Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
30.4.2013 | 13:56
Sólríkur apríl!
Apríl er nú kominn upp í sjötta sæti i Reykjavík fyrir sólríka aprílmánuði. Og enn skín sólin eins og hún eigi lífið að leysa. Það er vel mögulegt að mánuðurinn endi sem þriðji eða jafnvel næst sólríkasti apríl sem mældur hefur verið í Reykjavík.
Það er samt synd að segja að það sé vorlegt og er eins og versni með hverjum degi eftir því sem á líður. Ástandið er nokkuð undarlegt eftir hinn milda hávetur.
Þetta er samt vonandi bara tímabundin sveifla fremur en boðberi válegra veðurfarsbreytinga.
Í nótt fór frostið við Mývatn í -18,5 stig og varð hvergi meira í byggð. Þetta er aðeins 0,5 stig undir dagshitametinu sem mælt var á mannaðri stöð í Möðrudal árið 1977. Enn og aftur endurtek ég þó hvílík vitleysa það var að setja sjálfvirku stöðina á Neslandatanga. Meðan mannaða stöðin var enn við Reykjahlið var áberandi kaldara á Neslandatanga í öllum mánuðum. Og ekki var munurinn á hámarks og lágmarkshita minni. Stundum var mannaða stöðin við Reykjahlið með einna hæsta ef ekki hæstan hita í sumarmánuðunum á landinu en Neslandatangi hefur aldrei blandað sér í þá baráttu. Hvað lágmarkshitann snertir er neslandatangi eiginlega út úr öllu korti með kuldann oftast nær miðað við Reykjahlíð. Og nú er búið að leggja niður mönnuðu stöðina í Reykjahlíð nema úrkomumælingar en þangað ætti auðvitað að flytja þessa fáránlegu stöð á Neslandatanga.
Annar svona stöðvaskandall er sjálfvirka stöðin á Seyðisfirði og reyndar mætti nefna fleiri.
En nóg um það. Upp með sólskinsskapið og vorfílinginn!
Mjög kalt loft er nú yfir landinu og það versta er að enginn alvöru bati virðist sjáanlegur.
Þess vegna ríður á að halda sólskinsskapinu og bjartsýninni. Og eftir stjórnarskiptin mun þetta allt lagast og spretta þúsund blóm í haga og jafnvel upp um öll fjöll og firnindi!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 1.5.2013 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2013 | 18:58
Sólskinspistlar
Nú hef ég lokið við að blogga um mesta og minnsta sólskin í öllum mánuðum. Ég byrjaði síðasta vor á maí og setti inn apríl í dag.
Hér er fyrir neðan er bein vísun á alla pistlana. Líka er hægt að komast að þeim gegnum EFNISYFIRLIT UM VEÐUR sem alltaf er uppi á forsíðunni og þar sem líka er hægt að finna ýmis konar annað veðurgúmmelaði. Smávegis endurskoðun og leiðréttingar er nú í gangi á sumum pistlanna.
Jú, ég veit að þetta er oft langur lestur og leiðinlegur. En við leyfum okkur það hér á Allra veðra von þar sem skrifað er fyrir hina tíu veðurréttlátu. Skemmtiefni geta menn nálgast í pólitíkinni! Þessi manísku veðurskrif mín ná náttúrlega engri veðurátt en það er við netið og Moggabloggið að sakast! Það gerir auðvelt að koma því á framfæri sem maður er að taka saman fyrir sjálfan sig.
Tekið skal fram að þegar talað er um frávik hita á landinu er miðað við meðaltal þeirra 9 stöðva er lengst hafa athugað fyrir árin 1961-1990. Úrkoman er aftur á móti miðuð við meðaltal þeirra fimm stöðva sem lengst hafa athugað árin 1931-2000. Stundum er þetta tekið fram í sjálfum pistlunum. Þetta er gert aðeins til viðmiðunar um þessa veðurþætti, svo menn geti við eitthvað miðað en sólin er hér aðalatriðið. Pistlarnir voru skrifaðir á árstímabili og hafa ekki alveg verið samræmdir. Heimildirnar fyrir þessu eru aðallega Veðráttan, Veðurfarsyfirlit (sem Veðurstofan gefur út mánaðarlega), vefsíða Veðurstofunnar og ritið Veður á Íslandi í 100 ár eftir Trausta Jónsson frá 1993.
Sólríkustu marsmánuðir í Reykajvík.
Sólríkustu marsmánuðir á Akureyri.
Sólarminnstu septembermánuðir.
Bloggar | Breytt 4.5.2013 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2013 | 18:56
Sólríkustu aprílmánuðir
Apríl árið 2000 er efalaust sólríkasti apríl á landinu síðan byrjað var að mæla sólskin. Hann er sólríkasti apríl alls staðar þar sem mælt var, í Reykjavík, Akureyri, Hólum í Hornafirði, Sámsstöðum í Fljótshlíð, Reykjum í Ölfusi, Hveravöllum og við Mývatn. Enginn mánuður ársins hefur slegið jafn mörg met á einu sólskinsbretti! Á Reykhólum, á Melrakkasléttum og á Hallormsstað, þar sem lengi var mælt sólskin, var búið að leggja sólskinsmælingar niður þetta ár.
