úr hátíðahöldum 1. maí í Reykjavík því breski herinn bannaði útifundi og kröfugöngur. Heimsstyrjöldin var í fullum gangi. Þjóðverjar hertóku Krít og seint í mánuðinum sökti orustuskipið Bismarck breska herskipinu Hood vestur af Reykjanesi en nokkrum dögum síðar var Bismarck sökkt. Rudolf Hess flaug til Englands. Hann átti eftir að lifa langa ævi en ansi einmanalega.
1889 (7,2) Þetta er eini maí á seinni hluta nítjándu aldar sem kemst á blað yfir tíu hlýjustu maímánuði. Hann var hlýr alveg frá byrjun og til loka. Hvergi mældist frost á athugunarstöðvum nema í Grímsey, á Raufarhöfn, Möðrudal og Gilsbakka þar sem mældist mesti kuldi mánaðarins, -2,9 stig. Ísafold segir frá því þ. 18. að tíðarfar hafi verið alveg frábært alls staðar þar sem til hafi spurst um vorið. Gróður sé kominn óvenjulega mikill, jafnvel um úthaga og sums staðar farið að grænka á heiðum uppi. Nokkuð kólnaði síðustu vikuna nyrst á landinu og mældust þá nokkrar frostnætur á Grímsey þar sem verið hafði alveg frostlaust þangað til. Á suðurlandi var síðasta vikan aftur á móti einna hlýjust. Mánuðurinn var afar úrkomusamur, 77% umfram meðallagið okkar hér á Allra veðra von og úrkomusamasti maí sem hér er fjallað um. Úrkomudagar voru einnig mjög margir. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma á Teigarhorni í maí, 237,6 mm og að morgni þ. 6. var sólarhringsúrkoman þar 44,2 mm. Úrkomudagar voru 24 á stöðinni. Suðaustanáttin var mjög þrálát. Hlýjast varð í þessum maí 21,1 stig á Núpufelli í Eyjafirði þ. 13. Það er til marks um hlýindi þessa mánaðar að í Reykjavík var hámarkshiti 26 daga tíu stig eða meira og hiti fór aldrei lægra en í 2,9 stig.
Jónassen vaktaði þennan góða maí í Ísafold:
Undanfarna daga hefur verið eindregin austanátt með blíðviðri; við og við talsvert regn úr lopti; h. 3. var hjer hvasst austanveður fram yfir miðjan dag, er hann lygndi, bjart veður með skúrum síðari part dags. Í fyrra norðan-nepja með hríð þessa dagana.(4. maí) - Undanfarna daga hefur einlægt verið austan-eða austan-landsunnanátt, opt hvass og með talsverðri úrkomu með miklum hlýindum. Úrhellisrigning aðfaranótt h. 8. Í dag 10 stiga hiti kl. 9 í morgun og bjart sólskin. (8. maí). - Undanfarna daga hefur verið hin æskilegasta sumarblíða dag sem nótt, nokkur úrkoma með sólskini þess á milli, við austur eða land-suður. (11. maí). - Undanfarna daga hefur verið staðviðri og blíðasta sumarveður; mánudagin var hjer óvenjulega hlýtt, nfl, 15 stiga hiti um hádegi. (15. maí). - Sama einmuna sumarblíðan sem að undanförnu. Í fyrra var 3 stiga frost í nótt sem leið og hjer hvasst norðanveðr. Í hitt eð fyrra blindbylur í allan morgun (17.) og norðan-stórviðri; 1886 norðanbylur og frost; 1885 gott veður á landssunnan; 1884 norðanbál með gaddi; 1883 útsynningsgarri kaldur; 1882 var jeg ekki heima. 1881 norðan, hvass með gaddi; 1880 landsynningur og gott veður; 1879 landsunnan, gott veður; 1878 norðanbál og blindbylur; 1877 bezta veður; 1876 bezta veður; 1875 fagurt veður, nokkuð kaldur; 1874 bezta veður. (18. maí). -Sama sumarblíðan dag sem nótt, eindregin austan-landsunnan átt, með skúrum og björtu sólskini í milli (22. maí). - Svo má heita, að logn hafi verið hina síðustu dagana og mesta sumarblíða, bjart og heiðskírt lopt; h. 23. var nokkur norðankaldi, hvass nokkuð til djúpa en bjart veður. Í morgun (25.) logn, dimma uppyfir, ýrði ögn úr lofti. (25. maí). - Þessa dagana hefir talsverð væta komið úr lopti, stundum rignt óhemju mikið nokkra stund, blíðasta sólskin á milli eins og að undanförnu. (29. maí). - Bjart og fagurt veður daglega þar til síðari part h. 31. að hann dimmdi og gekk til mikillar úrkomu alla aðfaranótt h. 1. og allan morgun þann dag. (1. júní).
Árið 1991 var afar hlýr maí fyrir norðan og austan, sá næst hlýjasti á Teigarhorni og þriðji hlýjasti á Akureyri. Í Reykjavík (og á öllu suður-og vesturlandi) var mánuðurinn ekkert sérstakur að meðalhita, 6,8 stig. Meðalhiti allra 9 stöðvanna var því ekki einn af þeim hæstu. Hann er í 16. sæti að hlýindum frá 1866. Snjólag var 5%.
Maí 1947, sá 11. hlýjasti á landinu (7,1) er sá hlýjasti sem mælingar ná yfir á svæðinu frá Bakkafirði á norðausturhorni landsins að Dalatanga við Seyðisfjörð, svo og á Fljótsdalshéraði. Meðalhitinn á Hallormsstað var 8,2 stig og sá mesti meðan þar var mælt (1937-1989) en 8,4 í Reykjavík og 7,8 á Akureyri. Þetta var enda rakinn sunnnáttamánuður með mikilli úrkomu sunnanlands og vestan en þurrviðri fyrir norðan og austan. Sól var þó lítil og venju fremur var þokusamt. Þá varð mesta flugslys Íslandssögunnar er flugvél Flugfélags Íslands flaug utan í Hestfjall í Héðinsfirði og fórust 25 menn. Var talið að þoka hafi valdið slysinu.
Á fyrrihluta 19. aldar komu nokkrir hlýrir maímánuðir. Sumir þeirra eru reyndar grunsamlega hlýir. Þannig er reiknaður meðalhiti fyrir maí 1830 11,0 stig í Reykjavík og 1845 10,5 stig og eru þetta mjög ósennulegar tölu, en áætlaður hiti þá fyrir Stykkishólm er trúlegri. Sjá fylgiskjal.
Fylgiskjalið fyrra sýnir eins og venjulega hita, úrkomu og sólskin á stöðvunum. Seinna skjalið er með upplýsingum um maí 1935 og 1960.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 7.12.2011 kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2011 | 15:49
Köldustu aprílmánuðir
1859 (-6,3) Langkaldasti aprílmánuður síðustu 200 árin og er ekki hægt að ganga hér framhjá honum þó helsta viðmiðunarárið í þessum pistlum sé 1866. Meðalhiti aprílmánaða 1961-1990 á stöðvunum níu sem hér er miðað við er 2,0 stig. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -5,9 stig og kom í kjölfars einhvers kaldasta vetrar í heild sem um getur þar og í beinu framhaldi af miklum hörkum frá því um það bil er vika var af mars. Norðan og norðaustanáttir voru linnulausar í Stykkishólmi. Myndin, sem er af vef Stykkishólsmbæjar, er af húsinu þar sem Árni Thorlacius gerði veðurathuganir sínar. Fyrstu þrjá dagana var hörkufrost, 11-20 stig en þ. 4. mildaðist mikið og næsta dag var frostlaust fram á kvöld. Að sögn Þjóðólfs gerði bloti þessi illt verra í sunnlenskum sveitum því hann varð þar að ísing einni og hleypti snjókynginu er fyrir var í enn harðari jökul. Síðan tók við feiknarlegt kuldakast alveg til 24. og hlánaði þá aldrei í Stykkishólmi en frost voru oftast 16-20 stig á næturnar og oft undir tíu stigum allan sólarhringinn. Illviðri og fannkoma hin mesta, segir Þjóðólfur, að hafi verið stöðug og óslítandi frá góukomu til páska (24. apríl) og menn hafi ekki munað eins langan og harðan illviðrabálk. Loks hlýnaði þ. 25. Eftir það var frostlaust að deginum í Stykkishólmi, hlýjast 4,3 stig þ. 25. en næturfrost hverja nótt en alveg þurrt. Fyrir norðan var samt miklu kaldara en í Stykkishólmi. Mælingar á Siglufirði benda til að þar hafi meðalhitinn verið undir 11 stiga frosti (og undir 12 stiga frosti í mars). Norðri á Akureyri skrifar síðasta dag mánaðarins að alls staðar hafi haldist fannfergi og jarðbönn norðanlands með grimmdarfrostum fram yfir páska. Víða voru menn heylausir og búnir að skera fjölda fjár, kýr og hesta. Blaðið segir líka að þó sálbráð hafi verið eftir páska með næturfrostum hafi lítil jörð komið upp. Bætir síðan blaðið við að í Danmörku hafi veturinn verið blíður með þurrviðri og hafi verið eins og heldur svalt sumar hér! Í lok maí segir blaðið að eftir páska hafi komið góðviðri og hægar sólbráðir en í fyrstu með miklum næturfrostum. Var enn gróðurlaust í maílok. (Maí var að vísu kaldur en langt í frá einn af þeim köldustu).
Þorvaldur Thoroddsen segir í Árferði á Íslandi í 1000 ár um vorið 1859: Ár þetta kom yfirleitt mikill ís til Íslands og í aprílmánuði var ís fyrir öllum Vestfjörðum suður undir Breiðafjörð og fyrir öllu Norður-og Austurlandi suður fyrir Papós; í ísnum urðu hvalir víða fastir, en fáir urðu að notum. Skip, sem fór til Austurlands um vorið, mætti hafís miðleiðis milli Færeyja og Íslands og íshroða rak fram hjá Dyrhólaey og suður með Reykjanesi; 17 mílur lá ísinn sem samfrosta hella, vakalaus á haf út austur af Langanesi, en skör þessi mjókkaði eftir því sem suður eftir dró. Það var haldið, að frá Norðurlandi hefði í apríl verið gengt til Grænlands (!)." Lagnaðarísar voru miklir á Breiðafirði. Breiðasund milli Hrappseyjar og Yxneyjar leysti ekki fyrr en 8. maí. Fyrir sunnan var miklu mildara en fyrir norðan og vestan. Meðalhitinn talinn vera -1,9 stig í Reykjavík eftir mælingum sem þá voru gerðar. Hann er samt kaldasti apríl sem þar hefur mælst.
1876 (-3,1) Þennan mánuð var einungis athugað í Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni og Papey. Hitinn er sagður hafa komist mest í 11,1 stig einhvern tíma í Reykjavík og varð ekki hærri á landinu á þessum fimm stöðum þar sem mælt var. Það var einstaklega þurrt. Úrkomudagar voru aðeins 6 í Stykkishólmi og hafa sjaldan verið færri og að úrkomumagni er þetta ellefti þurrasti apríl þar. Jónas Jónassen segir um þennan mánuð í Ísafold 27. apríl 1887 og á lýsing hans við Reykjavík: Norðanbál með hörkugaddi svo að segja allan aprílmánuð; 25. apríl var 1° hiti á nóttu; annars var meiri og minni gaddur á nóttu allan mánuðinn frá 1. (2-10° frost)." Frostnætur í bænum voru hvorki meira né minna en 23. En í Grímsey mældist frost alla daga, mest -18,8 stig þ. 20. og var ekki mælt meira annars staðar á landinu. Enginn dagur var heldur frostlaus í Stykkishólmi. Fréttabréf úr Dalasýslu í Norðanfara segir að þar í sveit hafi verið einhverjar þær grimmustu norðanhríðar og gaddhörkur frá því á öðrum í páskum (sem var 17. apríl) og fram að sumardeginum fyrsta. Ísafold segir að í kringum pálmasunnudag (þ. 9.) hafi staðið sex daga norðangarður í Reykjavík með 10-12 stiga frosti á celsíus. Hafís lagðist fyrir öllu norðurlandi og rak suður eftir austurlandi fram í maí og var sagður hafa komist allt að Ingólfshöfða. Inn á Eyjafjörð kom ísinn þ. 7. og var þar að flækjast fram eftir mánuðinum. Reykjavík var aðeins lítið þorp á þessum tíma eins og sjá má á kortinu sem stækkar svo mikið þegar smellt er nokkrum sinnum á það að vel er hægt að lesa merkingar og skoða einstök hús.
