Færsluflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir
14.12.2011 | 20:22
Hringnum lokað
Nú hef ég lokið pistlum mínum á blogginu um tíu hlýjustsu og tíu köldustu mánuði á Íslandi. Þetta eru 25 pistlar, tveir fyrir hvern mánuð, einn um hlýju mánuðina og annar um þá köldu, nema hvað janúar 1918 fær sér pistil. Auk þess er einn pistill þar sem skýrt er hvernig ég stóð að þessu.
Miðað er við hitann á þeim veðurstöðvum sem lengst hafa athugað. Fyrsta viðmiðunarárið er 1866 en þá voru aðeins tvær veðurstöðvar starfandi, sem er ansi fáar, en voru orðnar fjórar árið 1874, sjö 1880 og svo níu frá 1898 og síðan. Ég kaus að byrja 1866 frekar en til dæmis 1874, þrátt fyrir stöðvafæð, til að ná inn í meginbálkinn hinum mjög svo köldu árum 1866 og 1867.
Í þremur tilvikum (jan. og mars 1847 og apr. 1859) þegar einhver mánuður fyrir 1866 hefur verið afgerandi hlýjastur eða kaldastur eða mjög nærri því og þá í öðru sæti, eru þeir teknir inn í meginröðina en hins vegar ekki á sama hátt skeytt um aðra mánuði sem hugsanlega kæmust inn á topp tíu lista í önnur sæti ef reynt væri að meta það í alvöru sem ég held að sé ekki auðvelt því mælingar verða bæði strjálli og óáreiðanlegri því lengra sem dregur aftur í tímann.
Hins vegar er allmargra slíkra mánaða samt sem áður getið utan raðar og stundum í talsverðu máli. Auk þess eru ýmsir mánuðir frá 1866 teknir með utan dagskrár sem ekki eru meðal þeirra tíu hlýjustu eða köldustu en mér þótti samt ástæða til, af ýmsum orsökum, að taka fyrir. Þetta gildir ekki síst um júlí þar sem fjallað er alls um 44 mánuði og ágúst þar sem ég hef skrifað um 34 mánuði.
Mánuðirnir frá janúar 1866 til nóvember 2011 eru alls 1751 (145 ár og 11 mánuðir) og þar af hef ég fjallað um 293 mánuði eða tæp 17 %.
Fyrir 1866 hef ég svo skrifað um eða í það minnsta drepið á 95 mánuði og eru þar með taldir janúar og mars 1847 og apríl 1859.
Alls eru þetta 388 mánuðir.
Þetta er í raun og veru orðin dálítil bók. Rafbók og veðurbók.
Hér fyrir neðan er hægt að smella á alla pistlana hvern um sig.
Jú, ég veit að þessir pistlar eru langir. En ég held að þar geti hinir fróðleiksfúsu fundið ýmislegt. Þegar ég var að lesa þá yfir núna sá ég að minnsta kosti margt sem ég vissi ekki áður!
Hlýjustu og köldustu mánuðir á Íslandi -Skýringar.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 17.12.2011 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.12.2011 | 17:43
Köldustu desembermánuðir
1880 (-7,3) Veturinn 1880-1881 er harðasti vetur sem komið hefur á Íslandi síðan einhvers konar veðurathuganir með mælitækjum hófust fyrir um það bil tvö hundruð árum. Desember og mars voru þeir köldustu sem komið hafa en janúar og febrúar þeir næst köldustu.
Desember var kringum tveimur stigum kaldari en sá næst kaldasti og um það bil sjö stigum undir meðaltalinu 1961-1990 sem er -0,6 stig. Mikil hæð var oft yfir Grænlandi og jafnvel suður um Ísland en lágur þrýstingur austan við landið og yfir Norðurlöndum eins og kortið um yfirborðsþrýsting sýnir. Í háloftunum var hæðarhryggur um Grænland sem veitti köldu lofti yfir landið. Hlýtt var hins vegar í Evrópu. Fyrstu tvo dagana í desember var norðanátt en dagarnir 3.-5. voru þeir hlýjustu í mánuðinum og rigndi sunnanlands og vestan. Mesti hiti mánaðarins, 8,3 stig, mældist þá í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Aðfaranótt hins 10. gerði vestan fárvirði á suðvesturlandi. Fréttir frá Íslandi lýstu því svo: ,,Bryggjur og skíðgarðar sópuðust á burt úr Hafnarfirði og Reykjavík, skip og báta tók víða í loft upp, og sló þeim niður aftur mölbrotnum; brotnuðu í veðri þessu eigi færri en 7 sexæringar í Minni-Vogum, 6 ferjur á Akranesi og mörg skip á Álftanesi og víðar. Á Vatnsleysuströnd tók upp þiljubát, sem var í smíðum, og bar veðrið hann um 300 faðma yfir grjótgarða og skíðgarða, svo að hann kom hvergi við, en mölbraut hann síðan, er niður kom. Heyskaðar urðu nokkrir á Suðurlandi, einkum fyrir austan fjall, og sama var að segja af Vestfjörðum; þar höfðu víða hjallar fokið með munum og matvælum og varð ei eftir af það er sæist. Eigi gjörði veður þetta mikið tjón á skepnum, því að svo vel vildi til, að veðrið skall á að nóttu til, svo að fénaður var byrgður. Veður þetta varð allmikið á Norðurlandi en gjörði þar eigi skaða, svo að orð sé á gjöranda.''
Kortið sýnir meðaltal loftþrýsitngs í paskölum en ef við sleppum síðustu tveimur núllunum fáum við út heila hektópaskala, 1015 yfir miðju Íslandi. Kuldarnir byrjuðu fyrir alvöru 12. desember. Ekki hlánaði eftir það í Stykkishólmi og Grímsey fyrr en á gamlársdag en ekki allan mánuðinn á Teigarhorni. Var áttin milli austurs og norðurs allan tímann og oft hvasst. Blaðið Fróði á Akureyri segir þ. 22. að þar hafi þá snjóað hvern dag það sem af var mánaðarins. Kalt var um jólin, frostið fór niður í 21,1 stig á jóladag í Stykkishólmi. Eftir jólin var mjög vont veður á landinu, hávaða norðanrok með hríðarveðri nyrðra og frostið 10 til 20 stig. Mest frost í mánuðinum mældist reyndar þann 18. -23,4 stig á Valþjófsstað í Fljótsdal. Ekki var mælt á Grímsstöðum eða Möðrudal á þessum tíma. Og heldur ekki á Akureyri. Snjókoma var víða. Þann. 27. komst frostið í Reykjavík niður í -18,4 stig og er það mesta frost sem mælst hefur þar í desember. Um þetta leyti fór frostið í Vestmannaeyjakaupstað niður í -17,8 stig sem er mesti kuldi sem þar hefur komið í desember. Í Hreppunum kom líka desembermet, -21,6 stig á Hrepphólum. Á norðurlandi voru mikil frost, allt að -30 stig að sögn blaðanna. Voru hafþök af ís fyrir öllu norðurlandi. Á Akureyri gerði þriðja í jóum norðan stórhríð svo svarta að tæpast var fært húsa á milli og stóð hún í tvö dægur. Á gamlársdag hlýnaði loksins með sunnanátt og var þá rigning á suður- og vesturlandi. Jónas Jónassen lýsti tíðarfarinu í Reykjavík í desember í Ísafold 16. janúar 1881:
Þar sem allur fyrri hluti þessa mánaðar var fremur frostlítill, hefir allur síðari hluti hans (frá 13.) verið einhver hinn kaldasti, er elztu menn muna, því ekki einungis hefir frostharkan verið geysi-mikil, heldur hefir hin kalda norðanátt haldizt óvenjulega lengi. Aptur á móti hefir snjór fallið mjög lítill. Fyrstu 2 dagana var veður stilt og bjart, en 3. hvasst á austan með blindbyl, en logn að kveldi með nokkurri rigningu; og 5. hægur á landsunnan með rigningu ; 6. hægur úts. að morgni, en bráðhvass að kveldi og sama veður 2 næstu dagana, en þó vægari með hryðjum ; 9. hvass á landuorðan meðbyl að morgni, gekk svo til eptir miðjan dag og fór að hvessa á útsunnan og varð úr því fjarskalegt ofsaveður, sem hélzt við allt kveldið og næstu nótt fram til morgunsins 10., að hann lygndi, og var þann dag hægur útsynningur með slettingsbyl um kveldið, 11. og 12. aptur hvass á úts. gekk svo 13. í norðanátt til djúpanna, en hér í bænum var þann dag og eins 14. og 15. hæg austangola; 16. landnyrðingur, hvesti er á leið daginn og var bráðviðri á norðan til djúpanna og frá 17.-30. einlægt norðanbál með grimdarhörku; einkum var veðurhæðin mikil 27. og 28. og lagði sjóinn, svo að menn hinn 30. gengu eigi að eins út í Aknrey, Engey og Viðey heldur og npp á Kjalarnes. Ofangreinda daga 17.-30.) var hér í bænum opt logn, þótt norðanrok væri inn að eyjum, 31. breyttist aptur veðurátta, er hann gekk til landsuðurs með talsverðri rigningu, en að kveldi dags var hann aptur genginn í útsuður með miklum brimhroða.
Úrkoma var svo lítil að þetta er hugsanlega einn af fimm þurrustu desembermánuðum.
1878 (-5,2) Þessi mánuður, sem ansi lítið hefur verið í umræðunni", er eigi að síður nokkuð merkilegur. Aldrei hefur mánaðarloftþrýstingur verið jafn hár í desember á landinu síðan byrjað var að mæla hann kringum 1820. Í Stykkishólmi var hann 1020,3 hPa. Nóvember, næsti mánuður á undan, var svo með mestan loftþrýsting fyrir þann mánuð, 1019,6 hPa í Hólminum. Gætti þessa háa þrýstings um allt norðurskautið en mest fyrir suðvestan land. Þrýsstingur var aftur á móti mjög lágur suður í Atlantshafi á þeim slóðum sem Azoeyjarhæðin er venjulega. Eitthvað mjög óvenjulegt hefur verið að gerast á þessum tíma. Geysileg hálloftahæð var yfir suðaustanverðu Grænlandi. Sjá frávikakortið um hæð 500 hPa flatarins í um 5 km hæð. Og þetta var enda þurrasti desember sem mælst hefur ef dæma má eftir þeim tveimur stöðvum sem þá athuguðu og athuga enn og þessi desember er einnig sá næst kaldasti eftir 1865. Úrkoman á Teigarhorni var sú minnsta sem þar hefur mælst i desember, 1,8 mm, en féll þó á þremur dögum. Í Stykkishólmi var úrkoman 12,7 mm og úrkomudagar voru 11, fyrstu tíu dagarnir og svo að morgni aðfangadags. Frá þeim 18. sást varla ský á himni í Stykkishólmi nema hvað þykknaði upp á Þorláksmessu með suðaustanátt og snjóaði ofurlítið en aftur létti til að kvöldi jóladags. Þann dag var að mestu logn og lítið skýjað til kvölds en frostið var 7-8 stig. Þrír desembermánuðir hafa þar verið þurrari í Stykkishólmi, 7,0 mm 1872, 8,7 mm 1952 og 11,7 mm 1882. Í Grímsey voru fjórir úrkomudagar laust eftir miðjan mánuð en annars var alveg þurrt. Hitinn fór mest í 6,8 stig í Stykkishólmi þ. 2, en frostið í -17,1 stig á Skagaströnd, mjög líklega á gamlársdag. En þessar hitatölur segja ekki mikið því aðeins var mælt á átta stöðvum og engum sem eru verulega kuldavænar. Fyrstu vikuna var stundum lítilsháttar hláka en annars voru frostin svo til linnulaus og lágmarkshiti frá þeim 17. flesta daga undir -10 stigum í Stykkishólmi. Norðaustan og austanátt var yfirgnæfandi eftir fyrstu vikuna. En vindar voru oftast hægir og þótti tíðin hagstæð. Gamlársdagurinn var æði kaldur með 16 stiga frosti í Grímsey og 15 í Stykkishólmi. Fyrir norðurlandi varð vart við hafíshroða nálægt jólum en hann hörfaði aftur frá um nýárið. Hlýtt var á vestur Grænlandi sem var hlýindamegin við háloftahæðina en kalt á Norðurlöndum og víðast hvar í Evrópu. Einnig var mög kalt í næstum því öllum Bandaríkjunum.
Reykjanesvitinn, fyrsti viti á Íslandi, var tekinn í notkun fyrsta dag mánaðarins.
1973 (-4,2) Kaldasti desember á landinu síðan 1886 en hitinn þá var svipaður. Þetta er sem sagt kaldasti desember sem núlifandi Íslendingar hafa kynnst ef eigin raun. Var hann samt talsvert mildari en þeir tveir mánuðir sem taldir hafa verið hér að framan, sem skera sig nokkuð úr fyrir kulda sakir. Mánuðurinn var ekki aðeins kaldur heldur einnig umhleypingasamur. Mjög snjóþungt var fyrir norðan. Að morgni gamlársdags var snjódýptin 153 cm á Raufarhöfn og Hornbjargsvita. Á Raufarhöfn er þetta reyndar úskomumesti desember, 168,6 mm (1934-2008). Snjólag á landinu var það mesta nokkru sinni í desember, 88%, ásamt desember 1936. Alhvítt var alla daga í Grímsey, Torfufelli í Eyjafjarðardal, Vöglum i Fnjóskadal, Sandhaugum í Bárðardal, Dalatanga og Kvískerjum, auk hálendisstöðvanna á Hveravöllum og Sandbúðum. Á Skógum undir Eyjafjöllum voru alauðir dagar tíu. Reyndar byrjaði mánuðurinn með hlýindum. Aðfaranótt þess þriðja komst hitinn í 16 stig bæði á Dalatanga á austfjörðum og Galtarvita á vestfjörðum. En eftir fyrstu tíu dagana voru ekki hlákur að heitið geti. Suma dagana var frostgrimmdin með allra mesta móti. Í Reykjavík var meðalhitinn þ. 17. og 18. -12,7 stig og hefur aðeins einn desemberdagur (-14,1 þ. 28. 1961) verið kaldari a.m.k. síðustu 75. Kaldast á landinu varð þ. 21. -27,5 stig í Reykjahlíð og sama dag -25,4 á Brú á Jökuldal. Þann dag var bjart um land allt. Á Akureyri komu dagshita með mesta kulda þrjá daga í röð, 22.-24, -sautján og átján stiga frost. Ýmsir aðrir dagar voru mjög kaldir á landinu, t.d. komst frostið á Hveravöllum í -26,9 stig þ. 18. og -26,0 á Grímsstöðum þ. 22. Á Breiðafirði var svo mikill langaðarís að menn gátu allvíða gengið milli eyja á tímabili. Í þessum kuldum tók Reykjavíkurhöfn að leggja, sjaldan því vant. Kortið sýnir þykktina yfir landinu sem var æði lág en lág þykkt ber vitni um kalt loft. Meðalhiti á landinu er á kortinu hér fyrir neðan. Desember 1880 var að meðaltali þremur stigum kaldari!
Ýmislegt gekk nú á í heiminum í þessum mánuði. Þann 17. drápu arabískir hryðjuverkamenn 31 mann í þýskri flugvél í Rómaborg. Daginn eftir skemmdist Stjönubíó rétt einu sinni af eldi þ. 18. Sorglegra var þó að þ. 22. fórust hjón og tvö börn í bruna á Seyðisfirði. Stórsöngvarinn Bobby Darin lést þ. 20.
1886 (-4,1) Kalt var þennan mánuð en hitastig fremur jafnt og kalt en þó engin stórkostleg kuldaköst. Varla hlánaði þó að ráði á landinu þar til daginn fyrir gamlársdag. Fyrstu vikuna voru miklir umhleypingar. Þeir snérust svo í hvassa norðanátt en síðan hægari austanátt og var þá oft bjart suðvestanlands en loks komu frekari umhleypingar. Seint í mánuðinum snjóaði við og við í Reykjavík og var þar talsverður snjór á jörð í mánaðarlok. Enginn desember í Reykjavík hefur eins lágt mánaðarhámark í hita, aðeins 2,4 stig sem mældist á gamlársdag. Sama dag mældist mesti hiti á landinu, 7,7 stig í Vestmannaeyjum. Kaldast varð upp úr miðjum mánuði og fór frostið þá í -25,1 stig í Möðrudal. Jólin voru æði köld, átta til tíu stiga frost í Reykjavík á jóladag en fór í þrettán stig næstu nótt. Oft snjóaði í mánuðinum í öllum landshlutum. Mikill snjór var í Skaftafellssýslum að sögn Þjóðólfs á aðfangadag. Þann 20. fórust þrír menn í snjóflóði í Önundarfirði og einn maður daginn eftir í Glerárdal. Úrkoman í heild var aðeins um helmingur meðalúrkomu. Hæð var oftast yfir Grænlandi en lægðir milli Íslands og Noregs. Kuldatunga lá norðan úr höfum yfir Ísland. Jónassen lýsti tíðinni í nokkrum blöðum Ísafoldar:
Framan af þessari viku var talsverð óstilling á veðrinu. Optast við Sv. með hryðjum og opt hvass með brimróti; h. 4. var fyrst hæg austanátt, eptir hádegi var kominn blindbylur og að kveldi genginn til útsuðurs (Sv) eptir stutta rigningu af landsuðii (Sa) og farinn að frysta. Aðfaranótt h. 5. bálhvass á útsunnan me3 miklum brimhroða, gekk svo til norðanáttar h. 6. med hægð og hreinviðri með talsverðu frosti. Í dag 7. hægur austan-kaldí i morgun, dimmur ; eptir bádegi bjartur, landnorðan (na) hægur. Lítill snjór á jörðu. Í fyrra var hjer þessa dagana mikill gaddur ; h. 7. þ. m. 1 fyrra var hjer -12 (aðfaranótt hins 7.) og -10 um hádegi; logn og fagurt veður. (8. des.) - Framan af þessari viku var talsverðnr kuldi og var hvasst noróanveður til djúpa, þótt lyngt væri hjer. Seinni part vikunnar hefir verið hæg austanátt og frostlitið, opiast bjart og heiðskírt veður. Í dag 14. fegursta veður, logn. (15. des.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer logn, þangað til að hann gekk til norðurs síðari part dags h. 16 var hvass um tíma. en gekk strax ofan og varð úr því austanátt með nokkurri ofanhríð ; gekk síðan til útsuðurs (Sv) með brimhroða og byljum h. 20. eptir að hann hafði verið á landsunnan litla stund með talsverðn rigningu. Hjer fjell nokkur snjór um kveldið h. 19. sem að mestu leyti er horfinn. Í dag 21. vestan úts. hroði, hvass í jeljunum. Um síðustu jól var frostlaust veður hjer og alveg auð jörö; aðfangadaginn var húðarigning á austan ; jóladaginn logn og fagurt veður. (22. des.) - Þessa vikuna hefir verið hægð á veðri, optast við norðanátt, hæga. eða austanátt; stundum rjett að kalla logn; miðvikudaginn h. 22. fjell hjer nokkur snjór og síðan hefir við og við snjóað, svo hjer er nú sem stendur talsverður snjór á jörðu, viðlíka mikill og í fyrra um þetta leyti. Í dag 28. logn og fagurt veður. (29. des.) - Fyrstu daga vikunnar var sunnnátt með rigningu; síðan gekk hann til útsuðurs (sv), hægur með talsverðri snjókomu; h. 3. kom norðanrátt, þó eigi mjög hvöss, og helzt hún við enn; síðasta dag umliðins árs gerði hjer aftakaveður af suðri; var hjer varla stætt húsa á milli um kl. 6-7 gamalárskvöld; veðrið gekk ofan nokkru fyrir miðnætti, og gekk þá til útsuðurs. Í dag (4.) norðan, nokkuð hvass, dimmur upp yfir. Snjór hjer nú talsverður. (5. jan. 1887).
1887 (-3,9) Þessi desember var örlítið mildari í heild en árið áður. Enginn desember hefur þó verið eins kaldur á Möðrudal, -11,5 stig, en athuganir þar hafa verið nokkuð stopular í áranna rás. Er þetta lægsti meðalhiti sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í byggð í desember. Norðlægar áttir voru auðvitað algengar en það kom bæði nokkur hlákukafli og óvenju hart kuldakast í stað jafnari kulda eins og voru 1886. Fyrstu dagana voru norðankuldar en þó ekki afskaplegir. Suðvestanlands var stundum útsynningur með éljum. Gríðarlegt kuldakast um allt land stóð hins vegar yfir dagana 7. til 11. Mesta frost mældist -28,2 stig í Möðrudal en -22,0 á Borðeyri, -22,4 á Blönduósi, -20,4 á Akureyri, -23,3 á Núpufelli í Eyjafjarðardal, -21,2 Raufarhöfn, -21,4 á Stórinúpi -22,1 á Eyrarbakki og -20,9 stig á Teigarhorni. Er þetta með mestu kuldum sem komið hafa í desember. Aldrei hefur mælst meira frost í þeim mánuði á Blönduósi, Raufarhöfn og Teigarhorni. Eftir kuldakastið mildaðist mikið og syðst á landinu var frostlaust dagana 13.-16. en loks hlánaði almennilega með suðvestanátt þ. 21. og stóð í viku. Milt var því um jólin og rigningar. Úrkoma að morgni aðfangadags var 12,2 mm í Reykjavík. Snjór var lítill í bænum þennan mánuð. Hæsti hiti mánaðarins, 7,2 stig, mældist á öðrum degi jóla í Grímsey en á jóladag voru 6,2 stig á Teigarhorni. Síðustu vikuna var mjög stillt veður en vægt frost. Úrkoman var um þrír fjórðu af meðalúrkomu en á Teigarhorni var hún þó meiri en í meðallagi. Á Eyrarbakka hefur hins vegar aldrei mælst jafn lítil úrkoma í desember, 15,6 mm. Kalt var um alla Evrópu en sérstaklega á norðanverðum Norðurlöndum. Jónassen skrifaði um veðurfar mánaðarins í nokkrum blöðum Ísafoldar:
Talsverð ókyrrð hefir veríð á veðri þessa vikuna; hann hefir snúizt úr einni átt í aðra á sama sólarhringnum; við og við hefir hann verið við norðanátt. 4. var hjer hvasst austanveður og dreif þá niður talsverðan snjó; 5. hægur á norðan dimmur, og í dag 6. hvass á norðan og bjartur í lopti. (7. des.) - Framan af þessari viku var optast veðurátt við norður, hæg hjer, hvass til djúpa, með miklu frosti, gekk síðan til austurs, rokhvass síðari part dags 12. Síðan við hæga austanátt og í dag 13. frostlaust veður hægt á austan. Snjór hefir eigi fallið hjer nema að morgni h. 10., er hann gerði austanbyl um tíma. (14. des.) - Optast hefir verið hægð mikil a veðri hina umliðna viku ; síðari partinn var hann.við norðanátt en hæga ; í dag 20. logn, dimmur i lopti og snjó-. ýringur úr honum öðru hvoru. (21. des.) - Alla viðuna hefir verið blæja logn og allan fyrri partinn þokumugga dag og nótt og við og við nokkur rigning; siðustu dagana hefir verið hið fegursta og bjartasta veður með vægu frosti. Hjer er svo að kalla auð jörð. Í dag 27. blæja logn og heiðskírt lopt. Í sjónum talsverð harka. (28. des.) - Þokumuggan og lognið, sem var hjer alla fyrri vikuna, hjelzt við 3 dagana framan af þessari viku ; að morgni h. 31. gekk hann til norðurs og gjörði brátt ákaflegt norðanrok, sem hefir haldizt til aðfaranóttar h. 3. er hann gekk til austur-landnorðurs hjer innfjarðar (hvass enn á norðan til djúpa). Sjóharkan mikil og er nú sem stendur íshroði út á miðja skipalegu. Jörð hjer svo að kalla alauð. (4. jan. 1888).
Þann 28. hélt Bríet Bjarnhérðinsdóttir fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu og var það fyrsti opinberi fyrirlestur sem kona hélt hér á landi. Óperan Óþello eftir Verdi var frumflutt þann annan í Napólí.
1909 (-3,6) Fyrir sunnan var tíð talin hagstæð en fyrir norðan snjóaði allmikið. Fyrstu vikuna var norðanátt með snjókomu og kulda fyrir norðan. Hæð var þá yfir Grænlandi en víðáttumikil lægðasvæði fyrir austan land. Þann 9. fórust tveir menn í snjóflóði í Skriðuvíkurgili milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar eystra. Nokkru fyrr urðu skemmdir á símalínum á austurlandi vegna snjóflóða. Það brá til suðaustanáttar þann 11. með mikilli úrkomu á austfjörðum og síðan til sunnanáttar með talsverðum hlýindum. Komst hitinn í 13,3 stig á Seyðisfirði þ. 13. en daginn eftir í 10 stig á Teigarhorni og daginn þar á eftir einnig í 10 stig í Vestmannaeyjum. Vindur snérist til norðvestanáttar þ. 16 og síðan til norðanáttar sem hélst að mestu næstum því til mánaðarloka. Var þá aftur hæð yfir Grænlandi en lægðir við Noreg. Eftir þann 16. hlánaði ekki víðast hvar fyrr en þ. 29. nema sunnarlega á landinu. Syðra snjóaði á jóladag. Kaldast varð -27,0 stig í Möðrudal og -26,4 Grímsstöðum. Á Akureyri fór frostið í tuttugu stig. Úrkoman var minni en þrír fjórðu af meðalúrkomu og tiltölulega minnst á suðurlandi.
Tónskáldið Gústav Mahler lauk í þessum mánuði við verk sitt Das Lied von der Erde (Ljóð jarðar) fyrir einsöngvara og hljómsveit.
1917 (-3,6) Á Vestfjörðum er þetta kaldasti desember sem þar hefur mælst, frá 1898, -6,3 stig á Bolungarvíkursvæðinu, hálfu öðru stigi kaldara en 1973. Loftþrýstingur mánaðarins var 1016,2 hPa í Stykkishólmi og í desember hefur hann aðeins verið hærri árið 1878. Þessi mánuður var kannski eins konar upptaktur fyrir frostaveturinn mikla 1918. Hann er sjálfur sjöundi kaldasti desember eftir 1865 og í honum mældist mesta frost sem mælst hefur á landinu í desember og einnig mesti loftþrýstingur. Það var 1054,0 hPa í Stykkishólmi að morgni þess sextánda. Þá var þar logn og léttskýjað en -18 stiga frost. Á sama tíma var stíf norðanátt og 15 stiga frost á Teigarhorni í léttskýjuðu veðri. Á Akureyri mældist frostið daginn eftir -22,0 stig sem er desembermet en á Möðruvöllum í Hörgárdal var frostið -22,3 stig. Ekki voru lágmarksmælingar í Reykjavík en Vísir segir þann 17. að frostið þar hafi komist í 19 stig í bænum, 22 á Vífilsstöðum en yfir 20 stig á Kleppi. Hæð hafði byggst yfir Grænlandi í nokkra daga með norðanátt á Íslandi og síðan teygt sig til Íslands. Hæðin varð samt mjög skammlíf því strax þ. 17. fór lægð norðaustur um Grænlandssund og varð þá víða frostlaust. Mánuðurinn hófst raunar með norðanátt og stórhríð fyrir norðan en síðan skiptust á austan eða norðanátt, litlar suðvestanhlákur og breytilegt veður þar til hæðin mikla lét til sín taka. Inni í þessu gerðist það, í kjölfar norðanáttar í lok fyrstu viku mánaðarins, að minniháttar hæðarhryggur byggðist upp yfir landinu. Þann 9. var komið logn á hálendinu norðaustanlands og bjart um tíma og um kvöldið mældist í Möðrudal mesta frost sem mælst hefur á Íslandi í desember, -34,5 stig en -30,0 á Grímsstöðum. Ekki stóð þessi kuldi lengi því daginn eftir hlánaði síðdegis á Fjöllunum í austanátt og snjókomu sem var drjúg þennan mánuð fyrir norðan. Í Húnavatns-og Skagafjarðarsýslum var sagður meiri snjór en menn mundu, að sögn Vísis 14. desember. Eftir stóru hæðabóluna þ. 16. varð hrunið óhjákvæmilegt og voru nokkrir umhleypingar til jóla. Á jólunum sjálfum var hins vegar suðvestan hláka um land allt á láglendi. Komst hitinn í 10,2 stig á Teigarhorni bæði á jóladag og gamlársdag. Ísafold skrifar þ 29.: ,,Með jólunum gerði mikla hláku, sem haldist hefir óslitin að heita má síðan, til mikillar hagsældar, jafnt búand sem bæjarmönnum og er hlákan sögð ná um land allt.'' Vísir sagði að rauð jól hafi verið í höfuðstaðnum og grennd. Víðast um landið var orðið snjólaust eða snjólitið um áramót ef marka má dagblöðin. Hafís var talsverður fyrir norðurlandi þennan mánuð og t.d. var mikill ís á Ísafjarðardjúpi í árslok en ísinn teygði sig alveg að Melrakkasléttu. Hálofthæð var suðvestur af landinu í þessum mánuði og vestanvindar algengastir á landinu við jörð.
Finnar lýstu yfir sjálfstæði þ. 8. frá Rússum en þ. 16. sömdu Rússar frið við Þjóðverja. Í Nýja biói var verið að sýna fyrstu kvikmyndina sem var með íslenskum texta.