Í Reykjavík skein sólin í 242,3 stundir en meðaltalið 1961-1990 er 140 klukkustundir. Á Akureyri skein sólin í 196,3 stundir en meðaltalið er 129,8. Við Mývatn skein sólin í 200,2 stundir. Að jafnaði eru sólskinsstundir um það bil 20 stundum fleiri við Mývatn en á Akureyri í apríl. Á Hólum í Hornafirði var sólskin í 265,1 stund og hefur hvergi á veðurstöð mælst eins mikið sólskin í aprílmánuði. Sólin á Sámsstöðum var í 255,3 stundir en 237,5 á Reykjum. Á Hveravöllum skein sólin í 261,4 stundir. Og merkilegt nokk virðast Hveravellir vera sólríkasti staðurinn þar sem sólskin hefur verið mælt á landinu, 149 klukkustundir að jafnaði árin 1966 til 1990, 12 stundum fleiri en í Reykjavík á sama tíma og 4 stundum meira en á Hólum en þessir tveir staðir eru þeir sem næstir koma Hveravöllum sömu árin. Ekki hafa í Reykjavík komið fleiri dagar í nokkrum apríl með tíu klukkustunda sólskini eða meira en þeir voru 15 og aldrei hafa fleiri slíkir dagar komið í röð, 12 dagar, frá þeim 14. til hins 25. Þann 13. var sólarlaust en 11. og 12. skein sólin í meira en tólf stundir. Alla þessa daga nema þrjá var meðalhitinn þó undir frostmarki. Síðdegishitinn var 2-5 stig en næturfrostin 3-7 stig. Fór þetta ástand afar illa með gróður. Á Sámsstöðum og Reykjum i Ölfusi skein sól meira en tíu daga samfellt í 15 daga, frá hinum 11. til hins 25. Hitinn var í svalara lagi, 1,1 stig undir meðallaginu á landinu 1961-1990 þeirra stöðva er lengst hafa athugað. Úrkoman var svo lítil að mánuðurinn er kyrfilega meðal topp fimm aprílmánaða sem þurrasti hafa verið á þeim örfáu stöðvum sem lengst hafa athugað úrkomu, ekki mikið meira en einn fjórði af meðalúrkomunni 1931-2000 sem hér er alltaf miðað við í þessum sólarpistlum. Snjólagið á landinu var 40% en meðaltalið 1961-1990 er 43%.Í þessum bjarta mánuði sigraði Gary Kasparov á skákmóti á Íslandi.
Næsti apríl, 2001, er sá sjötti sólríkasti i höfuðborginni með 212, 5 sólskinsstundir. Fjórtán daga skein sólin meira en 10 stundir en þó ekki aldrei fleiri en þrjá í röð. Kalt var framan af en hlýnaði upp úr miðjum mánuði. Hitinn var 0,3 stig yfir meðallagi en úrkoman í rétt tæpu meðallagi. Snjólag var 42%.
Apríl 1924 er aftur á móti sá næst sólríkasti í Reykjavík með 225 stundir. Hann var um hálfu stigi kaldari á landinu en árið 2000 en úrkoman var liðlega helmingurinn af meðallaginu. Snjólag var 52%. Um miðjan mánuð snjóaði allmikið á suður og vesturlandi. Snjódýpt var 17. cm í höfuðborginni 17.-18. og fyrri daginn 27 cm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Bátur með með 8 mönnum fórst þ. 14. undan Stöðvarfirði. Þann fyrsta var Adolf nokkur Hitler dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir landráð en sat inni skamma hríð.
Þriðji í röðinni er apríl árið 2006 þegar sólin skein í 219,5 stundir. Hitinn var rétt aðeins undir meðallagi á landinu og úrkoman örlítið meiri en í meðallagi. Á Kirkjubæjarklaustri mældist meiri hiti en mælst hefur þar í apríl, 17,9 stig þann 28. en sama dag mældust 18,9 stig á Kollaleiru í Reyðarfirði. Veður þótti nokkuð rysjótt í þessum mánuði. Snjólag á landinu var 44%. Moggabloggið byrjaði þann fyrsta!
Þurrasti apríl á landinu er talin vera árið 1935 en þá rétt skeið úrkoman í að vera einn fjórði af meðallaginu. Á Hólum í Hornafirði hefur ekki mælst minni úrkoma i apríl, 3,5 mm (frá 1931). Þar hefur heldur ekki mælst meiri hiti en kom þar þann 27.en þá mældust 17,1 stig. Hitinn var 0,6 stig undir meðallagi á landinu. Og þetta er fjórði sólarmesti apríl í Reykjavík en sólin skein í 215 stundir. Snjólag var 47%. Næsti mánuður á eftir, maí, reyndist hlýjasti maí sem mælst hefur á landinu.
Fimmti sólríkasti apríl í Reykjavík er 1994 þegar sólin skein í 214 stundir. Bæði á Hólum í Hornafirði og Sámsstöðum í Fljóthlíð er þetta næst sólríkasti apríl. Úrkoman var rösklega helmingur af meðallaginu á landinu en hitinn 0,8 stig undir. Snjólag var nokkuð mikið, 57% og tók snjó lítið upp. Snjóflóð ollu miklu tjóni á sumarbústaðasvæði við Ísafjörð þ.5 og einn maður fórst í því.
Apríl 1999 er sá sjöundi sólríkasti í Reykjavík með 210 sólskinsstundir. Og þetta er fjórði sólríkasti apríl á Akureyri þar sem sólin skein í 165 klukkustundir. Sólríkt var alls staðar. En fremur var kalt, Hitinn var 0,3 stig undir meðalagi en úrkoman 68% af meðallaginu. Snjólag var 57%. Upp úr miðjum mánuði var snjódýptin 177 cm við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum. Einn maður fórst í snjóflóði á Ströndum þann þriðja.
Áttundi sólríkasti apríl í höfuðborginni er 2008 með 207 stunda sólskini. Hitinn var hálft stig yfir meðallaginu en úrkoman var nákvæmlega helmingurinn af henni á þeim fáu stöðvum sem allra lengst hafa athugað. Snjólag var 47%. Níunda sætið í sólríki höfuðstaðarins skipar apríl 1948. Þá var sól í 199 stundir. Úrkoman mátti heita nákvæmlega í meðallagi en hitinn var 1,2 stig undir meðallagi. Á Suðureyri kom hitamet í apríl, 14,5 þ. 23. en það er þó heilu stigi lægra en marsmetið á sama stað sem sett var mánuðinn á undan. Á Gjögri kom einnig aprílmet þennan dag, 14,9 stig. En hlýjast varð þó í Síðumúla í Borgarfirði, 15,5, stig. Snjólag var 41% á landinu.
