Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
29.12.2011 | 16:22
Snjóalög í Reykjavík
Í fylgiskjalinu má sjá snjóalög fyrir hvern mánuð í Reykajvík frá því í desember 1923. Sjá má snjóhuluprósentu mánaðanna september og fram í maí, mestu snjódýpt og fjölda alauðra og alhvítra daga. Ekki er auðvitað þörf á að hafa sumarmánuðina með.
Þetta ætti ætti að skýra sig sjálft.
Villur geta verið í þessu. Allt er þetta handunnið af mér gegnum árin eftir Veðráttunni og Veðurfarsyfirliti Veðurstofunnar.
Allt á fullu við snjóhreinsun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veðurfar | Breytt 28.2.2014 kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.12.2011 | 16:09
Ekki alhvítur desember í Reykjavík
Í morgun var talin flekkótt jörð í Reykjavík af snjó en snjódýpt samt talin 7 cm. Þetta er nákvæmlega það sem ég var að tala um í siðasta bloggpistli, snjódýpt væri oft tilgreind þó jörð væri aðeins að hálfu leyti hulin snjó eins og var í morgun.
Það er því öruggt að þessi desember ætlar ekki að verða sá fyrsti í höfuðborginni sem talinn er alhvítur alla morgna en það hefur aldrei átt sér stað síðan byrjað var að fylgjast með slíku fyrir einum 85 árum síðan.
Meðalhitinn í Reykjavík er nú -2,4 stig sem líka er 2,4 stig undir meðallaginu.
Í nótt fór hitinn á Dalatanga í 12,0 stig en 13,2° á sjálfvirka mælinum á sama stað. Þetta er mesti hiti sem enn hefur mælst á landinu í mánuðinum. Í Reykjavík fór hitinn í 7,5 stig í gærkvöldi.
Mér finnst gott að fá þessa litlu hláku, þó ekki væri nema vegna þess að víða á gangstéttum er nú svo mikið af auðum skellum að hægt er að forðast að ganga á klaka sem er alveg skelfilega háll. Einn vinur minn datt um daginn og brotnaði mjög illa.
Það var smárok sums staðar í nótt og sumir fjölmiðlar eru að segja að nú sé komið vont veður í stað þess góða sem átti að hafa verið í froststillunni.
Það er samt besta veður núna þó ekki sé frost. Og ég er þakklátur fyrir alla hláku þá skammvin sé. Allt er betra en kuldi dag eftir dag eftir dag.
Það þyrfti bara að koma góð hláka í nokkra daga til að hreinsa upp allan snjóinn. En því er nú víst ekki að heilsa.
Nenni svo ekki að taka það fram enn einu sinni að ekkert er ömurlegra en hvít jól nema ef vera skyldi hvít jól með hörkufrosti!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 1.1.2012 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2011 | 23:40
Löng snjóhulutímabil í Reykjavík
Alhvít jörð hefur nú verið í Reykjavík frá 26. nóvember eða í 22 daga samfellt og jörð var flekkótt tvo næstu dagana þar á undan.
Þau gögn sem ég hef aðgang að um daglega snjóhulu í borginni ná því miður aðeins til haustins 1985. Í þeim er snjóhula tilgreind og hvort alhvítt er eða flekkótt jörð. Alltaf er snjódýptin með þegar alhvítt er en stundum er hún líka tilgreind í gögnunum, jafnvel heilmikill, þó jörð sé talin aðeins flekkótt. Satt að segja átta ég mig ekki alveg á þessu en í töflunum í fylgiskjalinu við bloggfærsluna hef ég sleppt snjódýptartölum þegar jörð er ekki talin alhvít en bara þá sett orðið ''flekkótt''. Á stöku stað verður þetta dálítið skondið, heilmikil snjódýpt fyrir og eftir en svo flekkótt á milli! En ég nennti ekki að útbúa sérstakan dálk fyrir snjóhulu sem alltaf er hvort sem er algjör í þessum töflum nema þegar flekkótt er.
Lítill snjór hefur verið síðustu ár. Og snjóhulan núna er lengsta tímabil með alhvítri jörð í Reykjavík síðan um áramótin 2004 til 2005. Seint á árunum 2000 og 1999 komu þó lengri tímabil og sérstaklega var snjóasælt árin 1989, 1990 og 1992 og komu þá miklu lengri tímabil með alhvítri jörð. Þetta er samt ekki nákvæmt yfirlit. Ýmis önnur tímabil geta hugsanlega komist upp á dekk. En þetta er svona það sem virðist stinga mest í augu.
Í öðru fylgiskjalinu má sjá þessi tímabil (hitt er það hefðbunda um veðurlag mánaðarins). Þar er árið í svörtum dálki, síðan viðkomandi mánuður ársins með númeri mánaðarins, dagsetning og loks snjódýptin sjálf í lituðum dálkum. Þetta ætti að vera auðskilið og kannski hafa einhverjir snjófíklar gaman af.
Verði alhvítt framyfir jól fer þetta að nálgast alvöru snjóaskeið.
Miklar líkur á hvítum jólum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 21.12.2011 kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.12.2011 | 13:42
''Bloggheima og fésbækur þarf að forðast''
Reynir Tómas Geirsson yfirlæknir á Landspítalanum skrifar grein í dag í Fréttablaðið um staðgöngumæðrun.
Ekki ætla ég að gera efni greinar hans að miklu umtalsefni en hnaut þó um það atriði að um sé að ræða eina konu á eins eða tveggja ára fresti.
Sumir mundu segja að vandamálið væri þá ekki mjög knýjandi. En látum það nú vera.
En það er annað atriði sem ég vil vekja athygli á. Greinarhöfundur skrifar:
''Margir sem láta sig málið varða vildu sjá meiri umræður meðan löggjöf er undirbúin. Það þarf að gerast í fjölmiðlum á formi þar sem staðreyndir ráða í fordómalausri umræðu. Bloggheima og fésbækur þarf að forðast.''
Bloggheima og fésbækur þarf að forðast. -Óskaplegir fordómar eru þetta!
Blogg er ýmis konar. Þar er hægt að finna vandað efni um nánast hvað sem er. Iðulega eru góðir bloggarar hefðbundnum fjölmiðlum fremri í að segja frá og greina málefni sem efst eru á baugi. En á bloggi er vitaskuld líka margt ómerkilegt. En það er einnig í venjulegum fjölmiðlum; sjónvarpi, útvarpi, prentmiðlum og vefmiðlum.