1917 (-2,2) Apríl þessi var mjög stormasamur. Afar kalt var í byrjun mánaðar en mildaðist svo um tíma. En þann 7., laugardagskvöldið fyrir páska, skall fyrirvaralaut á eitthvert illræmdasta pásahret tuttugustu aldar með aftaka norðanátt og grimmdarfrosti. Fór það niður í -19,0 stig á öðrum páskadegi á Grímsstöðum. Á Vífilsstöðum var það -15,8 stig. Ekki voru lágmarksmælingar í Reykjavík en að morgni hins 9. var þar ellefu stiga frost og níu stig um miðjan dag. Um allt norðurland var stórhríð. Símabilanir urðu víða og bátar skemmdust í höfnum og útihús fuku. Á Seyðisfirði töldu menn að annað eins veður hafi ekki komið þar í mörg ár. Á miðvikudeginum var veðrið gengið niður og komið stillt veður. Kuldatíð hélst samt lengi frameftir. Talsvert hlýnaði þó síðustu tíu dagana og komst hitinn mest í 11,1 stig á Seyðisfirði þ. 20. Hafís var skammt undan landi fyrir norðan. Þurrviðrasamt var sunnanlands og snjólétt en snjóasamt fyrir norðan. Á Vífilsstöðum voru sólarstundir 107.Kortið sýnir meðalhæðina í 850 hPa fletinum í mánuðinum í um 1400 m hæð.
Í byrjun mánaðarins lést Magnús Stephensen landshöfðingi en seint í mánuðinum var Jón Helgason vígður biskup. Hann skrifaði margt merkilegt um sögu Reykjavíkur og gaf úr Árbækur Reykjavíkur þar sem ýmislegt er sagt frá veðurfari í bænum. Hann málaði líka einstkalega skemmtilegar vatnslitamyndir af gömlu Reykjavík.
1867 (-1,8) Veturinn 1866 til 1867 er í heild þriðji kaldasti vetur á landinu eftir að veðurathuganir hófust í Stykkishólmi. Kaldari voru aðeins veturnir 1881 og 1866. Mars þetta ár tel ég vera 11. kaldasta mars. Og á eftir honum kom svo þessi kaldi apríl. Harðindin sem voru í mars héldu áfram alveg fram að sumarmálum nema einna helst undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, að sögn Þjóðólfs. Í Stykkishólmi voru frost þó aldrei afskaplega hörð, mest -9 stig þ. 19. Aðeins var alveg frostlaust síðustu tvo dagana og þ. 30. komst hitinn í 5,5 stig í Hólminum. Samfara kuldunum gengu yfir fádæma illviðri allan einmánuð og voru hey víða á þrotum við sumarkomu. Snjór var mikill. Um páskana, sem voru 21. apríl, sást til dæmis hvergi í dökkan díl í Múlasýslum segir Þjóðólfur, frá öræfum til sjávar, og hafi verið mál manna að ekki hafi verið önnur eins vetrarharðindi í þrjátíu ár. Fénaður var jafnvel tekinn að falla sums staðar. Hafíshroða hafði rekið að Langanesi um miðjan mars en í byrjun apríl rak hann að Vestfjörðum. Um miðjan mánuð kom hann að austfjörðum og fyllti þar alla firði. Þann 19. kom hafíshroði inn á Eyjafjörð en rak úr aftur hinn 27.
1882 (-1,8) Umhleypingsamt og kalt. Fyrstu dagana var þó fremur hlýtt og blítt veður. Hiti í mánuðinum komst hæst í 12,9 stig og var það á Grímsstöðum á Fjöllum af öllum stöðum en ekki veit ég hvaða dag það var en líklega einhvern tíma á hlýjustu dögunum, 6.-8. Á páskadag þ. 10., brast á norðanátt með frosti, hríðum og illviðrum sem linntu ekki fyrr en hinn 29. Tók út yfir eftir þ. 20. og næstu tíu daga þar á eftir. Hvergi var þá út komandi nyrðra fyrir stórhríðum og veðurhæð. Fyrir sunnan var frostvægara en veðurhæð síst minni eða jafnvel meiri. Sérstaklega var hvasst dagana 24.-26. Á Snæfellsnesi voru nær linnulausar hríðar frá 10. apríl og fram til 6. maí. Skemmdir urðu á allmörgum jörðum í Rangárvallasýslu af völdum grjótfoks og sandroks. Mesta frost á landinu mældist -20,5 á Skagaströnd. Mánuðurinn var afar þurrviðrasamur. Ekki hefur komið þurrari apríl í Grímsey, 2,8 mm, á grundvelli sæmilega áreiðanlegra mælinga þennan mánuð, en úrkomumælingar eru taldar nokkuð misjafnar að gæðum í eyjunni. Lítill hafís hafði verið um veturinn en í illviðrunum í þessum mánuði rak hann að landi og fyllti allar víkur og firði frá Straumnesi við Aðalvík norður og austur fyrir og allt suður að Breiðamerkisandi og úti fyrir voru hafþök. Við austurland var ísinn nokkuð lausari í sér en fyrir norðan. Nokkur bjarndýr voru skotin. Jónassen segir svo um tíðina i Reykjavík í Þjóðólfi 17. maí:
Þegar borin er saman veðurátta í umliðnum mánuði við veðuráttu í sama mánuði í fyrra, þá er ólíku saman að jafna, því þar sem aprílmán. í fyrra var óvenjulega hlýr og veðurátta hagstæð bæði á sjó og landi hefir hið gagnstæða nú átt sjer stað, því frá 10. þ. m. hefir vindur blásið frá norðri til djúpanna, þótt brugðið hafi fyrir annari átt hjer í bænum og allan síðari hluta mánaðarins hefir mátt heita aftaka norðanrok með miklum kulda og blindbil til sveita (einkum 26. 27. 28.). 1. logn; 2. 3. 4. hægur á austan, 5.-8. s. hægur, dimmur með nokkurri rigningu; 9. logn, þokusuddi; síðari part dags genginn til norðurs með ofanhríð. 10. 11. 12. landnorðangola (norðan til djúpanna); 13. 14. logn (norðan til djúp.); 15. 16. landnorðan, hvass (norðan til djúp.); 17. 18. 19. hægur á austan; 20. 21. logn, útræna (hvass síðari hluta dags h. 21. á norðan); 22.-30. norðan hvass (26.-30. alla dagana norðanrok).
Algengar athugasemdir Jónassens í dálkum hans um veðrið til djúpanna" minna skemmtilega á að byggð var lítil í bænum og útsýni út á sjó og í allar áttir var miklu betra en nú er þegar borgarbyggingar skyggja á. Eftir þessum mánuði kom tíundi kaldasti maí á landinu eftir mínu tali.
1899 (-1,1) Mikið hafði snjóað fyrir norðan á einmánuði og tók ekki upp. Á öllu norður og austurlandi var jarðlaust fram yfir sumarmál en í annari viku sumars fór að koma upp jörð í snjóléttari sveitum fyrir sólbráð en þá var þar hreinviðri dag hvern en frost um nætur. Á norðvesturlandi héldust næðingar til sumarmála og sérlega kalt var Vestfjörðum að tiltölu. Mestur kuldi mældist líka á Holti í Önundarfirði -18,4 stig. Enginn dagur var þar frostlaus og víða annars staðar ekki heldur. Litlu fyrir sumarmál kom mikill bati og mældist mesti hiti í mánuðinum 9,0 stig á Sandfelli í Öræfum. Úrkoman var í tæpu meðallagi. Lítill ís var við landið. Hafís varð þó landfastur við Horn þ. 21. og rak eitthvað suður á firði og ísslæðingur var við Bolungarvík nokkra daga en allur ís var farinn hinn 28. Jónassen segir í nokkrum Ísafoldarblöðum:
Veðurhægð þessa vikuna; við og við og snjór úr lofti, en bráðnar fljótt; hér er nú alauð jörð. (8. apríl). - Hefir verið við há-átt alla vikuna, oftast bjart sólskin, en kaldur, oft bálhvass úti fyrir á norðan, þótt lygn hafi verið hér. Í dag (14.) bálhvass a norðan. (14. aprí) - Austanátt, hæg, alla vikuna; gengið til norðurs, hægur um stund; óvenjulegur næturkuldi um þetta leyti; síðasta vetrardag í fyrra 10 stiga hiti um hádegið". í dag (21.) ofanhríð, svo hér gjörði al-hvítt síðari part dags. (22. apríl) - Verið við norðanátt, hægur alla vikuna, mikill kuldi, og við og við ýrt snjór úr lofti. ... (29. 4).
1949 (-0,9) Um miðja tuttugustu öld komu þrír óvenjulega kaldir aprílmánuðir á fáum árum, 1949, 1951 og 1953. Allir voru þeir nokkurn vegin jafnokar venjulegs janúar að kulda. Fádæma snjóþyngsli voru á suður og vesturlandi í apríl 1949 en alls staðar var mikill snjór nema í lágsveitum norðaustanlands. Snjólagstalan er sú næst mesta á landinu í apríl frá 1924, 78%, en mest varð hún í apríl árið 1990, 84%. Fyrstu tvo dagana var sæmilega milt í hægviðri og þ. 2. kom mesti hiti mánaðarins í Reykjavík, 6,6 stig, og hefur mánaðarhámark þar í apríl aldrei mælst lægra. Í kjölfarið kom austanátt sem var víða hvöss með snjókomu fyrir norðan en þ. 8.-17. var umhleypingasamt og voru lægðir þá yfir landinu eða mjög nærri því með hryssingslegri rigningu, slyddu eða snjókomu og allra veðra von! Dagarnir 18. til 25. voru aftur á móti sérlega kaldir með hvassri norðanátt og frosthörkum. Víða snjóaði. Mest frost mældist -20,0 stig þ. 18. á Möðrudal. Síðustu fimm dagana var hlýrra en hvasst og úrkomusamt. Hámarkshiti allra stöðva var aðeins 9,9 stig þ. 16. á Teigarhorni. Frá 1880 hefur ekki mælst tíu stiga hiti á landinu í einungis tveimur öðrum aprílmánuðum, 9,0 stig 1899 og 9,2 stig 1920. Meðaltal daglegs hámarkshita á landinu var aðeins 5,4 stig en til samanburðar var það 12,7 stig í hlýjasta apríl 1974. Hafís kom að landi við Horn og Skagatá og úti fyrir norðurlandi var talsverður hafís. Áttir frá suðvestri til norðvesturs voru tíðastar vindáttir í þessum hreggviðrasama mánuði. NATO var formlega stofnað snemma í þessum mánuði en þá voru loftflutningarnir frægu til Berlínar í algleymingi. Kortið sýnir frávik þykktar í mánuðinum og má segja að hann hafi verið alveg skelþunnur! Íslandskortið fyrir neðan sýnir meðalhitann í þessum mánuði en meinhollt er að minnast þess að apríl 1859 var um það bil sex stigum kaldari!
1910 (-0,8) Þessi vetur var alræmdur snjóavetur þegar snjóflóðið mikla varð í Hnífsdal í febrúar þar sem fórust 20 manns. Eftir sæmilega tíð í byrjun mánaðar, þegar hitinn komst mest i 11,5 stig á Fagurhólsmýri, spilltist veður mjög þann 10. með stórhríð fyrir norðan og frosti um land allt. Hélst ótíðin mestallan mánuðinn með frostum sem þó voru aldrei mjög mikil, mest -15,0 í Möðrudal. Hæð var oft yfir Grænlandi en lægðir austn við landið. Hámarkshiti í Reykjavík var aðeins 7,0 stig og hefur ekki orðið lægri í apríl nema 1949. Þar var átta þumlunga þykkur snjór að morgni hins 27. að því er Fjallkonan segir. Mjög snjóþungt var á norður og austurlandi en úrkomulítið á suður og suðvesturlandi. Íshroði var þ. 9. norður af Siglufirði en annars var íslaust.