Apríl 1925 krækir í tíunda sólskinssætið í Reykjavík með 197,5 sólskinsstundir. Það er kannski hálf undarlegt því aðeins hefur tvisvar mælst meiri úrkoma í apríl í bænum en hún var 135,4 mm. Aðeins í Vestmannaeyjum mældist lítið eitt meiri úrkoma (0,1 mm!) og er sjaldgæft að Reykjavík megi heita úrkomusamasta veðurstöð landsins í apríl. Hitinn á landinu var 0,4 stig undir meðallaginu 1961-1990 en úrkoman var um einn fjórða fram yfir. Snjólag var 48%.
Sólríkasta apríl á Akureyri hefur þegar verið getið, árið 2000. Næst sólríkasti apríl þar er hins vegar árið 1981 en þá skein sólin í 184,5 stundir. Þetta var hlýr mánuður þó kólnað hafi undir lokin, hitinn heilt stig yfir meðallaginu en úrkoman var nokkuð yfir meðallagi. Snjólag 34%. Eldgos var Í Heklu dagana 9. til 16. en sagt er að það hafi verið framhald gossins í ágúst árið áður en ekki sjálfstætt gos. Hræddur er ég samt um að flestum hafi þó bara fundist það hafa verið frjálst og óháð gos! Þann 19. kom Kambanes á óvart með því að mæla 18,1 stigs hita en þetta er eitthvert armasta útnes og náströnd á landinu.
Apríl 1934 er sá þriðji sólríkasti með 180 sólskinsstundir. Hitinn var 0,4 stig yfir meðallaginu en úrkoman var um þrír fjórðu af meðallagi. Ekki hefur mælst þurrari apríl á Raufarhöfn, 4,7 mm (frá 1933). Snjólag á landinu var 37%. Eldgos sem hafði hafist í Grímsvötnum 30. mars hélt áfram fram í miðjan þennan mánuð. Þann 24. mældist vindhraði á Washingtonfjalli í Bandríkjunum 87 m/s.
Fimmti sólríkasti apríl á Akureyri er 1957 þegar sólin skein í 163 stundir. Á Hallormsstað skein sólin í 219 stundir og þar er þetta sólríkasti apríl sem þar mældist 1953-1989. Hitinn var 2,2 stig yfir meðallagi á landinu og er þetta að mínu tali tíundi hlýjasti apríl. Úrkoman var um einn fjórða fram fyrir meðallagið en snjólagið var 27%. Elvis var á toppnum á vinsældalistanum í Bandaríkjunum með All shook up.
Apríl 1978 er sá sjötti í röðinni á Akureyri en sólskinið mældist þá 161 stund. Hitinn var heilt stig yfir meðallagi en úrkoman var minna en helmingurinn af meðallagi þar sem hún hefur lengst verið athuguð. Á Skriðuklaustri og við Grímsárvirkjun var úrkoman ekki mælanleg og er það minnsta úrkoma sem mælst hefur á íslenskum veðurstöðvum í apríl, ásamt Húsavík árið 1941. Allvíða norðanlands og austan voru sett þurrkamet í apríl, svo sem við Skeiðsfossvirkjun, 14, 2 mm (frá 1971), Hólum í Hjaltadal 6,8, (1957-1990), Grímsey 5,8 mm (frá því á stríðsárunum), Þorvaldsstöðum í Bakkafirði 2,8 mm (1924-1995), Vopnafirði 2,9 mm (1965-1993) og Dratthalastöðum, 1,1 m (1965-1999). Snjólag á landinu var 30%. Loftvægi var með mesta móti. Í Reykjavík hefurþað aðeins verið meira í apríl 1929 og 1973.
Þrír sólríkir aprílmánuðir komu á Akureyri á hafísísárunum.
Í apríl 1966 skein sólin þar í 159 klukkustundir sem gerir hann að sjöunda sólríkasta apríl. Ekki var kalt, hitinn 0,4 stig yfir meðallaginu. Fremur var úrkomusamt, um 20% fram yfir meðallagið. Fyrir norðan voru mikil snjóalög en snjólag var annars 47% á landinu. Smávegis hafís var fyrir norðurlandi.
Þann 4. ,,týndist Þórbergur og var auglýst eftir honum. Hann reyndist hafa dottið í það heima hjá kunningja sínum. Margir óttuðust að eitthvað hafi komið fyrir meistarann. Og fræg er sagan að þegar hann kom heim hafi Margrét kona hans sagt: Að þú skulir bara voga þér að koma lifandi heim Þórbergur! (En ætli þetta sé ekki nú bara þjóðsaga).
Hafísinn var miklu meiri í apríl 1967 sem er sá tíundi sólríkasti á Akureyri en þá mældist sólskinið 155,8 stundir. Snjólag var 49% á landinu en þann fyrsta mældist snjódýptin á Raufarhöfn 205 cm. Apríl 1968, skipar svo áttunda sætið á Akureyri að sólríki. Þá skein sólin í 156,2 stundir. Úrkoman var aðeins minni en 1966 en það var miklu kaldara, hitinn 0,9 stig undir meðallagi en úrkoman rétt fram yfir meðallagið. Hastarlegt kuldakast hafði skollið á í lok mars og aðfaranótt 1. apríl mældist víða mesta frost sem mælst hefur í apríl, svo sem -16,4 stig Reykjavík, -21,2 stig á Hólmi við Rauðhóla, -23,1 á Hvanneyri, -20,0 í Síðumúla í Borgarfirði og -18,2 stig á Akureyri, -16,9 í Vík í Mýrdal og Vestmannaeyjum. Mesta frostið var þó -27,9 stig stig á Hveravöllum, -26,6 á Grímsstöðum og -24,4 stig á Vöglum í Vaglaskógi. En það myndi æra óstöðuga og kulvísa að telja upp öll kuldametin sem komu þennan dag. Snjólag var 45%. Raufarhöfn var enn í nokkru snjóastuði og þar mældist snjódýptin 180 cm fyrstu þrjá dagana. Hvað er fólk að kvarta um snjó og vetrarríki í þeim apríl sem nú er að líða! Í þessum mánuði var Martin Luther King myrtur og klukkunni á Íslandi var flýtt um klukkustund allt árið.