1916 (-3,3) Norðaustan eða norðanátt var næstum því einráð í þessum mánuði en dagana 4. -5. var þó sunnan og suðvestanátt með vægum hlýindum. Komst hitinn í 8,6 stig á Seyðisfirði þ. 5. Þann dag rigndi hressilega í Vestmannaeyjum og mældist þar úrkoman 39 mm næsta morgun. Hæð var alla jafna yfir Grænlandi en lægðasvæði milli Íslands og Skotlands. Mildast var á suðausturlandi þar sem skemmst var í mildara loft en kaldast á Vestfjörðum. Úrkoma á landinu var þó minni en hálf meðalúrkoma í mánuðinum og sérstaklega var hún lítil sunnanlands og vestan. Ekki voru úrkomumælingar í Reykjavík en á Vífilsstöðum voru aðeins fjórir úrkomudagar. Hins vegar var úrkoman vel yfir meðallagi allmargra ára á þessu skeiði á Möðruvöllum í Hörgárdal, 80 mm. Í Vestmannaeyjum var oft bjart yfir og úrkoman var er sú þriðja minnsta í desember. Sólskinsstundir voru þó einungis 8 á Vífilsstöðum. Sérlega kalt var dagana 9. til. 12. og aftur 20. til 22. Ofsarok var í Reykjavík þann 11. Síðdegis þ. 19. fór að hvessa meira í norðanáttinni en verið hafði og var víða hvasst næstu daga með hríðarveðri. Frostið í Möðrudal fór í -22,0 stig en á Grímsstöðum í 19,0 stig þ. 21. Þar snjóaði eitthvað alla daga mánaðarins. Í árslok voru stillur í höfuðstaðnum.
Framsóknaraflokkurinn var stofnaður þ. 16. Átökunum við Verdun, einhveri alræmdusta orustu allra tíma, lauk þ. 18. og rússneski munkurinn Rasputin var myrtur þ. 30.
1906 (-3,1) Úrkoma í Reykjavík var 113 mm sem er drjúgt yfir meðallagi. Annars staðar var hún kringum meðalag en þó vel undir því á Teigarhorni. Stór hluti úrkomunar í Reykjavík féll á aðeins tveimur dögum, 31 mm þ. 21. og 33 mm daginn eftir. Hitinn fór þann sjötta í 10,8 stig á Seyðisfirði en 7,5 í Reykjavík. Æði var umhleypingasamt en oftast svalt eða kalt nema í fyrstu vikunni og fimm daga upp úr miðjum mánuðinum. Víða var fremur snjólítið. Mikill snjór var þó á Seyðisfirði fyrstu dagana, segir Ísafold þann 6. Og um miðjan mánuðinn (15.) kvartaði blaðið um hvassviðri síðustu vikuna í Reykjavík og sagði að snjór væri töluverður. Á Þorláksmessu skall á mikið kuldakast sem stóð sums staðar til mánaðarloka. Jólin og áramótin voru því ansi köld með hríðarveðri fyrir norðan. Fór frostið í -30,0 í Möðrudal og -21 stig á Holti í Önundarfirði en -20 í Hreppunum. ,,Alhvít jól og eftir því köld. Hvassvirði af ýmsum áttum'', segir Ísafold þann 29. Í Skagafirði og víðar fyrir norðan var mikill snjór, segir Austri á gamlársdag. Jónassen var nú kominn yfir á Þjóðólf og lýsti veðurfarinu í Reykjavík 4. janúar 1907:
Í þessum mánuði hefur verið óvenjul. kalt og snjór mikill á jörðu, Austan-gola um tíma framan af,svo logn og síðan optast útsynningur. Loptþyngdarmælir komst óvenjul. hátt, 782,3 millim. [1043 hPa]; hefur eigi komist svo hátt í mörg ár, var þá norðanátt, nokkuð hvass um tíma.
Austan-landnorðan að morgni h. 30., ofanhríð eptir hádegi og nokkuð hvass á norðan um kveldið; hægur 4 austan fyrri part dags h. 1., en gekk svo í útsuður með bleytusletting um kveldið og aðfaranótt h. 2. bálhvass 4 útsunnan með svörtum jeljum; gekk svo allt í einu til norðurs síðari part dags, rokhvass með blindbil; var svo bálhvass með ofanhríð að morgni h. 3. og hjelzt norðanveðrið með talsverðu frosti þar til hann lygndi síðari part dags h. 5. Má síðan heita að hafl verið logn. Í morgun (7.) svört þoka. (7. des.) - Hinn 7. var hjer logn með þoku; fór að snjóa síðast um kvöldið; svo logn og dimmur h. 8. með ofanhríð um kveldið. Hægur á landsunnan h. 9. með rigningu. Í morgun (10.) austan koldimmur með regni. (10. des) - Dimmur með regni að morgni h. 10. en gekk svo síðari part dags til norðurs með ofanhríð; bjartur h. 11. en hægur á norðan og sama veður h. 12. en 13. hvass á norðan með blindbyl allan fyrri part dags, koldimmur; lygndi svo rjett allt í einn um kl. 2-3 og birti upp og ýrði regn úr lopti um tíma, logn um kvöldið. Í morgun (14.) hægur á austan (ísing). (14. des) - Hægur á austan hinn 14.; rjett logn og hjart veður h. 15. þar til síðast um kveldið að gjörði hæga ofanhríð; aðfaranótt h. 16. varð snöggvast mjög kalt en var um það frostlaust um fótaferðatíma og blindbilur af austrí og stytti eigi upp fyrr en eptir miðjan dag og gekk til norðurs síðast um kveldið með vægu frosti. Í morgun (17.) hægur, dimmur, ofanhríð. (17. des.) - Hinn 17. landnorðan, hægur; hinn 18. hvass á norðan með ofanhríð en lygndi um kvöldið; logn og bjart veður h. 19., hæg austangola um kvöldið; hvass á austan og dimmur með ofanhríð um tíma h. 20. Í morgun (21.) austanátt, dimmur. Um þetta leyti í fyrra gengu hjer miklar rigningar af landsuðri, opt rokhvass; hjer var þá lítið föl á jörðu (fjell að aðfaranótt h. 19. af útsuðri). (21. des.) - Undanfarna daga hefir verið hæg austanátt með þíðu, svo snjó hefir tekið mikið. Í morguu (24.) sama veður, þíðvindi af austri, hægur. (24. des.) -Austanátt með þíðu, hefir rignt talsvert með köflum, svo að snjór er að hverfa. Í morgun (28.) landsynningur með rigningu, dimmur mjög 6 stiga hiti kl. 9 f. h. (28. des.) - Bezta veður undanfarna daga, optast austanátt, opt með regnskúrum, svo hjer er nú við það auð jörð. (4. jan. 1893)
Í þessum svala mánuði voru svokölluð Skúlamál í algleymingi. Þau snérust um Skúla Thoroddsen sýslumann á Ísafirði en Lárus H. Bjarnason var settur honum til höfuðs vegna einkennilegs máls sem upp kom vegna manndráps. En í raun voru þetta pólitískar ofsóknir á hendur Skúla sem loks var a fullu sýknaður fyrir rétti af hvers kyns embættisglöpum. Í St. Péturborg var ballettinn Hnotubrjóturinn eftir Tjækovski frumfluttur þ. 18.
Fyrir 1866 má finna nokkra mjög kalda desembermánuði. Í desember 1824 var meðalhitinn reiknaður -6,7 stig í Reykjavík. Það mun þá vera næst kaldasti desember sem mælst hefur þar. Kom hann á eftir kaldasta október og kaldasta nóvember sem hægt er að finna. Mjög snjóþungt var.
Árin 1856 og 1859 var meðalhitinn í Stykkishólmi og einnig á Akureyri svipaður og 1973. Desember 1805 var áþekkur að kulda. En árin 1809, 1810 og 1811 var desember kaldari á Akureyri en í nokkrum öðrum mældum desembermánuðum þar með meðalhita upp á -8,3 stig árið 1809 en -7,6 stig bæði hin árin. Frost voru oft mikil þessa mánuði á Akureyri, stundum yfir -20 stig, og mest -25,4 stig þ. 30. árið 1809. Þessir mánuðir virðast samt hafa verið hlýrri en desember 1880. Hann er kuldakóngurinn.
Trausti Jónsson: Upplýsingar um desember 1917; Frostaveturinn mikli 1880-1881, Náttúrufræðingurinn 1, 1977; Jón Helgason: Árbækur Reykjavíkur, Leiftur, Reykjavík, 1936; Suðurnesjaanáll Sigurðar B. Sívertsen, Rauðskinna III; Almanak hins Íslenska Þjóðvinafélags.
Í fylgiskjalinu má sjá meðalhita stöðvanna níu sem landsmeðaltalið er hér miðað við í öllum þeim mánuðum sem hér er minnst á og ýmislegt fleira. Seinna fylgiskjalið sýnir hins vegar kuldann í Reykjvik í desember 1880. Og hann var ekki fyrir neinar nútíma veimiltítur!
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 17.12.2011 kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
1.12.2011 | 21:13
Hlýjustu desembermánuðir
Fyrir aðal viðmiðnarárið okkar, 1866, eru nokkrir desembermánuðir sem líklega jafnast á við topp tíu mánuðina eftir 1866 eftir nokkuð fátæklegum mælingum að dæma. Þar skal fyrstan telja desember 1851. Hann var sérlega hlýr í Reykjavík, 3,5 stig, sá fjórði hlýjasti frá 1820 og í Stykkishólmi var hann 3,1 stig og sá þriðji hlýjasti frá 1845. Þessi mánuður virðist og hafa verið mjög hlýr á Akureyri en þar var athugað nokkur ár á þessum tíma, 2,0 stig. Þetta þýðir einfaldlega að hann kemur hugsanlega næstur á eftir 2002 að hlýindum á landinu, hlýrri en 1946 og þannig þriðji hlýjasti desember, ef þessar tölur eru teknar alveg bókstaflega. Desember 1834 var 3,1 stig í Reykjavík en hvergi annars staðar var þá athugað en þetta er þá fimmti hlýjasti desember í höfuðstaðnum. Desember 1850 var einnig afar hlýr, í Stykkishólmi er hann sá fimmti hlýjasti en sjötti í Reykjavík. Desembermánuðirnir 1840 og 1849 virðast hafa verið álíka hlýir og síðustu mánuðirnir á alvöru topp tíu listanum, 2005 og 1956, en hugsanlega jafnvel sjónarmun hlýrri.
Að þessu mæltu getum við því sett hér fram eins konar gamanmála lista yfir hlýjustu desembermánuðir frá 1820, svona til hliðar við listann frá og með 1866:
1933, 2002, 1851, 1946, 1987, 1834, 1850, 2006, 1934, 1997, 1849, 1840, 2005, 1956.
Loks má bæta því við að desember 1804 virðist hafa verið skuggalega hlýr, sá þriðji hlýjasti í Stykkishólmi, þar sem var ekki einu sinni athugað en athuganir annars staðar frá hafa menn þangað umreiknað til að reyna að fá langa mæliröð! En hér hættum við þessum leik- og þó fyrr hefði verið!
Hyggjum þess í stað grandvör og ábúðarmikil að hinum formlega" metalista Allra veðra von fyrir desembermánuði frá og með 1866.
Meðalhiti stöðvanna níu sem hér er miðað við 1961-1990 er -0,6 stig en í sviga aftan við ártalið er meðalhiti þeirra við hvern tiltekinn mánuð. Nánari tölulegar upplýsingar eru svo í fylgiskjalinu eins og venjulega.
Tveir desembermánuðir skera sig alveg út fyrir hita sakir, 1933 og 2002.
1933 (4,0) Þetta er hlýjasti desember sem mælst hefur á landinu í heild og kom á eftir níunda hlýjasta nóvember. Hann er ótvírætt hlýjasti desember á öllum stöðvum nema í Reykjavík, á suðurlandsundirlendi og einstaka öðrum stöðvum. Þetta er eini desember sem að meðalhita hefur verið fyrir ofan frostmark á Grímsstöðum á Fjöllum, 0,2 stig. Þar mældist þó eins og oft áður minnsti hitinn á landinu, -10,6 stig og er það hæsta landslágmark í nokkrum desember. Mestur meðalhiti var á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 5,4 stig. Lengst af var snjólaust, tún voru græn og blóm í túnum og görðum. Víða lá fénaður úti og var lítið sem ekkert gefið. Snjólag á landinu var 13% og er það næst lægsta í nokkrum desember. Meðaltalið 1924-2007 er 60%. Í Reykjavík snjóaði ekki fyrr en í mánaðarlok og var snjódýpt 1,5 cm að morgni gamlársdags. Nokkuð úrkomusamt var sunnanlands og vestan og óstöðugt veðurlag. Stormar voru nokkuð tíðir en suðlægar áttir voru yfirgnæfandi. Mikið sunnanóveður var fyrstu tvo dagana og fórust þá átta manns á bátum og margir aðrir bátar slitnuðu upp og skemmdust. Á suður og vesturlandi urðu einnig skemmdir á húsum, heyjum, bryggjum og símalínum. Í Vestmannaeyjum og í Grindavík urðu mikil flóð. Þegar veðrið gekk niður tók við vika með óvenjulegum hlýindum. Á Hraunum í Fljótum mældist hitinn 16,6 stig þann 3. og var það mesti hiti í desember á landinu allt til 1988 en var jafnaður 1970 og 1981. Daginn eftir voru 14 stig á Húsavik. Báða dagana steig hitinn í 11 stig í Reykjavík. Eftir hlýindin tók við tveggja daga éljakafli á vesturlandi en síðan hægviðri um allt land í aðra tvo daga en frá miðjum mánuði voru á ný suðlægar áttir með hlýindum en síðustu tvo dagana voru umhleypingar og illviðri. Þetta er sá desember sem hefur hæsta lágmarkshita í Reykjavík, -1,6 stig. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist minnsti hitinn -0,2 og er hugsanlegt að alveg frostlaust hafi verið í kaupstaðnum þennan mánuð. Mjög þurrt var á norðaustanverðu landinu, aðeins 5,3 mm í Fagradal í Vopnafirði og á Akureyri er þetta 8. þurrasti desember (frá 1927). Hins vegar var úrkomusamt á suður og vesturlandi og í Hreppunum er þetta úrkomusamasti desember sem þar hefur mælst ásamt desember 1988. Fyrirstöðuhæð var þrálát í þessum mánuði yfir Bretlandseyjum og Norðursjó. Sjá kortið sem sýnir hæð 500 hPa flatarins í um 5 km hæð. Þetta er einn kaldasti desember í Evrópu og á Bretlandseyjum og allt suður um Spán, en hlýindin hjá okkur náðu einnig um Færeyjar og til austurstrandar Grænlands þar sem var óvenjulega hlýtt. Íslandskortið fyrir neðan sýnir meðalhita stöðva á Íslandi í þessum afburða hlýja desember.
Áfengisbannið var afnumið í Bandaríkjunum þann fimmta.
2002 (3,8) Tíðarfarið var talið sérlega gott. Tún voru víða græn, blóm sprungu út og unnið var við jarðvinnu sem á sumri væri. Sérstaklega var hlýtt um sunnanvert landið. Ekki er talinn marktækur munur á hita desember í Reykjavík árin 1933 og 2002 vegna flutninga Veðurstofunnar um bæinn. Árið 2002 var meðalhitinn 4,5 stig en 4,4 stig 1933 reiknaður til veðurstofutúns. Það fraus ekki í höfuðstaðnum fyrr en seint á öðrum degi jóla og hafði þá ekki verið frost síðan að morgni 16. nóvember, í rúma 40 daga og 40 nætur. Ekki eru önnur dæmi um jafn langan frostlausan tíma í borginni á þessum árstíma. Í Stykkishólmi var mánuðurinn örlítið kaldari en 1933. Í Vestmannaeyjum er þetta hins vegar hlýjasti desember sem þar hefur komið frá því mælingar hófust 1878. Meðalhitinn á Stórhöfða var 5,5 stig sem er met. Í kaupstaðnum var meðalhitinn 5,9 stig á sjálfvirku stöðinni og er það mesti meðalhiti á veðurstöð á Íslandi í nokkrum desember. Á suðurlandsundirlendi var hlýrra en 1933 og sömuleiðis í Hornafirði. Í mánuðinum var jafnað desemberhitametið í Reykjavík frá 1997, 12,0 stig þ. 6. en í heild var sá dagur ekki nærri því eins jafn hlýr þar og metdagurinn 1997. Sama dag mældist hitinn 17,2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Mánaðarúrkoman á þeirri stöð var aðeins 8,6 mm. Það er til marks um hlýindin að í Mýrdal og Vestmannaeyjum var aðeins einn frostdagur og á Stórhöfða varð aldrei kaldara en -0,2 stig og -0,3 á Vatnsskarðshólum. Kaldast varð -12,7 stig á Kárahnjúkum og -12,5 í Möðrudal þ. 29. Alauð jörð var alls staðar á suðurlandsundirlendi og í Borgarfirði og víðast hvar á suðausturlandi og við Breiðafjörð. Einnig var alautt á Ísafirði. Flestir alhvítir dagar voru aðeins tíu og var það í Svartárkoti. Í Reykjavík varð aldrei alhvítt en flekkótt jörð var tvo morgna. Á Akureyri var heldur aldrei alhvít jörð og er það einsdæmi í desember. Mest snjódýpt á veðurstöð var aðeins 14 cm og var það á Hveravöllum en þar var aðeins alhvítt í einn dag og er það með ólíkindum. Snjólag á landinu var aðeins í kringum 7% sem er met. Á suðvesturlandi og vestast á landinu var mjög úrkomusamt en þurrkar ríktu á norðurlandi. Þetta er t.d. fjórði þurrasti desember á Akureyri (frá 1927). Á Kvískerjum er þetta aftur á móti þriðji úrkomusamasti desember frá 1961, 532,2 mm, en í Stykkishólmi 11. úrkomusamasti desember. En aldrei hefur verið mæld meiri úrkoma á Lambavatni á Rauðasandi í desember frá 1938, 206,4 mm. Kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu þennan hlýja mánuð.
Alautt var um land allt á aðfangadag. En á gamlárskvöld var náttúrlega fjör og sjónarspil!
1946 (2,8) Heilt stig er niður í þriðja hlýjasta desember frá þeim næst hlýjasta. Hiti var fremur jafn um allt land. Nokkuð vindasamt var og stormdagar fleiri en venjulega. Yfirleitt blés af suðri og austri og er þetta þriðji úrkomusamasti desember sem mælst hefur á Fagurhólsmýri, 310 mm (frá 1922) , og einnig á Hólum í Hornafirði, 343 mm (frá 1931). Á landinu, miðað við þær stöðvar sem lengst hafa athugað, er þetta fjórði úrkomumesti desember. Snjólag var 45%. Í Papey og á Teigarhorni var alautt. Í Reykjavík voru þrír dagar alhvítir en snjódýpt varð þó aldrei meiri en 1 cm, þ. 21. Nokkru meiri snjór var á suðurlandsundirlendi og á Stórhöfða var snjódýptin 45 cm á Þorláksmessu og víða voru hvít jól og alls staðar nokkurt frost. Í Reykjavík mældist hitinn 11,4 stig þ. 18. sem lengi var þar desembermet. Ekki var samt beint útivistarlegt í borginni þennan dag því þá voru 12 vindstig af suðri og rigning. En hlýtt var alls staðar og fór hitinn í 12,2 stig í Fagradal við Vopnafjörð. Frost fór hins vegar í -14 stig þ. 4. í Reykjahlíð við Mývatn. Lægðagangur var mikill á Grænlandshafi í þessum mánuði en yfir norðaustanverðu Rússlandi var háloftahæð og hlýtt loft streymdi yfir Skandinavíu þar sem sums staðar norðantil mánuðurinn var með hlýjustu desembermánuðum. Einnig á Jan Mayen. Hæðin olli hins vegar kuldum víðast hvar í Evrópu. Kortið sýnir frávik hitans í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð. Á eftir þessum mánuði kom næst hlýjasti eða hlýjasti janúar á landinu.
Guðmundur S. Guðmundsson skákmeistari var að tefla á hinu sögufræga taflmóti í Hastings og átti eftir að ná þar þriðja sæti sem var glæsilegasti skákárangur sem Íslendingur hafði þá unnið.
1953 (2,7) Þessi umhleypingasami og illviðrasami mánuður hefur þann vafasama heiður að vera úrkomusamastur allra desembermánaða sem þá höfðu komið og var það alveg þar til desember 2007 sló hann út en sá mánuður er ekki í hópi hinna allra hlýjustu. Sums staðar á norðausturlandi var úrkoman þó lítil. Aldrei hafa verið jafn margir úrkomudagar í höfuðstaðnum, 29 að tölu. Mánuðurinn er votasti desember sem mælst hefur á Eyrarbakka, 276,4 mm, Sámsstöðum, 333,9 mm, í Hrútafirði, 110,1 mm og í Kvígyndisdal við Patreksfjörð, 396,8 mm. Á síðast talda staðnum var úrkoman næstum því þreföld miðað við meðallagið. Hitinn var óvenjulega jafn yfir landið. Kalt var samt fyrstu fimm dagana og komst frostið í -18 stig þ. 4. í Reykjahlíð við Mývatn í lok kuldakastsins. Eftir það mátti heita hlýindatíð til áramóta. Jörð var mjög blaut. Nokkuð var vindasamt og getið var einhvers staðar um storm í 23 daga. Í sunnanhlýindunum um miðjan mánuðinn urðu víða vatnavextir og vegaspjöll. Hitinn fór þá í 13,4 stig þ. 16. á Akureyri. Næsti dagur var svo einhver sá hlýjasti á landinu að meðalhita sem komið hefur þann mánaðardag. Vísir talaði um hitabylgju í skammdeginu. Alla dagana 10.-17. fór hiti yfir tíu stig einhvers staðar á landinu. Snjólag var 42% en hvergi var talið alveg alautt. Alhvítir dagar voru þó mjög fáir á suður-og suðvesturlandi nema einna helst í Reykjavík þar sem þeir voru 11. Mikið vestanveður gerði aðfaranótt hins 30. Sunnan og suðvestanáttir voru hins vegar algengastar í þessum mánuði. Loftþrýstingur var sérlega lágur um Grænlandshaf en hæð var yfir Norðurlöndum. Sunnanvindar fóru yfir Ísland og allt norður í íshaf þar sem hlýindin voru tiltölulega mest. Kortið sýnir frávik á hæð 500 hPa flatarins kringum 5 km hæð.
Sjöunda desember var tíunda sinfónía Shostakóvitsj frumflutt í Moskvu. Fjórðungssúkrahúsið á Akureyri tók til starfa þann 15. en á Þorláksmessu var Lavrentij Beria, leynilögreglustjói Stalíns, tekinn af lífi.
1987 (2,6) Einmunatíð var talin um land allt og hægir vindar lengst af. Mánuðurinn var tiltölulega hlýjastur á suður-og vesturlandi en náði þar þó hvergi alveg desember 1933 og 2002. Sjá kortið af fráviki hitans í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð. Á suðvesturlandi kemur mánuðurinn næstur þeim mánuðum að hlýindum. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð er þetta hlýjasti desember sem þar hefur mælst, 4,5 stig eða 4,7 stig yfir meðallaginu 1961 til 1990, en hvergi annars staðar var þetta metmánuður að hlýindum. Frostdagar voru aðeins þrír í Reykjavík og hafa aldrei verið færri þar í desember en á Stórhöfða voru þeir tveir. Ekki fraus í borginni fyrr en á jóladag og hafði þá verið frostlaust þar síðan 24. nóvember. Ekki var nærri því eins hlýtt tiltölulega fyrir norðan sem á suðurlandi og á Garði í Kelduhverfi var hitinn meira að segja undir meðallaginu 1931-1960. Dagana 13. til 14. var nokkurt frost fyrir norðan en þítt syðra en ekki kom kuldakast um land allt fyrr en um jólin. Á jóladag var frostið -18 stig á Staðarhóli í Aðaldal en -20,1 stig á Hveravöllum á öðrum degi jóla. Annars voru nær eindregin hlýindi allan mánuðinn, ekki síst fyrstu dagana en hitinn komst í 15,0 stig þ. 2. á Suðureyri við Súgandafjörð en þ. 13. fór hann í 13 stig á Dalatanga og Seyðisfirði. Jörð var að mestu þíð og snjólaus til jóla, grænn litur var á túnum og brum jafnvel þrútnuðu. Snjólag var 31%. Alautt var á fáeinum stöðvum á suðurlandsundirlendi og á vesturlandi. Úrkoma var mikil á norðausturlandi en annars yfirleitt lítil nema á hluta vesturlands. Á undan þessum mánuði kom sjöundi hlýjasti nóvember.
Þann 7. gerðu Reagan forseti Bandaríkjanna og Gorbasjov æðstráðandi í Sovétríkjunum tímamótasamning um fækkun kjarnorkuvopna.
2006 (2,5) Kalt var oft framan af mánuðinum og lauk kuldunum með -23,5 stiga frosti á Neslandatanga við Mývatn þ. 16. og -22,5 stigum í Möðrudal næsta dag. Eftir það var mjög hlýtt. Tvisvar komst þá hitinn yfir tíu stig í Reykjavík, 10,9 að kvöldi þ. 20. og á aðfangadag (um nóttina) í 10,1 stig og er það mesti hiti sem mælst hefur þar þann dag. Á Sauðanesvita voru 15,6 stig þ. 21. en á aðfangadag 15,2 stig á Skjaldþingsstöðum og er það mesti hiti sem mælst hefur á landinu á aðfangadag, a.m.k. eftir 1933. Nokkuð illviðrasamt var síðari hluta mánaðarins í hlýindunum. Vikuna fyrir jól ollu leysingar tjóni í Eyjafirði og féllu þá skriður. Á sama tíma varð óvenju mikið flóð í Hvítá og Ölfusá í Árnessýslu svo tjón hlaust af. Meiri úrkoma féll úr lofti á úrkomusamasta stað landsins, Kvískerjum, en í nokkrum öðrum desember, 770,4 mm. Aðeins hefur fallið þar meiri úrkoma í janúar 2006 (905,3 mm) og október 2007 (792,6 mm). Hlýtt var mjög víða á norðurhveli (sjá kortið). Gróðurhúsaáhrifin?!
Saddam Hussein var tekinn af lífi þ. 30.
1934 (2,4) Nokkuð sérkennilegur mánuður sem var sá desember sem kom næstur á eftir hlýjasta desember nokkru sinni, 1933. Þetta er sólríkasti desember sem mælst hefur á Akureyri þó sólarstundirnar væru aðeins 3,1 og mældust allar í fyrstu vikunni. Veður voru yfirleitt stillt. Austanáttin var yfirgnæfandi og mikil úrkoma var á austanverðu landinu, 367,8 mm í Fagradal í Vpnafirði. Úrkomudagar voru hins vegar ekkert sérstaklega margir miðað við úrkomumagnið. Snjólag var 31%. Alautt var allan mánuðinn á Úthéraði, sem ekki er algengt í desember, Vattarnesi, Teigarhorni og Fagurhólsmýri. Í mánaðarbyrjun var talsverður snjór á Vestfjörðum og fyrstu dagana snjóaði víða norðanlands. Um miðjan mánuð var víðast hvar orðin alauð jörð og hélst svo til mánaðarloka. Kalt var fyrstu vikuna og fór frostið í -14,3 stig þ. 3 á Hvanneyri. Óvenjulega hlýtt var um jólaleytið. Á aðfangadag fór hitinn í Reykjavík í 9,5 stig sem var dagsmet til 2006 en þ. 21. mældist mesti hiti mánaðarins, 10,1 stig í Vík í Mýrdal. Á jólanótt og jóladaginn var mikið suðaustanveður með rigningu á suðvesturlandi með hlýindum, 8,5 stig bæði í Stykkishólmi og á Hæli í Hreppum. Ólíkt desember 1933 var þetta einn af hlýjustu desembermánuðum í Mið-og Vestur-Evrópu og norður um öll Norðurlönd. Kortið sýnir loftþrýsting við sjávarmál. Lægðasvæði var sunnan við Ísland en yfir Austur-Rússlandi var hæðarsvæði og einnig yfir Grænlandi.
Á aðfangadag hófst lestur jólakveðja í Ríkisútvarpinu. Lesturinn var síðan fluttur yfir á Þorláksmessu og er enn iðkaður.
1997 (2,2) Desember þessi var tiltölulega hlýjastur inn til landsins. Það bar til tíðinda í mánuðinum að þá mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í desember, 12,0 stig þ. 14. og meðalhitinn þann sólarhring er einnig sá mesti sem þar hefur mælst í mánuðinum, 10,2 stig sem mundi vera alveg í lagi í júlí. Daginn eftir mældust 18,2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og er það næst mesti hiti sem mælst hefur á landinu í desember (metið er 18,4 stig á Sauðanesvita, 2001). Þessir tveir sólarhringar eru líklega þeir hlýjustu sem komið hafa í desember á landinu síðan a.m.k. 1949. En það var alveg bálhvasst. Mikil hlýindi voru sem sagt dagana 14.-25. Þá var mikið háþrýstisvæði yfir Norðurlöndum en lægðir suður í hafi. Mánaðarmet hámarkshita voru sett víða, allt frá Ströndum austur og suður um til suðurlandsundirlendis. Merkust eru kannski metin í Grímsey 12,7 stig (frá 1872), Reykjahlíð við Mývatn 13,0 (1937), Grímsstöðum 11,5 (1907), Fagurhólsmýri 11,0 (1903-1912, 1935) og Eyrarbakka 10,2 (1924-1945, 1957). Kalt var hins vegar í byrjun mánaðarins og mældust -19,5 stig í Lerkihlíð í Vaglaskógi þ. 5. Snjólítið var í mánuðinum, snjóhula 27%, en hvergi var jörð alveg auð. Víðast hvar var jörð þó frostlaus og sums staðar voru tún græn fram að áramótum. Suðaustanátt var algengasta vindáttinn og úrkoman var mest á suðausturlandi. Þetta er úrkomusamasti desember sem mælst hefur á Kirkjubæjarklaustri frá 1931, 321,1 mm en það eru þó eiginlega smámunir samanborið við úrkomuna í Snæbýli í Skaftártungu sem var hin mesta á landinu, 501 mm. Á Grímsstöðum var úrkoman aðeins 7,6 mm, sú þriðja minnsta frá 1935. Og á Akureyri er þetta næst sólríkasti desember. Mjög hlýtt var í um 5 km hæð í háloftunum yfir landinu og norðaustan við það eins og kortið sýnir. Þykktin yfir landinu var meiri en bæði 2002 og 1987.