1887 (-0,8) ) Í Vestmanneyjum voru ágæt hlýindi alveg frá 5.-21. og þar rigndi talsvert. Annars staðar var tíðin blandaðri, stundum kalt og stundum hlýtt, en í Grímsey voru kuldar flesta daga. Mestur hiti varð 12,3 stig á Núpufelli í Eyjafirði einhvern hlýindadaginn. Sérstaklega var kalt upp úr sumardeginum fyrsta og var þá aftaka norðangarður og mestu kuldar mánaðarins. Var þetta veður kallað Sumarmálakastið". Frostið í Reykjavík fór í -12,7 stig þ. 24. og hefur aldrei mælst jafn hart svo seint að vori og næstu nótt var það -11,0 stig. Kortið sýnir loftþrýsting kl. 6 að morgni hins 24. Um þetta leyti fór frostið í Grímsey í 15 stig og 10 í Vestmannaeyjum en varð mest -20,2 stig í Möðrudal. Ekki hlánaði í Reykjavík dagana 22.-26. Úrkoma var fremur lítil nema í Reykjavík þar sem hún var vel yfir meðallagi. Um sumarmál rak allmikinn ís að norðurlandi og var hann á reki við landið og sums staðar landfastur við og við. Að Grímsey kom hann þ. 23. og lá fram í ágúst. Eftir miðjan mánuð rak íshroða inn á Eyjafjörð en hinn 18. varð ís landfastur við Raufarhöfn og fór ekki fyrr en í ágúst. Inn á Axarfjörð kom hafís um sumarmál en inn á Húnaflóa kom hann 28. apríl. Jónassen skrifaði í Ísafold um tíðina:
Mestalla vikuna hefur verið óstilling á veðri og optast verið við útsuður (Sv) með meiri eða minni hroða og jeljagangi; að kveldi h. 3. gekk hann í hávestur og um nóttina til norðurs og var rokhvass með blindbyl efra allan fyrri part dags h. 4.; lygndi um kl. 4. e. m. og gjörði logn. Í dag 5. blæja logn fyrri part dags og glaða sólskin, landnorðan til djúpa og loptþyngdarmælir er nú aptur kominn hátt. (6. apríl) - Eins og undanfarna viku hefur ókyrrð verið á veðri þessa vikuna; 6. var hjer landsynningur (Sa) hvass, með mikilli rigningu, en logn að kveldi og næstu nótt; daginn eptir dimm þoka að morgni allt að hádegi, er birti upp og gekk i hæga vesturátt; daginn eptir hægur landsynningur með regni; svo útsynningur (Sv) hægur þrjá næstu dagana, og nú, aðfaranótt h. 12., genginn til austur-landnorðurs með ofanhríð og vægu frosti; hefur í nótt snjóað svo, að jörð er hjer nú alhvít. Loptþyngdarmælir er nú mjög hátt og fer heldur hækkandi. Í dag 12. austanbylur fram að hádegi. (13. apríl). - Veðurátt hefur þessa vikuna verið með blíðasta móti, optast við suðurátt og hlýindi talsverð, við og við með regni ; klaki mjög lítill hjer í jörðu. Í dag 19. hæg landnorðanátt, bjart og fagurt veður. (20. apríl). - Fyrsta dag vikunnar var hæg landnorðanátt, bjart veður; um kveldið fjell snjór og gjörði alhvíta jörð; daginn eptir (21.) var hæg austanátt snemma að morgni en gekk fljótt til norðurs og hefir verið bálviðri dag og nótt síðan og lítið útlit fyrir breytingu. Efra hefir verið blindbylur með köflum. Frostharkan hefir verið óvenjulega mikil um þetta leyti; þannig var frostið um kl. 7 um morgunin h. 24 -12,5°C. Hjer er alveg auð jörð. Tjörnin hjer hjá bænum, sem var alauð, er nú aptur mannheld. (27. apríl).
1983 (-0,8) Kaldasti apríl á síðari áratugum og alveg sambærilegur við kuldakóngana þrjá um miðja tuttugustu öldina. Mánuðurinn byrjaði með kulda og snjókomu víða, þar með talið í Reykjavík. Var mjög kalt næstu níu daga og komst frostið í -23,5 stig þ. 9. á Möðrudal. Síðan mildaðist nokkuð en þ. 16. skall á jafnvel enn verra kuldakast sem stóð í tíu daga. Þann 25. mældist frostið á Möðrudal -21 stig og er þetta síðasta dagstetning að vori sem tuttugu stiga frost hefur mælst á landinu á mannaðri stöð frá og með 1949. Meðaltal daglegs hámarkshita á landinu var aðeins 5,7 stig. Frostdagar voru 24 í Reykjavík og hafa aldrei verið fleiri í apríl en voru jafn margir 1949. Snjólag á landinu var 75%, þriðja til fjórða mesta ásamt 1953. Fyrir norðan var víða alhvítt eða því sem næst en um helmingur daga á suðurlandi var alauður þar sem allra best lét en sums staðar var þar þó aldrei alautt. Þann 17. var snjódýptin á Siglunesi 123 cm. Minnstur var snjórinn á Keflavíkurflugvelli en þar var 21 dagur auður. Í Reykjavík voru fjórir alauðir dagar og sjö alhvítir. Þurrviðrasamt var fremur nema á norðausturhorninu þar sem var gríðarleg úrkoma. Á Raufarhöfn var hún 109,7 mm og aldrei verið meiri í apríl (frá 1934). Aldrei varð almennilega hlýtt en þ. 28. komst hitinn í 10,0 stig á Sámsstöðum. Norðan og norðaustanáttir voru ríkjandi. Á sumardaginn fyrsta (21.) var norðaustanstrekkingur og frost um land allt en mikið sólskin á suður og suðvesturlandi. Ekki beint sumarlegt! Þetta var þurr mánuður og fjórði þurrasti apríl á Teigarhorni. Kortið sýnir kuldagúlp sem lá yfir landinu í kringum 5 km hæð þennan mánuð.
1951 (-0,8) Fram yfir miðjan mánuð var tíðin mjög óhagstæð, miklir kuldar og tíð snjókoma og vindasamt nokkuð á suðurlandi. Einkanlega var kalt um miðjan mánuð og mikið vetrarríki. Var óslitið frost í heila viku í Reykjavík, dagana 13.-19. og hafa slíkir dagar í apríl þar aldrei komið svo margir saman í röð. Og dagshitamet yfir kaldastan meðalhita í apríl voru sett þar hvern dag 13. til 16. og aftur 18. til 19. (Dæmi um kuldana þessa daga sést á kortinu). Voru dagshitakuldametin í meðalhita því sex og hefur enginn apríl fleiri kuldamet yfir meðalhita í borginni. Þann 14. fór lágmarkshitinn í -12,0 stig sem er með meiri kuldum sem komið hafa í apríl í Reykjavík. Dagana 13.-15. komu aftur á móti kuldadagshitamet á Akureyri (frá 1949) í meðalhita. Kaldast á landinu varð hins vegar í lok þessa mikla kuldakasts þegar frostið í Möðrudal og Reykjahlíð við Mývatn fór í -23,1 stig þ. 20. Síðustu fjóra dagana hlýnaði vel og mældist mestur hiti nær alls staðar síðasta mánaðardaginn. Var þá 13 stiga hiti í Reykjavík í glampandi sól en 15,5 í Síðumúla í Borgarfirði. Snjólag var 74%. Sums staðar var snjóþungt með afbrigðum. Þannig var alhvítt víðast hvar á Vestfjörðum, norðurlandi og austurlandi. Í byrjun mánaðarins var snjódýpt 140 cm á Suðureyri við Súgandafjörð og um miðjan mánuð var hún 100 cm á Sandi í Aðaldal og 152 cm á Grímsstöðum á Fjöllum. Hvergi var alautt alla daga en alhvítir dagar voru þó fáir og sums staðar engir á suður og vesturlandi en jörð var flekkótt þar sem ekki var alhvítt. Úrkoma var víðast hvar fremur lítil nema við ströndina á suðaustanverðu landinu. Norðaustanátt var algengust vindátta. Mánuðurinn var því nokkuð ólíkur bróður sínum 1949 þegar vestanátt var ríkjandi. Þessi mánuður er líka úrkomuminnstur kuldaþríburanna 1949, 1951 og 1953. Á austfjörðum var samt mikil úrkoma, 302, 5 mm á Seyðisfirði sem er aprílmet þar.
1953 (-0,7) Þessi mánuður er reyndar bara tólfti kaldasti apríl en er hér nefndur til að hann verði ekki aðskilinn frá kuldabræðrum sínum 1949 og 1951 sem hann er mjög áþekkur hvað hita varðar. Norðlægar áttir voru algengastar, frá norðvestri til norðausturs. Mánuðurinn var úrkomusamastur þessara þriggja. Sérstaklega var úrkomusælt fyrir norðan. Á Akureyri er þetta næst úrkomumesti apríl, 86,4 mm (mest 87,9 mm 1932). Á Blönduósi var úrkoman meiri en í nokkrum apríl, 79,9 mm, í nokkuð slitróttri mælingasögu. Í Reykjahlíð við Mývatn hefur heldur ekki mælst meiri úrkoma í apríl, 58,1 mm (frá 1938) og sömu sögu er að segja af Grímsstöðum á Fjöllum, 62,3 mm ( frá 1936). Mánuðurinn hófst með gríðar miklu og hvössu kuldakasti, einhverju hinu mesta í apríl. Þann 2. á skírdag, fór frostið í 18,1 stig á Möðrudal. Annars staðar var þá víða 10-14 stiga frost og ekki síður á suðurlandi en annars staðar. Daginn eftir féll snjóflóð á bæinn Auðni í Svarfaðardal og fórust þar tvær manneskjur, nokkrar kýr og næstum því allt sauðféð. Sama dag braut brim skarð í skjólvegg í höfninni á Ólafsfirði. Um miðjan mánuð eyðilagði snjóflóð útihús á Þrastarstöðum á Höfðaströnd. Seinna urðu vatnsflóð af völdum krapastíflu í Laxá og vegna leysinga í Húnavatnssýslu og skriða féll á túnið á Hvammi í Dölum. Hlýtt var meðan leysingarnar voru og komst hitinn í 12,8 stig á Skriðuklaustri þ. 20.
Af aprílmánuðum snemma á nítjándu öld má nefna 1811 en þá var meðalhitinn í Stykkishólmi áætlaður -4,8 stig.
Meðalhita stöðvanna og úrkomu má sjá i fylgikjalinu fyrra. Hið síðara sýnir hita í Stykkishólmi árið 1859 og í Reykajvík 1917. Hitinn í Reykjavík er ekki raunverulegur hámarks-og lágmarkshiti heldur það hæsta og lægsta sem lesið var á mæli þrisvar á dag.