1941 er sá níundi sólríkasti á Akureyri með 156 sólskinsstundir. Hitinn var um 1,7 stig yfir meðallagi en úrkoman aðeins liðlega helmingur af meðallaginu 1931-2000. Hún var sérstaklega lítil fyrir norðan. Hún var ekki mælanleg á Húsavík og Fagradal í Vopnafirði. Svo litil úrkoma á veðurstöð í apríl hefur ekki mælst nema á Skriðuklaustri og Grímsárvirkjun 1978. Ekki hefur mælst þurrari apríl á Akureyri, 5,1 mm (frá 1928), Sandi í Aðaldal, 0,5 mm (1935-2004), Nautabúi í Skagafirði 3,2 mm (1935-2004) og við Blönduós, 3,0 mm (1932-2003). Mjög var snjólétt á landinu, snjólagið var aðeins 23%. Mánuðurinn byrjaði æði kuldalega því -21,0 stig mældust þann 3. Á Grímsstöðum og -20,0 í Reykjahlíð en aftur á móti mældust 17, 1 þ. 24. á Sandi.
Viðbót: Apríl 2013 reyndist vera næst sólrikasti apríl í Reykajvík með 226,1 klukkustund. Það er þó mál manna að þetta hafi að flestu leyti verið skítamánuður!
Veðurfar | Breytt 4.5.2013 kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2013 | 18:56
Sólarminnstu aprílmánuðir
Það er nánast hlálegt að sólarminnsti apríl í Reykjavík, árið 1974 með 57,2 klukkustundir af sól, skuli líka vera hlýjasti apríl sem þar hefur mælst og á öllu landinu þar sem hitinn var 3,7 stig yfir meðallaginu 1961-1990 sem hér er miðað við um hitafrávik. Ýmsar veðurstöðvar sem hafa mælt sól settu met í sólarleysi, Reykhólar, 49,3 stundir (1958-1987), Hveravellir 82,3 (1966-2004) og Sámsstaðir 53,8 stundir (frá 1964). Á Reykjum í Ölfusi voru hins vegar sólskinsstundirnar aðeins 29,8, svo ótrúlega sem það hljómar, og hefur ekki mælst minni sól á íslenskri veðurstöð í apríl. Fyrir norðan og austan var aðra sólarsögu að segja. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar 154,4 en 175 á Hallormsstað. Sunnanátt var langtíðasta vindáttin. Úrkoman var mikil, 37% fram yfir meðallagið 1931-2000 þeirra stöðva sem lengt hafa athugað. Mikil úrkoma var á vesturlandi og mánaðarúkomumet á Lambavetni 157,1 mm og Kvígindisdal 324,3 mm. Snjólag var með því minnsta sem verið hefur í apríl síðan byrjað var að fylgjast með síku 1924, 15%. Síðasta dag mánaðarins hófst jarðskjálftahrina í Borgarfirði sem hélst fram í desember.
Í apríl 1913 mældust sólskinsstundirnar 59 á Vífilsstöðum. Við teljum það hér til Reykjavíkur og er þetta þá næst sólarminnsti apríl í bænum. Hitinn var um hálft stig yfir meðallaginu. Hraungos hófst þ. 25. við Mundafell og Lambafit norðaustur af Heklu. Í Skeiðará kom stórhlaup í þessum mánuði. Úrkoman á landinu var örlítið meiri en 1974.
Árið 1921 var úrkoman hins vegar miklu meiri, hátt upp í að vera tvöföld meðalúrkoma á landinu og er þetta talinn úrkomusamasti apríl sem mælst hefur. Í Stykkishólmi hefur ekki mælst meiri úrkoma í apríl, 124,5 mm (frá 1857) og heldur ekki í Reykjavík, 149,9 mm. Sólin skein í 82 stundir í Reykjavík sem gerir hann að sjötta sólarminnsta apríl. Hitinn var í meðallagi á landinu. Í lok mánaðarins komst hitinn í 19 stig á Grímsstöðum sem þá var mesti aprílhiti sem mælst hafði á landinu. Í Reykjavik fór hitinn í 14,6 stig.
Apríl 1923 er sá þriðji sólarminnsti með 68 sólskinsstundir. Tíðin var hægviðrasöm og sagt var að sólríkt hafi verið nyrðra en engar sólskinsmælingar voru þó til staðar. Hlýtt var í veðri, um eitt og hálft stig yfir meðallagi, en úrkoman var ríflega þrír fjórðu af meðallaginu. Þann 19. opnaði Bæjarbókasafnið í Reykjavík sem nú er Borgarbókasafnið.
Apríl 1976 er fjórði sólarminnsti í Reykjavik með 78 stundir. Hitinn var aðeins yfir meðallagi en úrkoman 87% af meðallaginu. Snjólag var 49%. Hitabylgja miðað við árstíma kom í mánuðinum. Þann 22. mældist hitinn á Akureyri 19,8 stig sem þá var mesti aprílhiti sem mælst hefur a landinu en það met hefur síðan verið margslegið.
Fimmti sólarminnsti apríl í Reykjavik er 1973 með 83 stundir. Hitinn var rúmt stig yfir meðallagi en úrkoman var aðeins um þrír fjórðu hlutar af meðalúrkomu. Á Kvískerjum hefur ekki mælst minni aprílúrkoma, 47,3 mm (frá 1962) og ekki á Fagurhólsmýri, 25,1 mm (frá 1924). Snjólag á landinu var 40%.