Rauð jól voru um allt land.
2005 (2,0) Umhleypingasamt og suðlægar og vestlægar áttir voru algengastar og tiltölulega hlýjast var í Vopnafirði. Á Austfjörðum steig hámarkshitinn einnig hæst, 14,2 stig á Neskaupstað þ. 14. Kaldast varð -20,9 stig þ. 7. í Möðrudal. Snjólag var kringum 38% og alveg snjólaust var á Norðurhjáleigu og alhvítir dagar voru yfirleitt fáir miðað við venjuna í desember, t.d. aðeins fjórir í Reykjavik. Úrkoma var mikil nema á norðausturlandi og Hornströndum og alveg sérstaklega mikil á suðvesturhorninu og miðbiki Vestfjarða. Á Nesjavöllum var hún 425,7 mm. Mjög hlýtt var á jóladag í hvassri sunnanátt. Mældist þá mesti hiti sem mælst hefur þann dag í Reykjavík, 10,1 stig en 13,7 á Sauðanesvita. Það alveg hellirigndi og næsta morgun mældist úrkoman í höfuðborginni 26,8 mm en 58,3 mm á Andakílsárvirkjun. Mjög hlýr janúar kom í kjölfar þessa mánaðar en nær þó ekki alveg inn á topp tíu listann.
1956 (2,0) Þessi mánuður kom í kjölfar þriðja hlýjasta nóvember. Veður voru rysjótt og stormasamt var oft á suðurlandi. Einhvers staðar var talinn stormur á veðurstöð alla daga nema fjóra. Suðaustanátt var algengust. Lægðir voru mjög þrálatar við landið, einkum á Grænlandshafi. Kortið sýnir hæðina í 850 hPa svæðinu í um 1400 m hæð. Mánuðurinn fór reyndar af stað með vestanóveðri sem hafði skollið á síðast í nóvember og voru þá 10-11 vindstig víða á suður og vesturlandi og sums staðar á annesjum nyrðra og urðu fjárskaðar og ýmsar skemmdir á skipum og húsum. Togarinn Venus sleit upp í Hafnarfirði og rak á land og gjöreyðilagðist. Annað illviðri gekk yfir dagana 10. til 11. Hlýtt var á jólunum, 8,5 stig í Reykjavík á aðfangadag og 9,2 stig á jóladag. Hlýjast varð þó þann sjöunda, 11,4 stig í Fagradal í Vopnafirði. Kaldast varð daginn áður, -19,5 stig í Möðrudal. Norðanlands þótti snjór í minna lagi í þessum mánuði en í meira lagi á suðurlandi en snjólag var 52% á landinu í heild. Um áramót var yfirleitt snjólaust í byggð og jörð þíð. Úrkoma var litið eitt yfir meðallagi. Óvenjulega hlýtt var á Svalbarða og kringum Scoresbysund.
Hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi þ. 28. en á gamlársdag hófst sá siður Ríkisútvarpsins að veita styrk til rithöfunda.
Desember 1941 er sá 12, hlýjasti á öllu landinu eftir því kerfi sem ég nota og kom á eftir fimmta hlýjasta nóvember. Hann er hins vegar fimmti hlýjasti desember á Akureyri, 2,1 stig, örlítið hlýrri en 1946. Þá voru Bandaríkjamenn að dragast inn í styrjöldina eftir að Japanir réðust á Pearl Harbour og Ofviti Þórbergs var að koma út.
Fylgiskjalið birtir eins og venjulega tölur fyrir hverja veðurstöð um sig.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 11.12.2011 kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2011 | 20:15
Köldustu nóvembermánuðir
Líta verður fyrst á nokkra ískalda nóvembermánuði fyrir 1866 sem þó er okkar helsta viðmuðunarár. Meðalhiti veðurstöðvanna níu, sem hér er miðað við í öllum þessum pistlum, var 0,8 stig árin 1961-1990.
1824 Þennan mánuð var eingöngu athugað á Nesi á Seltjarnarnesi og aðeins ein hitamæling gerð og var það að morgni. Það er samt alveg ljóst að þetta er alkaldasti nóvember sem mælingar ná yfir á Íslandi. Meðalhitinn er talinn vera hvorki meira né minna en -5,6 stig. Þann 6. var hitinn um frostmark og hláka var dagana 20. og 21. og var hitinn 5,0 stig fyrri daginn. Annars voru stöðug frost, mest -12,5 stig þ. 19. Oftast var 5-7 stiga frost en yfir tíu stig þ. 15. og 17.-19. Frostin hófust reyndar 23. október og hugsanlega var október þetta ár kaldasti október sem mælst hefur í Reykjavík en frá septemberlokum til nýárs var einlæg og óslitin kuldaveðrátta með miklum snjóþunga", segir í Árbók Reykjavíkur. Þorvaldur Thoroddsen skrifar í Árferði á Íslandi í þúsund ár að lagt hafi firði og flóa vestra. Ætla má að um allt land hafi verið mikill kuldi. Hvar stæðum við annars með eldri tíðarfarslýsingar ef ekki væri Þorvaldur Thoroddsen? Myndinni hér af honum er nappað af vef Veðurstofunnar en birtist fyrst í bók Boga Th Melsted: Þorvaldur Thoroddsen: um ævi hans og störf, sem kom út 1923 í Kaupmannahöfn.
Árin 1779 til 1785 gerði Rasmus Lievog veðurathuganir á Bessastöðum og var nóvember 1781 óskaplega kaldur en þó um það bil hálfu stigi mildari en 1824 að því er menn ætla eftir nokkuð ófullkomnum mælingum. Það var væg hláka fyrstu tvo dagana en síðan stöðug frost og hörkufrost dagana 21. til 27., oftast yfir tíu stig og allt niður í fimmtán. Síðustu tvo daga mánaðarins hlýnaði loks og var hitinn þá tvö til fimm stig. Að kvöldi hins 14. fórust tvö skip við landið og með þeim níu manns.
Samkvæmt mælingum sem gerðar voru á Akureyri var nóvember 1807 í álíka kuldaflokki þar og nóvember 1910, 1973 og 1996.
1841 Aðeins var athugað með mælitækjum í Reykjavík. Þar er þetta næst kaldasti nóvember sem mælst hefur, meðalhitinn -3,3 stig. Snjóasamt og frosthart var víða í þessum mánuði. Milt var þó fyrstu vikuna en síðan látlaus frost. Samkvæmt Brandsannál var samt stillt veður í Húnavatnssýslum 3.-13. en eftir það gerði landnyrðings hörkukafla. Hlánaði þá ekki í Reykjavík til mánaðarloka. Og fór frostið þar í tíu stig eða meira alla dagana frá 14. til 19. Síðan var nokkru mildara þó kalt væri.
1861 Árbók Reykjavíkur segir að í hálfan mánuð hafi gert harðan frostakafla, svo að ganga mátti á ís yfir Skerjafjörð, milli Skildinganess og Bessastaðaness. Þetta var í síðasta þriðjungi mánaðarins. Fyrstu dagana var frostlaust um hádaginn í Stykkishólmi en næturfrost. Eftir fyrstu vikuna voru þar frost nema hvað smá hláka var 16.til 18. Undir mánaðarlok voru hörkufrost allt niður í 18 stig þ. 26. og -15,5 daginn áður. Meðalhitinn var -2,8 stig sem gerir mánuðinn þann kaldasta í Stykkishólmi síðan athuganir þar hófust í nóvember 1845.
1837 Þetta var frostamánuður mikill í Reykjavík, en aðeins þar var athugað á landinu, en dálitlar hlákur komu dagana 6. og 7. og 13. til 16. og einnig hlánaði brot úr degi þ. 25. Hiti fór í 4 stig þann 14. en frostið í 12 stig þann 21. Af Árferði á Íslandi má ráða að hafi verið snjólétt á suðurlandi en Brandsannáll talar um kaföld og hríðarbylji í Húnavatnssýslum.
Eins og áður segir er í þessum pistlum reynt að meta meðalhita landsins frá 1866. En hér er til viðmiðunar, en þó helst til skemmtunar, tillaga að röð allra köldustu nóvembermánaða alveg frá aldamótunum 1800: 1824, 1841, 1861, 1837, 1807, 1821, 1869, 1816, 1973, 1880, 1887, 1825, 1836, 1838, 1866, 1996. Eftir allra köldustu mánuðina fer þessi röð líklega að verða ónákvæm og vafasöm miðað við kalda síðari mánuði þegar veðurstöðvar voru orðnar fleiri en þetta er hér sett fram til að árétta hvað nóvemberkuldar voru algengir frameftir nítjándu öldinni.
1869 (-2,9) Þetta er þá kaldasti nóvember sem mælst hefur frá 1866 ef einungis er miðað við Reykjavík og Stykkishólm saman, en þetta voru þá einu stöðvarnar sem mældu, og reynt að láta þessa staði vera fulltrúa fyrir allt landið. Hláka var fyrstu þrjá dagana en síðan var kuldakafli alveg til hins 19. að undanskildum hinum 12. og 15. Dagana 20. og 21. var líka dálítil hláka með rigningu en síðan var mjög kalt síðustu daga mánaðarins og að morgni þess 28. var 11 stiga frost í Stykkishólmi. Hlýjast var þar 4,8 stig þ. 12. Seinast í mánuðinum var hafís kominn að Melrakkasléttu. Af Árbók Reykjavíkur virðist mega ráða að mikill snjór hafi verið í Reykjavík og hann var einnig mikill á suðurlandi að sögn Þjóðólfs 9. desember. Blaðið skýrir frá því 26. janúar 1870 að í nóvember hafi mestur hiti í bænum orðið um 8 stig þ. 2. en mest frost um 14 stig þ. 28.
Vísindatímaritið Nature hóf göngu sína þann fjórða í Lundúnum en í Bandaríkjunum fóru í þessum mánuði að birtast daglegar fréttatilkynningar um veður.
1973 (-2,4) Mánuðurinn er sá kaldasti sem komið hefur síðan 1869 en var líklega víða svipaður honum að hitastigi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, Vatnsskarðshólum í Dyrhólahreppi og Reykjanesvita var meðalhitinn 0,0 stig en -8,3 stig á Grímsstöðum, -8,2 á Brú á Jökuldal og -8,0 á Hveravöllum. Á Vöglum í Fnjóskadal var meðalhitinn -7,8 stig og er það minnsti meðalhiti í nóvember á laglendi á Íslandi. Allra kaldast var þó í Sandbúðum á Sprengisandi, -10,0 stig. Norðanátt var vitskuld ríkjandi. Á norðausturlandi var sums staðar gríðarleg úrkoma og það var líka úrkomusamt á suðurlandsundirlendi en úrkoma í minna lagi á austfjörðum, suðausturlandi, við Faxaflóa og víðar á vestanverðu landinu. Í Grímsey hefur aldrei mælst meiri úrkoma í nóvember 182,2 mm. Snjólag á landinu var 68%, það fimmta mesta. Í Reykjavík, þar sem alauðir dagar voru sex, var jörð þó aldrei talin alhvít og sömu sögu er að segja um einstaka staði á suðurlandsundirlendi og við Faxaflóa. Í byggðum á norðanverðu landinu voru alhvítir dagar 20-26. Einna mestur snjór var á norðvestanverðum Vestfjörðum, sunnan Djúps, og í Fljótum. Hláka var víða fyrstu þrjá daga mánaðarins og aftur dagana 6. til 9. en annars voru nær stöðug frost þó örstuttir hlákublotar kæmu stundum inn á milli. Hiti komst aðeins einu sinni yfir tíu stig á landinu, 10,6 á Kambanesi þ. 7. Miklir kuldar voru dagana 13. til 19. og eftir tveggja daga smáhláku eftir það kom annað kuldakast og enn þá harðara. Stóð það til mánaðarloka fyrir norðan og austan en síðustu fjórir dagarnir voru mildari á suðvesturhorninu. Í fyrra kastinu fór frostið við Mývatn þ. 17. í -26,0 stig í bjartviðri og 24 stig á Grímsstöðum. Sólarhringsmeðaltalið á Grímsstöðum hefur verið vel yfir 20 stiga frost. En þennan dag var meðaltal sólarhringsins -15,5 stig á Akureyri og hefur ekki mælst lægra nokkurn nóvemberdag, a.m.k. eftir 1948. Á hádegi var frostið þar 17 stig í glaðasólskini. Dagurinn á undan og dagarnir 25. til 27. settu einnig sólarhringsmet í kulda á Akureyri. Mesta frost, -27,1 stig, sem mælst hefur á mannaðri veðurstöð í nóvember, varð í seinna kuldakastinu, á Staðarhóli, skráð að morgni þess 24. en hefur i raun komið kvöldið áður því kl. 21 var frostið þar -24,8 stig en níu stig kl. 9 næsta morgun. Á Grímsstöðum fór frostið i -26,5 stig. Mun sá 23. vera kaldasti nóvemberdagur á landinu eftir a.m.k. 1948 og líklega miklu lengur. Nokkrir aðrir dagar teljast með allra köldustu nóvemberdögum sem komið hafa. Það er samt merkilegt nokk að þessi kaldi mánuður setti aðeins eitt kuldamet í Reykjavík fyrir lægsta sólarhringsmeðalhita, þ. 25. þegar meðalhitinn var -9,5 stig. Auk stöðva á norðausturlandi komu mánaðarkuldamet lágmarkshita á Hveravöllum (-22,1°), sums staðar á Vestfjörðum, Skagafirði og Kirkjubæjarklaustri. Á Klaustri mældist líka mesta snjódýpt þar í nóvember, 56 cm þ. 20. Hæð var oftast í mánuði þessum yfir norðaustur Grænlandi en lágþrýystisvæði gróf um sig yfir norðanverðum Norðurlöndum. Loftið yfir landinu var oft komið frá heimskautasvæðum Kanada norðvestan við Grænland (sjá kort af 500 hPa fletinum). Þykktin var 70-100 metra undir meðallagi en þó líklega ekki eins lág sem í kalda nóvember 1996. Kuldinn í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m var aftur á móti einstaklega mikill við landið eins og kortið sýnir. Kalt var einnig yfir Evrópu en hlýtt vestan við Grænland og á hafinu suðvestur af Íslandi. Á eftir þessum kuldalega nóvember kom svo þriðji kaldasti desember. Fyrir neðan sést meðalhiti stöðva í þessum kalda nóvember.
1880 (-2,3) Veturinn (des-mars) 1880-1881 er sá kaldasti sem mælst hefur á Íslandi. Auk þess eru desember og mars þeir köldustu sem mælst hafa, janúar sá næst kaldasti og febrúar sá kaldasti eftir 1866. Nóvember þetta ár er síðan sá þriðji kaldasti eftir 1865 og kom á eftir sjötta kaldasta október. Aldrei hefur mælst kaldari nóvember í Grímsey, -3,8 stig. Fyrstu dagana var hláka sunnanlands en síðan látlausar norðlægar áttir til 21. en ekki var hvasst. Oft snjóaði. Í Reykjavík fór að snjóa aðfaranótt þess 15. Mestu kuldarnir voru þ. 13. og 14. Síðari daginn fór frostið í -13,5 stig í Reykjavík. En dagana 13.-15 mældist þar meira frost en þá daga hefur nokkru sinni mælst þar í nóvember. Mest frost á landinu varð -24,0 stig á í Saurbæ í Eyjafjarðardal og -20,5 stig á Valþjófsstað i Fljótsdal en ekki var byrjað að mæla á Hólsfjöllum eða Möðrudal. Eftir þann 21. kom viku kafli með hlýrra veðri en kólnaði svo aftur tvo síðustu daga. Mestur hiti á landinu varð 8,6 stig á Eyrarbakka, líklega fyrstu dagana í mánuðinum. Úrkoma var mjög lítil í Stykkishólmi, í minna lagi í Vestmannaeyjum en yfir meðallagi á Teigarhorni. Það var alla jafna hæð yfir Grænlandi en lægðasvæði ekki aðeins við Noreg heldur einnig suðvestur af landinu. Kortið sýnir meðallag loftþrýsting við sjávarmál paskölum. Ef slegin eru á þessu korti af síðustu tvö núllin kemur hann út í hektópaskölum eða millibörum eins og við erum vönust. Jónas Jónassen lýsti svo veðurfarinu þennan mánuð í Þjóðólfi 11. desember:
Veðurátta hefir verið þennan mánuð fremur óstöðug og um tíma (frá 13.-18.) mjög köld; 2 fyrstu dagana var veður bjart, austankaldi; 3. hvass á sunnan með mikilli rigningu, en lygn að kveldi og sama veður 4. en 5. var logn að morgni og dimmviðri en síðara hluta dags hvass á landnorðan með krapaslettingi og urðu öll fjöll héðan að sjá alhvít; 6. hægur á austan með nokkurri snjókomu, að kveldi rokinn á norðan; 7. hvass á norðan; 8. blindbylur og hvass á landnorðan að morgni, að kveldi genginn í landnorður með rigningu og síðan á vestan; 9. vestanútnorðan með brimhroða, en hægur allan daginn;10. og 11. hæg austangola með rigningu; 12. aptur hvass á norðan með blindbyl; 13. hvass á norðan; 14.-20. hægur við austanátt, optast bjart veður; 21. hvass mjög á landnorðan með rigningu, að kveldi genginn í útsuður, hægur; 22.-27. hæg austanátt, opt logn; 28. -29. nokkuð hvass á norðan (með byl til sveita); 30. logn og fagurt veður.
1887 (-2,3) Þetta er kaldasti nóvember sem mælst hefur í Hreppunum, -4,7 stig á Stóranúpi og mældist þar frost alla dagana. Í Vestmannaeyjum hefur aðeins orðið kaldara 1919 og á Teigarhorni 1973. Frostið fór í -20,2 stig í Möðrudal en hlýjast varð 9,5 stig í stuttri hláku þann 23. á Teigarhorni en hitatalan var skráð á næsta dag. Norðan eða norðaustanátt var flesta daga, en stundum vestlæg átt, og oft var bjart á suðurlandi vel fram eftir mánuðinum en síðan var meira skýjað. Úrkoma var afar lítil og hefur sjaldan verið minni í nóvember. Í Stykkishólmi var nokkur úrkoma 13.-26. en aðra daga alveg þurrt. Er þetta næst þurrasti nóvember á Teigarhorni, aðeins 9,3 mm sem féllu á átta dögum. Í Reykjavík var hæglætis veður allan fyrri helming mánaðarins með frosti um nætur nema hvað hann rauk upp þann annan með norðan skafrenningi en snjór var fyrir og þann 13. hvessti aftur um stund. Kaldast í bænum varð -10 stig þ. 18. Hæð var yfir Grænlandi þennan mánuð og hæðaarhryggur frá henni yfir Ísland en í Barentshafi var lægðasvæði og lægðardrag þaðan alveg suður um Bretlandseyjar. Eftir þessum mánuði kom fimmti kaldasti desember. Kortið sýnir meðallag loftþrýstings í paskölum. Jónassen lýsti tíðarfarinu í höfuðstaðnum í nokkrum tölublöðum Ísafoldar:
[Fyrsti snjór haustsins, ökladjúpur, hafði fallið að morgni 31. okt.] ... Í dag 1. nóv. hægur austanvari, rjett logn, bjartur fyrir hádegi. (2. nóv.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer logn allan daginn, en seint um kveldið rauk hann (kl. 10 -11) allt í einu á norðan með skafrenningi og var hvass á norðan daginn eptir (3.). Síðan hefir optast verið logn eða hægur austankaldi og bjart veður optast nær. Nokkurt frost var alla vikuna, þar til hann að kveldi h. 6. gekk til linunar og ýrði regn úr lopti, svo mest allur sá snjór, sem var á jörðu, tók af, svo nú er hjer aptur auð jörð. Í dag 8. blæja logn og fegursta veður; loptþyngdarmælir stendur mjög hátt og hreyfir sig ekki í dag. (9. nóv.) - Mestalla vikuna má heita að verið hafi logn dag og nótt þangað til um miðjan dag h. 13. að hann gekk til norðurs og var hvass úti fyrir; en eigi hjelzt það lengur en til kvelds sama dags (kl. 8-9) og var þá komið logn aptur. Daginn eptir (14.) var hjer hægur austankaldi og gekk síðari part dags til landsuðurs (Sa) og rigndi litið eitt. Í dag hæg austanátt með hægri rigningu. Sunnudagskveldið 13. þ. m. kl. 9,35 mínútur var hjer í bænum vart viö einn snöggan jaröskjálptakipp. Jörð er hjer nú hjer um bil al-auð. (16. nóv.). - Fyrsta dag viku þessarar var hjer hægur sunnankaldi, dimmar í lopti með rigningu við og við, og daginn eptir (17.) var hjer logn til kl. 2 e. m., er hann gekk til norðurs og varð bálhvass eptir kl. 4, og hjelzt sama veðrið næsta dag; á laugardaginn var komin austanátt hæg með ofanhríð og gerði blindbyl með kveldinu, síðan hvass á austan en bjartur; síðan (21.) logn og bezta veður allan daginn, þar til hann aðfaranótt h. 22. gekk til suðurs, dimmur með nokkurri rigningu í dag (22.), og er heldur að hvessa er á daginn líður, mjög dimmur í lopti. Loptþyngdamælir benti í gærkveldi seint, rjett um miðnætti, á bezta veður (30,5) og skyldu menn því hafa ætlað, að veðrið yrði hið bezta með morgninum og í dag (22.). Almenningur fór á sjó, en eins og opt er, gjörði hvassveður, dimmviðri með versta útliti, svo allir urðu að fara þegar í land; - enn ljósasti vottur þess að sjómenn mega með engu móti treysta loptþyngdarmælinum. (23. nóv.). - Umliðna viku hefir optast verið hæg norðanátt hjer, en hvass til djúpa, bjart veður, með talsverðu frosti. Enginn snjór hefir fallið, svo hjer er alauð jörð. Í dag 29. hægur að morgni á austan og dimmur i lopti ; hvesti er á daginn leið af landnorðri. (30.nóv.).
1866 (-2,0) Nóvember þessi var ekkert óskaplega kaldur í Stykkishólmi, -0,7 stig, en í Reykjavík er hann talinn kaldastur allra nóvembermánaða eftir 1841, -2,9 stig. Mælingarnar voru þar ekki fyrsta flokks á þessum árum og mér finnst einkennilegt að mánuðurinn hafi verið meira en tveimur stigum kaldari en í Stykkishólmi. Er þetta fremur vandræðalegt. Í Stykkishólmi gerði frostið sig reyndar oft heimakomið en inn á milli voru dálitlar hlákur, mestar 20.-23. og 10.-14. og svo í mánaðarlok. Frost voru því aldrei stöðug og langvinn í þessum mánuði. Það gekk mikið á með útsynnings umhleypingum með éljagangi og blotum á víxl. Hlýjast varð í Stykkishólmi 8,0 stig þ. 21. en kaldast -12,3 stig þ. 15. Meðalhitinn á Siglufirði var kringum -3,1 stig og talinn svipaður á Akureyri. Þar var þó nóvember 1861 enn þá kaldari en 1866 svo munar heilli gráðu. Úrkoma var reyndar mæld á Akureyri í þessum nóvember 1866 og reyndist 63 mm. Í Reykjavík sáust mikil stjörnuhröp að kvöldi þ. 13. og skrifaði Páll Melsted um þau í Þjóðólf þann 27. Þá var frost nokkuð og föl á jörð en bjart. Stóðu loftsýnir þessar í norðaustri í nokkrar klukkustundir. Samkvæmt Þjóðólfi var hlýjasta vikan í bænum 23.-30. en sú kaldasta 14.-20. Mestur hiti í Reykjavík mældist um 3 stig þ. 28. segir blaðið, en mesta frost 11 stig þ. 15.
1996 (-2,0) Aðeins einn nóvember hefur orðið kaldari en þessi síðan 1865 í Reykjavík og það er einmitt vandræðamánuðurinn 1866. Tiltölulega kaldast var þó á Hólsfjöllum og í Möðrudal, sex stig undir meðallagi og var meðalhitinn -9,1 stig í Möðrudal. Telst það vera lægsta tala sem nokkur stöð í byggð hefur fengið á Íslandi sem meðalhita í nóvember. Mildast var tiltölulega á norðvestanverðu landinu. Þrátt fyrir kuldann var mánuðurinn ekki talinn óhagstæður af veðurathugamönnum. Hann er sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík, 79 klst eða 40 stundir umfram meðallagið 1961-1990. Enn meira sólskin var þó á Hólum í Hornafirði, 81,3 klst., Reykjum í Ölfusi, 85 klst, og Sámsstöðum, 87,3 klst, og er það mesta sólskin sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í nóvember. Úrkoma var svo lítil að þetta er með þurrustu nóvembermánuðum. Fyrstu 9 dagana var hægviðri og mjög sólríkt á landinu en afar kalt, má segja að ekki hafi hlánað allan tímann í Reykjavík (hámark + 0,1°) og sá annar og þriðji settu þar dagshitamet fyrir lægsta sólarhringsmeðalhita. Frostið fór í -24,3 stig þ. 4. á Grímsstöðum. Eftir þetta komu sex hlýir dagar og fór hitinn í 15,6 stig þann 14. á Seyðisfirði og 14,8 á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Hvasst var þennan dag og 12 vindstig í Litlu-Árvík. Kalt var á ný seinni hluta mánaðarins og fór frostið í -26,9 stig þ. 24. í Möðrudal og -26,4 í Reykjahlíð við Mývatn. Á sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga í Mývatni mældist frostið -30,4 stig þennan dag og -30,1 stig daginn áður. Lægri talan er lægsta tala sem hægt er að finna um lágmarkshita á landinu í nóvember. Þessi mánuður gerði það reyndar ekki endasleppt í kuldanum. Þegar sjálfvirkar stöðvar eru teknar með voru alls ein níu met yfir dagshitamet lágmarkshita sett á landinu, flest á Neslandatanga. Ekki hlánaði á mönnuðum stöðvum fjóra daga í röð, 20.-23. og má slíkt heita einsdæmi þegar enn er ekki nema nóvember. Veðurlag á Íslandi er mjög breytilegt og sjávarlegt og það er alveg furðulega sjaldgæft að ekki hláni neins staðar marga daga í röð. Slíkir dagar eru alltaf sárafáir. Snjólag landinu var 73%. Snjólétt var vestanlands en norðanlands og austan var sums staðar talsverður snjór og sömuleiðis syðst á landinu í mánaðarbyrjun. Eitthvert hið mesta Skeiðarárhlaup kom dagana 5.-7. í kjölfar eldgoss í Vatnajökli og var sandurinn ófær í 22 daga.
Þykktin yfir landinu og kringum það var niður úr öllu valdi eins og kortið sýnir, allt upp í hundrað metra undir meðallagi. Mjög hlýtt að tiltölu var í A-Evrópu og norður og austur um allt Rússland í þessum mánuði.
Clinton var endurkosinn forseti Bandaríkjanna þ. 5. Tvær fluvélar rákust á yfir Indlandi þ. 12. og fórust þar 349 í mesta árekstrarslysi flugvéla sem um getur.
1919 (-1,9) Í Vestmannaeyjum er þetta kaldasti nóvember sem mælst hefur. Þar var þó hláka fyrstu vikuna en síðan oftast frost. Þann fyrsta fór hitinn í 8,1 stig í Eyjum sem var mesti hiti mánaðarins og hefur landshámark aðeins einu sinni verið lægra í nóvember og var það árið 1910. Hægviðrasamt var á landinu þó kalt væri og iðulega lítið skýjað á suðurlandi. Norðanátt var ríkjandi. Af takmörkuðum mælingum að dæma má ætla að þetta sé einn af allra þurrustu nóvembermánuðum. (Litlu munaði að veðurathuganir á landinu legðust alveg af á þessu fyrsta ári sjálfstæðisins). Alveg sérstaklega var þurrt fyrir norðan. Úrkoma á Möðruvöllum í Hörgárdal var aðeins 7 mm. Þar mældist einnig mesta frostið í mánuðinum, -17,7 stig þ. 21. Sólarstundir á Vífilsstöðum voru 49. Aftaka norðanveður var í Reykjavík þ. 24. og fórst einn maður af völdum þess. Þá var stórhríð fyrir norðan og austan. Á Ísafirði urðu skemmdir á bryggju. Ekki aðeins var kalt hér á landi þennan mánuð heldur einnig í Evrópu og er þetta t.d. kaldasti nóvember sem mælst hefur í Danmörku. Hæðasvæði var yfir Rússlandi sem beindi köldu lofti til Evrópu. Einnig var hæð yfir Grænlandi sem náði stundum suður um Ísland. Kortið sýnir frávik hitans frá meðallagi í 850 hPa fletinum í um 1400 metra hæð.