Þjóðólfur, 20. apríl, 10. júní 1859; Þjóðólfur 10. maí 1867; Norðri 30. apríl, 30. maí 1859; Norðanfari 30. apríl 1867; Norðanfari 18. maí 1876; Ísafold 10. maí 1876; Fréttir frá Íslandi 1876, 1882; Stefnir 6. maí 1899; Austri 17. apríl 1917; Fjallkonan 27. apríl 1910.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 7.12.2011 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2011 | 17:02
Hlýustu aprílmánuðir
1974 (5,8) Apríl þetta ár var hlýjasti apríl sem mælst hefur síðan mælingar hófust, 3,8 stig yfir meðaltalinu 1961-1990. Hann var nær alls staðar hlýrri en nokkur annar aprílmánuður. Veðráttan segir: Tíðarfarið var með afbrigðum hlýtt og hagstætt. Tún voru yfirleitt algræn eða því sem næst í mánaðarlok og úthagi að grænka. Færð var góð." Þykktin yfir landinu (sjá efra kortið) og kringum það var langt fyrir ofan meðallag og var frávikið það mesta á öllu norðurhveli. Sunnanátt var yfirgnæfandi og var nokkuð drungalegt á suður-og vesturlandi. Sólskin hefur aldrei mælst eins lítið í apríl í Reykjavík og Sámsstöðum og heldur ekki á Reykhólum í þau um það bil 30 ár sem þar var mælt. Á Hveravöllum mældist heldur aldrei minni sól í apríl, 82 klst (1966-2004). Út yfir tók þó á Reykjum í Ölfusi þar sem sólarstundir mældust tæplega 30 og hefur aldrei mælst eins lítil sól í nokkrum apríl á þeim fáu veðurstöðvum sem mælt hafa sólskin. Sólríkt var hins vegar á Akureyri og enn sólríkara á Hallormsstað, 175 klst. Meðalhitinn á Loftssölum í Dyrhólahreppi og Hellu var 7,1 stig sem er hæsti meðalhiti á íslenskum veðurstöðvum í apríl. Á Hveravöllum var meðalhitinn 1,1 stig og hefur aldrei mælst þar eins mikill í apríl. Um allt land var hitinn fremur líkari því sem gerist í betri maí fremur en apríl. Á norðausturlandi var meðaltal hámarkshita á nokkrum stöðvum yfir 10 stig, mestur 10,8 á Staðarhóli sem þætti þar alveg boðlegt í júní. Mesti hiti mánaðarins mældist 18,5 stig þ. 24. á Dratthalastöðum á Úthéraði og 18,4 á Vopnafirði. Meðaltal hámarkshita yfir allt landið var 12,7 stig. Á Hellu, Lofsstöðum, Stórhöfða í Vestmannaeyjum og Reykjanesi var frostlaust allan mánuðinn. Í Reykjavík mældist frost aðeins í einn dag, -1,1 stig (þ. 3.) og þar var einnig alhvítt aðeins í einn dag. Þetta er hæsti lágmarkshiti í nokkrum apríl í Reykjavík. Mesta frost á landinu mældist -7,2 stig þ. 8. á Grímsstöðum og Mýri í Bárðardal. Þetta er næst snjóléttasti apríl á landinu frá 1924. Snjóhula var aðeins 16% en var 45% að meðaltali árin 1924-2007. Á Hveravöllum var alhvítt í aðeins 10 daga en vanalega er þar alhvítt allan apríl. Syðst á landinu var enginn snjór og víðast hvar annars staðar á suðurlandi voru alhvítir dagar aðeins einn. Mikið góðviðri var á norðausturlandi eftir þ. 20 og var hámarkshitinn þá dögum saman um og yfir 15 stig þar sem best var. Dagshitamet fyrir meðalhita frá 1949 á Akureyri voru þó aðeins tvö, 10,5 stig þ. 4. og 10,7 stig þ. 6. Ekki kom dropi úr lofti á Akureyri eftir miðjan mánuð. Að öðru leyti var úrkoman fremur mikil á suður og vesturlandi, einkum á sunnanverðum Vestfjörðum, meira en þreföld meðalúrkoma í Kvígindisdal, en lítil fyrir norðan og austan. Flesta daga kom eitthvað úr loftinu á suðurlandi en sjaldan voru stórrigningar. Þetta er úrkomusamasti mánuðurinn af þremur hlýjustu aprílmánuðunum 1974, 1926 og 2003. Á Hveravöllum mældist aldrei meiri úrkoma í apríl 111,4 mm (1966-2004). Sunnanátt var algengust átta en norðlægir vindar voru mjög sjaldgæfir. Hæðasvæði var langtímum saman fyrir suðaustan eða austan land (sjá kortið af 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð). Á undan þessum mánuði fór sjöundi hlýjasti mars og á eftir honum tólfti hlýjasti maí. Gott vor þetta árið! Guðmundur Böðvarsson skáld, sem orti góð vorljóð, lést í byrjun mánaðarins. Hér er kort með meðalhita flestra stöðva.
1926 (5,3) Næstir apríl 1974 að hlýindum koma apríl 1926 og 2003. Á þeim er lítill munur í hitanum en þó var apríl 2003 nokkru hlýrri á útkjálkum fyrir norðan. Á Fagurhólsmýri er apríl 1926 reyndar sá hlýjasti sem hefur mælst og hann var jafn hlýr og 1974 í Vestmannaeyjum og Bolungarvík. Þurrviðrasamt á Norðurlandi. Mikil hlýindi mest-allan mánuðinn", segir Veðráttan um apríl 1926. Það var hægviðrasamt en austanátt var algengasta áttin. Úrkoma var þar af leiðandi mikil á suðausturlandi og var reyndar einnig meiri í Reykjavík en 1974 en yfirleitt minni á landinu í heild en þá. Alveg snjólaust var í höfuðborginni og víðast hvar á suður-og vesturlandi og alhvítir dagar voru nauðafáir annars staðar. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist ekki frost. Í Reykjavík var vægt frost í tvær nætur. Kaldast á landinu varð -9,6 stig þ. 1. á Grænavatni fyrir sunnan Mývatn. Mjög hlýtt var annars í byrjun mánaðar, oft yfir tíu stig í Reykjavik, en síðan kólnaði ofurlítið þó hlýtt væri áfram. Rétt eftir miðjan mánuð kom hins vegar dálítið kuldakast með hvassri norðanátt í þrjá daga en eftir hana fylgdu nokkrir góðir sólardagar í Reykjavík með 6-7 stiga síðdegishita. Síðasta þriðjung mánaðarins var hæð yfir landinu og suðaustan við það sem þokaðist austur og norður fyrir land. Fylgdi þessu suðaustan átt og var hámarkshitinn þá um og yfir tíu stig í höfuðstaðnum. En hlýjast varð 18,8 á Lækjamótum í Víðidal í Húnavatnssýslu þ. 26. Um það leyti var hæð austan við land og suðaustanátt frá Evrópu ríkjandi (sjá kortið). Í slíku veðurlagi nýtur þetta landsvæði sín vel. Næst mesti hiti á landinu varð 15,1 stig á Teigarhorni þ. 24. Síðustu vikuna var daglegur hámarkshiti á landinu alltaf yfir 13 stigum. Snjóhula var 29%. Í byrjun mánaðar var nokkur snjór fyrir norðan eftir norðankast sem kom í lok mars.
Í heimsmenningunni gerðust þau tíðindi einna helst að Arturo Toscanini stjórnaði frumflutningi á Turandot, síðustu óperu Puccinis, þ. 15. í Scalaóperunni í Mílanó.
2003 (5,2) Mánuðurinn byrjaði kuldalega með frosti um allt land um hádaginn. En síðan hlýnaði og þessi apríl var einmuna hlýr lengst af en heldur kólnaði þó undir lokin. Á Steinum undir Eyjafjöllum var meðalhitinn víst 7,8 stig á sjálfvirkri stöð Vegagerðarinnar. Þar sem stöðin þykir kenjótt er þessu ekki hampað sem Íslandsmeti í aprílmeðalhita veðurstöðva. Þurrviðrasamt var á norðaustanverðu landinu, vindar voru fremur hægir og engin stórviðri. Tún voru orðin græn í lok mánaðarins, tré voru farin að laufgast og blóm að skjóta upp kollinum", segir Veðráttan. Áttir frá norðaustri til suðurs voru tíðastar. Úrkoma var minni í Reykjavík en hina hlýjustu mánuðina og sólin miklu meiri. Í raun og veru var þessi mánuður betri" í höfuðstaðnum en árið 1974 vegna þess að nokkrir sólríkir dagar komu með um og vel yfir tíu stiga hita en svo heitir sólskinsdagar eru fremur sjaldgæftir í Reykjavík í apríl. Besti dagurinn var hinn 22. en þá mældist hitinn í borginni 13,6 stig í glaðasólskini en mistur var í lofti. Aðra sögu var að segja frá Hornafirði en þar er þetta sólarminnsti apríl sem mælst hefur, 83 klst (frá 1958). Fyrir norðan var talsvert minni sól en 1974 en úrkoman var þar líka minni en þá. Upp úr miðjum mánuði gerði óvenjulega hitabylgju. Fór þá hitinn yfir 20 stig á 11 stöðvum á norðausturlandi frá Mánárbakka að Neskaupsstað, mest á mannaðri stöð í 21,1 á Sauðanesi á föstudeginum langa þ. 18. sem var þá mesti hiti sem mælst hafði á landinu í apríl á mannaðri stöð og næst fyrsta dagsetning á tuttugu stigum að vori á mannaðri veðurstöð, en næsta dag mældust 21,4 stig á sjálfvirku stöðinni á Hallormsstað (fyrsta dagsetning 20 stiga hita er skráð 9. apríl 2011 þegar 20,2 stig mældust á Skjaldþingsstöðum. Kortið sýnir loftþrýsting við jörð og hæð 500 hPa að kvöldi mesta hlýindadagsins. Mestur hiti á suðurlandi mældist 15,2 stig á Sámsstöðum þ. 16. Hiti komst í tíu stig (þ. 22. ) á Hveravöllum í eina skiptið í apríl meðan þar var mönnuð veðurstöð. Dagshitamet meðalhita og einnig hámarkshita voru sett á Akureyri dagana 16.-18. (alls komu sex dagshitamet í mánuðinum fyrir hámark í apríl á Akureyri). Síðast talda daginn var meðalhitinn 14,6 stig og hefur aðeins einn apríldagur orðið hlýrri á Akureyri (14,7° þ. 26. 1984). Á Hellu var meðaltal hámarkshita mánaðarins 10,2 stig og er það eina dæmið í apríl um það að meðaltal hámarkshita á mannaðri veðurstöð á suðurlandsundirlendi hafi náð tíu stigum. Meðaltal daglegs hámarkshita á mönnuðum stöðvum var 12,9, aðeins hærra en 1974. Mánuðurinn var hvergi alveg frostlaus en í Vestmannaeyjum var aðeins einn frostdagur. Snjór var hins vegar minni en í nokkrum öðrum apríl, snjólag var einungis kringum 10%. Næst snjóléttastir voru apríl 1974 og 1964. Á suðausturlandi var víða alautt allan mánuðinn. Í Reykjavík var flekkótt tvo morgna en aldrei alhvítt. Á Akureyri varð heldur aldrei alhvítt en flekkótt þrjá daga. Kaldast í byggð var -12,7 stig þ. 2. á Grímsstöðum en á fjöllum -13,1 stig á Gagnheiði daginn áður. Úrkoman var tiltölulega mest á miðhálendinu og á vesturlandi en var lítil fyrir norðan og austan. Vindar frá norðaustri til suðurs voru algengastir. Síðasta daginn byrjaði leiðindakuldakast og var næstu daga frost fyrir norðan. Á undan þessum mánuði kom áttundi hlýjasti mars.
Saddam Hussein var hrakinn frá völdum í Írak snemma í þessum apríl.