Níundi sólarminnsti apríl í höfuðborginni er árið 1938 þegar sólin skein í 87 stundir. Hitinn var rétt rúm tvö stig yfir meðallagi og er þetta reyndar 11. hlýjasti apríl á landinu en úrkoman var aðeins undir en meðallagi. Mjög þurrt var fyrir norðan og austan. Á Akureyri er þetta þriðji þurrasti apríl, 5,4 mm, en sá allra þurrasti við Mývatn, 0,3 mm (frá 1938). Á Teigarhorni var úrkoman 2,0 mm. Allt aðra sögu er að segja af Vestfjörðum en á Suðureyri hefur ekki mælst meiri aprílúrkoma, 147,1 mm (1923-1989). Snjóhula var 30% á landinu.
Næsti apríl á undan, 1937, reynist svo vera sá tíundi sólarminnsti í Reykjavík með 95 sólskinsstundir. Hitinn var dálítið lægri en 1938, 1,8 stig yfir meðallagi. Aftur á móti var mánuðurinn enn úrkomusamari og er vel inni á topp tíu listanum fyrir úrkomusömustu aprílmánuði. Ekki hefur mælst meiri úrkoma á Fagurhólsmýri í apríl, 280,6 mm. Sjólagið var 33% á landinu. Þann 26. gerði þýski flugherinn hina villimannslegu loftárás á basknesku borgina Guernica og Picasso gerði síðar um atvikið sína frægu mynd. Þetta er talin fyrsta terror loftárás á borgir í sögunni.
Tveir aprílmánuðir um miðjan sjötta áratuginn eru á topp tíu listanum yfir sólarminnstu aprílmánuði í Reykjavík. Árið 1954 er sá áttundi sólarminnsti með 114 sólarstundir en apríl 1955 er sá níundi sólarminnsti með 129 sólskinsstundir. Í fyrrnefnda mánuðinum þótti nokkuð stormasamt þrátt fyrir hlýindin en hitinn var 1,7 stig yfir meðallagi og úrkoman var rífleg meðalúrkoma. Hún var samt mikil á suðurlandi og á Þingvöllum mældist aldrei meiri aprílúrkoma, 206, 9 mm (1935-1983) og ekki heldur á Eyrarbakka, 205,3 mm en þar hefur verið athugað sundurslitið af nokkrum árum frá 1880. Snjólag á landinu var 26%. Síðarnefndi mánuðurinn var enn hlýrri, 2,4 stig yfir meðallagi og ég tel hann vera 8. hlýjasta apríl á landinu. Úrkoman var um einn fjórða fram yfir meðallag en snjólagið var aðeins 19%. Á suðurlandi og vesturlandi var sums staðar alautt, þar með talið í Reykjavík og þar varð aðeins einn frostdagur en enginn allra syðst á landinu og á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Mikil skriðuföll eftir stórrigningar ollu miklu tjóni þann 16. og fórst eitt barn á Hjalla í Kjós. Eðlisfræðingurinn Albert Einstain dó sama dag.
Á Akureyri er apríl 1956 sá sólarminnsti með 49 sólskinsstundir en meðaltalið 1961-1990 er 129,8 stundir. Hitinn var rétt yfir meðallagi en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu. Snjólagið var 36% en sums staðar á suðurlandi var alautt en einn dag var alhvítt í Reykjavík. Í mánaðarlok mátti víða heita snjólaust í byggð. Dönsku konungshjónin komu til Reykjavíkur snemma mánaðarins.
Næst sólarminnsti apríl á Akureyri er 1944 en þá skein sólin í 53,5 stundir. Hitinn á landinu var nákvæmlega í meðallaginu 1961-1990 en úrkoman rétt aðeins yfir meðallaginu 1931-2000. Snjólag var 38%. Fyrir norðurlandi var dálítill hafís og var hann reyndar landfastur kringum Raufarhöfn meirihluta mánaðarins.
Apríl 1932 er þriðji í röðinni en þá voru sólskinsstundir 56 en aftur á móti 171 í Reykjavík. Kalt var í nær látlausum norðannæðingi og gróður sem kominn var á veg eftir hlýjan vetur sölnaði. Hitinn var tvö og hálft stig undir meðallagi á landinu. Úrkoman var um 11% fram yfir meðallagið og snjólagið var 52%. Úrkoman var einstaklega mikil sums staðar norðanlands. Mánaðarmet fyrir úrkomu voru sett á Akureyri, 87,9 mm. Lengi fram eftir mánuði var hafís fyrir norðurlandi og Vestfjörðum. Ísbjörn kom á land á Stöndum.
Það sögufræga ár 1939 flaggar fjórða sólarminnsta apríl í höfuðstað norðurlands með 62 3 sólarstundir. Hitinn var um 1,2 stig yfir meðallagi yfir landið en úrkoman aðeins fyrir neðan meðallag. Hún var þó mikil á norðvestanverðu landinu. Á Horni var hún 184,5 mm og hefur aldrei verið jafn mikil þar um slóðir í apríl. Á Grímsstöðum hefur hins vegar ekki mælst minni úrkoma, 4,3 mm (frá 1936). Þetta var árið sem mesti hiti á landinu var mældur, í júní, en óvenjulega heitur apríldagur kom á suðaustur landi þann 27. Fór þá hitinn á Fagurhólsmýri í 18,2 stig sem enn í dag er aprílhámark á staðnum. Snjólag var 31%. Alautt var í Reykjavík, Stykkisólmi og á Reykjanesvita. Síðasta dag mánaðarins kom til Reykjavíkur hinn harðskeytti nasisti og ræðismaður Þýskalands, Walter Gerlach.