Þann sjötta birtist frétt í breska dagblaðinu The Times um niðurstöður mælinga á sólmyrkva sem staðfestu afstæðiskenningu Einsteins. Varð hann heimsfrægur eftir þetta en hafði þangað til ekki verið almenningi kunnur.
1969 (-1,8) Þetta er snjóþyngsti nóvember sem er á skrá. Snjólag var 80% á landinu. Aðeins einu sinni hefur hámarkshiti mælst lægri í Reykjavík í nóvember, 5,6 stig en lægstur var hann 5,5, stig árið 1878. Snjólagið í borginni var 60% og alautt í aðeins einn dag en alhvítt í 12 daga. Sérlega hart var á suðurlandi að tiltölu og er þetta kaldasti nóvember á Fagurhólsmýri og sá næst kaldasti í Hreppunum. Á Þingvöllum, Jaðri í Hrunamannahreppi og reyndar einnig í Vík í Mýrdal var alhvítt allan mánuðinn. Í kalda nóvember 1973 var miklu snjóléttara á þessum slóðum. Mest snjódýpt mældist 84 cm þ. 28 á Sandhaugum í Bárðardal. Úrkoma var samt svo lítil að þetta er með þurrustu nóvembermánuðum, líklega einn af þeim fimm þurrustu. Var úrkoman minni en helmingur af meðalúrkomu á landinu en þó meiri en það á norðaustanverðu landinu og tiltölulega mest á Húsavík. Fyrstu daga mánaðarins var oftast norðanátt með frosti og éljum nyrðra. Norðaustanóveður gekk yfir dagana 9. og 10. og urðu víða miklar skemmdir og einn maður varð úti. Mikil úrkoma var þessa daga frá Vestfjörðum til Austfjarða en bjart á suðurlandi. Eftir óveðrið kólnaði mjög og voru dagarnir 12.-15. einhverjir þeir köldustu sem komið hafa eftir árstíma síðustu áratugi og endaði þetta kuldkast á því að frostið fór í -22,0 stig á Grímsstöðum þ. 15. Hiti komst aldrei hærra í mánuðinum á landinu en í 10,2 stig og var það í þrjú skipti á austfjörðum í smáblotum. Annars var norðanáttin allsráðandi en var rofin af skammvinnum suðvestanáttum. Óvenjulega lágur þrýstingur var yfir Lofóten við Noregsstrendur. Kortið sýnir ástandið í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð. Þykktin yfir landinu var frá 50 metrum undir meðallagi vestast upp í 80 metra undir því austast á landinu. Mesta þynnkan náði langt norður í höf og á Jan Mayen var þetta kaldasti nóvembermánuður sem þar hafði þá mælst en metið var slegið strax 1971. Þetta var á hafísárunum.
Samtök Frjáslyndra og vinstri manna voru stofnuð þ. 15. Þau komu mönnum á þing og lifðu nokkur ár. Tunglferð Appollo 12 stóð yfir.
1910 (-1,7) Á Vestfjörðum er þetta kaldasti nóvember sem mælst hefur ásamt nóvember 1973 en sá næst kaldasti á Akureyri. Fremur var hægviðrasamt. Breytilegt veður var fyrsta þriðjunginn en mjög kalt um miðbikið, allt niður í -24,4 stig þann 13. á Grímsstöðum. Síðasta þriðjung mánaðarins hlýnaði mikið og var þá oftast hláka. Miklar úrkomur voru á austfjörðum 24.-26. í austanátt og í Vestmannaeyjum mældust 56,4 mm að morgni hins 23. Annars var fremur þurrt, einkanlega á vesturlandi og úrkomudagar fáir. Hlýjast varð 8,0 stig í Vestmannaeyjum dagana 24. og 25. og er þetta reyndar minnsti hámarkshiti á landinu í nokkrum nóvember. Yfir Grænlandi var jafnan hæð en lágur þrýstingur yfir Norðursjó og lægðadrög langt norður í höf en kortið sýnir hvernig þetta kom út í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð.
Rússneska skáldið fræga, Leo Tolstoj, lést þann 10.
1923 (-1,6) Þurrviðrasamt var í þessum nóvember og alls staðar var úrkoman undir meðallagi. Hugsanlega nær mánuðirinn jafnvel inn á topp tíu listann yfir þurrustu nóvembemánuði. Veðrátta sam samt talin óhagstæð. Þetta er næst kaldasti nóvember í Vestmannaeyjum ásamt 1887 og þriðji kaldasti í Hreppunum. Norðanáttinn var nánast linnulaus og fremur sólríkt var í Reykjavík, 47 klst. en snjó var þar þó talsveður. Kaldast var um miðjan mánuð og mældust -20,4 stig á Grímsstöðum þ. 14 og 15. Dagarnir 13. til 15. eru líklega hinir köldustu sem komið hafa þá daga í Reykjavík eftir að Veðurstofan var stofnuð. Aðeins tvo daga var veruleg hláka á landinu, 9. og 10. og síðari daginn mældust 10,2 stig á Teigarhorni. Í aftaka norðanveðri og sjógangi þann 7. fórst vélbátur frá Bolungarvík með fimm mönnum undan Stigahlíð. Kalt var í þessum mánuði á Bretlandseyjum og í vestast í Evrópu. Suðvestur og vestur af landinu var oft hæðasvæði mikið en óvenjulega lágur þrýstingur austur af landinu. Kortið sýnir frávik hæðar 500 hPa flatarins kringum landið.
Þann 8. gerði Adolf nokkur Hitler tilraun til valdaráns á bjórkrá í München. Byltingin miskeppnaðist herfilega og var hinn seinheppni Adolf síðar dæmdur í fangelsi en sat þar ekki lengi en skrifaði þar illlræmda bók um sína baráttu. Í mánaðarlok var þýska markið fallið niður úr ölu valdi. Hér á landi var stéttabaráttan að ná sér á strik og þann 11. fór fram svokallaður Blöndahlsslagur milli verkamanna og útgerðarmanna í Reykjavík.
Nánari tölur um þessa mánuði er eins og venjulega að finna í fylgiskjalinu.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 11.12.2011 kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.11.2011 | 18:42
Hlýjustu nóvembermánuðir
Eins og áður er meðalhiti stöðvanna níu, sem við er miðað, í sviga aftan við árið. Meðaltal þeirra 1961-1990 er 0,8 stig.
1945 (4,9) Hver skyldi trúa því að nóvember gæti orðið hlýrri en gengur og gerist í maí? Það gerðist eigi að síður í Reykjavík árið 1945. Þá var Veðurstofan í Landssímahúsinu við Austurvöll og hitamælaskýlið var á þaki hússins. Mældist þar meðalhiti mánaðarins 6,5 stig. Meðalhitinn í maí 1961-1990 í Reykjavík var 6,4 stig. Þetta er langhlýjasti nóvember sem komið hefur í borginni. Hiti mánaðarins telst vera 6,1 stig ef hann er miðaður við núverandi staðsetningu Veðurstofunnar við Bústaðarveg. Miðað við landið í heild er þetta hlýjasti nóvember sem mælst hefur og auk þess sá hlýjasti á stöðvum frá Austfjörðum vestur og norður um að Ísafjarðardjúpi og einnig sums staðar í Húnavatnssýslum. Á Loftssölum í Dyrhólahreppi var meðalhitinn 6,8 stig en 6,7 í Vík í Mýrdal og er þetta hæsti meðalhiti sem mælst hefur á íslenskum veðursstöðvum í nóvember. Meðaltal lágmarshita var 5,5 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og hefur ekki orðið hærra á íslenskri veðurstöð í nóvember. Þar mældist hámarkshiti 10,4 stig þ. 10. og hefur aldrei orðið hærri í nóvember og sama dag mældist nóvembermetið á Þingvöllum, 11,6 stig. Daginn eftir fór hitinn í Reykjavík í 11,5 stig sem var mánaðarmetið þar áratugum saman. Á Hamraendum í Dölum fór hitinn í 12,7 stig þ. 12. og hefur ekki mælst hærri í héraðinu í nóvember og ekki heldur í Miðfirði þar sem hitinn í Núpsdalstungu fór í 12,5 stig þ. 9. Mesti hiti á landinu mældist hins vegar 15,5 stig á Sandi í Aðaldal þ. 9.
Veðráttan segir svo: Tíðarfarið var einmuna gott, hlýindi svo mikil að blóm sprungu út, og var kúm beitt fram yfir miðjan mánuð." Það var látlaus suðlæg átt fyrstu tæpu þrjár vikurnar. Eftir það gerði skammvinnt kuldakast en hlýnaði svo á ný í lok mánaðarins. Meðalhiti fyrstu 24 dagana var 7,9 stig í höfuðstaðnum. Snjólagsprósentan á landinu allan mánuðinn var 16 en meðaltalið frá 1924 er 42%. Hvergi var alautt allan mánuðinn en á fáeinum stöðvum varð aldrei alhvítt. Síðasta daginn var reyndar mjög víða snjór og frostið komst niður í 17 stig á Grímsstöðum. Úrkoman var um 22% umfram meðallagið 1931-2000 og var mest 344 mm í Kvígyndisdal við Patreksfjörð. Á Blönduósi og nágrenni hefur aldrei mælst meiri úrkoma í nóvember, 181,4 mm. Í Stykkishólmi er þetta sjötti úrkomusamasti nóvember frá 1856. Sólarlítið var syðra en suðaustanátt var yfirgnæfandi og er þetta fjórði sólarminnsti nóvember í Reykjavík. Fremur sólarlítið var einnig fyrir norðan. Á undan þessum mánuði kom reyndar níundi hlýjasti október.
Í þessum mánuði má segja að samfellt hæðasvæði með kuldum hafi ríkt alla leið frá Rússlandi og vestur til Bretlandseyja en yfir gervöllu Norður-Atlandshafi austanverðu voru hlýindi en tiltölulega mest á Íslandi. Hlýtt var einnig í Norður-Skandinavíu nema við sjóinn allra nyrst. Efra kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins yfir landinu en frávikið upp á við var geysimikið nærri landinu og þykktin upp í mitt veðrahvoldið nun hafa verið sú mesta sem þekkist í nóvember þó ekki sé hægt að sýna það hér. Neðra kortið birtir frávik hita í þessum 500 hPa fleti í um 5 km hæð. Bæði kortin eru falleg og glæsileg á að líta! Fyrir neðan sést svo á korti meðalhitinn á landinu í þessum maílega nóvember.
Þetta var sem sagt mánuður kraftaverkanna og þ. 4. varð enda lamaður maður á elliheimilinu Grund skyndilega alheill! Daginn áður var hin vinsæla 9. sinfónía Shjostavítsj frumflutt í Leningrad. Þann 8. efndu Sjálfstæðismenn í Reykjavík til prófkosninga. Lýðveldið Júgóslavía var stofnað þ. 29.
2002 (4,5) Þessi mánuður kemst helst á spjöld veðursögunnar fyrir það að þá mældist mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í nokkrum mánuði, 971, 5 mm á Kollaleiru í Reyðarfirði sem er talsvert meira en ársúrkoma er að meðaltali í Reykjavík! Á Hánefsstöðum í Seyðisfirði mældust 907,7 mm. Skriðuföll urðu á austurlandi. Á Fagurhólsmýri mældist meiri úrkoma en í nokkrum öðrum nóvember frá 1922, 403 mm og á Hólum í Hornafirði frá 1931, 672,4 mm. Aftur á móti mældist úrkoman aðeins 3,1 mm á Stafni í Húnavatnssýslu. Austanátt var vitaskuld tíðasta vindáttin og mun víst hafa verið meiri en í nokkrum öðrum nóvember. Úrkoman var yfirleitt undir meðallagi á vesturhelmingi landsins. Snarpt kuldakast kom um miðjan mánuð og stóð í fjóra daga og fór þá frostið í -18,5 stig í Möðrudal þ. 17. Dró þetta mánaðarmeðalhitann talsvert niður. En þess gætti lítt syðst á landinu þar sem meðalhiti mánaðarins var 6,5 stig í Vík í Mýrdal og 6,3 á Vatnsskarðshólum. Mestur hiti varð á Lambavatni á Rauðasandi 13,6 stig þ. 22. Þetta er nóvembermet á stöðinni og óvenjulegt er að mánaðarhámark landsins í nóvember mælist á þessum slóðum. Á sunnanverðu Snæfellsnesi, á Bláfeldi, fór hitinn þ. 28. í 11,9 stig og hefur aldrei mælst hærri á veðurstöðvum á þessu svæði frá 1955 en að vísu var allmikið hringl þar á stöðvum eftir um 1980. Á vesturlandi var talin einmunatíð í austanáttinni. Alautt var í Reykjavík, á sunnanverðum austfjörðum og víða á suðausturlandi og suðurlandi. Snjólag var 12% og hefur aðeins einu sinni orðið lægra, 1960. Desember sem fór í hönd reyndist einnig vera sá næst hlýjasti sem mælst hefur eins og þessi nóvember var að sínu leyti. Mjög kalt var á Norðulöndum og NA-Evrópu í þessum mánuði en hlýtt á Íslandi og Grænlandi. Háloftahæð var yfir Norðurlöndum og norður í íshaf en lágur þrýstingur suðvestur af Íslandi.
1956 (4,3) Frá Skagafirði og austur á firði er þetta hlýjasti nóvember sem mælst hefur og sá þriðji yfir landið. Á Siglunesi var meðalhitinn 5,1 stig og er það mesti meðalhiti í nóvember á norðlenskri veðurstöð. Afar hlýtt var dagana 6.-8. og komst hitinn á Dalatanga í 17,1 stig þ. 6. Ekki var síður hlýtt næsta dag sem mun vera einn allra hlýjasti nóvemberdagur að meðalhita á landinu síðan a.m.k. 1949. Í Reykjavík er þetta næst hlýjasti nóvember en þrátt fyrir hlýindin var snjór þar á jörð í 8 daga en aldrei þó mikill. Snjólagsprósentan á landinu var nokkuð há miðað við hlýindin, 24%. Mestur var meðalhitinn 5,8 stig á Vatnsskarðshólum en 5,7 í Fagradal í Vopnafirði og er það mesti meðalhiti á veðurstöð í nóvember á norðaustanverðu landinu. Í Fagradal var úrkoman tiltölulega minnst en sunnan og suðvestanáttir voru tíðastar vindátta. Mánuðurinn var auðvitað talinn óvenju hagstæður um austanvert landið en óhagstæður vestan lands vegna storma og mikillar úrkomu. Þann 24. var stórviðri um allt land af suðvestri. Slitnuðu þá fimm vélbátar frá bryggju í Reykjavík. Talsvert kólnaði síðustu dagana og komst frostið í -14 stig þ. 27. og 28. í Möðrudal. Mikið vestanveður var síðasta daginn og barst þá sjávarselta langt inn í landi.
Þetta er með úrkomumestu nóvembermánuðum, líklega einn af þeim fimm votustu. Sérstaklega var úrkoman mikil á suður-og vesturlandi, einkanlega í Borgarfirði og sums staðar á Vestfjörðum og suðurlandsundirlendi. Í Síðumúla í Hvítársíðu mældist mesta nóvemberúrkoma sem þar mældist 1934-1985, en árið 1993 fuku flest úrkomumet nóvembers í héraðinu á öðrum stöðvum. Í Kvígyndisdal við Patreksfjörð mældist meiri úrkoma en þar mældist í nokkrum mánuði 1928-2004, 466,1 mm. Á Þórustöðum í Önundarfirði mældist mesta nóvemberúrkoman á árunum 1955-1996, 348,3 mm. Af Sámsstöðum í Fljótshlíð er sömu sögu að segja 1928-1998, 324,5 mm. Ekki hefur heldur mælst meiri úrkoma í nóvember í Hrútafirði á fáeinum stöðvum sem þar hafa verið. Í Stykkishólmi er þetta þriðji úrkomusamasti nóvember. Æði var mánuðurinn drungalegur syðra og er þetta sólarminnsti nóvember í Reykjavík með aðeins 4,6 sólarstundir. Ekki var aðeins hlýtt á Íslandi þennan mánuð heldur norður um allt íshafið og til heimskautastrandar Rússlands en kuldi mikill í Evrópu og allt til Norðvestur- Afríku. Kortið (sem stækkar vel ef smellt er þrisvar á það) sýnir frávik hæðar 500 hPA flatarins á norðurhverli en það mynstur sem kortið sýnir er nokkuð líkt því mynstri sem kort um hitafrávik sýnir og þekur blái liturinn í stórum dráttum köldu svæðin en sá guli og rauði hlýju svæðin þó hlýjan á Íslandi komi ekki sérlega vel fram á þessu hæðarkorti. Landið var klemmt á milli óvenju mikillar hæðar suðvestur af Bretlandseyjum og venju fremur lágs þrýstings vestan við landið. Áttir milli suðurs og vesturs voru einstaklega tíðar. Næsti mánuður krækti í að vera tíundi hlýjasti desember.
Mikið var um að vera í heimsmálunum. Í fyrstu vikunni gerðu Rússar innrás í Ungverjaland eftir að landsmenn höfðu risið upp gegn stjórnvöldum og átök brutust út vegna þjóðnýtingar Egypta á Súezskurðinum. Síðast en ekki síst fyrir okkur Íslendinga fékk Vilhjálmur Einarsson þ. 27. silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu.
1958 (4,1) Úrkoman var gríðarleg um sunnan og vestavert landið og er þetta næst úrkomusamasti nóvember á landinu að mínu tali. Á Stóra-Botni í Hvalfirði var úrkoman 603,2 mm og var það mesta mánaðarúrkoma sem þá hafði mælst á veðurstöð á Íslandi. Í Reykjavík var þetta blautasti nóvember frá upphafi mælinga og þar til í nóvember 1993. En sums staðar á suður-og vesturlandi standa úrkomumet sem sett voru þennan mánuð enn þá. Má þar fyrst nefna Stykkishólm, 281,3 mm, og er þetta mesta úrkoma þar í nokkrum mánuði allan mælingatímann. Einnig má nefna Elliðaárstöð við Reykjavík (frá 1923), Eyrarbakka 283,1 mm (1880-1911 og frá 1926), Kirkjubæjarklaustur 357,6 mm (1931) og Seyðisfjörð 468,7 mm (1935-1953 og frá 1957). Á Ljósafossi mældist úrkoman 515,4 mm. Víða syðra rigndi alla daga nema einn í mánuðinum. Fádæma úrfelli var á suður- vesturlandi þ. 17.-18. Á Rafstöðinni í Andakíl mældist sólarhringsúrkoman 165,3 mm en 184,6 mm í Stóra-Botni. Metið á Rafstöðinni stendur enn þá en úrkoman í Stóra-Botni er nú næst mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi í nóvember. Urðu af þessu úrfelli víða vegaspjöll vestan lands og skriður féllu á veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Tíðin var þó talin mjög hagstæð, einkum síðari hluti mánaðarins. Veðráttan segir: Grænn litur var á túnum og fíflar og sóleyjar sprungu út. Fé gekk yfirleitt sjálfala, og fjallvegir voru lengst af opnir. Í lok mánaðarins var víða autt upp á efstu fjallabrúnir." Meðalhitinn á Horni í Hornafirði var talinn 6,5 stig og er það mesti meðalhiti veðurstöðvar í öðrum nóvember en 1945 (ásamt Vík í Mýrdal 2002) en satt að segja trúi ég ekki alveg á þessa tölu. Langt bil er í meðalhita nálægra stöðva. Hitinn fór í 11,3 stig á Loftssölum þ. 27. og mældist aldrei meiri nóvemberhiti þar frá 1951 og ekki heldur á Vatnsskarðshólum, skammt frá, síðan 1978. Snjólag á landinu var 19% en hvergi alautt allan mánuðinn. Alhvítir dagar voru hins vegar mjög fáir og víða enginn. Hlýindi voru mikil marga daga og þ. 10. fór hitinn í 16 stig á Siglunesi og 15,2 í Fagradal í Vopnafirði. Í tveggja daga smá kuldakasti fór frostið í -10,5 stig á Hellu þ. 8.
Fyrsta landhelgisstríð Íslendinga og Breta var í fullum gangi en það hófst 1. september þetta ár. Þann 18. kom Andrés Segovia, rómaðasti gítarleikari tuttugustu aldar, til landsins og hélt hér tónleika.
1941 (4,0) Til landsins var þetta mjög hagstæður mánuður. Fé gekk víða sjálfala og unnið var að jarðabótum. Sunnanlands var þó nokkuð vindasamt og tíðar úrkomur. Þetta var hlýjasti nóvembermánuður sem hafði mælst á landinu þegar hann kom. Hann var tiltölulega hlýjastur fyrir norðan og er enn annar hlýjasti nóvember í Grímsey. Þann 10.-11. var stormur víða á suður og austurlandi og um það leyti voru miklar rigningar á austfjörðum með skriðuhlaupum. Sólarhringsúrkoma var 101,3 mm að morgni síðasta dagsins á Hvanneyri í Borgarfirði og víða annars staðar var mæld mikil úrkoma. Snjór var lítill, 15%, og jafnvel á Akureyri var alhvítt í aðeins þrjá daga en einn dag í Reykjavík. Á Sandi í Aðaldal var aldrei mældur þurrari nóvember, 5,5 mm (1937-2004). Þar mældist og mesti hiti mánaðarins, 12,5 stig þ. 30. Á Húsavík var úrkoman aðeins 0,6 mm og féll á einum degi (enn mninni úrkoma var þar 1942, 0,2 mm), Í stillum og hægviðri þ. 8. mældist mesta frostið, -16,3 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Eftir þennan mánuð kom 12. hlýjasti desember á landinu en á Akureyri sá fjórði hlýjasti. Á undan þessum mánuði fór hins vegar áttundi hlýjasti október á landinu.
Þann fyrsta var afhjúpað minnismerkið um forsetana fjóra á Mount Rushmore í Bandaríkjunum. Daginn eftir fórst flugvél með 11 bandaríkjamönnum á Reykjanesi. Og daginn þar á eftir tóku Þjóðverjar borgina Kursk í Rússlandi. Þann 7. voru tólf þúsundir gyðinga myrtir og grafnir i fjöldagröfum við Minsk í Hvítarússlandi. Og næsta dag skutu bandarískir hermenn að hópi Íslendinga og drápu einn. Í mánaðarlok náðu Þjóðverjar lengst fram við Moskvu og Ítalir gáfust upp í Eritreu. Rússa náðu Rostov á sitt vald frá Þjóðverjum þ. 29. og Rommel hershöfðingi Þjóðverja tók að hörfa frá Tobruk í Líbíu.
1968 (4,0) Tíðarfarið var talið hlýtt og hagstætt en úrkoma vel yfir meðallagi í heild. Fyrir norðan var tiltölulega sólríkt. Fyrir austan var hins vegar mjög úrkomusamt. Aldrei mældist meiri úrkoma í nóvember á Hallormsstað (1937-1989), 271,8 mm og aðeins einu sinni (2002) á Grímsárvirkjun frá 1959. Færð var yfirleitt góð á landinu, tún voru mikið til græn og í görðum sprungu út blóm. Mánuðurinn byrjaði þó mjög kuldalega og var frost fyrstu fjóra dagana með því meira sem gerist eftir árstíma og í Reykjavík var síðasti októberdagurinn og sá fyrsti í nóvember þeir köldustu eftir dagsetningum sem þar hafa komið frá a.m.k. 1935. Þann annan fór frostið í -21,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Mikinn snjó setti niður í lok kuldakastsins á norðurlandi en hann hvarf fljótlega eftir að hlýnaði. Og eftir þetta voru mikil hlýindi nema fáa daga seint í mánuðinum á norðanverðu landinu. Á Hólum í Hjaltadal fór hitinn í 14,2 stig þ. 18. Sama dag fór hitinn á Hæli í Hreppum i 13,4 stig sem er þar nóvembermet alveg frá 1929. Úrkoma var yfir meðallag á landinu. Í stórrigningum dagana 12.-13. urðu miklar skemmdir austanlands á svæðinu frá Borgarfirði eystra að Hornafirði. Snjólag var 24%, hvergi alveg autt, en snjódagar á suður og vesturlandi voru yfirleitt aðeins einn til fimm og yfirleitt minni en 15 fyrir norðan. Eins og 1941 var hæðasvæði yfir NA-Evrópu og Norðurlöndum en lægðir suður af Grænlandi.
Þann 10. fórst vélskipið Þráinn í austanroki fyrir Mýrdalssandi og með því níu manns.
1987 (3,9) Á Akureyri, Stykkishólmi og Vestfjörðum er þetta þriðji hlýjasti nóvember. Hlýtt var á stóru svæði á Atlantshafi eins og kortið sýnir en það er af fráviki hitans í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð. Úrkoma var í minna lagi og snjór var lítill, snjólagið var 13%. Víða var alauð jörð eða því sem næst frá austfjörðum suður og vestur um til Breiðafjarðar. Mjög hlýtt var fyrstu vikuna og varð hitinn 14,6 stig þ. 5. á Seyðisfirði. Stutt kuldakast kom um miðjan mánuð og í byrjun síðustu vikunnar og varð kaldast -12,6 stig þ. 23. í Möðrudal. Nokkur leiðindaveður gengu yfir og þ. 19. urðu talsverðir skaðar á austurlandi í norðanskoti. Á eftir þessum mánuði kom fimmti hlýjasti desember.
1993 (3,8) Þetta er kannski allra úrkomusamasti nóvembermánuðurinn, a.m.k. ef miðað er við þær stöðvar sem lengst hafa athugað. Og alveg sérstaklega er þetta úrkomusamasti nóvember á vesturandi. Í Reykjavík er þetta ekki aðeins úrkomusamasti nóvember heldur úskomusamasti mánuður ársins sem þar hefur komið. Og þar kom eitthvað úr loftinu alla dagana! Svipaða úrkomusögu er að segja um nokkrar stöðvar á suður-og vesturlandi. Bæði í Stykkishólmi og á Teigarhorni er þetta næst úrkomusamasti nóvember. Mest mánaðarúrkoma var 702,1 mm á Grundarfirði. Um miðbik norðurlands og á norðusturhorninu var hins vegar lítil úrkoma. Loftvægi var með lægra móti, 9,8 hPa undir meðallagi, lægst á veðurstöð 989, 2 hPa á Galtarvita. Veðurfarið var talið mjög hagstætt á norður og norðausturlandi en úrkomu- og umhleypingasamt annars staðar. Þetta er einhver mesti sunnanáttamánuður í nóvember sem dæmi er um. Tiltölulega svalast var vestantil en hlýnaði eftir því sem austar dróg og mest var hitafrávikið inn til landsins á norðausturlandi. Sérlega hlýtt var líka á austfjörðum. Mesti meðalhiti á landinu var 6,4 stig á Seyðisfirði og er þetta hlýjasti nóvember sem þar hefur mælst, frá 1906 og á öllu austurlandi. Á Seyðisfirð var meðaltal hámarkshita 9,4 stig og er það mesta á veðurstöð hérlendis í nóvember. Í Grímsey er þetta einnig hlýjasti nóvember sem þar hefur mælst, 4,1 stig, og næst hlýjasti á Akureyri. Sólskin var eðlilega ekki mikið syðra og er þetta næst sólarminnsti nóvember í Reykjavík en á Akureyri skein sólin tiltöluleg mikið, svipað og 1968. Snjólag var 20% á landinu. Í Reykjavík var þó alhvítt í 9 daga sem var með því meira á landinu en sérlega snjólétt var á norðausturlandi þar sem víða var aldrei alhvítt og Dratthalastöðum á Úthéraði, Strandhöfn í Vopnafirði, Seyðisfirði og Dalatanga var alautt allan mánuðinn. Líkt og 1956 var þessi nóvember óvenju hlýr norður um allt íshafið en kaldur í Evrópu. Eins og þá var lægðagangur á Grænlandshafdi en hæð yfir Norðurlöndum og N-Evrópu en þó enn sterkari og enn kaldara var í Evrópu en 1956. Kortið sýnir frávik loftþrýsings á norðurhveli þennan mánuð í millibörum.
Þann fimmta biðu menn þess í ofvæni að geimverur birtust á Snæfellsnesi eins og mönnum hafði verið lofað af einhverjum speisuðum sjáendum. En verurnar gáfu aðdáendum sínum langt nef og létu ekki sjá sig.
1933 (3,7) Á sínum tíma var þetta hlýjasti nóvember sem komið hafði síðan 1857 en var þó líklega lítið eitt hlýrri en sá mánuður. Veðráttan var nokkuð óstöðug og votviðrasöm, einkum vestanands. En jörð var oftast alauð og klakalaus. Snjólag var aðeins 12% og alautt víðast hvar á suður og vesturlandi. Reyndar byrjaði mánuðurinn með hríðarveðri fyrir norðan og vægu frosti en strax þann þriðja var kominn 14 stiga hiti á Akureyri og á Vestfjörðum. Daginn eftir var mikið mistur á austurlandi og lítið skyggni og varð sums staðar sporrækt af sandfalli. Þá var norðvestan stormur eftir hlýja suðvestanátt og fórst þá vélbátur með fjórum mönnum og ýmsir aðrir skaðar urðu. Mikið suðvestanveður var á Vestfjörðum þann 17. en þá voru rokna hlýindi á norðausturlandi svo hitinn fór í 17,8 stig í Fagradal í Vopnafirði sem þá var nóvembermet á landinu er stóð til 1964. Morguninn eftir mældist sólarhringsúrkonan í Hveradölum 128,2 mm sem þá var nóvembersólarhringsmet á landinu. Mesti kuldi í mánuðinum varð aðeins -9,9 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 22. og er það hæsta skráð landslágmark í nokkrum nóvember. Meðalhiti mánaðarins þarna á Fjöllunum var 1,7 stig og hefur aldrei orðið jafn hár í nóvember en meðaltalið þar 1961-1990 var -3,2 stig. Mjög hlýtt var þrjá síðustu dagana á landinu, hámarkshiti 10-11 stig í Reykjavík og í kjölfarið kom þar næst hlýjasti desember en sá hlýjasti yfir allt landið. Hæðasvæði var yfir A-Evrópu og Norðurlöndum þennan mánuð en lægðasvæði vestur af Grænlandi. Hlýtt loft streymdi þarna á milli yfir landið. Hæð 500 hPa yfir landinu var mjög afbrigðilega há sem og hitinn þar uppi en kortið sýnir frávik hans frá meðallagi.