Fésbók, sem ég vil kalla fasbók með Páli Bergþórssyni, er öðru vísi miðill en blogg. Þar er nú vissulega margt hratið eins og annars staðar. En hitt er þó mikilvægara að fasbókin er orðin einhver mikilvægasti samskiptamiðill heimsins í miðlun upplýsinga og síðast en ekki síst baráttu fyrir betri heimi gegn kúgun af öllu tagi eins og sannast hefur heldur betur í atburðunum sem kallaðir hafa verið Arabíska vorið.
Að nefna þessa miðla, blogg og fasbók, án minnsta fyrirvara, sem víti til að varast í umræðu um þjóðfélagsmál ber vott um sjaldgæft yfirlæti og fordóma.
Umræður á bloggi og á fésbók svona almennt eru til dæmis fráleitt verri en sú einhliða framsetning sem Reynir Tómas Geirsson hefur haft í frammi í fjölmiðlum um staðgöngumæðrun. Undir kurteislegu yfirbragði miðar hún öll frekjulega að því að hún skuli bara ná fram að ganga hvað sem það kostar og þá er gert sem allra minnst úr öllum vafa og álitamálum.
Það er umræða sem stendur langt að baki því besta sem sést á bloggi og á fasbók um almenn þjóðfélagsmál og einnig ýmis sérstakari viðfangsefni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.12.2011 | 20:22
Hringnum lokað
Nú hef ég lokið pistlum mínum á blogginu um tíu hlýjustsu og tíu köldustu mánuði á Íslandi. Þetta eru 25 pistlar, tveir fyrir hvern mánuð, einn um hlýju mánuðina og annar um þá köldu, nema hvað janúar 1918 fær sér pistil. Auk þess er einn pistill þar sem skýrt er hvernig ég stóð að þessu.
Miðað er við hitann á þeim veðurstöðvum sem lengst hafa athugað. Fyrsta viðmiðunarárið er 1866 en þá voru aðeins tvær veðurstöðvar starfandi, sem er ansi fáar, en voru orðnar fjórar árið 1874, sjö 1880 og svo níu frá 1898 og síðan. Ég kaus að byrja 1866 frekar en til dæmis 1874, þrátt fyrir stöðvafæð, til að ná inn í meginbálkinn hinum mjög svo köldu árum 1866 og 1867.
Í þremur tilvikum (jan. og mars 1847 og apr. 1859) þegar einhver mánuður fyrir 1866 hefur verið afgerandi hlýjastur eða kaldastur eða mjög nærri því og þá í öðru sæti, eru þeir teknir inn í meginröðina en hins vegar ekki á sama hátt skeytt um aðra mánuði sem hugsanlega kæmust inn á topp tíu lista í önnur sæti ef reynt væri að meta það í alvöru sem ég held að sé ekki auðvelt því mælingar verða bæði strjálli og óáreiðanlegri því lengra sem dregur aftur í tímann.
Hins vegar er allmargra slíkra mánaða samt sem áður getið utan raðar og stundum í talsverðu máli. Auk þess eru ýmsir mánuðir frá 1866 teknir með utan dagskrár sem ekki eru meðal þeirra tíu hlýjustu eða köldustu en mér þótti samt ástæða til, af ýmsum orsökum, að taka fyrir. Þetta gildir ekki síst um júlí þar sem fjallað er alls um 44 mánuði og ágúst þar sem ég hef skrifað um 34 mánuði.
Mánuðirnir frá janúar 1866 til nóvember 2011 eru alls 1751 (145 ár og 11 mánuðir) og þar af hef ég fjallað um 293 mánuði eða tæp 17 %.
Fyrir 1866 hef ég svo skrifað um eða í það minnsta drepið á 95 mánuði og eru þar með taldir janúar og mars 1847 og apríl 1859.
Alls eru þetta 388 mánuðir.
Þetta er í raun og veru orðin dálítil bók. Rafbók og veðurbók.
Hér fyrir neðan er hægt að smella á alla pistlana hvern um sig.
Jú, ég veit að þessir pistlar eru langir. En ég held að þar geti hinir fróðleiksfúsu fundið ýmislegt. Þegar ég var að lesa þá yfir núna sá ég að minnsta kosti margt sem ég vissi ekki áður!
Hlýjustu og köldustu mánuðir á Íslandi -Skýringar.
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 17.12.2011 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.12.2011 | 14:46
Höfuðið bitið af skömminni
Ég er ekki í Vantrú, enda maður mjög einfaldur og trúgjarn, og hef reyndar lítið fylgst með kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni fyrir Siðanefnd Háskólans. Við lestur þessarar yfirlýsingar starfsmanna Háskólans er ljóst að Siðanefnd skólans gerði mistök í framkomu sinni gegn Bjarna Randver með því að bera ekki ákvörðun sína um sættir undir hann.
En það er jafnframt augljóst að yfirlýsingin tekur að sér að skera úr um það sem Siðanefndin átti að gera en klúðraði: að meta efnislega réttmæti kvörtunar kærandans. Yfirlýsingin valtar beinlínis yfir kvörtunarefni Vantrúar þó þeir sem að yfirlýsingunni standa hafi ekkert formlegt umboð til þess. Sé ekki betur en að upprunalegu kæruna þurfi að taka upp aftur af til þess bærri siðanefnd en ekki svo og svo mörgum starfsmönnum Háskólans.
Meðferð málsins í heild er ekki sæmandi akademískri stofnun. Það er óþolandi að menn geti ekki leitað réttar sins fyrir síðanefnd einhverrar stofnunar og HÚN ljúki málinu með efnislegum lokadómi með réttri formlegri málsmeðferð án þess að stofnunin öll fari meira og minna að skipta sér að málinu. Yfirlýsing starfsmanna Háskólans er röng málmeðferð og að engu hafandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.12.2011 | 17:43
Köldustu desembermánuðir
1880 (-7,3) Veturinn 1880-1881 er harðasti vetur sem komið hefur á Íslandi síðan einhvers konar veðurathuganir með mælitækjum hófust fyrir um það bil tvö hundruð árum. Desember og mars voru þeir köldustu sem komið hafa en janúar og febrúar þeir næst köldustu.