Apríl 1949, er sá fimmti sólarminnsti á Akureyri er með 64 sólskinsstundir. Hitinn var 2,9 undir meðallaginu 1961-1990 og tel ég þetta vera sjöunda kaldasta apríl. Úrkoman var rómlega þrír fjórðu af meðallaginu 1931-2000. Á suður og suðvesturlandi voru fádæma snjóþyngsli og víðast hvar var mikil snjór. Snjólagið var 71%. Hámarkshiti í Reykjavík var sá lægsti sem mælst hefur í apríl, aðeins 6,6, stig. Hafís sem var fyrir norðurlandi og varð meira að segja landfastur við Horn og Skagatá.
Árið 1992 var apríl sá sjötti sólarminnsti á Akureyri með 71 sólarstund. Á Melrakkasléttur mældist aldrei minni aprílsól, 41,9 stundir. Hitinn var um 0,2 stig undir meðallaginu á landinu en úrkoman lítið eitt minni en í sínu meðaðallagi. Snjólag var 38% en óvenju lítill snjór var í byggð á norður og austurlandi.
Sjöundi sólarminnsti apríl á Akureyri er 1979 þegar sólin skein 72 stundir. Ekki mældist minni sól í apríl á Hallormsstað, 84,6 stundir (1953-1987). Sólríkt var í Reykjavík en þar er þetta ellefti sólríkasti apríl með 197 sólskinsstundir. Hitinn var um 0,8 stig undir meðallagi á landinu en úrkoman um 65% af henni. Snjólag var 55%. Hafís lokaði höfnum á norðausturlandi snemma í mánuðinum.
Árið 1971 var apríl sá áttundi sólarminnsti á Akureyri með 74 sólarstundir. Hitinn var rétt aðeins yfir meðallagi en úrkoman á landinu var 100% í meðallagi! Hún var samt misjöfn eftir landshlutum eins og oftast er. Suðvestanátt var algengust vindátta og snjólagið var 45%.
Margt merkilegt gerðist í þessum mánuði. Igor Stravinsky, eitt merkasta tónskáld 20. aldar dó þ. 6., Freymóður Jóhannesson listmálari og tónskáld (12. september) kærði fornklámið í Bósasögu þ. 10. Fyrsta geimstöð á braut um jörðu komst í gagnið þ.19., handritin komu til Íslands í kulda og bjartviðri þ. 21. en þ. 25. var fjölmenn mótmælaganga í Washington gegn Vietnamstríðinu og síðasta daginn kom fimmþúsundkrónaseðill í umferð Íslandi.
Gæðaárið 1953 var apríl samt einkennilega kaldur á landinu, sá 12. kaldasti að mínu tali og sá níundi sólarminnsti á Akureyri með 78 sólskinsstundir. Þar er þetta jafnfram næst úrkomusamasti apríl með 86,4 mm. Ekki hefur heldur mælst meiri aprílúrkoma við Mývatn 58,1 mm (frá 1938) og Grímsstöðum á Fjöllum, 62,3 mm (frá 1936) og við Blönduós, 79,9 mm (1925-2003). Hitinn var 2,7 stig undir meðallagi á landinu. Snjólag var 69% og var snjóungt fyrir norðan. Þann þriðja féll snjóflóð á bæinn Auðnir í Svarfaðardal og fórst þar tvennt.
Veðurfar | Breytt 4.5.2013 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2013 | 20:37
Harðindi eða ekki harðindi
Nú þegar aðeins er um vika eftir af apríl er staðan sú að meðalhitinn í Reykjavík er 2,2 stig eða 0,5 stig undir meðallagi. Ekki er það nú mikið frávik og varla til að kvarta yfir í stórum stíl. Frá 1949 hefur tuttugu sinnum verið kaldara í apríl í Reykjavík fyrstu 23 dagana, síðast árið 2006. Serm sagt næstum því þriðja hvern apríl.
Á Akureyri er meðalahitinn nú -0,2 stig eða 1,3 stig undir meðallagi.Það er samt ekkert óskaplegt miðað við það sem alloft gerist. Þar hafa örfáir dagar verið taldir alhvítir í apríl en flestir daga flekkóttir af snjó. En Akureyri er reyndar ekki snjóþngsti staðurinn fyrir norðan núna. Það er samt ekki hægt að segja, að mínu viti, að einhver sérstök harðindi hafi ríkt undanfarið hvað hitann snertir fyrir norðan eða annars staðar.
Eins og menn ættu að vita var veturinn afskaplega mildur, einkum þó sunnanlands en hann var líka mildur annars staðar. Líka fyrir norðan. Hins vegar hefur sú öfugþróun orðið að kaldara hefur verið í mars og það sem af er apríl en í janúar og febrúar en þeir mánuðir voru sjaldgæflega hlýir.
Tveir dagar aðeins hafa verið alhvítir í Reykjavík í apríl og er það enn undir meðallagi. En það er líka nokkuð öfugsnúið að ekki skuli hafa sést snjór í apríl í borginni fyrr en allra síðustu daga. En þessi snjór hverfur strax. Veturinn var mjög snjóléttur í Reykjavík og á öllu suðurlandi.
Sums staðar fyrir norðan er aðra sögu að segja. En bara sums staðar. Það má glögglega sjá á mynd frá þeim 21. Snjóþyngslin hafa verið í Þingeyjarsýslum inn til landsins (en þó ekki sérlega venju fremur við Mývatn og á Hólsfjöllum), á utanverðum Eyjafirði og Skagafirði. Þarna eru reyndar sumar mestu snjóasveitir landsins. Það sem er sérstakt er að sums staðar fyrir norðan kom snjór snemma og hefur ekki náð að leysa en bætir bara í hann. Reyndar fer ekki að bræða snjó fyrir norðan í stórum stíl í mestu snjóasveitum fyrr en komið er vor og bætir í hann alveg þangað til og stundum lætur vorið nú á sér standa. Ég held að snjóalög séu ekkert sérstakelga afbrigðileg ef horft er nokkur ár aftur í tímann en ekki get ég tékkað á því hér og nú.