1960 (3,6) Nóvember þessi er sá snjóléttasti á landinu. Snjólag var aðeins 10%. Yfirleitt var snjólaust í byggð nema síðustu dagana. Á vesturlandi og suðurlandi var þó víðast hvar auð jörð alla daga. Þetta er þurrasti nóvember sem hér hefur verið fjallað um. Vatnsskortur var víða norðanlands og vestan. Aldrei hafa verið færri úrkomudagar í nóvember í Reykjavík, aðeins átta. Á austurlandi voru hins vegar þrálátar rigningar. Þó þessi mánuður teljist aðeins sá tíundi hlýjasti á landinu er hann hlýjasti nóvember sem mælst hefur á Ströndum, bæði á Hornbjargsvita og í Árneshreppi og sá þurrasti einnig á síðarnefnda stapnum. Var hann þar hlýrri í beinum tölum en í Reykjavík og miðað við meðallhita var mánuðurinn tiltölulega hlýjastur norðvestast á landinu. Á Suðureyri við Súgandafjörð var þetta til að mynda hlýjasti nóvember sem þar mældist 1923-1989, 4,8 stig. Þykktin yfir landinu, en hún ræður miklu um hitann, var mest á norðvestanverðu landinu en fór minnkandi til suðausturs. Mesti hiti í mánuðinum mældist á Galtarvita, 12,8 stig þ. 8. Þessi nóvember er einnig sögulegur fyrir það að vera þegar hann kom sólríkasti nóvember sem mælst hafði í Reykjavík en sólríkara varð svo 1996, þegar sólin skein hálfri stundu lengur, en sá mánuður var einn af köldustu nóvembermánuðum svo það er ekki saman að jafna um veðurgæðin. Tiltölulega svalt var í byrjun og enda mánaðarins en hlýindi þar á milli. Þann 28. gerði austan og suðaustan hvassviðri. Næstu dagana þar á undan höfðu verið stillur og hægviðri sem lauk með -16,3 stiga frosti á Sauðárkróki þ. 28. Þessi blíði mánuður var verðugur endir á samfelldum góðviðriskafla sem ríkt hafði víðast hvar á landinu síðan í mars.
Þann 8. var John F. Kennedy kosinn forseti Bandaríkjanna.
Fyrir 1866, sem hér er helsta viðmiðunarárið, eru líklega engir nóvembermánuðir sem ná því að skáka á landsvísu þeim tíu sem hér hafa verið taldir. Árið 1857 var meðalhitinn í Stykkishólmi 3,7 stig en 3,5 stig árið 1846. Seinna árið var meðalhitinn í Reykjavík 2,8 stig. Hlýjasti nóvember í Reykjavík árin 1820-1853 var hins vegar 1835, 2,8 stig og hafa þar einir 15 nóvembermánuðir verið hlýrri frá 1845. Árin 1846 og 1857 var einnig mælt á Akureyri en hitinn þar nálgaðist ekki að vera á borð við þá tíu hlýjustu sem hér hafa verið taldir. Þess má að lokum geta að meðalhitinn í nóvember 1876 var 4,7 stig í Reykjavík og er hann þar því fimmti hlýjasti nóvember allar götur frá 1820, svipaður og 1968, en hlýrri en 1941. Í Stykkishólmi gerði mánuðurinn ekki eins vel og mældist 3,2 stig. Af hita á Teigarhorni og í Grímey má svo ráða að mánuður þessi telst engan veginn til tíu hlýjustu nóvembermánaða á landinu.
Viðbót: Nóvember 2011. Þó öll kurl séu ekki komin til grafar með þann nóvember sem var að líða, sérstaklega eru upplysingar bágbornar frá Teigarhorni, er þó ljóst að hann er einn af hlýjustu nóvembermánuðum á landinu, mun sennilega vera í fimmta til sjötta sæti, svipaður og nóvember 1941. Hér má lesa um nóvember 2011.
Fyrra fylgiskjalið sýnir, eins og venjulega í þessum pistlum, hita og úrkomu öllum níu stöðvunum, en það seinna ýmislgt frá hinum hlýu mánuðum 1945,1956 og 1958.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 11.12.2011 kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2011 | 22:59
Hlýjustu októbermánuðir
1915 (7,4°) Október 1915 er talinn hlýjasti október í sögu mælinga á landinu. Meðalhitinn var 3,5 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Í Reykjavík var hann 7,9 stig en 8,4 stig í Vestmannaeyjakaupstað. Það er mesti meðalhiti á landinu sem mælst hefur nokkurs staðar í október fyrir utan Andakílsárvirkjun 1959 sem maður veit ekki almennilega hvort maður á að taka alvarlega. Í Eyjum er þetta úrkomusamasti október sem mældist þar meðan mælt var í kaupstaðnum frá 1881 til 1920 og næst úrkomusamasti á Teigarhorni. Úrkoman var meira en tvöföld meðalúrkoma á þessum stöðvum. Mánuðinn reikna ég þriðja úrkomusamasta október á landinu. Á Stóranúpi í Hreppunum var meðalhitinn 8,0 stig sem er með ólíkindum í október á veðurstöð langt inni í landi. Mánuðurinn var sá hlýjasti sem komið hefur á suður og suðvesturlandi og á austfjörðum. Meðalhitann á þeim fáu stöðvum sem athuguðu sést á litla kortinu. Sérlega hlýtt var í fyrstu vikunni, þann fjórða komst hitinn í 19 stig á Akureyri og 18 á Seyðisfirði. Á Grímsstöðum á Fjöllum var 14-15 stiga hámarkshiti alla dagana frá 3.-7. Í Grímsey fór hitinn hærra en bæði fyrr og síðar í október, í 15 stig, þ. 3. Ekki voru hámarks- eða lágmarksmælingar í Reykjavík þennan mánuð en lesið á hitamæla þrisvar á dag. Aldrei var lesið frost af mælinum, lægsta talan var 2,5 stig yfir frostmarki síðasta daginn. Á Vífilsstöðum voru hins vegar lágmarksmælingar og fór hitinn ekki lægra en 1,0 stig yfir frostmarkinu og var það líka síðasta dag mánaðarins. Það má eiginlega slá því föstu að ekki hafi heldur frosið í Reykjavík allan mánuðinn. Þann 1. nóvember segir Morgunblaðið frá því að fyrsta næturfrostið hafi orðið í fyrrinótt, 31. október, og hafi ekki orðið jafn seint í mannaminnum en vanalega séu margar frostnætur í októbermánuði. Áreiðanlega er þarna átt við hélu á jörð en ekki frost í venjulegri mælingahæð. Á Ísafirði töluðu menn um það fyrsta vetrardag að fara inn í dal í berjamó, segir í Fréttum þ. 24.
Ekki mældist heldur frost í Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni, Arnarbæli í Ölfusi og Vestmannaeyjabæ, en Stórhöfði var þá enn ekki orðin veðurstöð. Í kaupstaðnum var lágmarkið 3,9 stig. Á Akureyri mældist hins vegar dálítið frost. Engar snjómælingar voru gerðar í þessum október en víst er að snjór á landinu hefur lítill verið eða enginn í byggð. Blaðið Suðurland segir frá því þ. 23. að enginn snjór hafi þar fallið við sjóinn í haust. Blaðið var gefið út á Eyrarbakka. Það skýrði svo frá því 9. nóvember að fyrsta frostnóttin hafi ekki komið fyrr en vika var af nóvember. Lægsti hiti mánaðarins á landinu mældist -4,0 stig á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði. Er það hæsta mánaðarlágmark á landinu í nokkrum október. Morgunblaðið skrifaði þ. 27.: Um þetta leyti í fyrra var kominn ís á Tjörnina. Nú er hér hver dagurinn öðrum hlýrri - alveg eins og á vori væri. Eru ekki margir dagar síðan útsprunginn fífill fanst hér uppi á túnum. Lauf er enn eigi fallið af trjám í görðum hér og mörg tré hafa enn græna laufkrónu." Vísir skrifar þ. 30.: Maður kom með 3 útsprungna fífla inn á skrifstofu Vísis í gær, sagði, að á Austurvelli væri krökt af nýútsprungnum fíflum". Næsta dag segir blaðið frá því að kvöldið áður hafi norðurljós verið ákaflega mikil, allt suðvestur loftið hafi verið eitt ljóshaf. Síðasta dag mánaðarins skrifaði Ó. J. í Vísi:
Nú er ein vika af vetri. - Enga verulega breytingu á veðráttunni er þó að sjá, frá því í sumar, aðra en þá, að rigning hefir verið undanfarna daga, en sama hlýviðrið og í sumar. Hiti oftast 8-11 stig um daga, þó loft sé dimt. Grös falla lítt á túnum, en tré standa mörg í blóma. Tré eitt stendur undir húshliðini hjá mér og hafa greinar þess lengst um hálfan meter í sumar, að minsta kosti sumar þeirra, og laufguðust vel. Fyrir rúmri viku voru flestöll sumarblöðin fallin af trénu. En þá komu í ljós nýir blaðknappar og springa blöðin nú óðum út á öllum greinum trésins. Þetta mun vera víðar í trjágörðum hér, eftir því sem eg hefi séð. En fágætt mun það þó vera hér á landi á þessum tíma árs.''
Við þetta má því bæta að varla hefur þetta nokkurn tíma gerst áður í Reykjavík í tíð þá lifandi manna og jafnvel enn í dag.
Þess má geta að vitað er um tvo aðra alveg frostlausa októbermánuði í Reykjavík, í þeim góða mánuði 1939 og árið 1963 sem var þó ekkert sérstaklega hlýr.
Hæðasvæði var oftast yfir Norðurlöndum, en stundum yfir Bretlandseyjum, í þessum mánuði en lægðir fyrir suðvestan eða sunnan land. Þetta mun vera einna allra mesti sunnanáttamánuður í október sem um getur. Sjá litkortið sem sýnir hæð 850 hPa flatarins í um 1400 m hæð. Hitt litkortið sýnir frávik hitans frá meðallagi í þessari hæð. Aldrei brá til norðanáttar en loftstraumar báru hlýtt loft til landsins sunnan úr höfum en síðasta þriðjung mánaðarins frá Evrópu. Mjög þungbúið var syðra. Á Vífilsstöðum var sól mæld í aðeins 17 klukkustundir og hefur svo lítið sólskin aldrei mælst í Reykjavík eða nágrenni síðan sólskinsmælingar hófust þar árið 1911.
1946 (7,3°) Fyrir norðan hefur þessi mánuður betur í hlýindum en 1915 og er þar sá hlýjasti sem mælst hefur. Og sömu sögu er raunar að segja um Vestfirði og Stykkishólm. Einnig Hrútafjörð þar sem mælingar ná aftur fyrir 1915 en á Úthéraði þar sem mælingar ná enn lengra aftur var lítillega kaldara en 1915. Þessir mánuðir mega teljast jafningar að hita. Mánaðarmeðalhitinn á landinu 1946 var mestur í Grindavík, 8,3 stig. Meðaltal hámarkshita á Hofi í Vopnafirði var 11, 2 stig og er það hæsta sem skráð er á nokkurri veðurstöð í október og væri þetta vel boðlegt í júní. Þetta er með allra mestu sunnanáttamánuðum í október en með suðvestlægum blæ og mældist úrkoman á Höfn í Bakkafirði, norðaustan á landinu, einungis 0,1 mm, það minnsta sem mælst hefur á veðurstöð í nokkrum október. Hæðarsvæði var langtímum saman viðloðandi austan og suðaustan við landið og teygði stundum anga sína inn á það, einkum austurland. Kortið af stöðu mála við jörð og í 500 hPa fletinum þ. 9. er ekki ólíkt því sem oft var þennan mánuð. Þess má geta að næsta dag sást mikill fjöldi víghnatta frá Kópaskeri og víðar á norðausturlandi og var talið að þeir væru leifar halastjörnu. Þurrviðrasamt var sem sagt á norðausturlandi en úrkomusamt sunnanlands og var þetta til dæmis fjórði úrkomusamsti október í Reykjavík. Þar var þetta annar sólarminnsti október sem mælst hefur. Á Akureyri var hins vegar tiltölulega sólríkt og þar er þetta fjórði sólríkasti október. Úrkoman í þessum mánuði var í heild aðeins lítillega meiri en í meðallagi 1931-2000. Mest var hún í Kvígyndisdal við Patreksfjörð, meira en tvöföld meðalúrkoma. Snjólag á landinu var aðeins 3%, hið næst lægsta í nokkrum október. Lægst var það 2% í október 1928 sem var mildur en ekki í röð allra hlýjustu októbermánaða og einnig árið 2000. Meðaltal snjólags í október allra mánaða frá 1924 er 17%. Á fjöllum, ofan 600 metra, var snjóhula aðeins 13% 1946 og er sú minnsta sem mælingar ná yfir frá 1935. Hlýjast var dagana 6.-10. og fór hitinn í 19,2 stig á Húsavík þ. 9. Sama dag mældust á Akureyri 17,8 stig og hefur hiti aldrei mælst jafn hár þann dag á þeim stað. Á Hofi í Vopnafirði fór hitinn í átján stig þ. 6. Í Stykkishólmi mældist mesti hiti sem þar hefur mælst í október og það meira að segja tvisvar sinnum, 16,0 stig þ. 9. og. 12. Þó hlýtt væri varð mánuðurinn hvergi alveg frostlaus. Kaldast varð -7,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn þ. 27. Kort fyrir meðalhita mánaðarins er hér fyrir neðan.
Þann fyrsta voru kveðnir upp dómar í stríðsglæparéttarhöldunum yfir nasistum í Nürnberg. Þeir sem hlutu dauðadóma voru síðan hengdir þ. 16. Keflavíkursamningurinn var samþykktur þ. 5. og olli hann miklum deilum. Daginn áður voru bein Jónasar Hallgrímssonar flutt til landsins og olli það vafstur ekki minni deilum.
1959 (7,2°) Á Fagurhólsmýri hefur ekki komið jafn hlýr október sem þessi, 7,7 stig. Á rafstöðinni í Andakíl var meðalhitinn 8,6 stig. Það er mesti meðalhiti sem mælst hefur á veðurstöð í október á landinu en þess ber að gæta að stöðin var í miklu skjóli svo þetta er kannski ekki að alveg að marka. Mikil hlýindi ríktu dagana 5.-10. Í Reykjavík var sá níundi líklega hlýjasti októberdagur að meðalhita sem þar hefur komið síðan byrjað var að mæla og örugglega síðustu 75 ár, 12,7 stig, en hámarkshitinn var 14,5 stig (14,8 í Heiðmörk) og daginn eftir var meðalhitinn 12,3 stig. Þetta var þó ekki hlýjasti dagurinn á landinu að meðalhita. Það var sá sjötti en þá var meðalhiti landsins 12,7 stig og hefur ekki orðið jafn hlýr dagur í október eftir 1948 að minnsta kosti. Þennan dag komst hitinn á Seyðisfirði í 20,9 stig sem var mesti hiti mánaðarins. Allir þessir dagar settu dagshitamet í Reykjavík. Þeir 9. og 10. eru hins vegar taldir fjórðu og tíundu hlýjustu októberdagar að meðalhita á landinu að því er segir á bloggsíðu Trausta Jónssonar. Allvíða, einum norðvestantil á landinu og sums staðar á norðausturlandi, mældist mesti hámarkshiti sem mælst hefur í október. Meðaltal hámarkshita var 10,9 stig í Fagradal og á Skriðuklaustri. Á Sámsstöðum var það 10,2 stig og hefur ekki orðið hærra í október á veðurstöð á suðurlandi. Aldrei mældist frost á Hellissandi, Flatey á Breiðafirði, Hvallátrum, Kvígyndisdal, Galtarvita, Æðey og Keflavíkurflugvelli. Ber voru óskemmd fram undir mánaðarmót. Snjólag var aðeins 4% á landinu. Fyrir norðan var talin einmunatíð en vestanlands og sunnan var mjög úrkomusamt. Suðlæg átt var auðvitað ríkjandi. Hitafarið var nokkuð svipað um landið og 1915 og 1946. Kortið sýnir frávik hitans frá meðallagi í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð. Frostmarkshæð yfir Keflavík var að meðaltali í 1360 metra hæð. Þykktin yfir landinu var svipuð og 1965 en þó heldur meiri á norðausturhorninu en þá, sjá þykktarkortið fyrir október 1965 hér að neðan. Loftþrýstingur var mjög lágur en vætusöm suðaustanátt var yfirgnæfandi. Lægðir voru framan af djúpt suður í hafi eða á Grænlandshafi með miklum hlýindum en mikilli úrkomu en er á leið var lægðagangur nær landinu og áfram miklar úrkomur. Úrkoman var meiri á Eyrarbakka og Stórhöfða en hún hefur orðið í nokkrum október. Einnig við rafstöðina við Elliðaár við Reykjavík en ekki á sjálfri veðurstöðinni í Reykjavík sem þá var á flugvellinum. Þar var hún hins vegar sú þriðja mesta sem mælst hefur. Yfir landið í heild virðist þetta vera fimmti úrkomusamasti október síðan mælingar hófust eftir mínu tali. Mest var úrkoman á veðurstöð 430 mm í Vík í Mýrdal. Sólinni var ekki fyrir að fara syðra og er þetta fimmti sólarminnsti október í Reykjavík í hundrað ár.
Þann 26. voru fyrstu myndirnar teknar af af þeirri hlið tunglsins sem ekki sést frá jörðu. Þann 30. lauk í Júgóslavíu áskorendamótinu um heimsmeistaratitilinn í skák og var Friðrik Ólafsson þar meðal keppenda.
1920 (6,9°) Þeir mánuðir sem nú hafa verið taldir eru í sérflokki og nokkuð bil er niður í þennan fjórða hlýjasta október. Mjög hlýtt var í byrjun mánaðarins með suðaustlægri átt, sérstaklega fyrstu fimm dagana, og fór hitinn þá í 12-13 stig í Reykjavík. Í Grímsey komst hitinn í 14,6 stig þ. 9. sem er með því allra mesta sem þar hefur mælst í október og á Grímsstöðum fór hitinn í 14,1 stig þ. 6. sem er líka með því hæsta sem þar hefur mælst í þessum mánuði. Mestur hiti á landinu varð aftur á móti 17,8 stig á Seyðisfirði. Þann 11. snérist til svalari vestanáttar og loks norðaustlægar áttar með mjög vægu kuldakasti. Fór frostið þann 19. í -6,9 stig á Grímsstöðum og var þar þá nokkur snjókoma. Eina nótt fraus ofurlítið í Reykjavík, -0,5 stig þ. 13. en frostlaust var allan mánuðinn í Stykkishólmi og Vestmannaeyjum. Fljótlega eftir litla kuldakastið dró aftur til suðaustlægra átta með hlýindum, þó ekki væru þau eins sterk og fyrstu dagana og héldust þau til mánaðarloka. Almikil úrkoma var á suðurlandi.
Þýska tónskáldið Max Bruch, sem einkum er þekktur fyrir fyrsta fiðlukonsert sinn, sem reyndar er einhver vinsælasti og mest spilaði fiðlukonsert sem til er, lést þ. 2. og var þá orðinn 85 ára gamall.
1908 (6,8°) Þessi hlýi mánuður er úrkomusamasti október sem mælst hefur á landinu eftir mínu tali (sjá skýringar) og einnig út af fyrir sig á Teigarhorni, 382,9 mm. Eftir fyrstu vikuna mátti heita á staðnum nær stöðugar stórrigningar, mest 89 mm að morgni hins 9. Í Vestmannaeyjum er þetta fjórði úrkomumesti október. Frá þeim 9. til mánaðarloka voru stórrigningar marga daga á austfjörðum og suðurlandi. Lægðir voru mjög þrálátar á Grænlandshafi og fyrir suðvestan land og lágur loftþrýstingur á landinu. Á Seyðisfirði mældist hitinn 16 stig þ. 5. en aldrei varð kaldara en -5,3 stig, á Möðruvöllum. Víða var frostlaust þar til síðasta daginn. Hýindi voru svo að segja stöðug þangað til. Einna hlýjast varð þó seint í fyrstu vikunni og mældist mesti hiti á landinu 16,0 stig þ. 5. á Seyðisfirði. Í Reykjavík, Stykkishólmi, Seyðisfirði, Teigarhorni, Papey, Fagurhólsmýri og Eyrarbakka kom aldrei frost. Eins og allir þeir mánuðir sem hér hafa verið taldið var þetta með mestu sunnanáttamánuðum í október.
Fyrsta dag mánaðarins tók Kennaraskólinn til starfa.
Októbermánuðurnir sem komu eftir tvo hlýjustu septembermánuði sem mælst hafa komast hér hver á eftir öðrum inn á lista yfir tíu hlýjustu októbermánuði.
Október 1939 (6,6°) kom eftir næst hlýjasta september. Þessi október er sá þurrasti sem mælst hefur á Akureyri og einnig á Nautabúi í Skagafirði (4,7 mm) Grímsstöðum á Fjöllum, Húsavík (4,6), Raufarhöfn (7,0), Siglunesi (7,7), Sandi í Aðaladal (2,4) og Reykjahlíð (7,2). Úrkoman á Grímsstöðum var 0,6 mm sem féllu á einum degi. Norðlægar áttir voru mjög sjaldgæfar en suðvestanátt var algeng. Hægviðrasamt var og stillt. Tiltölulega sólríkt var fyrir norðan og á Akureyri er þetta fimmti sólrikasti október. Hlýjast varð 16,5 stig þ. 4. á Húsavík. Í Miðfirði mældist mesti hiti sem þar hefur mælst í október, 14,6 stig á Núpsdalstungu þ. 6. Kaldast varð -13,0 stig á Grímsstöðum þ. 26. Þessi mánuður var svo auðvitað lokahnykkurinn á því eindæma góðæri sem ríkt hafði á landinu alveg síðan í mars. Kortið sýnir frávik hæðar í 850 hPa fletinum og hefur mesta frávikið upp á við gert sig heimakomið yfir landinu.
Þjóðverjar hófu innreið sína inn í Varsjá þann fyrsta eftir að hafa gjörsigrað pólska herinn. Þann 12. byrjaði Adolf Eichmann að flytja tékkneska gyðinga til Póllands. Og í síðustu vikunni var hinn illræmdi Hans Frank skipaður landsjóri Þjóðverja í Póllandi. Eftir stríðið var hann hengdur fyrir stríðslæpi.
Bróðir þessa mánaðar, október 1941 (6,2°), kom í kjölfar hlýjasta september sem komið hefur (annars er ekki hægt að segja að nokkur hitamunur sé á september 1939 og 1941). Hann er sá þurrasti sem mælst hefur á Teigarhorni, 9 mm. Hitinn fór í 18,0 stig þ. 5. á Sandi í Aðaldal 1941 en kaldast -12,0 á Grímsstöðum þ. 21. Þessir tveir októbermánuðir, 1939 og 1941, voru nokkuð öðru vísi en aðrir mánuðir sem hér er fjallað um. Loftþrýstingur var venju fremur hár á landinu í þeim og fremur lítil úrkoma. Í október 1939 fraus ekki í Reykjavík, Arnarstapa á Snæfellsnesi, Vík í Mýrdal og í Vestmannaeyjum. Árið 1941 fraus ekki á Arnarstapa og í Eyjum. Lítill snjór var báða þessa mánuði, 7% 1939 en 8% 1941, og víðast hvar snjólaust á suður og vesturlandi. Kortið sýnir frávik hæðar í 850 hPa fletinum.
Í stríðinu var það efst á baugi í október 1941 að Þjóðverjar sóttu mjög að Moskvu en tókst þó aldrei að vinna borgina.
1965 (6,3°) Í þessum mánuði var sá 20. hlýjasti októberdagur sem mælst hefur að meðalhita á Akureyri frá a.m.k. 1949, 14,9 stig, með hámarkshita upp á 17,6 stig. Á Raufarhöfn kom þá og októbermetið, 17,2 stig. Daginn áður mældist mesti hiti mánaðarins á landinu, 18,9 stig á Garði í Kelduhverfi sem er þar reyndar októbermet í að vísu ekki langri mælingasögu. Síðustu dagana kólnaði mikið og snjóaði fyrir norðan. Komst frostið þá niður í 11,2 stig á Staðarhóli þ. 30. Snjólag á landinu var 7%. Á suður- og vesturlandi var mjög votviðrasamt og urðu miklar vegaskemmdir í stórrigningum um þ. 20. Þann dag var sólarhringsúrkoman á Kvískerjum 125 mm en mánaðarúrkoman var þar 768,9 mm sem er með því mesta sem gerist. Á Skógum undir Eyjafjöllum (433,9 mm), Ljósafossi (474,9) og Hveravöllum (264,3) mældist met mánaðarúrkoma í október. Og síðast en ekki síst í Stykkishólmi. Sólarlitið var um land allt. Næsti október á eftir þessum, 1966, var hins vegar sá sólríkasti í Reykjavík og sá þurrasti sem komið hefur á landinu í mælingasögunni. Hæð var iðulega yfir Bretlandi eða Norðursjó í október 1965. Kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu sem var æði mikið en því meiri sem þessi þykkt er því hlýrra. Hún var svipuð 1959 en minni í öðrum októbermánuðum, a.m.k. eftir 1946.
Malbikuð Reykjanesbrautin var opnuð þ. 26. og daginn eftir voru sett lög um Landsvirkjun.
1945 (6,1°) Október 1945, sem er þá 9. hlýjasti október, var snjóléttur, snjóhula 8%. Jörð var alauð á suður og vesturlandi og aðeins fáa daga var snjór fyrir norðan. Í vestanátt þ. 5. mældist mesti októberhiti sem komið hefur í Hornafirði, 17,6 stig á Hólum, en sama dag fór hitinn á Teigarhorni í 19,3 stig, sem þar er líka októbermet, og 18,7 á Sandi í Aðaldal. Hæð var sunnan við land þessa daga og framan af mánuðinum með vestlægum vindum en síðar varð austanátt algeng vegna lægða suður í hafi. Veður voru hæglát. Aldrei varð kaldara en átta stiga frost og var það á Grímsstöðum þ. 27. Fremur úrkomulítið var víðast hvar en þó ekki í Vestmannaeyjum. En það var líka sólarlítið og er þetta þriðji sólarminnsti október í Reykjavík. Dálítið er Það merkilegt að næsti október á eftir þessum er sá annar eða hlýjasti október sem komið hefur, 1946.
Þann tíunda var nýi Sjómannaskólinn vígður í Reykjavík. Stríðlæparéttarhöldin yfir þýskum nasistum hófust þ. 19. Norðmaðurinn Vidkun Quisling, hinn eini og sanni kvislíngur, var tekinn af lífi þ. 23.
1985 (5,9°) Sá hlýi október sem næstur okkur er í tíma og kemst inn á topp tíu listann er 1985. Í Grímsey og á Akureyri er hann sá úrkomusamasti sem mælst hefur. Meira en þreföld meðalúrkoma var á Akureyri. Það var líka úrkomusamt á vesturlandi og þetta er annar úrkomusamasti október í Stykkishólmi. Einnig var úrkomusamt á Vestfjörðum. Á Hólum í Dýrafirði var mánaðarúrkoman 526 mm og sólarhringsúrkoman þ. 22. var 150,3 mm og urðu þá mikil skriðuföll á Vestfjörðum. Lægðagangur var tíður við landið en suðvestanátt var algengust. Ótrúlega hlýtt var dagana 14.-15. þegar hitinn komst í 22,0 stig á Seyðisfirði, 21,5 á Dalatanga, 20,9 á Kollaleiru og 20,7 á Neskaupsstað. Á Akureyri mældist mesti hiti sem þar hefur komið í október þ. 15., 19,5 stig. Lægðasvæði var þann dag suður af Grænlandi en hæð var yfir Bretlandseyjum og var hún þar í grennd á sveimi nær allan mánuðinn en var komin suður af Íslandi síðasta daginn. Kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins kl. 18 þann 14. Þyktkin yfir Keflavík fór í þessari hlýindagusu upp í um 5600 metra og hitinn í háloftunum var um 10 stig yfir meðallagi og svipað við jörð þegar mest var. Mjög hlýtt varð einnig seinast í mánuðinum. Jörð var lengst af alauð og þíð. Snjólag var 6%. Af kuldum er það að segja að í Möðrudal fór frostið í -10,2 stig þ. 10. en ekki þykir það sérlega mikið á þeim stað.
Kvikmyndaleikarinn Rock Hudson lést þann annan og var fyrsti heimsfrægi maðurinn sem dó úr eyðni eða alnæmi.