Desember var kringum tveimur stigum kaldari en sá næst kaldasti og um það bil sjö stigum undir meðaltalinu 1961-1990 sem er -0,6 stig. Mikil hæð var oft yfir Grænlandi og jafnvel suður um Ísland en lágur þrýstingur austan við landið og yfir Norðurlöndum eins og kortið um yfirborðsþrýsting sýnir. Í háloftunum var hæðarhryggur um Grænland sem veitti köldu lofti yfir landið. Hlýtt var hins vegar í Evrópu. Fyrstu tvo dagana í desember var norðanátt en dagarnir 3.-5. voru þeir hlýjustu í mánuðinum og rigndi sunnanlands og vestan. Mesti hiti mánaðarins, 8,3 stig, mældist þá í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Aðfaranótt hins 10. gerði vestan fárvirði á suðvesturlandi. Fréttir frá Íslandi lýstu því svo: ,,Bryggjur og skíðgarðar sópuðust á burt úr Hafnarfirði og Reykjavík, skip og báta tók víða í loft upp, og sló þeim niður aftur mölbrotnum; brotnuðu í veðri þessu eigi færri en 7 sexæringar í Minni-Vogum, 6 ferjur á Akranesi og mörg skip á Álftanesi og víðar. Á Vatnsleysuströnd tók upp þiljubát, sem var í smíðum, og bar veðrið hann um 300 faðma yfir grjótgarða og skíðgarða, svo að hann kom hvergi við, en mölbraut hann síðan, er niður kom. Heyskaðar urðu nokkrir á Suðurlandi, einkum fyrir austan fjall, og sama var að segja af Vestfjörðum; þar höfðu víða hjallar fokið með munum og matvælum og varð ei eftir af það er sæist. Eigi gjörði veður þetta mikið tjón á skepnum, því að svo vel vildi til, að veðrið skall á að nóttu til, svo að fénaður var byrgður. Veður þetta varð allmikið á Norðurlandi en gjörði þar eigi skaða, svo að orð sé á gjöranda.''
Kortið sýnir meðaltal loftþrýsitngs í paskölum en ef við sleppum síðustu tveimur núllunum fáum við út heila hektópaskala, 1015 yfir miðju Íslandi. Kuldarnir byrjuðu fyrir alvöru 12. desember. Ekki hlánaði eftir það í Stykkishólmi og Grímsey fyrr en á gamlársdag en ekki allan mánuðinn á Teigarhorni. Var áttin milli austurs og norðurs allan tímann og oft hvasst. Blaðið Fróði á Akureyri segir þ. 22. að þar hafi þá snjóað hvern dag það sem af var mánaðarins. Kalt var um jólin, frostið fór niður í 21,1 stig á jóladag í Stykkishólmi. Eftir jólin var mjög vont veður á landinu, hávaða norðanrok með hríðarveðri nyrðra og frostið 10 til 20 stig. Mest frost í mánuðinum mældist reyndar þann 18. -23,4 stig á Valþjófsstað í Fljótsdal. Ekki var mælt á Grímsstöðum eða Möðrudal á þessum tíma. Og heldur ekki á Akureyri. Snjókoma var víða. Þann. 27. komst frostið í Reykjavík niður í -18,4 stig og er það mesta frost sem mælst hefur þar í desember. Um þetta leyti fór frostið í Vestmannaeyjakaupstað niður í -17,8 stig sem er mesti kuldi sem þar hefur komið í desember. Í Hreppunum kom líka desembermet, -21,6 stig á Hrepphólum. Á norðurlandi voru mikil frost, allt að -30 stig að sögn blaðanna. Voru hafþök af ís fyrir öllu norðurlandi. Á Akureyri gerði þriðja í jóum norðan stórhríð svo svarta að tæpast var fært húsa á milli og stóð hún í tvö dægur. Á gamlársdag hlýnaði loksins með sunnanátt og var þá rigning á suður- og vesturlandi. Jónas Jónassen lýsti tíðarfarinu í Reykjavík í desember í Ísafold 16. janúar 1881:
Þar sem allur fyrri hluti þessa mánaðar var fremur frostlítill, hefir allur síðari hluti hans (frá 13.) verið einhver hinn kaldasti, er elztu menn muna, því ekki einungis hefir frostharkan verið geysi-mikil, heldur hefir hin kalda norðanátt haldizt óvenjulega lengi. Aptur á móti hefir snjór fallið mjög lítill. Fyrstu 2 dagana var veður stilt og bjart, en 3. hvasst á austan með blindbyl, en logn að kveldi með nokkurri rigningu; og 5. hægur á landsunnan með rigningu ; 6. hægur úts. að morgni, en bráðhvass að kveldi og sama veður 2 næstu dagana, en þó vægari með hryðjum ; 9. hvass á landuorðan meðbyl að morgni, gekk svo til eptir miðjan dag og fór að hvessa á útsunnan og varð úr því fjarskalegt ofsaveður, sem hélzt við allt kveldið og næstu nótt fram til morgunsins 10., að hann lygndi, og var þann dag hægur útsynningur með slettingsbyl um kveldið, 11. og 12. aptur hvass á úts. gekk svo 13. í norðanátt til djúpanna, en hér í bænum var þann dag og eins 14. og 15. hæg austangola; 16. landnyrðingur, hvesti er á leið daginn og var bráðviðri á norðan til djúpanna og frá 17.-30. einlægt norðanbál með grimdarhörku; einkum var veðurhæðin mikil 27. og 28. og lagði sjóinn, svo að menn hinn 30. gengu eigi að eins út í Aknrey, Engey og Viðey heldur og npp á Kjalarnes. Ofangreinda daga 17.-30.) var hér í bænum opt logn, þótt norðanrok væri inn að eyjum, 31. breyttist aptur veðurátta, er hann gekk til landsuðurs með talsverðri rigningu, en að kveldi dags var hann aptur genginn í útsuður með miklum brimhroða.
Úrkoma var svo lítil að þetta er hugsanlega einn af fimm þurrustu desembermánuðum.