1894 (4,8) Þessi mánuður var óvenjulega hlýr inn til landsins. Í Hreppunum hefur aldrei mælst eins hlýr apríl. Á Grund í Eyjafirði var meðalhitinn 5,2 stig en 4,7 á Akureyri. Hið gagnstæða mun venjulega vera raunin að hlýrra sé á Akureyri í apríl en inni í dalnum. Á Möðrudal var meðalhitinn 2,8 stig, hátt upp í fimm stig yfir meðallaginu 1961-1990. Þar mældist reyndar mesta frost mánaðarins sem ekki er út af fyrir sig að undra. En hitt má hins vegar undrast að það var aðeins -5,2 stig og er það hæsta mánaðarlágmark á landinu í apríl sem skráð er. Á Akureyri mældist ekki frost (og heldur ekki í Hafnarfirði) sem er algert einsdæmi í apríl. Ofurlítið frost mældist hins vegar í Reykjavík (þar eru engin dæmi um alveg frostlausan apríl) þ. 1. (-0,2°) og aftur þ. 24. (-1,0°). Alautt var þar allan mánuðinn samkvæmt upplýsingum Þorvaldar Thoroddsen í Lýsingu Íslands. Hiti var oftast mjög jafn og stöðugur á landinu og aldrei kom alvöru kuldakast þó dálitið kólnaði í örfáa daga upp úr miðjum mánuði með suðsvestanátt og snjóaði þá nokkuð sums staðar vestanlands. Skjótt hlýnaði á ný og síðustu dagarnir voru mjög hlýir. Fór hitinn mest í 13,4 stig á Teigarhorni þ. 28. Úrkoma var meira en tvöföld á Teigarhorni en tiltölulega lítil í Vestmannaeyjum. Enginn teljandi hafís var við landið. Lægðir voru oft vestan við land með sunnanáttum, einkum framan af, eða jafnvel oftar, síðar í mánuðinum, djúpt suður í hafi með hlýjum suðaustanáttum. Jónassen var óþreytandi að lýsa tíðarfarinu í Ísafoldarblöðum:
... hvass á austan-landsunnan með miklu regni h. 1., gekk svo til útsuðurs eptir miðjan dag og varð hægur;hægur sunnankaldi og bjartur h. 2.;logn og bjart sólskin h. 3.;gekk svo til suðurlandsuðurs nokkuð hvass h. 4. og heflr verið við þá átt síðan. Í morgun (7.) austanvari, bezta veður. (7. apríl.) - Dimmur á austan h. 7., 8. og 9. Logn og fagurt veður h. 10. Sunnan hægur dimmur h. 11. með smá-regnskúrum ; hvass á landnorðan með regni h. 12.; hægur á austan og bjartur h. 13.; austankaldi h. 14. bjart og fagurt veður. (14. apríl). - Hægur austankaldi h. 14 logn og fagurt veður h. 15. og 16. Útsunnan hægur h. 17. 18. og 19. en þó hvass með köflum og við og við hagljel og ofanhríð; hjer snjóaði talsvert aðfaranótt h. 19. og mikill snjór til fjalla hjeðan að sjá. (21. apríl). - Hinn 21. var hjer logn, norðangola til djúpa; hægur austankaldi hjer síðari part dags; hvass á landsunnan með regni h. 22. og sama veður 23. fram yíir miðjan dag, er fór að lygna; logn og fagurt veður h. 24., 25 , 26. og 27.; stöku sinnum ýrt regn úr lopti síðustu dagana. Í morgun (28.) hvass á austan með regni. (28. apríl). - Hinn 28. austan, hvass að morgni með regni logn að kvöldi; h. 29. útsynningur með hagljeljum og regni og sama veður 30. og 1. og 2. optast bjartur á milli, gekk svo til norðurs hægur og varð bjart sólskin h. S., gekk svo til austurs h. 4. og fór að rigna lítið um kvöldið. Í síðustu 20 árin hefir veðrátt í aprílmánuði aldrei verið eins hlý og nú þetta árið; er það einstakt, að aðeins skuli hafa verið 2 frostnætur (í bæði skiptin -1) allan mánuðinn; 1881 voru 5 frostnætur; mestur var þó næturkuldinn 1876 (23 frostnætur); 1885 20 frostnætur (15 stiga frost 2/4); 1887, 1888 og 1889 16 frostnætur hvert árið; í fyrra 7, í hitt eð fyrra 14 . (5. maí).
Já, ég hef valið þann kost að birta umsagnir Jónassens í heild um alla þá mánuði sem hann fjallaði um og koma við sögu í þessum pistlum. Þetta eru afar merkilegar samtímaheimildir um veðurfar og hafa þær verið teknar mjög skipulega saman á vef Veðurstofunnar en líka er vitaskuld hægt að fletta þeim upp í gömlu blöðunum. Og þarna eru auðvitað einnig lýsingar á mánuðum sem ekki koma hér við sögu.
1880 (4,6) Þetta ár var mikið góðærisár lengst af þó það endaði ótrúlega illa með kaldasta desember allra tíma og síðan kaldasta vetri. Hófst góðærið í mars og hélst út september. Aðeins var athugað í Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni, Vestmannaeyjum, Skagaströnd (meðalhiti 4,0°) og Papey (4,6°). Ekki er hægt að tala um nein kuldaköst að heitið geti en þó kólnaði dag og dag á stangli. Mesta frost var -6,6, stig í Grímsey þann 14. sem var einn af þessum örfáu köldu dögum. Sóley fannst á túni þ. 5. á Hraunum í Fljótum. Tún voru orðin algræn löngu fyrir sumarmál. Nokkrir dagar fyrir og um miðjan mánuð og síðustu dagarnir voru sérlega hlýir en mestur hiti varð 13,1 stig þ. 28. á Teigarhorni. Eftir mælingum í Stykkishólmi, Teigarhorni og Vestmannaeyjum að dæma var úrkoman kringum meðallag. Hún var þó meira en tvöföld á Teigarhorni en tiltölulega lítil í Vestmannaeyjum. Enginn hafís var við landið. Síðasta daginn kom póstskip frá Danmörku með lík Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans og voru þau jarðsett í Reykjavík nokkrum dögum síðar. Jónassen lýsti veðráttufarinu í Þjóðólfi 29 maí :
Fyrst framan af mánuðinum var veður hvasst á austan (landnorðan) með snjókomu til fjalla, (2. var fjarskalegt rok á austan í nokkra klukkutíma), svo nokkra daga á norðan (5. 6. 7.). Síðan ýmist við suður eða landsuður með nokkurri rigningu og stundum hvass; 8-11. var vindur sunnan lands stundum hvass; 12-13. vestan útnorðan með miklum brimhroða og snjókomu til fjalla og hér varð jörð alhvít aðfaranótt hins 13.; 14-21. hægur á lands. eða austan og vanalega bjart veður; 21-23. vestan útnorðanhroði mikill og 24. genginn í norður en hægur; 25. logn og fagurt veður; 26.-30. lands., opt hvass og stundum með talsverðum rigningarskúrum.
2004 (4,5) Veðurfar var nokkuð rysjótt þrátt fyrir hlýindin en norðanátt var allra átta tíðust. Á Kirkjubæjarklastri (6,4°) og í Vík í Mýrdal (6,7°) hefur aldrei mælst eins hlýr apríl. Í Reykjavík var bæði mikil úrkoma og venju fremur mikið sólskin. Hlýjast að tiltölu var á landinu miðju. Mestur hiti varð 16,4 á Núpi á Berufjarðarströnd þ. 8. í suðvestanátt. Sama dag voru 15,5 stig á Kirkjubæjarklaustri. Mesta frost á mannaðri stöð var -9,4 á Hveravöllum þ. 7. og sama dag -9,0 á Möðrudal. Á Gagnheiði í um 950 m hæð mældust -12,0 stig þ. 9. á sjálfvirkri stöð. Snjólag var 16% eins og 1964 og 1974. Mjög þaulsetnar hæðir voru í þessum mánuði, ýmist yfir Norðurlöndum eða suður í hafi. Lægðir fóru oft norðaustur yfir Grænlandssund. Hálfgerðum hryssingi stafar af mánaðarkortinu af hæð 850 hPa flatarins sem var í 1300-1400 m hæð kringum landið.
2007 (4,4) Tvær merkilegar hitabylgjur komu í mánuði þessum. Sú fyrri var á austurlandi fyrstu dagana og komst hitinn í 21,2 stig þ. 3. í Neskaupstað á sjálfvirkri stöð. Það er mesti hiti sem mælst hefur svo snemma árs og fyrsta dagsetning að vori sem hiti nær tuttugu stigum á landinu. Fyrstu þrjá dagana komu dagshitamet hámarkshita á Akureyri (13,6, 13,0, 16,9°) en fyrir meðalhita aðeins þ. 3. (11,8°). Hinn fjórða kólnaði mjög og var frost nokkra daga fyrir norðan. Síðari hitabylgjan gekk um mikinn hluta landsins síðustu þrjá dagana og var þá víða bjart veður. Þann 29. mældist mesti hiti sem mælst hefur í apríl á landinu, 23,0 stig á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi og 21,9 á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal sem er met fyrir mannaðar stöðvar. Hitamet féllu mjög víða á einstökum veðurstöðvum. Tuttugu stiga hiti eða meira kom ansi víða á svæðinu frá Eyjafirði til austfjarða. Í Reykjavík mældist meðalhitinn 11,8 stig þ. 29. og er það mesti meðalhiti sem mælst hefur þar nokkurn sólarhring í apríl. Daginn áður var meðalhitinn 10,8 stig sem þá var líka met sem stóð í einn dag. Á Akureyri komst hitinn í fyrsta sinn yfir 20 stig í apríl, 21,5 stig þ. 29. Dagshitamet fyrir meðalhita komu þar þrjá síðustu dagana. Þrátt fyrir þetta var hitanum ekki fyrir að fara á sumardeginum fyrsta sem var þ. 19. Mældist þá lægsti hiti mánaðarins, bæði á mannaðri og sjálfvirkri veðurstöð, á Grímsstöðum á Fjöllum -12,3 stig og -21,4 stig á Brúarjökli. Hæðasvæði var yfir sunnanverðum Bretlandseyjum þennan mánuð en lægðasvæði suðvestan við landið og nærri því. Kortið sýnir veðrið kl. 15 þ. 29.
1955 (4,4) Framan af var tíð hagstæð en versnaði er á leið. Voru þá hvassar suðaustanáttir og stórrigningar á suðurlandi þ. 24. og daginn eftir á austurlandi. Á Hólum í Hornafirði mældist sólarhringsúrkoman 57,7 mm að morgni hins 26. Úrkoman var fremur mikil á landinu víða og á Nautabúi í Skagafirði er þetta úrkomusamasti apríl á staðnum, 77,8 mm (1935-2004). Aldrei fraus í Vestmannaeyjum, Mýrdal og Sámsstöðum í Fljótshlíð. Í Reykjavík var ein frostnótt eins og 1974. Það var hinn 21. og kom í kjölfar sólríkasta dags mánaðarins í borginni! Hins vegar var mánuðurinn í heild níundi sólarminnsti apríl í höfuðstaðnum. Daginn áður mældist mesta frost á landinu, -12,0 stig á Grímsstöðum og -9,9 í Möðrudal. Yfir landinu var þá háþrýstisvæði. Hlýjast varð upp úr miðjum mánuði, mest 15,8 stig í Fagradal í Vopnafirði þ. 17. og daginn eftir 14,9 á Hallormsstað og 14,8 á Hofi í Vopnafirði. Skriðuföll þ. 18. ollu stjórtjóni eftir stórrigningar og fórst þá barn á bænum Hjalla í Kjós. Sama dag lést vísindamaðurinn Albert Einstein. Úrkoman var lítil norðaustanlands en annars staðar í meira lagi. Alautt var á Reykjavíkursvæðinu, víða á suðurlandsundirlendi og í Stykkishólmi en á landinu öllu var snjólag 22%. Víða voru aðeins einn til tveir dagar alhvítir og hvergi fleiri en fimm. Fyrsta dag mánaðarins komu þrír allmiklir jarðskjálftakippir á suðurlandi, einkum í Ölfusi og urðu smávægilegar skemmdir í Hveragerði og víðar. Lægðir voru oft suðvestan við land framan af og stundum nær landinu en síðar var hæð sunnan við landið áberandi. Undir lokin voru lægðir aftur þrálátar suðvestan og sunnan við landið. Ruby Murray var á toppnum í poppinu á Bretlandi. Man einhver eftir henni? Softly, softly ...
1957 (4,2) Suðvestanátt var algengust í þessum mánuði og tiltölulega hlýjast á norðausturlandi og þar var einnig sólríkast. Á Hallormsstað mældist meiri sól en nokkrum öðrum apríl, 219 klst (1953-1989). Eigi að síður mældist þar líka mesta sólarhringsúrkoma sem þar hefur komið í april , 44,7 mm þ. 2. Sérlega hlýtt var fyrstu dagana og voru þá sett fimm dagsmet yfir meðalhita í Reykjavík. Enginn apríl státar af jafn mörgum slíkum dagshitametum í borginni sem þessi. Milt var allan mánuðinn nema fáeina daga fyrir norðan kringum þ. 10. og á öllu landinu nokkra daga eftir miðjan mánuð og komst frostið þá í -12,0 stig á Barkarstöðum í Miðfirði þ. 23. Von bráðar hlýnaði á ný og hlýjast varð undir lok mánaðarins þegar 15,8 stig mældust á Teigarhorni þ. 30. og 15 stig á Akureyri og Hallormsstað. Snjólag var 29%. Á öllu suður og vesturlandi voru alhvítir dagar aðeins einn til tveir eða engir en hvergi var alveg snjólaust nema á Djúpavogi. Snjór var óvenjulega lítill á norðausturlandi og hvergi meiri en í meðalári nema á Suðureyri við Súgandafjörð. Mikið sjávarflóð gekk yfir Álftanes þ. 16. svo veginn tók af og bæir urðu umflotnir sjó. Sama dag var þrumuél og skýfall í Reykjavík. Nokkrum dögum síðar sást halastjarna á himni en ekki komu þó plágur og drepsóttir í kjölfar hennar!