Enginn október fyrir 1865, sem hér er helsta viðmiðunarárið, nær því að vera með allra hlýjustu mánuðum eftir hita að dæma á þeim fáu stöðvum sem þá athuguðu. Hlýjastir voru árin 1856 sem eftir mælingum í Stykkishólmi var svipaður og 1965 og svo 1828 sem í Reykjavík var áþekkur 1985.
Í fylgiskránni eru tíu hlýjustu októbermánuðir á landinu fyrir þær stöðvar sem lengst hafa athugað, ásamt úrkomu og sól.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 11.12.2011 kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2011 | 18:13
Köldustu októbermánuðir
Eins og áður er miðað við þær 9 veðurstöðvar sem lengst hafa athugað. Meðalhiti þeirra er í sviga aftan við hvert ár en nánari tölulegar upplýsingar eru í fylgiskjalinu. Meðalhiti stöðvanna 1961-1990 er 3,9 stig.
1917 (-0,1) Þetta er greinilega kaldasti október á öllu landinu eftir 1865 þó það hafi ekki gilt um Reykjavík. En í Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey og á Akureyri er þetta kaldasti mældi október. Það einkenndi mánuðinn auk kuldanna að mörg aftakaveður gerði, flest af norðri eða norðaustri. Eftir hlýindi fyrstu tvo dagana skall á norðan ofsaveður og kuldar þ. 3. Á Ólafsfirði brotnuðu og sukku 4 bátar og tvö skip sleit upp á Siglufirði og ýmsir fleiri skaðar urðu. Í kjölfarið voru stórhríðar víða og kom mikill snjór. Þann 7. var þvílíkur hríðarylur á Hellisheiði að hún var tæplega fær. Þann 12. kom annað illviðri af norðaustri með hörkufrosti um land allt. Sunnanóveður skall hins vegar á þ. 19. og komst þá hitinn á Seyðisfirði í 11,0 stig, en síðasta illviðrið var þ. 25. og var af norðri. Mjög kalt var alla síðustu vikuna og var þá mikið frost allan sólarhringinn nær alls staðar og talsverður snjór. Meðalhitinn á Grímstöðum í mánuðinum var -4,1 stig, sá lægsti sem þar hefur mælst í október. Fyrstu tvo dagana og aftur 16. til 20. var þar dálítil hláka en annars voru stöðug frost, mest -17,0 stig þ. 28. Flesta frostdagana snjóaði á Grímsstöðum. Snjór þó nokkur var á landinu seinni hluta mánaðarins. Þetta haust, október til nóvember, er hið kaldasta sem mælst hefur á landinu fyrir utan haustin 1824 og 1841 og var þetta kalda haust 1917 reyndar undanfari frostavetrarins 1918. Kortið sýnir ætlað frávik hitans frá meðallagi í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð.
Njósnarinn frægi, Mata Hari, var tekin af lífi þ. 15.
1926 (0,4) Þetta er kaldasti október sem mælst hefur á Teigarhorni, Fagurhólsmýri og á Hæli í Hreppum. Snemma settist að með frosti og snjó, kringum þ 8.-9. víða. Mánuðurinn byrjaði þó ekki kuldalega því þann þriðja komst hitinn i 15,7 stig á Hvanneyri sem er reyndar mesti októberhiti sem þar hefur mælst í nokkuð slitrótti mælingarsögu. En þessi mildi stóð ekki lengi. Dagana 7. til 13. var víðast hvar snjór en hann lág þó ekki lengi á sunnanverðu landinu. Síðustu vikuna var hins vegar sannkallað vetrarríki nær alls staðar og síðasta daginn fór frostið á Grímsstöðum niður í -19,3 stig. Sólríkt var í Reykjavík eins og verða vill í mjög köldum októbermánuðum þegar norðanátt er þrálát og er þetta þar fjórði sólarmesti október. Mánuðurinn var þurr á landinu og úrkoma aðeins um helmingur meðalúrkomu. Alls staðar var þurrviðrasamt og kannski nær mánuðirnn inn á topp tíu listann yfir þurrustu októbermánuði. Fyrir norðan var víðast hvar alhvítt í meira en 20 daga. Mest var snjódýpt 70 cm í Fagradal í Vopnafirði þ. 31. Snjóhula á landinu var hin næst mesta í október, 51%, á landinu en meðaltalið frá 1924 er 17%, og enginn október hefur haft eins fáa alauða daga í Reykjavík, 21 dag, en alhvítt var þar í fimm daga. Loftvægi var óvenjulega hátt, 1016,7 hPa í Reykjavík en 1018,4 á Ísafirði. Hæst stóð loftvog 1033,6 hPa á Teigarhorni síðdegis þ. 18. Kortið sýnir ætlað frávik hitans í 850 hPa fletinum i um 1400 m hæð. Mikill jarðskjálfti varð á Reykjanesi þ. 25. og slokknaði á vitanum.
Um miðjan mánuð kom fyrst út sagan um Bangsímon eftir A. A. Milne.
1896 (0,5) Fremur var þurrviðrasamt á landinu en tíðin þótti óstillt. Mánuðurinn hófst með hlýindum og komst hitinn þann fyrsta í 12,8 stig á Teigarhorni. Norðan ofsaveður var dagana 2. til 7. sem þótti eitt hið hvassasta í manna minnum. Mikil snjókoma fylgdi veðrinu fyrir norðan og austan og urðu af allmiklir fjárskaðar, einkum á austurlandi. Í Reykjavík var alveg þurrt fyrstu tíu dagana en suma daga úrkomusamt eftir það. Í mánaðarlok var þar auð jörð. Kuldatíð ríkti þó eftir miðjan mánuð. Fyrir austan fjall var hnésnjór síðast í mánuðinum og þótti þetta ekki góð veðrátta ofan í landskjálftana miklu sem komu síðla sumars. Mest frost varð í Möðrudal, -15,7 stig. Meðalloftvægi var hátt, 1017,5 hPa í Stykkishólmi. Hæðir voru oft vestan við land en lægðir suðaustan við það og norðanstrengur yfir landinu. Kortið sýnir stöðuna í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð. Jónas Jónassen lýsti svo tíðrfarinu í Reykjavík í nokkrum blöðum Ísafoldar:
Hefir verið útnorðanátt, opt hvass, hlaupið í útnorðrið og aptur í norður, optast bjart veður. Snjóað mikið í fjöll h. 2. (3.okt.). - Afspyrnu-norðanrok hefir verið hjer síðan 3. og kafaldshríð um tíma snemma morguns h. 7. gekk ofan að kvöldi þessa dags (7.) og hefir mátt heita blægjalogn og fagurt veður síðan. Í morgun (10.) hægur, austan bjartur. (10. okt). - Undanfarna viku veðurhægð, optast við suðausturátt með nokkurri vætu, síðari part dags h. 16. gekk hann allt í einu til norðurs upp úr lognrigningu mikilli. í morgun (17.) hvass á norðan, bjartur; loptþyngdarmælirinn kominn afar-hátt. (17. okt.). - Laugardaginn 17. var norðanveður, hvasst fram yfir miðjan, var svo hægviðri, opt logn næstu dagana, gekk svo til norðurs aptur, hvass, aðfaranótt hins 23. hefir fallið hjer óvenjulega mikill snjór um þetta leyti; síðari part dags h. 22. fór að rigna og var úrhellisrigning að kveldi; fór svo að frysta og allt varð að klaka. Í morgun (24.) bál-hvass af norðan, bjartur. (24.okt.). - Hvass á norðan h. 24. Síðan veðurhægð, rjett logn daglega með sudda-þoku. Í morgun (31.) þoka og logn. (31. okt.).
1981 (0,6) Þetta er kaldasti október í Reykjavík síðan sæmilega áreiðanlegar hitamælingar hófust en á landinu öllu er þetta fjórði kaldasti október. Síðan veðurstöðvar urðu verulega margar er þetta kaldasti október sem komið hefur. Sjá kortið yfir meðalhita á landinu hér fyrir neðan. Og þetta er annar sóríkasti október í borginni en norðanáttin var linnulaus svo að segja. Veðrið var talið mjög óhagstætt frá Breiðafirði til austfjarða en á suðurlandi var talin góð tíð þrátt fyrir kuldann. Úrkoma var um helmingur af meðalúrkomu. Hún var þó mikil austanlands og sums staðar sitt hvoru megin við Eyjafjörð en mjög lítil á öllu suður og vesturlandi. Óvenjulega þurrt var á Hveravöllum, 11,5 mm og er það minnsta úrkoma í október sem veðurstöðin þar mældi. Á Kvískerjum, úrkomusamasta stað landsins, er þetta þurrasti október sem mælst hefur, 144,2 mm, frá 1962. Á ýmsum stöðum á vesturlandi með mislanga mælingasögu er þetta einnig þurrasti október sem mælst hefur. Snjóalög voru óvenju mikil fyrir norðan. Á Akureyri var hún hálfur metri þ. 12. og hefur aldrei verið meiri þar í október. Á Vestfjörðum voru skráð 24 snjóflóð og um miðbik norðurlands 33. Í Reykjavík lá snjór á jörð tvo daga seint í mánuðinum. Hvergi var jörð talin alauð allan mánuðinn. Snjólagsprósenta er sú hæsta sem finnst í október á landinu, 53%. Á Hólum í Hjaltadal var alhvítt allan mánuðinn og einnig á hálendisstöðvunum á norðausturlandi en hins vegar aðeins 15 daga á Hveravöllum þó aldrei væri þar talin alauð jörð. Þar varð og kaldast í mánuðinum, -15,5 stig þ. 16. en í byggð -13,7 stig þ. 4. í Möðrudal sem er mesti kuldi sem finna má á veðurstöð þann dag í a.m.k. 60 ár. Einstaklega kalt var framan af mánuðinum, oft 6-8 stig undir meðallagi. Fyrstu tveir dagarnir voru þeir köldustu eftir dagsetningum í Reykjavík í a.m.k. 75 ár. Dagana 12.-13. hlánaði ekki allan sólarhringinn þar í sólríku veðri og þeir dagar eru líka þeir köldustu í borginni eftir dagsetningum. Síðasti þriðjungur mánaðarins var tiltölulega mildastur. Þegar sá kafli hófst komst hitinn víða í 8-10 stig en mest seinna í mánuðinum í 12,2 stig þ. 22. á Seyðisfirði. Kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu en því minni sem hún verður því kaldara.
Forseti Egyptalands, Anwar Sadat, var myrtur þ. 6. Þann 14. varð Halldóra Bjarnadóttir 108 og varð ekki eldri. Hún lifði lengst allra Íslendinga sem vitað er um.
1873 (0,8) Hryssingslegur mánuður. Fyrsti þriðjungur hans var ekki kaldur en þó engan veginn hlýr en eftir það var yfirleitt kalt. Hæð var þá oftast yfir Grænlandi en lægðir austan við landið. Undir lokin voru mikil frost og stórhríðar um nánast land allt. Hlánaði þá varla eða ekki allan sólarhringinn í Stykkishólmi. Fyrir norðan og austan var meira fannfergi en elstu menn mundu eftir árstíma. Aðeins þrjár stöðvar voru að athuga veðrið ef Reykjavík er talin með (hinar stöðvarnar voru Stykkishólmur og Teigarhorn) og í höfuðstaðnum mældist bæði mesti og lægsti hitinn á þessum þremur stöðvum, 8,1 stig þ. 9. og -3,7 stig þ. 28. Athugunarmaður í Reykjavík á þessu tíma var víst enginn annar en Jón Árnason þjóðsagnasafnari. Blaðið Víkverji birti yfirlit yfir tíðarfarið í bænum í nokkrum tölublöðum sem hér fer á eftir allmikið lagfært.
1. Landsynningur með hægum skúrum. 2. Landnyrðingur, þegar á daginn leið austan og landsunnangola, rigning um kveldið. 3. hvass útsynningur með skúrahriðjum 4. Landsynningsrigning. 5. Hvass á útnorðan með krapaskúrum. 6. Hæg norðangola. 7. Hvassviðri af norðri. 8. Landnyrðingsgola. 9, 10. og 11. rokviðri af austri síðar af landnorðri. 12. og 13. norðangola, 14. hægviðri af austri, hafði snjóað ofan í sjó um nóttina. 15. hvassviðri af austri með suddarigning. 16. útsynningstormr og rigning, 17. og 18. lygn útsynningur með éljadrögum, 19. snjóaði fyrri hluta dags. Hvassviðri af norðri, þegar á daginn leið, 20 austangola, 21. logn, síðan norðangola, 22., 23. og 24. norðanrok, lygndi um miðjan dag 24. og var komið logn um miðaftan. 25. austankæla, 26. austangola með regnskúrrum, 27. norðangola, síðan mikil austanrigning, 28. rigning af landsuðri og norðri, 29. hafði snjóað um nóttina, logn, heiðríkt, síðan hæg austanátt, 30 mikil landsunnan og útsunnan rigning, 31. hafði snjóað um nóttina, sunnankaldi heiðrikt lopt.
1880 (1,4) Í kjölfar hlýjasta sumars á seinni helmingi 19. aldarinnar, 1880, var október einn af þeim köldustu en þá voru 12 stöðvar að fylgjast með veðrinu. Meðal loftþrýstingur hefur aldrei verið hærri í október, 1023,5 hPa í Stykkishólmi. Fyrirstöðu hæðir voru oft í námunda við landið, iðulega vestan við það. Sjá kortið af hæð 500 hPa flatarins í um 5 km hæð. Svalt var fyrstu dagana í norðanátt og snjóaði þá fyrir austan en síðan hlýnaði fram yfir miðjan mánuð en þá var hæðin sunnan og suðaustan við landið. Mesti hiti, 12,4 stig, og mesti kuldi, -14,3 stig, mældist á sama staðnum, Valþjófsstað í Fljótsdal en ekki var athugað á Hólsfjöllum. Tveir slæmir kuldakaflar komu í mánuðinum, 17.-20. og frá þeim 25. til mánaðarloka. Snjóaði þá nokkuð fyrir norðan. Síðustu tvo dagana var mikill kuldi og framundan var þriðji kaldasti nóvember og síðan mesti harðindavetur sem mælst hefur á landinu í rúm 200 ár.
Franska tónskáldið Jacques Offenbach, sem samdi óperuna Ævintýri Hoffmanns, lést þ. 5.
1929 (1,6) Tíðin var umhleypingasöm af ýmsum áttum en oftast köld. Mikil snjókoma var norðanlands eftir miðjan mánuðinn en sunnanlands fraus á auða jörð. Strax þ. 4. var jörð reyndar alhvít í Reykjavík en það var næu samt eini dagurinn sem þar var alhvítur í mánuðinum. Þann 7. var norðanhvassvirði um land land og sums staðar stormur og í lok mánaðarins gengu nokkur fleiri hríðarveður yfir norðurland. Í óveðri þann 19. fórst vélbáturinn Gissur hvíti frá Ísafirði með ellefu mönnum. Á norðurlandi var stórhríð með brimi og sjávarflóði þ. 24. og töldu þá 11 veðurstöðvar storm. Flæddi sjór yfir eyrina á Siglufirði og inn í mörg hús en næsta dag brotnuðu þar bátar og bryggja. Síðustu dagana var hvasst mjög syðst á landinu. Mesti hiti mánaðarins á landinu var aðeins 10,8 stig, í Vík í Mýrdal, þ. 19. sem er með því lægsta sem gerist í október enda náði almennilega hlýtt loft aldrei til landsins. Á Grímsstöðum var jörð aldrei talin auðauð en alhvít í 28 daga og þar mældist mesta frostið, -17,1 stig þ. 28. Feiknalegur kuldi var yfir landinu um það leyti í nokkra daga. Snjólag á landinu var 34% sem er með því mesta.
Kreppan mikla skall á í lok mánaðarins.
1895 (1,3) Mjög snarpa kafaldshríð gerði fyrstu dagana um allt land í norðvestanáhlaupi. Þann þriðja var hríðin allan daginn í Reykjavík með ofsaveðri og brimi og hámarkshiti um frostmark. Mikið tjón varð á landinu af þessum sjávaragangi sem stóð dagana 2.-3., mest við Ísafjarðardjúp, á Ströndum, Siglufirði, Eyjafirði og á Húsavík. Fjártjón varð einnig nokkuð. Þetta er einn af allra þurrustu októbermánuðurm. Aðeins fjórir októbermánuðir hafa þurrari verið í Stykkishólmi og einn í Reykjavík. Síðasta þriðjung mánaðarins var oft bjart syðra í látlausri norðaustanátt og úrkoma þar hverfandi eftir mánuðinn miðjan. Í Reykjavík voru þá oft talsverð næturfrost en frostlaust um hádaginn. Frost voru þó aldrei afskaplega hörð á landinu þrátt fyrir kuldatíð, mest þó -14,7 stig í Möðrudal. Hlýjast varð 10,5 stig þ. 15. á Teigarhorni. Kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins. Jónassen fjallaði um tíðarfarið í Reykjavík í Ísafoldaarblöðum:
Fyrri part vikunnar sunnan-útsunnan með mikilli úrkomu og hagljeljum, snjóaði mikið í öll fjöll aðfaranótt h. 1.; hvass á norðan h. 2. og rokhvass á vestan útnorðan með blindbyl fram á kvöld h. 3., hægur af austri og bjart veður h. 4. Í morgun (5.) rjett logn, bezta veður. (5. okt.).- Umliðna viku hefir optast verið rjett logn, þar til hann gekk til útsuðurs. h. 11. hvass með jeljum og regnskúrum. Í morgun (12.). sunnan, dimmur. (12. okt.) - Fyrri part vikunnar var hægð á veðri, en h. 15. gekk hann til vesturs útsuðurs með brimhroða og regnskúrum miklum við og við; foráttubrim í sjónum af útsuðri h. 18. og þá með haghriðjum, dimmur síðari part dags. Í morgun (19.) genginn til norðurs, hvass, bjartur. (19. okt.) - Alla vikuna bjart og fagurt veður, optast logn með vægu frosti. (26. okt.) - Framan af vikunni fagurt veður og logn með vægu frosti; gekk svo h. 29 til útsuðurs með regnskúrum þann dag; 30. aptur bjart og fagurt veður, hægur norðanvari; h. 31. sunnansvækja, koldimmur og fór að hvessa að kveldi með regni; 1, hvass á landsunnan fram á kveld með regni; gekk svo til útsuðurs. (2. nóv.).
1909 (1,7) Úrkomusamt, einkum framan af, og aldrei vel hlýtt enda virðist kuldapollur hafa verið þaulsætin yfir landinu og nágrenni þess. Mikil úrkoma var á austfjörðum 5.-6. og í Vestmanaeyjum næstu daga þar á eftir í austlægum áttum. Verulega kalt var síðustu vikuna í norðaustanáttum og sjóaði víða um land, jafnvel í Vestmannaeyjum. Þar varð hlýjast í mánuðinum, 10,7 stig þ. 17. en kaldast varð -16,0 í Möðrudal.
1885 (1,7) Þetta var fremur þurrviðrasamur október. Mjög kalt var í fyrstu vikunni en nokkrir hlýir dagar komu kringum miðjan mánuðinn vegna hæðar suður undan er fór svo vestur fyrir og kólnaði þá aftur en þó voru engar stórkostlegar frosthörkur en samt kalt og nöturlegt. Hlýjast var 11, 3 stig á Akureyri en þar varð einnig kaldast, -10,0 stig. Jónassen stóð veðurvaktina í Ísafold:
Umliðna viku hefir verið optast fagurt og bjart veður og síðan fyrir miðja viku hefir verið norðanátt, þó ekki kaldur, hjer hefir ekki verið mjög hvasst, en til djúpa hefir verið stormur á norðan og er enn í dag 6. með björtu sólskini. Talsvert snjóað i fjöll þessa vikuna. (7. okt.). - Allan fyrri part vikunnar hefir verið norðanveður, hvasst til djúpanna, hjer hægur eða logn, síðari hluta vikunnar hefir hann verið við hæga austanátt; að kveldi h. 12. fór að rigna og hjelst rigning næstu nótt. í dag 13. hvass á austan í morgun, hægur á austan eptir miðjan dag, dimmur. (14. okt.). - Umliðna viku hefir verið óvenjuleg stilling á veðri og veðurbliða; loptþyngdarmælir hefir alla vikuna staðið mjög hátt og lítið haggazt. Má svo segja, að logn hafi verið á hverjum degi; 16. var hjer logn, en hvass að sjá til djúpanna á norðan, sem aldrei náði hingað heim og gekk strax niður, því daginn eptir (17.) var hjer blíða logn frá morgni til kvölds. Í dag (20.) logn, þoka og rigning. (21. okt). - Þessa vikuna hefir ókyrrð verið á veðrinu og síðustu dagana verið við hátt; síðari hluta h. 24. var hjer húðarigning af austri; aðfaranótt sunnudags (25.) frysti og gjörði alhvítt af snjó; gekk til norðurs síðari part dags og gjörði kopar yfir alla jörð. Þessa viku hefir snjóað mikið í öll fjöll og er Esjan hjeðan að sjá, eins og væri um hávetur; h. 26. var vestanútnyrðingur, mjög hvass til djúpanna, en í dag 27. er hann genginn úr norðanátt með þýðu og hægri rigningu, hægur austankaldi, dimmur. (28. okt.). - Fyrstu daga þessarar viku var hjer rjett að kalla logn og rigndi talsvert, einkum 30. er rigndi allan daginn til kvelds kl. 7, að hann allt í einu gekk til vesturs með krapasletting. Síðan hefir verið útsynningur með jeljagangi og að sjá snjóað mikið til fjalla. (4. nóv.).
Árið 1782 voru gerðar hitamælingar á Bessastöðum á Álftanesi en þeim var ekki síður ábótavant en 1824. Þær sýna ámóta kulda og 1824. Frost var um hádaginn fyrstu tvo dagana og sýnist reyndarekki hafa hlánað síðustu tvo dagana að auki í september sem er nú eiginlega ótrúlegt. Hvað sem um þetta má segja er ljóst að mjög kalt var þessa daga. Síðan kom þrettán daga hlýindakafli en frá þeim 16. voru aftur kuldar miklir til mánaðarloka svo ekki virðist hafa hlánað um hádaginn. Næsti október, 1783, var einnig mjög kaldur.
Árin 1835 og 1841 var meðalhitinn í október í Reykjavík svipaður og 1917 og 1926 en ekki voru þá annars staðar gerðar hitamælingar á landinu.
Í fylgiskránni eru tíu hlýjustu og köldustu októbermánuðir á landinu fyrir þær stöðvar sem lengst hafa athugað, ásamt úrkomu og sól eftir atvikum.
Víkverji 1., 9., 15., 22., -29. okt, 1. nóv. 1873.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 11.12.2011 kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2011 | 17:14
Köldustu septembermánuðir
Eins og venjulega eru nánari upplýsingar um hita og úrkomu stöðva í fylgiskjalinu en innan sviga við hvert ár hér í textanum er meðalhiti þeirra allra. Röðin eins og ávallt áður er frá kaldasta mánuði til hins mildasta. Meðalhti stöðvanna níuer 6,7 stig 1961-1990.
1918 (4,6) Þessi september var allt annað en yndislegur og 2,1 stig undir meðallaginu 1961-1990. Í Reykjavík, Grímsey og Teigarhorni er þetta kaldasti september sem mælst hefur og einnig á landinu í heild. Lágmarkshiti mánaðarins á landinu var einnig með því með því lægsta sem gerist, -15,0 stig á Möðrudal. Meðalhitinn þar var -0,5 stig og er það minnsti meðalhiti í september á veðurstöð í byggð á Íslandi. Næturfrost byrjuðu snemma og spilltu uppskeru á kartöflum. Á Grímsstöðum fór frostið niður í -12 stig og þar hlánaði ekki að heita mátti frá þeim 13. og til mánaðarloka. Í Reykjavík mældist næstmesta frost sem þar hefur mælst í september, -4,6 stig þ. 29. (metið er -4,8 þ. 29. 1899). Mjög sólríkt var í norðanáttinni á suðvesturlandi, 162 klst mældust á Vífilsstöðum við Reykjavík og þar er mánuðurinn sá 8. sólríkasti september ef við teljum Vífilstaði þá með Reykjavík. Úrkoma var alls staðar í minna lagi, sérstaklega á suðurlandi. Aldrei mældist minni septemberúrkoma í Vestmannaeyjabæ meðan þar var mælt, 1882-1920. Stundum snjóaði reyndar fyrir norðan og um miðjan mánuðinn einnig á suðurlandi. Alhvítt var í Reykjavík þ. 26. en snjórinn bráðnaði fyrir hádegi, að sögn Morgunblaðsins daginn eftir. Í Mosfellssveit var öklasnjór. Í þessum kalda mánuði fór hitinn þó einhvern tíma í 17 stig á Akureyri og þ. 4. á Seyðisfirði. Sérlega harðsvíraður lágþrýstignur var yfir Norðurlöndum þennan mánuð og norðlægar áttir algengar á Íslandi. Kortið sýnir frávik hæðar í 500 hPa fletinu frá meðaltalinu 1981-2011.
Myndlistarmaðurinn Muggur opnaði málverkasýningu í Miðbæjarskólanum. Þann 28. var tónverkið Saga hermannsins eftir Igor Stravinsky var frumflutt í Lausanne í Sviss. Þá stóð yfir lokasókn bandamanna á vesturvígstöðvunum.
1892 (4,7) Næst kaldasti september var á því kalda ári 1892. Í Hreppunum er hann reyndar sá kaldasti af þeim öllum. Á Raufarhöfn mældist í mánuði þessum mesta frost sem þar hefur mælst í september, ótrúleg -10,5 stig. Þetta er kannski röng mæling en næst lægsta talan er -5,8 stig (þ. 28.) á Teigarhorrni sem er líka ótrúlega lág tala fyrir þá stöð í september og er kuldamet þar. Úrkoma var í meira lagi á suður- og vesturlandi, en minni á austurlandi eftir takmörkuðum mælingum að dæma. Annað slagið snjóaði fyrir norðan og þ. 18. var frost um hádaginn í Grímsey. Hlýjast varð 14,3 stig í Reykjavík þ. 2. Norðanátt var auðvitað algengust. Frostdagar voru taldir 22 á Raufarhöfn en 17 á Stóranúpi í Hreppunum. Kalt loft gerði sig heimakomið eins og kortið frá 850 hPa fletinum sýnir.
1979 (4,7) Hitinn í þessum hryssinglega mánuði var í heild 3,4 stig undir meðallaginu 1931-1960 sem þá var miðað við. Í innsveitum á norðurlandi var hitinn hins vegar allt að 5 stigum minni. Á Akureyri og í Vestmannaeyjum og Bolungarvík er þetta kaldasti september sem mælst hefur. Í Möðrudal og á Grímsstöðum var hitinn aðeins lítið eitt yfir frostmarki, 0,5 stig. Um miðjan mánuðinn komu dagar með meðalhita undir frostmarki í jafnvel betri sveitum. Þá gekk illviðri yfir með snjó-eða slydduéljum fyrir norðan. Á Grímsstöðum fór frostið í mánuðinum niður í -9,5 stig en það var reyndar ekki fyrr en þann 28. Þar var alhvítt í 16 daga en 15 við Mývatn. Á landinu var snjólagið 8% og hefur aðeins verið meira 1954, 1924, 1943 (sólarminnsti sept. í Reykjavík) og 1963. Mánuðurinn lá auðvitað í norðan-og norðaustanáttum. Úrkoman var nokkuð yfir meðallagi og reyndar alls staðar meiri en í meðallagi nema á sunnanverðum Austfjörðum og við Breiðafjörð þar sem hún var í minna lagi, en hins vegar var hún tvöföld í innsveitum á norðvestanverðu landinu, í Æðey og í Vestmannaeyjum. Úrkomudagar voru margir eiginlega alls staðar svo það var ekki neinum þurrkum og kuldum fyrir að fara heldur þvert á móti votviðrum og kuldum. Hryssingurinn var óskaplegur. Hlýjast varð 16,0 stig þ. 9. á Seyðisfirði. Mikið hret var dagana 15.-16. með fjársköðum og sköðum vegna ísingar. Þann 15. var meðalhitinn á Akureyri undir frostmarki, -0,1 stig og er þetta fyrsta dagsetning að hausti sem sólarhrignshiti þar er undir frostmarki (í Reykjavík er það sá 23. 1974, -0,2). Kortið ófrýnilega er af 850 hPa fletinum.
Þann 24. kom fyrsti hópur flóttamanna frá Víetnam til landsins.
Meðalhiti á landinu í september 1979.
1869 (4,9) Ef tekið er mið af meðalhita Reykjavíkur og Stykkishólms er þessi september líklega fjórði kaldasti september. Þá var aðeins athugað á þessum stöðum. Hlýtt var fyrstu fjóra dagana í Stykkishólmi, allt upp í 14,7 stig en eftir það komst hitinn þar aldrei upp í tíu stig fyrr en síðasta daginn. Úrkoma var lítil, alls 40,3 mm, og alls engin eftir fyrsta þriðjung mánaðarins en næturfrost voru nær hverja nótt seinni helming mánaðarins og dagshitinn oftast undir fimm stigum nema síðasta daginn. Fyrir norðan snjóaði í byggð og spillti heyskap. Norðangarður mikill gekk yfir dagana 11. og 12. og slitnuðu þá upp skip á Siglufirði og víðar.