1878 (-5,2) Þessi mánuður, sem ansi lítið hefur verið í umræðunni", er eigi að síður nokkuð merkilegur. Aldrei hefur mánaðarloftþrýstingur verið jafn hár í desember á landinu síðan byrjað var að mæla hann kringum 1820. Í Stykkishólmi var hann 1020,3 hPa. Nóvember, næsti mánuður á undan, var svo með mestan loftþrýsting fyrir þann mánuð, 1019,6 hPa í Hólminum. Gætti þessa háa þrýstings um allt norðurskautið en mest fyrir suðvestan land. Þrýsstingur var aftur á móti mjög lágur suður í Atlantshafi á þeim slóðum sem Azoeyjarhæðin er venjulega. Eitthvað mjög óvenjulegt hefur verið að gerast á þessum tíma. Geysileg hálloftahæð var yfir suðaustanverðu Grænlandi. Sjá frávikakortið um hæð 500 hPa flatarins í um 5 km hæð. Og þetta var enda þurrasti desember sem mælst hefur ef dæma má eftir þeim tveimur stöðvum sem þá athuguðu og athuga enn og þessi desember er einnig sá næst kaldasti eftir 1865. Úrkoman á Teigarhorni var sú minnsta sem þar hefur mælst i desember, 1,8 mm, en féll þó á þremur dögum. Í Stykkishólmi var úrkoman 12,7 mm og úrkomudagar voru 11, fyrstu tíu dagarnir og svo að morgni aðfangadags. Frá þeim 18. sást varla ský á himni í Stykkishólmi nema hvað þykknaði upp á Þorláksmessu með suðaustanátt og snjóaði ofurlítið en aftur létti til að kvöldi jóladags. Þann dag var að mestu logn og lítið skýjað til kvölds en frostið var 7-8 stig. Þrír desembermánuðir hafa þar verið þurrari í Stykkishólmi, 7,0 mm 1872, 8,7 mm 1952 og 11,7 mm 1882. Í Grímsey voru fjórir úrkomudagar laust eftir miðjan mánuð en annars var alveg þurrt. Hitinn fór mest í 6,8 stig í Stykkishólmi þ. 2, en frostið í -17,1 stig á Skagaströnd, mjög líklega á gamlársdag. En þessar hitatölur segja ekki mikið því aðeins var mælt á átta stöðvum og engum sem eru verulega kuldavænar. Fyrstu vikuna var stundum lítilsháttar hláka en annars voru frostin svo til linnulaus og lágmarkshiti frá þeim 17. flesta daga undir -10 stigum í Stykkishólmi. Norðaustan og austanátt var yfirgnæfandi eftir fyrstu vikuna. En vindar voru oftast hægir og þótti tíðin hagstæð. Gamlársdagurinn var æði kaldur með 16 stiga frosti í Grímsey og 15 í Stykkishólmi. Fyrir norðurlandi varð vart við hafíshroða nálægt jólum en hann hörfaði aftur frá um nýárið. Hlýtt var á vestur Grænlandi sem var hlýindamegin við háloftahæðina en kalt á Norðurlöndum og víðast hvar í Evrópu. Einnig var mög kalt í næstum því öllum Bandaríkjunum.
Reykjanesvitinn, fyrsti viti á Íslandi, var tekinn í notkun fyrsta dag mánaðarins.
1973 (-4,2) Kaldasti desember á landinu síðan 1886 en hitinn þá var svipaður. Þetta er sem sagt kaldasti desember sem núlifandi Íslendingar hafa kynnst ef eigin raun. Var hann samt talsvert mildari en þeir tveir mánuðir sem taldir hafa verið hér að framan, sem skera sig nokkuð úr fyrir kulda sakir. Mánuðurinn var ekki aðeins kaldur heldur einnig umhleypingasamur. Mjög snjóþungt var fyrir norðan. Að morgni gamlársdags var snjódýptin 153 cm á Raufarhöfn og Hornbjargsvita. Á Raufarhöfn er þetta reyndar úskomumesti desember, 168,6 mm (1934-2008). Snjólag á landinu var það mesta nokkru sinni í desember, 88%, ásamt desember 1936. Alhvítt var alla daga í Grímsey, Torfufelli í Eyjafjarðardal, Vöglum i Fnjóskadal, Sandhaugum í Bárðardal, Dalatanga og Kvískerjum, auk hálendisstöðvanna á Hveravöllum og Sandbúðum. Á Skógum undir Eyjafjöllum voru alauðir dagar tíu. Reyndar byrjaði mánuðurinn með hlýindum. Aðfaranótt þess þriðja komst hitinn í 16 stig bæði á Dalatanga á austfjörðum og Galtarvita á vestfjörðum. En eftir fyrstu tíu dagana voru ekki hlákur að heitið geti. Suma dagana var frostgrimmdin með allra mesta móti. Í Reykjavík var meðalhitinn þ. 17. og 18. -12,7 stig og hefur aðeins einn desemberdagur (-14,1 þ. 28. 1961) verið kaldari a.m.k. síðustu 75. Kaldast á landinu varð þ. 21. -27,5 stig í Reykjahlíð og sama dag -25,4 á Brú á Jökuldal. Þann dag var bjart um land allt. Á Akureyri komu dagshita með mesta kulda þrjá daga í röð, 22.-24, -sautján og átján stiga frost. Ýmsir aðrir dagar voru mjög kaldir á landinu, t.d. komst frostið á Hveravöllum í -26,9 stig þ. 18. og -26,0 á Grímsstöðum þ. 22. Á Breiðafirði var svo mikill langaðarís að menn gátu allvíða gengið milli eyja á tímabili. Í þessum kuldum tók Reykjavíkurhöfn að leggja, sjaldan því vant. Kortið sýnir þykktina yfir landinu sem var æði lág en lág þykkt ber vitni um kalt loft. Meðalhiti á landinu er á kortinu hér fyrir neðan. Desember 1880 var að meðaltali þremur stigum kaldari!
Ýmislegt gekk nú á í heiminum í þessum mánuði. Þann 17. drápu arabískir hryðjuverkamenn 31 mann í þýskri flugvél í Rómaborg. Daginn eftir skemmdist Stjönubíó rétt einu sinni af eldi þ. 18. Sorglegra var þó að þ. 22. fórust hjón og tvö börn í bruna á Seyðisfirði. Stórsöngvarinn Bobby Darin lést þ. 20.