Grace Kelly, sem þá var ein skærasta kvikmyndastjarnan gifti sig um miðjan mánuð og varð þar með furstafrúin af Mónakkó. Ungur myndlistarmaður er kallaði sig Ferró hélt sína fyrsti sýningu í Reykjavík og varð síðar frægur um allar trissur undir nafinu Erró. All Shook Up með engum öðrum en Elvis var vinsælasta lagið í Bandaríkjunum.
1928 (4,1) Í þessum apríl voru suðaustan og austanáttir algengastar og úrkomusamt á suðurlandi en þurrt á norðurlandi. Einkanlega voru mikil votviðri á suðaustanverðu landinu. Á Teigarhorni var mesta úrkoma sem þar hefur mælst í apríl og einnig á Fagurhólsmýri, 214 mm. Snjólag var 22%. Alautt var í Reykjavík en hvergi annars staðar. Snjór var þó alls staðar mjög lítill, alhvítir dagar einn til þrír á suður og vesturlandi og fyrir norðan hvergi fleiri en níu og var það á Raufarhöfn. En á Grímsstöðum var enginn alhvítur dagur en 28 dagar alauðir og snjólag 3%. Óvenjulegt er að svo snjólítið sé í apríl á Grímsstöðum og er þetta reyndar snjóleysismet þar í mánuðinum. Engar úrkomumælingar voru á staðnum þennan mánuð og hugsanlega er snjólagstalan ónákvæm en snjólítið hafði þó verið í undanfarandi marsmánuði. Það má minna á að í hinum hlýja apríl 1955 var eigi að síður alhvítt á Grímsstöðum alla daga en 17% snjólag árið 1957 og 34% í þeim ofurhlýja apríl 1974. Hlýjast á landinu varð síðasta daginn, 15,6 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Nokkurt hlé varð á suðlægum úrkomuáttum um miðjan mánuðinn þegar hæð var yfir landinu og víða bjart. Komu þá fáeinir góðir sólardagar í Reykjavík með vægum næturfrostum en 5-7 stiga hita um hádaginnn. En þá mældist líka mesta frostið á landinu, -14,0 stig á Eiðum þ. 16. en annars staðar var kuldinn miklu minni þó alls staðar kæmi frost. Fjórði hlýjasti maí kom svo á eftir þessum mánuði.
Mæðrastyrksnefnd var sett á stofn í þessum apríl og er enn við lýði og sagt að ekki sé vanþörf á.
Af hlýjum aprílmánuðum á nítjándu öld fyrir 1866, okkar helsta viðmiðunarár, má nefna árið 1852 þegar meðalhitinn var 6,1 stig í Reykjavík og 5,3 á Stykkishólmi og Akureyri. Og það gerir hann þá annan hlýjasta apríl í sögu mælinga ef aðeins er miðað við þessa staði. Apríl 1845 var einnig mjög hlýr með meðalhita upp á 6,1 stig í Reykjavík en 3,9 í Stykkishólmi. En einkennilegast af öllu: Árið 1815, á miklu kuldaskeiði, var meðalhitinn í Stykkishólmi áætlaður 5,8 stig sem gerir hann þá að hlýjasta apríl þar. Þess ber þó að gæta að hitinn var færður til Stykkishólms annars staðar frá og mælingarnar voru ekki eins áreiðanlegar og síðari tíma mælingar.
Í fyrra fylgiskjalinu sjást mánuðurnir nánar á stöðvunum níu en í því síðara eru nokkur atriði um april 1974, 2003 og 2007.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 7.12.2011 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2011 | 15:17
Köldustu marsmánuðir
Meðalhiti stöðvanna níu, sem reiknað er út frá, er -0,3° 1961-1990.
1881 (-9,9) Ókrýndur kuldakóngur allra marsmánaða var árið 1881. Þá var meðalhitinn í Reykjavík -6,1 stig en -13,3 í Stykkishólmi. Þetta er reyndar kaldasti mánuður sem í Hólminum hefur mælst frá upphafi í nokkrum mánuði. Á Siglufirði var meðalhitinn talinn -19,8 stig sem er óskapleg tala. Það mun láta nærri að vera ein 18 til 19 stig undir meðallaginu 1961-1990. Reyndar er hugsanlegt að eitthvað hafi verið athugunarvert við hitamælinn svo hann hafi sýnt of lágan hita. Varla hefur Siglufjörður verið kaldasti staður landsins og einhvers staðar hefur meðalhitinn átt að vera meiria en 20 stiga frost eftir þessu og er það með hreinum ólíkindum. En mjög kalt getur samt orðið á Siglufirði og þegar fjörðurinn hefur verið fullur af hafís hefur hann orðið eins og frystikista. Í Grímsey var meðalhitinn -17,0 stig en -13,5 á Valþjófsstað í Fljótsdal og -8,3 stig á Eyrarbakka. Allt kuldamet fyrir mars. Hitamælingar voru reyndar aðeins á fáeinum stöðvum, t.d. hvorki á Akureyri né Grímsstöðum. Ljóst er samt að fyrir norðan er þetta kaldasti mánuður í árinu sem þar hefur nokkru sinni mælst, en fyrir sunnan var nokkru kaldara í janúar 1918. Mesti giti á landinu í mars 1881 var 6,6 stig í Vestmannaeyjum. Það er reyndar lægsti skráði hármakshiti í mars á landinu en segir ekki mikið vegna þess hversu veðurstöðvar voru fáar. Mánuðurinn var umhleypingasamur og snjóþungur og allur mjög kaldur. Mikið óveður, kallað góubylurinn, gekk yfir landið þ. 5. Þá voru veðrabrigðin frábær. Lægðardrag frá norðvestri var á leið yfir landið og gekk ekkert smáræði á. Um nóttina þegar skilin gengu yfir kólnaði um tuttugu stig í Grímsey. Á Valþjófsstað var sunnanátt og sex stiga hiti kl. 14 en hálfri klukkustund síðar var kominn allhvöss austanátt, fjögra stiga frost og snjókoma. Klukkan 8 um morguninn hafði verið rigning og þoka í Vestmannaeyjum og 7 stiga hiti en á sama tíma 20 stiga frost í Grímsey og á Siglufirði og 15 stiga frost, snjókoma og rok í Stykkishólmi. Þá var hitinn um frostmark í Reykjavík. Klukkan 21 var þar komið 9 stiga frost og þá var hitinn um frostmark í Eyjum en frostið var 21 stig í skafrenningi í Grímsey og 12 í snjókomu á Valþjófsstað. Kaldast í mánuðinum var vikuna í kringum jafndægur. Lægðardrag fór hinn 18. suður yfir landið með snjókomu. Fyrir norðan dragið var frostið tíu til tuttugu stig en miklu minna sunnan við það. Næsta dag var dragið komið suður fyrir landið en djúp og víðáttumikil lægð var yfir Norðurlöndum en yfir Grænlandi var vaxandi hæð. Frostið var yfir 20 stig í nokkra daga og sums staðar yfir 30. Við suðurströndina var frostið þó 15-20 stig. Mesta frost sem mælst hefur í mars á landinu mældist í þessu kuldakasti, -36,2 stig þ. 21. Siglufirði. Þetta er mesta frost sem mælst hefur á landinu nokkru sinni á láglendi. Talað var um 40 stiga frost inn til landsins. Mjög stillt veður var um land allt þegar kuldarnir voru mestir og bjart á vestan- og sunnanverðu landinu en nokkuð skýjað við austurströndina. Klukkan 8 að morgni hins 22. var logn og skýlaus himinn í Grímsey og 30 stiga frost. Daginn áður fór frostið í 22,1 í Reykjavík og fór þar frostið yfir tuttugu stig alla dagana frá 19. til 22. og enn þann 28. Mikil hæð var yfir N-Grænlandi þennan tíma. Annað kortið sýnir mesta frost sem mældist í þessum mánuði en hitt ætlaðan loftþrýsting á hádegi 20. mars kringum landið. Það er alveg eins og venjuleg þrýstikort nema hvað tölurnar merkja hæð þrýstiflatanna í dekametrum. Talan 0 jafngildir 1000 hPa en hver 25 samsvarar 3 hPa upp fyrir og niður fyrir. Lægstu og hæstu línur hef ég merkt með hPa. Þrýstingur er svo eitthvað hærri eða lægri innan viðkomandi hæstu eða lægstu línu. Smellið að smella tvisvar því þá stækkar allt!
Jónassen lýsti veðráttufarinu á þessa leið í Þjóðólfi 23. apríl:
Þessi mánuður hefur eins og undanfarandi verið óvenjulega kaldur; þótt frostharkan hafi verið talsvert linari í sjónum enn áður, þá lagði hann þó t. d. 25. fram á miðja skipalegu. Litlu eptir miðjan mánuðinn (frá 18.) varð frostharkan framúrskarandi mikil. 1. daginn var norðanrok til djúpanna, logn hér; 2. og 3. hægur á austan; 4. og 5. hvass á norðan með mikilli ofanhríð allan daginn; 6. hægari en með talsverðri snjókomu; 7. 8. 9.- optast logn; 10. landnorðan, nokkuð hvass; 11. logn, 12. og 13. logn með ofanhríð; 14. útsynningur með blindbyl allan daginn ; 15. logn að morgni en eptir miðjan dag gengur til útsuðurs með blindbyl og 16. og 17. sami útsynningur en þó vægari, 18. gengur í norður, rok til djúpanna; 19. 20. 21. norðanrok, optast logn hér í bænum, 22. landnorðan, hvass að morgni, hægur síðari hluta dagsins, 23. og 24. norðanrok hér; 25. logn; 26. vestan útnorðan hroði; 27. fagurt veður og logn; 28. norðanrok til djúpanna, hægur hér; 29. logn; 30. útsynningur hægur; 31. hægur austankaldi, dimmur. - 23. apríl.
Hafís mikill var við landið og voru nokkrir ísbirnir felldir. Þessi mars rak endahnútinn á kaldasta vetur sem gengið hefur yfir landið síðan mælingar hófust.
1866 (-7,3) Mars þetta ár, sem kemur á eftir kaldasta eða næst kaldasta febrúar á landinu, er skráður hinn kaldasti sem mælst hefur í Reykjavík, -6,2 stig, 0,4 stigum kaldari en 1881. Í Reykjavík voru mælingarnar þetta ár þó taldar ekki sérlega góðar. Í Stykkishólmi var mars 1881 hins vegar fimm stigum kaldari en 1866. Þar var mars 1859 einnig um það bil hálfri annari gráðu kaldari en þessi og þetta er þá þriðji kaldasti mars þar á bæ. Mælingar sem gerðar voru á Siglufirði benda til að meðalhitinn þar hafi verið kringum ellefu stiga frost. Í Þjóðólfi 23. apríl var tafla um hitann í Reykjavík án frekari lýsinga. Þar kemur fram (hitanum hér snúið úr R yfir í C) að hlýjast varð 2,0 stig þ. 10. en kaldast -16 stig þ. 21. Hlýjast var vikuna 9.-15. -3,1 stig en kaldast vikuna 2.-8. -12,6. Eftir miðjan mánuð og til loka var frost á Akureyri á hverjum degi, 10-20 stig, að sögn Norðanfara þ. 30. júní. Mikil snjókoma var þar dagana 18.-20. segir blaðið Frostin voru yfirleitt jöfn og stöðug á landinu. Í Stykkishólmi var enginn dagur alveg frostlaus en hiti komst yfir frostmarkið að degi til í fimm daga en fimm daga fór það niður í tuttugu stig, mest -21,5 hinn þriðja. Snjór var lítill á landinu en mikil svell og jökull á jörðu. Ofsaveður af norðri með grimmdarfrosti og blindbyl gerði aðfaranótt þ. 5. á vestanverðu landinu og olli miklu tjóni víða á húsum og fénaði og nokkrir menn urðu úti. Þá brotnaði þakið á Knarrarkirkju undir Jökli. Daginn eftir var veðrið enn mikið en þó nokkuð vægara og 7. mars var komið bjart og gott veður. Frá Reykjavík að sjá var þá allt ísum hulið svo menn vissu ekki dæmi um annað eins síðan 1807. Lá ísinn langt út fyrir allar eyjar og á sjó út, suður og vestur fyrir Keilisnes. Þá var stór ísapöng með allri hafsbrún er menn hugðu rekna úr Borgarrfirði. Allur Hvalfjörður var lagður. Gengið var frá Reykjavík til Engeyjar og Viðeyjar. Hafísinn umgirti hins vegar norður og austurland en lagnaðarís var á öllum innfjörðum og fram þangað sem hafísinn tók við.