1975 (5,1) Þessi kaldi mánuður er reyndar sólríkasti september sem mælst hefur í Reykjavík. Þar voru sex frostnætur. September er talinn með sumarmánuðum og sýnir þetta svo ekki verður um villst að ekki fer alltaf saman sólskin og hlýindi að sumarlagi í höfuðborginni. Óveður af vestri gerði þ. 15. og notaði hitinn þá tækifærið til að fara í 18,0 stig á Dalatanga og Seyðisfirði en þennan dag voru skriðuföll á Vestfjörðum. Æði vetrarlegt var nyrða í mánaðarlok. Síðasta daginn komst frostið í - 13,3 á Vöglum í Fnjóskadal sem þar er kuldamet í september og mesta frost á landinu á láglendi í september. Á Staðarhóli í Aðaldal mældust -12,8 og met kom á Grímsstöðum, -13,1 stig. Mesta snjódýpt sem mælst hefur í september á landinu mældist á Sandhaugurm í Bárðardal, 55 cm þ. 24. Þar og á Tjörn í Svarfaðardal voru 8 alhvítir dagar en 10 á Grímsstöðum. Snjólag á landinu var 7% en alauð jörð þó alls staðar á suður og vesturlandi. Kortið sýnir frávik hitans í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð.
1982 (5,2) Þetta var fremur þurrviðrasamur mánuður og snjólag var nú ekki meira en 1% en frá 1924 hafa rétt rúmlega 30 septembermánuður verið með snjólagstöluna 0. Hámarkshiti landsins var alveg óvenjulega lágur, 14,3 stig þ. 1. á Vopnafirði. Í Grímsey, Æðey og á Galtarvita komst hitinn aldrei í tíu stig allan mánuðinn. Kaldast varð -9,7 stig á Möðrudal þ. 22. og sama dag -9,0 á Staðarhóli en -10,3 á Hveravöllum. Þennan dag var víða bjart en meðalhiti sólarahringsns á Akureyri var undir frostmarki.
Kaldasti september eftir 1982 var árið 2005 þegar hitinn var 5,5 stig og er þetta ellefti kaldasti september frá 1866 en þriðji sólríkasti september í Reykjavík. Snjó festi þá tvo daga á Akureyri.
1954 (5,2) Þessi afburða kuldalegi september er þó sá annar sólríkasti í Reykjavík. Á Akureyri voru sólskinsstundir hins vegar aðeins 53 og 51 á Hallormsstað. Í Vestmannaeyjum, Sámsstöðum (16,8 mm), Hæli (10,7 mm) og Eyrarbakka (19,2 mm) er þetta úrkomuminnsti september og reyndar á nokkrum stöðum vestanlands, t.d. aðeins 3,0 mm á Hellissandi. Og aldrei hafa verið færri úrkomudagar í september í Reykjavík en þar voru þeir sjö. Úrkoman var undir meðallagi á landinu en tiltölulega mest var hún á norðausturlandi, allt að tvöföld, en aftur á móti mjög lítil á suðvestur-og vesturlandi. Þetta er hins vegar snjóþyngsti september sem um getur, miðað við snjólagstölu stöðva í prósentum, sem var 13%, en þær mælingar eru til frá 1924 og er meðaltal allra stöðva 2% í september. Á fjöllum var snjólagstalan 46% og er sú mesta í september síðan farið var að fylgjast með því árið 1935. Mjög víða festi snjó, jafnvel var snjódýptin 6 cm í Reykjavík að morgni þ. 26. en í mánaðarlok var hún 35 cm á Grímsstöðum, en þar var alhvítt í 11 daga og strax þann 14. Frostdagar hafa aldrei verið fleiri í Reykjavík í september, 10, en 17 í Möðrudal og á Þingvöllum. Mesta frost sem mælst hefur á landinu í september, -19,6 stig kom í Möðrudal þ. 27. og er þetta reyndar óhuganleg tala svo snemma hausts. En sama dag mældist mesta frost á Akureyri í september, -8,4 stig. Er þetta kaldasti septemberdagurinn á Akureyri frá 1948 a.m.k. með meðalhita upp á -2,9 stig. Daginn áður hafði mælst minnsta þykkt í neðri hluta veðrahvolfsins yfir Keflavík sem mælst hefur í september, 5130 m, sem er vetrarástand en því minni sem þessi þykkt er því kaldara er loftið. Mesta frost á veðurstöðvum í september mældist víða, t.d. í Síðumúla í Borgarfirði (-10,2), í Miðfirði (-10,0), á Húsavík (-7,0), Hallormsstað (-7,9) og Þingvöllum (-8,6). Síðustu vikuna var hreinlega vetrarveður fyrir norðan og miklir kuldar miðað við árstíma, t.d. tveggja stiga frost á hádegi á Akureyri þ. 27. í sólskini! Og á sama tíma var frost þar alla dagana sem eftir voru mánaðarins en altaf skreið hitinn þar þó upp fyrir frostmarkið smástund um miðjan daginn, en að kvöldi hins 27. var sex stiga frost í nokkrar klukkustundir á Akureyri. Dagarnir 25.-29. settu allir dagshitamet fyrir lægsta meðalhita í Reykjavík og 25.-28. á Akureyri. Fyrsta vika mánaðarins var aftur á móti nokkuð hlý og komst hitinn í 17,9 stig á Þingvöllum þ. 8 og daginn áður í Reykjavík. Kortið sýnir frávik þykktar frá meðallagi sem ég held að hafi aldrei verið minni í sepember en þessum.
1922 (5,3) Fremur hryssinglegur mánuður þar sem svalar suðaustan og austanáttir voru áberandi. En úrkomumagn var þó alls staðar eða víðast hvar í minna lagi. Um miðjan mánuð brá þó til norðaustanáttar í nokkra daga og sums staðar snjóaði þá fyrir norðan og austan. Hiti var þá aðeins kringum 1-3 stig á morgnana og kvöldin í Reykjavík í um vikutíma en eitthvað hærri um miðjan dag en sólarhringsmeðaltalið hefur varla náð þremur stigum. Sjá kortið þ. 16. sem stækkar mjög ef þrísmellt er á það eins og öll hin kortin. Frostið fór mest á landinu í -8,9 stig þ. 16. á Grímsstöðum á Fjöllum en þar varð líka hlýjast, 17,1 stig þ. 9. Eftir þann dag var úti um hlýindi í mánuðinum. Frostnætur voru 9 í Reykjavík og hafa aðeins verið fleiri í september 1954. Hlaup varð í Skeiðará þ. 28. Þessi mánuður er merkilegur í mælingasögu heimsins fyrir það að þann 13. mældist mesti hiti sem skráður er á jörðunni, 57,8 stig í El Aziza í Líbíu en sumir telja mælinguna reyndar vafasama. Þennan dag var kuldi mikill á Íslandi.
1882 (5,4) Eftir kaldasta sumar fyrir norðan, júní til ágúst, kom svo þessi 9. kaldasti september á landinu. Kalsaveður með úrkomu ríkti lengst af. Fyrstu dagarnir voru sæmilegir og komst hitinn í 17,2 á Hrísum. Svo segir í Fréttum frá Íslandi: Með höfuðdegi birti upp, og kom góður tími í viku; þá fór loksins hafísinn burtu frá Norðurlandi. En samt hjeldust hríðaköstin allt til rjetta, og taldist mönnum svo til, að 10 sinnum hefði alsnjóað nyrðra frá Jónsmessu til rjetta. Verst var það hríðarkastið, er gjörði 12. september og stóð í 3 daga með 7° R. [-9° C] frosti. Þá voru ár riðnar á ís í Skagafirði og í Dalasýslu og víðar, og gengið á skíðum úr Fljótum inn í Hofsós sakir ófærðar; fennti þá fje á afréttum milli sveita, en ei á heiðum frammi, því að hríðarnar náðu aldrei lengra en fram á fjallabrúnir; 23 sept. kom síðasta hríðin, og fennti þá hross í Laxárdalsfjöllum, afrjetti milli Húnavantssýslu og Skagafjarðar." Á Siglufirði fór frostið niður í -9,7 stig. Í norðanhríðinni laust fyrir miðjan mánuð var stórviðri á suðurlandi og fuku þá víða hey manna. Jónas Jónassen lýsti tíðinni í Reykjavík í Þjóðólfi 30. október:
1. 2. bjart veður, logn; 3. 4. sunnan, dimmur, regn; 5. vestanútsunnan, hægur ; 6. landssunnan, hvass, regn; 7. 8. 9. útsunnan, hvass, með hriðjum ; 10. norðanrok (snjór í miðja Esju); 11. 12. sama veður en vægara; 13. 14. 15. austan; rokh. 15. 16. 17. norðankaldi (hvass til djúpanna); 18.-23 hægur, við austurlandssuður með regni; 24. bjart veður, logn; 25.-29. austan-lands. með regni; 30. hvass mjög á austan-landnorðan.
1924 (5,4) Úrkoma í þessum september var mjög lítil, aðeins um helmingur meðalúrkomu á landinu. Þetta hafði reyndar verið með afbrigðum þurrt og sólríkt sumar á suðurlandi og var til þess tekið að síðast í mánuðinum hafi vatnsborð Þingvallavatns verið mörgum fetum lægra en venjulega. Syðra var áfram sólríkt í þessum mánuði enda norðan og norðaustanáttir algengar og er þetta níundi sólríkasti september í höfuðstaðnum. Hlýtt var fyrstu dagana og góður þurrkur fyrir norðan og komst hitinn í 19,8 stig þ. 2. á Möðruvöllum. Þar varð einnig kaldast, -8,4 þ. 23. En fljótlega hafði kólnað í mánuðinum. Alhvítir dagar voru tveir í Reykjavík og hafa ekki verið taldir fleiri í september frá stofnun Veðurstofunnar 1920. Snjóhula í bænum var metin 7% og aldrei verið meiri í september. Snjódýpt var þó aðeins 1 cm þessa tvo daga, 28. og 29. Snjóhula á öllu landinu var 11%, sú næst hæsta. Mestur var snjórinn á norðvesturlandi, 45 cm á Suðureyri við Súgandafjörð næst síðasta dag mánaðarins. Ekki sást á milli húsa á Vestfjörðum þegar þessi hríð stóð sem hæst, segir Morgunblaðið síðasta dag mánaðarins. Fleiri illvirði voru um þetta leyti og þ. 27. fórst Rask frá Ísafirði í ofviðri með allri áhöfn, 15 manns og fleiri skip lentu í hrakningum þann dag.
Þórbergur Þórðarson hafði lokið við Bréf til Láru á Ísafirði daginn áður en þess mánuður hófst og allan þennan mánuð og eflaust miklu lengur þóttist hann mikið verk hafa unnið enda var sál hans víð og djúp eins og alvaldið og bókin sannkallað tímamótaverk í íslenskum bókmenntum!
Mjög snarpir jaðskjákftakippir voru í Krísuvik þ. 4 og næsta daga og fundust þeir vel í Reykjavík. Talvert jarðrask varð í Krísuvík, langar sprungur komu þar víða í jörðu; stórar skriður féllu úr fjöllum og leirhver myndaðist. Þá skekktust hús. Kippirnir voru svo snarpir að mönnum og skepnum sló flötum. Þann 7. fundust svo tveir allsnarpir og tveir litlir landskjálftakippir á Akureyri.
Þann 29. skírði Vísir frá því að Adolf nokkur Hitler, sem dæmdur hafði verið í fangelsi fyrir uppreisnartilraun í München í Bæjaralandi, hafi fengið skilyrðisbundna náðun. Og hann braut víst aldrei skilorðið!
Af köldum septembermánuðum á fyrri tíð sker sá árið 1782 sig úr eins og allt það sumar og er hugsanlega kaldasti september sem einhverjar mælingar eru til um á Íslandi, en þær voru gerðar á Lambhúsum á Álftanesi og eru kannski vafasamar um margt. En að morgni síðasta dagsins var frostið talið -6,3 stig og hefur aldrei svo lág hitatala sést í september í Reykjavík á öðrum tíma. Þennan dag var hitinn um miðjan dag -3,1 stig og -3,8 um sama leyti daginn áður og reyndar -1,9 stig um miðjan dag þ. 25. en -5,0 um morguninn og -5,6 stig næstu tvo morgna þar á undan en fór rétt yfir frostmarkið um hádaginn. Árin 1809 og 1807 voru líka mjög kaldir septembermánuðir, líklega á borð við þá þrjá köldustu sem hér hefur verið sagt frá, eftir mælingum að dæma sem gerðar voru á Akureyri. Seinna árið var frostið þar 2-6 stig síðasta daginn. Fyrra árið var hins vegar frostið tvö til fimm stig um hábjartan daginn alla dagana 20.-25. og að kvöldi hins 23. var frostið -11,9 stig. Aldrei hefur seinna mælst svo mikið frost í september á Akureyri. Taka verður þó þessar gömlu mælingar, ekki síður en á Lambhúsum, með hæfilegri varúð ef ekki léttúð, en ljóst er að um óvenjulega kulda var að ræða.
Fylgiskjalið sýnir hita, úrkomu og sólskin fyrir stöðvarnar níu í hverjum mánuði.
Fréttir frá Íslandi, 1882.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 10.12.2011 kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2011 | 12:43
Köldustu ágústmánuðir
Í þessum mánuði hefir veður mátt heita stirt og óhagstætt, þar sem framan af rétt daglega var meiri eða minni úrkoma og seinna norðanveður mikil með kulda. 1. var útsynningur með sudda; 2. sama veður, nokkuð hvasst; 3. bjart veður, við norður; 4. landsynningur með rigningu; gekk síðan til útsuðurs; 5. austan, dimmur, með regni; 6.10. sunnan útsunnan, dimmur með úrkomu; 11. hægur á útnorðan, með úrkomu síðari hluta dags; 12. logn, rigning, norðankaldi til djúpanna; 13. landnorðan, hægur, dimmur; 14., 15., 16. hvass á norðan, gekk síðari hluta dags hinn 16. til austurs; 17. austan, bjartur; 18. hvass á norðan til djúpa, dimmur; 19. 26. norðanveður, opt hvass mjög; 27. hægur á austan, dimmu ; 28.31. optast bjart veður og hægur.
Eins og júlí eru ágústmánuðir áranna 1882, 1886, 1887 og 1888 allir með þeim köldustu. Það sætir því eiginlega furðu að Fréttir frá Íslandi skuli gefa sumrunum 1887 og 1888 mjög góða einkunn sem Þorvaldur Thoroddsen síðan endurtekur. Annars er svo sem ekki um auðugan garð að gresja með heimildir um flesta þessa mánuði, nema í töluformi í skýrslum dönsku veðurstofunnar fyrir örfáar stöðvar, og er ólíku saman að jafna eftir að mánaðarrit íslensku Veðurstofunnar, Veðráttan, byrjaði að koma út 1925 með talsverðu lesmáli um hvern mánuð auk tölulegra upplýsinga.
1903 (6,9) Mánuður þessi var miklu kaldari á suðvesturlandi og vesturlandi en 1882, en hins vegar mildari fyrir norðan en svipaður á austurlandi og suðurlandi. Mælt var í Möðrudal þar sem meðalhitinn var 3,6 stig. Nær linnulaus norðan eða norðaustanátt var allan mánuðinn með hæð yfir Grænlandi og lægðum fyrir austan land. Kuldapollur var oft yfir landinu eða í grennd við það. Kortið sýnir ástandið í um 1400 metra hæð. Þungbúið mjög var fyrir norðan og úrkomur en á suðurlandi var sólrikt og einstaklega þurrt. Úrkoma í Reykjavík hefur aldrei verið minni í ágúst, aðeins 0,8 mm og féll á tveimur dögum. Á Teigarhorni er þetta þriðji þurrasti ágúst. Mesti hitinn á landinu var mældur í Reykjavík, 18,1 stig þ. 2. en minnsti -3,5 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem frostnætur voru tvær. Frost mældist mjög víða. Á Eyrarbakka fór það niður í -3,4 stig en þar var ein frostnótt. Næst síðasta daginn mældist meira að segja frost í Reykjavík, -0,1 stig en í ágúst hefur þar aðeins mælst frost í þessum mánuði og árið 1956. Í Stykkishólmi var næturfrost þ. 26. og eftir miðjan mánuð komst hitinn þar aldrei í tíu stig eða meira. Í Grímsey fór hitinn allan mánuðinn ekki hærra en í 8,0 stig en þar fraus þó aldrei. Enginn hafís var við strendur landsins þetta sumar. Sjávarhiti var 4 stig við Grímsey en tíu og hálft stig við Vestmannaeyjar.
1907 ( 7,4) Þessi einstaklega hægviðrasami ágúst var enn þá þurrari en 1903. Það rigndi aðeins einn dag í Reykjavík, 0,9 mm. Og þetta er enda talinn þurrasti ágúst á landinu. Á Teigarhorni út af fyrir sig er þetta sá annar þurrasti. Kortið frá um 1400 metra hæð sýnir hægviðri í köldu lofti við Ísland sem einnig var niður við jörð. Á Grímsstöðum á Fjöllum er þetta fyrsti ágúst sem mældur var eftir að mælingar urðu þar samfelldar og var meðalhitinn 3,9 stig. Oft var bjart yfir vestanlands og sunnan og stundum einnig annars staðar. Mesti hiti í mánuðinum varð 21,1 stig á Akureyri en á Holti í Önundarfirði mældist frostið -3,8 stig. Á Eyrarbakka fór frostið niður í -3,2 stig. Næturfrost voru ekki alveg eins útbreidd og 1903 en frostnætur voru fleiri sums staðar þar sem fraus á annað borð, allt upp í sex á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Úthéraði. Þetta var hafíslaust sumar. Síðustu þrjá dagana náði hitinn ekki tíu stigum í Reykjvík og mikill kuldi var yfir landinu. Sjávarhiti var ívið lægri en 1903.
1886 (7,4) Í þessum ágúst var loftvægi óvenjulega lágt, aðeins 997,9 hPa að meðallagi í Reykjavík og hefur aldrei verið þar lægra í ágúst. Úrkoma var svipuð á suður- og vesturlandi og meðallagið 1961-1990 sem við þekkjum best en nokkru meiri annars staðar. Þrátt fyrir kuldann varð hvergi kaldara en -0,1 stig og var það í Möðrudal. En það varð heldur aldrei hlýrra en 18,7 stig, á Hrísum í Eyjafjarðardal. Lægðir voru oft að flækjast nærri landinu, sunnan við það eða norðan, eða jafnvel yfir því. Þetta hefur verið þungbúinn en rysjóttur ágúst en þó komu stöku sólardagar með köldum nóttum. Þrettán daga náði hitinn ekki tíu stigum í Reykjavík og þann 26. varð hámarkshiti ekki hærri en 5,4 stig en lágmarksmælingar vantaði þennan mánuð í bænum. Dæmafáir óþurrkar voru annars um allt land nema með köflum á suðurlandi, hefur Þorvaldur eftir Fréttum frá Íslandi. Úrkoman mældist 14 mm í Reykjavík þ. 23. og daginn eftir 12 mm. Þornaði upp síðustu vikuna", segir Suðurnesjaannáll. Ís hafði verið við landið snemma sumars en ekki þegar hér var komið sögu. Jónassen lýssti veðurfarinu í Reykajvik í nokkrum blöum Ísafoldar:
Alla vikuna hefur verið mesta hægð í veðri með talsverðri úrkomu; einkum rigndi hjer mikið eptir hádegið 31. f. m. Síðustu dagana hefur verið sunnan útsunnan átt með skúrum, opt bjartur á milli. Í dag 3. hægur landsynningur, rigningarlegur. Loptþyngdarmælir hefur staðið mjög stöðugur alla vikuna og hreyfist svo að kalla ekkert enn þá. (4. ág.). - Framan af vikunni hjelzt sama óþurkatiðin sem var fyrri vikuna, en föstudag 6. gekk hann til norðurs og hefur síðan verið á þeirri átt, stundum hvass til djúpa, en hjer hægur og bjartasta veður. Í dag 10. sama norðanveðrið; snjóaði í Esjuna í nótt og sömul. í öll austur, og suðurfjöll (12.ág.).- Alla vikuna hefir verið hægt norðanveður, bjart sólskin daglega; á nóttu mjög kalt; alveg úrkomulaust alla vikuna. í dag hægur landnorðan-kaldi, bjart veður. (18. ág.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer hæg sunnanátt með nokkurri rigningu; 19. sama veður, en gekk síðari part dags til landnorðurs og þá hvass og síðast um kveldið genginn til norðurs með slúð; daginn eptir (20.) var hjer hvasst útnorðanveður; síðan hefur verið sunnan-landsunnanátt, hæg og rignt mikið, einkum rigndi hjer mjög míkið allan daginn h. 22. í dag 24. hægur landsynningur (Sa.) dimmur og hefur rignt óeamju mikið i nótt sem leið, og rigning í dag. Loptþyngdarmælir fallið og stendur lágt. (25.ág.). - Alla umliðna viku hefir verið sunnanátt, optast með mikilli úrkomu dag og nótt; 28. var allbjart veður á norðan-landnorðan, en síðan einlægt öðru hvoru rigning. Í dag 31. hægur á sunnan með rigningarskúrum ; loptþyngdamælir nú að hækka. Í fyrra var sama veður síðustu daga þessa mánaðar. (1. sept.).
Þann 18. voru liðin hundrað ár síðan Reykjavík fékk kaupstaðaréttindi og var af því tilefni haldið samsæti í bænum.
1892 (7,5) Alls staðar var þurrt í þessum mánuði. Og kalt. Austan eða norðaustanátt var algeng og voru kuldarnir mestir við sjóinn á norður og austurlandi en á suðurlandi var hitinn næstum því sæmilegur sums staðar, talinn 10,4 stig á Eyrarbakka þó hann væri aðeins 7,7 á Stóranúpi í Hreppunum. Munurinn er ótrúlega og kannski grunsamlega mikill en Eyrarbakki á það til reyndar að njóta sín tiltölulega vel í björtum og köldum norðanáttum að sumri. Annars var undarlega kalt allt þetta ár í Hreppunum. Þurrkar á landinu voru góðir, segir Þorvaldur Thoroddsen, nema á austfjörðum þar sem hafi verið einlæg votviðri. Mjög sólríkt virðist hafa verið á vesturlandi mestallan mánuðinn og á suðurlandi seinni helming hans. Hitinn fór yfir tíu stig næstum því alla dagana í Stykkishólmi og alla daga í Vestmanneyjum þó meðalhitinn væri ekki hár. Lámarkshiti var hins vegar ekki mikill. Mestur hiti mánaðarins mældist í Reykjavík 18,6 stig þ. 10. Mjög kalt loft kom til landsins nokkra daga um miðjan mánuð og aftur allra síðustu dagana, Komst frostið niður -3,8 á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem frostnætur voru átta. Hafís var horfinn frá landinu, nema við Hornbjarg, en hafði verið mikill langt fram á sumar. Á eftir þessum ágúst kom annar kaldasti september en á undan honum fór þriðji kaldasti júlí. Engar veðurfarslýsingar komu frá Jónassen þennan mánuð.
1912 (7,5) Þetta er kaldasti ágúst sem mælst hefur í Reykjavík. Úrkomusamt var á norður og austurlandi, einkum er á leið en á suður- og vesturlandi var þurrt. Ekki var þó sólríkt, aðeins 92 sólskinsstundir mældust á Vífilsstöðum við Reykjavík. Í byrjun mánaðarins var gríðarlegt kuldakast sem skall á síðast í júlí. Þá snjóaði ekki aðeins sums staðar á norðurlandi heldur einnig á vesturlandi. Í Möðrudal fór frostið niður í -5,0 stig. Kortið sýnir kuldatungu suður um landið á miðnætti þ. 1. og áætlaðan hita í kringum 1400 m hæð og er 5 stiga frost yfir landinu. Fyrstu þrjá dagana var hitinn aldrei meiri en átta stig í Reykjavík um miðjan dag en aftur á móti fór hitinn þar í 20,9 þ. 15. en um miðjan mánuðinn komu þar fjórir hlýir dagar þegar hæð var norðan og austan við land og kom með mildara loft frá Norðurlöndum. Hvergi varð hlýrra í þessum mánuði. Íshrul sást í mánuðinum milli Siglufjarðar og Skaga.
Síðasta daginn var brúin yfir Rangá vígð.
1888 (7,7) Þetta var norðan eða norðaustanáttamánuður mikill. Kaldast var á útskögum fyrir norðan og austan og ekki var svo sem hlýtt heldur þar inn landsins. Minnstur var meðalhitinn á Raufarhöfn 3,9 stig og við Bakkaflóa var hann 4,7 stig. Á suður og suðvesturlandi var hins vegar ekki afskaplega kalt, 9,7 stig bæði á Eyrarbakka og í Reykjavík og reyndar talin 10,2 stig í Hafnarfirði en því trúi ég nú mátulega. Á austurlandi rigndi mikið en annars staðar lítið og minnst á suðvestur- og vesturlandi. Mestur hiti varð 18,7 stig á Núpufelli í Eyjafjarðardal en minnstur -3,0 í Grímsey þar sem frostdagar voru 13. Þorvaldur Thoroddsen segir að sumarið hafi verið mjög þurrviðrasamt víðast hvar nema hvað hafísþokubrælu hafi gætt á norðausturlandi og skýrir það hinn mikla kulda við sjóinn. Ísinn var þó farinn frá landi í byrjun ágúst nema á norðausturlandi, t.d, Þistilfirði. Að öðru leyti hafi verið sífelld góðviðri og sólskin, segir Þorvaldur. Skýjahulutölur frá veðurstöðvum bera þessu einnig vitni. Meira að segja í Grímsey kom viku kafli eftir miðjan mánuð með bjartviðri. Hitanum var þó ekki fyrir að fara. Víst er að þessi ágúst er sá 7. kaldasti á landinu eftir 1870 og júlí var líka sá 7. kaldasti. Kortið sýnir norrænt góðviðrið í um 1400 m hæð. Jónassen lýsti Reykjavíkurveðrinu í Ísafoldarblöðum:
Alla þessa viku hefir sama góðviðrið haldizt við, optast logn, síðustu dagana við austanátt með hægð; dálítil úrkoma var 6. þ. m. Loptþyngdarmælir heldur að lækka síðustu dagana. Í dag 7. vestanátt, hægur, dimmur eptir hádegi og regnlegur. (8. ág.). - Sama góða veðrið viðhelzt enn, logn og blíða á degi hverjum; dálítil rigning kom um tíma á laugardaginn 11. þ. m. í dag 14. logn, nokkuð dimmur, bjartur eptir hádegi. (15.8.). - Enn helst sama góðviðrið; h. 17. rigndi litið eitt af austri eptir miðjan dag, annars bjartasta sólskinsveður á degi hverjum. Í dag 21. hæg útræna bjartasta veður, svo að kalla logn. (23.8.) - Sama góðviðrið helzt enn sem nú í langan tíma að undanförnu; síðustu dagana hafir hann verið á norðan, opt hvass til djúpa. Í dag 28. hvass hjer innfjarða, en bálhvass úti fyrir á norðan, bjart og heiðskírt veður. (29. ág.). - Fyrsta dag vikunnar var hjer hvasst norðanveður allan fyrri part dags, gekk svo til útnorðurs (Sv) og síðan i landsuður (Sa), nokkuð hvass fyrripartinn og ákaflega mikil rigning um morguninn, suddi af suðri síðari part dags. ... (5.sept).
Kaldasti ágúst síðan Ísland varð sjálfstætt ríki var 1943 (7,8). Þetta var einnig kaldasti ágúst sem mælst hefur á Grímsstöðum, 3,6 stig og kaldari en 1882 og 1907. Á norðausturlandi voru miklir óþurrkar en annars var víðast þurrviðrasamt. Úrkoman á Dalatanga var 216,7 mm og þar af féllu 101,8 mm þ. 22. Sólríkt var í Reykjavík og er þetta þar þriðji sólríkasti ágúst, en aðeins 95 stundir mældust á Akureyri. Þetta var þurrasti ágúst síðan mælingar hófust í Stykkishólmi 1857, 0,8 mm. Þar rigndi tvo daga en aðeins einn á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Næturfrost voru víða og mest -5,5 stig á Grímsstöðum þ. 24. en þann dag var Himmler gerður að innanrikisráðherra Þýskalands. Þrátt fyrir kuldana snjóaði hvergi á landinu. Norðanátt var ríkjandi og alveg frá 9.-20. var hæð yfir Grænlandi og oft bjartviðri sunnanlands en kuldar, rigningar og þokur á norðurlandi. Nokkrir sæmilega hlýir dagar komu á suðurlandi þennan tíma og komst hitinn mest í 19,1 stig á Hæli þ. 16. Í lok mánaðarins kom eitthvert mesta kuldakast sem komið hefur í ágúst. Kortið sýnir hitann í um 1400 m hæð þ. 29 og er fimm stiga frost yfir landinu en 10-15 stig yfir Grænlandi. Eins og alltaf áður stækka kortin mjög ef smellt er nokkrum sinnum á þau.
Styrjöldin var í hámarki. Þann 5. var þýsk flugvél skotin niður yfir norðurlandi. Innrás Bandamanna á Sikiley stóð yfir og Mílanó var lögð í rúst í loftárásum. Seint í mánuðinum komu síðustu gyðingarnir til útrýmingar í Treblinka en þar höfðu fangar gert uppreisn í byrjun mánaðarins sem bæld var niður.