1886 (-4,1) Kalt var þennan mánuð en hitastig fremur jafnt og kalt en þó engin stórkostleg kuldaköst. Varla hlánaði þó að ráði á landinu þar til daginn fyrir gamlársdag. Fyrstu vikuna voru miklir umhleypingar. Þeir snérust svo í hvassa norðanátt en síðan hægari austanátt og var þá oft bjart suðvestanlands en loks komu frekari umhleypingar. Seint í mánuðinum snjóaði við og við í Reykjavík og var þar talsverður snjór á jörð í mánaðarlok. Enginn desember í Reykjavík hefur eins lágt mánaðarhámark í hita, aðeins 2,4 stig sem mældist á gamlársdag. Sama dag mældist mesti hiti á landinu, 7,7 stig í Vestmannaeyjum. Kaldast varð upp úr miðjum mánuði og fór frostið þá í -25,1 stig í Möðrudal. Jólin voru æði köld, átta til tíu stiga frost í Reykjavík á jóladag en fór í þrettán stig næstu nótt. Oft snjóaði í mánuðinum í öllum landshlutum. Mikill snjór var í Skaftafellssýslum að sögn Þjóðólfs á aðfangadag. Þann 20. fórust þrír menn í snjóflóði í Önundarfirði og einn maður daginn eftir í Glerárdal. Úrkoman í heild var aðeins um helmingur meðalúrkomu. Hæð var oftast yfir Grænlandi en lægðir milli Íslands og Noregs. Kuldatunga lá norðan úr höfum yfir Ísland. Jónassen lýsti tíðinni í nokkrum blöðum Ísafoldar:
Framan af þessari viku var talsverð óstilling á veðrinu. Optast við Sv. með hryðjum og opt hvass með brimróti; h. 4. var fyrst hæg austanátt, eptir hádegi var kominn blindbylur og að kveldi genginn til útsuðurs (Sv) eptir stutta rigningu af landsuðii (Sa) og farinn að frysta. Aðfaranótt h. 5. bálhvass á útsunnan me3 miklum brimhroða, gekk svo til norðanáttar h. 6. med hægð og hreinviðri með talsverðu frosti. Í dag 7. hægur austan-kaldí i morgun, dimmur ; eptir bádegi bjartur, landnorðan (na) hægur. Lítill snjór á jörðu. Í fyrra var hjer þessa dagana mikill gaddur ; h. 7. þ. m. 1 fyrra var hjer -12 (aðfaranótt hins 7.) og -10 um hádegi; logn og fagurt veður. (8. des.) - Framan af þessari viku var talsverðnr kuldi og var hvasst noróanveður til djúpa, þótt lyngt væri hjer. Seinni part vikunnar hefir verið hæg austanátt og frostlitið, opiast bjart og heiðskírt veður. Í dag 14. fegursta veður, logn. (15. des.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer logn, þangað til að hann gekk til norðurs síðari part dags h. 16 var hvass um tíma. en gekk strax ofan og varð úr því austanátt með nokkurri ofanhríð ; gekk síðan til útsuðurs (Sv) með brimhroða og byljum h. 20. eptir að hann hafði verið á landsunnan litla stund með talsverðn rigningu. Hjer fjell nokkur snjór um kveldið h. 19. sem að mestu leyti er horfinn. Í dag 21. vestan úts. hroði, hvass í jeljunum. Um síðustu jól var frostlaust veður hjer og alveg auð jörö; aðfangadaginn var húðarigning á austan ; jóladaginn logn og fagurt veður. (22. des.) - Þessa vikuna hefir verið hægð á veðri, optast við norðanátt, hæga. eða austanátt; stundum rjett að kalla logn; miðvikudaginn h. 22. fjell hjer nokkur snjór og síðan hefir við og við snjóað, svo hjer er nú sem stendur talsverður snjór á jörðu, viðlíka mikill og í fyrra um þetta leyti. Í dag 28. logn og fagurt veður. (29. des.) - Fyrstu daga vikunnar var sunnnátt með rigningu; síðan gekk hann til útsuðurs (sv), hægur með talsverðri snjókomu; h. 3. kom norðanrátt, þó eigi mjög hvöss, og helzt hún við enn; síðasta dag umliðins árs gerði hjer aftakaveður af suðri; var hjer varla stætt húsa á milli um kl. 6-7 gamalárskvöld; veðrið gekk ofan nokkru fyrir miðnætti, og gekk þá til útsuðurs. Í dag (4.) norðan, nokkuð hvass, dimmur upp yfir. Snjór hjer nú talsverður. (5. jan. 1887).
1887 (-3,9) Þessi desember var örlítið mildari í heild en árið áður. Enginn desember hefur þó verið eins kaldur á Möðrudal, -11,5 stig, en athuganir þar hafa verið nokkuð stopular í áranna rás. Er þetta lægsti meðalhiti sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í byggð í desember. Norðlægar áttir voru auðvitað algengar en það kom bæði nokkur hlákukafli og óvenju hart kuldakast í stað jafnari kulda eins og voru 1886. Fyrstu dagana voru norðankuldar en þó ekki afskaplegir. Suðvestanlands var stundum útsynningur með éljum. Gríðarlegt kuldakast um allt land stóð hins vegar yfir dagana 7. til 11. Mesta frost mældist -28,2 stig í Möðrudal en -22,0 á Borðeyri, -22,4 á Blönduósi, -20,4 á Akureyri, -23,3 á Núpufelli í Eyjafjarðardal, -21,2 Raufarhöfn, -21,4 á Stórinúpi -22,1 á Eyrarbakki og -20,9 stig á Teigarhorni. Er þetta með mestu kuldum sem komið hafa í desember. Aldrei hefur mælst meira frost í þeim mánuði á Blönduósi, Raufarhöfn og Teigarhorni. Eftir kuldakastið mildaðist mikið og syðst á landinu var frostlaust dagana 13.-16. en loks hlánaði almennilega með suðvestanátt þ. 21. og stóð í viku. Milt var því um jólin og rigningar. Úrkoma að morgni aðfangadags var 12,2 mm í Reykjavík. Snjór var lítill í bænum þennan mánuð. Hæsti hiti mánaðarins, 7,2 stig, mældist á öðrum degi jóla í Grímsey en á jóladag voru 6,2 stig á Teigarhorni. Síðustu vikuna var mjög stillt veður en vægt frost. Úrkoman var um þrír fjórðu af meðalúrkomu en á Teigarhorni var hún þó meiri en í meðallagi. Á Eyrarbakka hefur hins vegar aldrei mælst jafn lítil úrkoma í desember, 15,6 mm. Kalt var um alla Evrópu en sérstaklega á norðanverðum Norðurlöndum. Jónassen skrifaði um veðurfar mánaðarins í nokkrum blöðum Ísafoldar:
Talsverð ókyrrð hefir veríð á veðri þessa vikuna; hann hefir snúizt úr einni átt í aðra á sama sólarhringnum; við og við hefir hann verið við norðanátt. 4. var hjer hvasst austanveður og dreif þá niður talsverðan snjó; 5. hægur á norðan dimmur, og í dag 6. hvass á norðan og bjartur í lopti. (7. des.) - Framan af þessari viku var optast veðurátt við norður, hæg hjer, hvass til djúpa, með miklu frosti, gekk síðan til austurs, rokhvass síðari part dags 12. Síðan við hæga austanátt og í dag 13. frostlaust veður hægt á austan. Snjór hefir eigi fallið hjer nema að morgni h. 10., er hann gerði austanbyl um tíma. (14. des.) - Optast hefir verið hægð mikil a veðri hina umliðna viku ; síðari partinn var hann.við norðanátt en hæga ; í dag 20. logn, dimmur i lopti og snjó-. ýringur úr honum öðru hvoru. (21. des.) - Alla viðuna hefir verið blæja logn og allan fyrri partinn þokumugga dag og nótt og við og við nokkur rigning; siðustu dagana hefir verið hið fegursta og bjartasta veður með vægu frosti. Hjer er svo að kalla auð jörð. Í dag 27. blæja logn og heiðskírt lopt. Í sjónum talsverð harka. (28. des.) - Þokumuggan og lognið, sem var hjer alla fyrri vikuna, hjelzt við 3 dagana framan af þessari viku ; að morgni h. 31. gekk hann til norðurs og gjörði brátt ákaflegt norðanrok, sem hefir haldizt til aðfaranóttar h. 3. er hann gekk til austur-landnorðurs hjer innfjarðar (hvass enn á norðan til djúpa). Sjóharkan mikil og er nú sem stendur íshroði út á miðja skipalegu. Jörð hjer svo að kalla alauð. (4. jan. 1888).