Ekki geri ég lítið úr erfiðleikum bænda á þeim svæðum þar sem snjóþyngsli eru mest. En það varla hægt að segja almennt að harðindi ríki eða hafi ríkt á landinu eða að vorið sé eitthvað verulega afbrigðilega á eftir tímanum. Það gengur heldur ekki að gera ástandið á verst settu svæðunum að eins konar samnefnara fyrir allt landið. Hins vegar er spáin næstu daga ekki geðsleg. Ég held reyndar að fjárfellirinn í hretinu mikla í september valdi því mest hve vonda tilfinningu menn sums staðar hafa fyrir snjóalögum þessa vetrar. Ef það hefði ekki komið held ég að mönnum fyndist þessi vetur ekkert hafa verið sérlega vondur. Hvað þá ef litað er lengra aftur en síðustu árin með sínum afbriglegu hlýindum sem varla standa endalaust.
Og þegar menn tala um að vorið láti á sér standa, sem virðist vera nýjasta orðræðu vortískan, má alveg muna að apríl er nú ekki liðinn og ekki er hægt að gera sér vonir um raunverulegt vorveður á Íslandi í þeim mánuði nema einstaka sinnum dag og dag.
Þetta vor er sem sagt bara allt svona nokkurn veginn í lagi miðað við það sem viðgengist hefur. Ekki samt alveg! En það er ekkert sérstaklega mikið á eftir tímanum. Og alls ekki meira en Framsóknarfokkurinn!
Myndin stækkar vel við tvísmellun. Blágrænu svæðin eru snjólaus en rauðu með snjó. Og þetta er i apríl áður en snjóa tekur almennilega að leysa og alls ekki annars staðar en á mesta láglendi. Snjólétt er víðast hvar í byggð.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 29.4.2013 kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2013 | 14:22
Ísland og óspillta náttúran
Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifar í dag grein í Morgunblaðið sem heitir ,,Hjó sú er hlífa skyldi.'' Hann leggur út af þeim orðum fyrrverandi umhverfisráðherra (af öllum mönnum!) að vitað hafi verið að Kárahjúkavirkjun myndi skaða lífríki Lagarfljóts en það væri bara viðunandi vegna efnalegs ábata. Tekur Þröstur þetta hugarfar aldeilis á beinið. Greinin er eins og töluð út úr mínu hjarta og þar er líka ýmislegt merkilegt skrifað almennt um ástandið á íslenskri náttúru. Þar segir m.a.: ,,Erlendir ferðamenn eru lokkaðir hingað með slagorðinu njótið óspilltrar náttúru. Hvar er svo þessi óspillta íslensk náttúra? Jú, hún birtist okkur í nær algjöru skógleysi, víðáttumiklum uppblæstri, rótnöguðum úthaga, framræstu votlendi, ofveiddum fiskimiðum og útdauðum geirfugli. Að jöklum, hæstu fjallstindum og nýrunnum hraunum undanskildum, er fátt eitt eftir sem minnir á óspillta náttúru. Þó endurtökum við þennan spuna í sífellu.''
Þröstur hefði mátt bæta við að búið er að eyðileggja flesta aðgengilega gjallgíga með efnistöku.
En margir trúa þessari þjóðsögu um óspilltu náttúruna. Í kosningaumræðum á RUV um umhverfismál nýlega sagði Róbert Marshall að ,,ósnortin náttúra'' væri okkar helsta söluvara. Þetta sagði hann eins og ekkert væri. Virðist trúa því eins og nýju neti. Er hann þó fremur umhverfissinni en virkjanasinni.
Í Náttúrufræðingnum 1.-4. hefti 2012 er greinin: ,,Landið var fagurt og frítt. -Um verndun jarðminja''. Þá grein ættu menn nú að lesa. Þar er farið yfir þessi mál og komist að svipaðri niðurstöðu um ,,óspilltu'' náttúruna og Þröstur Ólafsson í sinni grein enda hefur þetta lengi legið í augum uppi. Ísland er eitthvert spilltasta land að náttúrufari á byggðu bóli. Ekki er í greininni í Náttúrufræðingum horft fram hjá þeirri miklu röskun sem virkjanir hafa haft á náttúru landsins. Og þar er hvatt til skipulagðra aðgerða til verndunar jarðminja á Íslandi, eins og það er nefnt.
Umhverfismálin ættu að vera meginmálið fyrir Íslendinga í þessum kosningum og á öllum tímum.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 23.4.2013 kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.4.2013 | 13:16
Afskræmt réttlæti
Menn geta rétt ímyndað sér þann sársauka og sorg sem barnaníðingar valda fjölskyldum sínum og það í jafnvel í nokkrar kynslóðir. Þessi mun þó líklega sleppa frá réttvísinni.
Hliðstætt mál hefur komið upp í öðru kauptúni úti á landi.
Ekki er gott að taka lögin í eigin hendur. En það er samt alveg óbærileg tilhugsun að þessir níðingar og aðrir slíkir þurfi ekki að gjalda gerða sinna fyrir dómstólum en það verði aðrir að gera miskunnarlaust sem sannarlega er hægt að kalla fórnarlömb þeirra.
Það er algjör afskræming á réttlætinu og engu samfélagi samboðið.
Ekki er hreinlega hægt að una því og fólk á að láta það sterklega í ljósi.
Geri þó ekki ráð fyrir að einn einasti starfandi lögmaður muni hafa orð á þessum vanda opinberlega.
Fyrir dómi lýsti hinn dæmdi yfir iðran. En ætli sá sem kærður hefur verið fyrir barnaníð áratugum saman af tveimur konum lýsi nokkurn tíma yfir iðran. Og ætli þeirri kæru verði ekki bara vísað frá af sama saksóknara og dró ekki af sér með að keyra þetta mál í gegn.