1891 (-5,7) Norðan og norðaustanáttin var þrálát í þessum þurrvirðasama mánuði sem er kaldasti mars sem mælst hefur í Vestmannaeyjum og sá næst kaldasti í Hreppunum. Mikið snjóaði þó í Eyjum fyrstu dagana en minna annars staðar en víða njóaði þessa daga. Fram eftir mánuðinum var frosthart og fyrir norðan gengu norðangarðar hver ofan í annan. Hæð var yfir Grænlandi. Í Vestmannaeyjum og víðast hvar annars staðar var þó samfelld hláka dagana 17.-22. vegna hæðar sem var suðvestan og vestan við landið. Mældist hitinn 7,3 stig um miðjan dag þ. 19. á Teigarhorni. Þar er þetta þurrasti mars frá 1873 og aðeins mældist þar úrkoma þ. 14. og 15. Hæðin settist svo að yfir Grænlandi en lægðir gengu milli Íslands og Noregs svo aftur fór í sama kuldafarið. Varð kaldast -24,2 stig á Gilsbakka og -22,7 á Raufarhöfn. Vegna þurrkana hafði snjór verið lítill og var sums staðar auð jörð eftir hlákuna en svo hleypti aftur í snjóa og illviðri. Jónassen fjallaði um veðrið í Ísafoldarblöðum.
Hinn 28. [febr.] var hjer hægur vestankaldi og snjóaði talsvert síðast um kveldið og sama veður næsta dag með nokkrurn brimhroða í sjónum; h. 2. var hjer hægur norðankaldi, bjart veður og snjóaði lítið eitt um tíma; h. 3. hægur austankaldi fyrri part dags, vestan-útnorðan hvass síðari partinn, með kafaldsbyl um kveldið, og var kominn þýða um kl. 11. í morgun vestan hægur, bjartur. (4. mars.) - Hinn 4. var hjer vestan-útnorðan kaldi um morguninn, hægur, fór að snjóa er á leið daginn og blindbylur um kveldið; h. 5. blindbylur eptir hádegið á landnorðan, og sama veður á norðan síðari part dags; hreinviðri með miklum gaddi h. 6., bálhvass á norðan með skafrenningsbil. Í dag (7.) genginn ofan, bjart sólskin og rjett logn í morgun. (7. mars.) -Síðari part laugardagsins gekk hann tíl norðurs og varð nokkuð hvass og var norðan daginn eptir hvass; logn og dimmur í lopti h. 9. Hægur austankaldi fyrripart dags h. 10. en síðari partinn gekk hann til norðurs, dimmur, þó eigi hvass. Í dag (11.) hvass á norðan, bjartur. Um þetta leyti í fyrra var hjer grimmdarfrost og var þá við landnorðanátt. (11. mars.) - Rokhvass á norðan h. 11., gekk ofan aðfaranótt h. 12 og var hjer logn og fagurt veður þann dag hægur austankaldi síðari part dags. Snjóaði mikið aðfaranótt h. 13. þá austankaldi. Í dag 14., bjart og fagurt veður, hægur á austan. (12. mars, er í raun 14. mars.) - Fyrri part dags h. 14. var hjer hægur austankaldi, en gekk til norðurs síðari partinn; var svo rokhvass á norðan h. 15., en lygndi hjer síðari hluta dags, þótt rok væri úti fyrir, svo logn allan daginn h. 16. og 17. hægur vestankaldi, rjett logn. Í morgun 18. logn, dimmur, sunnanvari. (18. mars.) - Undanfarna daga optast logn og bezta veður, úði og regnskúrir, þess á milli bjartur. - 21. mars. Laugardaginn h . 21, var hjer logn um morguninn en fór að kalda á vestan siðarí part dags, gekk svo til útsuðurs meö jeljum h. 20. og aðfaranótt h. 23. til norðurs og helur verið við þá átt síðan, rokhvass útifyrir og eins hjer mjog hvass með köflum; í nótt (aðf'aranótt h. 25) mjög hvass á norðan. -(25. mars.) - Norðanáttin hjelzt við þangað til um miðjan dag 27., er hann lygndi og fór að dimma og ýrði regn úr lopti seint um kveldið, sunnankaldi og 1 gráðu hiti kl. 10. Í morgun vestan-útnorðan með brimhroða, bjart veður. 28. mars. Hinn 28. var hjer hægur austan-útnyrðingur; síðan logn og bjartasta veður allan daginn h. 29. að morgni h. 30. gekk hann svo í austur-landsuður með þíðu og hefur verið við þá átt síðan, hvass um tíma eptir miðjan dag h. 31. ... (1. apríl.).
Hafís kom í byrjun mánaðarins og hafði fyllt alla firði fyrir norðan í mánaðarlok.
1919 (-4,7) Mánuðurinn hófst með einhverju mesta kuldakasti sem komið hefur í mars á 20. öld og byrjaði það síðasta dag febrúar með hvassviðri og stórhríð fyrir norðan. Sjá kort. Var frostið fyrstu fjóra dagana víða þrettán til sautján stig að degi til í beljandi norðanáttinni. Í Möðrudal fór það í -31,5 stig. Höfnina í Reykjavík lagði og sums staðar sprungu rör í húsum. Heldur varð svo mildara er áttin snérist til austurs en frost héldust til hins 13. Eftir það kom dálítil hláka með suðaustanátt vegna hæðar austan við landið. Stóð hlákan í svo sem viku og komst hitinn þá í 7,7 stig á Seyðisfirði þ. 16. Þrumuveður gekk yfir Reykjavík og grennd daginn áður og olli elding talsverðu tjóni á loftskeytastöðinni. Síðustu tíu dagana var köld en úrkomulítil norðanátt og var þá bjart yfir á suðurlandi. Mjög var þurrviðrasamt. Úrkomudagar voru aðeins fjórir í Stykkishólmi en fimm á Teigarhorni en tólf í Vestmannaeyjum. Við norðausturland var hafís og einna mestur í Þistilfirði og við Langanes. Að kvöldi hins 30. sást bjartur vígahnöttur frá Reykjavík og dró eldrák á eftir sér og sprakk rétt fyrir ofan sjóndeildarhring.
1979 (-4,4) Hámarkshiti í mars í Reykjavík hefur aldrei verið eins lágur sem í þessum mánuði, 3,5 stig (þ. 15.). Ekki hlánaði þar fyrstu tíu dagana en á Akureyri ekki fyrstu 15 dagana. Snjókoma var með köflum og mjög kalt. Mikill lagnaðarís var á Breiðafirði og mikið ísrek í byrjun mánaðarins. Upp úr miðjum mánuði kom skammvin og veik hláka en þó fór hitinn í 12,4 stig á Torfufelli í Eyjafjarðardal að kvöldi hins 17. Strax næsta dag kólnaði aftur með norðanstormi og linnti ekki kuldunum þó veður lægði fyrr en þrír dagar voru eftir af mánuðinum. Kaldast varð -26,1 stig í Möðrudal þ. 25. og allvíða fór þá frostið niður fyrir 20 stig á norðausturlandi. Hæð var yfir Grænlandi en lægðir austan við landið. Þrjá síðustu dagana komst hitinn dálítið yfir frostmark en tvo síðustu dagana snjóaði víða. Snjólag var 90%. Á Vestfjörðum, norðusturlandi, austurlandi og á suðausturlandi var jörð víðast hvar alhvít allan mánuðinn. Tiltölulega mestur snjór var þó á suðurlandi. Hvergi var nokkur dagur alauður nema á örfáum stöðum þar sem snjórinn hefur fokið burtu fremur en leysing hafi eytt honum. Snjóflóð féll af Esjubergi þ. 6. og fórust í því tveir piltar. Tiltölulega mjög mikil úrkoma var á norðausturlandi en lítil annars staðar. Var þetta þriðji þurrasti mars í Kvígndisdal, Hólum í Hornafirði og Fagurhólsmýri. Minnst var úrkoman við Breiðafjörð, aðeins 1,3 mm á Reykhólum. Norðanátt var langalgensta veðuráttinn. Og var þetta eftir því sólríkasti mars á Sámsstöðum, 191,4 klst, í Öfusi 188,0 klst, og reyndar einnig á Hveravöllum, 150,0 klst. Í höfuðborginni var þetta fjórði sólríkasti mars. Talsveður hafís var fyrir norðurlandi og var á öllum siglingaleiðum þar um miðjan mánuð.
1888 (-4,4) Mánuðurinn byrjaði með sæmilegum vestlægum hlýindum vegna hæðar sunnan við landið en þ. 5. gerði norðangarð með snjókomu af völdum lægðar er myndaðist austan við landið en rigning var þá í fyrstu syðst á landinu. Héldust svo norðaustankuldar með lægð yfir Bretlandseyjum fram til hins 17. Kom eftir það þriggja daga hláka og varð hlýjast 9,5 í Vestmannaeyjum þ. 20. en líka um svipað leyti á Akureyri. Miklar rigningar voru þá á austurlandi. Lægð var á Grænlandshafi. Eftir hlákuna voru grimmdardrost með norðanáttum til mánaðarmóta, kaldast var dagana 27. og 28. Á þeim tíma hæð yfir Grænlandi sem teygði sig langt suður í höf vestan við landið en lægðir voru við Norgeg og yfir Bretlandseyjum. Yfir landinu var mikil kuldastrengur. Komst frostið þá í Stykkishólmi -22,5 stig og varð hvergi meira í mánuðinum. Ekki var mikil úrkoma. Sérstaklega var þurrvirðasamt í Vestmannaeyjum þar sem þetta er fimmti þurrasti mars. Hafís var fyrir norðan. Það hefur ef til vill verið reynslan af hafísnum þennan vetur sem fékk Matthías Jochumsson til að yrkja hið fræga kvæði sitt Hafisinn sem birtist á forsíðu Norðurljóssins 6. apríl þetta vor. Ísafold birti verðurlýsingar Jónassens fyrir þennnan mánuð:
Alla þessa viku hefir verið logn, svo að kalla dag og nótt, og optast bjart veður; nokkur þoka og dimmviðri hefir verið snemma dags. Að morgni hins 5. var hjer sama lognið, hæg sunnangola (S Sv) með regnskúrum; en til djúpa fór þegar fyrir hádegi að kalda á norðan og býsna snögglega var hjer orðið mjög hvasst á norðan með miklu frosti. Í dag 6. norðanbál með hörku-gaddi, en bjartur í lopti. (7. mars.) - Fyrstu 3 dagana var hjer hvasst norðanveður en bjartur; síðari part h. 9. gjörði logn og 10. blæja logn að morgni en hvessti er á daginn leið á landnorðan. 11. hægur á landnorðan og bjart veður, logn, en dimmur daginn eptir, ýrði snjór úr lopti og gjörði hjer alhvítt og gekk til norðurs síðari part dags. Í dag 13. hvass á norðan með fjúki og talsverðu frosti.- 14. mars. Hinn fyrsta dag vikunnar var hvasst norðanveður að morgni, en gekk allt í einu ofan um kl. 10 og gerði logn og fagurt veður; daginn eptir hægð á veðri, dimmur og gekk svo til vesturs og síðan 16. til útsuðurs með jeljum og sama veður næsta dag (17.); síðan til landsuðurs með mikilli rigningu og nú aptur siðustu dagana til útsuðurs (Sv) með hvassviðri og svörtum jeljum og nokkrum brimhroða í dag 20., og ágerist í dag brimið til sjávarins. (21. mars.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer logn og fagurt veður og eins daginn eptir þar til hann fyrir hádegi fór að hvessa á norðan og hjelzt það næsta dag, svo kom aptur logndagur (24.) síðan aptur norðanveður, lygndi undir morgun h. 26. en hvessti fljótt til djúpa og rann heim um hádegi og var bálhvass síðari part dags. Aðfaranótt h. 27.var afspyrnu-rok á norðan með grimmdargaddi (mjög svipað veður og er Phönix var hjer í flóanum (1881) og hefir það haldizt fram eptir deginum i dag (27.). (28. mars.) - Tvo fyrstu daga þessarar viku var hjer hægð á veðri, þótt enn væri hann á norðan til djúpa; 30. var hjer hæg austangola með ofanhríð af landnorðri allan fyrri part dags, svo gjörði ökla-snjó; næsta dag (31.) var hægur austankaldi og gekk til landsuðurs, rjett logn, síðari part dags með sudda. ... (4. apríl).