Þann 28. hélt Bríet Bjarnhérðinsdóttir fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu og var það fyrsti opinberi fyrirlestur sem kona hélt hér á landi. Óperan Óþello eftir Verdi var frumflutt þann annan í Napólí.
1909 (-3,6) Fyrir sunnan var tíð talin hagstæð en fyrir norðan snjóaði allmikið. Fyrstu vikuna var norðanátt með snjókomu og kulda fyrir norðan. Hæð var þá yfir Grænlandi en víðáttumikil lægðasvæði fyrir austan land. Þann 9. fórust tveir menn í snjóflóði í Skriðuvíkurgili milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar eystra. Nokkru fyrr urðu skemmdir á símalínum á austurlandi vegna snjóflóða. Það brá til suðaustanáttar þann 11. með mikilli úrkomu á austfjörðum og síðan til sunnanáttar með talsverðum hlýindum. Komst hitinn í 13,3 stig á Seyðisfirði þ. 13. en daginn eftir í 10 stig á Teigarhorni og daginn þar á eftir einnig í 10 stig í Vestmannaeyjum. Vindur snérist til norðvestanáttar þ. 16 og síðan til norðanáttar sem hélst að mestu næstum því til mánaðarloka. Var þá aftur hæð yfir Grænlandi en lægðir við Noreg. Eftir þann 16. hlánaði ekki víðast hvar fyrr en þ. 29. nema sunnarlega á landinu. Syðra snjóaði á jóladag. Kaldast varð -27,0 stig í Möðrudal og -26,4 Grímsstöðum. Á Akureyri fór frostið í tuttugu stig. Úrkoman var minni en þrír fjórðu af meðalúrkomu og tiltölulega minnst á suðurlandi.
Tónskáldið Gústav Mahler lauk í þessum mánuði við verk sitt Das Lied von der Erde (Ljóð jarðar) fyrir einsöngvara og hljómsveit.
1917 (-3,6) Á Vestfjörðum er þetta kaldasti desember sem þar hefur mælst, frá 1898, -6,3 stig á Bolungarvíkursvæðinu, hálfu öðru stigi kaldara en 1973. Loftþrýstingur mánaðarins var 1016,2 hPa í Stykkishólmi og í desember hefur hann aðeins verið hærri árið 1878. Þessi mánuður var kannski eins konar upptaktur fyrir frostaveturinn mikla 1918. Hann er sjálfur sjöundi kaldasti desember eftir 1865 og í honum mældist mesta frost sem mælst hefur á landinu í desember og einnig mesti loftþrýstingur. Það var 1054,0 hPa í Stykkishólmi að morgni þess sextánda. Þá var þar logn og léttskýjað en -18 stiga frost. Á sama tíma var stíf norðanátt og 15 stiga frost á Teigarhorni í léttskýjuðu veðri. Á Akureyri mældist frostið daginn eftir -22,0 stig sem er desembermet en á Möðruvöllum í Hörgárdal var frostið -22,3 stig. Ekki voru lágmarksmælingar í Reykjavík en Vísir segir þann 17. að frostið þar hafi komist í 19 stig í bænum, 22 á Vífilsstöðum en yfir 20 stig á Kleppi. Hæð hafði byggst yfir Grænlandi í nokkra daga með norðanátt á Íslandi og síðan teygt sig til Íslands. Hæðin varð samt mjög skammlíf því strax þ. 17. fór lægð norðaustur um Grænlandssund og varð þá víða frostlaust. Mánuðurinn hófst raunar með norðanátt og stórhríð fyrir norðan en síðan skiptust á austan eða norðanátt, litlar suðvestanhlákur og breytilegt veður þar til hæðin mikla lét til sín taka. Inni í þessu gerðist það, í kjölfar norðanáttar í lok fyrstu viku mánaðarins, að minniháttar hæðarhryggur byggðist upp yfir landinu. Þann 9. var komið logn á hálendinu norðaustanlands og bjart um tíma og um kvöldið mældist í Möðrudal mesta frost sem mælst hefur á Íslandi í desember, -34,5 stig en -30,0 á Grímsstöðum. Ekki stóð þessi kuldi lengi því daginn eftir hlánaði síðdegis á Fjöllunum í austanátt og snjókomu sem var drjúg þennan mánuð fyrir norðan. Í Húnavatns-og Skagafjarðarsýslum var sagður meiri snjór en menn mundu, að sögn Vísis 14. desember. Eftir stóru hæðabóluna þ. 16. varð hrunið óhjákvæmilegt og voru nokkrir umhleypingar til jóla. Á jólunum sjálfum var hins vegar suðvestan hláka um land allt á láglendi. Komst hitinn í 10,2 stig á Teigarhorni bæði á jóladag og gamlársdag. Ísafold skrifar þ 29.: ,,Með jólunum gerði mikla hláku, sem haldist hefir óslitin að heita má síðan, til mikillar hagsældar, jafnt búand sem bæjarmönnum og er hlákan sögð ná um land allt.'' Vísir sagði að rauð jól hafi verið í höfuðstaðnum og grennd. Víðast um landið var orðið snjólaust eða snjólitið um áramót ef marka má dagblöðin. Hafís var talsverður fyrir norðurlandi þennan mánuð og t.d. var mikill ís á Ísafjarðardjúpi í árslok en ísinn teygði sig alveg að Melrakkasléttu. Hálofthæð var suðvestur af landinu í þessum mánuði og vestanvindar algengastir á landinu við jörð.