Sá sem öllu veldur sleppur. Þeir sem fyrir verða liggja í því.
Réttlæti þolenda í hnotskurn.
Hvað skyldu annars vera margar fjölskyldur og einstaklingar í landinu sem þjást vegna gamalla kynferðisbrota og aldrei hafa séð neins konar réttlæti og munu aldrei sjá? Svo er eins og megi ekki einu sinni nefna það. Afbrotafræðingar og lögfræðingar sem komu fram með fingurinn á lofti með að menn megi ekki taka lögin i eigin hendur, sem í sjálfu sér er rétt, horfa algerlega framhjá þessu atriði, þeim sársauka og því ranglæti, eins og það sé ekki til. Fyrir þeim er það heldur ekki til. Og með slíkum einhliða áherslum eru þessi fræðimenn á vissan hátt að taka sér stöðu gegn þolendum. Gera þá en ekki gerendurna að vörgum í véum í þjóðfélaginu. Með ásökunarfingurinn á lofti ef eitthvað ber útaf en þegja mest þunnu hljóði yfir gerendunum. Þegar þessir fræðimenn stigu fram var það beinlinis vegna sérstaks máls, þó ekki væri það nefnt, þegar fórnarlamb kynferðisofbeldis lamdi gerandann en ekki var það samt þetta tiltekna mál sem verið var að dæma í. En sömu fræðimenn hafa aldrei stigið fram vegna sérstaks kynferðisbrots. Þar er allt á almennum nótum. Þetta segir sína sögu um það hvað hreyfir við þeim.
Gerandi sem lagt hefur fjölskyldu sína í nokkra ættliði í rústir getur einfaldlega stigið fram og játað gerðir sínar án þess að eiga nokkuð á hættu gagnvart lögunum. En ef þolendurnir blaka við honum stendur ekki á því að þeir séu látnir finna fyrir því af fullum þunga og miskunnarleysi.
En þetta forðast fræðimennirnir og farísearnir að ræða. Og með þögninni styðja þeir ranglætið og viðhalda því.
Ranglætið í þessu dæmi felst auðvitað ekki í því að maður sé dæmdur fyrir líkamsárás, þó dómurinn sé ótrúlega harður miðað við aðstæður og ekki síst dóma í kynferðisbrotum gegn börnum, heldur felst ranglætið í því að þeir sem brotið hafa gegn börnum og skilja kannski eftir sig eyðingarslóð í fjölskyldum skuli komast upp með það eins og ekkert sé og sú mynd sé jafnvel af þeim dregin í dómstólum og fjölmiðlum að þeir séu í fórnarlömb sem hljóta skuli bætur þó fórnarlömb þeirra sjálfra megi bara éta það sem úti frýs.
Meðan kærurnar sem tvær konur hafa lagt fram á hendur eldri manninum um kynferðisbrot gegn þeim áratugum saman meðan þær voru börn eru ekki teknar til greina og mál höfðað gegn manninum er þessi dómur og allur málarekstrurinn hreint níðingsverk.
Dæmdur fyrir árás á Þórshöfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.4.2013 | 16:48
Smávegis um mars og veturinn
Mars sem var að líða virðist í fljótu bragði vera að hita á landinu lítið eitt yfir meðallaginu 1961-1990, tæpt hálft stig, en hins vegar tæplega einu stig undir meðallaginu 1931-1960. Tiltölulega kaldast er á norðausturlandi en hlýjast a suðvestur og vesturlandi.
Þetta er samt kaldasti vetrarmánuðurinn, desember til mars.
Veturinn var hins vegar mjög hlýr í heild. Aðeins fjórir vetur hafa verið hlýrri á landinu, 1929, 1964, 2003 og 1847 og þetta gildir einnig um Reykjavík en ekki Akureyri þar sem allmargir vetur hafa verið hlýrri. Mestu munar um hlýindin í febrúar og janúar. Í Reykjavík var þriðji hlýjasti febrúar en janúar sá sjöundi hlýjasti. Á Akureyri var fjórði hlýjasti febrúar en janúar sá 16. hlýjasti. Í Vestmannaeyjum var janúar sá 4.-5. hlýjasti og febrúar sá næst hlýjasti. Þar er þetta þriðji hlýjasti vetur en ekki var athugað þar árið 1847.
Úrkoman var aðeins um helmingur af meðallaginu Reykjavík í mars. Víðast hvar var í þurrara lagi, einkanlega á Fljótsdalshéraði og við austurströndina þar sem þetta virðist vera einn af allra þurrviðrasömustu marsmánuðum.
Mánuðurinn kom á óvart með því að krækja í áttunda sætið yfir sólríkustu marsmánuði í Reykjavík og var það sólskin að mestu leyti í seinni hluta mánaðarins en sólarlítið var fyrri hlutann.
Snjóalögum var æði misskipt milli suðurlands og norðurlands.
Í Reykjavík varð fyrst alhvítt 21. nóvember og þar urðu alhvítir dagar 22. Enn getur auðvitað orðið alhvítt í borginni en varla verða það margir dagar. Á Akureyri varð fyrst alhvítt 31. október og var alhvítt allan nóvember, 28 daga í desember, 29 í janúar, 14 í febrúar (seinni hlutinn var fremur snjóléttur) og 25 daga i mars eða samtals 126 daga. Alhvítt er enn á Akureyri og snjódýptin 10 cm.
Nánara uppgjörs um mars og þennan merkilega vetur er svo áreiðanlega að vænta fljótlega frá Veðurstofunni.
Apríl er mættur til leiks í fylgiskjalinu. Reykjavík og landið á blaði 1. Akureyri, drottning norðurlands, á blaði 2!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 18.4.2013 kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006