1871 (-4,2) Í þessum mars var einungis athugað í Reykjavík og Stykkishólmi og er honum á þeim grundvelli hér skipað sem sjöundi kaldasti mars. Mikið norðanveður skall á þann annan en mánuðurinn hafði byrjað með góðum hlýindum. Kom þá einhver mesti stormur sem menn muna í Bolungarvík. Fórust þaðan tvö skip og voru sex skipsverjar í hvoru þeirra. Sama dag lentu fjögur hákarlaskip frá Fljótum í hrakningum í norðanofsaveðri en náðu með naumindum lendingu í Grímsey. Miklum snjó kyngdi niður norðanlands og dagana 12.-15. var samfelld stórhríð þar og á austurlandi en mikið frost var um allt land, í Stykkishólmi allt niður í -19 stig. Hvasst var og mikið brim fyrir norðan. Úrkoma í Stykkishólmi var 49,2 mm í mánuðinum. Hafis kom að norðurlandi um miðjan mánuðinn og varð talsverður hafishroði frá Ströndum austur að Langanesi. Seint í mánuðinum hraktist ísinn á haf út fyrir sunnanvindum. Var þá fjögra til sex stiga hiti nokkra morgna í Stykkishólmi.
1892 (-4,0) Mánuðurinn byrjaði fremur mildilega með hægri sunnanátt og rigningu. En hinn 5. skall skyndilega á norðanátt sem næstu daga varð mjög hvöss og hörð með afbrigðum og snjóaði víða. Lægð fór yfir landið og svo austur fyrir það. Mældust þá einhver allra mestu frost sem komið hafa í mars, mest -33,2 stig í Möðrudal. Á Gilsbakka voru -26,2 stig, -26,1 á Möðruvöllum í Hörgárdal, -24,8 á Borðeyri og -22,9 á Akureyri. Í Vestmannayjum hefur aldrei mælst eins mikið frost í mars -20,9 stig þ. 9. og ekki heldur á Eyrarbakka, -24,8 stig. Í Reykjavík fór frostið í 18-21 stig dagana 7.-10. Héldust ofurfrost til hins 11. en þá mildaðist mikið með autlægari átt og lægði en áfram var þó frost. Kringum þ. 20. var hins vegar víða frostlaust eða frostlítið í fáeina daga og komst hitinn jafnvel i 10,7 stig þ. 23. á Teigarhorni í vestanátt en mikil hæð var þá suður af landinu, en þ. 25. skall á annað kuldakast með um og yfir tuttugu stiga frosti í tvo daga en síðan mildara frosti þar til hlánaði síðustu tvo dagana með mikilli rigningu og tíu stiga hita í Vestmannaeyjum í suðvestanátt. Hafís var orðinn landfastur við Melrekkasléttu hinn 7. og lá langt fram í maí. Allmörg bjarndýr sáust þar og tvö á Tjörnesi. Við Vestfirði lá ísinn í stórum breiðum fyrir utan Ísafjarðardjúp og Önundarfjörð og alveg suður undir Dýrafjörð. Hindraði hann siglingar til Ísafjarðar og Dýrafjarðar. Hinn 2. april sást i bjartviðri hvergi út yfir ísinn af Hornbjargi. Um allt land voru jarðleysur út mánuðinn. Fannfergi var mikið og ísalög svo hvergi sá á dökkan díl ogr allir firðir voru fullir af lagnaðarís mest allan mánuðinn. Hvammsfjörður var ein íshella svo ríða mátti eftir honum endilgöngum. Um tíma var jafnvel gengið út í Flatey. Á undan þessum mars fór fjórði kaldasti febrúar.
Jónassen segir um tíðarfarið í nokkrum blöðum Ísafoldar:
...að morgni h. 29. (febr.) af austri og sama átt með hægri hláku h. 1., þá regnskúrir við og við allan daginn. Í morgun (2.) hægur á sunnan (Sv.), rignt mikið í nótt. (2. mars). - Hinn 2. hægur á sunnan með regnskúrum og sama veður h. 3. Logn og ofanhríð h. 4. í morgun (5.) dimmur rjett logn og snjór í lopti. - 5. mars. Fyrri part laugardagsins var hjer logn og dimmviðri en gekk svo til norðurs, bjartur og nokkuö hvass síðari part dags; hvass á norðan fram undir kveld h. 6.; logn hjer að morgni h . 7. en fyrir hádegið genginn til norðurs og hefir síðan verið hvass á norðan með ákaflega miklum kulda. Í morgun (9.) hægur hjer á norðan og bjart sólskin. Rok við og við í nótt. -Bálhvass útifyrir. Harða veturinn 1881 var mestur kuldi aðfaranótt h. 21. marz nefnil. 20 stiga frost, en aldrei hefið viljað til síðustu 22 árin, að 18 stiga kuldi hafi verið um miöjan dag, eins og nú þriðjudaginn h. 8. ( 9. mars). - Slðari part h. 9. gjörði hjer logn, og var logn og bjart sólskin næsta dag (10.). Hægur austankaldi h. 11. (allur ís horfinn af höfninni um kveldið). Í morgun (12.) hægur á austan, bjart sólskin. - 12. mars. Logn og fagurt veður alla undanfarna daga, þar til að fór að gola á austan í gær (15.). Í morgun landnorðan, bjart veður. (16. mars). - Hefir verið við austanátt síðustu dagana, optast bjart veður og eigi hvass. - 19. mars. Hinn 19. hægur á sunnan að morgni, hvass er á daginn leið á landsunnan; um kveldið aptur á útsunnan með jeljum, h. 20. hægur á sunnan-útsunnan með jeljum og sama veður h. 21. en fór þá að rigna síðari part dags og rigndi mikið allan daginn h. 22. Í morgun (23.) sunnan, dimmur, nokkuð hvass. (23. mars). - Hinn 23. hvass og dimmur á sunnan-suð-vestan með regnskúrum allan daginn við og við; gekk svo í vestur-útsuður með jeljum og foráttubrimi hvass og siðast um kveldið h. 24. í norður; hvass á norðan h. 25. en lygndi er á daginn leíð. Í morgun (26.) hægur á landnorðan með ofanhríð. (26. mars). - Hinn 26. var hjer blindbilur allan fyrri part dags, svo varla sást húsa á milli; hægur og bjartur á norðan daginn eptir; hvass á austan fyrri part dags h. 28. með ofanhríð, gekk svo til útsuðurs, dimmur, hægur og farið að rigna siðast um kveldið; hægur á austan og bjartur fram að hádegi h. 29., en úr því landsunnan-rigning og dimmviðri, en þó hægur. Í morgun (30.) hvass á sunnan, með rigningu. (30. mars). - Hinn 30. hvass á sunnan með regnskúrum, logn (Sv.) síðari part dags.; suðvestanjel að morgni h. 31.; logn síðari part dags, með talsverðum brimhroða; hægur á sunnan með suddarigningu ... . (2. apríl).
1967 (-3,9) Tíðarfarið var óhagstætt með afbrigðum til lands og sjávar. Um norðanvert landið voru mikil snjóþyngsli og með köflum einnig fyrir sunnan. Meðalsnjódýpt á Raufarhöfn var hvorki meiri né minni en 153 cm og þar mældist mesta snjódýpt á landinu, 205 cm síðasta dag mánaðarins. Úrkoman á Raufarhöfn var fjórum sinnum meiri en meðallagið 1931-1960! Hefur þar ekki mælst meiri úrkoma í mars, 141,3 mm. Mest úrkomumagn var hins vegar á fremur óvenjulegum stað, 207,7 mm á Mýrum i Álftaveri. Alhvítt var allan mánuðinn á Vestfjörðum, norður og austurlandi og einnig í Vík í Mýrdal og í uppsveitum suðurlands. Víðast hvar á landinu var enginn dagur alauður. Snjólag var 91%, það mesta sem þá hafði mælst í mars en það varð þó enn meira 1989 (94%) og 1994 (92%).Snjóflóð féllu á Seyðisfirði í mánaðarlok en ollu ekki tjóni. Meðalhiti allra daga á Akureyri var undir frostmarki og í Reykjavík alla daga nema 18.-20. en þ. 18. komst hitinn í 9,5 stig á Vopnafirði. Er óvenjulegt að hiti nái ekki tíu stigum á landinu í mars þrátt fyrir fjölda veðurstöðva. Kaldast varð -26,0 stig á Grímsstöðum þ. 13. Meira brim gerði hinn 17. við suðurstöndina en komið hafði um árabil. Djúp lægð var þá uppi í landsteinum við suðurland. Eyðilögðust tveir bátar á Stokkseyri og tveir skemmdust og skipi hlekktist á suður af Ingólfshöfða. Næstu tvo daga urðu miklar rafmagnstruflanir suðvestanlands og geysilegt tjón varð á veiðarfærum. Kaldast að meðaltali varð síðustu vikuna og voru þ. 23. og 25. köldustu dagarnir, allt að 9 og hálfu stigi undir meðallagi. Illviðri á norðan var um páskana 25.-27. með mikilli ísingu. Fórst þá færeyskur bátur með allri áhöfn milli Íslands og Færeyja og margvíslegar skemmdir urðu á landi og ferðamenn voru hætt komnir. Nokkur fleiri illviðri herjuðu á landsmenn í þessum mars. Hafís var úti fyrir Vestfjörðum snemma í mánuðinum og síðast í honum var mikill ís fyrir norðurlandi. Gos var í Surtsey allan mánuðinn. Kortið sýnir loftþrýsting við jörð og hæð 500 hPa flatarins í dekametrum kl. 00 þ. 22. og var þetta ekki ódæmigerð staða fyrir mánuðinn.
1882 (-3,7) Miklir umhleypingar og úrkoma. Lægðir voru oft að drolla yfir landinu eða uppi í landsteinum, oftast austan við. Inn á milli hlákublota komu nokkur mikil kuldaköst. Kaldast varð -31,1 stig á Grímsstöðum. Síðasta þriðjung mánaðarins var austlæg eða suðaustlæg átt og ekki mikið frost en frost samt en loks hlýnaði vel síðustu tvo dagana. Komst hitinn mest í 7,5 stig á Kjörvogi á Ströndum. Hafíshroði sást í byrjun mánaðar úr Fjörðum og frá Látraströnd og rak nokkru síðar inn dálítinn ís á Húnaflóa. Í mánaðarlok var af Kaldbak við Eyjafjörð ísbrún að sjá fyrir öllu hafi og um svipað leyti var ísinn að nálgast Melrakkasléttu og Langanes.
1859 Næst kaldasti mars í Stykkishólmi var þetta ár, -9,7 stig. Einhvers konar mælingar voru í Reykjavík þar sem var miklu mildara, kringum -4,2 stig en á Akureyri mældist mánuðurinn kringum -11,8 stig. Þegar allt kemur til alls er þetta þá kannski næst kaldasti mars á landinu, á eftir 1881. Og apríl 1859 var án nokkurs vafa sá langkaldasti sem mælst hefur á Íslandi. Hafís var mikill fyrir norðan. Lagnaðarísir voru einnig afar miklir og var veturinn kallaður Álftabani á vesturlandi.
Mars 1812 og 1827 virðast hafa verið álíka kaldir og 1866 en 1801 um það bil einni gráðu mildari.
Í Fylgiskjalinu má sjá nánar um mánuðina.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 15.5.2018 kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006