Finnar lýstu yfir sjálfstæði þ. 8. frá Rússum en þ. 16. sömdu Rússar frið við Þjóðverja. Í Nýja biói var verið að sýna fyrstu kvikmyndina sem var með íslenskum texta.
1916 (-3,3) Norðaustan eða norðanátt var næstum því einráð í þessum mánuði en dagana 4. -5. var þó sunnan og suðvestanátt með vægum hlýindum. Komst hitinn í 8,6 stig á Seyðisfirði þ. 5. Þann dag rigndi hressilega í Vestmannaeyjum og mældist þar úrkoman 39 mm næsta morgun. Hæð var alla jafna yfir Grænlandi en lægðasvæði milli Íslands og Skotlands. Mildast var á suðausturlandi þar sem skemmst var í mildara loft en kaldast á Vestfjörðum. Úrkoma á landinu var þó minni en hálf meðalúrkoma í mánuðinum og sérstaklega var hún lítil sunnanlands og vestan. Ekki voru úrkomumælingar í Reykjavík en á Vífilsstöðum voru aðeins fjórir úrkomudagar. Hins vegar var úrkoman vel yfir meðallagi allmargra ára á þessu skeiði á Möðruvöllum í Hörgárdal, 80 mm. Í Vestmannaeyjum var oft bjart yfir og úrkoman var er sú þriðja minnsta í desember. Sólskinsstundir voru þó einungis 8 á Vífilsstöðum. Sérlega kalt var dagana 9. til. 12. og aftur 20. til 22. Ofsarok var í Reykjavík þann 11. Síðdegis þ. 19. fór að hvessa meira í norðanáttinni en verið hafði og var víða hvasst næstu daga með hríðarveðri. Frostið í Möðrudal fór í -22,0 stig en á Grímsstöðum í 19,0 stig þ. 21. Þar snjóaði eitthvað alla daga mánaðarins. Í árslok voru stillur í höfuðstaðnum.
Framsóknaraflokkurinn var stofnaður þ. 16. Átökunum við Verdun, einhveri alræmdusta orustu allra tíma, lauk þ. 18. og rússneski munkurinn Rasputin var myrtur þ. 30.
1906 (-3,1) Úrkoma í Reykjavík var 113 mm sem er drjúgt yfir meðallagi. Annars staðar var hún kringum meðalag en þó vel undir því á Teigarhorni. Stór hluti úrkomunar í Reykjavík féll á aðeins tveimur dögum, 31 mm þ. 21. og 33 mm daginn eftir. Hitinn fór þann sjötta í 10,8 stig á Seyðisfirði en 7,5 í Reykjavík. Æði var umhleypingasamt en oftast svalt eða kalt nema í fyrstu vikunni og fimm daga upp úr miðjum mánuðinum. Víða var fremur snjólítið. Mikill snjór var þó á Seyðisfirði fyrstu dagana, segir Ísafold þann 6. Og um miðjan mánuðinn (15.) kvartaði blaðið um hvassviðri síðustu vikuna í Reykjavík og sagði að snjór væri töluverður. Á Þorláksmessu skall á mikið kuldakast sem stóð sums staðar til mánaðarloka. Jólin og áramótin voru því ansi köld með hríðarveðri fyrir norðan. Fór frostið í -30,0 í Möðrudal og -21 stig á Holti í Önundarfirði en -20 í Hreppunum. ,,Alhvít jól og eftir því köld. Hvassvirði af ýmsum áttum'', segir Ísafold þann 29. Í Skagafirði og víðar fyrir norðan var mikill snjór, segir Austri á gamlársdag. Jónassen var nú kominn yfir á Þjóðólf og lýsti veðurfarinu í Reykjavík 4. janúar 1907:
Í þessum mánuði hefur verið óvenjul. kalt og snjór mikill á jörðu, Austan-gola um tíma framan af,svo logn og síðan optast útsynningur. Loptþyngdarmælir komst óvenjul. hátt, 782,3 millim. [1043 hPa]; hefur eigi komist svo hátt í mörg ár, var þá norðanátt, nokkuð hvass um tíma.