1887 (7,9) Þessi mánuður kom í kjölfar kaldasta júlí sem mælst hefur. Fremur var þurrviðrasamt nema í Reykjavík þar sem rigndi tiltölulega mest en samt ekki mikið meira en í núgildandi meðallagi. Þar rigndi þó mikið hvern dag fyrstu vikuna en aðeins sex daga á stangli eftir það. Mjög kuldalegt var við sjóinn á norður og austurlandi. Á Teigarhorni er þetta kaldasti ágúst. Í Grímsey voru frostdagar 13 og 10 á Teigarhorni. Á Akureyri og í Hrútafirði gerði þó ekki frost og því um síður á suður-og vesturlandi, en stöðvar voru reyndar mjög fáar. Kaldast varð á Raufarhöfn, -4,6 stig og hefur aldrei mælst þar eins mikill kuldi í ágúst. Á Hornafirði komst hitinn einn daginn í 21,4 stig og varð hvergi hlýrra á landinu. Þorvaldur Thoroddsen segir að þetta sumar hafi verið góð tíð og framúrskarandi á suðurlandi og á austurlandi nema í Húnavatns-, Skagafjarðar og Norður Þingeyjarsýslu en þar gengu þokur og suddar. Hann segir þó að nokkur næturfrost hafi verið fyrir norðan er leið á sumarið. Allt þetta hefur hann úr Fréttum frá Íslandi. Ágúst þetta ár er hinn 8. kaldasti en júlí var reyndar sá allra kaldasti á landinu í heild. Alveg framúrskarandi sumarblíða! Jónassen lýsti svo tíðarfarinu í Reykjavík í nokkrum blöðum Ísafoldar:
... hefir verið við suður eða útsuðurátt, hægur en dimmur og stundum rignt talsvert með köflum t. a. m. aðfaranótt h. 2. Í dag 2. hægur á sunnan, dimmur, húðarigning i morgun allt fram undir hádegi. (3. ág.). - Alla vikuna hefir verið sunnanátt með talsverðri úrkomu og optast dimmur, þar til að hann í dag 9. gekk til norðurs, hægur en bjartasta veður; loptþyngdarmælir hefir þotið upp síðan í gær og stendur nú mjög vel, svo útlit er fyrir að veður haldist við norður. (10. ág.). - Umliðna viku má heita að logn hafi verið daglega, bjart og fagurt veður optastnær; 13. og 14. var um tíma dimmviðri með nokkurri úrkomu; 15. gekk hann til norðurs og var hvass til djúpa, hjer hægur; í dag 16. logn og fagurt veður, hægur norðankaldi; Lítur út sem sje hvasst úti fyrir á norðan og talsverður uppgangur í vestri og norðri; mistur í lopti norðanundan bæði í gær og í dag. (18. ág.). - Alla vikuna má heita að hafi verið logn og bezta veður, og sama hægðin er enn þann dag í dag (23.). Eptir hádegi genginn til landssuðurs með hægð, og rigningarlegur og loptþyngdarmælirinn að lækka. (24. ág.). - Alla undanfarna viku hefir verið að heita má alveg logn dag sem nótt með miklum hita og er mjög langt siðan önnur eins stilling hefir verið á veðri eins og undanfarna tíð. Í fyrra var t. d. 25. ágúst útsynnings-ofsi með miklum kalsa (5 stiga hiti um hádegið) og hafróti. Í dag 30. rjett logn, dimmur i morgun og nokkur rigning, birti upp eptir hádegi. (31. ág.).
1921 (7,90). Upphaf þessa ágústmánaðar var eitt hið svalasta sem yfir Reykvíkinga hefur gengið og var þá mjög þurrt, en nokkuð rætist úr kuldanum er á leið, en aldrei varð mánuðurinn þó annað en kaldur og talsvert úrkomusamur seinni hlutann. Hámarkshitinn var einhver hinn lægsti sem um getur í Reykjavík í ágúst, 13,7 stig. Þess má og geta að aldrei hefur hámarkshiti ársins verið lægri Reykjavík en þetta ár, 14,7 stig en sá hiti mældist í júlí. Úrkomusamt var á austfjörðum og þar urðu mikil skriðuföll, en yfirleitt var þurrviðrasamt á suður-og vesturlandi. Norðan og norðaustanátt var áberandi. Frostið fór í -4,0 stig þ. 27. á Möðruvöllum. Hlýjast varð 20,6 stig á Seyðisfirði.
Tenórinn frægi Enrico Caruso, fyrsta stórstjarna grammófónsins, lést þ. 2. Daginn eftir stofnaði þýski nasistaflokkurinn stormsveitir sínar.
Hér verður að nefna ágúst 1983 þó hann sé ekki í tölu allra köldustu ágústmánaða á landinu í heild. Á suður-og vesturlandi var hann beint framhald af júlíkuldunum miklu það ár. Í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst kaldari ágúst, 8,0 stig og þar var hann einnig sá úrkomusamasti, 270 mm. Í Reykjavík var mánuðurinn einn af þremur köldustu ágústmánuðum frá 1866. Og hann er sólarminnsti ágúst sem þar hefur verið mældur. Fyrir norðan og austan var sæmileg tíð í suðvestanáttinni og bara góð á Vopnafirði þar sem meðalhitinn var heilt stig yfir góðærismeðallaginu 1931-1960 og þar mældist mesti hiti mánaðarins, 25,3 stig þ. 24. Í Reykjavík fór hitinn hins vegar aldrei hærra en í 13,4 stig og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum aðeins 10,7 stig. Skriðjöklar landsins voru um þetta leyti hættir að hopa í þeim kulda sem lengi hafði ríkt á þessum árum og er víst slíkra kulda saknað af sumum!
Óvenjulega kaldir ágústmánuður fyrir 1866 voru furðu fáir miðað við hvað veðurfar var þá almennt kalt. Árið 1850 var meðalhitinn í Reykjavík þó aðeins 7,4 stig en 6,9 í Stykkishólmi. Og 1841 var hitinn í Reykjavík 7,6 stig en 7,4 árið 1832. Seinna árið voru einnig mælingar á Möðruvöllum sem benda til meðalhita þar kringum sex stig. Mjög kalt var í ágúst 1832. Þá var aðeins athugað í Reykjavík og er meðalhitinn talinn 7,4 stig. Þetta eru því álíka kuldamánuðir í höfuðstaðnum og 1912. Sérlega kalt var fyrir norðan í ágúst 1864 þó ekki væri svo kalt í Stykkishólmi, 9,5 stig. En á Akureyri, áætlað eftir hitamælingum á Siglufirði og ber að taka með þó nokkurri varúð, var þessi mánuður jafnvel meira en hálfu stigi kaldari en ágúst 1882 og er þá kaldasti ágúst sem einhverjar tölur eru um á norðurlandi. Eftir mælingum að dæma sem gerðar voru hér og hvar á landinu, en reiknaðar hafa verið yfir til Stykkishólms, er ljóst að á kuldaárunum kringum 1815 var meðalhitinn þar í ágúst 1817 talinn 6,3 stig en 6,5 árið 1815. Þó þessar tölur séu ónákvæmar virðist þetta hafa þetta verið mánuðir í stíl við ágúst 1882 og 1903 með eins árs millibili.
Fréttir frá Íslandi 1882-1888, Suðurnesjaanáll 1886.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 10.12.2011 kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2011 | 18:10
Hlýjustu septembermánuðir
Sá septembermánuður sem mestur ljómi stendur af hvað hita og góðviðri varðar er september 1939. Hann er að vísu strangt til tekið bara næst hlýjasti septembermánuðurinn, ef miðað er við þær 9 stöðvar sem lengst hafa athugað þó næstum því enginn munur sé á honum og þeim hlýjasta, en þar á móti kemur að hann var einstaklega blíðviðrasamur. Þetta er líka eini september sem 20 stiga hiti hefur mælst í Reykjavík. Síðast en ekki síst hefur mánuðurinn fest í minni fólks vegna þess að þá hófst síðari heimsstyrjöldin þó það komi veðurfari auðvitað ekkert við.
Eins og áður í þessum pistlum um hlýjustu og köldustu mánuði er hiti og úrkoma tíunduð í hverjum mánuði fyrir hverja og eina af hinum níu stöðvum sem við er miðað í fylgiskjalinu en innan sviga í þessum megintexta er meðalhiti þeirra allra. Hann er 6,7 stig fyrir árin 1961-1990.
1939 (10,6) Mánuðurinn var sá hlýjasti sem komið hefur á suðurlandi allt frá Kirkjubæjarklaustri til Hornbjargsvita, en þó ekki í Vestmannaeyjum, Vík í Mýrdal, Þingvöllum, Hvanneyri og á Reykjanesi þar sem hlýrra varð 1941. Fyrstu níu daga mánaðarins (reyndar frá 29. ágúst) fór hitinn í Reykjavík aldrei niður fyrir tíu stig og hámarkshitinn fór fyrstu þrjá dagana í 18, 19 og 20 stig og aftur í 18 stig þ. 6. og 17 stig næstu þrjá daga þar á eftir. Meðaltal lágmarkshita var 9,8 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum sem þýðir að hann hefur næstum því örugglega verið yfir tíu stigum í kaupstaðnum. Og það í september! Mikil hlýindi voru í byrjun mánaðarins, 24,6 stig þ. 1. á Sandi í Aðaldal og 23,4 á Húsavík og þ. 3. var yfir tuttugu stiga hiti víða á suðurlandsundirlendi og vesturlandi, allt upp í 22,7 stig á Hvanneyri. Í Reykjavík mældist mesti hiti sem þar hefur mælst í september, 20,1 stig þ. 3. sama dag og Bretar og Frakkar sögðu Þjóðverjum stríð á hendur og var sólskinsglæta í bænum í hægri suðaustanátt. Á norðausturhorninu komst hitinn yfir 20 stig þ. 6. og á austfjörðum þ. 21. Á Akureyri mældist mesti hiti sem þá hafði þar mælst í september, 22,0 stig þ. 1. Hiti fór í 20 stig eða meira á vel yfir helmingi allra veðurstöðva sem mældu hámarkshita sem er býsna óvenjulegt í september. Kaldast varð -3,5 stig á Nefbjarnarsstöðum þ. 14. Nokkuð kólnaði er á leið mánuðinn eins og eðlilegt er en alltaf máttu þó heita hlýindi.
Úrkoman var aðeins lítið eitt meiri en meðaltaið 1931-2000. Hún var meiri en venjulega syðra og á Austfjörðum og kringum meðallag á suðvesturlandi en minni nyrðra eins og vænta mátti eftir vindáttinni, en suðlægar áttir voru venju fremur tíðar. Á norðausturlandi var úrkoma sums staðar aðeins um 17 mm og úrkomudagar 5-7 en á suðurlandi voru þeir um og yfir 20. Mikil úrkoma var víða upp úr þeim 20. og mældist sólarhringsúrkoman 106 mm á Horni þ. 24. Það var hægviðrasamt í mánuðinum og mjög oft talið logn. Á Akureyri var fremur mikið sólskin en lítið í Reykjavík. Heyskapartíð var víðast mjög hagstæð en þó var þurrklítið sunnanlands. Uppskera úr görðum var óvenjulega mikil. Síðustu tvo dagana kólnaði nokkuð og sums staðar snjóaði þá fyrir norðan en hvergi festi snjó og var mánuðurinn alauður allstaðar. Yfir Bretlandseyjum var hlý háloftahæð þaulsetin sem hafði áhrif á veðurlagið hér á landi eins og sést á kortinu um meðalhæð 850 hPa flatarins í um 1400 m hæð.
Hér er samsett kort sem sýnir meðalhita hverrar stöðvar í septembermánuðum 1939 (blátt) og 1941 (rautt), eftir því hvort árið var hlýrra á viðkomandi stöð en mjög lítill munur var á meðalhita stöðva þessi ár. Báðir voru þessir mánuðir jafngildir vel hlýjum júlímánuðum að hita.
1941 (10,7) Hlýjasti september sem mælst hefur á landinu er svo 1941, fjögur stig yfir meðallaginu 1961-1990, og er hann aðeins 0,1 stigi hlýrri en bróðir hans frá 1939. Mánuðurinn var sá hlýjasti víðast hvar á svæðinu norðan og austan til á landinu frá Hrútafirði til Fagurhólsmýrar en auk þess á Hvanneyri, Vík í Mýrdal, Vestmannaeyjum, Þingvöllum og Reykjanesi. Meðalhitinn á Akureyri, 11,6 stig, er hæsti septembermeðalhiti sem skráður hefur verið á íslenskri veðurstöð. Þetta er einhver mesti sunnanáttaseptember sem vitað er um. Mánuðurinn var enda miklu votviðrasamari en 1939. Mest rigndi náttúrlega á suður og vesturlandi þar sem úrkoman var 2-21/2 sinnum meiri en í meðallagi en minna en helmingur af meðallagi á Akureyri. Minnst rigndi að tiltölu á norðausturströndinni, aðeins fjóra daga við Bakkafjörð og við Eyjafjörð. Mánaðarúrkomutölur fyrir sumar stöðvar eru ansi háar, 378,5 mm í Kvígindisdal sem er septembermet þar, 351 á Ljósafossi og 335 mm á Kirkjubæjarklaustri. Aldrei hafa verið fleiri úrkomudagar í september í Reykjavik, 28, og voru því líkir á suður og vesturlandi og á Ljósafossi jafnvel 29. Síðari hluta mánaðarins fór hver lægðin á fætur annarri norður fyrir land úr vestri og fylgdi úrkoma með og oft hvassvirði um vesturhluta landsins. Í heild var mánuðurinn þó ekki vindasamur. Gífurleg úrkoma var i kringum þ. 20. og aftur 25., víða 40-60 mm á sólarhring á suður- og vesturlandi. Mikil flóð urðu þá í Múlakvísl og Núpsvötnum. Eftir miðjan mánuðinn varð afar hlýtt á norður-og austurlandi, 24,4 stig á Hallormsstað þ. 15. sem þar er septembermet og 22,2 á Sandi þ. 19. Tuttugu stiga hiti eða meira mældist aðeins á sex veðurstöðvum sem mældu hámarkshita, þar af er ein mæling sem næstum því örugglega er röng, en á 17 stöðvum 1939. Kaldast varð -3,2 stig á Grímsstöðum þ. 6. í hægviðri sem stóð í einn dag. Ólíkt september 1939 kom seinni helmingur þessa mánaðar síst verr út í hitanum en fyrri hlutinn. Eins og 1939 var hæðasvæði yfir Bretlandseyjum en þó lengra frá landinu en þá en aftur á móti var lægða-og úrkomusvæði nær landinu vestan við það. Sjá kortið frá meðalhæð 850 hPa flatarins.
Heimsstyrjöldin geisaði og hófst umsátrið um Leningrad þann fyrsta. En síðasta daginn voru framin fjöldamorðin í Babi Yar.
Þessir tveir mánuðir, 1939 og 1941, eru eiginlega í sérflokki hvað hlýindi varðar.
September 1958 og 1996 eru þeir þriðji og fjórði hlýjustu. Þeir eru samt nokkru svalari en þeir tveir sem hér hafa verið taldir, en eigi að síður afar hlýir.
1958 (10,2) Eins og september 1939 er september 1958 einnig frægur af öðrum ástæðum en veðurfarslegum. Þá var landhelgin færð í 12 mílur og geisaði fyrsta þorskastríðið við Breta. Þessi mánuður var ekki eins úrkomusamur og þeir sem hér hafa verið taldir en sólin var fremur lítil. Mest rigndi á suðausturlandi, enda var suðaustanátt langalgengust í mánuðinum, en minnst rigndi á norðurlandi. Aldrei hefur mælst minni úrkoma á Akureyri, aðeins 0,4 mm sem féll á einum degi. Þurrkamet var einnig á Grímsstöðum, 1,5 mm. Mjög hlýtt var síðustu dagana og mesti hiti mánaðarins í Reykjavík mældist síðasta daginn, 16,9 stig sem er mesti hiti sem þar hefur mælst svo seint að sumri. Svipaður hiti eða meiri var þann dag allra syðst á landinu og á suðausturlandi. Á Stórhöfða kom þá mesti hiti þar í september, 15,4 stig. En á Seyðisfirði féllu miklar skriður. Mjög hlýtt var einnig dagana 3.-5. og hlýjast var þann þriðja þegar hitinn fór í 23,4 stig á Húsavík. Minnsti hitinn sem mældist í Reykjavík þennan mánuð var 5,4 stig og er það hæsti lágmarkshiti sem þar hefur mælst í nokkrum september. Meðalhitinn á Loftssölum í Dyrhólahreppi var 11,5 stig og er það einhver mesti meðalhiti á veðursstöð í september. Eiginlegt kuldakast kom aldrei en hitinn féll í þó -2,2 stig á Barkarstöðum í Miðfirði aðfaranótt hins 20. sem þykir nú ekki tiltökumál á þeim stað. Svokölluð þykkt yfir landinu var 70-80 metrum yfir meðallagi en því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kortið sýnir hins vegar frávik hitans frá meðallagi í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð yfir landinu.
1996 (10,15) var meðalhiti alls landsins svipaður og 1958 en fyrir sunnan var kaldara en norðanlands og austan var hitinn svipaður og 1941 og sums staðar meiri. Á Raufarhöfn (9,6°), Úthéraði (10,7°), Teigarhorni og Seyðisfirði var þetta hlýjasti september sem mælst hefur. Meðalhitinn á Seyðisfirði var 11,5 stig og er það eitt af fimm hæstu gildum meðalhita í september á veðurstöðvum. Hlýjast varð þ. 4. og var þá víða fyrir norðan yfir 20 stiga hiti, en mest 22,0 á Garði í Kelduhverfi. Sama dag komst hitinn í Grímsey í 18,6 stig sem er mesti hiti sem þar hefur verið skráður í september í ansi langri en ekki alveg samfelldri sögu hámarkshita. Í bjartri vestanátt þ. 11. komst hitinn í 20,4 stig í Norðurhjáleigu í Álftaveri og er slíkur hiti þar mjög sjaldgæfur í september.
Sunnanáttin var þrálát og þetta er þriðji sólarminnsti september í Reykjavík frá því mælingar hófust, 55 klst, en hins vegar mældust 104 klst á Akureyri og 113 við Mývatn, en aðeins 41 klst við Hveragerði. Á norðausturlandi var úrkoman einungis um helmingur þess sem venjan er og upp að meðallagi en votast var tiltölulega norðvestanlands, en á suðurlandi var úrkoma kringum helmingi meiri en venjulega. Úrkomudagar á suður-og vesturlandi voru margir, 25-27 víða og sums staðar 29. Á Kvískerjum var heildarúrkoman 454 mm. Kortið sýnir þykktina yfir landinu sem var heldur minni en 1958.
Svavar Gests, hinn þekkti tónlistar-og útvarpsmaður, lést fyrsta dag mánaðarins en síðasta daginn hófst eldgosið í Gjálp í Vatnajökli.
2010 (9,4) Mestur var meðalhitinn í þessum mánuði 10,9 stig á Garðskagavita. Nú voru komnar sjálfvirkar veðurstöðvar víða en engar slíkar voru vitanlega í september 1939, 1941 og 1958. Í fyrstu vikunni kom einhver mesta hitabygja (sjá kortið sem sýnir hita í 850 hPa fletinum þ. 3.) sem mæld hefur verið í september. Komst hitinn í 24,9 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þ. 4. og sama dag 24,7 stig á Mánárabakka og er þetta nærri Íslandsmetinu í september (26,0 stig á Dalatanga, þ. 12. 1947). Staðarmetið frá 1939 féll á Akureyri þar sem hitinn fór 23,6 stig þennan dag og á Staðarhóli fór hitinn í 23,1 stig. Meðalhitinn á Akureyri þann fjórða var 17,9 stig og er það mesti meðalhiti nokkurs dags í september frá a.m.k. 1948 og sennilega miklu lengur. Í þessum látum komu reyndar dagshitamet að sólarhringsmeðalhita í Reykjavík alla dagana frá þeim fjórða til níunda og á Akureyri dagana 3.-5. og 8. Kaldast í byggð í þessum mánuði varð -6,1 stig á Barkarstöðum í Miðfirði þ. 23. en -8,5 stig mældust þ. 21. á Brúarjökli. Úrkoman var mjög lítil fyrir norðan en kringum meðallag á landinu í heild.
Þetta sumar, frá júní til september, er hið hlýjasta sem mælst hefur víða á suður og vesturlandi, svo sem í Reykjavík, Stykkishólmi og Stóhöfða en allar þessar stöðvar hafa lengi athugað. Einnig er þetta hlýjasta sumar á Hveravöllum (frá 1963).
Danski skákmeistarinn Bent Larsen, góðkunningi Íslendinga, lést þ. 9. en í mánaðarlok samþykkti Alþingi að stefna Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdóm.
1901 (9,3). Þá voru óþurrkar miklir á suðurlandi. En litlar fréttir fara af úrkomu á norðurlandi því þar voru engar úrkomumælingar. Á Teigarhorni var úrkoma hins vegar meira en tvöföld miðað við meðallag. Mánuðurinn lá í sunnan-og suðaustlægum áttum svo fáir mánuðir jafnast við hann að því leyti. Hlýjast varð 18,7 stig á Kóreksstöðum á Úthéraði en kaldast - 2,1° i Grímsey.
2008 (9,2) Mjög úrkomusamt var á suður- og vesturlandi. Met úrkoma var í Stykkishólmi og í Reykjavík er þetta næst úrkomusamasti september og munar sáralitlu á metmánuðinum og þessum (176,0 mm 1887). Miðað við þær fimm úrkomustöðvar sem hér er stuðst við er þetta einfaldlega úrkomusamasti september sem þær hafa mælt. Á Akureyri var úrkoman þó í minna lagi. Á Nesjavöllum var úrkoman 665,9 mm og er það mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á landinu á veðursstöð í september. Sólarhringsúrkoman mældist á Nesjavöllum 197,0 mm þ. 17. og er það mesta sólarhringsúrkoma á mannaðari stöð í september (árið eftir, þ. 27. mældust 220,2 mm á sjálvirku stöðinni á Ölkelduhálsi). Hlýjast varð á sjálfvirku stöðinni á Raufarhöfn, 20,6 stig þ. 17. og sama dag mældust 20,1 stig á mönnuðu veðurstöðnni þar. Kaldast í byggð var -4,2 stig á Möðrudal síðasta dag mánaðarins. Sama dag mældist frostið -7,3 stig uppi á Brúarjökli. Lægðir og úrkomusvæði voru oft nærri landinun eins og kortið frá 850 hPa fletinum sýnir.
Undir lok mánaðarins varð hrunið mikla í íslenska bankakerfinu.
1953 (9,2) Áttundi hlýjasti september er svo hinn ágæti góðviðrismánuður 1953. Þá var hitinn mjög jafn um land allt, 9-10 stig í betri byggðum, úrkoma var nokkuð mikil nema á norðurlandi og sólin var af skornum skammti. Hlýjast varð 20,2 stig á Hallormsstað þ. 7. en kaldast -5,9 á Möðrudal þ. 12. Býsna mikil úrkoma var sunnanlands og vestan og ekki hefur fallið meiri úrkoma í september á Hólum í Hornafirði, 375,9 mm og á Keflavíkurflugvelli, 225,2 mm. Uppskera garðávaxta þótti með afbrigðum góð. Mánuðurinn var veðragóður en þó hvessti dagana 24.-26. af vestri og varð þá mikill sjávargangur í Faxaflóa og við Breiðafjörð sem olli nokkrum skaða. Í kjölfar vestanáttarinnar kólnað og snjóaði víða í fjöll en þó var alls staðar snjólaust í byggð í mánuðinum nema einn dag við Mývatn.
Þann 6. varð fjögurra ára telpa úti skammt frá Hólmavík. Vakti sá atburður mikla sorg um land allt en hans er þó hvergi getið í nýrri annálabókum.
1933 (9,2) Þetta var síðasti mánuðurinn í hlýjasta sumri sem komið hefur norðanlands. Á Akureyri var meðalhitinn í mánuðinum 10,4 stig og þar var þetta því fimmti hlýjasti september. Miklar rigningar voru á suður-og vesturlandi og er þetta úrkomusamasti september sem mælst hefur í Stykkishólmi og með þeim úrkomumestu í Reykjavík. Sunnanáttir voru með allra mesta móti. Á Hvanneyri var úrkoman 282,3 mm og var aldrei meiri þar í september meðan mælt var. Úrkomudagar voru þó færri yfirleitt en 1941. Mánaðarrúrkoman í Vík var talinn 474,9 mm sem er það mesta þar í september og sólarhringsúrkoman var 150,3 mm þ. 9. , sem er líka met þar, en einhver óvissa er þó víst um töluna. Þennan dag mældist mesti hiti mánaðarins, 20,1 stig í Fagradal í Vopnafirði. Rigningin þessa daga ollu miklum vexti í mörgum ám og skriðum sums staðar. Mánuðurinn var enda talinn mjög rosasamur á suður-og vesturlandi. Það var í þessum rigningarmánuði sem Þórbergur Þórðarson reið yfir Skeiðará og segir frá því í hinni mögnuðu frásögn Vatnadeginum mikla. Að mínu tali nær mánuðurinn upp í það að vera tíundi úrkomusamasti september en þó ekki meira en það. Mikið jökulhlaup kom þ. 8. eða 9. í Jökulsá á Sólheimasandi og skemmdist brúin mikið. Kaldast varð - 3,3° á Kollsá þ. 13. í stuttu kuldakasti. Sumarið í heild, frá júní til september, er það hlýjasta sem mælst hefur á Akureyri.
1931 (9,15) Þessi september er sérstakur fyrir það hve vestanáttinn var eindregin. Hún var þurr og loftþrýstingur oft hár framan af og fylgdi þessu venju fremur mikið sólskin. Mánuðurinn var hægviðrasamur og þurr sunnanlands og vestan fram yfir miðjan mánuð en allan mánuðinn á norður-og austurlandi. Hiti fór þar yfir tuttugu stig um miðjan mánuð og aftur þ. 21. og 22. og fyrri daginn mældist mesti hiti mánaðarains, 22,1 stig á Eiðum. Eftir miðjan mánuð gerði óþurrka mikla sunnanlands og vestan. Ekkert raunverulegt kuldakast kom en næturfrost voru sums staðar í fyrstu vikunni í hægri norðanátt, mest -4,9 stig á Grímsstöðum þ. 4. Ekki var mánuðurinn samt eintóm blíða. Vestan hvassviðri var um allt land þ. 17. og aftkaveður gerði við Eyjafjörð og þá snjóaði á Vestfjörðum svo þ. 18. var alhvítt á Suðureyri við Súgandafjörð og Þórustöðum í Önundarfirði.
Nokkurra annarra septembermánaða ber að geta. Mjög hlýtt var í september lengi fram eftir 1968 á suður og vesturlandi. Þetta var hins vegar á hafísárunum og var mánuðuirnn ekki hlýr við sjóinn á norður-og austurlandi og meðalhitinn ekki meiri en 8,0 stig á Akureyri, lítið yfir meðallaginu 1931-1960. Þegar fjórir dagar voru eftir af mánuðinum var meðalhitinn í Reykjavík 10,6 stig en síðustu dagana kom óvenjulega hastarlegt kuldakast svo lokatala hitans í mánuðinum varð 9,7 stig. Mánuðurinn kólnaði sem sagt um 0,9 stig á fjórum dögum. Slíkt hrun í mánaðarmeðalhita var algengt á ísaárunum. Í þessum mánuði var einkanlega hlýtt kringum þ. 10. og mældist þá mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í september síðan 1939, 18,5 stig, tvo daga í röð, og á Þingvöllum komst hitinn í 20,2 stig þ. 10. Tiltölulega sólríkt var á suðurlandi þegar um hlýja september er að ræða, en þeir eru oft þungbúnir sunnanáttamánuðir, 114 klst mældust á Sámsstöðum í Fljótshlíð.
September 2006 krækir í 11. sæti að hlýindum. Þá eru þrír septembermánuðir eftir 2000 meðal ellefu hlýjustu septembermánaðanna.
Árið 1935 var september reyndar ekki nema í meðallagi í hita á landinu miðað við meðaltalið 1931-1960 og í kaldara lagi fyrir norðan og austan, en á suðvesturlandi var hann vel hlýr, 9,2 stig í Reykjavík. Það er hins vegar merkilegt með þennan mánuð að hann er allra mánaða mestur austanáttamánður enda var hann í Reykjavík, Stykkishólmi og Vestmannaeyjum úrkomuminnstur septembermánaða, 12,6, 1,6 og 39,9 mm. Í rigningarbælinu Kvígindisdal í Patreksfirði var einn úrkomudagur (0,2 mm) og reyndar einnig í Hrútafirði. Mánuðurinn var einnig tiltölulega sólríkur vestanlands með 130 sólarstundir í Reykjavík. Svona hlýir, þurrir og sólríkir septembermánuðir í höfuðborginni eru sannarlega sjaldgæfir. Fádæma úrkoma var aftur á móti á Seyðisfirði í linnulausri austanáttinni, 492 mm sem er með því mesta sem mælist í september og sólarhringsúrkoman var 110 mm þ. 15. Þessi mánuður er sláandi dæmi um breytilegt veðurlag í landshutum eftir því hvort vindur er af hafi eða landátt ríkir. Einnig rigndi mikið sunnanlands og suðaustan. Rigningarnar ollu skriðuhlaupum víða sem ollu miklu tjóni. Kortið sýni stefnu og styrk vindsins í um 5 km hæð.
Af eldri mælingum, fyrir okkar helsta viðmiðunarár 1866, má ráða að september 1828 var mjög hlýr í Reykjavík, eins og allt sumarið, 10,2 stig. September 1850 var þar einnig 10,2 stig en ekkert sérstakur í Stykkishólmi.
Fyrra fylgiskjalið sýnir hita og úrkomu stöðvanna en hið síðara sýnir veðrið í Reykjavík og fleira í hinum sögufræga og hreint ótrúlega september 1939.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 10.12.2011 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006