Austan-landnorðan að morgni h. 30., ofanhríð eptir hádegi og nokkuð hvass á norðan um kveldið; hægur 4 austan fyrri part dags h. 1., en gekk svo í útsuður með bleytusletting um kveldið og aðfaranótt h. 2. bálhvass 4 útsunnan með svörtum jeljum; gekk svo allt í einu til norðurs síðari part dags, rokhvass með blindbil; var svo bálhvass með ofanhríð að morgni h. 3. og hjelzt norðanveðrið með talsverðu frosti þar til hann lygndi síðari part dags h. 5. Má síðan heita að hafl verið logn. Í morgun (7.) svört þoka. (7. des.) - Hinn 7. var hjer logn með þoku; fór að snjóa síðast um kvöldið; svo logn og dimmur h. 8. með ofanhríð um kveldið. Hægur á landsunnan h. 9. með rigningu. Í morgun (10.) austan koldimmur með regni. (10. des) - Dimmur með regni að morgni h. 10. en gekk svo síðari part dags til norðurs með ofanhríð; bjartur h. 11. en hægur á norðan og sama veður h. 12. en 13. hvass á norðan með blindbyl allan fyrri part dags, koldimmur; lygndi svo rjett allt í einn um kl. 2-3 og birti upp og ýrði regn úr lopti um tíma, logn um kvöldið. Í morgun (14.) hægur á austan (ísing). (14. des) - Hægur á austan hinn 14.; rjett logn og hjart veður h. 15. þar til síðast um kveldið að gjörði hæga ofanhríð; aðfaranótt h. 16. varð snöggvast mjög kalt en var um það frostlaust um fótaferðatíma og blindbilur af austrí og stytti eigi upp fyrr en eptir miðjan dag og gekk til norðurs síðast um kveldið með vægu frosti. Í morgun (17.) hægur, dimmur, ofanhríð. (17. des.) - Hinn 17. landnorðan, hægur; hinn 18. hvass á norðan með ofanhríð en lygndi um kvöldið; logn og bjart veður h. 19., hæg austangola um kvöldið; hvass á austan og dimmur með ofanhríð um tíma h. 20. Í morgun (21.) austanátt, dimmur. Um þetta leyti í fyrra gengu hjer miklar rigningar af landsuðri, opt rokhvass; hjer var þá lítið föl á jörðu (fjell að aðfaranótt h. 19. af útsuðri). (21. des.) - Undanfarna daga hefir verið hæg austanátt með þíðu, svo snjó hefir tekið mikið. Í morguu (24.) sama veður, þíðvindi af austri, hægur. (24. des.) -Austanátt með þíðu, hefir rignt talsvert með köflum, svo að snjór er að hverfa. Í morgun (28.) landsynningur með rigningu, dimmur mjög 6 stiga hiti kl. 9 f. h. (28. des.) - Bezta veður undanfarna daga, optast austanátt, opt með regnskúrum, svo hjer er nú við það auð jörð. (4. jan. 1893)
Í þessum svala mánuði voru svokölluð Skúlamál í algleymingi. Þau snérust um Skúla Thoroddsen sýslumann á Ísafirði en Lárus H. Bjarnason var settur honum til höfuðs vegna einkennilegs máls sem upp kom vegna manndráps. En í raun voru þetta pólitískar ofsóknir á hendur Skúla sem loks var a fullu sýknaður fyrir rétti af hvers kyns embættisglöpum. Í St. Péturborg var ballettinn Hnotubrjóturinn eftir Tjækovski frumfluttur þ. 18.
Fyrir 1866 má finna nokkra mjög kalda desembermánuði. Í desember 1824 var meðalhitinn reiknaður -6,7 stig í Reykjavík. Það mun þá vera næst kaldasti desember sem mælst hefur þar. Kom hann á eftir kaldasta október og kaldasta nóvember sem hægt er að finna. Mjög snjóþungt var.
Árin 1856 og 1859 var meðalhitinn í Stykkishólmi og einnig á Akureyri svipaður og 1973. Desember 1805 var áþekkur að kulda. En árin 1809, 1810 og 1811 var desember kaldari á Akureyri en í nokkrum öðrum mældum desembermánuðum þar með meðalhita upp á -8,3 stig árið 1809 en -7,6 stig bæði hin árin. Frost voru oft mikil þessa mánuði á Akureyri, stundum yfir -20 stig, og mest -25,4 stig þ. 30. árið 1809. Þessir mánuðir virðast samt hafa verið hlýrri en desember 1880. Hann er kuldakóngurinn.
Trausti Jónsson: Upplýsingar um desember 1917; Frostaveturinn mikli 1880-1881, Náttúrufræðingurinn 1, 1977; Jón Helgason: Árbækur Reykjavíkur, Leiftur, Reykjavík, 1936; Suðurnesjaanáll Sigurðar B. Sívertsen, Rauðskinna III; Almanak hins Íslenska Þjóðvinafélags.
Í fylgiskjalinu má sjá meðalhita stöðvanna níu sem landsmeðaltalið er hér miðað við í öllum þeim mánuðum sem hér er minnst á og ýmislegt fleira. Seinna fylgiskjalið sýnir hins vegar kuldann í Reykjvik í desember 1880. Og hann var ekki fyrir neinar nútíma veimiltítur!
Hlýustu og köldustu mánuðir | Breytt 17.12.2011 kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
8.12.2011 | 19:25
Milt veðurfar!
Ekki er hægt að segja annað en að nú sé kuldakast á landinu. Í nótt fór frostið í -24,5 stig á Brú á Jökuldal en -27,8 við Upptyppinga. Í gær var einnig mjög kalt.
Ekki sé ég betur en dagshitamet í meðalhitakulda hafi verið slegið þann 5. og 6. á Akureyri. Dagshitamet á landinu í lágmarkshita var og slegið í nótt og einnig í fyrradag eins og sjá má í fylgiskjalinu. Hins ber þó að gæta að meiri kuldi, yfir -30 stig, hefur áður komið um þetta leyti þó ekki hafi hann einmitt fallið á þessa daga. Ekki hefur neins konar kuldametum verið ógnað í Reykjavík.
Eigi að síður sést nú vel hve Ísland er í raun vetrarmilt land. Alla daga í þessu kuldakasti hefur hiti þó einhvers staðar farið yfir frostmarkið. Þar munar mestu um Surtsey. Hún er ný veðurstöð og því ekki hægt að bera hana saman við fyrri kuldaköst en jafnvel á Stórhöfða, sem lengi hefur athugað, hefur hámarkshiti aðeins verið um frostmark þegar hann hefur verið lægstur þessa daga.
Maður bíður svo spenntur eftir hlákunni og rauðu jólunum!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 17.12.2011 kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.12.2011 | 11:56
Góð spurning eða vond
Í nótt varð frostið á Neslandatanga í Mývatni -27,3 stig og veit ég ekki betur en það sé dagshitamet fyrir kulda á landinu frá a.m.k. 1949. Einnig var meðalhitinn á Akureyri í gær sá lægsti sem komið hefur þennan dag frá sama tíma.
Sjá hið svellandi svala fylgiskjal!
Var ég ekki að segja það fyrir nokkrum dögum að við fengjum nægan kulda á næstunni?! Og enn spái ég og spái ég: það munu koma enn meiri fimbulkuldar áður en jörð sekkur í sæ og auðn og myrkur mun leggjast yfir veröldina.
Og vel að merkja: Hvar í andskotanum eru þessi svonefndu gróðurhúsaáhrif!!??
(Var hann ekki góður þessi?).
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 8.12.2011 kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.12.2011 | 19:45
Kuldar
Jæja, þá er jólamánuðurinn runninn upp, hvítur og kaldur, eins og menn vilja víst hafa hann.
Og menn munu fá nóg af kulda á næstunni!
Fylgiskjalið fylgist með.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 6.12.2011 kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006